Hæstiréttur íslands

Mál nr. 410/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Handtaka
  • Brottvísun úr landi
  • Frávísun frá Hæstarétti


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. október 2001.

Nr. 410/2001.

Ríkislögreglustjóri

(Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri)

gegn

X

(Haraldur Blöndal hrl.)

 

Kærumál. Handtaka. Brottvísun úr landi. Frávísun frá Hæstarétti.

X kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem hún hafði m.a. uppi mótmæli gegn því að hún yrði færð úr landi. Upplýst var að X hafði, eftir uppkvaðningu héraðsdóms og áður en málið barst Hæstarétti, verið flutt til Amsterdam í lögreglufylgd og farið þaðan sjálfviljug til heimalands síns. Með vísan til 4. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 varð þar af leiðandi ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2001, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að ógilt yrði handtaka hennar og kröfum hennar að öðru leyti vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, að dæmt verði að óheimilt hafi verið að handtaka varnaraðila, að óheimilt hafi verið að færa varnaraðila úr landi og að héraðsdómara hafi borið að úrskurða að óheimilt hafi verið að færa hana úr landi fyrr en kærumálið væri til lykta leitt í Hæstarétti. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Aðalkröfu sína um vísun málsins frá Hæstarétti styður sóknaraðili þeim rökum, að varnaraðili hafi að morgni 23. október sl. verið flutt til Amsterdam í lögreglufylgd. Þaðan hafi hún farið sjálfviljug degi síðar án frekari fylgdar lögreglumanna til heimalands síns, Armeníu. 

Samkvæmt framangreindu er ljóst að ástand, sem leiddi af atvikum þeim, sem fjallað er um í hinum kærða úrskurði, er þegar um garð gengið. Verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

            Málinu er vísað frá Hæstarétti.

           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2001.

X, hefur krafist þess að hún verði leyst úr haldi sem hún var sett í að boði ríkislögreglustjóra í lögreglustöðinni í Reykjavík, jafnframt krefst hún þess að úrskurðað verði að óheimlt sé að handtaka hana eða færa úr landi með valdi, uns genginn er fullnaðardómur í máli er hún hefur höfðað gegn íslenska ríkinu og þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. september 2001. Til vara krefst hún þess að úrskurðað verði að óheimilt verði að flytja hana úr landi fyrr en Hæstiréttur hefur fjallað um hugsanlega kæru.

X kom til Íslands 21. september 2000. Hún kveðst hafa þá haft tilskilið dvalarleyfi og haft vegabréf. Hún var handtekin sama dag og þá skilríkjalaus. Útlendingaeftirlitið vísaði henni úr landi 3. nóvember 2000, sú ákvörðun var staðfest af dómsmálaráðherra 21. desember 2000. Hún hefur nú höfðað mál til að fá úrskurð ráðherra felldan úr gildi og hefur henni verið veitt gjafsókn í því máli. Ráðherra hefur synjað beiðni hennar um að fresta brottvísun uns dómur er genginn í máli hennar.

X var handtekin í dag í þeim tilgangi að verða flutt úr landi.

Úrskurðar Héraðsdóms er krafist á grundvelli 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Byggt er á því að handtakan hafi verið óheimil. Ekki sé heimild í lögum nr. 19/1991, eða í lögum nr. 45/1965 til handtöku án handtökuskipunar dómara. Þá er vísað til þess að skv. 70. gr. stjórnarskrárinnar beri öllum réttur til þess að dómstóll fjalli um réttindi þeirra og skyldur. Með brottvísun úr landi sé X svipt þeim rétti, en ákvæðið beri að skýra svo að hún eigi rétt til þess að koma í eigin persónu fyrir dóm.

Loks er vísað til 60. gr. stjórnarskrárinnar og 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Niðurstaða.

Fallast má á að X eigi rétt til þess að bera réttmæti handtöku undir dóm. Um önnur þau atriði sem hún hefur borið fram verður hins vegar ekki fjallað nema í máli sem rekið er skv. reglum laga nr. 91/1991. Því er ekki unnt í þessu kærumáli að leysa úr um rétt hennar til að vera viðstödd er mál hennar verður rekið fyrir dómi. Verður að vísa frá dómi kröfu hennar um að lýst verði óheimilt að handtaka hana eða færa úr landi, svo og varakröfu hennar um frestun á brottflutningi.

Handtaka byggði í þessu tilviki á 15. gr. laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum. Sú heimild er skýr og áskilur ekki úrskurð dómara í hverju tilviki. Ekki hefur verið sýnt fram á að handtakan hafi verið ónauðsynleg eða framkvæmd af óviðeigandi hörku. Verður ekki fallist á kröfu X um að handtakan og gæsla hennar verði lýst ólögmæt.

Ekki verður leyst úr kröfu um málskostnað á þessu stigi.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu X um ógildingu handtöku hennar. Að öðru leyti er kröfum hennar vísað frá dómi.

Hafnað er kröfu um málskostnað að svo stöddu.