Hæstiréttur íslands
Mál nr. 320/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Skiptastjóri
|
|
Mánudaginn 23. ágúst 1999. |
|
Nr. 320/1999. |
Erlingur Þorsteinsson (sjálfur) gegn Halldóri Þ. Birgissyni (enginn) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Skiptastjórar.
E krafðist þess að lögmaðurinn H yrði leystur frá starfi skiptastjóra í þrotabúi K. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að ekki væru efni til að víkja H frá vegna aðfinnslna E um störf hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. ágúst 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili, Halldór Þ. Birgisson héraðsdómslögmaður, yrði leystur frá starfi skiptastjóra í þrotabúi Kristínar Jórunnar Hjartardóttur. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili segir „helstu kröfur“ sínar vera að „1) Bústjóra verði vikið. 2) Úrskurðað verði í málinu hver eigi þessi réttindi ég eða Kristín Jórunn Hjartardóttir. 3) Undirritun Ágústar Karlssonar verði hnekkt. 4) Bústjóri greiði undirrituðum skaðabætur 1.200.000,- kr. sem er útlagður kostnaður undirritaðs vegna málsins til að sýna fram á blekkingu bústjórans. Auk dráttarvaxta frá maí 1994. 5) Eignir þrotabús Kristínar Jórunnar Hjartardóttur verði afhent undirrituðum. 6) Endurgreiðsla frá Kínverjunum verði dæmd undirritaðs vegna þess að „lakkrísformúlan“ var metin 50% af íslensku réttindunum. Íslenski hluti lóðarinnar var metinn á 120 milljónir (helmingur af 3.3 milljónum USD) helmingur þess er 60 milljónir. Gísli Baldur Garðarsson, Sjónval hf., Halldór Birgisson, Landsbanki Íslands og íslenska ríkið er ábyrgt í þessu máli. T.d. ef viðkomandi eru ekki borgunarmenn í málinu. 7) Fram fari opinber rannsókn á málinu til dæmis taki Landsdómur málið fyrir eða ríkisendurskoðun eða hlutlaus aðili fari yfir þetta alvarlega mál.“
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Málið er rekið samkvæmt 3. mgr. 76. gr. og 169. gr. laga nr. 21/1991 til þess að leysa úr kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði vikið úr starfi skiptastjóra í áðurnefndu þrotabúi. Framangreindar kröfur sóknaraðila, sem lúta að öðru, geta ekki komist að í málinu. Verður efnisleg afstaða því ekki tekin til þeirra.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um að ekki séu efni til að víkja varnaraðila frá vegna þeirra aðfinnslna um störf hans, sem sóknaraðili hefur gert. Þótt héraðsdómari hafi réttilega mátt beina því til varnaraðila að hann lyki skiptum á umræddu þrotabúi innan tiltekins frests, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991, átti ekki að mæla fyrir um þetta í hinum kærða úrskurði, heldur með bókun í þingbók. Verður úrskurðurinn því staðfestur að því er varðar kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði leystur frá starfi, svo og um málskostnað, en kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Erlings Þorsteinssonar, um að varnaraðili, Halldór Þ. Birgisson, verði leystur frá starfi skiptastjóra í þrotabúi Kristínar Jórunnar Hjartardóttur.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 1999.
Málið barst fyrst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi sóknaraðila dags. 7. apríl sl. Mælst var til þess, að sóknaraðili útfærði kröfur sínar frekar og rökstyddi þær. Því ítrekaði hann erindi sitt með bréfi dags. 19. maí sl. Málið skyldi flutt munnlega 30. júní sl. Í því þinghaldi féllst varnaraðili á það, að sóknaraðili legði fram skriflega sókn í málinu í stað þess að flytja málið munnlega og samþykkti dómari þá tilhögun. Varnaraðili óskaði ekki eftir því að tjá sig frekar með skriflegum eða munnlegum hætti og vísaði til greinargerðar sinnar og þeirra málsástæðna og lagaraka, sem þar komu fram. Málið var tekið til úrskurðar að því búnu.
Dómkröfur:
Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að varnaraðila verði vikið frá störfum sem skiptastjóra í þrotabúi Kristínar Jórunnar Hjartardóttur. Auk þess virðist mega ráða af greinargerð sóknaraðila, að hann geri kröfu til þess, að málsóknin verði honum að kostnaðarlausu.
Dómkröfur varnaraðila eru þær, að hafnað verði kröfu sóknaraðila um það að honum verði vikið úr starfi skiptastjóra í þrotabúi Kristínar Jórunnar Hjartardóttur.
Þá gerði varnaraðili kröfu til málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins, ásamt lögmæltum virðisaukaskatti.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Bú Kristínar Jórunnar Hjartardóttur var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum í Skiptarétti Reykjavíkur hinn 5. júní 1992 og var varnaraðili, Halldór Þ. Birgisson hdl. ráðinn bústjóri, nú skiptastjóri. Fyrri auglýsingin um gjaldþrotið var birt í 77. tölublaði Lögbirtingarblaðsins ársins 1992, sem dagsett er 19. júní s.á. Þar er skorað á kröfuhafa í búinu að lýsa kröfum fyrir bústjóra innan tveggja mánaða frá birtingu fyrri auglýsingar um búskiptin. Fram kom í auglýsingunni að skiptafundur yrði haldinn á skrifstofu varnaraðila 16. október s.á.
Sóknaraðili lýsti kröfu í þrotabúið svohljóðandi: ,,Hér með gerir undirritaður eftirfarandi kröfur í bú Sjónvals s.f. og Kristínar Hjartardóttur. mál 201/92.
a: Skuldabréf með lánskjaravísitölu 3.800.000,-auk vaxta dráttarvaxta og kostnaðar frá 29/9 1990.
b: Minn hlutur samkvæmt samningi okkar gerðum 25/1990. Það er 16 2/3 % af hlutabréfum verksmiðju staddri í Kina. Það er Scandinavian-Guangzhou Candy Company Dtd.,Dong Reng Road 787, Guangzhou, China (það er 1/3 af 50%).
c: Auk þess gef ég allar þær upplýsingar um málið sé þess óskað, enda var ástæðan fyrir verksmiðjunni sú að ég seldi íbúð mína að Brávallagötu 16, kostaði far fyrir okkur Guðmund Viðar Friðriksson til Kína í júní 1990 og kom raunar málinu áleiðis gegnum Z. Deng sem er porstulínsframleiðandi í Shantou, Kína.”
Varnaraðili boðaði stærstu kröfuhafa til sérstaks skiptafundar um málefni þrotabúsins, sem haldinn var 7. september 1992. Í fundargerð þessa fundar kemur fram, að Ágúst S. Karlsson, lögfræðingur v/ Ólafs Axelssonar hrl. mætti f.h. sóknaraðila og vegna kröfu Landsbanka Íslands í Breiðholti, Benedikt E. Guðbjartsson var mættur f.h. Landsbanka Íslands og Gísli Baldur Garðarsson hrl. mætti vegna kröfu Unimarks hf. sem kallaði til réttinda er tengdust þrotabúinu vegna samnings um samstarfsverkefnis í Kína (joint ventures samningur). Síðan segir í fundargerð: ,,Kröfuhafar lýsa því yfir að skilningur þeirra varðandi þessa samninga sé sá að ljóst sé að mögulegum eignarrétti þrotamanns og einkafyrirtækis hennar hafi á sínum tíma verið ráðstafað til Sjónvals hf. og hlutabréf hennar í því fyrirtæki verið seld skv. samningi til Unimark hf. Kröfuhafar heimila skiptastjóra að staðfesta þennan skilning gagnvart umboðsmanni Unimark hf. og fela skiptastjóra að ganga eftir efndum sölusamningsins.” Allir viðstaddir undirrita fundargerðina.
Með bréfi dags. 8. október 1992 tilkynnti varnaraðili Ágústi S. Karlssyni, lögfræðingi, f.h. sóknaraðila, að hluta af kröfugerð umbj. hans sé hafnað. Á skiptafundi í þrotabúinu, sem haldinn var 16. október 1992 er bókað, að kröfu Erlings Þorsteinssonar um hlut í S.G.C.C. sé endanlega hafnað. Fundinn sátu auk varnaraðila, Ágúst Sindri Karlsson v/ umbjóðenda sinna og Gísli Baldur Garðarsson hrl. og undirrita þeir fundargerð, ásamt varnaraðila.
Því er haldið fram af hálfu sóknaraðila, að undirritun Ágústs Sindra Karlssonar hafi verið dæmd ólögleg af Jóni Finnbjörnssyni þáverandi fulltrúa við Héraðsdóm Reykjavíkur, en ekkert hefur verið lagt fram af hans hálfu þessu til sönnunar. Með bréfi dags. 26. febrúar 1993 tilkynnti sóknaraðili varnaraðila, að Ágúst Sindri Karlsson hdl. sem verið hafi lögmaður hans vegna gjaldþrots Sjónvals sf. hafi hætt störfum og Sigmundur Böðvarsson hdl. hafi tekið við af honum.
Forsaga málsins er í meginatriðum sem hér segir: Kristín Jórunn Hjartardóttir (hér eftir nefnd þrotamaður) festi kaup á sjálfseignarfélaginu Sjónvali, kt. 431178-0509, hinn 6. nóvember 1989, eins og segir í tilkynningu frá Firmaskrá Reykjavíkur, sem liggur frammi í málinu. Með samningi dags. 6. júní 1990 selur Guðmundur V. Friðriksson, eiginmaður þrotamanns, sóknaraðila 50 % af öllu því sem Sjónvali tilheyrir m.a. viðskiptavild félagsins, áhöld og tæki, skv. lista, sem samningnum fylgdi. Sóknaraðili festi síðan kaup á eignarhluta þrotamanns í félaginu með samningi dags. 23. júlí s.á. Í þeim samningi er tekið fram að nafnið Sjónval fylgi ekki svo og nokkur sérstaklega tilgreind umboð. Ennfremur liggur frammi í málinu, sbr. fylgiskjal með dskj. nr. 21 ljósrit samnings, sem dagsettur er 25. júní 1990 og hljóðar svo að efni til: ,,Undirritaðir aðilar gera með sér svofelldan samning: Unnið verði að því að fá setta upp lakkrísgerð í Hong Kong og-eða Kína. Rætt verði við tengiliði Birgis Halldórssonar í U.S.A varðandi dreifingu. Þegar og ef samningar takast með hvaða hætti sem það er skiptist eignarhlutur á eftirfarandi hátt. Guðmundur V. Friðriksson 1/3, Erlingur Þorsteinsson 1/3, Birgir V. Halldórsson 1/3.”
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram, að Birgir V. Halldórsson hafi hætt við þátttöku í verkefninu, þannig að sóknaraðili og Guðmundar Viðar hafi orðið eigendur að jöfnu að fyrirhugaðri lakkrísgerð. Í kjölfar þessara samninga fór sóknaraðili og Guðmundur V. Friðriksson til Kína til að hressa upp á viðskiptasambönd þar, eins og sóknaraðili kemst að orði. Að sögð sóknaraðila var ferðin farin á hans kostnað. Í Kínaferðinni hafi hann kynnst manni að nafni Deng, sem var eigandi porstulínsverksmiðju. Þeir félagar hafi kynnt honum þá hugmynd þeirra að reisa lakkrísverksmiðju í Kína, en þeir hafi haft meðferðis 15 kg. af lakkrís. Deng þessi hafi lofað að kanna málið og þegar komið var aftur til Hong Kong hafi verið haft samband við þá félaga og þeim sagt að málið hafi fengið góðar undirtektir. Að sögn sóknaraðila hafi hann ekkert borið úr býtum við kaupin á eignum Sjónvals, ef undan er skilið þau sambönd sem stofnað hafi verið til í sambandi við byggingu og rekstur lakkrísverksmiðju í Kína. Allt annað hafi verið svik og prettir. Guðmundur Viðar hafi haldið áfram að vinna að lakkrísmálinu og hafi hann fengið Stefán Jóhannsson til þess að leggja fram fé til verkefnisins.
Fyrir liggur, að hlutafélagið Sjónval hf. var stofnað í september 1991 í þeim tilgangi að vinna að framgangi þess að reisa og stofnsetja lakkrísverksmiðju í Kína í samvinnu við kínverska aðila. Félagið mun ekki hafa verið skráð fyrr en í mars 1992. Þrotamaður var að því er virðist eigandi að fjórðungi hlutafélagsins, eins og fram kemur í kröfulýsingu Gísla Baldurs Garðarssonar sem hljóðar svo:,,Lýst í þrotabú Kristínar Hjartardóttur, kt. 090860-5509, Reykjavík, sem úrskurðuð var gjaldþrota þann 5. júní 1992 með úrskurði Skiptaréttar Reykjavíkur. Þrotamaður Kristín Hjartardóttir er einkaeigandi firmans Sjónval, kt. 431178-0369. Unimark hf. kt. 590292-2229, Brekkugötu 3, Akureyri lýsir kröfu sinni í þb. Kristínar Hjartardóttur og einkafirma hennar Sjónvals vegna samnings dags. 22. febrúar 1992 milli Sjónvals og Unimarks hf. um kaup á hagsmunum Sjónvals í Scandinavian Guangchou Candy Company (SGGC). Af gögnum er varða samskipti þrotamannsins við Sjónval hf. í Reykjavík, er ljóst, að Kristín Hjartardóttir hafði eignast 25% eingarhlut í því hlutafélagi með því að leggja félaginu til viðskiptavild er hún taldist eiga í samstarfsverkefni Sjónvals hf. við SGCC. Því er gerð krafa um að þrotabú Kristínar Hjartardóttir ljái atbeina sinn til afhendingar á hlut þrotamannsins í hlutafélaginu Sjónval hf. gegn því að inntur verði af hendi sá hluti endurgreiðslu, er telst umsamin greiðsla fyrir hlut Kristínar. Til fyllingar kröfugerð þessari er vísað til draga að samkomulagi um uppgjör, sem yður hafa verið afhent. Kröfulýsing þessi er send með símbréfi í dag en einnig í pósti og óskast ljósrit sent til skrifstofunnar með áritun um móttöku þann 19. ágúst 1992.” Kröfulýsingin er dagsett 18. ágúst 1992. Samkvæmt fyrirliggjandi kröfuskrá hefur krafan verið móttekin sama dag.
Í skýrslu varnaraðila, sem lögð var fram á skiptafundi 29. september 1994 kemur fram, að hann hafi móttekið sem hlutagreiðslu frá lögmanni Unimarks kr. 4.885.072,80. Þar er þess einnig getið, að ágreiningur sé um uppgjörið og sé þess að vænta, að skiptastjóri muni tilkynna kröfuhöfum um ákvörðun um mögulega málssókn til heimtu kröfunnar fyrir októberlok. Ógreiddar séu skv. samningi kr. 4.850.000, auk vaxta af kaupverði. Á móti komi sjónarmið Unimarks hf. um afslátt o.fl.
Eina eign þrotabúsins er fjárhæð sú, sem greidd var af hálfu lögmanns Unimarks hf., sem fyrir liggur sem innistæða á trompbók hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar og nemur nú samkvæmt upplýsingum varnaraðila kr. 5.595.539.
Í fyrrnefndri skýrslu varnaraðila frá 29. september 1994 er fjallað um málefni sóknaraðila. Þar kemur fram, að varnaraðili hafi átt marga fundi með sóknaraðila og lögmönnum hans og fjölmörg samtöl að auki. Þar lýsir varnaraðili þeirri afstöðu sinni, að kröfuskrá í búið sé afgreidd og að sóknaraðili krefjist viðurkenningar á eignarétti á hlutabréfum í SGCC ltd. sem ekki séu í eigu búsins og hafi ekki verið á úrskurðardegi. Einnig er þess þar m.a. getið, að mál það, sem tengist lakkrísverksmiðjunni í Kína varði ágreining um eignarétt að eign, sem sé ekki í eigu eða til ráðstöfunar í þrotabúi Kristínar Hjartardóttur og sá ágreiningur verði ekki leystur innan búsins heldur í málaferlum sóknaraðila og Sjónvals hf., annað hvort hérlendis eða í Kína.
Mál þetta hefur víða borið á góma, bæði hjá stjórnvöldum og eins hefur sóknaraðili kært málið og afskipti og framgöngu Guðmundar Viðars til Rannsóknarlögreglu ríkisins, og fleiri aðila, sem málinu tengdust. Utanríkisráðuneytið kom að málinu, m.a. sendiherra Íslands í Kína. Fyrir tilstuðlan utanríkisráðuneytisins féllust kínversk stjórnvöld á það að greiða skaðabætur fyrir samningsrof og vanefndir til þeirra íslensku aðila, sem stóðu að fyrirhugaðri byggingu og rekstri lakkrísverksmiðju í Kína. Það fé, sem greitt hefur verið til þrotabús Kristínar Hjartardóttur eru hluti þeirra skaðabóta.
Málsástæður og sjónarmið sóknaraðila:
Sóknaraðili byggir á því, að hann hafi einn eignast öll réttindi til umræddrar lakkrísverksmiðju í Kína. Hann hafi gert áðurnefndan samning við Guðmund Viðar Friðriksson og Birgi V. Halldórsson. Birgir hafi fallið frá rétti sínum til samningsins en síðan hafi hann keypt réttindi Guðmundar Viðars. Allir samningar, sem Sjónval hf. kunni að hafa gert í skjóli réttinda Guðmundar Viðars séu því ógildir. Sóknaraðili bendir á yfirlýsingu kínverskra yfirvalda frá árinu 1992 þessu til stuðnings, en þar segi m.a. ,,að Sjónval IDD 431178-0369 sé einn eigandi að 50% hlut í samstarfsverkefni (Joint-Venture Contract) til jafns við hina kínversku aðila. Engir samningar hafi verið gerðir við fyrirtækið Sjónval hf. á þessum tíma”. (lauslega þýtt úr framlögðu skjali, sem er á ensku). Af þessu sé ljóst, að þrotamaður hafi aldrei átt nein réttindi í Kína og samningar um þau réttindi í hennar nafni séu að engu hafandi.
Þá bendir sóknaraðili á, að hann hafi farið að ráðum varnaraðila, þegar hann lýsti kröfu sinni í umrætt þrotabú. Honum hafi ekki verið ljóst, að hann kunni að hafa glatað rétti og orðið fyrir réttarspjöllum með því að orða kröfulýsingu sína eins og honum hafi verið ráðlagt af skiptastjóra, sem haldi því nú fram, að ekki fari saman að gera kröfur í þrotabú Kristínar Hjartardóttur og Sjónvals sf. og samtímis halda því fram, að vera eigandi sameignarfélagsins.
Einnig byggir sóknaraðili á því til stuðnings kröfu sinni um brottvikningu varnaraðila úr starfi skiptastjóra, að varnaraðili hafi átt hagsmuna að gæta, þar sem hann, ásamt Gísla Baldri Garðarssyni hrl. hafi átt aðild að stofnun Sjónvals hf. Því sé ljóst, að varnaraðili geti ekki verið verið óhlutdrægur í starfi sínu.
Ennfremur heldur sóknaraðili því fram, að varnaraðili hafi samþykkt kröfu Gísla Baldurs Garðarssonar hrl. f.h. Unimarks hf. mörgum mánuðum eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Hann telur þessa ákvörðun varnaraðila sýna og sanna hlutdrægni varnaraðila.
Til viðbótar þessu byggir sóknaraðili á því, að kröfur þær, sem lýst hefur verið í umrætt þrotabú, séu allar tilkomnar vegna skuldbindinga Guðmundar Viðars Friðrikssonar, sambýlismanns þrotamanns, í nafni Sjónvals sf., sem enga heimild hafi haft til þess að skuldbinda félagið, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Firmaskrá Reykjavíkur. Þessu hafi varnaraðili í engu sinnt.
Sóknaraðili byggir ennfremur á því, að Ágúst Sindri Karlsson hdl., sem mætti fyrir hans hönd á fyrsta skiptafund í þrotabúinu og samþykkti þar, að krafa hans um tilgreindan hlut í verksmiðju í Kína sbr. b lið í kröfulýsingu hans (sjá bls. 2 að framan) næði ekki fram að ganga, hafi enga heimild haft til slíkrar ráðstöfunar. Vísar sóknaraðili til dóms Jóns Finnbjörnssonar, áður fulltrúa við embætti Héraðsdóms Reykjavíkur, í því sambandi.
Sóknaraðili bendir einnig á það til stuðnings kröfu sinni, að varnaraðili hafi ekki innheimt nema hluta þeirra fjármuna, sem þrotabúinu tilheyri af skaðabótum þeim, sem kínversk stjórnvöld hafi greitt eða samþykkt að greiða. Hefði rétt verið á málum haldið, hefði átt að greiða alls 12,5 milljónir króna inn í þrotabúið, en alls hafi greiðst rúmar 5 milljónir króna. Vitað sé, að hinir kínversku aðilar hafi greitt alls 20 milljónir króna í skaðabætur.
Sóknaraðili tínir til fjölmörg önnur atriði, sem hann telur að styðji kröfu sína, en ekki þykir ástæða til að gera þeim sérstök skil, enda felast í þeim órökstuddar og óviðeigandi aðdróttanir, sem ekki eru eftir hafandi.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili lýsir málavöxtum svo í stórum dráttum, að þrotamaður hafi verið skráð einkaeigandi Sjónvals og því hafi allar skuldir félagsins fallið á þrotabú hennar. Fram hafi komið við upphaf skipta, að þrotamaður hafi fyrir gjaldþrot sitt átt þátt í stofnun hlutafélagsins Sjónvals hf. og ráðstafað til félagsins við stofnun þess mögulegum réttindum sínum til lakkrísverksmiðju í Kína. Boðað hafi verið til sérstaks kröfuhafafundar fyrir fyrsta auglýsta skiptafund til að taka afstöðu til þess, hvort staðfesta skyldi ráðstafanir þrotamanns á mögulegum réttindum hennar til Unimarks hf. Eftir þann fund hafi legið fyrir að ekki yrði óskað riftunar á þessum ráðstöfunum þrotamanns. Við afgreiðslu krafna í þrotabúið hafi fjárkrafa sóknaraðila verið samþykkt en hafnað kröfu hans um viðurkenningu á eignarrétti af hlutabréfum, sem ekki hafi verið talin til eigna búsins á úrskurðardegi, enda ekki byggst á samningum þrotamanns við sóknaraðila. Á þeim skiptafundi hafi engin andmæli komið fram við afgreiðslu krafna né heldur ágreiningi um viðurkenningu þeirra vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur í samræmi við ákvæði gjaldþrotaskiptalaga. Varnaraðili hafi margítrekað gert sóknaraðila grein fyrir því, að hann ætti þess engan kost að afhenda eða hafa milligöngu um afhendingu verðmæta til sóknaraðila, sem ekki séu talinn til eigna búsins eða afhent verðmæti með öðrum hætti en leiði af úthlutunargerð við skiptalok. Ennfremur kveðst varnaraðili sem skiptastjóri hafa bent sóknaraðila á það, að gjaldþrot Kristínar Hjartardóttur hafi engin áhrif á eignaréttindi sóknaraðila, hver sem þau kynnu að hafa verið við gjaldþrot hennar, enda falli ágreiningur um eignaréttindi utan búsins og utan verksviðs skiptastjóra. Þá sé til þess að líta, að kröfur sóknaraðila gagnvart þrotabúinu hafi verið á reiki, ef undan sé skilin skuldabréfakrafa hans, sem samþykkt hafi verið. Á síðari stigum málsins hafi sóknaraðili talið sig vera eigandi Sjónvals en haldi engu að síður til streitu kröfu sinni á hendur þrotamanni á grundvelli skuldabréfsins. Slíkt geti ekki farið saman, enda sé skuldabréfið gefið út af Sjónvali, kt. 431178-0369.
Varnaraðili skýrir drátt þann, sem orðið hafi á því að ljúka skiptum í umræddu þrotabúi á þann veg, að það hafi verið gert að beiðni lögmanna sóknaraðila. Fyrst að beiðni Arnmundar heitins Backmann hrl, en eftir andlát hans hafi aðrir lögmenn komið að málinu f.h. sóknaraðila, sem hafi ítrekað beiðni um, að skiptalokum yrði frestað vegna gagnaöflunar í þágu sóknaraðila. Aðrir kröfuhafar í þrotabúið hafi fallist á þessa tilhögun. Í aprílmánuði sl. hafi sóknaraðili gert kröfu til þess að fá afhenta fjármuni búsins, en því hafi varnaraðili hafnað, enda slík ráðstöfun ólögmæt. Um sama leyti hafi lögmenn sóknaraðila hætt afskiptum sínum af málefnum hans og sóknaraðili sjálfur tekið við. Í framhaldi þess hafi sóknaraðili gert kröfu til þess, að varnaraðili yrði leystur frá starfi skiptastjóra.
Varnaraðili mótmælir því að bera ábyrgð á, hvernig sóknaraðili lýsti kröfu sinni í umrætt þrotabú. Hann hafi ráðlagt sóknaraðila að leita sér lögmannsaðstoðar, enda hafi sóknaraðili sjálfur tilkynnt um lögmann sinn, þegar hann lýsti kröfu sinni.
Varnaraðili byggir á því, eins og áður segir, að ágreiningur um eignaréttindi í tengslum við umrædda lakkrísverksmiðju í Kína verði eingögnu leystur í dómsmáli milli þeirra aðila, sem í hlut eiga. Það sé þrotabúinu með öllu óviðkomandi. Legið hafi fyrir, að þrotamaður hafi átt hlut í Sjónvali hf., sem stofnað hafi verið með réttum og löglegum hætti. Verkefni skiptastjóra hafi verið að koma þessum réttindum þrotamanns í verð, sem gert hafi verið og sé það eina eign þrotabúsins. Sé málið aftur á móti þannig vaxið, að sóknaraðili hafi átt kröfu vegna umræddrar lakkrísverksmiðju hefði hann átt að sækja þann rétt á hendur Unimark hf. Sé svo, sé hins vegar ljóst, að greiðsla Unimarks hf. í þrotabúið hafi byggst á röngum forsendum og því ætti að endurgreiða þrotabúi Unimarks hf. þá fjárhæð, sem félagið greiddi inn í þrotabú Krístínar Jórunnar Hjartardóttur.
Þá mótmælir varnaraðili því, að hafa samþykkt kröfu Unimarks hf. í búið eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Gögn málsins sanni að svo hafi ekki verið. Varnaraðili kannast ekki við endurgreiðslu frá Kína að fjárhæð 20 milljónir króna, eins og sóknaraðili heldur fram, enda hafi hann ekki haft milligöngu um greiðsluna né gert kröfu til hennar f.h. þrotabúsins, enda eigi þrotabúið ekki rétt til hennar að hans áliti.
Varnaraðili telur, að ekkert sé því til fyrirstöðu að ljúka skiptum, enda hafi það dregist að beiðni sóknaraðila og lögmanna hans og hafnar því kröfu sóknaraðila um það, að hann verði sviptur skiptastjórn í þrotabúi Kristínar Jórunnar Hjartardóttur.
Forsendur og niðurstaða:
Eins og að áður er getið var þrotamaður stofnandi hlutafélagsins Sjónvals hf. og eigandi að fjórðunghlut í félaginu. Strax við upphaf skipta gerði Unimark hf. þrotabúinu tilboð um að leysa til sín hlut þrotamanns í hlutafélaginu. Boðið var samþykkt af þeim sem boðaðir voru á sérstakan kröfuhafafund til að taka afstöðu til tilboðsins eða leita annarra úrræða. Ágúst Sindri Karlsson hdl. var mættur af hálfu sóknaraðila á þennan fund og gerði engar athugasemdir f.h. umbj. síns, enda þótt í kröfulýsingu sóknaraðila fælist krafa, sem kynni að ganga þvert á ákvörðun fundarins. Sóknaraðili heldur því fram, að undirritun og afstaða lögmanns hans hafi verið ógilt af Jóni Finnbjörnssyni, þáverandi fulltrúa við embætti Héraðsdóms Reykjavíkur, en engin gögn hafa verið lögð fram, sem styðja þá staðhæfingu hans. Varnaraðili hafnaði með bréfi til fyrrgreinds lögmanns sóknaraðila dags. 8. október 1992 kröfu umbj. hans að hluta með svofelldum rökstuðningi. ,,Undirritaður telur samning þann sem lagður er til grundvallar kröfu um 1/3 hlut af hlutabréfum í SGCC ltd. ekki verða byggða á þeim samningi er um ræðir. M.a. má benda á að þrotamaður er ekki aðili að samningum og að auki eru hlutabréf í félaginu ekki í eigu þrotabúsins og þar af leiðandi ekki til ráðstöfunar.” Á auglýstum skiptafundi, sem haldinn var hinn 16. október 1992 var b. lið í kröfulýsingu sóknaraðila endanlega hafnað. Ágúst Sindri Karlsson hdl. var mættur á þeim fundi og undirritar fundargerð athugasemdalaust.
Með hliðsjón af ákvörðun þessa skiptafundar verður að telja að varnaraðili hafi haft fulla heimild og reyndar verið skylt að bregðast við með þeim hætti að ganga til samninga við Unimark hf. enda engin andmæli eða athugasemdir gerðar við þá tilhögun af hálfu fundarmanna.
Ekki verður heldur talið, að varnaraðili sem skiptastjóri hafi átt að eiga frumkvæði að því, að kanna sérstaklega, hvernig væri háttað heimildum Unimarks hf. til byggingar og reksturs lakkrísverksmiðjunnar í Kína eða skera úr um það, hver væri rétthafi að því verkefni. Þegar framangreind ákvörðun skiptafundar var tekin um að fallast á innlausn Unimarks hf. á hlutabréfum þrotamanns í Sjónvali hf. lá ekki annað fyrir en sú ráðstöfun væri skynsamleg og kröfuhöfum til hagsbóta.
Starfsvið og verkefni skiptastjóra felst í því að afla upplýsinga um kröfur á hendur þrotamanni og skuldbindingar, sem hann hefur tekist á herðar, kanna réttmæti þeirra, ráðstafa eignum þrotabúsins og útdeila fjármunum þess til kröfuhafa í samræmi við reglur gjaldþrotaskiptalaga nr. 21 frá 1991.
Rísi ágreiningur um meðferð skiptastjóra um lýstar kröfur í þrotabú, verður þeim ágreiningi ekki ráðið til lykta af skiptastjóra, nema með samþykki allra kröfuhafa, en ella ber að vísa ágreiningi til hlutaðeigandi héraðsdómstóls. Þetta hefur sóknaraðili látið hjá líða, að því er varðar ágreining um réttindi til þeirra fjármuna, sem tengjast verkefni lakkrísverksmiðjunnar í Kína.
Því verður ekki fallist á það með sóknaraðila, að varnaraðili hafi farið rangt að eða misbeitt valdi sínu sem skiptastjóri gagnvart varnaraðila, að því er varðar samninga hans við Unimark hf.
Fallast má á það með varnaraðila, að ágreiningi um eignarrétt að umræddri lakkrísverksmiðju í Kína verður ekki ráðið til lykta, nema í sérstöku dómsmáli.
Þá fær sú fullyrðing sóknaraðila ekki staðist, að varnaraðili hafi samþykkt kröfu Unimarks hf. í þrotabúið löngu eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Gögn málsins benda ótvírætt til þess, að kröfunni hafi verið lýst innan þess frests, sem tilgreindur er í innköllun til kröfuhafa.
Ekkert bendir heldur til þess, að varnaraðili hafi átt nokkra aðild að hlutafélaginu Sjónvali hf., eins og sóknaraðili heldur fram né heldur, að hann hafi átt þar einhverra hagsmuna að gæta. Sóknaraðili hefur engin gögn lagt fram til stuðnings þessari fullyrðingu sinni og ber því að hafna henni.
Það er að segja um þá málsástæðu sóknaraðila, að kröfulýsing hans hafi verið samin samkvæmt leiðbeiningum varnaraðila og því beri varnaraðili hallann af því, hafi ónákvæmni gætt í orðalagi hennar, að sóknaraðili naut aðstoðar og fulltingis lögmanns, strax á fyrstu stigum skiptameðferðar í þrotabúinu og síðan hafa ýmsir lögmenn komið að málinu á hans vegum. Ekkert bendir til þess, að orðalag kröfulýsingar sóknaraðila hafi valdið honum réttarspjöllum og ekki er að sjá af gögnum málsins, að athugasemdir hafi verið sérstaklega gerðar af hálfu sóknaraðila eða lögmanna hans af þessu tilefni fyrr en nú.
Þá heldur sóknaraðili því fram, að flestar kröfur í þrotabúið séu tilkomnar vegna skuldbindingar Guðmundar Viðars Friðrikssonar f.h. Sjónvals, en Guðmundur hafi ekki haft heimild til að skuldbinda félagið. Kröfuskrá var lögð fram á skiptafundi 16. október 1992 án þess að athugasemdir væru þar gerðar. Ekki er heldur hægt að sjá í gögnum málsins, að sóknaraðili né aðrir kröfuhafar hafi gert athugasemdir í þessa veru fyrr en nú. Því verður að telja, að athugasemdir, sem nú eru gerðar við kröfuskrá, séu of seint fram komnar.
Verður því ekki byggt á þessari málsástæðu sóknaraðila um sakarefni það, sem hér er til úrlausnar.
Hins vegar lítur dómurinn svo á, að dregist hafi úr hófi að ljúka skiptum í umræddu þrotabúi. Varnaraðili ber það fyrir sig í þessu sambandi, að skiptalok hafi dregist einkum vegna tilmæla sóknaraðila og lögmanna hans. Sérstaklega aðspurður hér fyrir dómi staðfesti sóknaraðili þessa fullyrðingu varnaraðila.
Dómurinn lítur svo á, eins og mál þetta er vaxið, að skiptalok myndu dragast enn, ef orðið yrði við kröfu sóknaraðila og skipaður yrði annar skiptastjóri í þrotabú Kristínar Jórunnar Hjartardóttur.
Kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði leystur frá skiptastjórn í umræddu þrotabúi er því hafnað með vísan til framanritaðs, enda virðist ekkert standa því í vegi að ljúka búskiptum á næstu mánuðum, ef ekki kemur til ágreinings um úthlutunargerð.
Því er lagt fyrir varnaraðila að semja þegar í stað frumvarp til úthlutunargerðar skv. 158. gr. gjaldþrotaskiptalaga og leggja hana fyrir skiptafund eigi síðar en 1. september n.k.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu, eins og atvikum er hér háttað.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Erlings Þorsteinssonar, um það, að varnaraðili, Halldór þ. Birgisson hdl., verði leystur frá skiptastjórn í þrotabúi Kristínar Jórunnar Hjartardóttur.
Lagt er fyrir varnaraðila að semja þegar í stað frumvarp til úthlutunargerðar skv. 158. gr. gjaldþrotaskiptalaga og leggja hana fyrir skiptafund eigi síðar en 1. september n.k.
Málskostnaður fellur niður.