Hæstiréttur íslands

Mál nr. 114/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi


                                     

Miðvikudaginn 22. febrúar 2012.

Nr. 114/2012.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. febrúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. febrúar 2012 klukkan 15 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst aðallega þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. mars 2012, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili var handtekinn laust eftir miðnætti 11. febrúar 2012. Hann var yfirheyrður af lögreglu að morgni þann dag og látinn laus að því loknu. Varnaraðili var yfirheyrður öðru sinni hjá lögreglu síðdegis næsta dag og sleppt við svo búið. Hann var síðan handtekinn 16. sama mánaðar, leiddur fyrir dómara næsta dag og í framhaldi af því úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna í samræmi við kröfu sóknaraðila, þó þannig að gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími en krafist var. Varnaraðili hefur játað hjá lögreglu að hafa ráðist á brotaþola greint sinn. Kveðst hann hafa verið einn að verki og benda gögn málsins ekki til annars. Þá hefur ítarleg athugun átt sér stað á vettvangi hins ætlaða brots.

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hann hafi smám saman gert sér grein fyrir alvarleika árásarinnar, hve áverkar brotaþola séu miklir og málið nú rannsakað með tilliti til þess að um sé að ræða tilraun til manndráps. Þrátt fyrir þessa skýringu er krafa sóknaraðila eingöngu reist á a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þar sem mælt er fyrir um heimild til gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en ekki á þeim grunni að brotið sé þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt að úrskurða í gæsluvarðhald sakborning, sem er undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og ætla má að hann muni torvelda rannsókn máls, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Gögn málsins bera með sér að rannsókn sé langt á veg komin. Samkvæmt því og þar sem sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að fyrrgreind lagaskilyrði um rannsóknarhagsmuni séu uppfyllt í máli þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. febrúar 2012.

Mál þetta barst dóminum fyrr í dag, með bréfi sýslumannsins á Akureyri, og var það þegar tekið til úrskurðar.

Krafa sýslumannsins á Akureyri er sú, að X, kt. [...], [...], [...], verði úrskurðaður í gæsluvarðhald í 14 daga eða til fimmtudagsins 1. mars n.k. Jafnframt verði kærða gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur.

Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess aðallega að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er. Loks andmælir kærði kröfu um einangrun

Í greinargerð sýslumanns segir að lögreglan á Akureyri rannsaki nú tilraun til manndráps kærða, X, á A, sem fæddur er 1941, aðfaranótt 11. febrúar sl.

Kveður sýslumaður málsatvik þau að föstudaginn 10. febrúar sl., eða aðfaranótt laugardagsins 11. febrúar, hafi kærði, X ruðst inn á heimili brotaþola með því að brjóta stofuglugga í húsi hans með steinhnullungi. Í framhaldi af því hafi kærði ráðist margsinnis á A með hnefum og sé talið að hann hafi við verknaðinn m.a. notað munnhörpu sem eins konar hnúajárn. Þá sé það álit rannsóknaaðila að kærði hafi einnig sparkað ítrekað í brotaþola, þ. á m. á höfði hans.

Af hálfu sýslumanns er vísað til þess að læknar hafi metið brotaþola í lífshættu um tíma eftir árásina, en brotaþoli hafi til þessa ekki verið í neinu ástandi til að gefa skýrslu um atvik máls. Til þess er vísað að brotaþoli hafi hlotið heilablæðingu og mar/bjúg á heila, en að auki hafi hann kinnbeins-, nef- og rifbrotnað og að auki hlotið fjölmarga aðra áverka á líkamann.

Í greinargerð sýslumanns segir að kærði hafi verið handtekinn nærri vettvangi umrædda nótt og hafi hann þá játað að hafa farið inn á heimili brotaþola, en ekki lýst atvikum nánar við skýrslutöku þá um morguninn. Hafi honum verið sleppt að lokinni skýrslutöku. Þá segir að rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri hafi hafið rannsókn laugardagskvöldið 11. febrúar og hafi kærði þá á ný verið yfirheyrður um málavexti. Við þá skýrslutöku hafi kærði játað húsbrot á heimili brotaþola og jafnframt að hann hafi þar kýlt og sparkað í brotaþola. Hafi kærða verið sleppt lausum á ný eftir skýrslutökuna, en í framhaldi af því hafi alvarleiki málsins komið enn betur í ljós. Vegna þessa, áverka brotaþolans og allra atvika en einnig þeirra aðferða sem lögregla telji að ákærði hafi viðhaft sé nú verið að rannsaka málið sem tilraun til manndráps.

Í greinargerð sýslumanns er til þess vísað að fram hafi komið við rannsókn að tilefni árásar kærða á brotaþola geti tengst sögusögnum um alvarleg brot fyrir mörgum áratugum.

Sýslumaður staðhæfir að þrátt fyrir að nokkuð sé liðið frá ætlaðri árás kærða sé rannsókn málsins enn á frumstigi. Framundan sé umtalsverð rannsóknarvinna við yfirheyrslur, en enn hafi ekki verið unnt að yfirheyra brotaþola vegna alvarlegs ástands hans, en ekki sé ljóst hvernig honum farnist. Áréttað er að yfirheyra þurfi kærða nánar um hina ætluðu árás og um tilefni og aðdraganda hennar. Að auki eigi eftir að yfirheyra vitni sem höfðu samskipti við kærða fyrir árásina og ljúka rannsókn á vettvangi, m.a. á þeim munum sem þar fundust og lögregla ætlar að hafi verið notaðir við árásina.

Af hálfu sýslumanns er til þess vísað að 15. febrúar sl. hafi kærði verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 12 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás.

Sýslumaður kveðst byggja kröfu sína á a lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 svo og b lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, en um ætluð brot er sagt að þau geti varðað við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Niðurstaða.

Fyrir dóminn hafa verið lagðar fram lögregluskýrslur og önnur gögn, en þ.á m. er læknisvottorð, dagsett 14. febrúar sl. Gögn þessi eru í aðalatriðum í samræmi við framangreinda málavaxtalýsingu.

Í rannsóknargögnum kemur m.a. fram að kærði hafi verið handtekinn laust eftir miðnætti þann 11. febrúar sl. Liggur og fyrir að kærði hefur við yfirheyrslur lögreglu játað að hafa brotist inn á heimili brotaþola og í framhaldi af því gengið á skokk á honum. Kærði hefur þannig lýst atvikum að nokkru, síðast í skýrslu fyrr í morgun, en jafnframt borið við minnisleysi um nánari atvik.

Að ofangreindu virtu verður á það fallist að rannsókn málsins sé enn skammt á veg komin, en m.a. hefur enn ekki verið unnt að yfirheyra brotaþola um málsatvik. Í ljósi þessa og að öðru leyti til ofangreinds rökstuðnings þykja efni til þess að fallast á kröfu sýslumanns og úrskurða kærða í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þykir með vísan til þessa og röksemda sýslumanns að öðru leyti rétt að fallast á kröfu hans með vísan a-liðar, 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.

Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. febrúar n.k. kl. 15:00. Þá er fallist á, að meðan á gæsluvarðhaldsvist kærða stendur skuli hann látinn vera í einrúmi, sbr. b-lið 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærði, X, kt. [...], [...], [...] sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. febrúar n.k. kl. 15:00. Skal vistin vera í einrúmi, sbr. b-lið 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.