Hæstiréttur íslands
Mál nr. 409/2006
Lykilorð
- Ölvun við akstur
- Akstur sviptur ökurétti
|
|
Fimmtudaginn 15. febrúar 2007. |
|
Nr. 409/2006. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Antony Lee Bellere (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ölvun við akstur. Akstur sviptur ökurétti.
A var sakfelldur fyrir að hafa ekið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Hann hafði verið sviptur ökurétti ævilangt árið 1994 og aftur árið 1999 og ekki öðlast ökurétt að nýju. Þar sem hann hafði enn unnið sér til ökuréttarsviptingar í þessu máli var ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð. Með brotum sínum rauf A skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt á 110 dögum óafplánaðrar refsingar og var honum því gerð refsing í einu lagi. Við ákvörðun refsingar var jafnframt litið til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og langs sakarferils hans. Refsing A var ákveðin fangelsi í fimm mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, en þyngingar á refsingu og frekari sviptingar ökuréttar.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara að refsing verði milduð.
Framburður ákærða og vitna er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Lögreglumennirnir A og F báru báðir fyrir héraðsdómi að þeir hefðu séð ákærða aka bifreið inn á bílastæði við veitingastaðinn Players við Bæjarlind í Kópavogi. Skömmu síðar fengu þeir boð frá Fjarskiptamiðstöð lögreglu um ölvaðan mann fyrir utan veitingastaðinn og óku þegar á vettvang. Þar hittu þeir fyrir ákærða ásamt tveimur dyravörðum veitingastaðarins, en annar þeirra hafði tilkynnt lögreglu um akstur ákærða. Ákærði var handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur. Annar dyravarðanna bar fyrir héraðsdómi að hann hafi séð ákærða aka bifreið við veitingastaðinn og lagt í stæði við húsið. Með vísan til framangreinds og að öðru leyti til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða.
Ákærði er fundinn sekur um að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Hann á að baki langan sakarferil og hefur meðal annars margsinnis brotið gegn umferðarlögum, bæði með akstri undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Hann var fjórum sinnum sakfelldur fyrir ölvunarakstur á árunum 1986 til 1991. Á þessum tíma var hann einnig í nokkur skipti sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti. Ákærði var enn 28. mars 1994 dæmdur fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Var hann sviptur ökurétti ævilangt, og svipting áréttuð með dómi 22. febrúar 1999 vegna sams konar brota. Ákærði hefur ekki öðlast ökurétt að nýju. Hann hefur nú enn á ný unnið sér til ökuréttarsviptingar vegna ölvunaraksturs 11. desember 2005 eins og krafist er af hálfu ákæruvalds. Verður því að árétta með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum að ákærði skuli vera sviptur ökurétti ævilangt.
Með brotum sínum rauf ákærði skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt 1. júlí 2005 í eitt ár á 110 dögum óafplánaðrar refsingar, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Með vísan til 1. mgr. 65. gr. laganna ber því nú að gera ákærða refsingu í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar verður jafnframt litið til 77. gr. síðarnefndra laga og sakarferils ákærða. Samkvæmt framangreindu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í fimm mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Antony Lee Bellere, sæti fangelsi í fimm mánuði.
Ákærði skal vera sviptur ökurétti ævilangt.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 203.844 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. júní 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. maí 2006 höfðaði lögreglustjórinn í Kópavogi með ákæru útgefinni 16. mars 2006 á hendur ákærða, Anthony Lee Bellere, kt. 030966-5389, Bárugötu 22, Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni sunnudagsins 11. desember 2005, ekið bifreiðinni KL-151 undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,97 °/oo) og sviptur ökurétti um Bæjarlind í Kópavogi, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.
Háttsemi ákærða telst varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr., 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 57/1997, nr. 82,/998, nr. 132/2003 og nr. 84/2004.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 23/1993, nr. 44/1993 og nr. 84/200404.“
Í þinghaldi 10. apríl 2006 neitaði ákærði sök. Verjandi krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. réttargæslu- og málsvarnarlaun að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Málsatvik og skýrslur hjá lögreglu.
Upphaf málsins er það að lögreglumenn voru í lögreglubifreið á bifreiðastæði sunnan við veitingastaðinn Players við Bæjarlind 4, aðfaranótt 11. desember 2005 í eftirliti. Þeir sáu þá hvar rauðlitaðri bifreið af gerðinni Hyundai Accent var ekið af aðalakbraut Bæjarlindar og inn í húsagötu Bæjarlindar fyrir framan hús nr. 4-12. Þaðan var bifreiðinni ekið inn á bifreiðastæðið og framhjá lögreglubifreiðinni, en á þessari stundu var lögreglubifreiðin kyrrstæð í útkeyrslu frá nefndu bifreiðastæði. Skráð er í frumskýrslu lögreglunnar, sem rituð er af A, lögreglumanni, þann 16. desember 2005, að lögreglumenn hafi séð ökumann bifreiðarinnar, sem hafi verið karlmaður um fertugt, sköllóttur, klæddur í svartan jakka. Lögreglan kvaðst hafa ekið frá veitingastaðnum vestur Bæjarlind, inn á Reykjanesbraut til norðurs en þaðan inn á Fífuhvammsveg til vesturs. Þegar lögreglan nálgaðist gatnamót Fífuhvammsvegar og Dalvegar fékk hún tilkynningu frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um ölvaðan mann sem væri til vandræða fyrir utan veitingastaðinn Players. Fór lögreglan á vettvang og hafði tal af tveimur dyravörðum, þeim B og C. Hjá þeim hafi verið 39 ára gamall, sköllóttur karlmaður, klæddur svörtum jakka, Anthony að nafni. Reyndist hann vera ákærði í máli þessu. Á bifreiðastæðinu var rauð bifreið af gerðinni Hyundai Accent. Ákærði var færður inn í lögreglubifreiðina þar sem hann gaf öndunarsýni í S-D2 öndunarmæli og mældist vínandamagn í útöndunarlofti 1,55 °/oo. Var ákærði því handtekinn klukkan 05:09 vegna gruns um ölvunarakstur. Ákærði kvaðst ekki hafa ekið bifreiðinni heldur hafi unnusta sín gert það. Ákærði vildi hins vegar ekki nafngreina hana. Ákærði kvað móður sína vera eiganda bifreiðarinnar og hafi hann tekið bifreiðina í heimildarleysi. Ákærði var beðinn um að afhenda lögreglu kveikjuláslykla bifreiðarinnar, en hann kvaðst ekki vera með þá. Annar dyravarðanna, C, upplýsti lögreglu hins vegar um að hann hafi orðið vitni að því er ákærði stakk þeim í buxnavasa sinn. Skráð er í frumskýrslu að dyraverðir Players, þeir B og C, hafi séð ákærða aka bifreiðinni á bifreiðastæðinu. Haft er eftir B að hann hafi séð ákærða drekka úr glasi frá Select eftir að akstri lauk. Leitað var í bifreiðinni og fyrir utan hana en hvorki fannst áfengi né tómar áfengisumbúðir. Þá fannst heldur ekki pappamál sem ætla mætti vera frá versluninni Select.
Ákærði var fluttur á lögreglustöðina í Kópavogi. Þegar hann var kominn inn í lögreglustöðina sá lögreglumaður hvar ákærði tók kveikjuláslykla úr hægri frambuxnavasa og lét þá falla í gólfið. Við athugun kom í ljós að lyklarnir voru kveikjuláslyklar bifreiðarinnar KL-151. Ákærði fékkst ekki til þess að gefa sjálfstæða skýrslu hjá varðstjóra. Hann neitaði að hafa ekið í umrætt sinn. Við athugun kom í ljós að ákærði var sviptur ökuréttindum. Tekið var þvag- og blóðsýni úr ákærða klukkan 06:14 og 06:25 til ákvörðunar um alkóhólmagn í þvagi og blóði ákærða. Alkóhólmagn í þvagi ákærða reyndist vera 3,11 °/oo og í blóði 1,97 °/oo. Að lokinni sýnatöku var ákærði frjáls ferða sinna og var honum ekið að heimili sínu að Bárugötu 22 í Reykjavík.
Lögreglumenn sáu um flutning bifreiðarinnar KL-151 á lögreglustöð þar sem kveikjuláslykar hennar voru í vörslum varðstjóra.
Lögreglumaður fór í verslunina Select við verslunarmiðstöð Smáralindar og hafði tal af starfsmanni verslunarinnar, D, að nafni. Fór lögreglan þess á leit að fá að skoða myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndavél inni og utan við verslunina. Á myndbandinu sést hvar ákærði gengur inn í verslunina klukkan 4:31, aðfaranótt 11. desember 2005. Sést m.a. hvar hann fer að afgreiðsluborði 2 og stendur þar um tíma við hlið stúlku sem D kvað vera starfsmann verslunarinnar á frívakt og heita E. Ákærði sést fara úr mynd en koma til baka með hvítt mál sem virðist vera pappamál eins og Select-verslunin er með. Ákærði hafi síðan farið aftur úr mynd og þá til að sækja kakóbolla að sögn D. Ákærði sést ganga út úr versluninni klukkan 4:46. Engar myndir sáust af honum eða bifreiðinni fyrir utan verslunina. D kvaðst hafa verið að störfum umrædda nótt og muni eftir ákærða. Hún kvaðst mundu bera kennsl á hann ef hún sæi hann aftur. Hann hafi ekki keypt neitt en verið að leita að heimilisfangi í Garðabæ. D bar að hann hefði fengið gefins kaffi- og kakóbolla. Kakóbollinn hafi verið ætlaður vini ákærða. D kvaðst ekki hafa séð vin ákærða, en ákærði hafi tjáð henni að vinur sinn væri ökumaður bifreiðar sem staðsett væri fyrir aftan verslunina. Vitnið bar að ákærði hefði drukkið kaffibollann en tekið kakóbollann með sér. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða hafa áfengi um hönd.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafði lögreglan símasamband við dyraverði Players, þá B og C, að kveldi 15. desember 2005. Haft er eftir B að hann hafi orðið vitni að því er ákærði ók inn á bifreiðastæði Players og hafi ákærði lagt bifreiðinni í efsta stæðið við húsið. Hann kvaðst hafa gengið til móts við ákærða og jafnframt beðið samstarfsmann sinn að kalla á lögreglu. Ákærði hafi stigið út úr bifreiðinni ökumannsmegin. Vitnið bar að hann hefði haft ákærða í augsýn frá þeim tíma er hann steig út úr bifreiðinni þar til lögreglan kom á vettvang. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða drekka úr máli sem fæst í Select-verslunum eftir að akstri lauk. Vitnið bar að ákærði hefði verið einn í bifreiðinni. Þegar lögreglan kom á vettvang kvaðst vitnið hafa séð að ákærði stakk hendi í hægri buxnavasa. Vitnið bar að ákærði hefði komið nokkru áður og þá spurt til vegar, farið en komið aftur skömmu síðar. Ákærði hafi verið einsamall.
Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir C, dyraverði Players, en tekin var af honum símaskýrsla 15. desember 2005, að hann hafi ekki orðið vitni að því er ákærði ók inn á bifreiðastæði Players. Hins vegar hafi hann séð er ákærði ætlaði að bakka bifreiðinni frá veitingastaðnum en þá hafi dyravörður stöðvað för hans. Vitnið kvaðst ekki hafa haft ákærða í augsýn er hann hringdi á lögreglu. Vitnið bar að ákærði hefði verið einn í bifreiðinni. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða drekka eftir að akstri lauk. Þá kvaðst vitnið hafa séð er ákærði setti kveikjuláslykla í jakkavasa sinn um leið og hann tók upp sígarettu, sem hann hafi ekki náð að kveikja í, þar sem lögreglan kom á vettvang í sömu andrá.
Tekin var símaskýrsla af vitninu C, dyraverði veitingastaðarins Players, 16. janúar 2006. Vitnið bar að í umrætt sinn hefði hann verið að störfum sem dyravörður staðarins. Hann hafi verið staddur fyrir utan veitingastaðinn ásamt samstarfsmanni sínum, B, er ákærði kom til þeirra og hafi verið áberandi ölvaður. Hafi ákærði verið að spyrja til vegar. Um það bil 10-20 mínútum síðar hafi ákærði komið á ný til þeirra. Vitnið kvaðst hafa séð að ákærði hafi gengið að rauðri fólksbifreið sem hafði verið lagt rétt við útidyr veitingastaðarins. Ákærði hafi verið valtur á fótum og þvoglumæltur. Ákærði hafi sest undir stýri fólksbifreiðarinnar KL-151 og hafi aflvél bifreiðarinnar verið í gangi. Vitnið kvaðst að beiðni samstarfsmanns síns, B, hafa farið inn og hringt á lögregluna og tilkynnt um ölvunarakstur. Að því búnu hafi vitnið gengið út og séð hvar bifreiðin rann aftur á bak u.þ.b. 1-½ metra. Hafi samstarfsmanni hans tekist að fá ákærða til þess að stöðva bifreiðina og drepa á aflvél hennar og koma út úr henni. Ákærði hafi komið út úr bifreiðinni og stungið kveikjuláslykli í buxnavasann og varla náð að kveikja sér í sígarettu áður en lögreglan var komin á vettvang. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða drekka eftir að akstri lauk. Ákærði hafi verið einn í bifreiðinni.
Þann sama dag tók lögreglan símaskýrslu af B, dyraverði veitingastaðarins Players í Kópavogi. Haft er eftir vitninu að hann hafi verið staddur utan dyra umrædda nótt og séð hvar rauðri fólksbifreið var ekið fyrir horn veitingastaðarins Players. Skömmu síðar hafi ákærði komið til þeirra C og spurt til vegar í Garðabæ. Ákærði hafi verið áberandi ölvaður, reikull og valtur á fótum. Ákærði hafi tjáð þeim að hann væri með félaga sínum sem hafi lagt bifreiðinni handan við horn veitingastaðarins. Á sama tíma hafi lögreglubifreið verið við veitingastaðinn. Ákærði hafi síðan farið en komið aftur u.þ.b. 10-20 mínútum síðar. Vitnið kvaðst hafa séð að ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar KL-151. Vitnið kvaðst hafa gengið að bifreiðinni og strax gert sér grein fyrir því að ákærði var ekki í ökuhæfu ástandi. Vitnið kvaðst hafa beðið samstarfsmann sinn að hringja á lögregluna og tilkynna ölvunarakstur. Ákærði hafi verið einn í bifreiðinni. Hann hafi rennt niður rúðunnni bifreiðastjóramegin og beðið um aðstoð til þess að finna ákveðna götu eða húsnæði í Garðabæ. Vitnið kvaðst hafa sagt við ákærða að hann myndi láta fletta upp í símaskránni til þess að finna staðsetningu staðarins í því skyni að tefja fyrir ákærða. Vitnið kvaðst hafa fylgst vel með ákærða sem hafi komið út úr bifreiðinni, en þá hafi bifreiðin KL-151 runnið aftur á bak um hálfa bíllengd. Ákærði hafi náð að stöðva bifreiðina með því að taka í handbremsu og drepa á aflvél hennar. Aðspurður bar vitnið að hann hefði séð ákærða drekka eitthvað úr plastmáli, sömu gerðar og fáanleg eru á skyndibitastöðum. Vitnið bar að liðið hefðu u.þ.b. 2-4 mínútur frá því er samstarfsmaður hans hefði hringt á lögregluna og þar til hún var komin á vettvang og handtók ákærða. Vitnið bar að hann hefði séð ákærða halda á einhverju er hann kom út úr bifreiðinni og síðar hefði samstarfsmaður hans upplýst hann um að það hefðu verið kveikjuláslyklar bifreiðarinnar.
Lögreglan tók símaskýrslu af A, lögreglumanni, 16. janúar 2006, en hann hafði afskipti af ákærða í umrætt sinn við veitingastaðinn Players. Haft er eftir vitninu að hann hafi verið í lögreglubifreiðinni sem hafi verið kyrrstæð rétt við veitingastaðinn, er rauðri Hyundai-bifreið, KL-151, hafi verið ekið framhjá lögreglubifreiðinni. Ökumaður hafi verið sköllóttur karlmaður um fertugt, klæddur svörtum leðurjakka. Þeir hafi síðan ekið frá veitingastaðnum þá leið sem rakin er í frumskýrslu og voru komnir inn á Fífuhvammsveg er þeim barst tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um að ölvaður maður væri til vandræða við veitingastaðinn Players. Þeir hafi því ekið þangað aftur og handtekið ákærða samkvæmt ábendingu dyravarða. Voru þá liðnar u.þ.b. 5 mínútur frá því lögreglan hafði mætt bifreiðinni KL-151 á bifreiðastæðinu við veitingastaðinn áður en þeir héldu í átt að Dalvegi. Staðfesti vitnið að hafa borið kennsl á ákærða sem ökumann bifreiðarinnar KL-151, sem hafði ekið framhjá lögreglubifreiðinni nokkrum mínútum áður.
Síðar þennan sama dag tók lögreglan símaskýrslu af F, lögreglumanni, sem hafði haft afskipti af ákærða við veitingastaðinn Players, 11. desember 2005. Vitnið bar að hafa í umrætt sinn setið í farþegasæti lögreglubifreiðarinnar sem hafi verið kyrrstæð rétt hjá veitingastaðnum þegar bifreiðinni KL-151 var ekið framhjá lögreglubifreiðinni í átt að Players. Vitnið kvaðst hafa séð vel ökumann bifreiðarinnar, sem hafi verið sköllóttur karlmaður um fertugt. Lögreglubifreiðinni var síðan ekið af vettvangi. Þeir hafi verið staddir á Fífuhvammsvegi er þeim barst tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um ölvaðan mann sem væri til vandræða við Players. Þeir hafi því snúið við og ekið aftur að veitingastaðnum Players og handtekið ákærða, eftir ábendingum dyravarða, skammt frá bifreiðinni KL-151 sem hafði verið lagt næst inngöngudyrum veitingastaðarins. Vitnið bar að dyraverðirnir hefðu sagt að ákærði hefði ekið bifeiðinni KL-151, rétt áður en lögreglan kom á staðinn. Vitnið bar að ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar KL-151 sem vitnið sá að ekið var framhjá lögreglubifreiðinni skömmu áður við veitingastaðinn.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglunni í Kópavogi 18. janúar 2006. Ákærði bar hjá lögreglu að bifreiðin KL-151 væri í eigu móður sinnar. Ákærði kvaðst aðfaranótt 11. desember hafa verið í tölvusambandi við stúlku, sem hann kvaðst ekki hafa þekkt. Hann kvaðst hafa sagt stúlkunni að honum leiddist og hafi það verið gagnkvæmt. Það hafi orðið úr að þau hafi ákveðið að hittast og kvaðst ákærði hafa gefið stúlkunni upp heimilisfang sitt. Um klukkan 02:00-03:00 hafi stúlkan hringt í GSM-síma hans [...] og var þá komin heim til hans. Ákærði kvað hana hafa verið brúnhærða, um 25 ára. Hann kvaðst aldrei hafa séð stúlkuna áður og kvaðst því ekki vita nein deili á henni, ekki einu sinni heiti hennar. Ákærði kvaðst hafa spurt stúlkuna hvort hún hefði ökuréttindi, sem hún kvað vera. Það hafi orðið úr að hún hafi ekið bifreið móður hans KL-151, þar sem hann hafði neytt áfengis. Ákærði kvaðst hafa hætt áfengisdrykkju eftir að hann hitti stúlkuna. Ákærði bar að þau hefðu ákveðið að fara í „partý“ í Garðabæ. Hann gat hins vegar ekki greint frá því hvaða leið þau óku á leið sinni þangað. Stúlkan hafi ekið að veitingastaðnum Players og lagt bifreiðinni en ákærði kvaðst hafa farið út úr bifreiðinni og haft tal af dyravörðum staðarins og spurt til vegar. Ákærði kvaðst hins vegar ekki muna hvert þau voru að fara. Ákærði kvaðst ekki vita hvað varð af stúlkunni á meðan að hann var að ræða við dyraverðina. Ákærði bar að þeir hefðu hlegið að sér og sagt honum að hann væri staddur í Kópavogi. Hann kvaðst hafa gengið aftur að bifreiðinni og sest undir stýri og kvaðst hafa ætlað sér að bíða eftir stúlkunni. Dyraverðirnir hafi þá komið til hans og spurt hann hvort hann hygðist aka bifreiðinni. Ákærði kvaðst hafa neitað því og sagst einungis vera að hlusta á útvarpið. Í þann mund hafi lögreglan komið á vettvang og hafi hún handtekið ákærða grunaðan um ölvunarakstur. Ákærði kvaðst hafa tjáð lögreglunni að hann hefði ekki verið að aka bifreiðinni. Eftir ákærða er haft í lögregluskýrslu að hann hafi haldið á vettvangi að hann væri ekki með kveikjuláslykla bifreiðarinnar. Þegar hann hafi verið kominn á lögreglustöðina hafi kveikjuláslyklarnir dottið úr jakkanum og bar ákærði að svo virtist sem stúlkan hafi hent kveikjuláslyklunum inn á ákærða, þegar hún hafi farið út úr bifreiðinni, án þess að hann yrði þess var. Lögreglan kynnti ákærða framburð dyravarðanna þess efnis að þeir hefðu séð þegar bifreiðinni KL-151 hefði verið ekið inn á bifreiðastæði Players. Þeir hefðu séð ákærða í ökumannssæti bifreiðarinnar og jafnframt séð að ákærði var einn í bifreiðinni. Dyraverðirnir hefðu haft afskipti af ákærða vegna ölvunarástands hans og í framhaldi óskað eftir aðstoð lögreglunnar. Ákærði mótmælti þessum framburði dyravarðanna sem röngum og kvaðst ekki vita hvers vegna þeir hefðu borið á þennan veg. Þá voru bornir undir ákærða framburðir lögreglumannanna er voru í eftirliti umrætt kvöld, en þeir báru að þeir hefðu orðið vitni að því er bifreiðinni KL-151 hefði verið ekið framhjá lögreglubifreiðinni inn á bifreiðastæði Players og u.þ.b. 5 mínútum síðar hefði verið óskað eftir aðstoð lögreglunnar. Lögreglumennirnir hefðu farið á vettvang og borið kennsl á ákærða sem bifreiðastjóra KL-151, sem hefði verið einn í bifreiðinni. Ákærði mótmælti þessum framburði lögreglumannanna sem röngum. Hann kvaðst hins vegar muna eftir að hafa mætt lögreglubifreiðinni við bifreiðastæði veitingastaðarinns. Ákærði kvaðst hafa haft að á orði við stúlkuna að þau ættu að spyrja lögregluna til vegar.
Ákærði gaf á ný skýrslu hjá lögreglunni í Kópavogi þann 26. janúar 2006. Ákærði var inntur eftir því hvort hann vildi breyta framburði sínum í fyrri lögregluskýrslu, sem hann kvaðst ekki vilja gera. Í fyrri skýrslu sinni bar ákærði að stúlkan hefði hringt í GSM-síma hans [...] um klukkan 02:00-03:00 aðfaranótt 11. desember 2005. Athugun lögreglu leiddi í ljós að ekki hafði verið hringt í ofangreint símanúmer á þessum tíma. Samkvæmt upplýsingum Símans var hringt í síma ákærða klukkan 22:01 þann 10. desember úr síma [...], skráður notandi G, 41 árs, klukkan 22:42 þann 10. desember úr síma [...], skráður notandi 16 ára stúlka, H. Ákærði bar að hvorugt þeirra hefði ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Ákærði skýrði lögreglunni frá því að stúlkan hefði sjálfsagt ekki hringt í [...], þar sem hann hefði á þessum tíma verið með annað símanúmer, sem hann kvaðst nú ekki muna. Ákærði bar að skrifað hefði verið um sig í dagblaðinu DV og hafi hann orðið fyrir töluverðu ónæði og því fengið sér annnað símanúmer.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði bar fyrir dómi að umrædda nótt hafi hann komist í samband við stúlku á netinu á spjallrás einkamál.is. Þeim hafi talast svo til að hún kæmi heim til hans og þau myndu fara „á rúntinn“. Hún hringdi þegar hún var komin heim til hans og hann fór út. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvaða símanúmer hann hefði haft á þessum tíma og stúlkan hefði hringt í. Þegar hann hafði fullvissað sig um að hún hefði bílpróf hefði hann látið hana fá kveikjuláslykla bifreiðar móður sinnar. Aðspurður gat ákærði ekki gert neina grein fyrir stúlkunni. Þau hafi ætlað í „partý“ einhversstaðar í Garðabæ. Hún hafi ekið bifreiðinni. Hvorki stúlkan né hann hafi ratað á áfangastaðinn, en hann hefði ritað heimilisfangið niður á blað. Þau hafi ekið sem leið lá að veitingastaðnum Players í Kópavogi og hafi stúlkan lagt bifreiðinni við hlið stórrar flutningabifreiðar. Bar ákærði að sú bifreið hafi byrgt sýn dyravarðanna þannig að þeir hefðu ekki getað séð þegar hann fór út úr bifreiðinni. Ákærði kvaðst hafa farið með miðann til dyravarðanna og spurt þá til vegar. Þeir hafi hlegið að sér og sagt honum að hann væri í Kópavogi. Ákærði kvaðst hafa farið inn í bifreiðina aftur og stúlkan ekið einhvern hring og komið til baka að veitingahúsinu Players. Aftur hafi hún lagt bifreiðinni í skjóli vöruflutningabifreiðarinnar. Þegar ákærði var nánar inntur eftir staðsetningu bifreiðarinnar var framburður hans mjög óskýr. Ákærði kvaðst í bæði skiptin hafa haft tal af dyravörðum staðarins til þess að spyrja til vegar. Ákærði bar að dyraverðirnir hefðu í seinna skiptið varla virt hann viðlits. Borinn var undir ákærða framburður lögreglumannanna sem mættu bifreið ákærða þegar henni var ekið inn á bifreiðastæði Players, en þeir sögðust hafa séð ákærða einan í bifreiðinni og hafi hann ekið henni. Ákærði gat ekki skýrt framburð þeirra. Borinn var undir ákærða framburður dyravarðanna sem sögðust hafa séð að ákærði hefði verið einn í bifreiðinni, þegar hann kom í seinna sinnið. Ákærði bar að dyraverðirnir hefðu ekki tekið eftir sér þegar hann gekk til þeirra og taldi því ólíklegt að þeir hefðu veitt bifreiðinni athygli þegar henni var ekið inn á bifreiðastæðið. Ákærði kvaðst hafa farið aftur að bifreiðinni en þá hafi stúlkan verið horfin. Hann kvaðst hafa leitað að kveikjuláslyklunum en ekki fundið. Stúlkan hljóti að hafa troðið lyklunum inn á hann án þess að hann hafi vitað af því. Þeir hafi síðan dottið niður úr peysu hans þegar hann var fluttur á lögreglustöð. Ákærði kvaðst hafa verið í svartri „fleece“ peysu sem er með teygju að neðan. Ákærði kannaðist ekki við að hafa stungið lyklunum í vasa sinn.
Vitnið A, lögreglumaður bar fyrir dómi að hann hafi í umrætt sinn ekið lögreglubifreiðinni. Hann kvaðst hafa verið á leiðinni út af bifreiðastæðinu við Players þegar hann hafi séð rauðan Hyundai sem var ekið af aðalgötunni inn á húsagötuna og framhjá lögreglubifreiðinni inn á bifreiðastæðið við Players. Vitnið kvaðst hafa séð ökumann bifreiðarinnar mjög vel og bar hann kennsl á ákærða fyrir dómi sem ökumann bifreiðarinnar í umrætt sinn. Ökumaður var einn í bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa ekið lögreglubifreiðinni sem leið lá um Bæjarlind að Reykjanesbraut og Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi og þá Fífuhvammsveg til vesturs að Dalvegi. Þá barst þeim útkall um ölvaðan mann sem væri til vandræða við veitingahúsið Players. Vitnið kvaðst því hafa ekið til baka að Players. Þegar þangað kom hafi hann séð dyraverðina og ákærða, sem hann kvaðst hafa þekkt aftur sem ökumann rauðu Hyundai-bifreiðarinnar. Vitnið kvað lögregluna hafa handtekið ákærða vegna gruns um ölvunarakstur og hafi hann verið færður á lögreglustöð. Vitnið bar að þegar ákærði var kominn inn í lögreglubifreiðina hafi hann verið beðinn um að afhenda kveikjuláslykla bifreiðarinnar. Ákærði hafi tínt ýmislegt upp úr vösunum en ekki kveikjuláslyklana. Þegar þeir hafi verið staddir fyrir utan varðstjóraherbergið hafi hann séð lykla falla við vinstri hlið ákærða á gólfið. Reyndust það vera kveikjuláslyklar bifreiðarinnar. Aðspurður minnti vitnið að ákærði hafi verið klæddur svörtum jakka, en kvaðst ekki geta fullyrt það.
Vitnið F, lögreglumaður bar fyrir dómi að hann hafi í umrætt sinn verið í lögreglubifreiðinni. Hann bar að þegar lögreglubifreiðinni hafi verið ekið út af bifreiðastæðinu við Players hafi rauðri Hyundai-bifreið verið ekið inn á það. Sköllóttur karlmaður hafi verið undir stýri. Þeir hafi ekið á brott en nokkrum mínútum síðar var óskað eftir aðstoð við veitingastaðinn Players. Þeir hafi snúið við og þegar þeir hafi komið á staðinn hafi vitnið séð ákærða og dyraverðina. Hafði rauðu Hyundai-bifreiðinni verið lagt í bifreiðastæði rétt við inngöngudyrnar á veitingastaðnum. Vitnið kvað þá lögreglumennina hafa rætt við ákærða sem hafi verið áberandi ölvaður. Hann neitaði að hafa ekið bifreiðinni og bar að einhver kvenmaður hefði ekið henni og vildi ekki upplýsa hver það hefði verið Ákærði var látinn blása í S-D2 mæli og gaf niðurstaðan úr öndunarmæli tilefni til frekari rannsókna. Var ákærði handtekinn grunaður um ölvunarakstur og fluttur á lögreglustöð. Kveikjuláslyklar hafi ekki verið í bifreiðinni og hafi ákærði verið beðinn um að afhenda þá. Hann hafi borið því við að hann væri ekki með þá og hefði aldrei verið með þá og vissi ekki um þá. Á lögreglustöð kvaðst vitnið hafa veitt því athygli að ákærði hefði tekið lyklana upp úr buxnavasa sínum og látið þá falla í gólfið. Aðspurður minnti vitnið að ákærði hefði tekið lyklana úr hægri framvasa. Vitnið kvað lögregluna einnig hafa rætt við dyraverði staðarins. Hafi annar þeirra ef ekki báðir borið að þeir hafi séð ákærða aka bifreiðinni og hann hafi verið einn í bifreiðinni. Á lögreglustöð hafi ákærði gefið blóð- og þvagsýni í þágu rannsóknar málsins. Að því búnu hafi ákærða verið ekið heim. Aðspurður minnti vitnið að ákærði hafi verið klæddur svörtum jakka og gallabuxum.
Vitnið B, dyravörður bar fyrir dómi að sennilega um klukkan 03:00 aðfaranótt 11. desember 2005 hafi hann veitt athygli rauðri Huyndai-bifreið sem ekið var af Bæjarlind inn á bifreiðastæði fyrir ofan Players. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvar bifreiðinni var lagt. Skömmu síðar hafi ákærði komið gangandi til þeirra. Vitnið kvaðst ekki hafa séð er ökumaður fór út úr bifreiðinni. Ákærði hafi spurt til vegar og hafi dyraverðir leiðbeint honum. Virtist ákærði vera undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst ekki hafa fylgst með því þegar bifreiðinni var ekið á brott. Um það bil 40 mínútum síðar kvaðst vitnið á ný hafa sé rauða Huyndai-bifreið aka inn á bifreiðastæði Players sem að mati vitnisins var sama bifreiðin og hann hafði séð nokkru fyrr. Vitnið kvaðst hafa séð að ákærði sat undir stýri og var einn í bifreiðinni. Hann lagði bifreiðinni í bifreiðastæði við inngang veitingastaðarins. Vitnið kvaðst hafa gengið til ákærða sem enn var að spyrja til vegar. Vitnið kvaðst hafa rætt við ákærða en samtímis beðið félaga sinn að hringja á lögregluna, þar sem ákærði væri að aka undir áhrifum áfengis. Rétt í þann mund sem lögreglubifreiðinni var ekið inn á bifreiðastæðin fór ákærði út úr bifreiðinni og gekk í átt til dyravarða og hélt á málmhlut. Vitnið kvaðst hafa varað samstarfsmann sinn við. Hann kvaðst síðan hafa séð að ákærði stakk hlutnum í vinstri jakkavasa að innanverðu. Vitnið bar að þegar ákærði fór út úr bifreiðinni hafi hún runnið af stað aftur á bak. Vitnið kvaðst muna að ákærði hafi verið búinn að drepa á aflvél, sem er í mótsögn við það sem hann bar í lögegluskýrslu. Aðspurður minnti vitnið að ákærði hafi verið klæddur dökkum jakka og gallabuxum. Hann hafi verið í dökkri flík. Vitnið minnti að lögreglan hefði verið á staðnum í fyrra sinnið sem ákærði kom þangað, en gat ekki fullyrt um það. Framburður vitnisins varðandi tímasetningar var nokkuð reikull og bar vitnið að hann hefði ekki verið að fylgjast með tímanum sérstaklega.
Vitnið C, dyravörður bar fyrir dómi að hann hefði fyrst orðið var við ákærða þegar þeir voru að loka staðnum um klukkan 03:30 um nóttina. Vitnið kvaðst hafa séð er ákærði kom gangandi til þeirra og var að spyrja til vegar í Garðabæ. Ákærði hafi komið aftur til þeirra um 30-40 mínútum síðar. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða aka inn á bifreiðastæðið en hann hafi séð að bifreið hafði verið lagt í bifreiðastæði við inngöngudyrnar. Ákærði hafi komið út úr bifreiðinni og gengið í átt til þeirra. Í sama mund rann bifreiðin aftur á bak og settist því ákærði inn í bifreiðina en vitnið kvaðst ekki muna hvort hún hafi verið í gangi. Í símaskýrslu, sem tekin var af vitninu af lögreglu, bar hann, að aflvél bifreiðarinnar hafi verið í gangi. Vitnið kvaðst ekki muna þetta nú en hélt sig við þann framburð sem hann gaf fyrir dómi. Kveikjuláslyklarnir hafi verið í kveikjulásnum og hafi þeir beðið ákærða um að afhenda sér þá. Enginn hafi verið með ákærða. Vitnið bar að þeim hafi tekist að fá ákærða til þess að koma út úr bifreiðinni og hafi hann haldið á kveikjuláslyklunum í hendi sinni. Hann hafi svo farið í brjóstvasa á innanverðum jakkanum til þess að ná í sígarettur og hafi um leið stungið lyklunum í vasann. Í lögregluskýrslu bar vitnið að ákærði hafi stungið lyklunum í buxnavasann. Vitnið hélt sig við framburð sinn fyrir dómi. Kvaðst ekki muna betur en að ákærði hefði stungið lyklunum í jakkavasa sinn innanverðan. Aðspurður um klæðnað ákærða kvaðst vitnið muna að hann hefði verið í dökkum jakka. Fram kom hjá vitninu að hann hefði ekki fylgst með hvað tímanum leið. Vitnið kvaðst geta tengt komu ákærða í fyrra sinnið við það að á þeim tíma hafi þeir verið að hleypa gestum út. Vitnið taldi að lögreglan hefði verið á ferðinni í fyrra sinnið sem ákærði kom að veitingastaðnum.
Niðurstöður.
Ákærði hefur frá upphafi neitað að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Hann bar að einhver kona, sem hann kann engin skil á hafi ekið bifreiðinni. Hún hafi látið sig hverfa orðalaust eftir að hafa troðið kveikjuláslyklunum inn á ákærða án þess að hann yrði þess var, þar sem bifreiðinni hafði verið lagt við inngang veitingastaðarins Players. Við inngang veitingastaðarins voru tveir dyraverðir, B og C, sem höfðu afskipti af ákærða og báru báðir að ákærði hafi verið einn á ferð. B og lögreglumennirnir A og F báru fyrir dómi að þeir hefðu séð ákærða undir stýri bifreiðarinnar og hann verið einn í bifreiðinni.
Framburður ákærða er að mati dómsins harla ótrúverðugur og verður með vísan til framburða beggja lögreglumannanna, A og F og dyravarðarins B, sem allir urðu vitni að því að ákærði ók bifreiðinni, talið að færð hafi verið fram fyrir dómi lögfull sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Hann er sannur að sök. Brot hans er í ákæru rétt fært undir lagaákvæði.
Ákærði á að baki langan afbrotaferil og hefur margítrekað brotið gegn umferðarlögum, bæði með ölvunarakstri og akstri sviptur ökuréttindum. Síðast með dómi uppkveðnum 22. febrúar 1999, en þá hlaut ákærði sex mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökuréttindum. Var ákærði sviptur ökurétti ævilangt. Meira en fimm ár eru liðinn frá uppkvaðningu þessa dóms og hefur fyrri ferill ákærða því ekki ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Hins vegar hlaut ákærði þriggja mánaða fangelsisdóm, 1. apríl 2004 fyrir þjófnað og átta mánaða fangelsisrefsingu þann 3. nóvember 2004 fyrir skjalafals og þjófnað. Var ákærða veitt reynslulausn í eitt ár 1. júlí 2005 á eftirstöðvum refsingar sem voru 110 dagar. Hefur ákærði nú rofið skilorð reynslulausnar, sbr. 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 16/1976, með þeirri háttsemi sem hann er nú fundinn sekur að í máli þessu. Í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1944, verður ákærða nú gerð refsing í einu lagi með hliðsjón af hinni óloknu refsivist og jafnframt höfð hliðsjón af 77. gr. sömu laga. Ákærða verður því gert að afplána eftirstöðvar refsingarinnar og sæta fangelsi í 110 daga. Ennfremur er honum gert að greiða 130.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæta ella fangelsi í 10 daga. Ákærði er sviptur ökuréttindum í 1 ár frá birtingu dómsins að telja.
Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er ákærða gert að greiða skipuðum verjanda sínum Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, réttargæslu- og málsvarnarlaun, sem þykja hæfilega ákveðinn 133.215,- krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts og annan sakarkostnað sem samkvæmt sakaryfirliti nemur 30.034 krónum.
Í málinu liggja frammi símaskýrslur sem lögreglan hefur tekið af öllum vitnum í málinu. Í öllum tilvikum er bókað að ástæða samtalsins sé vegna meints ölvunaraksturs ökumanns KL-151, við veitinga- og skemmtistaðinn Players, þann 15. desember sl., en atburðurinn átti sér stað aðfaranótt 11. desember. Vitni báru fyrir dómi að lögreglan kynnti þeim ekki hvað eftir þeim væri haft í skýrslunum. Dómurinn bendir á að þau vinnubrögð megi bæta.
Ólöf Pétursdóttir,dómstjóri, kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Anthony Lee Bellere, sæti fangelsi í 110 daga.
Ákærði greiði 130.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 10 daga.
Ákærði er sviptur ökuréttindum í 1 ár frá birtingu dóms að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, 163.249 krónur, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns, 133.215 krónur.