Hæstiréttur íslands
Mál nr. 8/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dómari
- Vanhæfi
|
|
Þriðjudaginn 12. janúar 2016. |
|
Nr. 8/2016.
|
Hlédís Sveinsdóttir (sjálf) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H um að dómari málsins viki sæti. Ekki var talið að H hefði sýnt fram á að fyrir hendi væru atvik eða aðstæður sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2015 sem barst réttinum 5. janúar 2016, en kærumálsgögn höfðu borist fyrrnefndan dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, að viðbættu álagi.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og fram kemur i hinum kærða úrskurði byggir sóknaraðili kröfu sína um að héraðsdómari víki sæti á g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni héraðsdómarans með réttu í efa, sbr. fyrrnefnt ákvæði laga nr. 91/1991. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hlédís Sveinsdóttir, greiði varnaraðila, Tryggingamiðstöðinni hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 2015.
Mál þetta, sem var þingfest 16. september 2015, var höfðað af Tryggingamiðstöðinni hf., kt. [...], [...], Reykjavík, með birtingu stefnu 24. ágúst 2015 gegn Eftirliti og nýsköpun ehf., kt. [...], [...], Hafnarfirði, fyrirsvarsmaður Gunnar Árnason, kt. [...], [...], Hafnarfirði og Hlédísi Sveinsdóttur kt. [...], [...], Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.374.044 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. júlí 2007 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, samtals 1.501.198 krónur þannig: Þann 8. desember 2008 65.000 krónur, þann 27. janúar 2009 200.000 krónur, þann 4. mars 2009 150.000 krónur, þann 18. mars 2009 150.000 krónur og 5. desember 2012 936.198 krónur. Einnig gerir stefnandi þá kröfu að stefndu verið in solidum dæmd til að greiða honum málskostnað ásamt virðisaukaskatti.
Stefndu lögðu fram greinargerð í þinghaldi þann 14. október sl. og gerðu í fyrsta lagi þá dómkröfu að málinu verið vísað frá dómi en til vara að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Að auki krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda ásamt virðisaukaskatti. Undir rekstri málsins var stefni EON ehf. úrskurðað gjaldþrota og var Lúðvík Bergvinsson hrl. skipaður skiptastjóri. Tók hann við rekstri málsins fyrir hönd þrotabúsins. Var úrskurður Héraðsdóms Reykjaness staðfestur af Hæstarétti Íslands með dómi þann 11. desember sl. í máli nr. 781/2015.
Boðað var til fyrirtöku þann 11. nóvember sl. en þann sama morgun fékk dómari upplýsingar um að bú stefnda Eftirlits og nýsköpunar ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þar sem skiptastjóri hafði ekki verið boðaður til þinghaldsins var ný fyrirtaka ákveðin þann 17. nóvember svo boða mætti skiptastjóra til þinghaldsins.
Í þinghaldi þann 17. nóvember sl. krafðist stefnda Hlédís að leggja fram frekari gögn. Mótmæti stefnandi því. Dómari tók þá ákvörðun í þinghaldinu að stefndu Hlédísi væri heimilt að leggja umrædd gögn fram þar sem þau sneru að efni málsins en ekki breyttum eða bættum málatilbúnaði vegna frávísunarkröfunnar. Var ákveðið að munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefndu Hlédísar færi fram miðvikudaginn 16. desember nk. Óskaði stefnandi eftir fyrirtöku fyrir þann tíma til að kynna sér ný framlögð gögn stefndu. Í þinghaldi þann 24. nóvember sl. upplýsti dómarinn að frávísunarkrafa stefndu Hlédísar sneri að mestu um efni málsins, þ.e. aðildarskorti, að dæmt hafi verið um efni málsins í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu Y-10/2010 uppkveðnum 13. maí 2011. Lagði dómarinn til að málið yrði flutt bæði um frávísunarkröfuna og efni málsins þann 16. desember, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Því mótmælti stefnda Hlédís og kvaðst stöðu sinnar vegna sem ólöglærð þurfa lengri tíma til undirbúnings svo og hugsanlega að leita sér lögfræðiaðstoðar. Var henni bent á að sömu málsástæður kæmu fram hjá henni í greinargerð fyrir frávísunarkröfunni og sýknukröfunni og því væri það til hagræðis að flytja málið í einu lagi. Var fyrirtaka ákveðin 3. desember sl. í því skyni að ljúka öflun sýnilegra sönnunargagna og ákveða um framhald málsins. Í því þinghaldi krafðist stefnda Hlédís að dómarinn viki sæti með vísan til g-liðar 5. gr. laga n. 91/1991. Fór munnlegur málflutningur um þá kröfu fram 16. desember sl. Stefndi þb. Eftirlits og nýsköpunar ehf., lét þennan þátt málsins ekki til sín taka.
Málsástæður sóknaraðila.
Stefnda byggir á því að dómarinn hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinni vegna nr. máls nr. E-857/2015 á dómþingi þann 11. nóvember sl.
Þá byggir stefnda á því að henni hafi verið synjað um framlagningu gagna í sama þinghaldi vegna þessa máls.
Stefnda byggir einnig á því að henni hafi verið í upphafi meinað að leggja fram gögn í þinghaldi þann 17. nóvember sl. en það hafi þó gengið eftir eftir að hlé hafi verið gert á þinghaldinu.
Stefnda byggir á því að ágreiningur sé á milli hennar og dómarans um að málflutningur fari fram í einu lagi um frávísunarkröfuna og efni málsins. Þá telur stefnda að jafnræðis hafi ekki verið gætt á milli stefndu og stefnanda varðandi bókanir og framlagningu gagna í málinu.
Stefnda rekur í greinargerð sinni að hún sé ólöglærð og flytji mál sitt sjálf. Dómari hafi þrátt fyrir það ítrekað tekið ákvarðanir um framvindu málsins og kynnt þær á dómþingi en þær hafi verið til þess fallnar að torvelda varnir stefndu. Þá rekur stefnda meint samskipti dómara við stefnanda og stefndu í þinghöldum. Stefnda rekur einnig í greinargerð sinni meinta fyrirspurn í tölvupósti til stefnanda með afriti til dómarans, að stefnandi og dómari eigi í samskiptum utan réttar með tölvupóstum.
Að lokum byggir stefna á því að dómarinn eigi sæti í stjórn Persónuverndar sem sé undir formennsku Bjargar Thorarensen prófessors og varaformaður sé Aðalsteinn Jónasson hrl. Aðspurð frekar um meint vanhæfi dómarans og tengsl Persónuverndar við málflutning kvað sóknaraðili dómara þessa máls vera stöðu sinnar vegna í nánum tengslum við formann persónuverndar sem valdi vanhæfi dómarans. Dómarinn sé þannig nátengdur Persónuvernd. Stofnunin hafi fjallað á árinu 2011 og 2012 um tilhæfulausa kæru á hendur stefndu en kærandi í því máli sé náskyld fyrrgreindum stjórnarformanni stofnunarinnar. Með bréfi stofnunarinnar þann 14. júní 2012 hafi stefndu verið tilkynnt um niðurfellingu fyrrgreinds máls vegna sönnunarskorts. Málatilbúnaður kæranda hafi verið tilhæfulaus með öllu en engu að síður hafi málið verið í meðförum stofnunarinnar í meira en hálft ár. Persónuvernd hafi leiðbeind kæranda um hvernig koma ætti fram með sönnunargöng í málinu til að styðja við kæruna og taka fyrir við efnislega meðferð máls á stjórnarfundi stofnunarinnar. Kærandi hafi í kjölfar þeirra leiðbeininga komið fram með fölsuð sönnunargögn. Umboðsmaður Alþingis hafi skilað áliti sínu þar sem vinnubrögð Persónuverndar hafi verið gagnrýnd og hafi stofnunin m.a. talið hafa beitt heimildum sínum þ.m.t. rannsóknarheimildum með óhóflegum hætti gagnvart stefndu.
Málsástæður varnaraðil Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Varnaraðili mótmælir kröfum sóknaraðila og ítrekar að málið hafi verið rekið samkvæmt reglum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og að stefndu hafi verið leiðbeint í hverju þinghaldi sem ólöglærðri. Þá byggði varnaraðili á því að ekkert hafi komið fram undir rekstri málsins sem gæti átt undir g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstöður.
Sóknaraðili krefst þess í máli þessu að dómarinn víki sæti með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.
Í g-lið 5. gr. laganna er ákvæði sem segir að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi séu önnur atvik en tilgreind eru í a til f liðar 5. gr. eða aðstæður sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Í 2. mgr. 6. gr. sömu laga segir að dómari kveði sjálfur upp úrskurð um kröfu aðila um að hann víki sæti, svo og ef hann víki sæti af sjálfsdáðum.
Í greinargerð með 5. gr. laga nr. 91/1991 segir um g-lið að um sé að ræða sömu atvik eða aðstæður sem áður áttu undir 7. tl. 36. gr. laga nr. 85/1936 og sé efnislegt inntak í g-lið 5. gr. núgildandi laga það sama og var í 7. til 36. gr. eldri laga þótt ekki sé tekið sérstaklega fram í g-lið að óvinátta, fjárhagslegir eða siðferðislegir hagsmunir valdi vanhæfi.
Sóknaraðili rekur mál sitt í löngu máli í greinargerð sem hún lagði fram í fyrirtöku þann 3. desember sl. og í máli sínu við munnlegan málflutning. Byggir hún m.a. á því að dómari hafi ekki leiðbeint henni sem ólöglærðri við uppkvaðningu úrskurðar í málinu E-857/2015 í dómþingi þann 11. nóvember sl. Úrskurður í máli E-857/2015 var kveðinn upp þann 17. nóvember sl. og hefur ekkert með dómþing í þessu máli að gera sem fór fram 11. nóvember sl. Sóknaraðila var hins vegar leiðbeint um kæruheimild sína vegna E-857/2015 í þinghaldi í þessu máli sem fram fór í beinu framhaldi af uppkvaðningu úrskurðarins þann 17. nóvember sl., sbr. dagskrá dómstólsins. Er þessar málsástæðu sóknaraðila alfarið hafnað sem rangri og hefur ekkert með úrlausn þessa máls að gera eða hæfi dómarans til að fara með mál þetta. Þá hafði dómarinn ekki með mál E-593/2015 hjá sama dómstól að gera, sem sóknaraðili vísar til í greinargerð sinni. Verður ekki tekið undir það með sóknaraðila að rekstur ofangreindra mála, þar sem sóknaraðili átti aðild að, hafi nokkur með úrlausn þessa máls að gera eða hæfi dómarans. Er þessari málsástæðu sóknaraðila því hafnað.
Í þinghaldi þann 11. nóvember sl. var ljóst að ekki hafði náðst að boða skipaðan skiptastjóra vegna stefndu þb. Eftirlits og nýsköpunar ehf. til þess þinghalds. Varð af þeim sökum að boða til nýs þinghalds til að fá afstöðu skiptastjóra og hvort hann léti málið til sín taka. Í því þinghaldi krafðist sóknaraðili þess að leggja fram frekari gögn vegna málatilbúnara síns. Því var mótmælt af stefnanda. Var niðurstaðan dómarans að stefnda kæmi ekki frekari gögnum að að svo komnu og fyrir málflutning um frávísunarkröfu hennar. Byggði dómari þá ákvörðun sína á þeirri forsendu að ekki var sótt þing af báðum stefndu og auk þess á langri dómaframkvæmd um að eftir að greinargerð stefndu hefur verið lögð fram verði frekari gögn almennt ekki lögð fram í málum fyrr en að gengnum úrskurði um að frávísunarkröfu sé hafnað. Var ekki talin þörf á því að bóka það í þingbók. Hefur ofangreint ekkert með hæfi dómarans til að leysa efnislega úr ágreiningi aðila að gera.
Í þinghaldi þann 17. nóvember sl. krafðist sóknaraðili enn að koma sömu gögnum að í málinu. Mótmælti stefnandi þeirri framlagningu þar sem málflutningur um frávísunarkröfuna hafði ekki farið fram. Gerði dómarinn hlé á þinghaldinu og í kjölfar heimilaði framlagningu þeirra gagna með bókun í þingbók. Er rangt eftir sóknaraðila haft að úrskurður hafi gengið þar um. Óskaði stefnandi þá eftir stuttum fresti til að kynna sér nýframlögð gögn áður en munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna færi fram. Í þinghaldi þann 24. nóvember sl. upplýsti dómarinn aðila um að hann teldi rétt að aðalmeðferð málsins færi fram þann 16. desember 2015 og málið yrði flutt í heild sinni þar sem stefnda byggði frávísunarkröfu sína og sýknukröfu sína á sömu málsástæðum. Var því ekki mótmælt af hálfu sefnanda né skiptastjóra þrotabúsins. Var málinu frestaði til frekari framlagningu gagna til fimmtudagsins 3. desember sl. Lagði stefnandi þá fram afrit af úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu Y-10/2010 enda hafði ekki verið bókað að öflun sýnilegra sönnunargagna væri lokið. Mótmælti sóknaraðili þeirri framlagningu en lagði sjálf fram afrit af sama úrskurði með kröfu sinni um að dómarinn viki sæti. Ofangreind samskipti aðila og dómara leiða ekki til vanhæfis dómara og er þessari málsástæðu sóknaraðila hafnað.
Í greinargerð sóknaraðila er að finna hugleiðingar um setu dómarans í stjórn Persónuverndar á árunum 2011 og 2012 og telur dómarann vanhæfan vegna starfa Persónuverndar í tilteknum málum. Undirritaður dómari hefur setið sem varamaður í stjórn Persónuverndar en hefur ekki haft með mál sóknaraðila að gera þar. Hafa vinnubrögð Persónuverndar í máli sem sóknaraðili tengist hjá þeirri stofnun, ekkert með úrlausn þessa máls að gera né hæfi dómarans. Ekkert er fram komið að dómarinn hafi komið að því máli sem sóknaraðili vísar til, hvorki sem varamaður í stjórn Persónuverndar né með öðrum beinum eða óbeinum hætti. Eru engin slík tengsl dómarans við formann stjórnar Persónuverndar eða við mál stefndu hjá Persónuvernd á árunum 2011 og 2012 svo þau valdi vanhæfi hans við úrlausn þessa máls. Er þessari málsástæðu sóknaraðila hafnað.
Þá er því líst í greinargerð sóknaraðila að dómari og stefnandi séu í samskiptum í tölvupóstum og að sóknaraðili hafi krafið dómarann um upplýsingar þess efnis. Er þessi fullyrðing röng og ósönnuð. Dómaranum barst tölvupóstur frá sóknarðaðila þann 26. nóvember sl. þar sem segir: „Sæll. Af gefnu tilefni vill undirrituð árétt að samskipti stefnanda við dómara máls tengd umræddum málarekstri eigi að vera skrifleg/tölvupóstur, með afriti á gagnaðila máls.“ Hefur þessi tölvupóstur frá sóknaraðila til dómarans ekkert með hæfi dómara að gera.
Sóknaraðila hefur sannanlega verið leiðbeint sem ólöglærðri og hún komið þeim gögnum að sem hún hefur óskað til að halda uppi vörnum í málinu. Sóknaraðili hefur ítrekað vitnað til hæstaréttardómara og hæstaréttarlögmanna við kröfugerð sína í þinghöldum m.a. vegna framlagningar gagna og bókana og verið með svör, spurningar og kröfur skrifaðar á blöðum sem hún hefur lesið upp úr eftir því hvernig henni er svarað eða leiðbeint í þinghöldum. Eðli máls samkvæmt hefur dómari innt sóknaraðila eftir því hverjir séu ráðgjafar hennar og þá innt hana eftir því hvort hún telji ekki rétt að þeir flytji einnig málið fyrir hana. Sóknaraðili hefur borið fjárskorti við og verði þar að leiðandi að flytja mál sitt sjálf. Á því á hún rétt, svo framarlega sem dómari meti svo að hún sé ekki fær um það sbr. 6. mgr. 17. gr. laga nr. 19/1991. Svo hefur ekki verið gert. Þá hefur eiginmaður sóknaraðila setið inni í þinghöldum og ítrekað haft afskipti af sóknaraðila í þinghöldum með ráðleggingum til hennar, ýmist munnlega eða með miðasendingum þrátt fyrir að eiga ekki aðild að málinu.
Þrátt fyrir að sóknaraðili sé ólöglærð, telur dómarinn hana ekki eiga lögvarðan rétt til að dómari fari að hennar kröfum um stjórn þinghalda, dagskrá dómsins eða aðra framkvæmd málsins en þær sem snúa að formkröfum og réttarfarsreglum, sbr. 7. gr. laga nr. 91/1991.
Að öllu ofangreindu virtu er ekkert fram komið sem gefur tilefni til að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa í máli því sem hér er til úrlausnar né hafa verið færð fram rök fyrir því að dómarinn sinni ekki leiðbeiningarskyldu sinni. Er því kröfu sóknaraðila hafnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari víkur ekki sæti í máli þessu.