Hæstiréttur íslands

Mál nr. 4/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 4. janúar 2011.

Nr. 4/2011.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Ingvar Þóroddsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. D. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. janúar 2011 klukkan 18 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.  Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. janúar 2011.

Mál þetta, barst dóminum 1. janúar sl, með bréfi sýslumannsins á Akureyri.  Að lokinni skýrslutöku fyrir dómi var málið tekið til úrskurðar.

Krafa sýslumannsins á Akureyri er sú, að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi í eina viku, til laugardagsins 8. janúar nk. á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. Þá er þess krafist að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur skv. b lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. 

Kærði krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldskröfunni verði hafnað, en til vara að varðhaldinu verði markaður skemmri tími.  Þá andmælir kærði þeirri kröfu að hann verði látinn sæta einangrun.

Í greinargerð sýslumanns, líkt og áréttað var fyrir dómi, er vísað til þess að lögreglan á Akureyri hafi til rannsóknar þrjú kærumál á hendur kærða,  Varði kærurnar annars vegar líkamsárásir og hins vegar hótanir.  Hafi kærði verið handtekinn kl. 04:30 aðfaranótt 1. janúar vegna rannsóknar málanna.

Í greinargerðinni segir að afskipti lögreglu af kærða hafi hafist aðfaranótt 1. janúar sl. þegar tilkynning barst um að líkamsárás hefði átt sér stað á heimili hans, og sambýliskonu, að [...].  Við komu hafi lögreglumenn verið upplýstir um að kærði hefði sparkað í maga sambýliskonu sinnar A fæddrar, 1989, en síðan gegnið í skrokk á konunni B fæddri 1991, og m.a tekið hana hálstaki og slegið hana tvisvar í andlit, er hún hafi reynt að koma sambýliskonunni til aðstoðar.

Í greinargerð sýslumanns segir einnig að nokkru fyrir ofangreind afskipti þessa nótt hafi lögreglu borist tilkynningar frá sambýlisfólkinu C, fæddum 1984, og D, fæddri 1980, að kærði hefði viðhaft mjög alvarlegar hótanir gegn þeim.  Segir að tilefni þessarar hótana hafi tengst væntanlegum vitnisburði C í dómsmáli sem ákæruvaldið hafi höfðað gegn kærða og fleiri aðilum vegna ætlaðrar líkamsárásar, frelsissviptingar og fjárkúgunar.  Verði aðalmeðferð þessa máls háð í lok næstu viku.  Fram kemur að lögreglan hafi talið tilefni til að rannsaka hvort að kærði hafi að undanförnu ítrekað haft samband við C í því skyni að fá hann til að haga vitnaframburði sínum í nefndu dómsmáli þannig að þjóni hagsmunum hans.  Er á það bent að lögreglan rannsaki þannig staðhæfingar nefnds sambýlisfólks um að kærði hefði tengst líkamsárás  gegn konunni á síðasta ári og þá í því skyni að hafa áhrif á  vitnisburð í umræddu dómsmáli.

Af hálfu sýslumanns er um rökstuðning fyrir nefndum kröfum á það bent að lögreglan sé að rannsaka ætluð brot gegn 108. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Rannsóknin sé á frumstigi, en eftir eigi að taka skýrslur af fórnarlömbum ætlaðra líkamsárása svo og vitnum að þeim hótunum sem kærði er grunaður um að hafa viðhaft og þá einnig ætlaðri líkamsárás henni tengdri.  Látið er í ljós það álit að veruleg hætta sé á því að kærði muni beita vitni líkamlegu ofbeldi eða hótunum til að fá þau til að haga framburði sínum á þann hátt sem honum líki í væntanlegu dómsmál ákæruvaldsins, föstudaginn 7. janúar nk.

Af hálfu kærða er kröfum sýslumanns andmælt eins og áður er rakið.  Vísar hann m.a. til þess að engin gögn liggi fyrir um afleiðingar ætlaðra líkamsárása hans, og varðandi atgang hans og sambýliskonunnar hafi fremur verið um heimiliserjur að ræða.  Fyrir dómi var staðhæft að orð kærða við C í síma aðfaranótt 1. janúar sl. hafi varðað annað málefni en umrætt dómsmál, en jafnframt staðhæft að þá hefðu fallið gagnkvæm brigslyrði.  Að öðru leyti var kæruefninu andmælt.  

Niðurstaða.

Kærði er grunaður um endurtekin brot gegn 1. mgr. 217. gr., og 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  

Fyrir dóminn hafa verið lagðar lögregluskýrslur og önnur gögn, þ. á m. tvær vitnaskýrslur

Framlögð rannsóknargögn lögreglu eru að áliti dómsins í samræmi við lýsingu sýslumanns í greinargerð.  Segir m.a. frá því í frumskýrslu að konan B, sem er leigjandi á heimili kærða og sambýliskonu hans, hafi verið flutt á slysadeild sjúkrahúss aðfaranótt 1. janúar sl.

Verður að ofangreindu virtu á það fallist að rannsókn málsins sé á byrjunarstigi og að fyrir hendi sér rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.  Í því efni verður til þess horft að rannsóknin beinist m.a að líkamsárs gegn sambýliskonu, sbr. ákvæði 3. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, en einnig að ætluðum hótunum kærða er tengjast tilraunum til að hafa áhrif á skýrslugjöf fyrir dómi í sakamáli.  Er þar einnig um mikilsverða hagsmuni að ræða, sem verndaðir eru af fyrrnefndri 108. gr. hegningarlaganna.

Í ljósi ofangreinds eru efni til að fallast á röksemdir sýslumanns að úrskurða beri kærða í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna sbr. 1. mgr. a lið 95. gr, en einnig á grundvelli d-liðar,. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. 

Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. janúar n.k. kl. 18:00.  Þá er fallist á þá kröfu sýslumanns, að meðan á gæsluvarðhaldsvist kærða stendur skuli hann látinn vera í einrúmi, sbr. b-lið 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. janúar n.k. kl. 18:00  Skal vistin vera í einrúmi, sbr. b-lið 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.