Hæstiréttur íslands
Mál nr. 100/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Málsástæða
- Res Judicata
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 2. apríl 2004. |
|
Nr. 100/2004. |
Garðar Björgvinsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Sigfúsi Guðmundssyni (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Málsástæður. Res Judicata. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G var vísað frá dómi á þeim grundvelli að hann hafi látið undir höfðu leggjast að halda málsástæðum sínum fram í fyrra máli sem dæmt var í Hæstarétti 4. febrúar 1999. Var talið að meginregla 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála girti fyrir að G gæti byggt málatilbúnað sinn í málinu á þessum málsástæðum, enda andstætt þeirri reglu ef komast mætti hjá henni með nýrri málssókn. Breytti engu þótt G hefði kosið að haga kröfugerð sinni í þessu máli á annan hátt en í hinu fyrra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. mars sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 13. febrúar 2004, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst jafnframt kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að sóknaraðili og lögmaður hans verði dæmdir til að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til álita sú krafa hans að lögmanni sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað í héraði eða að málskostnaður, sem sóknaraðili var dæmdur til að greiða honum, verði hækkaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði, en ekki eru efni til að fallast á kröfu um að lögmanni hans verði gert að greiða kærumálskostnað með umbjóðanda sínum.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Garðar Björgvinsson, greiði varnaraðila, Sigfúsi Guðmundssyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 13. febrúar 2004.
Mál þetta var höfðað 13. október 2003 og tekið til úrskurðar 28. janúar 2004. Stefnandi er Garðar Björgvinsson, Herjólfsgötu 18 í Hafnarfirði, en stefndi er Sigfús Guðmundsson, Kjartansgötu 11 í Borgarnesi.
Stefnandi hefur höfðað málið til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir með því að hafa 22. mars 1996 ritað undir afsal til stefnda fyrir bátnum Bjarma MB 25, skipaskrárnúmer 2251. Til vara krefst stefnandi þess að afsalið verð ógilt. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað með álagi. Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, auk þess sem stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Með úrskurði þessum er tekin til úrlausnar frávísunarkrafa stefnda. Við munnlegan flutning um þann þátt málins gerði stefndi einnig þá kröfu að lögmanni stefnanda, Steingrími Þormóðssyni, hrl., yrði gert að greiða malskostnað auk álags með umbjóðanda sínum.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í málinu.
I.
Með kaupsamningi 20. mars 1995 keypti stefndi af stefnanda bát í smíðum, en stefnandi rak á þessum tíma bátasmiðju. Samkvæmt samningnum var kaupverð bátsins 6.830.000 krónur, en það átti að vera að fullu greitt við afhendingu bátsins 19. maí 1995.
Hinn 22. mars 1996 rituðu málsaðilar undir afsal fyrir bátnum, sem fékk nafnið Bjarmi MB 25, en þar kemur fram að stefndi hafi greitt kaupverðið að fullu auk viðbótarkostnaðar að fjárhæð 625.000 krónur vegna breytinga á reglugerðum á smíðatíma bátsins. Í afsalinu gerir stefndi þó fyrirvara við skyldu sína til að greiða þann kostnað.
Í kjölfar þess að afsal var gefið út fyrir bátnum höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda 7. febrúar 1997, en í því máli gerði hann þá kröfu að stefnandi yrði dæmdur til að endurgreiða sér þær 625.000 krónur sem stefndi greiddi með fyrirvara við útgáfu afsals. Stefndi reisti málatilbúnað sinn á því að engar þær breytingar hefðu verið gerðar á reglugerðum sem hleypt hefðu upp kostnaði við smíði bátsins. Hann hefði hins vegar verið nauðbeygður til að inna þessa greiðslu af hendi til að fá afsal fyrir bátnum til að geta tekið kauptilboði, sem honum hafði borist í bátinn. Þessu til viðbótar krafðist stefndi þess að stefnanda yrði gert að greiða sér útlagðan kostnað að fjárhæð 176.373 krónur vegna vanefnda stefnanda við að ganga frá bátnum í samræmi við samning aðila og 670.790 krónur í bætur fyrir tjón vegna afhendingardráttar. Samtals gerði því stefndi kröfu um að fá greiddar 1.472.163 krónur úr hendi stefnanda.
Stefnandi tók til varna í málinu og bar því meðal annars við að kaupsamningur málsaðila frá 20. mars 1995 hefði verið gerður til málamynda í því skyni að greiða fyrir að stefndi gæti aflað láns til að fjármagna kaupin. Hélt stefnandi því fram að kaupverðið hefði í raun verið allt að 8.500.000 krónur eftir kostnaði við smíði bátsins, en tilgreint kaupverð í samningi hefði verið lægra svo lánveitandi mætti ætla að hægt væri að endurselja bátinn á hærra verði. Stefnandi hefði síðan fallist á að gefa út afsal fyrir bátnum gegn viðbótargreiðslu að fjárhæð 650.000 krónur.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 23. október 1997 var stefnandi dæmdur til að greiða stefnda umræddar 625.000 krónur, sem stefndi greiddi með fyrirvara við útgáfu afsals. Var dómurinn reistur á því að gögn málsins bentu ekki til annars en að gerður hefði verið gildur skriflegur samningur um kaup bátsins 20. mars 1995 milli aðila. Hefði stefnanda hvorki með framlagningu gagna né skýrslum vitna fyrir dómi tekist að sanna fullyrðingar sínar í aðra veru. Þá þótti engu breyta þótt kaupsamningurinn hefði verið vottaður síðar af eiginkonu stefnda og mágkonu, skömmu áður en honum var þinglýst, enda væri óumdeilt að málsaðilar skrifuðu báðir undir samninginn. Var því umræddur samningur lagður til grundvallar lögskiptum aðila. Loks var fallist á að stefnanda bæri að greiða stefnda útlagðan kostnað vegna lagfæringar á bátnum að fjárhæð 176.373 krónur, en kröfu stefnda um bætur vegna afhendingardráttar var hafnað. Samtals var því stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 801.373 krónur.
Stefnandi áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar og með dómi réttarins 4. febrúar 1999 í máli nr. 432/1998 var með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að leggja yrði til grundvallar kaupsamning málsaðila 20. mars 1995 og afsal 22. mars 1996 fyrir bátnum í lögskiptum þeim sem málið reis af, svo og að stefnanda bæri að endurgreiða stefnda 625.000 krónur, sem hann greiddi með fyrirvara, þegar afsalið var gert. Hins vegar var ekki fallist á kröfu stefnda um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna lagfæringar á bátnum.
Á grundvelli Hæstaréttardómsins krafðist stefndi þess að gert yrði fjárnám hjá stefnanda. Var aðfararbeiðni stefnda tekin fyrir hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 25. maí 1999 og gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda. Í kjölfarið var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu stefnda. Í búinu fundust engar eignir og var skiptum lokið á árinu 2001 án þess að nokkuð kæmi til greiðslu upp í almennar kröfur.
II.
Stefnandi hefur höfðað mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir við sölu á bátnum Bjarma MB 25, sem hann seldi stefnda með kaupsamningi 20. mars 1995 og afsali 22. mars 1996.
Stefnandi heldur því fram að dómur Hæstaréttar frá 4. febrúar 1999 hafi verið lagður á málið án þess að öll atvik væru nægjanlega upplýst og nauðsynleg gögn lögð fyrir réttinn, auk þess sem stefndi hafi farið með rangt mál og komið fram af óheiðarleika. Stefnandi telur að þetta geti ekki valdið honum réttarspjöllum þar sem stefndi hafi beitt svikum, auk þess sem stefnandi sé ekki löglærður, en hann hafi flutt mál sitt sjálfur fyrir Hæstarétti.
Stefnandi byggir á því að hann hafi verið blekktur við útgáfu á afsali til stefnda þar sem laumað hafi verið fyrirvara um endurgreiðslu í afsalið. Telur stefnandi að hann hafi mátt treysta því að viðskipti aðila væru leidd til lykta með afsalinu, enda sé að örðum kosti ekki um eiginlegt afsal að ræða. Jafnframt heldur stefnandi því fram að stefndi geti ekki fært sér í nyt löggerning sem óheiðarlegt sé að bera fyrir sig, sbr. 33. gr. samningalaga nr. 7/1936. Auk þess sé afsalið bersýnilega ósanngjarnt gagnvart stefnanda í ljósi atvika málsins.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið heldur stefnandi því fram að stefndi hafi með saknæmum hætti valdið sér tjóni, sem hann beri bótaábyrgð á samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Telur stefnandi tjón sitt tilfinnanlegt vegna þessara viðskipta og síðan gjaldþrotaskipta í kjölfarið, sem stefndi hafi knúið fram á búi stefnanda. Með þessu hafi fótunum verið kippt undan stefnda og honum gert ókleift að afla sér lífsviðurværis, auk þeirrar hneisu og niðurlægingar sem hann hafi mátt þola.
III.
Stefndi færir þau rök fyrir frávísunarkröfu sinni að þegar hafi efnislega verð fjallað um mál þetta fyrir dómstólum. Með dómi Hæstaréttar 4. febrúar 1999 hafi stefnandi verið dæmdur til að endurgreiða stefnda 625.000 krónur, sem hann hafi ofgreitt við kaup á bátnum Bjarma MB 25. Í því máli hafi verið hafnað málsástæðu stefnanda um að kaupverð í skriflegum kaupsamningi hafi verið ákveðið til málamynda og kaupsamningur og afsal málsaðila lagt til grundvallar í lögskiptum þeirra. Þessi dómur hafi bindandi áhrif (res judicata) gagnvart málatilbúnaði stefnanda í þessu máli og því beri að vísa málinu frá dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Í því sambandi breyti engu þótt stefnandi klæði málatilbúnað sinn í búning kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu, enda liggi allt að einu til grundvallar að samningur aðila hafi verið ógildur og ólöglegur. Sú málsástæða gangi hins vegar þvert gegn dómi Hæstaréttar.
Stefndi vísar til meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði aðila. Í þeirri reglu felist að málsaðili hafi á valdi sínu að ákveða hvaða gögn verði lögð fyrir dóm, hvaða vitni leidd og hvernig staðhæfingar verði með öðru móti sannaðar. Kjósi aðila að leggja ekki fram öll tiltæk gögn verði hann sjálfur að bera hallann af því tómlæti sínu. Stefndi telur að allar þær málsástæður sem stefnandi reisi málatilbúnað sinn á hafi á einn eða annan veg verið haldið fram í fyrra máli aðila. Verði á hinn bóginn talið að stefnandi tjaldi nú til nýjum málsástæðum hefði honum verið í lófa lagið að koma þeim að í fyrra máli og fá leyst úr þeim. Þessum málsástæðum verði aftur á móti ekki komið að hér fyrir dómi, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, enda verði mál ekki höfðað aftur á hendur aðila vegna sama atviks þegar gagnaðili unir ekki málsúrslitum.
Þá heldur stefndi því fram að málatilbúnaður stefnanda fullnægi ekki skilyrðum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi krefjist viðurkenningar á bótaskyldu tjóni án þess að gera kröfu um bætur. Stefndi vefengir að stefnandi hafi í raun orðið fyrir tjóni, en í öllu falli ætti umfang tjónsins að liggja fyrir nú tæplega 9 árum eftir gerð kaupsamnings.
Varðandi varakröfu stefnanda sértaklega bendir stefndi á að allan rökstuðning fyrir þeirri kröfu skorti í málatilbúnaði stefnanda.
Samkvæmt framansögðu heldur stefndi því fram að ekki standi steinn yfir steini í málatilbúnaði stefnanda og að málssókn þessi sé að ófyrirsynju. Af þeim sökum krefst stefndi málskostnaðar með álagi og beinir þeirri kröfu jafnframt að lögmanni stefnanda, sbr. 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Við munnlegan flutning í þessum þætti málsins var því haldið fram af hálfu stefnanda að kröfur þær sem hafðar væru uppi í þessu máli hefðu ekki verið til úrlausnar í fyrra máli milli aðila, sem lauk með dómi Hæstaréttar 4. febrúar 1999. Þetta sakarefni hefði því ekki verið borið undir dóm þannig að 116. gr. laga nr. 91/1991 stæði í vegi fyrir málssókn stefnanda. Þá var því haldið fram að ekki hefði verið leyst úr ýmsum af þeim málsástæðum sem nú væri byggt á í eldra dómsmáli milli aðila.
V.
Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamál, nr. 91/1991, er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem koma að lögum í þeirra stað um þær kröfur sem dæmdar eru að efni til. Verður dæmd krafa ekki borin undir sama eða hliðsettan dómstól og ber að vísa frá dómi máli um slíka kröfu, sbr. 2. mgr. sömu greinar.
Í kjölfar þess að afsal var gefið út fyrir bátnum Bjarma MB 25 höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda og krafðist þess að fá endurgreiddar 625.000 krónur, sem hann greiddi með fyrirvara við útgáfu afsals 22. mars 1996. Einnig gerði stefndi kröfu um að fá endurgreiddan kostnað við lagfæringu á bátnum og bætur vegna afhendingardráttar. Stefnandi tók til varna í málinu og krafðist sýknu af kröfum stefnda. Mál þetta var dæmt með dómi Hæstaréttar 4. febrúar 1999 í máli nr. 432/1998 og varð niðurstaða málsins sú að stefnanda var gert að endurgreiða fyrrgreinda fjárhæð, sem greidd hafði verið með fyrirvara, en aðrar kröfur stefnda voru ekki teknar til greina.
Í máli þessu leitar stefnandi viðurkenningar dómsins á því að stefndi beri bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir við útgáfu afsals fyrir bátnum, en til vara er gerð krafa um að afsalið verði ógilt. Þessar kröfur voru ekki hafðar uppi í fyrra dómsmáli milli aðila og verður því málinu ekki vísað frá dómi samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Í umræddu máli aðila sem lauk með dómi Hæstaréttar 4. febrúar 1999 bar stefnandi því við að umsamið kaupverð bátsins hefði verið ákveðið lægra til málamynda í kaupsamningi aðila 20. mars 1995. Hér fyrir dómi hefur stefnandi teflt fram frekari málsástæðum gegn gildi samnings aðila um kaup á bátnum. Reisir stefnandi málatilbúnað sinn á því að hann hafi verið blekktur við útgáfu afsals fyrir bátnum, auk þess sem hann ber fyrir sig almennar ógildingarreglur samningalaga nr. 7/1936. Ef málsástæðum þessum hefði verið haldið fram í fyrra máli, og þær eiga við rök að styðjast, hefðu þær að réttu lagi leitt til sýknu stefnanda af kröfum stefnda. Með því að láta undir höfuð leggjast með að halda þessum málsástæðum fram í fyrra máli verður talið að meginregla 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 girði fyrir að stefnandi geti byggt málatilbúnað sinn í þessu máli á greindum málsástæðum, enda væri andstætt þeirri reglu ef komast mætti hjá henni með nýrri málssókn. Breytir engu í því tilliti þótt stefnandi hafi vegna sömu lögskipta og reyndi á í fyrra máli kosið að haga kröfugerð sinni í þessu máli þannig að krafist sé viðurkenningar á bótaskyldu eða ógildingar á afsali stefnanda.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður máli þessu vísað frá dómi.
Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað svo sem í úrskurðarorði greinir. Verður hvorki talið að næg efni séu til að dæma álag á málskostnað né að gera lögmanni stefnanda að greiða málskostnað með umbjóðanda sínum. Í því sambandi skiptir ekki máli þótt líkur bendi til að stefnandi sé ógjaldfær, svo sem haldið var fram við munnlegan flutning málsins. Af því tilefni hefði stefndi hins vegar getið gert kröfu um málskostnaðartryggingu, sbr. 133. gr. laga nr. 91/1991.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Garðar Björgvinsson, greiði stefnda, Sigfúsi Guðmundssyni, 200.000 krónur í málskostnað.