Hæstiréttur íslands

Mál nr. 351/2016

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Snorri Snorrason hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. maí 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að beitt verði vægari úrræðum.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur játað að hafa framvísað við lögreglu vegabréfi í eigu annars manns. Að því gættu eru ekki fyrir hendi rannsóknarhagsmunir til þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru fyrir hendi önnur og vægari úrræði en gæsluvarðhald til þess að tryggja nærveru varnaraðila, sbr. niðurlag 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, en ekki hefur verið gripið til þeirra gagnvart honum. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2016.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að aðila, sem kveðst heita, X, f.d. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. maí 2016, kl. 16:00 eða þar til að dómur fellur í máli hans. 

Kærði mótmælti kröfu lögreglustjóra og krafðist þess að henni yrði hafnað og fallist yrði á vægari úrræði, en til vara að gæsluvarðhaldi yrði markaður skemmri tími. Hafi kærði aðstoðað við að upplýsa málið og vísað lögreglustjóra á rétt persónuskilríki sín og heimilað lögreglu skoðun upplýsinga í farsíma. Einfalt væri fyrir lögreglustjóra að sannreyna upplýsingar um hver hann væri. Þá væri kærði með peninga og gæti því borgað fyrir hótelgistingu. Taldi kærði einnig að staða hans væri sambærileg og fram kæmi í dómi Hæstaréttar nr. 345/2015, en kærði væri frá [...].

I

Í greinargerð lögreglustjóra segir að starfsmenn flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum hafi í dag, 6. maí 2016, verið við almennt eftirlit í tollsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í kjölfar komu flugs FI-305 frá Stokkhólmi hingað til lands. Hafi lögreglumenn beðið kærða um að framvísa skilríkjum við sig og hafi ákærði þá framvísað við lögreglu bresku vegabréfi nr. [...], á nafni [...], fæddur [...]. Við skoðun lögreglu á vegabréfinu hafi lögregla talið rökstuddan grun um að kærði væri ekki réttmætur handhafi vegabréfsins. Af þessum sökum hafi kærði verið handtekinn. Í kjölfarið hafi skilríkjafræðingur lögreglunnar rannsakað vegabréfið og hafi staðfest að aðilinn sem vegabréfið sé gefið út til sé ekki sá sami og hafði framvísað vegabréfinu við lögreglu.

Í viðræðum við kærða hafi hann greint lögreglu frá því að hann væri ekki réttmætur eigandi vegabréfsins. Kvaðst kærði heita X f.d. [...] og vera ríkisborgari [...].

II

                Rannsókn þessa máls telst að mati lögreglustjóra í fullum gangi. Rannsaka þurfi nánar ferðaleið kærða hingað til lands. Auk þess sem rannsaka þurfi nánar aðdraganda ferðar kærða hingað til lands, sögu hans hjá erlendum ríkjum og löggæslustofnunum og önnur atriði. Að svo stöddu telji lögregla sig ekki hafa nægjanlegar upplýsingar til að ætla hver kærði sé með fullri vissu. Af þeim sökum telji lögregla að kærði skuli sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til rannsóknar hjá lögreglu. Vísast í þessu skyni m.a. til Hæstaréttar Ísland í málum nr. 529/2012 og 558/2012.

Lögregla telji að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi, í blekkingarskyni, framvísað við lögreglu, bresku vegabréfi í eigu annars manns. Sé brot kærða talið varðar við 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og liggi við því allt að 6 mánaða fangelsi.

                Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi skv. a. og b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002.

                Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 telji lögreglustjóri að kærða skuli verða gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 13. maí 2016 kl. 16:00 eða þar til að dómur fellur í máli hans.

III

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði, sem er erlendur ríkisborgari, undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.

Samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008 er heimilt að handtaka útlendinga og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum um meðferð sakamála ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er eða rökstuddur grunur er um að útlendingur gefi rangar upplýsingar um hver hann er.

                Kærði var stöðvaður í dag og er rannsókn lögreglu á því hver kærði sé í raun og ferðum hans á frumstigi. Þá er kærði erlendur ríkisborgari sem hefur engin sérstök tengsl við Ísland auk þess sem kærði hafi átt bókaðan flugmiða til Bretlands. Fallist er á með lögreglustjóra að ætla megi að kærða muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málssókn með öðrum hætti fari hann frjáls ferða sinna.

                Mál kærða þykir að mati dómsins ekki sambærilegt þeim málsatvikum sem greinir í dómi Hæstaréttar nr. 345/2015. Samkvæmt upplýsingum frá kærða sjálfum hefur hann dvalið í Evrópu meira og minna síðastliðin fjögur ár, síðast í Svíþjóð þar sem hann hafi sótt um hæli en fengið synjun. Samkvæmt upplýsingum lögreglustjóra hafi kærða við þá synjun verið meinuð innganga á Schengen svæðið.

Með vísan til alls framangreinds, þykir lögregla hafa sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði laga til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ekki lokið. Er skilyrðum a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga fullnægt til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærði, sem kveðst heita X f.d. [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. maí 2016, kl. 16:00.