Hæstiréttur íslands

Mál nr. 474/1999


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Fjöleignarhús
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. apríl 2000.

Nr. 474/1999.

Jóhann G. Jóhannsson

(Hallvarður Einvarðsson hrl.)

gegn

Ingunni Ásgeirsdóttur

(Hákon Árnason hrl.)

Guðbjörgu Eyvindsdóttur

Erlu Björgu Skúladóttur

Margréti O. Svendsen

Áslaugu Hallgrímsdóttur

Reyni Svanssyni

Gísla Kristjánssyni

Matthildi Þ. Marteinsdóttur

Ernu Sigrúnu Egilsdóttur

Katrínu K. Jósefsdóttur

Hansínu Melsted og

Ævari Sigurðssyni

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Skaðabætur. Fjöleignarhús. Gjafsókn.

Stífla í frárennslislögn frá húsum nr. 7 og nr. 9 við götuna B olli því að í kjallara hússins nr. 7 flæddi upp úr niðurföllum og inn í vinnustofu og lager, sem J leigði af eiganda hússins. J krafðist þess að eigendur hússins nr. 7 og nr. 9 bættu tjón, sem hann hafði orðið fyrir af þessum sökum, en meðal þeirra muna sem skemmdust voru 14 vatnslitamyndir eftir hann sjálfan. Á það var fallist með héraðsdómi að það teldist bilun á lögn í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þegar frárennslislögn sigi svo í jörðu að vatnshalli hennar hyrfi og stífla myndaðist. Tjón hans var talið eigendum hússins nr. 9 óviðkomandi, en  eigendur hússins nr. 7 þóttu skaðabótaábyrgir gagnvart J samkvæmt 3. tl. 52. gr. laga nr. 26/1994. Hins vegar var talið að J hefði verið í lófa lagið að afla mats sérfróðra og óvilhallra manna á tjóninu. J hefði vanrækt að tryggja sér slíka sönnun um tjón sitt og var tjón hans vegna vatnslitamyndanna og fleiri muna því talið ósannað. Kröfu hans um miskabætur vegna vatnstjónsins var hafnað, þar sem hún þótti hvorki reist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 né 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna eigendur húsanna nr. 7 og nr. 9 af kröfu J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 1999. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði gert óskipt að greiða sér 2.255.000 krónur eða aðra lægri fjárhæð að mati réttarins með vöxtum jafnháum vegnu meðaltali vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum frá 25. mars 1995 til 14. júlí 1996, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda Ingunn Ásgeirsdóttir verði dæmd til greiðslu áðurnefndrar fjárhæðar eða annarrar lægri að mati dómsins. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður þá látinn falla niður.

Áfrýjandi beindi kröfum sínum í héraði meðal annars upphaflega að Valdimar Jóhannssyni, sem lést undir rekstri málsins. Tók dánarbú hans við aðild að málinu. Fram er komið að ekkja Valdimars, stefnda Ingunn Ásgeirsdóttir, hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi. Er hún því nú orðin aðili að málinu.

Vátryggingafélagi Íslands hf. og Tryggingu hf. var stefnt til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Tryggingamiðstöðin hf. tók við réttindum og skyldum þess síðarnefnda 1. nóvember 1999. Hafa bæði félögin látið málið til sín taka.

Áfrýjandi beindi kröfum sínum í héraði einnig að Reykjavíkurborg. Hún var þar sýknuð og unir áfrýjandi þeirri niðurstöðu.

I.

Ágreiningslaust er með aðilum að orsök stíflu í frárennslislögn, sem leiddi til vatnstjóns hjá áfrýjanda 25. mars 1995, hafi verið að lögnin, sem liggur undir götu frá Bræðraborgarstíg 7 og 9, hafi sigið. Sigið hafi verið svo mikið að það hafi hindrað að fita og önnur óhreinindi, sem fljóti á vatni, kæmust leiðar sinnar. Óhreinindin hafi safnast saman og stíflað lögnina með tímanum. Um sig þetta var ekki vitað á þeim tíma er tjónið varð, en það kom í ljós við rannsókn í júlí 1996.

Fallist verður á með héraðsdómi, að það teljist bilun á lögn í skilningi 3. tl. 1. mgr. 51. gr. og 3. tl. 52. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þegar frárennslislögn sígur svo í jörðu að vatnshalli hennar hverfur og hún gegnir ekki lengur hlutverki sínu, þannig að stífla myndist. Áfrýjandi var leigutaki í húsinu Bræðraborgarstíg 7, en eigandi þess og leigusali var Valdimar Jóhannsson. Ber stefnda Ingunn Ásgeirsdóttir því ábyrgð án sakar gagnvart áfrýjanda á fjártjóni hans vegna vatnstjónsins samkvæmt skaðabótareglu 3. tl. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 26/1994. Þótt umrædd frárennslislögn sé sameiginlega í eigu og á ábyrgð húseigenda að Bræðraborgarstíg 7 og 9 verður bótareglu 3. tl. 52. gr. laganna eingöngu beitt í þágu þeirra, sem eru eigendur eða afnotahafar hússins, sem tjónið verður í. Áfrýjandi hafði ekki afnot af húsinu nr. 9 og er tjón hans eigendum þess því óviðkomandi. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna aðra stefndu en Ingunni Ásgeirsdóttur af kröfu áfrýjanda.

II.

Bótakrafa áfrýjanda er í fjórum liðum. Í fyrstu tveim liðum gerir áfrýjandi kröfu um bætur vegna tjóns á munum, sem skemmdust eða eyðilögðust vegna vatnstjónsins. Meðal þeirra muna kveður áfrýjandi hafa verið 14 vatnslitamyndir eftir hann sjálfan, sem ætlunin hafi verið að setja á málverkasýningu skömmu eftir að tjónið varð. Liggur fyrir í málinu skrá, sem áfrýjandi gerði um þessar myndir, en þar mat hann þær sjálfur á samtals 1.120.500 krónur. Að öðru leyti er um að ræða ljóðabækur og ýmsa muni, sem áfrýjandi kveður hafa skemmst og hann metur á samtals 634.500 krónur. Tveir síðari kröfuliðir hans eru annars vegar vegna truflunar á starfsemi, vinnutaps og hreinsunar, samtals 250.000 krónur, og hins vegar um miskabætur, 250.000 krónur.

Eftir gögnum málsins gerði áfrýjandi fyrrnefnda skrá yfir hinar skemmdu myndir 3. apríl 1995, en á þeim tíma mun hann þegar hafa notið aðstoðar lögmanns í tengslum við hugsanlega bótakröfu vegna vatnstjónsins. Í skránni er tilgreind stærð hverrar myndar. Þar greinir og frá verðmæti hverrar þeirrar, sem áfrýjandi kveðst hafa áætlað með hliðsjón af verðskrá á annarri sýningu, sem hafi verið haldin nokkru áður á verkum hans. Hann dró einnig áætlaðan innrömmunarkostnað frá verði myndanna, enda hafi hann verið að undirbúa þær fyrir innrömmun þegar tjónið varð. Áfrýjandi gerði og lista yfir aðra þá muni, sem skemmdust eða eyðilögðust, og verðlagði þá sjálfur. Önnur gögn liggja ekki fyrir í málinu um verðmat á myndunum eða öðrum munum, sem hér um ræðir.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi haldið fram að svo erfitt hafi verið að meta tjónið, að dómkvaddir matsmenn hefðu þar ekki getað bætt úr. Bætur verði því eftir atvikum að dæma að álitum. Á þetta verður ekki fallist. Áfrýjandi gat á sínum tíma bent á þá muni, sem höfðu skemmst og eyðilagst. Honum hefði verið í lófa lagið að afla mats sérfróðra og óvilhallra manna á tjóninu eftir venjulegum leiðum. Áfrýjandi vanrækti að tryggja sér slíka sönnun um tjón sitt, án nokkurrar ástæðu að séð verði. Við svo búið verða bætur ekki dæmdar að álitum. Tjón áfrýjanda samkvæmt fyrstu tveim kröfuliðum hans verður því að teljast ósannað.

Fallist verður á með héraðsdómara að þriðji kröfuliður áfrýjanda, vegna truflunar á starfsemi, vinnutaps og hreinsunar, sé með öllu órökstuddur og ósannaður.

Í fjórða kröfulið krefst áfrýjandi miskabóta með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, svo og 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 7. gr. laga nr. 78/1984. Vatnstjón vegna stíflu í frárennslislögn í götu er ekki ólögmæt meingerð nokkurs manns gegn áfrýjanda. Verður miskabótakrafa hans því ekki reist á 26. gr. skaðabótalaga. Miskabætur samkvæmt 56. gr. höfundalaga verða einungis dæmdar vegna brota á höfundarétti og koma því ekki heldur til álita hér.

Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur.

Eftir atvikum þykir rétt að hver aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jóhanns G. Jóhannssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. júní sl., er höfðað með stefnu þingfestri 1. september 1998 af Jóhanni G. Jóhannssyni, Ránargötu 17, Reykjavík gegn db. Valdimars Jóhannssonar, Fornuströnd 5, Seltjarnarnesi, Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkurborgar, eftirtöldum húseigendum að Bræðraborgarstíg 9: Guðbjörgu Eyvindsdóttur, Erlu Björgu Skúladóttur, Margréti O. Svendsen, Áslaugu Hallgrímsdóttur, Reyni Svanssyni, Gísla Kristjánssyni, Matthildi Þ. Marteinsdóttur, Ernu Sigrúnu Egilsdóttur, Katrínu K. Jósefsdóttur, Hansínu Melsteð og Ævari Sigurðssyni. 

Til réttargæslu er stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. og Tryggingu hf.

 

Dómkröfur

Aðalkrafa stefnanda er að öllum stefndu verði in solidum gert að greiða honum 2.255.000 krónur með vöxtum sem eru jafnháir vegnu meðaltali vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum frá 25. mars 1995 til 14. júlí 1996, sbr. II. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, en með dráttarvöxtum frá 14. júlí 1996 samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.  Stefnandi krefst þess að tildæmdir dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 14. júlí 1997 og síðan árlega þann dag.

Til vara krefst stefnandi þess, verði Reykjavíkurborg sýknuð af aðalkröfu, að db. Valdimars Jóhannssonar og eigendur að Bræðraborgarstíg 9 greiði stefnanda ofangreinda stefnufjárhæð in solidum.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að db. Valdimars Jóhannssonar, greiði stefnanda stefnufjárhæð málsins, verði Reykjavíkurborg og húseigendur að Bræðraborgarstíg 9, sýknuð af aðal- og varakröfu málsins.

Til þrautaþrautavara gerir stefnandi þá kröfu að verði húseigendur sýknaðir verði Reykjavíkurborg gert að greiða stefnufjárhæðina.

Í varakröfum gerir stefnandi sömu vaxtakröfu og í aðalkröfu. 

Í öllum ofangreindum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts.  Krafist er dráttarvaxta ofan á málskostnað samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu.

 

Stefndi, db. Valdimars Jóhannssonar, gerir aðallega þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins en til vara að skaðabótaábyrgð verði skipt í málinu, stefnukröfur stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

 

Stefndi, Reykjavíkurborg, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.

 

Stefndu, Guðbjörg Eyvindsdóttir, Erla Björg Skúladóttir, Margrét O. Svendsen, Áslaug Hallgrímsdóttir, Reynir Svansson, Gísli Kristjánsson, Matthildur Þ. Marteinsdóttir, Erna Sigrún Egilsdóttir, Katrín K. Jósefsdóttir, Hansína Melsteð og Ævar Sigurðsson gera aðallega þær dómkröfur að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu auk virðisaukaskatts.  Til vara krefjast þessir stefndu verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði látinn niður falla.  Verði bætur að einhverju leyti dæmdar er þess krafist að tildæmd bótafjárhæð beri vexti af skaðabótum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga til þess dags er endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp og dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. 

 

Af hálfu réttargæslustefnda, Tryggingar hf., er krafist málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts.  Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

 

Málsatvik

Tildrög málsins eru þau að aðfararnótt 25. mars 1995 stíflaðist skolplögn, sem flytur skolp frá húsunum nr. 7 og 9 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík, með þeim afleiðingum að vatn flæddi upp úr niðurföllum í kjallara hússins að Bræðraborgarstíg 7 og inn í vinnustofu og lager sem stefnandi leigði af eiganda hússins, nú stefnda db. Valdimars Jóhannssonar.  Í gögnum málsins kemur fram að stíflan átti rót sína að rekja til uppsafnaðrar fitu.

Afleiðingar stíflunarinnar urðu þær að munir sem voru í vinnustofu stefnanda skemmdust.  Að sögn stefnanda var um að ræða málverk auk lagers af bókum, kortum, plötum, listaverkum, plakötum, plötuhulstrum, masterum, eftirprentunum o.fl. 

Stefnandi kveðst hafa verið að vinna að undirbúningi málverkasýningar þegar umræddur atburður átti sér stað og hafi það verið honum mikið áfall að koma að skemmdunum þar sem afrakstur mikillar vinnu og listsköpunar hafi legið umflotið skolpi og 14 af málvekum sem hafi verið til sýningar mánuði síðar verið ónýt.  Við þennan atburð kveður stefnandi hafa dregið úr krafti hans og einbeitingu og hug til listsköpunar og hafi orðið nokkurra mánaða hlé á allri starfsemi hans.

Stefnandi kveður lagnir í húsinu, er þessi atburður átti sér stað, í slæmu ástandi.  Aftur hafi flætt inn í vinnustofu stefnanda snemma veturs 1996 og við athugun komið í ljós að steypt hafði verið upp í frárennsli vinnustofunnar þegar lyfta var sett í húsið.  Við nánari athugun hafi einnig komið í ljós að frárennslislagnir hússins hafi verið í sundur vegna tæringar og hluti frárennslisins runnið út í grunn hússins af þeim sökum. Í framhaldinu hafi allar frárennslislagnir hússins verið endurnýjaðar.

Með bréfi, dags. 14. júní 1996, hafi stefnandi krafist skaðabóta úr hendi Valdimars Jóhannssonar fyrir meint tjón á munum í kjallaranum en Vátryggingafélag Íslands hf, sem ábyrgðartryggjandi Valdimars, hafnaði bótaskyldu af hans hálfu.  Bótaskyldu var einnig hafnað af hálfu Tryggingar hf., sem var ábyrgðartryggjandi húseigenda að Bræðraborgarstíg 9.  Þá hefur Reykjavíkurborg einnig hafnað bótaskyldu.

 

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á hendur db. Valdimars Jóhannssonar á því að aðbúnaði hússins nr. 7 við Bræðraborgarstíg hafi verið verulega ábótavant, bæði hvað varði aðbúnað á vinnustofu stefnanda og eins muni leiðslurnar hafa verið bilaðar/gallaðar og ekki færar um að gegna því hlutverki sem þeim hafi verið ætlað.  Telur stefnandi að stefnda hafi, sem húseiganda, verið ljóst eða mátt vera ljóst að hér hafi verið um vanbúnað að ræða og falist hafi hætta í því að nota gamlar leiðslur með þeim frágangi niðurfalls sem áður sé lýst.  Stefndi hafi með þessu skapað stórfellda hættu á tjóni á þeim miklu verðmætum er geymd hafi verið á vinnustofu og lager stefnanda.  Stefnda hafi verið fullkunnugt um starfsemi stefnanda og hafi vitað, eða hafi mátt vita, af þeim miklu verðmætum sem þar hafi verið geymd.  Það undirstriki gáleysi stefnda að ekki hafi verið gerður reki að því að kanna ástand leiðslanna er umrætt tjón hafi orðið 25. mars 1995, heldur hafi slíkt ekki verið gert fyrr en vatn flæddi upp úr niðurföllum í kjallara hússins öðru sinni. 

Byggir stefnandi á því að stefndi hafi vanrækt viðhald og einnig gert mistök við meðferð leiðslanna þar sem fita hafi safnast upp og stíflað þær.  Auðveldlega hafi mátt koma í veg fyrir tjónið með endurnýjun leiðsla eða með því að hella uppleysiefnum í þær.  Stefnda hafi einnig verið það í lófa lagið að tryggja það með vatnslásum að skolpið gæti ekki runnið upp um niðurföll í kjallara hússins og valdið tjóni.  Stefnandi byggir einnig á því að tjón hans hafi orðið meira en ella þar sem skólpið hafi ekki getað leitað til baka vegna frágangs á niðurfalli.

Stefnandi byggir einnig á ábyrgð eigenda hússins nr. 9 við Bræðraborgarstíg þar sem leiðslan, sem um ræði, sé í sameign húsanna nr. 7 og nr. 9 við Bræðraborgarstíg þar sem hún taki sameiginlega við skolpi og frárennsli beggja húsanna og flytji út í brunn.

Er á því byggt að húseigendur hafi vanrækt viðhald þessara leiðslna og gert mistök við meðferð þeirra þar sem fita hafi safnast upp og stíflað leiðslurnar en auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir það með því að hella uppleysiefni í leiðslurnar og endurnýja þær sem orðnar voru ónýtar eins og áður sé lýst.

Ábyrgð beggja þessara aðila sé á því reist að um bilun í leiðslu hafi verið að ræða sem húseigandi beri ábyrgð á án tillits til þess hvort sýnt verði fram á sök hlutaðeigandi eigenda.  Leiðslur í húsum eigi almennt að geta gegnt því hlutverki að bera frá húsum skolp án þess að þær stíflist.  Ef þær geti ekki gegnt þessu hlutverki sínu, án þess að stíflast, sé ljóst að þær séu bilaðar eða gallaðar þar sem þær gegni ekki því sjálfsagða hlutverki að flytja skolp rétta leið án þess að stíflur myndist og upp úr flæði.

Á þessum galla eða bilun beri Reykjavíkurborg jafnframt ábyrgð en Reykjavíkurborg hafi í upphafi séð um lagningu leiðslanna og gera verði þær kröfur að leiðslur sem liggi frá húsum séu almennt lagðar með þeim hætti að ekki myndist stífla og upp úr kjöllurum flæði en svo virðist sem leiðslan hafi verið lögð með mjög litlum halla út í brunn þannig að mjög lítil fyrirstaða nægi til þess að skolp safnist upp og gangi til baka öfuga leið.

Stefnandi telur að ábyrgð stefndu byggist á því að um bilun eða galla í leiðslu sé að ræða sem eigandi beri ábyrgð á án tillits til sakar. 

Í öllu falli telur stefnandi að það standi stefndum, húseigendum að Bræðraborgarstíg 7 eða 9 og / eða  stefnda Reykjavíkurborg, nær að bera áhættuna á því að frárennslisleiðsla bili heldur en afnotahafa eignar, sem geti hvorki gert ráðstafanir til að tryggja sig fyrir slíkum óhöppum né borið áhættu af rekstri leiðslunnar.  Einnig byggir stefnandi á því að stefndi hafi átt að vera búinn að endurnýja lagnirnar fyrir löngu og búa þær þannig út að tjón gæti ekki átt sér stað.  Slík athafnaskylda hafi hvílt á stefnda sem eiganda og / eða rekstraraðila leiðslanna.  Byggir stefnandi bótaábyrgð stefnda jafnframt á hlutlægum grundvelli, verði sveitarfélög talin eiga umrædda leiðslu.

Á því er byggt að stefndi, Reykjavíkurborg, beri hlutlæga ábyrgð á sama hátt og húseigendur, verði sveitarfélög talin eiga umrædda leiðslu sem liggi frá húsunum tveimur út í brunn í götu.

Með hliðsjón af því sem að framan sé rakið og að teknu tilliti til tíðra óhappa í húsinu verði að telja að húseigandi að Bræðraborgarstíg 7 beri ábyrgð á tjóni stefnanda á sakargrundvelli og/eða á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar og eigendur að Bræðraborgarstíg 9 beri einnig ábyrgð á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar.  Þá er byggt á því að Reykjavíkurborg beri einnig ábyrgð á umræddu tjóni á sakargrundvelli og eftir atvikum á hlutlægum grundvelli.  Verði ekki séð að stefnandi beri með nokkrum hætti ábyrgð á umræddum atburði eða því að tjónið varð svo umfangsmikið.  Hafi hann mátt treysta því að umrætt húsnæði væri skolphelt.

 

Stefnandi sundurliðar tjón sitt með eftirfarandi hætti:

 

1.Myndir 1.120.500 krónur, sbr. dskj. nr. 2, sbr. einnig dskj. nr. 22-32.

2.Ljóðabókin Flæðir, sbr. dskj. nr. 2, Jólakort (Helgimynd og Helgisaga) Mannlíf-sólóplata, Myndræn áhrif-sólóplata, ýmsar hljómplötur, eftirmyndin Mánagyðjan, plakat Mon Opera, plakatið Lífsbarátta, plötuhulstur, plakat Missisippi Delta Blues, eftirprentunin Uppstilling, sbr. nánar dskj. nr. 2, 29 og 32-35.  Samtal tjón er nemi 634.500 krónum.

3.Truflun á starfsemi, vinnutap, hreinsun o.fl.  250.000 krónur.

4.   Miskabætur vegna áfalls 250.000 krónur.

 

Kröfuliði nr. 1 og 2 kveðst stefnandi byggjast á markaðsverðmætum þeirra hluta sem þar séu greindir.  Kröfuliður 3 byggi á áætluðu tjóni stefnanda vegna afnotamissis, vinnutapi og þeim kostnaði sem hlaust af hreinsun.  Kröfuliður 4 byggi á miska og andlegu áfalli stefnanda vegna tjónsins.

Varðandi lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar, almennrar hlutlægrar ábyrgðarreglu vegna bilunar eða galla í leiðslum húseigenda og almennra reglna um fjárhæð skaðabóta og samningsskilmála ábyrgðartryggingar húseigendatryggingar.  Um skaðabótaábyrgð húseigenda vísar stefnandi til 52. gr. laga nr. 25/1994 um fjöleignarhús og 4. gr. laga nr. 81/1991 um vatnsveitur sveitarfélaga, eins og þeim hafi verið breytt með lögum frá 21. desember 1995.

Vaxtakrafa stefnanda byggir á 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og dráttarvaxtakrafa á III. kafla sömu laga, einkum 12. og 15. gr.

Kröfu um miskabætur styður stefnandi við 26. gr. laga nr. 50/1993.

Málskostnaðarkröfu styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991.

Kröfu um virðisaukaskatt styður stefnandi við lög nr. 50/1988.

 

Málsástæður og lagarök stefnda db. Valdimars Jóhannssonar

Stefndi byggir á sýknukröfu sína á því að um skaðabótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda fari eftir sakarreglunni, sbr. 51. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og eftir hlutlægri bótareglu, ef um væri að ræða bilun í búnaði og lögnum sem hann eigi.  Hvorugu sé hins vegar til að dreifa í þessu tilviki.

Stefndi eigi enga sök á tjóni stefnanda og engin bilun hafi verið í frárennslislögnum eða niðurföllum í séreign stefnda, né heldur í sameiginlegum lögnum, sem valdið hafi tjóninu. 

Samkvæmt því sem fyrir liggi hafi stíflan, sem tjóninu olli, verið í frárennslislögn sem liggi undir götunni milli húsbrunns í gangstétt og götubrunns úti í götunni.  Sé lögnin utan lóðarmarka Bræðraborgarstígs 7 og 9.  Ósannað sé að stefndi eigi lögnina, hvort heldur einn eða í sameign með öðrum stefndu.  Beri að sýkna stefndu þegar af þeirri ástæðu.  Tilheyri lögn þessi væntanlega lagnakerfi Reykjavíkurborgar.

Þá sé ósannað með öllu að lögn þessi eða frárennslislagnir frá Bræðraborgarstíg 7  hafi bilað eða verið gallaðar og að tjón stefnanda megi rekja til þess.  Í umsögn skoðunarmanns réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., sem skoðað hafi frárennsli hússins strax eftir tjónið, komi hið gagnstæða einmitt í ljós, þ.e. að lagnirnar hafi verið í góðu lagi og ekkert hafi vantað upp á venjubundinn útbúnað gólfniðurfalla í kjallaranum.  Á skoðunarvottorði Röramynda hf., sem skoðað hafi lögnina rúmu ári eftir óhappið, sbr. dskj. nr. 21, sé heldur ekkert að finna sem bendi til þess að lagnirnar hafi verið bilaðar eða gallaðar.  Aðeins segi að lagnirnar hafi verið slitnar, sem sé eðlilegt þar sem um gamlar lagnir hafi verið að ræða.  Þá megi ráða af bréfi gatnamálastjórans í Reykjavík á dskj. nr. 20 að engar upplýsingar séu til um neinar bilanir í lögnum þegar óhappið varð.  Fullyrðingar stefnanda um bilun eða galla í lögnunum séu því bersýnilega rangar og ósannaðar og engin skilyrði til hlutlægrar bótaábyrgðar. 

Stefndi, eða fólk á hans vegum,  eigi heldur enga sök á því að lögnin stíflaðist.  Frá þeim hafi ekkert annað farið í frárennslin en sem fylgi venjulegu heimilishaldi.  Geti slíkt aldrei talist saknæmt.  Stefndi hafi heldur ekki vitað til þess að þörf hafi skapast fyrir hreinsun eða endurnýjun lagna honum tilheyrandi og hafi hann því ekkert tilefni haft til slíkra aðgerða.  Óþekkt sé að hreinsi- eða uppleysiefnum sé hellt ofan í leiðslur og niðurföll án tilefnis.  Þá hafi ekkert bent til þess að lagnir væru ónýtar eða nauðsyn á einhverjum viðhaldsaðgerðum eða uppsetningu vatnslása.  Sé því ekki til að dreifa saknæmri vanrækslu á viðhaldi, endurnýjun lagna eða uppsetningu lása eða að tjón stefnanda megi rekja til þess.  Ekkert orsakasamband sé milli tjóns stefnanda og þess að steypt hafi verið upp í niðurfall í vinnustofu stefnanda.  Hafi það aftur á móti komið í veg fyrir að vatn flæddi þar upp.  Verði bótaábyrgð stefnda því ekki reist á sakargrundvelli frekar en hlutlægum grundvelli.  Einnig megi hyggja að því hvað hafi farið ofan í frárennslin frá vinnustofu stefnanda sjálfs og frá iðnaðarhúsnæðinu að Bræðraborgarstíg 9.  Þar sé kannski orsaka stíflunnar að leita.  Þær aðstæður geti líka skapast að lögn stíflist vegna uppsöfnunar fituefna þótt ekki sé til að dreifa saknæmri notkun.  Þá sé um óhappatilviljun að ræða.  Stefnandi hafi, með því að geyma myndverk sín og önnur verðmæti óvarin á gólfi í niðurgröfnum kjallara, sýnt af sér mikið gáleysi, enda sé þar ávallt meiri hætta á vatnstjónum en í öðru húsnæði.

Varakröfur stefnda byggja á því að stefnandi eigi að bera verulegan hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin gáleysis og jafnframt beri að stórlækka stefnukröfur.  Umfang skemmda og verðmæti þess sem skemmdist sé ósannað með öllu.  Stefnandi hafi ekki látið hæfa og hlutlausa menn kanna og meta, hvað hafi skemmst og verðmæti þess, heldur byggi hann kröfur sínar á einhliða upptalningu og verðlagningu hans sjálfs.  Tjóna- og sýningaskrár stefnanda hafi ekkert sönnunargildi um hve mikið hafi skemmst og raunverulegt verðmæti þess.  Ósannað sé að þeir munir og málverk, sem stefnandi hafi geymt á kjallaragólfinu hafi haft annað gildi en minja- eða persónulegt gildi.  Ekkert raunhæft liggi fyrir um fjárgildi þeirra.  Því beri alveg að hafna kröfuliðum 1 og 2 eða a.m.k. að færa þá stórlega niður.  Kröfuliður 3 sé ekki studdur neinum gögnum eða rökum um raunverulegt tjón og því hafnar stefndi þeim kröfulið sem ósönnuðum.  Kröfuliður 4 eigi sér enga lagastoð, hvorki í settum lögum né dómvenju.  Beri þegar af þeim orsökum að hafna þeim lið kröfunnar.  Auk þess telur stefndi ósannað að orsakasamband sé milli vatnstjónsins og þess andlega áfalls sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir.

Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi og fram að þeim tíma eigi stefnandi ekki rétt á öðrum vöxtum en samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989.

 

Stefndi, Reykjavíkurborg, byggir kröfu um sýknu á því að umrædd leiðsla sé ekki í hans eigu.  Það sé skýrt tekið fram í lögum og reglugerð að holræsi skuli lögð af fasteignareiganda og á hans kostnað.  Fasteignareigandinn eigi því holræsið.  Eigi þetta við um öll holræsi á milli fasteignar og aðalæðar.  Holræsin séu því í eigu og á ábyrgð húseigenda.  Fasteignareigandanum beri einnig að sjá um alla hreinsun á þeim.  Komi þetta skýrt fram í X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 og einnig í reglugerð nr. 169/1960 um holræsi í Reykjavík.  Því sé ljóst að stefndi beri enga ábyrgð á leiðslunni, hvorki sem eigandi eða sem viðhaldsaðili.  Stefndi mótmælir því sem ósönnuðu að hann hafi lagt nefnda leiðslu og að hann beri ábyrgð sem slíkur.  Því sé einnig mótmælt sem ósönnuðu að um bilun eða galla hafi verið að ræða í leiðslunni sem hafi leitt til tjónsins.  Þá vísar stefndi til þess að verði þessar fullyrðingar stefnanda taldar sannaðar þá séu allar kröfur vegna meintra mistaka við verkið löngu fyrndar en holræsið hafi verið lagt fyrir mörgum áratugum síðan. 

Stefndi mótmælir fjárkröfum stefnanda sem ósönnuðum.  Bætur samkvæmt lið 1 séu alfarið byggðar á mati stefnanda sjálfs.  Þar sem hann hafi alla sönnunarbyrði um tjónið telur stefndi tjónið ósannað en ekkert liggi fyrir um raunvirði myndanna.  Sama gildi um kröfulið 2.  Stefndi mótmælir einnig kröfuliðum 3 og 4 sem ósönnuðum auk þess sem  kröfuliður 4 styðjist ekki við nein lög. 

 

Stefndu, ofangreindir húseigendur að Bræðraborgarstíg 9, byggja sýknukröfu sína á því að stíflan sem orsakaði tjón stefnanda, hafi myndast í leiðslunni þar sem hún liggi úti í götu, langt utan lóðamarka Bræðraborgarstígs 7 og 9.  Því teljist leiðslan vera í eigu borgarinnar, en ekki húseigendanna.  Ábyrgð geti því ekki fallið á stefndu þar sem leiðslan sé ekki í þeirra eigu.  Verði hins vegar talið að tjón stefnanda megi rekja til stíflu í sameiginlegri leiðslu húseignanna að Bræðraborgarstíg 7 og 9 verði ekkert fullyrt um orsakir stíflunnar.  Hvort sem það hafi verið vegna fitu eða annars, þá bendi ekkert til þess að leiðslan hafi verið notuð með öðrum hætti en almennt megi gera ráð fyrir í húsum eins og hér eigi í hlut.  Þótt svo hafi viljað til að stífla hafi myndast sé fráleitt að húseigendur hafi getað gert eitthvað til að afstýra slíku.  Þá hafi ekki verið sýnt fram á að leiðslan hafi bilað eða tilefni hafi verið til að ætla að hún væri biluð.  Fullyrða megi að óþekkt sé að hættulegum og jafnvel mengunarvaldandi uppleysiefnum sé hellt ofan í niðurföll eða leiðslur að tilefnislausu.  Er því mótmælt að stefndu hafi borið að hella slíkum efnum í leiðsluna án þess að nokkur grunur væri um að leiðslan væri stífluð.  Ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að ætla að húseigendum hafi borið að endurnýja umrædda leiðslu eða hlutast til um að slíkt yrði gert, enda verði ekki séð að hún hafi verið ónýt eða þarfnast endurnýjunar.  Eigendur húsanna hafi því ekki með saknæmum hætti vanrækt viðhald eða eftirlit með leiðslunni.  Þá hafi ekki verið sýnt fram á að eigendur eða afnotahafar húseignanna að Bræðraborgarstíg 7 og 9 hafi notað skólplögnina á þann hátt að þeim verði það virt til sakar.  Því geti stefndu ekki borið ábyrgð gagnvart stefnanda á sakargrundvelli.

Stefndu telja að ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús fái ekki fellt skaðabótaábyrgð á stefndu í þessu tilviki.  Í 1. mgr. 51. gr. sé fjallað um ábyrgð séreignar gagnvart öðrum eigendum hússins og afnotahöfum vegna fjártjóns sem verði á eignum þeirra.  Hér sé ótvírætt að ábyrgð vegna séreignar takmarkist alfarið við tjón hjá eigendum og afnotahöfum í sama húsi og séreignin sé í.  Hún nái ekki til eigenda eða afnotahafa í öðrum húsum.  Ljóst sé af orðalagi að ábyrgð húsfélags nái einungis til einstakra eigenda og afnotahafa í sama húsi og húsfélagið tilheyri.  Af þessu leiði að stefndu geti ekki borið ábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir.

Stefndu telja að hina hlutlægu ábyrgðarreglu 3. tl. 52. gr. skuli túlka þröngt.  Því verði hvorki rýmkandi lögskýringu né lögjöfnun beitt svo fella megi tjón stefnanda undir ákvæðið.  Skv. 53. gr. skulu húseigendur eða húsfélög að jafnaði kaupa og halda við vátryggingu til að mæta ábyrgð og áhættu skv. 51. og 52. gr.  Þessum fyrirmælum hafi stefndi, db. Valdimars Jóhannssonar, fullnægt vegna húseignar sinnar að Bræðraborgarstíg 7 og muni hann njóta verndar samkvæmt vátryggingunni, ef hann á annað borð verði látinn bera ábyrgð á tjóni stefnanda.  Því sé engin nauðsyn að rýmka svo ábyrgðarreglu 3. tl. 52. gr. að hún verði látin ná til fleiri húseigna en þeirrar sem tjónið varð í, einungis í því skyni að búa svo um hnútana að tjón stefnanda fáist bætt úr vátryggingu.

Stefndu mótmæla því einnig að þeir beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda af þeirri ástæðu að leiðslan teljist hafa verið biluð eða gölluð.  Ábyrgð af því tagi verði ekki leidd af almennum reglum skaðabótaréttarins eða reglum í settum lögum eða lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994. 

Varakrafa stefndu er reist á því sjónarmiði að stefnandi verði sjálfur að bera tjón sitt að verulegu leyti.  Það komi fram að þær myndir sem bóta er krafist fyrir hafi staðið á gólfinu.  Hafi myndirnar verið jafnverðmætar og stefnandi láti, hafi hann sýnt vítavert aðgæsluleysi með því að láta þær standa óvarðar á gólfi í niðurgröfnum kjallara.  Ætíð verði að gera þá kröfu að listmunir, sem á annað borð verði taldir hafa eitthvert verðmæti, séu varðveittir á þann hátt að þeir séu eftir fremsta megni varðir gegn tjónsorsökum sem að jafnaði megi gera ráð fyrir í húsum, svo sem bruna, hvers konar vatnsleka eða innbroti.  Stefnandi hafi á engan hátt gætt umræddra mynda á þann hátt sem krefjast hafi mátt af honum.  Af þeim sökum eigi hann sjálfur verulega sök á því hversu tjónið hafi orðið mikið og verði að bera það sjálfur að mestu leyti.  Stefnandi hafi ekki fengið hæfa og óvilhalla menn, matsmenn, til að meta tjón sitt og byggi bótakröfur sínar alfarið á eigin mati.  Mati þessu mótmæla stefndu sem allt of háu og órökstuddu.  Eigin verðlagning stefnanda á myndunum gefi enga hugmynd um hvað ætla megi að raunverulegt markaðsverðmæti sé.  Krafan sé ódómtæk meðan tjónið sé ekki staðreynt frekar.  Í það minnsta verði að lækka þennan kröfulið verulega. 

Stefndu mótmæla einnig öðru munatjóni.  Hvorki verði ráðið af lista né ljósmyndum úr húsnæði stefnanda um umfang tjónsins eða verðgildi þeirra muna sem stefnandi telji að hafi orðið fyrir tjóni.  Stefndu telja að téðir munir hafi að langmestu leyti verið verðlausir og bótakrafa svo úr hófi að vart sé hægt að taka hana til greina og því er henni mótmælt.

Krafa stefnanda vegna truflunar á starfsemi, vinnutaps, hreinsunar o.fl. sé ekki studd neinum gögnum.  Ekki sé heldur reynt að útlista hana eða rökstyðja þannig að ætla megi að tjón af því tagi hafi í raun orðið.  Stefndu mótmæla því þeirri kröfu og telja að henni beri að hafna alfarið.

Stefndu hafna að öllu leyti miskabótakröfu stefnanda.  Vatnstjónið sem varð í húsnæði stefnanda geti ekki talist ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda.  Því verði krafa um slíkt ekki reist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þá verði krafa um ófjárhagslegt tjón, eins og hér um ræði, ekki byggð á ólögfestum skaðabótareglum.  Til þess skorti heimild.  Þá telja stefndu ósannað með öllu að orsakasamband geti verið á milli vatnstjónsins og þess andlega áfalls sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir.

Stefndu telja að verði bætur að einhverju leyti dæmdar, skuli þær bera vexti af skaðabótum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi til dómsuppsögu.  Frá þeim tíma sé fallist á dráttarvexti af dæmdri bótafjárhæð, sbr. 15. gr. vaxtalaga.  Verði ekki fallist á þetta hvað varðar upphafstíma dráttarvaxta krefjast stefndu að dráttarvextir reiknist frá þingfestingardegi eða málshöfðunardegi, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga.  Verði ekki heldur fallist á það sé ljóst að stefnandi hafi ekki krafið stefndu um tjónið fyrr en með bréfi þann 1. apríl 1998, sbr. dskj. nr. 13, og því verði dráttarvextir í fyrsta lagi krafðir frá 1. maí 1998, sbr. 2. mgr. 9. gr. vaxtalaga.

Málskostnaðarkröfu styðja stefndu við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Kröfu um virðisaukaskatt styðja stefndu við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 

 

Niðurstaða

Í yfirlýsingu Þorsteins Þorsteinssonar, tjónaskoðunarmanns réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., dags. 11. febrúar 1998, varðandi umrætt vatnstjón segir að menn frá holræsadeild Reykjavíkurborgar hafi komið á staðinn og losað stíflu sem verið hafi í lögn sem liggi frá húsbrunni sem staðsettur sé í gangstétt utan við aðalinngang hússins nr. 7 við Bræðraborgarstíg og í götubrunn sem sé í götunni neðan við á Bræðraborgarstíg.  Í yfirlýsingu Þorsteins segir enn fremur að við athugun á aðstæðum eftir að tjónið varð hafi komið í ljós að hús númer 9 við Bræðraborgarstíg sé einnig tengt téðum húsbrunni og því ekki unnt að greina í sundur hvaðan vatnið kom sem tjóninu olli.  Í yfirlýsingunni segir enn fremur að frárennsli hússins virðist, eftir skoðun sem gerð var eftir tjónið, vera í nokkuð góðu lagi og ekki vanti neitt upp á venjubundinn útbúnað gólfniðurfalla í kjallara hússins.Í bréfi Guðbjarts Sigfússonar, yfirverkfræðings hjá gatnamálastjóranum í Reykjavík, til lögmanns stefnanda, sem dagsett er 27. apríl 1998, segir að engin skýrsla hafi verið gerð um þetta tiltekna mál, sem hér er til umfjöllunar, en samkvæmt dagbókum verkstjóra hafi verið um að ræða útkall að morgni 25. mars 1995.  Hafi verið umað ræða stíflu í frárennsli frá húsinu, milli húss og aðalæðar í götu, þ.e.a.s. þeim hluta sem sé í eigu og á ábyrgð húseignda.  Í bréfinu segir að sennilega hafi stífla þessi valdið því að skolp frá húsinu flæddi inn í kjallara, en um það hafi hann ekki upplýsingar.  Þá segir:  “Ekki höfum við neinar upplýsingar um bilun á vatnslögn.”

Í yfirlýsingu Vals Helgasonar frá Röramyndum hf. vegna skoðunar sem gerð var í júlí 1996 segir að lögnin sem liggi frá brunni við Bræðraborgarstíg 7 og út í götu halli í öfuga átt og sé lögnin því full af vatni.  Lagnir séu orðnar slitnar og stíflist af þeim sökum.

Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu myndaðist stíflan, sem tjóninu olli, í frárennslislögn sem liggur undir götunni milli húsbrunns í gangstétt og götubrunns úti í götunni.  Fyrir liggur að um þessa leiðslu fer frárennsli frá húsunum nr. 7 og 9 við Bræðraborgarstíg.

Samkvæmt 1. mgr. 88. gr. vatnalaga nr. 15/1923 skal bæjarstjórn leggja holræsi svo að lóðareigandi nái til þeirra í götu.  Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er lóðareigendum og húseigendum skylt að gera samkvæmt reglugerð holræsi á sinn kostnað, er flytji frá húsum og lóðum skólp út í aðalræsi.  Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 169/1960, sem á stoð í fyrrgreindum lögum, ber húseigendum að sjá um hreinsun á frárennslislögnum frá húsum sínum og gæta þess að þær stíflist ekki.

Samkvæmt því sem fram hefur komið verður ekki annað séð en að umrædd stífla hafi orðið í holræsi því sem liggur frá húsunum nr. 7 og nr. 9 og út í aðalræsi.  Hefur ekki verið sýnt fram á að umrædd leiðsla tilheyri holræsakerfi Reykjavíkurborgar en samkvæmt nefndu lagaákvæði skulu húseigendur sjá um að gera slík holræsi og teljast þau því í eign og á ábyrgð þeirra.  Samkvæmt því sem fram hefur komið telst umrædd leiðsla í eigu og á ábyrgð húseigenda að Bræðraborgarstíg 7 og 9. 

Með öllu er ósannað að Reykjavíkurborg hafi í upphafi lagt umrædda leiðslu.  Með hliðsjón af því og því sem hér að framan er rakið telst ósannað að stefndi, Reykjavíkurborg, beri nokkra ábyrgð á meintu tjóni stefnanda og ber því að sýkna þennan stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Samkvæmt 51. gr. laga nr. 26/1994 ber eigandi séreignar ábyrgð á tjóni sem verður vegna vanrækslu á viðhaldi séreignar, búnaði hennar og lögnum og mistökum við meðferð hennar og viðhald.  Þótt eiganda verði ekki um kennt ber hann einnig ábyrgð á bilun á búnaði séreignar og lögnum.  Sambærilegt ákvæði er í 52. gr. sömu laga og tekur til ábyrgðar húsfélaga á viðhaldi sameignar og búnaði hennar og lögnum.  Fallast ber á að túlka beri nefnd lagaákvæði þannig að ábyrgð taki til eigenda og afnotahafa í sama húsi, en eins og atvikum háttar í máli þessu þessu þykir 52. gr. verða beitt um ágreining stefnanda og stefndu, eigenda Bræðraborgarstígs 9.

Samkvæmt framburði Ásgeirs Más Valdimarssonar, húsvarðar að Bræðraborgarstíg 7, var á árinu 1996 framkvæmd endurnýjun skolplagna inni í húsinu en náði ekki til lagna utan húss.  Kvað hann aðalskolplögn hafa verið orðna mjög lélega og hafi hún verið farin að brotna.  Hann hafi fyrst talið það orsök stíflunnar í mars 1995 en í vor sem leið hafi hins vegar komið í ljós að halli leiðslunnar, sem liggur frá húsbrunni og út í götubrunn, sé öfugur og vatn safnist því fyrir í leiðslunni.  Greini menn á um ástæður þessa.  Að þessu hafi verið ýjað í skjali frá Röramyndum hf. frá 22. júlí 1996, skjali sem hann kvaðst ekki hafa séð fyrr en nú.  Bar hann að leiðsla þessi væri sameiginleg fyrir húsin nr. 7 og nr. 9.  Bar hann að nú blasi við íbúum þessara beggja húsa að grafa upp götuna og laga þennan öfuga vatnshalla.  Þar sem nú sé vitað í hverju þetta liggur taldi hann hægt, þangað til þessar framkvæmdir hefjist, með reglubundnu millibili að setja þarna niður hreinsibúnað til að hreinsa rörið og koma þannig í veg fyrir að þetta gerist aftur.  Bar Ásgeir að eftir samtal við gatnamálastjóra í Reykjavík hafi legið fyrir að húseigendur eigi lagnir sínar út í næsta götubrunn og þurfi eigendur þessara tveggja húsa því að standa straum af  kostnaði við þessa lagfæringu. 

Ekki er upplýst í máli þessu, svo ótvírætt sé, hver var ástæða þess að umrædd lögn stíflaðist í mars 1995.  Fyrir liggur, sbr. framburð Ásgeirs Más fyrir dómi, að aðalskolpæð hússins nr. 7 var orðin léleg 1996 er hún var endurnýjuð.  Hins vegar telst ósannað að stíflan í mars 1995 verði rakin til þess.  Ekkert styður fullyrðingar stefnanda um að sú aðgerð að steypa upp í frárennsli í vinnustofu stefnanda hafi haft þýðingu í þessu sambandi eða að unnt hefði verið með vatnslásum að koma í veg fyrir að skolp gæti runnið út um niðurföll í kjallara.

Með hliðsjón af framburði Ásgeirs Más svo og því sem greinir í skjali frá Röramyndum hf., og áður er lýst, þykir gert nægilega sennilegt að ástæða stíflunnar 1995 hafi verið rangur halli leiðslunnar sem orsakaði það að fita safnaðist þar saman og stíflaði leiðsluna, enda hefur ekki verið sýnt fram á aðrar orsakir.

Ekki þykir sýnt fram á að neitt það hafi gerst sem hefði átt að gefa húseigndum húsanna tveggja tilefni til þess að fara út í einhverjar aðgerðir.  Ekki þykir sýnt fram á það í málinu að þeir hafi sýnt vanrækslu eða orðið á mistök er geri þá bótaskylda á meintu tjóni stefnanda samkvæmt 1. og 2. tl. 51. og 52. gr. laga nr. 26/1994.  Það að leiðslan gaf sig með þeim hætti sem að framan er rakið, þannig að hún gegndi ekki lengur hlutverki sínu, þykir hins vegar falla undir hina hlutlægu bótaábyrð í 3. tl. 51. og 52. gr. laga nr. 26/1994.  Bera húseigendur húsanna nr. 7 og 9 við Bræðraborgarstíg samkvæmt því ábyrgð á meintu tjóni stefnanda er varð hinn 25. mars 1995.  

Bótakrafa stefnanda er í fjórum liðum.  Fyrsti kröfuliður að fjárhæð 1.120.500 krónur vegna mynda sem stefnandi hefur málað.  Til stuðnings bótakröfu sinni samkvæmt þessum lið hefur stefnandi lagt fram ljósmyndir af 14 myndum sem hann kveður myndir þær sem skemmst hafi í vatnstjóninu.  Hefur hann og lagt fram lista yfir verðlagningu hans sjálfs á myndunum þar sem mið er tekið af verðskrá frá síðustu sýningu hans.  Þá hefur hann lagt fram sýningarskrár vegna sýninga, sem hann hefur haldið, þar sem verð mynda kemur fram.  Þá liggur fyrir, sbr. framburð Ófeigs Björnssonar og Tryggva Árnasonar, að þær myndir stefnanda, sem selst hafa, hafa verið seldar á því verði sem stefnandi setti á þær.  Þá hefur hann lagt fram fylgiseðla með umboðssölu.

Til stuðnings bótakröfu sinni samkvæmt kröfulið 2 hefur stefnandi einnig lagt fram ljósmyndir frá vinnustofu sinni og lista yfir þá muni sem stefnandi kveður hafa skemmst og verð þeirra samkvæmt mati stefnanda.

Ljóst þykir að stefnandi varð fyrir tjóni er skolp flæddi inn í vinnustofu hans 25. mars 1995.  Stefnandi hlutaðist ekki til um að fá óvilhalla menn til þess að meta meint fjártjón sitt. Liggja því ekki fyrir gögn hlutlausra aðila um fjártjón stefnanda í máli þessu.  Byggjast kröfur samkvæmt kröfulið 1 og 2 eingöngu á fullyrðingum hans sjálfs um umfang tjónsins og verðmæti mynda og hluta svo og gögnum sem stafa frá honum sjálfum.  Gegn andmælum stefndu telst framangreint ekki fullnægjandi til sönnunar á fjártjóni stefnanda.  Er því með öllu ósannað hvert var umfang tjónsins og jafnframt hvert var raunverulegt verðmæti þeirra mynda og hluta sem stefnandi heldur fram að skemmst hafi í umræddu vatnstjóni.

Krafa samkvæmt kröfulið 3 er með öllu órökstudd og ekki studd neinum gögnum.  Telst tjón stefnanda samkvæmt þessum kröfulið ósannað.

Krafa stefnanda um miskabætur að fjárhæð 250.000 krónur á sér ekki lagastoð.  Verður krafan ekki reist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 né öðrum lögum.

Samkvæmt framansögðu þykir stefnandi ekki hafa getað sýnt fram á tjón sitt í máli þessu og ber því af þeim sökum að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndu, db. Valdimars Jóhannssonar, Reykjavíkurborg, Guðbjörg Eyvindsdóttir, Erla Björg Skúladóttir, Margrét O. Svendsen, Áslaug Hallgrímsdóttir, Reynir Svansson, Gísli Kristjánsson, Matthildur Þ. Marteinsdóttir, Erna Sigrún Egilsdóttir, Katrín K. Jósefsdóttir, Hansína Melsteð og Ævar Sigurðsson skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Jóhanns G. Jóhannssonar.

Málskostnaður fellur niður.