Hæstiréttur íslands
Mál nr. 142/2005
Lykilorð
- Hótanir
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 9. júní 2005. |
|
Nr. 142/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Garðari Hafstein Björgvinssyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Hótanir. Skilorð.
G var ákærður fyrir hótanir, með því að hafa í bréfi til A, hótað því að A og nafngreindur umbjóðandi hans yrðu báðir „drepnir“ og jafnframt hótað A með tilteknum orðum. G viðurkenndi að hafa sent A umrætt bréf. Talið var að í umræddum orðum fælist hótun um að fremja refsiverðan verknað, sem til þess væri fallin að vekja ótta hjá A um velferð hans og að G hefði verið ljóst að A hlaut að taka hótunina alvarlega. Var hann því sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Garðar Hafstein Björgvinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 15. júní 2004, á hendur Garðari Hafsteini Björgvinssyni, kt. [...], Herjólfsgötu 18, Hafnarfirði,
,,fyrir hótanir, með því að hafa í bréfi, dagsettu 26. janúar 2004, til [A], sem [A] barst þann 2. febrúar s.á., hótað því að [A] og nafngreindur umbjóðandi hans yrðu báðir ,,drepnir”, og jafnframt hótað [A] með eftirfarandi orðum: ,,Þú [A]! Þig mun ég vakta og elta á röndum þar til öll þjóðin þekkir þig eins og þú ert”, en efni bréfsins var til þess fallið að vekja hjá [A] ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð sína.”
Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Verjandi ákærða krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.
Málsatvik.
Með kæru frá 2. febrúar 2004 lagði A hæstaréttarlögmaður fram kæru á hendur ákærða fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa hótað kæranda lífláti í bréfi dagsettu 26. janúar 2004. Segir í kærunni að ákærði hóti því að kærandi og nafngreindur maður verði drepnir. Sé hótunin eins og hún sé fram sett og með tilliti til forsögu ákærða um ofbeldi til þess fallin að vekja hjá kæranda ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.
Í bréfi þessu segir m.a.: ,,Ég vil bara að það komi hér skýrt fram hvað ég meinti. Þú ásamt varmenninu [B] gerðuð þetta árið 1996. Þið stáluð nýjum bát úr bátastöð minni. Það var ykkur ekki nóg. Þið stáluð mannorði mínu, lánstrausti, atvinnu minni og eyðilögðuð heimilislíf mitt, lögðuð líf mitt í rúst af yfirlögðu ráði. Fyrir þetta verðið þið báðir drepnir ef lög ná ekki yfir verk ykkar. En - athugið. Verið þið ekki svo stropaðir að ég hyggist leggja líf mitt endanlega í rúst með því að farga ykkur eins og heiðarlegum mönnum, nei. Þú [A]! Þig mun ég vakta og elta á röndum þar til öll þjóðin þekkir þig eins og þú ert...”
Tekin var lögregluskýrsla af ákærða 20. febrúar 2004 og kvaðst hann þá hafa skrifað umrætt bréf til kæranda. Kvaðst ákærði standa við hvert orð sem hann hefði skrifað. Hann hefði hins vegar ekki hugsað sér að sú merking sem leggja mætti í hótunina yrði framkvæmd.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði játaði að hafa sent umrætt bréf til kæranda í því skyni að fá kæranda til að ræða við sig um það sem hann hefði gert sér. Ákærði kvað kæranda hafa hringt í sig 24. janúar, þ.e. nokkru áður en hann skrifaði umrætt bréf til kæranda. Kærandi hafi ögrað sér og spurt hvort ákærði myndi standa skriflega við orð þau sem ákærði lét falla í samtali þessu. Ákærði kvað efni bréfs þessa vera ,,hálfvitalegt”, þar sem ákærði kvaðst aldrei hafa ætlað sér að gera alvöru úr því sem sett er fram í bréfinu. Um líflátshótun þá sem fram kemur í bréfinu kvaðst ákærði hafa átt við að hann myndi ,,drepa [A] með orðum”, þ.e. eyðileggja mannorð hans. Spurður um hvað ákærði hefði átt við með orðunum, ,,þig mun ég vakta” kvaðst ákærði eiga við að hann myndi aldrei hætta að reyna að ná rétti sínum og láta kæranda standa fyrir máli sínu. Ákærði kvaðst ekki telja efni bréfsins vera með þeim hætti að það hafi verið til þess fallið að vekja með kæranda ótta um líf eða heilbrigði. Hann kvaðst einungis hafa ætlað að hræða hann. Ákærði kvað kæranda hafa hótað sér í símtali á árinu 2002. Hafi kærandi sagt við ákærða að hann myndi senda 2-3 vini sína frá Litla-Hrauni til þess að ,,loka kjaftinum á ákærða forever ”.
Vitnið, A, kvaðst halda að hann hefði fengið umrætt bréf 2. febrúar 2004. Hann hafi túlkað efni bréfsins sem hótun, enda sé hótun í bréfinu. Vitnið kvað bréf þetta hafa borist sér í framhaldi af ákveðnum símasamskiptum við ákærða, en ákærði hafi á þeim tíma verið að reyna að fá mál endurupptekið mál sem var þá löngu dæmt í Hæstarétti. Vitnið kvaðst aldrei hafa hvatt ákærða til að senda sér bréf með hótunum. Þá kvaðst vitnið aldrei hafa hótað því að senda fanga af Litla-Hrauni til þess að berja á ákærða. Sú staðhæfing ákærða sé alveg fráleit. Vitnið kvað ákærða aldrei hafa veist að sér, nema í orðum, en kvað að sér hafi þótt ástæða til, í ljósi fyrri sögu ákærða, að láta málið ekki kyrrt liggja, heldur senda það áfram til lögreglu. Vitnið kvað sér hafa verið kunnugt um að ákærði hefði hlotið refsidóm fyrir ofbeldisbrot gagnvart lögmanni á árum áður og því hafi honum þótt ástæða til að taka hótunina í bréfinu alvarlega. Vitnið kvaðst þó ekki hafa orðið hrætt um líf sitt. Spurt um hvort efni bréfsins hefði valdið hjá vitninu ótta um líf, heilbrigði eða velferð, ítrekaði vitnið að sér hafi þótt full ástæða til að láta lögreglu vita af bréfinu, vegna fyrri sögu ákærða. Vitnið kvað ákærða áður hafa hótað sér munnlega, en þess á milli hefðu þeir átt ágætis samtöl.
Vitnið, C, kvaðst hafa verið í sambúð með ákærða á árunum 1998 til 2001. Hún kvaðst ekki hafa orðið vitni að meintu símtali ákærða við kæranda árið 2002, þar sem ákærði hefur borið að kærandi hafi hótað ákærða að tilgreindir menn myndu ,,ganga frá ákærða”. Vitnið kvaðst hins vegar hafa heyrt ákærða tala um þetta ákveðna símtal við sig. Vitnið þvertók fyrir að hafa heyrt þetta símtal, enda kvaðst hún hafa verið flutt frá ákærða á árinu 2002.
Niðurstaða.
Samkvæmt 233. gr. almennra hegningarlaga varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef maður hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa sent A hæstaréttarlögmanni margnefnt bréf, dagsett 26. janúar 2004, en neitaði því að í efni bréfsins fælist líflátshótun, og hafi hann ætlað að drepa A ,,með orðum”.
Kærandi kvaðst fyrir dómi hafa talið að í bréfinu fælist hótun, þótt hann hafi ekki óttast um líf sitt, en kærandi kvaðst hafa vitað að ákærði hefði verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot gegn lögmanni á árum áður. Óumdeilt er að vitnið er að vísa til hæstaréttardóms frá árinu 1986, en þá var ákærði dæmdur fyrir líkamsárás gegn lögmanni.
Við mat á því hvort hótun sú, sem vissulega er að finna í margnefndu bréfi, rúmist innan marka 233. gr. almennra hegningarlaga, verður að skoða efni bréfsins í heild og líta til þeirra samskipta ákærða og kæranda sem ákærði ýjar að í bréfi sínu. Í umræddu bréfi segir ákærði kæranda og nafngreindan mann hafa lagt líf ákærða í rúst, rúið hann æru, atvinnu og lánstrausti, auk þess sem ákærði brigslar kæranda um þjófnað. Þá hótar ákærði því að drepa kæranda og nafngreindan mann vegna þessa, þó ekki með þeim hætti að þeim verði ,,fargað eins og heiðarlegum mönnum”, heldur með því að ,,vakta” kæranda og ,,elta á röndum þar til öll þjóðin þekkir” hann eins og hann er. Þótt ekki verði fullyrt um hvað ákærði á þar við, ber að líta til framburðar hans fyrir dómi að hann hefði viljað ,,drepa kæranda með orðum”. Í ljósi þessa verður að telja að í orðunum ,,fyrir þetta verðið þið báðir drepnir” og ,,Þú [A]! Þig mun ég vakta og elta á röndum þar til öll þjóðin þekkir þig eins og þú ert” felist hótun um að fremja refsiverðan verknað, sem til þess var fallin að vekja hjá kæranda ótta um velferð hans og að ákærða hafi verið ljóst að kærandi hlaut að taka hótunina alvarlega. Með þessari háttsemi hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvörðun refsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann með dómi Hæstaréttar 3. júní 1999 dæmdur til greiðslu sektar vegna fiskveiðibrots. Annarra brota ákærða er ekki getið á sakavottorði hans, þótt óumdeilt sé að hann hafi, eins og að ofan greinir, hlotið dóm á árinu 1986 fyrir líkamsárás.
Þegar framangreint er virt, er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en rétt þykir að fresta ákvörðun refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Sakarkostnaður.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík. Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Ákærði, Garðar H. Björgvinsson, sæti fangelsi í 2 mánuði, en frestað er fullnustu refsivistar ákærða og falli hún niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.