Hæstiréttur íslands

Mál nr. 315/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Landamerki
  • Landskipti
  • Dómstóll
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                         

Mánudaginn 23. ágúst 1999.

N. 315/1999:

Bára Bergmann Pétursdóttir

Elsa Fanney Pétursdóttir

Pétur Guðráður Pétursson

Birna Ragnheiður Pétursdóttir og

Ólöf Ragna Pétursdóttir

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

gegn

Guðmundi Guðmundssyni

Lárusi Guðmundssyni

Jósefínu Guðmundsdóttur

Jónu Guðrúnu Guðmundsdóttur

Guðbjörgu Guðmundsdóttur

Herdísi Björnsdóttur

Kristjáni Guðmundssyni

Ólafi Guðmundssyni

Hönnu Ákadóttur og

Látravík ehf.

(Karl Axelsson hrl.)

Kærumál. Landamerki. Landskipti. Dómstólar. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Eigendur jarðarinnar M höfðuðu mál til staðfestingar á landamerkjum jarðarinnar við jarðirnar N og K. Talið var að ekkert lægi fyrir um að hjáleigunni M hefði verið skipt út úr höfuðbólinu N með formlegum hætti, en um slík skipti gildi ákvæði laga um landskipti nr. 46/1941. Því var talið að sakarefnið ætti ekki undir héraðsdóm. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. ágúst sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 19. júlí 1999, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þau krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Til vara krefjast þau þess að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilar dæmdir til að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða í sameiningu varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðilar, Bára Bergmann Pétursdóttir, Elsa Fanney Pétursdóttir, Pétur Guðráður Pétursson, Birna Ragnheiður Pétursdóttir og Ólöf Ragna Pétursdóttir, greiði í sameiningu varnaraðilum, Guðmundi Guðmundssyni, Lárusi Guðmundssyni, Jósefínu Guðmundsdóttur, Jónu Guðrúnu Guðmundsdóttur, Guðbjörgu Guðmundsdóttur, Herdísi Björnsdóttur, Kristjáni Guðmundssyni, Ólafi Guðmundssyni, Hönnu Ákadóttur og Látravík ehf., hverjum fyrir sig samtals 50.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 19. júlí 1999.

Ár 1999, mánudaginn 19. júlí, er dómþing Héraðsdóms Vesturlands háð á reglulegum þingstað í Borgarnesi. Dómendur eru Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari, dómsformaður, og meðdómendurnir Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari og Ágúst Gunnar Gylfason landfræðingur. Fyrir er tekið kl. 11:00: Málið nr. E-100/1998, Bára Bergmann Pétursdóttir og fleiri gegn Guðmundi Guðmundssyni og fleirum, og í því kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

                Stefnendur þessa máls eru Bára Bergmann Pétursdóttir, kt. 021235-3269, Grundargötu 29 Eyrarsveit; Elsa Fanney Pétursdóttir, kt. 230737-4289, Funalind 1 Kópavogi; Pétur Guðráður Pétursson, kt. 250751-4279, Grundargötu 72 Eyrarsveit; Birna Ragnheiður Pétursdóttir, kt. 270447-5709, Stekkjarholti 11 Snæfellsbæ, og Ólöf Ragna Pétursdóttir, kt. 200840-2409, Grundargötu 64 Eyrarsveit.

                Í málinu er stefnt Guðmundi Guðmundssyni, kt. 260450-2479, Neðri-Lá Eyrarsveit; Lárusi Guðmundssyni, kt. 071038-4889, Vesturvangi 22 Hafnarfirði; Jósefínu Guðmundsdóttur, kt. 260843-8189, Skipholti 55 Reykjavík; Jónu Guðrúnu Guðmundsdóttur, kt. 311247-3369, með óþekkt heimilisfang í Bretlandi; Guðbjörgu Guðmundsdóttur, kt. 171241-2279, Gnoðarvogi 68 Reykjavík; Herdísi Björnsdóttur, kt. 120735-2099, með óþekkt heimilisfang í Bandaríkjum Norður-Ameríku; Kristjáni Guðmundssyni, kt. 311044-4439, Fyrvärkarbacken 23. 9. F.R., Stokkhólmi Svíþjóð; Ólafi Guðmundssyni, kt. 120746-4999, Fagurhólstúni 3 Eyrarsveit; Hönnu Ákadóttur, kt. 260939-6109, Stölhaugsyn Husnes Noregi, og Látravík ehf., kt. 420269-2779, Grundarlandi 12 Reykjavík. Auk þessara stefndu var stefnt sem eignardómsmál væri „öðrum þeim sem telja sig eiga beinan eða óbeinan eignarrétt að landamerkjum þeim sem fram koma í dómkröfum stefnenda”, eins og segir í stefnu.

                Málið var höfðað með birtingu stefnu á hendur stefndu Jósefínu 20. ágúst 1998, á hendur stefndu Látravík ehf. 21. s.m., á hendur stefndu Guðbjörgu 24. s.m., á hendur stefnda Lárusi 26. s.m., á hendur stefndu Lárusi og Ólafi 14. spetember 1998. Það telst hafa verið höfðað á hendur stefndu Jónu Guðrúnu og Herdísi með birtingu stefnu í Lögbirtingablaði nr. 98, 26. ágúst 1998, og á hendur öðrum þeim nafngreindum stefndum sem ótaldir eru, við þingfestingu málsins 14. október 1998.

                Af hálfu annarra en þeirra sem nafngreindir eru sem stefndir hér að framan, var ekki sótt þing í málinu né tekið til varna.

                Stefnda, Látravík ehf., er eigandi jarðarinnar Króks í Eyrarsveit, en hinir stefndu eru eigendur jarðarinnar Neðri-Lár.

                Við þingfestingu var málinu frestað til 9. desember 1998 og þá aftur til 13. janúar 1999, en þá voru lagðar fram greinargerðir stefndu, eiganda Króks og eigenda Neðri-Lár. Málið var næst tekið fyrir 16. mars sl., en þá var því frestað til 3. maí, en þá var gengið á vettvang. Þingað var því næst í málinu 31. maí, og því þá frestað til 24. júní, en þá fór fram málflutningur um formhlið máls, þ.e. frávísunarkröfu stefndu annarra en Látravíkur ehf. Stefnda Látravík krafðist upphaflega frávísunar málsins, en féll frá þeirri kröfu með yfirlýsingu, lagðri fram í réttinum 31. maí. Gerir hún ekki kröfur nema málskostnaðarkröfu.

                Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þessar:

1.             Að staðfest verði svofelld landamerki fyrir jörðina Mýrarhús við Lárvaðal í Eyrarsveit:

                Að sunnanverðu ræður bæjarlækur frá punkti 13 (X=753743.57; Y=505166.65), þar sem hann fellur í Lárvaðal, beina línu í punkt 14 (X=753661.13; Y=505216.73), þar sem farvegurinn verður ógreinilegur, en þaðan beina línu í Kjóavörðu, punktur 1 (X=753541.15; Y=505307.84). Frá Kjóavörðu er bein lína í norður í tvo steina sem eru við lækjarsytru, svokallaða tvísteina, punktur 2 (X=753527.98; Y=505407.50) og þaðan bein lína í punkt 4 (X=753534.83; Y=505496.35), sem er skurðpunktur við Bóndavallalæk, en hann ræður merkjum að norðanverðu, frá punkti 11 (X=753763.07; Y=505453.39), þar sem lækurinn fellur í Lárvaðal, upp á móts við mógrafir, punktur 8 (X=753618.28; Y=505466.85) og í punkt 4(X=753534.83; Y=505496.35, eins og fram kemur á uppdrætti á dskj. nr. 68.

2.             Að viðurkenndur verði hlutfallslegur réttur Mýrarhúsa til óskipts lands í Stöðinni (Brimlárhöfða) frá norðvestari mörkum Mýrarhúsa, Bóndavallalæk, að Ytri-Urðargarði í eignarhlutföllunum 5,75 hundruð af 24 hundruðum, en til vara í hlutföllunum 10 hundruð af 47 hundruðum.

3.             Að viðurkenndur verði hlutfallslegur réttur Mýrarhúsa að heildarbakka Lárvaðals frá farvegi Hólalækjar (X=753494.70; Y=504166.68) að mörkum Hellutáar, í hlutföllunum 10 hundruð af 47 hundruðum.

4.             Að stefndu, öðrum en Látravík ehf., verði gert að greiða stefnendum, óskipt, málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati réttarins.

5.             Í frávísunarþætti málsins var þess krafist af hálfu stefnenda að frávísunarkröfu stefndu yrði hrundið og stefnendum dæmdur málskostnaður úr hendi stefndu að mati dómsins.

                Dómkröfur stefndu annarra en Látravíkur ehf., þ.e. eigenda Neðri-Lár, eru þessar:

Aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.

Til vara að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda.

Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnendum verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.

Af hálfu stefndu Látravíkur ehf. eru ekki gerðar aðrar kröfur en um hæfilegan málskostnað að mati réttarins.

Athugasemd dómenda: Í skjölum máls er jörðin Neðri-Lá ýmist svo rituð eða Neðri-Lág. Í dóminum verður hafður rithátturinn Neðri-Lá, sbr. Lárvaðall og Lárós, sbr. lá í merkingunni sjór eða smábára við strönd. Rithættinum Neðri-Lág er þó haldið þar sem hann kemur fyrir í tilvitnunum.

Um málavexti, málsástæður og lagarök segir í stefnu að hinn 17. ágúst 1976 hafi Pétur Konráðsson afsalað með gjafaafsali til barna sinna, stefnenda þessa máls, eignarjörð sinni Mýrarhúsum í Eyrarsveit, með því húsi sem á jörðinni var og öllu því landi sem jörðinni hafði fylgt og fylgdi eftir eldri afsölum. Þó hafi Pétur tekið fram í afsalinu að það væri hans ósk að ekki yrði byggt eða gert jarðrask á svonefndri Hjallasnoppu í landareigninni. Pétur hafi eignast jörðina með afsali frá móður sinni, Elísabetu Stefánsdóttur, dags. 28. september 1963, en þar hafi verið tekið fram að jörðin væri að stærð 5,54 hundruð. Elísabet hafi keypt jörðina af Pétri A. Ólafssyni með afsali dags. 19. október 1933.

Stefnendur hafi reynt að kanna eldri eignarheimildir og skjöl sem kynnu að geta tekið af tvímæli um landamerki Mýrarhúsa, en sú leit hafi ekki borið árangur.

Í gerðardómi, sem upp hafi verið kveðinn 15. desember 1974, út af landamerkjum jarða við Lárós og Lárvaðal í Eyrarsveit hafi landamerkjum ofangreindra jarða verið lýst á skilmerkilegan hátt. Stefnendur telji af þeim sökum að ekki eigi að vera ágreiningur um landamerki Mýrarhúsa. Í gerðardóminum segi svo um landamerki Mýrarhúsa:

“Landamerki Mýrarhúsa eins og þeim var lýst á vettvangsgöngu 19.9.1974, en eldri heimildir um landamerki er ekki að finna í þinglesnum landamerkjaskrám.

Ágreiningur er ekki talinn um það land sem Mýrarhús hafa nú úrskipt og eru landamerki þessi:

Að norðan ræður Bóndavallalækur upp á móts við mógrafir, en túngirðingin er 10 m sunnar á Lárvaðalsbakkanum, þar sem lækurinn fellur fram af honum. Þaðan ræður bein stefna upp í „þúfu” nokkuð upp í hlíðinni en úr henni eru 271 metrar [svo] niður á bakkann, þar sem Bóndavallalækur fellur í Lárvaðal. Frá þessari „þúfu” er svo línan um tvo steina sunnar og neðar, sem eru við lækjarsytru og þaðan fluktar „þúfan” í steina, sem liggja ofan og norðar í hlíðinni. Frá þessum tveimur steinum liggur svo línan í svokallaða Kjóavörðu, þaðan er stefnan í lækjarfarveg á bakkanum við Lárvaðal, rétt sunnan við gamla bæjarstæðið, (Bæjarlækur) að þvergirðingunni stutt neðan við Kjóavörðu og ræður hún að Mýrarhúsagirðingu að sunnan, sem ræður svo merkjum á milli Neðri-Lágar og Mýrarhúsa.

Landamerki á milli Mýrarhúsa og Neðri-Lágar eru eins og fyrr er lýst túngirðingin á milli bæjanna og línan til fjallsins.”

Í stefnu segir að ofangreind lýsing á landamerkjum sé í samræmi við aðaldómkröfu stefnenda, en hnitin í endanlegri kröfugerð stefnenda voru sett við vettvangsgöngu 3. maí 1999.

Þá segir í stefnu að gerðardóminum hafi verið þinglýst á báðar jarðirnar, og hvorki þá né síðar hafi verið gerð athugasemd við niðurstöðu hans né þinglýsingu af hálfu eigenda Neðri-Lár, en í gerðardóminum sé sérstaklega tekið fram að ekki sé ágreiningur um land Mýrarhúsa. Í vettvangsgöngu þeirri sem lýst sé í gerðardóminum, hafi verið einn hinna stefndu, Lárus Guðmundsson, sem fulltrúi Neðri-Lár, ásamt Sigurði heitnum Ólasyni hrl., en fyrir hönd Mýrarhúsa hafi verið mættur þáverandi eigandi, Pétur Konráðsson, faðir stefnenda þessa máls. Ekki verði séð að nein andmæli hafi verið borin fram af hálfu fulltrúa Neðri-Lár gegn ofangreindum landamerkjum.

Stefnendur benda á að samkvæmt undirmati fasteignamatsmanna fyrir Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu frá árinu 1916 komi fram að landamerki ofangreindra jarða séu ágreiningslaus. Sömu sögu sé að segja um fasteignamatsbækur fyrir sömu sýslur frá árinu 1930, þar sem einnig komi fram að enginn ágreininngur sé um landamerki þessarar jarða.

Stefnendur reisa kröfu sína um eignarrétt sinn í Stöðinni (Brimlárhöfða) á gerðardóminum frá árinu 1974, þar sem tilgreind séu ummæli úr greinargerð Jóns Kr. Sveinssonar, fyrirsvarsmanns Látravíkur, Skerðingsstaða og Króks. Jón telji eignarhluta Mýrarhúsa vera 5,75 af 24 hundruðum eða 24% á móti Neðri-Lá og Króki. Einnig benda stefnendur á vettvangsgöngu, sem minnst sé á í gerðardóminum, þar sem getið sé um sameiginlega beit þessara þriggja jarða í Stöðinni.

Til stuðnings kröfu sinni um að viðurkenndur verði réttur Mýrarhúsa að bakkanum að Lárvaðli vísa stefnendur til umfjöllunar í niðurstöðum gerðardómsins í 5. tölulið, þar sem heildarbakkalengd með Lárvaðli frá gamla farvegi Hólalækjar að mörkum Hellutáar sé skipt milli jarðanna Mýrarhúsa, Neðri-Lár, Króks, Efri-Lár og Lárkots, og komi 800 metrar í hlut Mýrarhúsa.

Stefnendur segjast reisa kröfur sínar á því að þeir hafi fengið jörðina Mýrarhús til fullrar eignar og umráða frá löglegum eiganda hennar, Pétri Konráðssyni, föður stefnenda. Þeir hafi ætíð talið sig hafa eignarrétt að ofangreindu landi, enda hafi það verið nytjað átölulaust í tugi ára. Vísa stefnendur máli sínu til stuðnings til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905. Þeir leggja áherslu á að þeir viti ekki til þess að nein formleg andmæli hafi á liðinni öld komið fram gegn landamerkjum jarðarinnar Mýrarhúsa og ekki fyrr en á síðasta ári [1997]. Vegna ágreiningsins sem upp er kominn beri nauðsyn til að fá framgreind landamerki staðfest með dómi, sbr. lög um landamerki nr. 41/1919. Þá er af hálfu stefnenda vísað til XVIII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 122. gr. varðandi heimild til höfðunar eignardómsmáls.

Í greinargerð stefndu segir um málsástæður og önnur atvik og lagarök fyrst, að jörðin Neðri-Lá muni hafa verið landnámsjörð, enda eigi hún land allt frá svonefndum Urðargarði norðan í Stöðinni (Brimlárhöfða) allt að Mýrarhyrnu. Svo sem fram komi í fram lögðu greinargóðu yfirliti Örnefnastofnunar sé jörðin stór, eftir því sem jarðir séu í Eyrarsveit, og hafi hún verið aðaljörðin, en snemma hafi orðið þar tvíbýli og annar bær byggður ofar, nær fjallinu, Efri-Lá. Hjáleigur hafi verið þrjár, Mýrarhús, Krókur og Lárkot, en ekki sé vitað hvenær til þeirra var stofnað. Í sýslu- og sóknarlýsingum fyrir Snæfellsnes frá 1840 sé jörðin Neðri-Lá með hjáleigunum Mýrarhúsum og Króki metin til 20 hundruða, en Lárkot og Efri-Lá hvor um sig til 10 hndr. Í jarðabók 1861, með nýju jarðamati, sé Neðri- Lá með hjáleigunum tveimur hækkuð í mati í 22,1 hndr., en þá hafi flestar jarðir í Eyrarsveit verið lækkaðar í mati. Engum vafa sé undirorpið að sjósókn hafi átt drjúgan þátt í verðmætaaukningu jarðarinnar. Jörðin hafi átt uppisátur við túnjaðar sinn, í svokallaðri Hjallasnoppu [Hún er innan þeirra landamerkja sem Mýrarhúsamenn krefjast í málinu. Innskot dómenda]. Vitnað er í greinargerðinni til áðurnefndrar lýsingar Örnefnastofnunar, þar sem segir m.a.: „Frá Lá var útræði, var lendingin niður undan bænum, sem stendur skammt frá sjónum.” Í sýslu- og sóknarlýsingu Eyrarsveitar frá 1873 segi um jörðina Neðri-Lá, að útræði sé þaðan frá túninu út og inn um ós vaðalsins. Í þeirri sóknarlýsingu sé ekki minnst á útræði frá Mýrarhúsum eða Króki, aðeins getið um ástand túnblettsins. Þessi lýsing hafi verið sett fram 6 árum eftir að Mýrarhús hafi sannanlega verið seld undan jörðinni.

Þá segir í greinargerð stefndu að engin skrifleg gögn hafi fundist þess efnis að hjáleigunni Mýrarhúsum hafi nokkurn tíma verið með formlegum hætt skipt út úr landi Neðri-Lár, svo sem fram komi í stefnu, og henni mörkuð formleg merki sem slíkri. Hins vegar hafi Mýrarhús verið seld með afsalsbréfi, dags. 27. júní 1867, sbr. framlagt skjal. Muni hér vera um að ræða fyrsta afsal fyrir sölu jarðarinnar. Í þessu afsali sé þó ekki getið landamerkja, en augljóst virðist að það sem selt var, hafi verið túnbletturinn, metinn til eins kúgildis, og húsin á jörðinni; ennfremur „réttindi til lands og sjóar”, eins og í afsalinu segi án nánari útleggingar. Fyrir liggi mismunandi skilningur á því hvaða merki hin útskipta hjáleiga hafi og hafi haft. Í landamerkjaskrá fyrir Neðri-Lá frá 14. júní 1885, fram lagðri, sé lýst merkjum jarðarinnar, en engin formleg landamerkjaskrá sé þá, fremur en fyrr eða síðar, gerð fyrir Mýrarhús. Eigendur hjáleignanna Mýrarhúsa og Króks riti undir landamerkjaskrá Neðri-Lár. Í gjörðabók fasteignamats frá 1916, fram lagðri, séu engir fyrirvarar í kaflanum um Neðri-Lá í þá veru að land í svokallaðri Stöð sé í sameiginlegu eignarhaldi með fleiri jörðum. Athyglisvert sé einnig að í sömu heimild sé um landamerki Mýrarhúsa vísað til landamerkja Neðri-Lár, um annað en svokallað slægjuland. Á þessu verði engin grundvallarbreyting við fasteignamatið 1930, og er vísað til fram lagðra gagna.

Í greinargerð stefndu segir að aðdragandi að gerðardóminum frá 15. desember 1974 hafi verið sá, að eigendur Neðri-Lár hafi þá átt í deilum við eigendur Lárvíkur vegna stofnunar veiðifélags til að stífla Lárós og koma þar upp laxeldisstöð. Deilurnar hafi m.a. snúist um gerð arðskrár, en forsenda hennar hafi ekki hvað síst verið eignarhaldið á ósnum sjálfum. Til að leysa þessi mál hafi verið gerð sátt með aðiljum á fundi í Stykkishólmi hjá sýslumanninum í Snæfellsnessýslu. Þar hafi mætt f.h. Neðri- Lár einn eigenda, stefndi Guðmundur Guðmundsson, og Sigurður Ólason hrl. og fyrir hönd Lárvíkur og veiðifélagsins Jón Kristinn Sveinsson. Sátt hafi verið gerð um að sýslumaður tilnefndi þrjá menn í gerðardóm til að úrskurða landamerki milli þeirra jarða sem land eiga að vatnasvæði Láróss í Eyrarsveit. Viðkomandi aðiljar hafi tekið að sér að afla samþykkis jarðeigenda á þeirri meðferð. Í sáttinni sé fyrirvari þess efnis að aðiljum sé heimilt að áfrýja gerðinni til yfirmats eða dómsstóla.

Þá kemur fram í greinargerð stefndu að þau telji gerðardóminn afar furðulegan bæði að formi og efni. Landamerki viðkomandi jarða hafi verið tiltölulega skýr í landamerkjaskrám, ef frá séu talin landamerki Neðri-Lár og hjáleigu hennar, Mýrarhúsa, og merkin milli Neðri-Lár og Látravíkur við Lárós. Ennfremur hafi verið ágreiningur um hvar ákvarða skyldi rennsli Hólalækjar, en um hann séu merki milli Neðri-Lár og Skerðingsstaða, og þá um leið hvar lína skyldi dregin í Lárós yfir Lárvaðal. Í gerðardóminum séu endursögð skráð landamerki jarðanna við vatnið úr þinglýstum landamerkjaskrám, en þó virðist gerðardómurinn breyta þessum þinglýstu landamerkjum og yfirfæra land jarða til annarra. Búin hafi verið til ein eining úr öllum jörðunum við norðanvert vatnið og kallað Lárpláss. Sérstaka athygli hafi vakið að gerðardómurinn hafi klárlega farið út fyrir valdsvið sitt þegar hann virðist, þótt með óljósum hætti sé, taka afstöðu til þess hvort tiltekin landsvæði séu í sameign eða ekki. Þá hafi ós Hólalækjar verið ákvarðaður við rennsli eins og það var fyrir árið 1926 og merkjalínan í Lárósi í miðjan ós, sem þýddi að bein lína úr lækjarfarveginum í miðjan ósinn hefði skorið stykki úr Lártúninu. Síðast en ekki síst sé að finna í forsendum gerðardómsins lýsingu á landamerkjum Neðri-Lár og Mýrarhúsa, sem Lármenn hafi ekki kannast við og hvergi finnist annars staðar í skráðum heimildum. Við þessa niðurstöðu hafi eigendur Neðri-Lár ekki getað unað, og hafi þeir neytt heimildar í sáttinni sem gerðardóminum lá til grundvallar. Í greinargerð stefndu er í þessu sambandi vitnað til bréfs Sigurðar Ólasonar hrl. til gerðardómsins sjálfs, dags. 12. janúar 1975, og bréfs hans til sýslumannsins í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu frá 13. maí s.á. (Bæði bréfin fram lögð í málinu). Síðan hafi verið rekið sérstakt mál fyrir aukadómþingi Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, upphaflega fyrir landamerkjadómi. [Heiti málsins í dóminum er landamerkjamál nr. 1/1975: Eigendur Neðrilár (upp talin nöfn þeirra) með stuðningi eiganda Efrilár og Lárkots (jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins) og eigenda Mýrarhúsa (upp talin nöfn) gegn eigendum Innri Lárvíkur og Ytri Lárvíkur (upp talin þrjú nöfn) og eigendum Skerðingsstaða og Króks (nöfn tveggja eigenda, sem líka eiga Lárvíkur) – Innskot dómenda]. Undir rekstri nefnds máls (í greinargerð) segja stefndu að af þeirra hálfu hafi enn verið tekinn upp áskilnaður um að þau væru algerlega óbundin af niðurstöðum gerðardómsins. Tvisvar hafi verið krafist frávísunar málsins, en í bæði skiptin hafi kröfu um hana verið hrundið. Í úrskurði dómsins um fyrri frávísunarkröfuna, upp kveðnum 2. september 1978, segi m.a.: „Eins og fyrr greinir lauk gerðardómurinn störfum hinn 15. desember 1974, en með heimild í tilvitnaðri sátt gerðu eigendur Neðri-Lágar gangskör að því að landamerkjamál þetta yrði upp tekið. Frávísun málsins verður því ekki byggð á því að gerðardómurinn hafi verið bindandi fyrir málsaðila.”

Þá segir í greinargerð stefndu að endanlegur dómur í fyrrgreindu máli hafi gengið 29. september 1984. Í honum hafi merki Skerðingsstaða og Neðri-Lár verið ákvörðuð við ós Hólalækjar eins og hann er nú. Einnig hafi verið kveðið á um merki Lárvíkurjarða og Neðri-Lár. Dómurinn hafi vísað frá kröfum varnaraðila um skilgreiningu þess hvað væri Lárpláss og ákvörðun eignaraðildar í landi Út-Stöðvar. Stefndu vekja á því athygli að í dómsorði segi um landamerki við Lárós: „Milli Lárvíkurjarða og Neðrilár ráði bein lína úr Víkurrifsodda í punkt á stíflu yfir Lárós . . .”  Í greinargerð stefndu kemur fram að svo hafi verið litið á, meðan á málaferlum þessum stóð, að höfuðágreiningurinn væri við Lárvíkurmenn, enda nánast allar jarðirnar við norðanvert vatnið í andstöðu við þá (að undanteknum Króki, sem verið hafi í þeirra eigu). Mikilvægt hafi því verið talið að halda samstöðu þessara jarða og opinbera ekki innri ágreining að svo stöddu.

Málsástæður stefndu fyrir frávísun málsins eru tvær. Í greinargerð stefndu segir orðrétt: „Aðalkrafa stefndu um frávísun máls þessa frá dómi byggir á þeirri staðreynd, sem ítarleg grein hefur verið gerð fyrir hér að framan, þ.e. að ósannað er að jörð stefnenda Mýrarhús hafi nokkurn tímann verið skipt út úr jörð stefndu Neðri Lág, að minnsta kosti ekki með formlegum hætti. Hitt kann að vera og er raunar líklegt að upphaflega hafi verið ráðstafað til hjáleigunnar Mýrarhúsa ákveðnum húsum, túnum auk annarra þrengri afnota sem nýtt hafa verið í skjóli eignarréttar höfuðbólsins, Neðri Lágar. Mýrarhús hafa þannig í raun enn, að hluta til a.m.k., lagalega stöðu hjáleigu. Um form, efni og framkvæmd landskipta gildir og hefur gilt [svo] á hverjum tíma ákveðnar lögbundar reglur, sbr. nú lög um landskipti nr. 46/1941. Frá slíkum fyrirmælum verður ekki vikið við formleg útskipti á fasteign. Burtséð frá þýðingu og gildi umrædds gerðardóms er ljóst að hann megnar aldrei, hvorki að formi eða efni að upphefja lagafyrirmæli og efnisreglur um landskipti og ákvörðun landamerkja. Hefur sá dómur því enga þýðingu við úrlausn álitaefnis þessa. Dómur verður því ekki lagður á kröfugerð stefnenda í því formi sem hún liggur fyrir í máli þessu. Á málið þannig ekki undir dóminn sem leiðir þegar til frávísunar þess í heild, sbr. 1. mgr. 24. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.”

Samkvæmt greinargerð stefndu byggðu til vara frávísunarkröfu sína á því að ágallar væru á kröfugerð; ósamræmi milli dómkröfu, lýsingar í gerðardómi, staðhátta og uppdráttar þess sem liggur dómkröfunni til grundvallar. Eftir vettvangsgöngu 3. maí sl. bætti lögmaður stefnenda úr óskýrleika kröfugerðar, m.a. með hnitum merkjapunkta á nýjum uppdrætti, sbr. endanlega kröfugerð stefnenda. Við málflutning um frávísunarkröfu lýsti lögmaður stefndu yfir því að frávísunarkrafan væri ekki lengur byggð á málsástæðu um óskýrleika landamerkjakröfu samkv. kröfulið nr. 1 í endanlegri kröfugerð stefnenda. Hins vegar byggja stefndu kröfu sína um frávísun 2. töluliðar í kröfugerð stefnenda enn á óskýrleika kröfugerðar. Segir í greinargerð stefndu að þau telji ódómtæka kröfu stefnenda um rétt til hlutdeildar í óskiptu landi í Stöðinni (Brimlárhöfða). Kemur fram í greinargerðinni og var lögð á það áhersla af hálfu stefndu við málflutning að landsvæði það sem krafist væri hlutdeildar í, væri ekki nægilega skýrt afmarkað.

Forsendur og niðurstöður.

Svo sem skýrt kemur fram bæði í stefnu og greinargerð stefndu, eigenda Neðri-Lár, hefur ekki fundist skrá yfir landamerki milli jarðanna Neðri-Lár og Mýrarhúsa, og er ekki að sjá að hún hafi nokkru sinni verið gerð. Engri skriflegri lýsingu á þessum merkjum er til að dreifa nema þeirri er skráð var í forsendur gerðardómsins frá 15. desember 1974. Í afsölum fyrir Mýrarhús, sem lögð hafa verið fram, er ekki að finna landamerkjalýsingu. Hið elsta þeirra er frá árinu 1867, og er röð þeirra síðan óslitin til gjafabréfs til núverandi eigenda. Þannig segir í elsta afsalinu, frá 1867, að jörðin sé seld „með öllum jörð þessari fylgjandi húsum og einu ásauðar kúgildi í leigufæru standi, og með öllum þeim réttindum til lands og sjóar, sem henni fylgt hafa og fylgja eiga, nú leigðri með 2gja vætta landskuld og 20 v smjörs í leigur ..  . .” Síðari afsöl bæta hér engu við. Í fram lögðu ljósriti úr gjörðabók fasteignamats fyrir Snæfellsnes-og Hnappadalssýslu frá árinu 1916 (í skjalaskrá stefnenda kallað endurrit úr undirmatsbók) er um landamerki Mýrarhúsa vísað til landamerkja Neðri-Lár. Þar segir: „Landamerki söm og fyrir Lág neðri nema fyrir slægjulandi.” Svo sem á er bent í greinargerð stefndu, eigenda Neðri-Lár, verður ekki á þessu breyting við fasteignamat 1930.

Mýrarhús voru hjáleiga frá höfuðbólinu Neðri-Lá. Að framanrituðu athuguðu fallast dómendur á það með stefndu, eigendum Neðri-Lár, að landi hjáleigunnar hafi aldrei verið formlega skipt út úr landi höfuðbólsins, nema svo yrði litið á að í forsendum gerðardómsins frá 15. desember 1974 felist slík útskipti. Kemur þá til álita hvort stefnendum er rétt að byggja kröfur sínar um landamerki á lýsingu gerðardómsins, eins og þeir gera, og þá um leið hvort stefndu, eigendur Neðri-Lár, eru bundnir af þeirri lýsingu að hluta eða í heild.

Grundvöllur gerðardómsins var sátt sem gerð var í sakadómi Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu 19. júlí 1974. Þar komu fyrir dóminn Jón Kristinn Sveinsson, formaður Veiðifélagsins Lárvíkur (einn eigenda Innri- og Ytri Látravíkur, Skerðingsstaða og Króks); Guðmundur Guðmundsson, einn stefndu í þessu máli, eigenda Neðri-Lár, og með honum Sigurður Ólason hrl. Dómsáttin er svohljóðandi:

„Samkomulag er um það, að sýslumaður Snæfellinga tilnefni 3 menn í gerðardóm til þess að kveða á um og úrskurða landamerki milli allra þeirra jarða, sem land eiga að vatnasvæði Láróss í Eyrarsveit. Skal gerð þessi framkvæmd hið allra fyrsta. Aðilum verði tilkynnt hvenær gerð þessi fer fram, svo að þeim gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Aðilum sé heimilt að áfrýja gerð þeirri, sem framkvæmd verður, til yfirmats eða dómstóla. Aðilar taka að sér að fá samþykki þeirra jarðeigenda á svæðinu, sem fjarstaddir eru, fyrir þeirri málsmeðferð, sem hér er ráðgerð.”

Síðan segir í bókun sakadómsins: „Þegar sú gerð hefur verið framkvæmd, sem hér að framan greinir, verður þegar samin arðskrá af dómkvöddum mönnum, sem þegar hafa verið útnefndir.”

Gerðardómurinn er í heild á 13 blaðsíðum. Honum er skipt í þessa kafla: Aðdragandi að skipun gerðardóms, Tildrög að stofnun Veiðifélagsins Lárvík, Vettvangsganga, Framlögð málsskjöl, Landamerkjalýsingar, Greinargerð málsaðila og Niðurstöður. Í kaflanum um vettvangsgöngu segir að hún hafi farið fram 19. september 1974. Meðal þeirra sem sagðir eru mættir til að taka þátt í henni eru Sigurður Ólason hrl. vegna Jarðeignadeildar ríkisins, „sem er eigandi að Efri-Lág og Lágarkoti, ennfremur mætir hann vegna Neðri-Lágar ásamt Lárusi Guðmundssyni ... [einn stefndu. Innskot dómenda] ... Þá var og mættur eigandi Mýrarhúsa, Pétur Konráðsson.” Þá er því lýst að gerðardómsmenn hafi farið gangandi um allt svæðið umhverfis Lárvaðal, Lárós, Víkurrif svo og á öll býlin og athuguð hafi verið landamerki og borin saman við landamerkjabréf. Ennfremur hafi verið athuguð svæði þau á Lárdal, sem fyrr hafi verið notuð til slægna og beitar. Í kaflanum Landamerkjalýsingar er lýst merkjum Mýrarhúsa, og segir þar fyrst: „Landamerki Mýrarhúsa eins og þeim var lýst á vettvangsgöngu 19. 9. 1974, en eldri heimildir um landamerki er ekki að finna í þinglesnum landamerkjaskrám. Ágreiningur er ekki talinn um það land, sem Mýrarhús hafa nú úrskipt og eru landamerki þessi:” Síðan kemur sú lýsing sem tekin er upp í stefnu, sbr. hér að framan. Lýsingunni lýkur á þessum orðum: „Landamerki á milli Mýrarhúsa og Neðri-Lágar eru eins og fyrr er lýst túngirðingin á milli bæjanna og línan til fjallsins.”

Í kaflanum Niðurstöðum í gerðardóminum er lýst merkjum allra jarða á því svæði sem gerðardómsmenn höfðu undir, þó ekki merkjum milli einstakra jarða í  þeirri jarðatorfu, sem gerðardómsmenn nefna Lárpláss, en til þess segja þeir að teljist Mýrarhús, Krókur, Neðri-Lá, Efri-Lá og Lárkot. Þannig eru fyrrgreind merki Mýrarhúsa ekki tekin upp í niðurstöður gerðardómsins, en þar er að finna þessa athugasemd um „Lárpláss”: „Landamerki á milli einstakra jarða eru þau sem áður er lýst, þar til annað kann að vera ákveðið.”

Mjög fljótlega eftir að gerðardómurinn var upp kveðinn, ritaði Sigurður Ólason hrl. gerðardóminum bréf, dags. 12. jan. 1975. Þar eru gerðar margvíslegar athugasemdir við gerðardóminn og höfð uppi mótmæli. Lögmaðurinn kvartar yfir því að „úrskurði þessum fylgi enginn uppdráttur, þannig að ekki er hægt að sjá hvernig mörkin hafa raunverulega verið mörkuð, hvorki hliðarlínur jarðanna út í Vaðalinn og út  fjöruna, né heldur „langlínur” eftir Vaðlinum sjálfum.” Síðar í bréfinu segir: „Ekki kannast ég heldur við, að það hafi verið innan verksviðs Gerðardómsins, að úrskurða um eignarréttarstöðu einstakra jarða innbyrðis, eða ákveða hvað séu sameignir og hvað ítök, o.s.frv. Verður litið á slíkt sem algera markleysu. Hlutverk dómsins var það eitt að ákveða markalínurnar sjálfar, aðallega þó að og út í Vaðalinn.” Áskilur lögmaðurinn sér og umbjóðendum sínum allan rétt í þessu sambandi. Tekið er fram í bréfinu að afrit af því sé sent sýslumanni Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Í framhaldi af þessu gerði lögmaðurinn gangskör að því að höfða landamerkjamál það sem fyrr er lýst (dómur 29. september 1984). Ritaði lögmaðurinn í þeim tilgangi sýslumanni bréf 13. maí 1975, en þar segir m.a.: „Það skal sérstaklega tekið fram að „matsgerð” (gerðardómur), sem fram fór s.l. sumar er og verður að engu hafandi, sbr. meðfylgjandi ljósrit af bréfi dags. 12. jan. s.l.” Í greinargerð stefnenda (Sigurðar Ólasonar hrl) í nefndu dómsmáli er gerðardómurinn harðlega gagnrýndur. Segir þar á einum stað að hann sé „svo fáránlega vitlaus, að engu tali tekur,  - (t.d. eru þeir að fjalla um landamerki jarða við Lárós, sem ekki eru til og aldrei hefir [svo] verið til, og annað eftir þessu), . . .” Er því haldið fram að líta beri á gerðardóminn sem „algera markleysu”.

                Dómendum þykir rétt að draga saman það sem nú hefur verið ritað í þessum kafla í eftirfarandi niðurstöður:

                Þó að í sáttinni, sem til grundvallar gerðardóminum liggur, segi að gerðardómsmenn skuli „kveða á um og úrskurða um landamerki milli allra þeirra jarða, sem land eiga að vatnasvæði Láróss”, þykir dómendum sýnt að tilgangurinn hefur fyrst og fremst verið sá að kveða á um þau merki sem til þurfti til að gera mætti arðskrá fyrir Veiðifélagið Lárvík, sbr. bókun sem fylgir sáttinni og sbr. einnig tilvitnaða athugasemd Sigurðar Ólasonar hrl.: „Hlutverk dómsins var það eitt að ákveða markalínurnar sjálfar, aðallega þó að og út í Vaðalinn.”

Það er athugavert við landamerkjalýsingu Mýrarhúsa í gerðardóminum að þar segir að „eldri heimildir um landamerki er ekki að finna í þinglýstum landamerkjaskrám,” en síðan strax á eftir að ekki sé ágreiningur „um það land , sem Mýrarhús hafa nú úrskipt...” Er með öllu óljóst til hvaða heimildar um úrskipti er hér verið að vitna. Þá segir í lok merkjalýsingarinnar að „landamerki á milli Mýrarhúsa og Neðri-Lágar eru eins og fyrr er lýst túngirðingin á milli bæjanna og línan til fjallsins.” Þessi niðurstaða er ekki í samræmi við merkjalýsinguna sem á undan fer, og sést það glögglega af kröfulýsingu stefnenda og skýringum á henni í stefnu. Mestu máli skiptir hér þó að ekki verður talið að umrædd lýsing á merkjum Mýrarhúsa sé meðal formlegra niðurstaðna gerðardómsins, þar sem hún er ekki tekin upp í kaflann um niðurstöður. Telja verður þó að þar sé til hennar vitnað, en það er gert með óákveðnum og skilyrtum hættti: „Landamerki á milli einstakra jarða eru þau sem áður er lýst, þar til annað kann að vera ákveðið.”

Ekki verður litið svo á að í lýsingu gerðardómsins á landamerkjum Mýrarhúsa felist landskipti í samræmi við landskiptalög nr. 46/1941, enda voru gerðardómsmenn ekki til slíkra skipta bærir, sbr. 4. gr. laganna. Að mati dómenda liggja heldur ekki að baki landamerkjalýsingunni frjáls skipti landeigenda, sbr. 16. gr. sömu laga, enda lá ekki fyrir tilskilið samþykki þeirra sem hagsmuna höfðu að gæta við skiptin. 

Að öllu því athuguðu sem nú hefur verið ritað og að teknu tilliti til mótmæla stefndu, eigenda Neðri-Lár, gegn gerðardóminum, verður það niðurstaða dómenda, að dómur þessi sé að því er varðar landamerki milli Neðri-Lár og Mýrarhúsa ekki bindandi fyrir stefndu, eigendur Neðri-Lár, og stefnendur geti að svo komnu ekki reist dómkröfur sínar á landamerkjalýsingu í forsendum gerðardómsins.

Niðurstaða dómsins verður samkvæmt framanrituðu þessi: Ekkert liggur fyrir um að hjáleigunni Mýrarhúsum hafi nokkurn tíma verið skipt út úr höfuðbólinu Neðri-Lá með formlegum hætti. Engin landamerkjaskrá er til fyrir jörðina Mýrarhús eða skrifleg landamerkjalýsing, sem aðiljar máls eru bundnir af. Fallist er á það með stefndu, eigendum Neðri-Lár, að gerðardómurinn frá 15. desember 1974  megni ekki að upphefja lagafyrirmæli og efnisreglur um landskipti og ákvörðun landamerkja, sbr. lög um landskipti nr. 46/1941. Skipti á hjáleigunni Mýrarhúsum út úr landi Neðri-Lár hljóti að fara fram eftir þeim lögum. Því beri að fallast á það með stefndu, eigendum Neðri-Lár, að sakarefnið eigi ekki undir héraðsdóm og beri að vísa því frá dómi. Eðli málsins samkvæmt tekur þessi niðurstaða jafnt til allra krafna stefnenda annarra en málskostnaðarkröfu.

Málskostnaður.

Eftir úrslitum máls ber að úrskurða stefnendur óskipt til að greiða stefndu málskostnað, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Þykir dómendum hann vera hæfilegur 50.000 krónur til stefndu Látravíkur ehf., en 350.000 krónur til annarra stefndu, eigenda Neðri-Lár.

Dóm þennan kveða upp Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari, dómsformaður, og meðdómendurnir Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari og Ágúst Gunnar Gylfason landfræðingur.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnendur, Bára Bergmann Pétursdóttir, Elsa Fanney Pétursdóttir, Pétur Guðráður Pétursson, Birna Ragnheiður Pétursdóttir og Ólöf Ragna Pétursdóttir, greiði óskipt stefndu málskostnað, stefndu Látravík ehf. 50.000 krónur, en öðrum stefndu, Guðmundi Guðmundssyni, Lárusi Guðmundssyni, Jósefínu Guðmundsdóttur, Jónu Guðrúnu Guðmundsdóttur, Guðbjörgu Guðmundsdóttur, Herdísi Björnsdóttur, Kristjáni Guðmundssyni, Ólafi Guðmundssyni og Hönnu Ákadóttur, 350.000 krónur óskipt.