Hæstiréttur íslands
Mál nr. 206/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 12. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2017 þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðilum var fellt niður og honum gert að greiða varnaraðilunum Margréti G. Einarsdóttur og Sunnu Guðbjartsdóttur, hvorri um sig, 1.307.500 krónur í málskostnað, varnaraðilanum Mosgerði 7 húsfélagi 744.930 krónur í málskostnað og varnaraðilunum Freyju Theódórsdóttur og Friðriki Gunnarssyni óskipt 1.045.010 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindur málskostnaður í héraði „verði felldur niður eða verulega lækkaður.“
Varnaraðilarnir Margrét, Sunna, Mosgerði 7 húsfélag, Freyja og Friðrik krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Þór Ragnarsson hefur ekki látið málið til sín taka.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðilum þar sem hann krafðist meðal annars greiðslu á tilteknum fjárhæðum úr hendi varnaraðilanna Margrétar og Sunnu vegna framkvæmda á fasteigninni Mosgerði 7 í Reykjavík, sem hann hafði ráðist í, en til vara greiðslu úr hendi varnaraðilans Mosgerði 7 húsfélags. Jafnframt stefndi hann varnaraðilunum Freyju, Friðriki og Þór til réttargæslu. Málið var þingfest 7. apríl 2016. Allir varnaraðilarnir, að Þór undanskildum, tóku til varna og skiluðu greinargerðum í málinu þar sem þau kröfðust meðal annars málskostnaðar sér til handa. Í þinghaldi 13. mars 2017 krafðist sóknaraðili þess að málið yrði fellt niður og í kjölfar þess var hinn kærði úrskurður kveðinn upp þar sem varnaraðilunum fimm var úrskurðaður málskostnaður á grundvelli framlagðra málskostnaðarreikninga af þeirra hálfu.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef mál er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um. Í samræmi við það ber sóknaraðila að greiða varnaraðilunum fimm málskostnað vegna rekstrar málsins í héraði eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Í a. lið 1. mgr. þeirrar lagagreinar er kveðið á um að til málskostnaðar teljist kostnaður af flutningi máls og í g. lið annar kostnaður en sá sem talinn er upp í a. til f. liðum og stafar beinlínis af máli.
Á yfirliti, sem fylgdi málskostnaðarreikningi varnaraðilanna Margrétar og Sunnu, kemur fram að lögmaður þeirra hafi unnið að málinu samtals í um 50 stundir eftir að stefna var birt þeim, en áður hafi lögmaðurinn veitt þeim aðstoð við rekstur stjórnsýslumála vegna áðurgreindra framkvæmda sóknaraðila. Þar sem sú vinna hefur nýst að hluta við rekstur dómsmálsins er hæfilegt að honum verði gert að greiða þeim 1.000.000 krónur, hvorri um sig, í málskostnað fyrir héraðsdómi. Með tilliti til aðildar varnaraðilanna Mosgerði 7 húsfélags, Freyju og Friðriks að málinu og sökum þess að sami lögmaður rak málið fyrir þau er rétt að sóknaraðila verði gert að greiða þeim annars vegar 500.000 krónur og hins vegar 750.000 krónur í málskostnað í héraði. Greiðist sú fjárhæð síðastnefndu varnaraðilunum í einu lagi samkvæmt 1. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Sóknaraðili, Gísli Þórður Geir Magnússon, greiði varnaraðilunum Margréti G. Einarsdóttur og Sunnu Guðbjartsdóttur, hvorri um sig, 1.000.000 krónur, varnaraðilanum Mosgerði 7 húsfélagi 500.000 krónur og varnaraðilunum Freyju Theódórsdóttur og Friðriki Gunnarssyni óskipt 750.000 krónur í málskostnað í héraði.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2017.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um málskostnaðarkröfur beggja aðalstefndu, varastefnda og tveggja af þremur réttargæslustefndu 13. mars 2017, var höfðað með stefnu útgefinni 23. mars 2016 af hálfu Gísla Þórðar Geirs Magnússonar, Fannafold 30 í Reykjavík, aðallega á hendur Margréti G. Einarsdóttur, Langholtsvegi 69, Reykjavík og Sunnu Guðbjartsdóttur, Langholtsvegi 95, Reykjavík, til greiðslu skuldar og staðfestingar á lögveðrétti. Til vara var stefnt Mosgerði 7, húsfélagi, Mosgerði 7, Reykjavík og til réttargæslu var stefnt Freyju Theódórsdóttur, Mosgerði 7, Reykjavík, Friðriki Gunnarssyni, til heimilis á sama stað, og Þór Ragnarssyni, Langholtsvegi 37, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda á hendur aðalstefndu voru þær að stefnda Margrét greiði stefnanda 3.980.054 krónur og að stefnda Sunna greiði stefnanda 2.379.364 krónur. Til vara krafðist stefnandi þess að varastefndi, Mosgerði 7, húsfélag, greiði stefnanda 7.604.230 krónur, að frádregnum eignarhlut sem fylgi séreign stefnanda, 16,37%. Í öllum framangreindum tilvikum var krafist dráttarvaxta á fjárhæðirnar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá því mánuður var liðinn frá birtingu stefnu til greiðsludags. Þá krafðist stefnandi viðurkenningar á lögveðrétti fyrir framangreindum fjárhæðum, ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, í eignarhlutum sem aðalstefndu áttu í fasteigninni Mosgerði 7, Reykjavík, en sem réttargæslustefndu höfðu fest kaup á við höfðun málsins. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi aðalstefndu, en varastefnda til vara, að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.
Dómkröfur aðalstefndu voru aðallega að stefndu verði sýknaðar af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði verulega lækkaðar, í báðum tilvikum kröfðust stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi. Varastefndi gerði sömu dómkröfur og aðalstefndu og krefst málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi. Réttargæslustefndu Freyja og Friðrik kröfðust málskostnaðar óskipt að skaðlausu úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi ásamt virðisaukaskatti. Réttargæslustefndi Þór gerði engar kröfur í málinu.
Við fyrirtöku málsins í þinghaldi 13. mars 2017 lýsti lögmaður stefnanda því yfir að stefnandi félli frá málssókn sinni. Málið verður því að kröfu stefnanda fellt niður með úrskurði þessum. Af hálfu aðalstefndu, varastefnda og réttargæslustefndu Freyju og Friðriks var krafist úrskurðar um málskostnað, sbr. 2. mgr. 105. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Lögmönnum aðila var gefinn kostur á að tjá sig um málskostnaðarkröfur sínar áður en þær voru teknar til úrskurðar. Hér eru því til úrlausnar kröfur aðalstefndu, varastefnda og réttargæslustefndu Freyju og Friðriks um málskostnað úr hendi stefnanda. Eru þau öll sóknaraðilar í þessum þætti málsins. Stefnandi, sem hér er varnaraðili, krefst þess að málskostnaður verði látinn niður falla.
Helstu málsatvik eru þau að stefnandi og aðalstefndu áttu hvert um sig eina íbúð í þriggja íbúða fjöleignarhúsi að Mosgerði 7 þegar stefnandi hóf framkvæmdir við íbúð sína, sameign hússins og lóð. Deildu eigendur um heimildir stefnanda til þessara framkvæmda, sem voru um tíma stöðvaðar af byggingarfulltrúa. Hann aflétti síðar banni sínu og var sú ákvörðun staðfest af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eftir að deilur komu upp var formlegt húsfélag stofnað, sem er varastefndi í málinu. Aðalstefndu hafa selt íbúðir sínar, sem nú eru í eigu réttargæslustefndu. Stefnandi höfðaði málið með framangreindum dómkröfum til greiðslu á kostnaði við umræddar framkvæmdir og styður kröfugerð sína við reikninga verktakafyrirtækis í sinni eigu. Kröfunum var mótmælt, framkvæmdirnar taldar hafa verið heimildarlausar og á það bent að ekki væri sérgreint hvaða hluti kostnaðar væri vegna sameignar. Við meðferð málsins var ekki bætt úr því, en stefnandi aflaði matsgerðar dómkvadds manns um kostnað við framkvæmdir sínar í heild. Að fenginni matsgerð og að fengnum fresti til að skýra og sundurliða kröfur sínar nánar féll stefnandi frá málsókninni.
Kröfur og sjónarmið aðila um málskostnað
Sóknaraðilar krefjast málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu samkvæmt framlögðum reikningum. Málskostnaðarreikningur lögmanns aðalstefndu er að fjárhæð 2.615.000 krónur, að meðtöldum útlögðum kostnaði og virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Krafist er 1.307.500 króna af hálfu hvorrar aðalstefndu um sig. Í tímaskýrslu er gerð grein fyrir vinnu lögmannsins í 49,25 klukkustundir. Varastefndi krefst málskostnaðar samkvæmt reikningi samtals að fjárhæð 744.930 krónur samkvæmt tímaskráningu, samtals 30 klukkustundir, ásamt virðisaukaskatti. Réttargæslustefndu Freyja og Friðrik krefjast óskipt málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi samtals að fjárhæð 1.045.010 krónur. Að baki þeirri fjárhæð liggur samkvæmt tímaskýrslu vinna lögmanna í 34,5 klukkustundir, auk virðisaukaskatts. Sömu lögmenn unnu fyrir réttargæslustefndu og fyrir varastefnda. Við málflutning var bent á að tekið hefði verið tillit til þess við reikningsgerð fyrir mót í þinghöld fyrir þessa aðila þeim til hagsbóta.
Varnaraðili, stefnandi, telur rétt að málskostnaður verði felldur niður. Ástæða þess að krafist sé niðurfellingar málsins sé erfið sönnunarstaða. Mótmælt sé reikningsgerð lögmanns aðalstefndu, sem taki m.a. til kostnaðar sem til hafi orðið áður en málið hafi verið höfðað, m.a. við málsmeðferð hjá úrskurðarnefnd, en þær hafi tapað því máli. Varastefndi hefði að mati stefnanda ekki þurft að skila sérstakri greinargerð í málinu, enda hefðu allar varnir verið komnar fram í greinargerð aðalstefndu. Vinna lögmanns varastefnda væri því að þessu leyti lítil og var málskostnaðarreikningi lögmannsins mótmælt. Engin þörf hefði verið fyrir réttargæslustefndu að halda uppi vörnum í málinu þar sem ekki væru gerðar fjárkröfur á hendur þeim.
Sóknaraðilar telja málið hafa verið höfðað að tilefnislausu og vísa m.a. til 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til stuðnings málskostnaðarkröfum sínum, en jafnframt til meginreglu 2. mgr. 130. gr. laganna. Afstaða aðalstefndu og lagarök fyrir henni hefði verið stefnanda ljós áður en málið var höfðað. Lögmaður aðalstefndu hefði leitað lausna á ágreiningi aðila og átt samskipti við fyrri lögmann stefnanda og núverandi lögmann hans vegna umræddra framkvæmda, svo sem rakið sé í stefnu, og m.a. aðstoðað aðila við stofnun húsfélags. Af hálfu varastefnda er á það bent að vegna stöðu varastefnda sem húsfélags kalli það á aukna vinnu að afla formlegrar heimildar til að taka til varna í dómsmáli. Af hálfu réttargæslustefndu er m.a. vísað til 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 og á það bent að þeim hafi verið nauðugur sá kostur að taka til varna þar sem í málinu séu hafðar uppi kröfur um staðfestingu lögveðs í eign þeirra.
Niðurstaða
Mál verður fellt niður ef stefnandi krefst þess, sbr. c-lið 1. mgr. 105. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þess hefur stefnandi krafist og fellur mál þetta því niður með úrskurði þessum, auk þess sem úrskurðað er um kröfur um málskostnað, sbr. 2. mgr. 105. gr. laga um meðferð einkamála.
Að því virtu að málið er fellt niður af framangreindri ástæðu og án þess að stefndu hafi fallist á kröfur stefnanda verður, með vísun til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, fallist á kröfur allra sóknaraðila um málskostnað úr hendi varnaraðila, stefnanda.
Stefnandi mótmælir fjárhæð málskostnaðarkrafna aðalstefndu að því marki sem unnið var áður en málið var höfðað. Í tímaskýrslu lögmannsins er fyrsta færsla vinnu fyrir aðalstefndu skráð 9. maí 2014. Samkvæmt málavaxtalýsingu í stefnu hóf stefnandi framkvæmdir sínar haustið 2013 og rakin eru sem atvik málsins samskipti stefnanda og aðalstefndu varðandi þessar framkvæmdir. Færslur í tímaskýrslu lögmannsins á vinnu fyrir aðalstefndu samræmast þeim tilefnum og atvikum sem stefnandi rekur þar.
Málið var tekið fyrir sjö sinnum eftir úthlutun til dómara og hafði þá verið tekið fyrir þrisvar á reglulegu dómþingi. Verða varnaraðili og sóknaraðilar að teljast bera sameiginlega ábyrgð á fjölda þinghalda, en beiðnir um fresti voru ýmist settar fram af sóknaraðilum eða varnaraðila, í tilefni af framlagningu gagna eða vegna mótmæla um formhlið málsins, en frestir skyldu jafnframt nýttir til sáttaumleitana, sem ekki báru árangur. Við meðferð málsins fór enn fremur fram matsvinna með aðkomu lögmanna aðila, en hún kom til vegna matsbeiðni stefnanda.
Að virtum málskostnaðarreikningum og tímaskýrslum lögmanna sóknaraðila og að teknu tilliti til skýringa og málsatvika verður stefnanda gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í samræmi við kröfur þeirra. Málskostnaður verður því ákveðinn, að meðtöldum virðisaukaskatti, með þeim fjárhæðum sem greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Málið fellur niður.
Varnaraðili, stefnandi Gísli Þórður Geir Magnússon, greiði sóknaraðilum málskostnað þannig, stefndu Margréti G. Einarsdóttur 1.307.500 krónur, stefndu Sunnu Guðbjartsdóttur 1.307.500 krónur, varastefnda Mosgerði 7, húsfélagi, 744.930 krónur og réttargæslustefndu, Freyju Theódórsdóttur og Friðriki Gunnarssyni, óskipt 1.045.010 krónur.