Hæstiréttur íslands
Mál nr. 706/2014
Lykilorð
- Þjófnaður
- Akstur án ökuréttar
- Fíkniefnalagabrot
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 26. mars 2015. |
|
Nr. 706/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Unnari Sigurði Hansen (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Þjófnaður. Akstur án ökuréttar. Fíkniefnalagabrot. Vanaafbrotamaður.
U var sakfelldur fyrir þrjú þjófnaðarbrot, þrjú fíkniefnalagabrot og að hafa fjórum sinnum ekið bifreið sviptur ökurétti, þar af tvö skipti undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess að U átti að baki langan sakaferil og hafði hlotið 34 dóma fyrir ýmis afbrot, þar á meðal 22 dóma fyrir þjófnað eða tilraun til þjófnaðar. Þá var litið til þess að hann játaði brot sín. Var refsing U ákveðin tveggja ára fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð. Þá voru gerð upptæk 5,02 g af amfetamíni, sem höfðu fundist í fórum U.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. október 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hafði hann, allt frá árinu 1985 og áður en hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp, hlotið 34 dóma fyrir ýmis afbrot, þar af í 22 dómum fyrir þjófnað eða tilraun til þjófnaðar, fjórum fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, níu vegna aksturs sviptur ökuréttindum og jafn mörgum dómum vegna fíkniefnalagabrota, og verið dæmdur til samtals 22 ára og átta mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms gekkst ákærði 21. nóvember 2014 undir sektargreiðslu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fyrir fíkniefnalagabrot og þá var hann 29. janúar 2015 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökuréttindum, svo og fíkniefnalagabrot.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Unnar Sigurður Hansen, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 311.541 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 2. október 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 19. september 2014, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 20. maí 2014, gegn Unnari Sigurði Hansen, kt. [...],[...],[...], fyrir eftirtalin hegningar-, fíkniefna-, vopna- og umferðarlagabrot framin á árinu 2013:
Fyrir þjófnaði, með því að hafa,:
- Sunnudaginn 27. október, í félagi við A og B, gert tilraun til að brjótast inn í verslun Elko, að Skeifunni 7 í Reykjavík, í auðgunarskyni með því að reyna að þvinga upp útidyrahurð verslunarinnar. (Mál nr. 007-2013-56890.)
- Mánudaginn 4. nóvember, á bifreiðastæði bak við Dalveg 24 í Kópavogi, stolið úr bifreiðinni [...] Sakkio bíltæki með sjónvarpsskjá að óþekktu verðmæti. (Mál nr. 007-2013-58585.)
- Laugardaginn 7. desember, brotist inn í verslun Apóteks Hafnarfjarðar við Tjarnarvelli 11 í Hafnarfirði í félagi við óþekktan aðila, með því að spenna upp útidyrahurð verslunarinnar og stolið þaðan nokkrum kössum af lyfjum og snyrtivöru að óþekktu verðmæti. (Mál nr. 007-2013-64419).
- Laugardaginn 7. desember, á bifreiðastæði við Smáralind, Hagasmára 4 í Kópavogi, brotist inn í fjórar bifreiðar, bifreiðina [...] og stolið þaðan pappírum, bifreiðina [...] og stolið þaðan gleraugum og radarvara að óþekktu verðmæti, bifreiðina [...], með því að brjóta hliðarrúðu í bifreiðinni, og stolið þaðan teppi, fatnað, þrenn sólgleraugu, tvo farsíma, lykla, snyrtivörur, tvo hálsmen, skilríki og Garmin leiðsögutæki, allt að óþekktu verðmæti, og gert tilraun til að stela úr bifreiðinni [...] en lögregla hafði afskipti af ákærða þar sem hann var inn í síðastnefndri bifreið. (Mál nr. 007-2013-64453.)
Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot í ákærulið 1. að auki við 20. gr. sömu laga.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa,:
- Sunnudaginn 27. október 2013, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 10 ng/ml af metýlfenídat og í þvagi mældist að auki amfetamín) um bifreiðastæði við Skeifuna 7 í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn. (Mál nr. 007-2013-56890).
- Þriðjudaginn 1. október, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Breiðholtsbraut við Stöng í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn. (Mál nr. 007-2013-51981).
- Laugardaginn 7. desember, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um bifreiðastæði við Hlíðasmára 5 í Kópavogi. (Mál nr. 007-2013-64558).
- Miðvikudaginn 11. desember, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 20 ng/ml af amfetamíni) vestur Borgartún í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á móts við Borgartún 26. (Mál nr. 007-2013-65169.)
Teljast brot þessi í öllum liðum varða við 1. mgr. 48. gr. en brot í lið 1. og 4. að auki við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., allt sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 5. gr. laga nr. 66/2006.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa,:
- Föstudaginn 27. september, í herbergi ákærða að Hlíðasmára 5 í Kópavogi, haft í vörslum sínum 1,97 g af amfetamíni, sem fannst í ísskápshólfi við leit lögreglu. (Mál nr. 007-2013-51051).
- Miðvikudaginn 27. nóvember, í herbergi ákærða að Hlíðasmára 5 í Kópavogi, haft í vörslum sínum 2,58 g af amfetamíni, sem fannst undir rúmi ákærða við leit lögreglu. (Mál nr. 007-2013-62646).
- Laugardaginn 7. desember, á bifreiðastæði við Smáralind, Hagasmára 4 í Kópavogi, haft í vörslum sínum 0,47 g af amfetamíni, sem fannst við leit lögreglu á ákærða. (Mál nr. 007-2013-64453).
Teljast brot þessi varða
við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni
nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr.
14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr.
233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt að ofangreind fíkniefni, samtals 5,02 g af amfetamíni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Ákærði mætti fyrir dóminn þann 27. ágúst sl. og játaði þá sök í öllum töluliðum í ákæruköflum II. og III., en neitað sök í öllum töluliðum ákærukafla I. Í þinghaldi þann 19. september sl. breytti ákærði afstöðu sinni á þann hátt að hann játaði einnig brot samkvæmt töluliðum 2, 3 og 4 í ákærukafla I., en neitaði eftir sem áður sök í tölulið 1 í ákærukafla I. Í sama þinghaldi féll ákæruvaldið frá ákæru í tölulið 1 í ákærukafla I.
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað brot sín og var því farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi höfðu tjáð sig stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Verjandi ákærða krafðist vægustu refsingar og benti á að ákærði hafi nú játað brot sín greiðlega bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi. Horfa þurfi til breyttra haga og stöðu ákærða nú. Hann hafi fengið slæmt uppeldi og átt erfiða barnæsku sem hafi leitt hann á barnaldri út á braut afbrota. Ákærði sé núna kominn í eigin húsnæði, sé kominn í vinnu og sé edrú. Þá krafðist verjandi ákærða málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu hans.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákæra á hendur honum tekur til samkvæmt framansögðu.
Ákærði er fæddur í september árið 1966. Samkvæmt sakavottorði ákærða byrjar sakaferill hans 31. janúar 1985 og hefur hann frá þeim tíma verið dæmdur 35 sinnum fyrir ýmis afbrot. Ákærða hefur 22 sinnum verið gerð refsing fyrir þjófnaðarbrot. Sex sinnum hefur honum verið gerð refsing fyrir brot gegn ákvæðum 45. gr. a umferðarlaga um akstur undir áhrifum fíkniefna. Níu sinnum hefur honum verið gerð refsing fyrir brot gegn ákvæðum 48. gr. umferðarlaga um akstur sviptur ökurétti og sjö sinnum hefur honum verið gerð refsing fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni. Með dómi Hæstaréttar dags. 16. september 2009 í máli nr. 753/2009 var ákærði dæmdur til fangelsisvistar í 2 ár og 6 mánuði fyrir brot gegn ákvæðum 45. gr. a. og 48. gr. umferðarlaga, 259. gr. almennra hegningarlaga og 244. gr. sbr. 20. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga. Þann 27. september 2013 var ákærði dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 9 mánaða fangelsi fyrir brot gegn ákvæðum 45. gr. a. og 48. gr. umferðarlaga, fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni og fyrir brot gegn ákvæðum 244. gr. almennra hegningarlaga
Brot ákærða eru réttilega færð til refsiákvæða en fallið var frá ákæru fyrir brot gegn 244. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði er nú sakfelldur fyrir fjögur innbrot í bifreiðar, hnupl úr bifreið og eitt innbrot í fyrirtæki. Verðmæti þjófnaðarandlags er óþekkt. Þá er hann sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið tvisvar sinnum undir áhrifum fíkniefna og að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti í alls fjögur skipti. Einnig er ákærði sakfelldur fyrir að hafa í þrjú skipti haft í fórum sínum amfetamín, samtals 5,02 g.
Fallist er á það með ákæruvaldinu að ákærði sé vanaafbrotamaður. Samkvæmt því verður refsing ákærða ákveðin með vísan til 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og jafnframt litið til þess að ákærði hefur margsinnis hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot og fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Brot ákærða, sem hann er nú dæmdur fyrir í ákærulið III. 1, var framið sama dag og uppkvaðning framangreinds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þann 27. september 2013. Við ákvörðun refsingar verður því bæði litið til 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Hafa verður í huga að ákærði játaði greiðlega brot sín. Hins vegar lá ekki fyrir staðfesting á vinnu eða edrúmennsku ákærða. Að öllu þessu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár.
Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.
Ákærði skal sæta upptöku á 5,02 g af amfetamíni sem hald var lagt á við rannsókn lögreglu.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins sem er samkvæmt yfirliti 140.196 krónur auk þóknunar skipaðs verjanda hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hr. sem er ákveðin að mati dómsins 180.720 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari dæmir mál þetta.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Unnar Sigurður Hansen, sæti fangelsi í 2 ár.
Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttinda ákærða.
Ákærði sæti upptöku á 5,02 g af amfetamíni.
Ákærði greiði þóknun til skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 180.720 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði 140.196 krónur í annan sakarkostnað.