Hæstiréttur íslands

Mál nr. 373/2012


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð


Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 373/2012.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Líkamsárás. Skilorð.

X var sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á A sem talin var varða við 2. mgr. 218. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og tvær líkamsárásir á F sem taldar voru varða við 1. mgr. 217. gr. laganna. Ekki var fallist á að árásin á A væri X refsilaus þar sem hún hafi helgast af neyðarvörn sbr. 12. gr. áðurnefndra laga. Eins og aðstæðum hafi verið háttað yrði ekki talið að X hefði fært viðhlítandi rök að því að honum hafi verið ógnað á þann hátt sem vísað væri til í þeirri lagagrein. Að teknu tilliti til 77. gr. almennra hegningarlaga var X gert að sæta fangelsi í átta mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var X gert að greiða A miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Ríkissaksóknari skaut tveimur málum til Hæstaréttar 7. maí og 7. nóvember 2012 í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að niðurstaða hinna áfrýjuðu dóma um sakfellingu ákærða verði staðfest, en að refsing hans verði þyngd. 

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að refsing hans verði látin niður falla, en að því frágengnu að hún verði milduð. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.

A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því að líta svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu hans.

Fyrir Hæstarétti hafa málin verið sameinuð.

Með fyrri dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Vesturlands 2. apríl 2012, var ákærði sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en honum var gefið að sök að hafa 3. apríl 2011 slegið frá sér gleríláti sem kastast hafi í aftanvert höfuð A með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á höfði. Samkvæmt dóminum var ákærða gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, en refsingin bundin skilorði. Síðari dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Vesturlands 10. október 2012. Með þeim dómi var ákærði sakfelldur samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga fyrir að hafa ráðist á F, annars vegar 22. maí 2011 og hins vegar 30. október sama ár. Var ákærða gerður hegningarauki og refsing ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 45 daga.

Vitnið C, sem var dyravörður á veitingastaðnum [...] á [...] aðfaranótt 3. apríl 2011, bar fyrir dómi að hann hafi gegnum hálfopnar dyr séð ákærða taka glas og brjóta „á hausnum“ á A. Aðspurður sagði vitnið að höggið hafi verið þéttingsfast og hann hafi séð glasið brotna. Kvaðst vitnið hafa byrjað á því að sækja annan dyravörð og farið síðan inn á salernið þar sem árásin átti sér stað. Hann taldi sig ekki geta fullyrt um hvort ákærði og A hafi áður verið að rífast. Í héraðsdóminum 2. apríl 2012 eru síðastgreind ummæli ranglega eignuð vitninu B, en framburður vitna er þar að öðru leyti rétt rakinn.

Þá heldur ákærði því fram að háttsemi hans hafi verið honum refsilaus þar sem hún hafi helgast af neyðarvörn, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Eins og aðstæðum var háttað verður ekki talið að ákærði hafi leitt viðhlítandi rök að því að háttsemin, sem honum er gefin að sök og hér um ræðir, hafi réttlæst af því að honum hafi verið ógnað á þann hátt, sem vísað er til í þeirri lagagrein, en samkvæmt gagnályktun frá 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ekki lögð sú skylda á ákæruvaldið að þurfa að hnekkja slíkri staðhæfingu ákærða, sbr. dóm Hæstaréttar 2. nóvember 2000 í máli nr. 248/2000 sem birtur er á bls. 3412 í dómasafni það ár. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms 2. apríl 2012 verður staðfest sú niðurstaða að sakfella beri ákærða fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt því á A rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í ljósi þeirra áverka, sem hann hlaut, verður talið hæfilegt að ákærði greiði honum 100.000 krónur í bætur ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Við málflutning fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu ákæruvaldsins að sakargiftir á hendur ákærða samkvæmt II. kafla ákæru í því máli, sem dæmt var 10. október 2012, væru einskorðaðar við að hann hafi ráðist á F aðfaranótt 30. október 2011 á heimili sínu að [...], [...], með því að rífa í hár hennar, setjast ofan á hana og slá hana utan undir, taka um munn hennar og nef svo að hún hafi átt erfitt með andardrátt. Þetta hafi haft þær afleiðingar að hún hafi hlotið yfirborðsáverka í andliti og á hálsi og báðar varir hennar hafi sprungið þannig að úr hafi blætt. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæðis.

Að teknu tilliti til 77. gr. almennra hegningarlaga verður refsing ákærða ákveðin átta mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu hennar skilorðsbundið svo sem nánar segir í dómsorði.

Staðfest eru ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í átta mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. apríl 2011 til 1. júlí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði beggja hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði samtals 358.168 krónur í áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 2. apríl 2012.

                Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 5. september 2011 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...] á [...]. Málið var dómtekið 8. mars 2012.

                Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða„ fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 3. apríl 2011, á veitingastaðnum [...], [...], [...], slegið gleríláti frá sér, sem kastaðist í aftanvert höfuð A, kennitala [...], með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð aftan við hvirfil.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 237.650, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. apríl 2011 og þar til krafan hefur verið birt fyrir kærða en frá þeim degi til greiðsludags er krafist dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga.“

                Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins en til vara að honum verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfa. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunni. Loks er gerð sú krafa að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

                Hinn 3. apríl 2011, kl. 1.42 um nóttina, barst lögreglunni á [...] tilkynning um líkamsárás á veitingahúsinu [...] við [...] á [...]. Lögreglumenn fóru á staðinn og hittu fyrir brotaþola ásamt dyraverði fyrir utan veitingastaðin. Brotaþoli kvaðst hafa verið að rífast við einhverja [...], þegar ákærði hefði lamið hann í höfuðið þannig að skurður hafi myndast, kvaðst dyravörðurinn hafa verið vitni að þessu.

                Í kjölfar atburða fyrr um nóttina leitaði brotaþoli sér aðhlynningar á Sjúkrahúsi [...]. Í áverkavottorði 13. apríl 2011, sem ritað er af Friðrik R. Garðarssyni, aðstoðarlækni, segir meðal annars svo:

Við skoðun kom í ljós grunnur skurður aftan við hvirfil. Talsvert hefur blætt úr skurðinum. Frekari áverkar finnast ekki við skoðun. Ekki var tilefni til að sauma skurðinn en búið var um á viðeigandi máta

Taugaskoðun var í öllum grundvallaratriðum eðlileg og enginn grunur um áverka innan höfuðkúpu. 

                Við yfirheyrslu hjá lögreglu 1. júní 2011 lýsti ákærði yfir að rétt væri að hann hefði verið valdur að áverkum brotaþola. Málsatvikum lýsti ákærði þannig að hann hefði verið inni á klósetti á skemmtistaðnum og verið að pissa þar og haldið á glasi í annarri hendinni. Ákærði kvaðst hafa tekið eftir að brotaþoli hafi komið inn á klósettið ásamt fleirum. Brotaþoli hafi þá gengið að ákærða og tekið í öxl hans og snúið honum við og sagt honum að koma sér út af klósettinu. Ákærði sagðist ekki hafa orðið við þessu og haldið áfram að pissa en áður en honum tókst að klára að pissa hafi brotaþoli haldið áfram að segja honum að koma sér út, jafnframt hafi brotaþoli orðið ógnandi og farið að tala íslensku við einhverja sem voru á klósettinu. Ákærði kvaðst ekki skilja íslensku og talið að brotaþoli væri að tala við viðstadda um hvað ætti að gera við ákærða. Ákærði sagðist hafa orðið nokkuð hræddur og viljað komast burt, svo þegar brotaþoli hafi litið undan hefði hann slegið með glasinu í áttina að brotaþola, þar sem hann hafi talið að brotaþoli myndi ráðast á hann. Ákærði sagðist ekki hafa lagt neinn þunga í höggið og jafnframt sleppt glasinu rétt áður en það lenti á brotaþola. 

Í skýrslu hjá lögreglu hinn 7. apríl 2011 sagði A að hann hefði verið staddur á salerni á [...] á [...] og verið að ræða við B. Hann hafi sagt við ákærða sem einnig hafi verið inni á salerninu að hann mætti ekki vera þarna. Hann hafi snúið baki í ákærða og ekki vitað fyrr en ákærði hefði slegið sig með hálfslíters bjórglasi í hnakkann. A krafðist þess að ákærði yrði refsað vegna árásar þessarar.

                Hinn 31. maí 2011 gaf B skýrslu hjá lögreglu. Sagði hann að hann hafi komið inn á salernið og ákærði ver þar inni að pissa. Skömmu síðar hafi brotaþoli komið inn með þrjá vini sína og verið með mikilmennskuhegðun og hafi brotaþoli viljað láta henda ákærða út af salerninu. B sagðist hafa rætt við brotaþola og sagt honum að hætta þessu og halda áfram að skemmta sér. B hafi síðan verið að ganga út en heyrt glasahljóð eins og einhver hefði misst glerglas í vaskinn. Hann hafi snúið við en mætt ákærða sem hafi verið á leiðinni út. Hann hafi ekki séð nein glerbrot inni á salerninu þegar hann hafi litið þangað inn og ekki séð atvikið þar sem hann hafi snúið baki í brotaþola og ákærða.

                C gaf skýrslu hjá lögreglu 5. maí 2011. Hann hafi verið dyravörður umrætt kvöld og verið á ganginum fyrir framan salernið og hurðin þangað inn verið opin. Hafi vitnið horft í spegilinn á salerninu og séð ákærða slá brotaþola í höfuðið með glasi og hafi höggið verð fast. Hafi höggið verið viðvörunarlaust og að tilefnislausu.

                D gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 5. maí 2011. Hann hafi séð mann koma reiðan út af salerninu er hann ætlaði þangað inn. Hafi brotaþoli verið þar inni blóðugur á hnakkanum og einnig hafi verið blóð á gólfinu.

                E gaf skýrslu hjá lögreglu 5. maí 2011. Hann kvaðst hafa verið inni á salerninu er atvik urðu. Hann hafi verið að pissa og snúið baki í brotaþola. E hafi snúið sér við og séð brotaþola alblóðugan og blótandi ákærða. Hann hafi ekki séð ákærða inni á salerninu. Hann hafi ekki séð hver veitti brotaþola áverkana en brotaþoli sagt honum að ákærði hefði slegið sig með glasi í höfuðið. ákærði hafi verið inni á salerninu er E kom inn en ekki hafði hann heyrt nein læti sem vöktu athygli hans.

                Skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi

                Ákærði kvaðst hafa farið inn á snyrtinguna á veitingarstaðnum og farið að þvagskálunum. Hann hafi tekið eftir því að þrír til fjórir karlmenn hefðu komið inn á snyrtinguna. Sem hann  hafi verið að pissa, hafi brotaþoli lagt höndina á öxlina á honum og sagst vilja nota þessa þvagskál jafnvel þótt aðrar skálar hafi verið lausar. Ákærði hafi ekki sinnt þessu og hafi brotaþoli þá sagt honum ógnandi að koma sér í burtu. Mennirnir hefðu talað saman á klósettinu á íslensku, sem hann skyldi ekki, en hann hefði fundið fyrir ótta og fundist sér verið ógnað en hann hafi ekki verið búinn að ógna neinum. Ákærði hafi snúið sér við og það hafi upphafist rifrildi. Hann hafi haldið að þeir ætluðu að ráðast á hann. Hann hafi hent frá sér bjórglasi sem hann hafi haft í hendinni, ekki í neina sérstaka átt heldur til þess að draga athyglina frá sjálfum sér. Eftir það hafi hann farið út af salerninu og inn á barsvæðið. Aðspurður sagðist ákærði hafa staðið fyrir framan klefana með bakið að vaskinum og brotaþoli verið honum á hægri hönd, við hlið hans og það hafi verið um hálfur metri á milli þeirra. Aðspurður hvort ákærði gerði sér grein fyrir hvers vegna brotaþoli hafi ógnað honum á salerninu, sagðist ákærði ekki vita það, kannski af því að ákærði spilaði [...] með [...] sem brotaþoli hafi spilað með áður. Einnig hafi ákærði heyrt af því að brotaþoli bæri hug til unnustu ákærða, en ákærði sagði að það sem hafi hrætt hann mest hafi verið að brotaþoli ógnaði honum án sjáanlegrar ástæðu þetta kvöld. Ákærði benti á að á Englandi myndu þær aðstæður að einhver væri á bar og færi á salernið þar sem menn kæmu inn og legðu hönd á öxlina á manni vekja ótta með mönnum. Aðspurður sagðist ákærði ekki þekkja aðra sem voru á salerninu. Ákærði sagðist hafa drukkið nokkra bjóra þetta kvöld. Aðspurður sagði ákærði að það mætti segja það að brotaþoli hafi staðið í vegi fyrir því að hann kæmist af salerninu. Hann hefði ekki hent glasinu í þeim tilgangi að það lenti á höfðinu á brotaþola heldur hafi hann hent því í þeim eina tilgangi að draga athygli aðila að einhverju öðru, hann hafi óttast að þeir væru með hníf. Ákærði sagðist hafa séð brotaþola eftir þetta atvik nokkrum mánuðum fyrir réttarhaldið á sama salerni, brotaþoli hafi tekið í höndina á honum  og óskað honum til hamingju með gott tímabil með [...] [...].

                Brotaþoli lýsti atvikum þannig að hann hafi farið inn á salernið til að kasta af sér vatni, þar hafi hann séð ákærða og sagt við hann að hann mætti ekki vera með bjórglas á salerninu, svo hafi hann snúið sér frá ákærða og hitt B á salerninu og farið að tala við hann. Allt í einu hafi hann fengið glasið í hnakkann, hann hafi beygt sig niður og farið að klósettunum og ákærði farið út. Aðspurður sagði brotaþoli að hann hafi ekki verið ógnandi við ákærða og myndi eftir að hafa sagt ákærða að fara út af salerninu þar sem ákærði hafi verið með bjórglas inni á salerninu. Brotaþoli hafi verið með vitninu E á salerninu. Brotaþoli hafi snúið baki að ákærða þegar hann hafi fengið glasið í sig. Brotaþoli neitaði því að hafa ógnað ákærða eða staðið í vegi fyrir því að ákærði kæmist út af salerninu. Brotaþoli hafi verið undir áhrifum áfengis. Brotaþoli sagðist hafa þekkt ákærða, jafnframt sagði brotaþoli að sárið hafi gróið og ekki verið nein eftirköst.  Aðspurður sagðist brotaþoli hafa verið með óþarfa stæla þegar hann hafi verið að skipta sér af ákærða á salerninu en minntist þess ekki að það hafi stafað ógn af honum við ákærða. Brotaþoli var spurður um skýrslu sem tekin var af B varðandi atvik umrætt kvöld þar sem B segir brotaþola hafa viljað henda ákærða útaf salerninu. Aðspurður sagðist brotaþoli hafa drukkið tíu bjóra. Brotaþoli sagðist hafa hitt ákærða eftir þetta í eitt skipti og þeir hefðu spjallað saman og verið allt í lagi á milli þeirra.

                Vitnið B kvað ákærða hafa verið inn á salerninu þegar brotaþoli hafi komið inn og verið svolítið æstur. Vitnið hafi farið út og hafa heyrt hljóð er glas hafi dottið í vaskinn og ákærði hafi komið út. Hann hafi hvorki séð er glasinu var kastað né séð brotaþola eftir árásina. Vitnið hafi ekki heyrt neitt tal um að ráðast á ákærða eða svoleiðis. Hann hafi byrjað á því að sækja annan dyravörð og farið síðan inn á salerni. Vitnið gat ekki fullyrt um það hvort ákærði og brotaþoli hefðu rifist.

                Vitnið C dyravörður kvaðst hafa staðið á ganginum, hurð inn á salerni hafi verið opin og einhverjir menn að tala saman inni. Hann hafi séð ákærða taka upp glas og brjóta á hausnum á brotaþola. Þetta hafi verið vel þéttingsfast högg og vitnið hafi séð og heyrt glasið brotna. Hann kvaðst þekkja brotaþola. Enginn hafi staðið í vegi fyrir ákærða og hurðinni hafi verið haldið opinni.

                Vitnið E kvaðst hafa verið á salerninu umrætt sinn. Hann hafi verið að pissa og þegar hann hafi snúið sér við hafi hann mætt brotaþola sem hafi verið blóðugur. Vitnið hafi hjálpað honum út og farið með honum til að hlúa að sa´rum hans og þurrka blóð. Vitnið mundi ekki eftir samræðum eða að verið hafi „fightingur“ eða þess háttar. Atvik hafi gerst fyrir aftan vitnið. Ekki vissi vitnið af hverju brotaþoli hefði talað til ákærða.

                Vitnið D sagðist hafa verið fyrir utan salernið þegar atvik urðu en hann hafi séð brotið glas á gólfinu og brotaþoli hafi verið blóðugur.

                NIÐURSTAÐA  

Ákærði hefur fyrir dómi og hjá lögreglu kannast við að hafa hent glasi í átt að brotaþola á skemmtistaðnum [...] á [...]. Við höggið hlaut brotaþoli skurð aftan við hvirfil. Ákærði ber því við að brotaþoli hafi ógnað sér, og þá hafi ákærði hent glasinu frá sér í því skyni að draga athygli frá sjálfum sér.

                Samkvæmt þessu liggur fyrir að ákærði hefur viðurkennt að hafa kastað bjórglasi í átt að brotaþola en við það skarst brotaþoli á höfði. Í ákæru er verknaður ákærða talinn varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Enda þótt ekki hafi hlotist stórfellt líkamstjón af árásinni beindist hún að höfði brotaþola og telur dómari það að kasta bjórglasi að brotaþola eins og þarna var gert vera sérstaklega hættulega aðferð. Er sannað að ákærði gerðist sekur um það brot sem honum er gefið að sök í ákæru með þeim afleiðingum sem þar er lýst. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brotið sem varðar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

                Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til 3. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt verður litið til þess að ákærði er með hreint sakavottorð. Að þessu gættu þykir refsing ákærða hæfileg fjögurra mánaða fangelsi en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.

                Brotaþoli krefst miskabóta úr hendi ákærða auk málskostnaðar. Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir líkamsárás er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða í greint sinn hafi valdið brotaþola miska. Á hann rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Þykja þær hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir.

                 Loks verður ákærða með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða sakarkostnað, samkvæmt yfirliti ákæruvalds. Skipaður verjandi ákærða, Örn Gunnarsson hdl., afsalaði sér málsvarnarlaunum.

Allan V. Magnússon, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

                Ákærði, X, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði A 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 3. apríl 2011 til 1. júlí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 37.650 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði 20.602 krónur í sakarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 10. október 2012.

                Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á [...] með ákæru 9. maí 2011 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...] á [...]. Málið var dómtekið 14. september 2012.

                Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir eftirtalin brot:

I.

Fyrir líkamsárás á [...], aðfararnótt sunnudagsins 22. maí 2011, á skemmtistaðnum [...] að [...], með því að hafa kýlt F, kt. [...], einu hnefahöggi með krepptum hnefa í andlitið á vinstri kjálkann þannig að hún féll niður á „poolborð“ sem hún sat á, og fyrir að hafa gert atlögu að henni fyrir utan skemmtistaðinn stuttu síðar, með því að henda henni í götuna, rífa í hár hennar og ýta henni ítrekað niður er hún reyndi að reisa sig við, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og bólgu á kjálkabeini vinstra megin, mar og yfirborðsáverka á hné og fótlegg og tognun á ökkla.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

II.

Fyrir líkamsárás á [...], aðfararnótt sunnudagsins 30. október 2011, á heimili ákærða

að [...], með því að hafa ráðist á F, kt. [...], rifið í hár hennar, hrist hana og dregið hana á hárinu inn í svefnherbergi þar sem hann henti henni upp í rúm, settist ofan á hana og sló hana utan undir, tók um munn hennar og nef með þeim afleiðingum að hún átti erfitt með andadrátt og að því loknu skallað hana í andlitið þannig að enni hans lenti á munni hennar allt með þeim afleiðingum að hún hlaut yfirborðsáverka í andliti og á hálsi og að báðar varir hennar sprungu þannig að úr blæddi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.  

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins en til vara að honum verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfa. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunni. Loks er gerð sú krafa að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

                Um lið I. í ákæru segir ákærði að hann neiti því að hafa kýlt brotaþola inni á skemmtistaðnum [...]. Hins vegar viðurkenni hann að hafa gert atlögu að henni fyrir utan skemmtistaðinn en neitar þó að hafa rifið í hár hennar. Hann viðurkenni að hafa einu sinni eða tvisvar ýtt henni í götuna. Að öðru leiti neiti hann sök. Um lið II. í ákæru segir ákærði að hann neiti sök.

I.

Aðfaranótt sunnudagsins 22. maí 2011 kl. 2:14 var óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] [...] þar sem brotaþoli var komin heim og kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás. Hún hafi verið að skemmta sér á [...] ásamt vinum sínum og ákærða, sem hafi greitt henni högg í andlit, hún hafi hlaupið út en ákærði komið á eftir henni hent henni í götuna rifið í hár henni og ítrekað ýtt henni niður þegar hún hafi reynt að reisa sig við. Segir í skýrslunni að brotaþoli hafi verið rauð og bólgin í andliti og sagst hafa slasað sig í ökkla eftir að ákærði hefði hrint henni í götuna. Þá sagði að brotaþoli hafi ekki sagst vera viss um hvort hún vildi kæra ákærða fyrir líkamsárás.

Brotaþoli kom síðan á lögreglustöðina á [...] hinn 24 mái 2011 og kærði ákærða fyrir líkamsárás sem hefði átt sér stað á [...][...] á [...] kl. 2:14 aðfararnótt 22. maí. Þau ákærðu hefðu nýlega slitið sambandi. Hún hafi verið með ákærða á skemmtistaðnum og hafi hún setið á billiardborði að ræða við G þegar ákærði hafi komið hlaupandi að henni og kýlt á vinstri kjálka hennar með krepptum hnefa. Þetta hafi verið fast högg, algerlega að tilefnislausu og hafi hún fallið niður á billiardborðið eftir höggið. Hún hafi því næst forðað sér út og þegar hún hafi verið komin út ásamt H hafi ákærði komið aftan að henni og hrint henni í götuna. Hún hafi dottið á akbrautina og litlu munað að bifreið hafi ekið á hana. Hafi ákærði ítrekað ýtt henni í götuna þegar hún reyndi að standa upp. Hafi hann rifið í hár hennar þar sem hún lá í götunni en H, I og J hefðu fjarlægt ákærða í burtu frá henni. Hún hafi því næst farið með H og leitað skjóls í bifreið og síðan verið ekið heim til sín. Brotaþoli kvaðst hafa fengið áverka á kinnina við hnefahöggið og tognað á ökkla eftir fallið í götuna og gengið með hækjur í fjóra daga á eftir. Hún hafi farið til skoðunar á Sjúkrahúsið á [...] daginn eftir vegna áverkavottorðs. Hún kvað ástæðu þess að hún hafi ekki lagt fram kæru strax vera þá að hún hafi verið hrædd við ákærða og vorkennt honum. Hann hefði oft verið ofbeldisfullur í sinn garð og þá sérstaklega þegar hann var undir áhrifum áfengis. Hún hafi hætt sambandi við hann fyrir um einum og hálfum mánuðði og frá því hafi hann verið að áreita hana og sagðist brotaþoli meðal annars hafa þurft að skipta um símanúmer.

H sagði í símaskýrslu sinni hjá lögreglu hinn 23. janúar 2012 að hún hefði verið á skemmtistaðnum [...] ásamt brotaþola umrætt skipti og þær verið á [...] hæð. Þær hafi verið við „poolborðið“ og verið að ræða við strák að nafni G. Hafi ákærði komið brjálaður, sennilega vegna þess að brotaþoli var að ræða við G og kýlt brotaþola í andlitið. Brotaþoli, sem setið hafi uppi á borðinu hafi lent með andlitið á borðinu við höggið. Eftir þetta hefði komið að strákur sem hafi haldið ákærða. Hún og brotaþoli hafi farið út en ákærði hafi komið út skömmu síðar og ráðist á brotaþola og hent henni í götuna. Brotaþoli hefði ítrekað reynt að standa upp en ákærði ýtt henni jafnóðum aftur í götuna. H hafi reynt að stöðva ákærða en hann þá ýtt henni í götuna líka. Skömmu síðar hafi J og I komið þar að og stöðvað ákærða. Þær brotaþoli hafi síðan farið af vettvangi í bifreið með þeim J, I og K. Aðspurð kvaðst hún telja að höggið hafi lent fyrir neðan auga og segir að um hnefahögg hafi verið að ræða.

G sagði í símaskýrslu sinni hjá lögreglu hinn 5. janúar 2012 að hann hefði verið á [...] hæð á [...] og hafi verið að ræða við brotaþola. Þau hafi staðið við billiardborð sem þarna er. Ákærði hafi síðan komið að á ferðinni og farið utan í brotaþola. Hann hafi ekki séð hvort hann hafi sett öxlina í hana eða kýlt hana. Hún hafi dottið á borðið við þetta. Hann hafi gripið utan um ákærða til þess að róa hann niður og sleppt honum er hann hafi verið orðinn rólegur og ákærði að því loknu farið út og G ekki séð hann meira þetta kvöld.

L sagði í símaskýrslu sinni hjá lögreglu hinn 5. janúar 2012 að hann hafi verið á [...] hæð [...]. Brotaþoli hafi verið að ræða við G og þau setið við billiardborð sem þarna er. Ákærði hafi reiðst við þetta og komið þar að og slegið G sem við það hafi lent utan í brotaþola og þau fallið á borðið. Einhverjir hafi síðan haldið ákærða en hann hefði náð að losa sig og hlaupið út á eftir brotaþola og þegar hann var kominn út hafi  hann séð ákærða standa yfir brotaþola sem hafi legið á jörðinni og hafi ákærði verið að öskra á hana. Ákærði hafi síðan verið stoppaður af og brotaþoli hafi farið af vettvangi ásamt vinkonu sinni. Aðspurður kvaðst L halda að ákærði hafi slegið eða reynt að slá G og ekki muna eftir að sjá ákærða slá brotaþola. Hann hafi heldur ekki séð ákærða gera annað en öskra á brotaþola fyrir utan [...].

I sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu hinn 5. janúar 2012 að hann hafi verið í bifreið ásamt J vini sínum á bifreiðastæði á móts við [...]. Hafi hann séð er brotaþoli og H hafi komið út af [...]og ákærði skömmu síðar og hafi hann skellt þeim harkalega niður í götuna. Hafi hann og J síðan farið þarna að og stöðvað ákærða og að því búnu hafi hann ekið brotaþola og H heim.

J sagði í skýrslu inni hjá lögreglu hinn 25. janúar að hann hefði verið á bifreið föður síns og stöðvað skammt frá [...]. Hafi hann séð H og brotaþola koma út um horninnganginn á [...]og ákærða skömmu síðar. Hafi verið greinilegt að þau væru að rífast. Ákærði hafi síðan rifið í brotaþola sem við það hafi fallið í götuna. Ákærði hafi síðan staðið yfir brotaþola og gert sig líklegan til þess að gera eitthvað meira. Hann hafi þá ákveðið að fara og aðstoða brotaþola og tekið ákærða til hliðar og rætt við hann. Brotaþoli og H hafi farið í bifreið hans og hann ekið þeim heim. Aðspurður kvaðst hann einungis hafa séð ákærða rífa brotaþola niður með þeim afleiðingum að hún féll í götuna.

K sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu 6. janúar 2012 að hún hafi verið í bifreið með J og I á móts við [...]. Hún hafi bara séð að brotaþoli lá í jörðinni og ákærði hafi verið að öskra eitthvað á hana. Hún taldi sig hafa séð ákærða slá H. Síðan hafi þeir J og I farið og stöðvað ákærða og að því loknu farið af vettvangi með brotaþola og H.

Í skýrslutöku hjá lögreglu hinn 5. mars sl. kvaðst ákærði í fyrstu ekki reiðubúinn að tjá sig um málið en lýsti yfir sakleysi sínu. Aðspurður um framburð vitna kvaðst hann ekki reiðubúinn að svara og þyrfti tíma til að útvega vitni sem gætu sagt hvað gerst hefði. Aðspurður um framburð vitna sem borið hefðu að hann hefði elt brotaþola út af [...] og hrint henni fyrir utan staðinn eða dregið hana niður í götuna og tosað í hár hennar í framhaldinu sagði ákærði að hann væri á því stigi ekki tilbúinn að svara neinu. Hann kvaðst ekki hafa heyrt um áverka sem greinir í áverkavottorði og ekki vera reiðubúinn að tjá sig um þá. Hann tók fram að hann og brotaþoli hefðu verið saman eftir þennan atburð og verið saman þar til skömmu fyrir skýrslutökuna og því vilji hann ekki ræða þetta.

Í áverkavottorði Njáls Vikars Smárasonar læknis segir að brotaþoli hafi komið til hans og sagst hafa orðið fyrir árás af hendi fyrrverandi kærasta þá nokkrum tímum áður. Við skoðun hafi hún verið í sjáanlegu uppnámi, hún hafi titrað og stutt hafi verið í grát. Hún hafi gengið án aðstoðar en haltrað og hlíft þannig vinstra fæti. Á höfði hafi mátt sjá ferskt mar yfir basis á kjálkabeini vinstra megin. Útlit áverka hafi samræmst ágætlega höggi með hnefa. Yfir áverkasvæði hafi verið bólga er teygt hafi sig upp að kinnbeini, en sjúklingur hafi ekki reynst vera hreyfiaum þar yfir. Ekki hafi verið klíniskur grunur um áverka á kjálkalið né kjálkabrot. Skoðun á hrygg hafi verið án athugasemda og ekki merki um áverka þar. Aftur á móti hafi sést við skoðun á útlimum 10 x 6 cm, ferskt mar, framarlega á sköflungi. Einnig minniháttar marblettir á hægri sköflungi, er einnig hafi virst nýlegir. Sjúklingur hafi kvartað undan verkjum í ökkla en hafi getað hreyft ökklalið við passífa hreyfingu. Væg þreifieymsli og þroti yfir fremra talo-fibular liðbandi. Hún hafi staðið þyngd en getað illa gengið. Heila- og taugaskoðun hafi verið án athugasemda sem og útlæg taugaskoðun. Engar myndir hafi verið teknar af áverkum á slysastofu. Segir síðan að læknirinn hafi greint mar og yfirborðsáverka á andliti, hné/fótlegg og tognun á ökkla.

II.

Sunnudaginn 11. desember sl. kom brotaþoli á lögreglustöðina á [...] og kærði ákærða fyrir líkamsárás sem átt hefði sér stað um miðnætti hinn 30. nóvember sl. að [...] þar í bæ. Hún kvaðst hafa verið að [...] að horfa á bíómynd ásamt ákærða og þau hafi farið að rífast varðandi notkun á Facebook. Hafi ákærði tryllst og stokkið á hana og rifið í hár henni og hrist hana til og sagði brotaþoli að háræðar á hálsi hennar hafi sprungið. Nokkrir strákar hefðu séð þetta í gegnum glugga. Hún kvaðst hafa sagt við ákærða að hún ætlaði heim en þá hafi hann tekið í hárið á henni og dregið hana inn í svefnherbergi og hent henni upp í rúm. Hann hafi sest ofan á hana og slegið hana utan undir, tekið utan um munn hennar og nef og þrýst niður. Brotaþoli kvaðst hafa misst andann og verið við það að kafna. Ákærði hefði þá tekið hendurnar frá og hafi skallað sig í andlitið. Hafi enni hans lent á munni hennar og við það hafi báðar varir hennar sprungið og blætt hafi úr þeim. Ákærði hefði því næst staðið upp og litið í spegilinn og séð tannafar á enni sér og við það hafi M komið inn í svefnherbergið. Brotaþoli hafi þá hlaupið út úr herberginu tekið dótið sitt og farið með M sem hafi skutlað henni heim. M hafi séð áverkann á henni og hún sagt honum hvað gerst hefði. Brotaþoli kvað N, O, P og Q hafa séð upphafið að  málinu en ekki líkamsárásina í svefnherberginu. Þeir hafi allir staðið við svefnherbergishurðina þegar brotaþoli kom þaðan út. Þeir hefðu ekki komið henni til hjálpar meðan á árásinni stóð og taldi hún líklegt að þeir hefðu hringt í M og beðið hann um að ganga í málið. Hún hafi ekki leitað til læknis eftir líkamsárásina og því liggi ekki fyrir áverkavottorð. Hún krafðist þess að ákærði yrði látinn svara til saka fyrir árásina og áskildi sér rétt til að leggja fram bótakröfu.

Q gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 26. janúar 2012. Hann sagðist hafa verið á leið að V ásamt þeim N, P og O. Er þeir hafi verið staddir baka til við blokkina hafi þeir heyrt mikil læti og öskur og hann séð óljóst inn um gluggann að eitthvað var að gerast inni í íbúðinni sem er á annarri hæð. Hann hafi ekki séð það beint en gardínur hafi verið fyrir gluggunum, þetta hafi verið skuggar þeirra. Þeir hafi síðan farið inn í íbúðina og þá hafi ákærði og brotaþoli verið komin inn í herbergi sem ákærði hafi til umráða og þeir heyrt öskur og læti koma þaðan. Hann hafi heyrt brotaþola segja á ensku að hún væri ekki að halda framhjá ákærða. P hafi bankað á dyrnar og kallað eitthvað á þau en ekki fengið nein viðbrögð. P hafi síðan hringt í M sem komið hafi fljótlega á vettvang og farið inn í herbergi og stoppað þetta og síðan farið með brotaþola af vettvangi. Aðspurður sagði Q að hann hefði ekki séð neina áverka á brotaþola en hún hafi verið grátin í framan og eldrauð en hún hafi sett hettu yfir höfuðið fljótlega eftir að hún kom út. Hann hafi séð að ákærði hafi verið klóraður á enni er hann kom út. Ákærði hafi verið rólegur og talað um að brotaþoli hafi verið að slá hann. Hann hafi heyrt hljóð úr herberginu eins og einhver hafi verið að slá einhvern en ekki vitað hver sló hvern. Hann hafi ekki séð þegar þau fóru inn í herbergið og því ekki geta sagt til um hvort ákærði hefði dregið brotaþola á hárinu þangað.

O sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu hinn 25. janúar sl. að hann hefði farið með félögum sínum að [...] en þar búi ákærði, N og P. Þeir hafi verið fyrir utan íbúðina og heyrt einhver læti inni í henni og því hlaupið inn. Þeir hafi ekkert séð þar sem millihurð hafi verið lokuð. Er þeir hafi komið inn hafi ákærði og brotaþoli verið komin inn í herbergi og þeir heyrt hávaða og öskur. Þeir hafi bankað á hurðina og spurt hvort ekki væri allt í lagi en engin svör fengið. Hann kvaðst hafa heyrt hljóð eða smell eins og einhver væri að slá einhvern. Þeir hafi ekki þorað að fara inn í herbergið og P því hringt í M [...] [...] og hafi hann komið skömmu síðar og farið inn í herbergið. M hafi síðan farið með brotaþola út úr íbúðinni. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð neina áverka á brotaþola þar sem hann hafi ekki séð framan í hana. Ákærði hafi síðan komið út úr herberginu u.þ.b. hálftíma seinna og hafi O séð að hann var  með smá áverka á vör og einnig hafi honum sýnst hann vera með smá kúlu á enni. Ákærði hefði talað um að þau hefðu lent í hörku rifrildi en ekki tjáð sig nánar um það. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa þorað inn í herbergið þar sem þeir hafi verið smeykir við ákærða og þess vegna hringt í M. Hann hafi ekki séð þau fara inn í herbergið og því ekki sagt til um hvort ákærði hefði dregið brotaþola á hárinu þangað.

P sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu hinn 25. janúar sl. að hann hefði verið að koma heim til sín að [...] þar sem hann deili íbúð með ákærða og N ásamt kunningjum. Þeir hafi verið fyrir utan íbúðina og séð að ljós var í henni. Þeir hafi heyrt hávaða, þau hafi verið að öskra á hvort annað og þeir því ákveðið að fara inn til þess að athuga með þetta. Er þeir hafi komið inn hafi ákærði og brotaþoli verið komin inn í herbergi og þeir heyrt öskur og læti koma þaðan. Einnig hafi hann heyrt hljóð, smelli eins og að ákærði hafi verið að slá hana. Þeir hafi ekki þorað að fara inn í herbergið og hann því hringt í M [...] og hann komið nokkru síðar og farið inn í herbergið. Hann hafi síðan farið með brotaþola út úr íbúðinni. Aðspurður sagði hann að hann hefði ekki séð neina áverka á brotaþola þar sem hann hefði ekki séð framan í hana þar sem hún hafi lotið höfði það mikið. Hann hafi séð að ákærði var með roða í andlitinu en ekki muna nákvæmlega hvar í andlitinu og að hann hafi rætt við ákærða sem hafi sagt að brotaþoli hafi skallað hann. Hann kvaðst ekki hafa þorað inn í herbergið og því hringt í M. Ekki hafi hann séð þau fara inn í herbergið og því ekki geta sagt til um það hvort ákærði hafi dregið hana á hárinu þangað.

N sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu hinn 20. febrúar sl. að hann hafi verið á leið að [...] ásamt þeim Q, P og O. Er þeir hafi verið staddir baka til við blokkina hafi þeir heyrt mikil læti og öskur en gluggarnir séu yfirleitt alltaf opnir. Þeir hafi séð skugga þeirra brotaþola og ákærða inni í íbúðinni sem er á annarri hæð en gardínur verið dregnar fyrir glugga. Hann hafi séð að þau hafi staðið andspænis hvort öðru og verið að öskra hvort á annað. Félagar hans hafi farið inn í íbúðina á undan honum en hann staðið þarna augnablik áður en hann hafi farið á eftir þeim. Hafi þeir þá allir verið í anddyri íbúðarinnar og síðan farið allir inn í íbúðina. Þegar hann hafi komið inn hafi brotaþoli og ákærði verið komin inn í herbergi sem ákærði hefur. Þeir hafi heyrt öskur og læti koma þaðan og P hafi bankað og beðið þau um að hætta en það ekki dugað. Loks hafi þeir hringt í M sem hafi komið skömmu seinna og farið inn í herbergið og gengið á milli brotaþola og ákærða. Þeir hafi ekki séð inn í herbergið þegar M opnaði. M hafi síðan komið út úr herberginnu með brotaþola sem hafi greinilega verið búin að gráta. Hún hafi síðan farið með M úr íbúðinni. Ákærði hafi komið út en farið inn aftur og komið síðan aftur fram. Hann hafi sýnt sér seinna um nóttina að hann væri með sprungna vör og einnig hafi hann verið með kúlu á enninu. Ákærði hafi sagt honum að þau hefðu verið við drykkju og verið að ræða um fyrrverandi kærasta og það hafi endað með því að þau hafi farið að rífast. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð neina áverka á brotaþola en hún hafi verið grátin í framan. Hann hafi ekki átt nein orðaskipti við hana. Hann kvaðst ekki hafa séð inn um gluggann að ákærði hefði dregið hana á hárinu inn í herbergið en hélt að einhver af strákunum hefði talað um það en mundi ekki hver. Aðspurður um hvers vegna þeir hafi ekki farið inn til þess að ganga á milli þeirra sagði hann að þeir hefðu eiginlega ekki þorað því þar sem það hafi verið svo mikil læti. Einnig að ákærði hefði sennilega ekki hlustað á þá og sagt þeim að fara út á meðan hann ræddi við brotaþola.

M sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu hinn 25. janúar sl. að hann hefði fengið hringingu frá P sem hafi spurt hann ráða en ákærði og brotaþoli væru inni í herbergi og sennilega að slást. M hafi sagt honum að fara inn í herbergi og stöðva þetta en P sagt honum að þeir þyrðu því ekki. Hafi hann því ákveðið að fara heim til ákærða, farið beint inn í herbergi. Þau hafi staðið í sitt hvoru horninu og hann skipað ákærða að fara út úr herberginu og sagt brotaþola að fara í úlpuna þar sem hann ætlaði að aka henni heim. Þau hafi bæði verið með bólgna vör og ákærði auk þess með sprungna vör og kúlu á hausnum. Brotaþoli hafi sagt honum á leið heim til hennar að þau hafi verið að rífast og í framhaldi af því hafi ákærði ráðist á hana. Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvers vegna strákarnir þorðu ekki inn til þess að stöðva slagsmálin. Ákærði hafi sagt honum að hún hefði slegið sig líka.

R móðir brotaþola gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 7. apríl sl. Hún kvaðst hafa verið heima hjá sér 30 október sl. er M hafi komið heim með brotaþola. Hún hafi verið grátandi, öll tætt, skyrta hennar hefði verið rifin. Hún hafi veitt því athygli að brotaþoli var rauð á hálsi og hafi séð að um háræðaslit væri að ræða. Hún hafi síðan skoðað áverka brotaþola betur og séð að hún hafi verið með lausar framtennur, spöng í framtönnum hafi verið sprungin og svo hafi vinstri kinn verið stokkbólgin. Aðspurð um frekari áverka sagði hún að blætt hafi úr tönnum og vörum brotaþola, hún hafi verið marin og hár hennar hefði verið reytt. Hún hafi tekið teygju úr hári hennar og hárlubbi fylgt með. Hún kvað brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefði dregið hana á hárinu inn í herbergi og þar hafi hann haldið fyrir vit hennar og skallað hana. M hafi sagt henni að strákarnir hafi hringt í hann þar sem þeir hafi ekki þorað inn í herbergi til þeirra ákærða og brotaþola. Er M hafi komið inn í herbergið hafi ákærði setið klofvega ofan á hálsi brotaþola og M rifið hann ofan af henni og farið út úr herberginu með brotaþola en ákærði  hafi þá elt þau ógnandi fram.

S sagði í skýrslu sinnin hjá lögreglu hinn 7. apríl sl. að hann hafi verið heima hjá sér að [...] er M hafi komið heim með brotaþola. Hún hafi verið í taugaáfalli, sýnt honum að hún væri með lausa framtönn, einnig hafi hár hennar verið mjög úfið. Hún hafi verið bólgin vinstra megin í andliti að hann minnti og með háræðaslit á hálsi, greinilega eftir einhver átök. Hún hafi sagt honum að ákærði hafi dregið hana á hárinu inn í herbergi og þar hafi hann reynt að kyrkja hana og skallað hana í andlitið. Brotaþoli hafi verið haldin mjög illa andlega þegar hún kom heim. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort hún hafi verið með áverka á vörum.

Ákærði sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu hinn 5. mars 2012 að hann neitaði sakargiftum. Spurður um framburð M þar sem fram kemur að brotaþoli hafi verið með bólgna vör sagði ákærði að hann hefði einnig verið með bólgna vör og það hefði brotnað úr tönn hjá honum. Einnig hafi hann verið með sár á nefi. Hann kvaðst ekki reiðubúinn að skýra sjálfstætt frá atvikum þar sem hann yrði að ráðfæra sig við verjanda sinn fyrst en vera reiðubúinn til þess eftir það. Væri ekki ólíklegt að hann legði fram kæru á hendur brotaþola í framhaldi af því. Hann vildi ekki tjá sig um þann framburð Q, O og P að mikil læti hafi heyrst frá herbergi hans og líka hljóð eins og einhver væri að slá einhvern. Aðspurður um hvort hann hafi slegið brotaþola í umrætt sinn kvaðst hann ekki hafa gert það. Aðspurður um hvort hann hefði skallað hana svaraði hann því að það hefði hann ekki gert, hún hefði skallað hann og það hafi verið þá sem M hafi komið inn. Spurður um hvort hann hafi haldið fyrir munn hennar og nef sagðist hann ekki hafa gert það, hann hafi sagt henni að hætta að veina þar sem hún væri að því án ástæðu. Þau hafi átt í deilum eins og svo oft áður. Hann kvaðst ekki hafa dregið hana á hárinu úr stofu íbúðarinnar og inn í svefnherbergi. Hann áréttaði að hann væri reiðubúinn að tjá sig um málið í smáatriðum þegar hann hefði rætt við verjanda sinn.

Skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi verið staddur á [...], litið yfir glerborð sem sé við sófa og séð brotaþola vera að kyssa og faðma annan mann. Ákærði hafi ekki verið mjög ánægður með þetta og hafi gengið yfir til þeirra og reynt að slá manninn við glerborðið. Brotaþoli hafi orðið mjög reið og farið út. Hann hafi síðan farið niður á eftir henni og viðurkenndi að hafa ýtt henni  niður í götuna. Hann kvað enga möguleika á því að hann hefði kýlt brotaþola í andlitið. Aðspurður um framburð vitna í lögregluskýrslum sagði ákærði að F væri vinkona brotaþola og að G hefði getað rekist utan í brotaþola. Hann hafi ekki komið nálægt því að snerta hana eða slá hana. Er út var komið hafi þau rifist og ásakað hvort annað. Hann kvaðst hafa fundið til áfengisáhrifa og fengið sér nokkra drykki á klukkutíma. Spurður um áverkavottorð sagði ákærði að brotaþoli hefði getað fengið áverka er hún hafi fallið á billiardborðið.

Um atvik að [...] sagði ákærði að þau brotaþoli hafi setið í sófa og hefðu fengið sér drykki. Brotaþoli hefði þó drukkið meira. Hún hafi verið í uppnámi. Hann hefði séð skeyti frá öðrum á Facebook síðu hennar en hún þá lokað fartölvu sinni og þau farið að rífast. Hann kvaðst hafa gripið í handlegg hennar á sófanum og beðið hana að segja sér sannleikann. Þau hafi verið farin að rífast mjög illilega og bíll komið að fullur af karlmönnum og stoppað fyrir utan íbúðina. Hafi þau farið inn í herbergi þannig að ekki sæist til þeirra. Þau hafi bæði staðið upp og ákærði ýtt á hana inn í herbergið. Þau hafi verið farið að hrópa og æpa á hvort annað og hún farin að gráta. Hún hafi slegið ákærða, þau hafi sest niður á rúmið og hrópað og kallað hvort á annað. Hún hafi reyna að slá ákærða með handleggjunum. Hann hafi þá sest ofan á hana og beðið hana að róa sig niður og hætta að æpa. Hún hafi haldið áfram að hrópa og hann beðið hana um að fara að þegja. Hún hefði fengið svona köst nokkrum sinnum áður. Hann hafi legið ofan á henni og ennþá hafi hún hrópað og svo hafi hún verið farin að reyna að klóra sig og slá og hann reynt að róa hana niður. Hann hafi lotið niður til þess að kyssa hana. Þá hafi hún lyft upp höfðinu og slegið hann á nefið. Hann hafi fengið áfall og haldið að þetta væri til þess að hún reyndi að losa hann ofan af sér. Þá hafi hann strax staðið upp og hefði verið brugðið. Þá hafi hann verið með blóðnasir og sprungnar varir. Hann hafi verið með mar öðrum megin á handleggnum. Hann hafi haldið um munn hennar og spurt hvern fjandann hún væri að gera. Þá hafi verið barið á hurðina og hann hafi farið til og þá hafi M [...] verið kominn. Hann hafi sagt að brotaþoli yrði að fara vegna þess að þau gætu ekki verið að rífast svona og ákærði kvaðst hafa verið sammála því. Hún hafi farið út og ákærði verið eftir í íbúðinni. Hann kvað hugsanlegt að hann hefði rifið í hár brotaþola er þau stóðu upp úr sófanum áður en þau fóru inn í herbergi. Hann kvað það geta verið að hann hafi tekið fyrir munn henni í eitt skipti vegna þess að hún hafi verið að æpa og að hún hefði fengið svona köst áður. Það hafi bara verið tvær manneskjur sem hafi getað róað hana niður úr þeim, annað hvort ákærði eða móðir hennar. Hann kvaðst hafa verið með kúlu á enni, blóðnasir og brotna tönn eða brot úr tönn og sár vinstra megin á andlitinu. Hann neitaði því að hafa skallað brotaþola og að áverkar hans stöfuðu af því. Hann hefði verið búinn að drekka tvo eða þrjá bjóra en hún miklu meira. Hún hefði ekki drukkið áfengi í þrjá til fjóra mánuði en átt í miklum vandræðum með samband þeirra þegar hún hefði drukkið áfengi. Aðspurður um hvort það væri rétt skilið að hún hefði skallað hana sagði ákærði það gæti hafa verið að hún hefði lyft upp höfðinu þegar hann hafi ætlað að reyna að kyssa hana. Hann hafi reynt að trúa því. En þegar hann hugsi um það síðar þá hljóti hún að hafa ætlað sér að skalla hann. Það hafi farið brot úr tönn hans við þetta. Þá mótmælti ákærði því að hafa dregið brotaþola inn í herbergi á hárinu en kvaðst hafa ýtt henni inn. Hann mótmælti því að hafa slegið hana þar sem hún lá í rúminu. Hann hafi einungis setið ofan á henni. Hendur hans hafi verið sitt hvorum megin við hana. Hann hafi reynt að halda henni niðri með hendurnar á öxlum hennar en ekki hrist hana með neinu ofbeldi. Um það hvort hann hafi hent henni upp í rúm segir ákærði að þau hafi sest á rúmið og hún þá slegið hann. Þá hafi hann sett hendurnar á axlirnar á henni og hún lagst niður og hann sest ofan á hana.

Ástarsamband þeirra hafi hafist í janúar 2011. Mestan tímann hafi þau verið saman en skilið svona einstaka sinnum einn eða tvo daga. Hún hafi nokkrum sinnum veitt honum líkamlega áverka fyrir utan þessi tilvik.

Brotaþoli, skýrði svo frá að þau hafi verið inni á [...] og verið að skemmta sér. Hún hafi setið ofan á poolborði og verið að tala við vin sinn. Þau hafi bæði  verið að drekka og ákærði hafi séð þau vera að tala saman og komið að þeim. Hann hafi ráðist á G, kýlt brotaþola, hún hafi fengið högg á andlitið og dottið niður í poolborðið. Svo hafi hún farið út með vinkonu sinni H meðan hann hafi verið að ráðast á strákinn. Hann hafi komið á eftir þeim og hrint henni á jörðina þegar hún hafi verið að reyna að standa aftur upp og eins með vinkonu hennar, hún hafi eitthvað verið að reyna að stoppa hann og tosa í hann og  þá hafi hann ýtt henni líka eitthvað við. Svo hafi komið einhverjir strákar og róað hann niður og hún farið inn í bíl hjá vini sínum og verið skutlað beint heim. Hún sagði aðspurð að ákærði hefði kýlt hana í andlitið og að hún hefði fengið mar og áverka á kinnbein. Mar og tognun á hné hafi stafað af því er hann réðist á hana fyrir utan. Hann hafi einnig kýlt G. Brotaþoli kvaðst ekki viss um hvort ákærði kýldi hana fyrst, hún myndi bara að hún að hún hefði fengið högg á andlitið eftir að ákærði hljóp að þeim og hún féll í borðið. Hún kvaðst ekki hafa verið búin að drekka mikið þetta kvöld.

Um atvik að [...] sagði brotaþoli að þau ákærði hefðu setið inni í stofu í sófa og hafi byrjað að rífast. Ákærði hefði misst stjórn á sér og byrjað að rífa í hárið á brotaþola og hrista á henni hausinn. Hún hefði farið að gráta og hann dregið hana inn í herbergi á hárinu og ýtt inn í herbergið með valdi. Hann hafi hent henni á rúmið, sest ofan á hana og byrjað að öskra á hana að róa sig niður. Hafi hann haldið fyrir munninn á henni og slegið til hennar. Svo hafi hún heyrt strákana koma inn og hún hafi verið öskrandi og ákærði að segja henni að róa sig niður. Þá hafi M [...] hans komið og farið með hana út. Hún kvað ákærða hafa slegið sig utan undir og hélt að hún hefði líka slegið til hans því  hún hafi verið skíthrædd, grátandi og í sjálfsvörn. Hún sagði aðspurð að hann hefði skallað sig. Hann hafi haldið fyrir vit hennar og hún hafi átt erfitt með andardrátt. Hún kvaðst hafa verið með sprungnar varir, blætt hafi úr nefi hennar og flísast hafi úr tönn. Hún hafi verið með æðaslit alveg niður á háls af því að ákærði hefði rifið í hár hennar. Spurð um tilefni þessarar árásar sagði brotaþoli að þau hafi verið að rífast og ákærði hefði misst stjórn á sér af því að hún hefði ekki viljað sýna honum eitthvað á netinu. Hann hafi viljað fara í tölvupóst hennar en hún neitað honum um það og þá hafi hann misst stjórn á sér. Þau hefðu bæði verið búin að fá sér í glas en ekki verið ölvuð. Hún kvað líðan sína líkamlega vera í lagi en hún hafi farið í viðtöl í kvennaathvarfið í marga mánuði eftir þetta. Það sé búið að hjálpa henni mikið að byggja sig upp. Henni var bent á að vitnin sem báru um atvik hjá lögreglu hafi ekki sagst hafa séð áverka á henni. Hún svaraði því til að þegar M hafi komið og tekið sig út hafi hún labbað fram, tekið töskuna sína og rokið út. Þeir hafi séð hana mjög lítið eða ekki neitt, bara staðið þarna stjarfir. Hárið á henni hafi allt verið fyrir andlitinu á henni og hún verið rosalega reytt. Aðspurð sagði brotaþoli að ákærði hefði setið ofan á henni og þau hafi skallast á og hafi hún haldið að hann hefði gert það viljandi. Þau hafi mæst, tönnin á henni hafi farið í höfuð honum, þess vegna hafi hann fengið kúlu. Eða ennið á honum farið í tönn á henni. Hún kvaðst ekki vita hvernig hefði getað flísast úr tönninni hjá honum. Það hafi flísast úr tönn á henni og það verið lagað. Hún kvaðst ekki hafa farið á slysadeild heldur beint heim. Hún hafði enga sérstaka skýringu á því hvers vegna hún hefði ekki farið á slysadeild.

Vitnið H, kvaðst hafa verið stödd á [...] umrætt kvöld og verið stödd við „poolborðið“ og brotaþoli setið á því. Brotaþoli hafi verið að tala við G. Hún hafi orðið vör við ákærða þegar hann hafi komið reiður og kýlt í brotaþola. Hún hafi dottið niður í „poolborðið“. Hann hafi farið að eiga eitthvað við G en vitnið hafi ekki orðið mikið vör við það. Hún hafi tekið F og hlaupið með hana niður og út. Þá hafi ákærði komið á eftir þeim og hent brotaþola í jörðina og ýtt henni ítrekað niður þegar hún hafi reynt að standa upp. Vitnið hafi reynt að tosa brotaþola upp en ákærði þá tekið veski vitnisins og hent í burtu og síðan hent vitninu til jarðar. Þá hafi einhverjir strákar komið og tekið hann frá en þær hlaupið inn í bíl og verið skutlað heim. Um það hvort ákærði hefði slegið G frekar en brotaþola sagði vitnið að hún hefði bara séð ákærða koma og kýla brotaþola í andlitið. Hún kvaðst ekkert vita um hvort ákærði sló G eða hvað hann gerði við G. Þarna hafi verið töluvert af fólki og þau setið nokkur í horninu og verið að spjalla.

Vitnið G, skýrði frá því að hann hefði staðið við „poolborðið“ og verið eitthvað að spjalla við brotaþola. Þá hafi ákærði komið á nokkrum hraða aftan að sér vinstra megin vitnið beygt sig niður til hægri og taldi vitnið að ákærði hefði með einhverjum hætti farið í brotaþola eins og hann orðaði það og hafi vitnið séð að brotaþoli lá á „poolborðinu“. Vitnið hafi tekið utan um ákærða þar til hann hafi róast niður. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða kýla brotaþola, þetta hafi komið svo fljótt. Ekki hafi hann fundið fyrir því að ákærði kýldi hann.

Vitnið L, kvaðst hafa verið uppi á [...] og G og brotaþoli verið að tala saman. Þau hafi setið uppi á „poolborði“. Vitnið hefði séð út undan sér að  ákærði hefði komið aftan að þeim og slegið til G við það hafi brotaþoli dottið og síðan hafi G tekið ákærða og haldið honum og brotaþoli hlaupið út á meðan. Vitnið hafi hlaupið út á eftir brotaþola en þá hafi ákærði hrint henni í jörðina og verið að öskra eitthvað á hana. Vitnið sagði aðspurt sér hefði sýnst ákærði slá til G. Hann hefði ekki séð ákærða kýla brotaþola. Hann hefði séð ákærða ráðast að brotaþola fyrir utan skemmtistaðinn, hann hefði ýtt henni og við það hafi hún dottið í jörðina. Nánar aðspurður sagði vitnið að ákærði hefði kýlt G í öxlina. Hann hefði komið aftan að G. Ekki vissi vitnið hvort ákærði hefði kýlt til G með krepptum hnefa.

Vitnið I, sagði frá atvikum 22. maí 2011 og kvaðst hafa verið að ná í systur sína og kærasta hennar. Þeir hafi beðið fyrir utan [...]. Þá hafi hann séð brotaþola og H labba út á eftir henni. Hafi ákærði þá komið og ýtt brotaþola í jörðina eða hrint henni mjög harkalega. Þá hafi H ætlað að hjálpa brotaþola eitthvað en ákærði þá ýtt henni í jörðina og síðan hafi hann byrjað eitthvað að rífa í hárið á brotaþola og verið eitthvað að öskra og svona. Þá hafi þeir farið út og stoppað þetta. Þegar vitnið hafi tekið af henni hafi ákærði ætlað að kýla vitnið en ekki tekist það því hann hafi verið alveg ofurölvi. Þá hafi vinur vitnisins komið og tekið ákærða og haldið honum. Og þeir hafi skutlað stúlkunum heim.

Vitnið J sagði að þeir hafi verið á bíl að sækja systur vinar hans og kærasta hennar. Þeir hafi verið staddir svona 5-10 metra frá [...], og beðið eftir að hún kæmi út. Þá hafi brotaþoli komið út um hornhurðina á [...], og ákærði á eftir henni og hún verið komin út á miðja götu þegar hann hafi rifið í hana og snúið henni við og þau átt einhver orðaskipti. Það hafi endað með því að hann hafi hent henni í jörðina og gert sig líklegan til þess að leggja hendur á hana. Þá hafi þeir stigið út úr bílnum og stoppað hana. Vinur vitnisins hafi hent ákærða frá og þá hafi ákærði ætlað að fara að honum en vitnið kvaðst hafa tekið ákærða. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða taka brotaþola niður. Hann hafi hent henni niður í jörðina með valdi. Hann hafi staðið yfir henni og hún ekkert að fara að standa upp frá honum.

Vitnið R, móðir brotaþola sagði að milli eitt og hálf tvö aðfararnótt 30. október sl. hafi M komið með brotaþola heim frá heimili ákærða. Brotaþoli hafi verið í áfalli og illa til reika með brotið úr tönn og sprungna vör. Hún hafi verið með dílablæðingar þ. e. húðblæðingar grunnar um háls og upp á höku. Hún kvað M hafa sagt sér að strákarnir sem hafi verið þarna inni hafi hringt í sig og beðið hann um að koma inn af því að þeir þyrðu ekki inn í herbergi til ákærða. Spurð um hár brotaþola sagði vitnið að hún hefði verið öll reytt. Hár hennar hefði verið út um allt og greiðsla öll úr lagi færð og ysta flík hennar hefði verið rifin. Seinna um nóttina hefði vitnið farið að taka úr hárinu á henni og þá komið stór lufsa með sem skilið hafi eftir sig smá skalla. Nánar aðspurð sagði vitnið að brotaþoli hafði sagt um skipti þeirra ákærða að það hefði verið eitthvað í sambandi við Facebook. Einhver orðaskipti hefðu orðið til þess að ákærði varð reiður og hafi byrjað að tosa í hárið á henni. Hvort hún hafi verið að tala við annan strák eða eitthvað þess háttar en þau hafi ekki verið saman á þessum tíma. Vitið sagði brotaþola hafa sagt að ákærði hafi dregið hana á hárinu inn í herbergi og hún slegið frá sér. Þar hafi hann hrint henni eða ýtt henni niður á rúmið og farið yfir hana. Sest klofvega yfir hana og skallað hana. Og sem sagt kýlt hana og aðallega þrengt að hálsinum, hún hafi talað mest um það að hún hafi ekki náð andanum. Henni hafi sortnað fyrir augum.

Aðspurð um hvers vegna brotaþoli fór ekki á slysadeild sagði vitnið að lögfræðingur sem þau hafi verið með hafi tjáð þeim þegar hún hafi hringt í hana á mánudagsmorgun að það þyrfti ekki fleiri áverkavottorð. Andlegt ástand brotaþola eftir þetta sé mjög slæmt og hún sé búin að vera í meðferð og viðtölum og hún get  ekki ennþá sofið vel. Hún sé ennþá með svona kvíðaröskun eftir þetta. Brotaþoli og ákærði hafi verið búin að slíta sambandi sínu er hún fór til hans umrætt sinn.

Um atvik 22. maí 2011 sagði vitnið að er brotaþoli kom heim hafi hún ekki getað stigið í annan fótinn og verð lurkuð og í áfalli. Hún hafi verið rosalega reið yfir því að ákærði hefði komið svona fram við sig. Hún hafi sagt um áverka á fæti að ákærði hefði hrint sér og ýtt ítrekað niður í götuna. Hún hafi snúið sig illa á ökkla við það. Hún hafi verið með stórt mar á kinnbeini.Vitnið kvaðst hafa hringt í lögreglu og farið með brotaþola á læknavaktina strax um morguninn. Hún sagði að önnur framtönn brotaþola hafi verið laus og brotið hafi verið upp úr henni.

Vitnið S, stjúpfaðir brotaþola sagði um atvik 22. maí 2011 að brotaþoli hafi verið í hálfgerðu áfalli eftir þetta Hún hafi verið rispuð og illa til fara þegar hún kom heim. Og í áfalli. Hún hafi verið með áverka á fæti en að öðru leyti kvaðst vitnið ekki muna mikið eftir atvikum vegna þess að mestur tíminn hafi farið í að hugga brotaþola.

Um atvik 30. október sagði vitnið að [...] [...] hafi komið heim með brotaþola. Hún hafi verið í mjög slæmu ástandi, í áfalli titrað öll og skolfið og grátið og litið mjög illa út. Hún hafi verið með mjög sýnilega áverka, sprungnar varir og flísast hefði upp úr tönn hjá henni. Þetta hafi þau móðir hennar skoðað mjög vel. Á hálsi hennar hafi verið dílar eins og það hafði orðið einhver áverki þarna á hálsinum og handleggnum. Hún hafi verið öll rifin og tætt eftir þetta. Þetta hafi ekki verið fallegt. Brotaþoli hafi sagt að hún hefði farið til ákærða í þeim tilgangi að ræða við hann og að þau hafi ætlað að reyna að skilja í góðu og hafa þetta svona á góðu nótunum. Hún hafi farið til hans skildist vitninu að horfa á sjónvarpið og eiga svona einhverja kvöldstund því honum liði eitthvað illa. Síðan hafi hann dregið hana á hárinu inn í herbergi til að athafna sig þar í friði með hana og sest þar yfir hana, skallað hana og kýlt hana.

Vitnið P, skýrði frá því að sunnudaginn 30. október sl. hefðu hann og fleiri verið fyrir utan [...]. Þeir hafi séð einhverja skugga í stofunni og einhver læti, heyrt einhver öskur. Þannig að þeir hafi litið allir hver á annan og verið hissa og hikandi. Svo hafi þeir ákveðið að fara inn, farið upp stigann og síðan inn í íbúðina. Þeir hafi heyrt að ákærði hafi tekið brotaþola með sér inn í herbergið sitt. En þeir hafi alltaf heyrt öskrin og lætin og síðan hafi þeir ætlað að fara heim. Það hafi verið öskur og læti og vitnið hafi reynt að öskra á ákærða og segja honum að hætta þessu því hún hafi öskrað alveg þó nokkuð. Hann hafi reynt að banka á hurðina en ekkert gerst. Hann hafi búist við að hurðin væri læst og svo hafi hann hringt í M [...]og sagt honum að það væru einhver læti þarna heima og svo hafi hann komið stuttu seinna. Hann hafi farið inn í herbergi og tekið þau í sundur.

Vitnið kvaðst hafa heyrt einhvern smell þegar hann var inni í húsinu. Spurður um áverka á brotaþola sagði vitnið að Þegar hún hafi komið út úr herberginu hafi hún verið með hausinn svona niðri þannig að vitnið hafi ekki séð neitt. Hann hafi ekki séð framan í brotaþola. Ákærði hafi verið með bólgna vör.  Ekki sá vitnið hvort ákærði dró brotaþola á hárinu inn í herbergi. Vitnið var allsgáð og var að koma frá [...]. Hann sagði aðspurður að ákærði hefði verið með roða í andliti auk bólginnar varar. Ákærði hefði sagt þeim að brotaþoli hefði skallað sig. Ákærði hefði sagt að þetta hafi bara verið venjulegt. Bara eins og ekkert hafi í skorist. Vitnið sem bjó með ákærða í íbúð sagði að það hefði alltaf verið vesen á milli þeirra. Hann kvaðst hafa heyrt brotaþola öskra inni í herbergi og heyrt hana hrópa „stop it – stop it“. Þeir hafi verið fjórir þarna frammi og allir frosið. Vitnið hafi síðan hringt í M.

Vitnið Q sagði um atvik 30. október að [...], að hann hefði verið að vinna við [...] í versluninni [...] umrætt kvöld. Hann ásamt félögum sínum hefðu, er þeir nálguðust blokkina, séð skugga í gegnum gluggatjöld, skuggann af ákærða og brotaþola. Er þeir hafi komið inn í íbúðina hafi þau verið komin inn í herbergi, vitnið heyrði að þau rifust öskruðu á hvort annað eins og vitnið orðaði það. Hann hefði verið að saka hana um að vera með öðrum strákum en vitninu var ekki ljóst hverju hún svaraði. Honum fannst hann heyra hljóð eins og slegið væri saman og vitnið sló saman lófum til þess að sýna hvernig hljóðið var sem hann taldi sig heyra. Og er brotaþoli kom út þá hafi hún verið útgrátin en vitnið sá ekki hvort hún hefði áverka eða ekki. Hann sagði að ákærði hefði verið klóraður í andliti við gagnauga af því að vitnið taldi en var þó ekki alveg viss um hvort það var á gagnauga eða enni eða annars staðar. Ekki varð vitnið vart við að hann hafi verið með meiðsli á nefi eða vörum. Vitnið var spurt um hvers vegna þeir hafi ekki hringt í lögregluna. Sagði vitnið að þeir hefðu hringt í M sem er [...] [...]  [...] en þeir hefðu ekki þorað að fara inn í herbergið. Vitnið hefði heyrt að ákærði væri ofbeldisfullur en persónulega þekkti hann ákærða ekki mikið. Honum hafi sýnst inn um gluggann eins og þau væru að hrista hvort annað. Hann hafi ekki séð ákærða draga brotaþola á hárinu. Hann hafi séð framan í hana er hún kom út úr herberginu og hafi hún verið grátin og rauð í framan. Hann sagði að ákærði hefði sagt að hún hefði slegið sig og klórað.

Vitnið O sagði að þeir hann ásamt félögum sínum hefðu verið þarna fyrir utan íbúðina og heyrt einhver læti í glugganum og farið upp stigann. Þetta sé á annarri hæð. Þeir hafi farið inn og millihurðinni hafi verið hallað aftur. Þeir hafi ekki séð neitt í rauninni og þegar þeir hafi komið inn í íbúðina hafi ákærði og brotaþoli verið komin inn í herbergi. Þaðan hafi þeir heyrt einhver læti og einhver hljóð. Vitnið kveðst hafa frosið og ekki vitað hvað hann ætti að gera. Félagi hans vitnið P hafi farið að banka á hurðina og þeir haldið að hurðin væri læst. Hafi P reynt að banka á hurðina og reynt að segja eitthvað sem ekki hafi virkað neitt þannig að hann hafi hringt í M [...] og þeir beðið hann að koma. Þeir hafi heyrt hljóð og einhver öskur úr herberginu og hljóð sláhljóð eins og vitnið orðaði það. Spurður um orðaskil sagðist vitnið hafa heyrt rifrildi og „stop hurting me“ og hafi brotaþoli sagt það. Þegar hún hafi komið út hafi hún grúft sig niður og vitnið ekki séð framan í hana. Ákærði hafi komið fram og verið með sprungna vör og kúlu á enninu. Ákærði hafi sagt að þetta væri ósköp venjulegt þetta hefði bara verið rifrildi.

Vitnið N sagði að þeir hefðu verið við [...] í [...]. Þegar þeir hafi komið til baka hafi þeir heyrt læti uppi og þeir stoppað eitthvað og verið að pæla í því hvort þeir ættu að hringja í lögguna. Svo hafi þeir farið upp, en það hafi sést svona skuggi af því að það var ljós inni. Þá hafi vitnið séð þau rífast og vera mjög nálægt hvort öðru. Þá hafi strákarnir verið farnir upp og vitnið farið ég á eftir þeim. Þegar hann hafi komið upp hafi þeir staðið í anddyrinu þarna en hurð á milli verið lokuð. Þau hafi greinilega verið farin inn í herbergi og verið að rífast þar. Þeir hafi ekkert vitað hvað þeir ættu að gera þannig að þeir hafi eitthvað verið að banka og segja þeim að hætta þessu og svo hafi þeir á endanum hringt í M. En þá hafi mjög mikil læti verið inni í herberginu. Hann hafi heyrt öskur og þau hafi bæði verið að öskra. Þá hafi heyrst hljóð eins og þegar höndum er klappað saman eða eins og einhver væri að slá annan utan undir. Hann hafi bara heyrt öskur í brotaþola en ekki skilið orðaskil hjá ákærða. Hann kvaðst ekki hafa séð vel framan í brotaþola. Hann hafi ekki séð áverka en heyrt daginn eftir að hún væri greinilega mikið meidd. Ákærði hafi verið með sprungna vör og kúlu á hausnum.

Vitnið Njáll Vikar Smárason læknir mundi eftir komu brotaþola árla morguns 22. maí 2011. Hún hafi verið í talsverðu uppnámi. Hann staðfesti áverkavottorð og sagði aðspurður um verknaðarlýsingu í ákæru að hún gæti passað. Spurður um hvort áverki á kinn brotaþola gæti stafað af hnefahöggi sagði vitnið að það væri frekar staðbundið og engir áverkar aðrir í kring eins og ef hún hefði dottið eða eitthvað slíkt. Þannig kvaðst hann halda að það væri mjög líklega eftir hnefahögg. Þá gæti áverki á hné og tognun stafað af falli í götuna. Aðspurður um hvort áverki á andliti gæti stafað af  því að einhver rækist harkalega á brotaþola sagði vitnið það hæpið ef hann færi í hana með öxl. En ef hann hefði dottið með hnefann á hana eða skallað hana undir kjálkann þá gæti það gengið en ekki af öxl.

Vitnið M sagði  að vitnið P hafi hringt í sig um hálf eitt eða eitt að nóttu til og sagt að ákærði og brotaþoli væru að slást inni í herbergi. P hafi sagt að þeir þyrðu ekki að fara inn í herbergi og skilja þau að. Vitnið fór á staðinn og beint inn í íbúðina og spurði strákana hvar þau væru og fór beint inn í herbergið þar sem þau voru. Þá hafi þau staðið í sitthvoru horninu í herberginu og rifist. Hann hafi sagt ákærða að koma sér strax út úr herberginu og fram í stofu og síðan hafi hann sagt brotaþola að hún skyldi klæða sig í úlpuna vitnið ók henni heim. Hann sagði að það hafi blætt úr vörinni á ákærða og svo hafi hann verið með stóra kúlu á enninu. Brotaþoli hafi verið með bólgna vör Ekki hafi brotaþoli sagt vitninu ítarlega hvað hefði gerst.

Vitnið Helgi Pétur Ottesen lögreglumaður sagði um atvik 22. maí 2011 að hann hefði fengið tilkynningu um að fara að [...] út af stúlku sem hefði orðið fyrir líkamsárás fyrr um nóttina. Þeir hafi farið þangað og rætt við foreldra hennar og þar hafi brotaþoli setið í stól. Henni hafi verið mikið niðri fyrir, grátandi og í miklu uppnámi. Hún hafi sagst hafa verið á [...] ásamt vinum sínum fyrr um nóttina. Þar hefði fyrrverandi eða núverandi kærasti hennar ráðist á sig. Hann hefði ráðist á sig með því að slá sig hnefahöggi í andlitið á meðan hún hafi setið uppi á billjardborði og það hefði verið fast högg. Hún sagðist skömmu síðar hafa reynt að fara út af [...] og hann hefði elt sig út og út á götu og hrint sér í götuna og gert það ítrekað. Rifið í hárið á sér og hrint sér í götuna þangað til að hann hafi verið stoppaður af. Þá sagðist hún hafa farið heim til sín. Hún hafi ekki verið blóðug eða neitt svoleiðis en verið töluvert rauð í andliti og kvartað undan verkjum í fótleggjum og greinilega liðið mjög illa yfir þessu öllu saman.

Þá staðfesti vitnið skýrslu sína um kæru brotaþola vegna atvika 30. október sl.

Um I.

Af hálfu ákæruvaldsins er fallið frá þeirri verknaðarlýsingu í I. lið ákæru að ákærði hafi rifið í hár brotaþola fyrir utan skemmtistaðinn [...] 22. maí 2011.

Vitnið H hefur borið að ákærði hafi slegið brotaþola í andlitið með krepptum hnefa á skemmtistaðnum [...] en vitnið stóð við hlið brotaþola. Þá kom fram hjá vitninu Njáli Vikari Smárasyni lækni að högg hafi valdið áverka á andliti brotaþola og ekki líklegt að hann stafaði af því að einhver hefði rekist á hana. Þá hefur brotaþoli sjálf verið trúverðug og staðföst í lýsingu sinni á atvikum. Loks er til þess að líta að vitnið G bar að ákærði hafi veist að þeim brotaþola þar sem þau voru á tali. Enda þótt hann hafi ekki séð ákærða greiða brotaþola hnefahögg dregur framburður hans ekki úr vægi framburðar ofangreindra vitna um atlögu ákærða að brotaþola. Framburður vitnisins L sem kvaðst hafa séð atvik út undan sér þykir ekki hnekkja því sem fram kemur hjá öðrum vitnum og brotaþola sjálfri um að ákærði hafi greitt henni högg í andlit umrætt sinn.

Þá kemur fram hjá vitnunum H, L, I og J að ákærði elti brotaþola út af skemmtistaðnum og henti henni í götuna og ýtti henni ítrekað niður enda er þetta viðurkennt af honum sjálfum. 

Samkvæmt öllu framansögðu þykir hafið yfir allan vafa að ákærði hafi gerst sekur um brot þau sem honum eru gefin í sök í fyrsta lið ákæru að því undanskildu að hafa rifið í hár brotaþola og eru brot hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Um II.

Ákærði sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hugsanlegt væri að hann hefði rifið í hár brotaþola er þau stóðu upp úr sófanum áður en þau fóru inn í herbergi. Hann sagði að hann hefði ýtt brotaþola inn í herbergið eftir að þau hefðu staðið upp og einnig að hann hefði sest ofan á hana og beðið hana að róa sig niður. Jafnframt kom fram í skýrslu hans að hann hafi tekið fyrir munn henni í eitt skipti vegna þess að hún hafi verið að æpa. Af þessu verður ekki annað ráðið en að ákærði hafi neytt aflsmunar í skiptum sínum við brotaþola umrætt sinn og að hann hafi átt frumkvæði að því að átök urðu með þeim. Þá þykir mega leggja frásögn brotaþola um áverka þá er hún hlaut í viðureign þeirra ákærða til grundvallar hér en hún hefur verið stöðug og er studd framburði móður hennar og stjúpföður. Þá er ljóst af framburði vitnanna Q, O, P og N að mikil átök voru með brotaþola og ákærða. Kom fram hjá vitnunum að þeir hefðu heyrt hljóð úr herberginu líkt og lófum væri slegið saman og þykir það styðja þá frásögn brotaþola að ákærði hafi greitt henni högg. Þá sögðu vitnin P og O að brotaþoli hafi beðið ákærða um að hætta. Þegar litið er til þessa alls þykir sýnt fram á að ákærði hafi rifið í hár brotaþola sest ofan á hana, slegið hana utan undir, tekið um munn hennar og nef með þeim afleiðingum hún átti erfitt með andardrátt en þegar litið er til lýsingar ákærða og brotaþola á atvikum að því að þau skölluðust á eins og brotaþoli orðaði það þykir ekki vera komin fram sönnun um að ákærði hafi skallað brotaþola viljandi.

Samkvæmt öllu framansögðu þykir hafið yfir vafa að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás eins og honum er gefið í sök í öðrum lið ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði var dæmdur til 4 mánaða fangelsisvistar hinn 2. apríl sl. fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir þann dóm hafði hann ekki sætt refsingu svo kunnugt sé. Verður honum nú dæmdur hegningarauki við fyrrgreindan dóm sem þykir hæfilega ákveðinn fangelsi í 45 daga en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.

Loks verður ákærða með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ákæruvalds og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Arnars Þórs Stefánssonar hrl. 250.000 krónur auk ferðakostnaðar að fjárhæð 52.380 krónur.

                Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

                Ákærði, X sæti fangelsi í 45 daga en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði greiði 147.197 krónur í sakarkostnað og 250.000 krónur í málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns auk 52.380 króna í ferðakostnað verjanda.