Hæstiréttur íslands

Mál nr. 329/2003


Lykilorð

  • Börn
  • Fóstur


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. mars 2004.

Nr. 329/2003.

Z

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

D

(Andri Árnason hrl.)

og gagnsök

 

Börn. Fóstur.

Sveitarfélagið D greiddi Z fósturlaun vegna vistunar dótturdóttur hennar, X, fyrir tímabilið nóvember 1997 til maí 1998. Z undi ekki þeirri niðurstöðu og höfðaði mál á hendur D til greiðslu fósturlauna vegna vistunar X á tímabilinu september 1998 til loka maí 1999. Að atvikum málsins virtum þótti Z eiga rétt til umkrafinna fósturlauna að því marki sem krafan var ekki fyrnd.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. ágúst 2003. Krefst hún þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 673.710 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. september 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 22. október 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi greiddi aðaláfrýjanda síðla árs 1999 fósturlaun vegna vistunar dótturdóttur hennar X fyrir tímabilið frá nóvember 1997 til og með maí 1998. Í máli þessu krefur aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda um fósturlaun vegna vistunar stúlkunnar á tímabilinu frá september 1998 til loka maí 1999. Málavöxtum er nánar lýst í héraðsómi.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi ritaði formaður félagsmálanefndar gagnáfrýjanda bréf til aðaláfrýjanda 16. nóvember 1999 þar sem talið var að fyrri ráðstöfun stúlkunnar í fóstur til ömmu sinnar hafi verið tímabundin og lokið vorið 1998. Var  hafnað ósk aðaláfrýjanda um að litið yrði svo á að stúlkan hafi verið í fóstri hjá henni frá hausti 1998 til vors 1999 og að hún ætti rétt til fósturlauna fyrir það tímabil. Í lok þessa bréfs var aðaláfrýjanda bent á að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 264/1995 um barnaverndarstofu geti aðilar skotið til úrskurðar barnaverndarstofu ákvörðun barnaverndarnefndar, sem ekki væri unnt að skjóta til úrskurðar barnaverndarráðs samkvæmt 1. mgr. 49. gr. þágildandi laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna. Aðaláfrýjandi ritaði barnaverndarstofu bréf 17. desember 1999 og óskaði eftir því að hnekkt yrði ákvörðun félagsmálanefndar. Bar barnaverndarstofu eins og málum var háttað að taka afstöðu til þess hvort stofnunin væri bær til að úrskurða í málinu og leggja á það úrskurð teldi hún svo vera. Það gerði barnaverndarstofa ekki en fjallaði þess í stað um málið í bréfi til aðaláfrýjanda 8. mars 2000. Verða engin réttaráhrif varðandi ágreining aðila tengd við það bréf.

Fyrir Hæstarétti hélt gagnáfrýjandi því fram að vistun stúlkunnar hjá ömmu sinni hafi í raun verið ráðstöfun foreldra á barni til vistunar utan heimilis samkvæmt VII. kafla þágildandi laga um vernd barna og ungmenna en ekki ráðstöfun hennar í fóstur samkvæmt VI. kafla laganna. Þegar af þeirri ástæðu ætti aðaláfrýjandi ekki kröfu á fósturlaunum úr hendi gagnáfrýjanda. Ekki verður á þetta fallist enda er þessi staðhæfing gagnáfrýjanda hvorki í samræmi við þær ákvarðanir, sem félagsmálanefnd gagnáfrýjanda tók um greiðslu fósturlauna til aðaláfrýjanda vegna fyrra tímabilsins né umfjöllun nefndarinnar um vistun stúlkunnar hjá ömmu sinni á seinna tímabilinu þar sem ítrekað kemur fram að fjallað var um fóstur stúlkunnar og greiðslu fósturlauna. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti, þar með talin þóknun lögmanns hans 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 3. júní 2003.

                Mál þetta var höfðað 12. febrúar 2003 og dómtekið 15. maí sama ár. Stefnandi er Z, […], en stefndi er D,[…].

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 673.710 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 73.230 krónum frá 1. september 1998 til 1. október 1998, en af 146.460 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, en af 219.690 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, en af 292.920 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1999, en af 369.078 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, en af 445.236 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, en af 521.394 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, en af 597.552 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

I.

                Í lok október 1997 fór X, þá 15 ára gömul, af heimili sínu í […] og til stefnanda, sem búsett var í […], en stefnandi er amma telpunnar. Tildrögin voru langvarandi samskiptavandi stúlkunnar við stjúpföður, en fram kemur í gögnum málsins að til átaka hafi komið milli þeirra. H, sálfræðingur hjá Skólaskrifstofu […], ræddi við X 30. október 1997 og þvertók telpan fyrir að snúa aftur heim til móður og stjúpföður. Einnig lýsti stúlkan samskiptavanda sínum við stjúpföður, en hún taldi hann strangan og óréttlátan í sinn garð.

H vísaði máli X til félagsmálanefndar D, sem fer með störf barnaverndarnefndar, sbr. 2. mgr. 6. gr. þágildandi laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992. Fjallað var um málefni stúlkunnar á fundum félagsmálanefndar 30. og 31. október 1997. Á síðari fundinum var bókað að orðið hefði að samkomulagi milli móður telpunnar, formanns nefndarinnar og H að stúlkan yrði hjá stefnanda fram til vors 1998 og færi í skóla í […]. Einnig var bókað að fram hefði komið í viðtali formanns nefndarinnar við móður telpunnar að hún og stjúpfaðir ættu í verulegum vanda við uppeldi barna sinna og þá ekki eingöngu varðandi X heldur einnig yngri dætur.

Á fundi félagmálanefndar 10. desember 1997 var bókað að H hefði verið fengin til að fylgjast með X og að telpan yrði í viðtölum hjá henni. Einnig var ákveðið að móðir stúlkunnar og stjúpfaðir færu í viðtöl hjá sálfræðingi á […] til að aðstoða þau við að mynda aftur samband við barnið og veita foreldrum ráðgjöf við uppeldið. Var samþykkt að greiða fyrir 4-5 viðtöl hjá sálfræðingnum.

X dvaldi hjá stefnanda til vors 1998, en ekki var gerður formlegur samningur við um vistunina, hvorki við foreldra né stefnanda. Að loknum skóla fór stúlkan til afa síns í […] og starfaði þar í […]. Um haustið fór hún aftur til stefnanda, sem var flutt til Reykjavíkur, og hóf nám í […]skólanum. Hún dvaldi síðan hjá stefnanda fram á vorið 1999, en þá um sumarið var hún í […]. Um haustið snéri hún aftur til stefnanda og bjó hjá henni þar til hún fór að búa sjálf.

Á fundi félagsmálanefndar í júní 1998 var bókað að H, sálfræðingur, hefði veitt stefnanda og X stuðning og aðstoð þá um veturinn. Foreldrar hefðu jafnframt verið í viðtölum hjá sálfræðingi. Í bókun nefndarinnar kom síðan fram að samskiptin þá um vorið væru orðin nokkuð góð, X kæmi í heimsóknir til fjölskyldunnar og virtist í ágætu jafnvægi. Hún hyggðist vinna í […] um sumarið og stefna á nám um haustið. Í ljósi þessa taldi félagsmálanefnd ekki ástæðu til að fylgjast frekar með málinu. Foreldrum var síðan tilkynnt um þá ákvörðun nefndarinnar með bréfi 15. júlí 1998.

                Næst var málið tekið fyrir á fundi félagsmálanefndar 27. ágúst 1998. Var þá bókað að stefnandi hefði í símtali við formann nefndarinnar lýst yfir óánægju með lyktir málsins frá því fyrr um sumarið vegna ástands stúlkunnar. Einnig var bókað að stefnandi vildi vista stúlkuna áfram á vegum nefndarinnar, auk þess sem hún hefði andmælt því að hvorki hefði verið gerður við sig vistunarsamningur né greiðslur inntar af hendi fyrir vistina. Loks var færð til bókar sú ákvörðun nefndarinnar að fá félagsráðgjafa til að „kanna málið og ganga frá vistunarsamningi“.

                Í samræmi við bókun félagsmálanefndar var K, félagsráðgjafa, falið að fara með málið. Á fundi nefndarinnar 12. júlí 1999 var málið hins vegar tekið úr hans höndum og fengið KM, félagsráðgjafa, til að ganga frá vistunarsamningi og „kanna hvort skjólstæðingurinn [þyrfti] sálfræðiaðstoð og ljúka því máli“. KM lauk síðan vinnslu málsins af sinni hendi með greinargerð til félagsmálanefndar 19. ágúst 1999. Þar kom meðal annars fram að sú ráðstöfun að vista X hjá stefnanda haustið 1997 hefði borið mjög góðan árangur. Stúlkan hefði þroskast, hafið nám og verið sér og sínum til sóma.

                Með bréfi séra Ó, formanns félagsmálanefndar, 16. nóvember 1999 til stefnanda var vísað til þess að ekki hefði staðið til að stúlkan dveldi hjá henni á vegum nefndarinnar nema til vors 1998. Stefnanda hefði verið þetta ljóst og því taldi formaðurinn að telpan hefði dvalið hjá stefnanda á vegum foreldra vegna náms í Reykjavík. Í samræmi við þetta var fallist á að greiða stefnanda fyrir fóstur stúlkunnar frá 31. október 1997 til 31. maí 1998. Varðandi fjárhæð greiðslunnar var vísað til þess að nágrannasveitarfélög greiddu í álíka málum sexfalt meðlag eða það sama og greitt væri til vistforeldra í sveit, en sú greiðsla næmi 2.269 krónum á sólahring. Þessi afgreiðsla formannsins var í samræmi við bókun sem gerð hafði verið á fundi félagsmálanefndar 20. september sama ár. Fyrir árslok 1999 gerði stefndi síðan upp við stefnanda fyrir fóstur stúlkuna í sjö mánuði og nam fjárhæð greiðslunnar 503.708 krónum.

                Stefnandi vildi ekki una þessari niðurstöðu og skaut málinu til barnaverndarstofu með bréfi 17. desember 1999. Í því erindi vísaði stefnandi meðal annars til þess að láðst hefði að láta hana vita að fóstri stúlkunnar hjá henni hefði lokið vorið 1998. Eins og málið snéri við stefnanda hefði það verið í vinnslu allan þennan tíma og stefnt hefði verið að því að hún fengi forræði yfir telpunni. Í þeim tilgangi hefði KE haft samband við hana og aflað gagna, auk þess sem hún hefði farið í ítarlegt viðtal á Félagsmálastofnun Reykjavíkur og að gerð hefði verið úttekt á heimili hennar. Í málinu liggur fyrir að barnaverndarstofa hafði með bréfi 17. maí 1999 metið stefnanda hæft fósturforeldri fyrir X samkvæmt 30. gr. laga, nr. 58/1992, sbr. lög nr. 22/1995.

                Með bréfi barnaverndarstofu 8. mars 2000 til stefnanda voru ýmsar athugasemdir gerðar við málsmeðferðina hjá félagsmálanefnd. Var einnig komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt á greiðslu fyrir fóstur X frá 31. október 1997 til vors 1999 að frátöldum sumarmánuðum 1998. Hins vegar tók barnaverndarstofa ekki afstöðu til fjárhæðar greiðslunnar þar sem engar samræmdar reglur væru þar að lútandi og því yrði að meta hagsmuni og þarfir barna í hverju tilviki fyrir sig.

                Hinn 6. júní 2000 ritaði sveitarstjóri D stefnanda bréf og vísaði til þess að honum hefði á fundi félagsmálanefndar 21. mars sama ár verið falið uppgjör við stefnanda. Í erindinu kom fram að sveitarstjórinn væri að fara yfir gögn málsins og myndi að því loknu óska eftir fundi með stefnanda til að leggja fram tillögu að lausn málsins. Með bréfi lögmanns stefnanda 12. desember 2002 var stefndi síðan krafinn um greiðslu fyrir fóstur X frá 1. september 1998 til 31. maí 1999 eða í níu mánuði. Þessu erindi svaraði lögmaður stefnda með bréfi 10. janúar 2003 þar sem kröfunni var hafnað.

II.

                Stefnandi vísar til þess að ekki hafi verið gerður skriflegur fóstursamningur vegna X við stefnanda í samræmi við 31. gr. þágildandi laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992. Í slíkum samningi hefði meðal annars átt að kveða á um fósturlaun til stefnanda, sbr. c-lið 1. mgr. sömu greinar. Stefndi hefði hins vegar ráðið starfsmann til að gera fóstursamning án þess að hann lyki verkinu. Með vísan til niðurstöðu barnaverndarstofu verði ekki talið að þessi annmarki á meðferð málsins varði stefnanda réttarspjöllum heldur verði stefndi sjálfur að bera hallann af þeirri vanrækslu sinni að ganga ekki frá formlegum fóstursamningi í samræmi við áskilnað laga. Þetta verði einnig stutt þeim rökum að mikill aðstöðumunur sé milli málsaðila, auk þess sem stefndi beri skyldur gagnvart stefnanda á grundvelli 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og hefði því átt að leiðbeina stefnanda um réttindi hennar, meðal annars til fósturlauna. Heldur stefnandi því fram að öll stjórnsýsla félagsmálanefndar hafi verið laus í reipunum og andstæð góðum stjórnsýsluháttum. Þá telur stefnandi að skyldleiki hennar við barnið breyti engu í þessu sambandi, enda algengt að skyldmenni séu fengin til að vista börn samkvæmt ákvörðun barnaverndaryfirvalda. Ef því verði komið við sé fremur talið æskilegt að vista börn meðal nákominni í stað vandalausra. 

                Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi einnig til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga. Stefnandi hafi tekið að sér barnið í fóstur og eigi rétt á hæfilegum fósturlaunum til að standa straum af kostnaði við þessa ráðstöfun. Varðandi fjárhæð fósturlauna vísar stefnandi til þess að hún hafi þegar fengið greiðslu fyrir tímabilið 31. október 1997 til 31. maí 1998 samtals að fjárhæð 503.708 krónur. Sú greiðsla hafi numið sexföldum barnalífeyri, en hann hafi á þessum tíma verið 11.736 krónur á mánuði til 1. janúar 1998, en frá þeim tíma 12.205 krónur á mánuði. Fyrir tímabilið 1. september 1998 til 31. maí 1999 sé gerð krafa um sömu laun. Fjárhæð barnalífeyris hafi verið óbreyttur til 1. janúar 1999, en frá þeim tíma hafi hann verið 12.693 krónur á mánuði.

                Stefnandi vísar til þess að með bréfi formanns félagsmálanefndar 16. nóvember 1999 hafi stefndi viðurkennt að stefnanda bæri greiðsla fósturlauna fyrir tímabilið 31. október 1997 til 31. maí 1998 og gert upp í samræmi við það. Verði því ekki talið að krafa stefnanda sé fyrnd með vísan til laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905. Við munnlegan flutning málsins var því einnig haldið fram að fyrningu kröfunnar hafi verið slitið með málskoti stefnanda til barnaverndarstofu og með bréfi sveitarstjóra Dr 6. júní 2000 um uppgjör á skuldinni við stefnanda.

III.

                Stefndi heldur því fram að um hafi verið að ræða tímabundna ákvörðun haustið 1997 þegar X fór til ömmu sinnar og dvaldi hjá henni þá um veturinn og fram á vor. Þeim sem hlut eiga að máli hafi verið ljóst að félagsmálanefnd D hafði eingöngu samþykkt þessa ráðstöfun út skólaárið í því skyni að tryggja að telpan lyki grunnskóla, enda hafi hún farið frá stefnanda um vorið án samráðs við félagsmálanefnd, sem lokið hafði afskiptum sínum af málinu. Hafi ákvörðun þar að lútandi verið tilkynnt móður og stjúpföður stúlkunnar með formlegum hætti. Þá hafi ekki verið haft samráð við stefnda þegar stúlkan snéri aftur til stefnanda um haustið 1998 og alls óljóst hvort félagsmálanefnd hefði samþykkt þá ráðstöfun, ef málefni stúlkunnar hefðu enn verið á borði nefndarinnar. Stefndi telur að þetta bendi til að stefnandi hafi litið svo á að telpan væri ekki í fóstri hjá sér frá og með vori 1998, enda hefði að öðrum kosti verið eðlilegt að gera ráð fyrir samráð við nefndina um málefni barnsins.

                Stefndi andmælir því að vinnubrögð félagsmálanefndar hafi í einhverju tilliti verið óljós. Um hafi verið að ræða tímabundna ákvörðun og hafi öllum aðilum málsins verið það ljóst. Hefði stúlkan átt að dvelja áfram hjá stefnanda hefði félagsmálanefnd þurft að taka nýja ákvörðun þar að lútandi.

                Stefndi byggir varakröfu sína um lækkun á kröfu stefnanda á því að krafa um fósturlaun á tímabilinu 1. september 1998 til 1. febrúar 1999 sé fyrnd. Þegar málið var höfðað 12. febrúar 2003 hafi verið liðin meira en fjögur ár frá gjalddaga fósturlauna fyrir það tímabil og sé þá miðað við að gjalddagi hafi verið fyrsta hvers mánaðar í samræmi við dráttarvaxtakröfu stefnanda. Í þessu sambandi mótmælir stefndi að hann hafi með einhverju móti viðurkennt kröfuna eða að fyrningu hennar hafi verið slitið á annan veg. Tekur stefndi fram að greiðsla fyrir tímabilið 31. október 1997 til 31. maí 1998 breyti engu, en hún geti fráleitt talist viðurkenning á greiðsluskyldu fyrir síðara tímabil.

                Þá byggir stefndi varakröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefnda beri að greiða sem svarar til sexföldum barnalífeyri fyrir hvern mánuð sem X dvaldi hjá stefnanda veturinn 1998 til 1999. Þó svo stefndi hafi greitt þá fjárhæð með stúlkunni veturinn áður sé alls ekki víst að stefndi hefði fallist á að greiða sömu fjárhæð með barninu, ef það hefði verið áfram í fóstri á vegum félagsmálanefndar. Í því tilliti beri að líta til framfærsluskyldu foreldra með stúlkunni og þess að stefnandi sé amma hennar. Þá verði ekki útilokað að haft hafi áhrif við ákvörðun fósturlauna veturinn 1997 til 1998 að nauðsyn bar til að tryggja stúlkunni skólavist til að ljúka grunnskóla. Alls ekki sé víst að þörf á vistun stúlkunnar hjá stefnanda hafi verið jafn rík haustið 1998 og því kynni að hafa verið horft til þess við ákvörðun fósturlauna.

IV.

                Í málinu liggur fyrir að félagsmálanefnd D ráðstafaði barninu X í fóstur til stefnanda í október 1997. Stúlkan dvalda síðan hjá stefnanda fram á vorið 1998. Hefur stefndi greitt stefnanda fósturlaun með barninu fyrir það tímabil og nam fjárhæð þeirra sexföldum barnalífeyri á mánuði. Stúlkan koma aftur til stefnanda haustið 1998 og gerir stefnandi kröfu um greiðslu fósturlauna með telpunni fyrir dvöl hennar hjá stefnanda þá um veturinn.

                Með bréfi formanns félagsmálanefndar 16. nóvember 1999 var ekki fallist á kröfu stefnanda þar sem ráðstöfunin hafi verið tímabundin og fóstrinu lokið vorið 1998. Þessa afgreiðslu sætti stefnandi sig ekki við og skaut málinu til barnaverndarstofu með bréfi 17. desember 1999. Barnaverndarstofa lauk ekki málinu með úrskurði í samræmi við 1. mgr. 10. gr. reglugerðar um barnaverndarstofu, nr. 264/1995, heldur fjallaði um það í bréfi 8. mars 2000 til stefnanda. Af hálfu stefnanda var því hreyft við munnlegan flutning málsins að stefndi væri bundinn af niðurstöðu barnaverndarstofu þar sem hann hefði ekki skotið málinu til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 10. gr. sömu reglugerðar og 2. mgr. 3. gr. þágildandi laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992. Á þetta verður ekki fallist, enda leiðir ekki af lögum að slíkt álit barnaverndarstofu hafi bindandi áhrif fyrir stefnda að þessu leyti.

                Þegar félagsmálanefnd barst mál stúlkunnar í lok október 1997 mat nefndin það svo að um væri að ræða barnaverndarmál í skilningi laga nr. 58/1992. Í samvinnu við foreldra stúlkunnar var gripið til þess úrræðis að vista stúlkuna í fóstri hjá stefnanda, sbr. f-lið 1.mgr. 21. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að samþykkis foreldra hafi verið aflað skriflega í votta viðurvist, sbr. 44. gr. sömu laga. Þá var þess ekki gætt að hálfu nefndarinnar að gera skriflegan fóstursamning í samræmi við 31. gr. laganna, þar sem meðal annars átti að koma fram áætlaður fósturtími og fósturlaun til stefnanda, sbr. b- og c-liðir 1. mgr. sömu greinar. Leiðir það sama af 5. tl. reglugerðar um ráðstöfun barna í fóstur, nr. 532/1996.

                Á fundi félagsmálanefndar 31. október 1997 var bókað að stúlkan ætti að dvelja hjá stefnanda fram til vors 1998. Augljóslega gat sú ákvörðun ekki verið endanleg og því bar félagsmálanefnd að endurskoða málið í ljósi fenginnar reynslu þegar líða tók á fóstrið. Við þá rannsókn bar að kanna hagi og aðstæður stúlkunnar áður en máli hennar yrði ráðið til lykta, sbr. 43. gr. laga nr. 58/1992 og 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Á fundi félagsmálanefndar í júní 1998 kom fram að H, sálfræðingur, hefði veitt stefnanda og stúlkunni stuðning og aðstoð og að telpan virtist í ágætu jafnvægi. Í ljósi þessa taldi félagsmálanefnd ekki ástæðu til að hafa frekari afskipti af málinu. Af gögnum málsins verður á hinn bóginn hvorki ráðið að stefnanda né X hafi verið gefin kostur á að tjá sig áður en sú ákvörðun var tekin í samræmi við 13. gr. laga nr. 37/1993 og þá meginreglu sem leidd verður af 46. gr. laga nr. 58/1992, en sú málsmeðferð var jafnframt nauðsynleg til að afla viðhlítandi upplýsinga áður en ákvörðun var tekin. Þá bar félagsmálanefnd að tilkynna stefnanda um þá ákvörðun að hætta afskiptum af málinu, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 37/1993, en það fórst fyrir og var látið við það sitja að gera móður og stjúpföður grein fyrir ákvörðuninni með bréfi 15. júlí 1998.

                Á fundi félagsmálanefndar 27. ágúst 1998 var bókað að fram hefði komið óánægja hjá stefnanda um lyktir málsins, auk þess sem stefnandi hefði lýst yfir vilja til að hafa telpuna áfram. Af þessu þykir mega ætla að stefnanda hafi á þessum tíma borist upplýsingar um þá ákvörðun nefndarinnar að hætta afskiptum af málinu. Á fundinum var síðan bókuð sú ákvörðun að fá félagsfræðing til að kanna málið og ganga frá vistunarsamningi. Með engu móti verður séð hvaða tilgangi þjónaði að kanna nánar málið ef félagsmálanefnd ætlaði að halda fast við fyrri ákvörðun um að ljúka málinu án frekari aðgerða. Þá verður heldur ekki séð í hvaða skyni átti að gera fóstursamning við stefnanda með afturvikum hætti vegna fyrra fósturtímabils sem þá var liðið. Í öllu falli er þessi ákvörðun sem og málsmeðferð nefndarinnar í heild sinni óljós og gengur í veigamiklum atriðum á svig við fyrirmæli laga, svo sem hér hefur verið nánar rakið. Þykir stefndi verða að bera hallann af þessu, enda verður ekki talið að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir að fóstrinu væri endanlega lokið í ljósi ákvörðunar nefndarinnar 27. ágúst 1998 um fá félagsráðgjafa á vegum nefndarinnar til að vinna frekar að málinu. Jafnframt hefði félagsmálanefnd verið í lófa lagið að gera stefnanda afdráttarlaust grein fyrir því að fóstrinu yrði ekki framlengt. Að þessu virtu þykir verða að fallast á að stefnanda hafi borið fósturlaun frá hausti 1998 fram á vor 1999.

                Þegar stefndi greiddi stefnanda fósturlaun vegna fyrra tímabils tók hann sjálfur ákvörðun um fjárhæðina og miðaði greiðsluna við sexfaldan barnalífeyri eins og gert sé í nágrannasveitarfélögum. Í málinu gerir stefnandi kröfu um sömu fjárhæð og hefur stefndi ekki fært haldbær rök fyrir því að greiða eigi aðra og lægri fjárhæð. Að áliti dómsins er fjárhæðinni í hóf stillt og verður hún því lögð til grundvallar í málinu.

                Stefndi hefur kosið að bera fyrir sig að krafa stefnanda sé að hluta til fyrnd. Krafa stefnanda fyrnist á fjórum árum samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905, en það ákvæði á meðal annars við um gjaldkræf laun, meðgjöf eða aðrar greiðslu, sem greiða á með vissu millibili og ekki er afborgun á skuld.

Á það verður ekki fallist með stefnanda að fyrningu kröfunnar hafi verið slitið með greiðslu á skuld vegna fósturs stúlkunnar veturinn 1997 til 1998, en ágreiningslaust var með aðilum að stefnandi ætti rétt á greiðslu vegna þess tímabils. Þá gat ekki falist í þeirri greiðslu viðurkenning á greiðsluskyldu til framtíðar litið og á það sama einnig við um ósk stefnda með bréfi 6. júní 2000 um viðræður við stefnanda til að ljúka uppgjöri. Í því erindi var beinlínis tekið fram að fyrirsvarsmaður stefnda væri að fara yfir gögn málsins og því gat stefnandi með engu móti litið svo á að fallist væri á kröfuna. Samkvæmt þessu verður ekki talið að fyrningu kröfunnar hafi verið slitið á grundvelli 6. gr. laga nr. 14/1905. Þá verður heldur ekki fallist á það með stefnanda að kæra til æðra stjórnvalds með bréfi til barnaverndarstofu 17. desember 1999 hafi slitið fyrningu kröfunnar, enda getur slíkt málskot ekki talist ígildi málssóknar í skilningi 11. gr. sömu laga.

Svo sem áður er rakið höfðaði stefnandi málið 12. febrúar 2003. Stefnandi hefur lagt til grundvallar að fósturlaun hafi fallið í gjalddaga fyrsta hvers mánaðar og því voru fyrnd fósturlaun, sem féllu í gjalddaga fyrir 12. febrúar 1999. Samkvæmt framansögðu verður krafa stefnanda tekin til greina að öðru leyti með þeim dráttarvöxtum sem greinir í dómsorði.

Stefnandi hefur fengið gjafsókn, en kostnaður hennar af málinu nemur þóknun til lögmanns að fjárhæð 272.000 krónur, auk virðisaukaskatts 66.640 krónur eða samtals 338.640 krónur. Skal sá kostnaður stefnanda greiðast úr ríkissjóði.

Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða málskostnað í ríkissjóð, sem þykir hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, D, greiði stefnanda, Z, 228.474 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 76.158 krónum frá 1. mars 1999 til 1. apríl sama ár, en af 152.316 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, en af dæmdri fjárhæð frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 338.640 krónur greiðist úr ríkissjóði.

                Stefndi greiði 100.000 krónur í málskostnað, sem renni í ríkissjóð.