Hæstiréttur íslands

Mál nr. 624/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Tilhögun gæsluvarðhalds
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Föstudaginn 23

 

Föstudaginn 23. nóvember 2007.

Nr. 624/2007.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Gunnar Örn Jónsson, fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Tilhögun gæsluvarðhalds. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 26. nóvember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess, verði úrskurðurinn ekki felldur úr gildi, að tilhögun gæsluvarðhaldsvistar verði breytt þannig að takmörkunum samkvæmt b., c. og d. liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 verði aflétt. Loks krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Líkamsárásin sem sætir rannsókn sóknaraðila átti sér stað 17. nóvember 2007. Fallist er á að uppfyllt séu skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi svo sem krafist er.

Ekki verður séð að krafa varnaraðila um breytingu á tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hafi verið borin undir héraðsdóm samkvæmt 75. gr. laga nr. 19/1991 og verður henni því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kröfu varnaraðila, X, um breytingu á tilhögun gæsluvarðhaldsvistar er vísað frá Hæstarétti.                                

 

                                                                            

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. nóvember 2007.

             Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...], pólskum ríkisborgara, til heimilis að [...], [...]  Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 mánudaginn 26. nóvember nk. á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

             Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að því verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglunni á Selfossi hafi borist boð um alvarlega líkamsárás þar sem beitt hefði verið hnífi og meiðsl væru mikil og alvarleg, enda blæddi árásarþola talsvert. Lögregla og sjúkralið hafi farið upp að vinnubúðunum vestan Hellisheiðar. Þar hafi verið komið að hinum særða í blóði sínu og blæðing að mestu stöðvuð og hann fluttur á Slysadeild LSH, þar sem gert var frekar að sárum hans. Saumuð hafi verið, að sögn árásarþola, 24 spor í læri og kálfa. Að auki hafi hann verið með grunna rispu á vinstra kinnbeini.

Þá kemur fram að kærði hafi gefið sig fram um kl. 14:30 við lögreglu höfuðborgarsvæðisins í gær, 18. þ.m., og gaf þá skýringu að hann hefði frétt að lögregla leitaði sín. Hann neitar eindregið að hafa beitt hnífi og alfarið að hafa ráðist á A. Í framhaldinu hafi hann verið handtekinn kl. 14:50. Einnig neitaði hann vitneskju um það hvernig A hafi hlotið sár sín.

Þá kemur fram í greinargerðinni að margir hafi verið á vettvangi og er talið að yfirheyra þurfi allt að 40 manns, allt Pólverja, til að fá glögga mynd af því sem gerðist í umrætt sinn. Kærði kannist við að hafa verið í átökum og kveður að á sig hafi verið ráðist.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að lögreglunni á Selfossi hafi tekist seint þann 18. nóvember sl. að hafa uppi á bifreið þeirri sem ákærði er talinn hafa komist brott á. Hún hafi fundist í Reykjavík. Rannsaka þurfi bifreiðina og meðal annars leita lífsýna, þar með talið blóðs, svo unnt sé að ganga úr skugga um það hvort kærði hafi átt í hlut. Ekki hafi tekist að finna vopn það sem notað var við árásina, en ætla megi að gangi kærði laus reyni hann að koma því undan. Enn sé eftir að yfirheyra tvo aðra handtekna menn sem taldir eru hafa verið með honum í för þegar þremenningar komu í heimsókn í vinnubúðirnar á laugardagskvöldinu. Allir hafi þeir verið mjög drukknir umrætt kvöld og reynst ómögulegt að yfirheyra þá fyrr en í gær. Hið sama gildir um árásarþola, sem ekki hafi verið hæfur til skýrslutöku þann 18. nóvember sl.

Þá segir ennfremur að rannsókn lögreglu sé umfangsmikil og nauðsynlegt sé að yfirheyra þá sem voru á staðnum. Ekki hafi náðst til þeirra allra. Talið sé nauðsynlegt að yfirheyra vitnin áður en kærða gefist færi á að ræða við þau og eftir sé að samprófa framburði kærða og vitna. Hætt sé við því að kærði geti spillt rannsókninni með því að hafa samband við vitni verði hann látinn laus áður en rannsókn verður lengra á veg komin.

Að lokum segir í greinargerðinni að verið sé að rannsaka ætluð brot X, kt. [...], á hegningarlögum nr. 19/1940, 218. gr. 2. mgr., og eftir atvikum 20. gr., sbr. 211. gr. þeirra. Þau sakarefni sem hér um ræði varði fangelsisrefsingu ef sök telst sönnuð. Rannsókn málsins sé viðamikil og er enn á frumstigi og veruleg hætta þyki á að kærði muni torvelda rannsókn með því að skjóta undan munum, eða hafa áhrif á vitni og samseka. 

Með vísan til alls ofanritaðs, rannsóknarhagsmuna, svo og til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að ofangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga. Það sakarefni sem hér um ræðir mun varða fangelsisrefsingu ef sök telst sönnuð, en hámarksrefsing fyrir hvort brot um sig er 16 ára fangelsi eða ævilangt.     

Í rannsóknargögnum sem liggja fyrir í málinu kemur fram að vitni, sem sá kærða á vettvangi ásamt tveimur öðrum pólskum karlmönnum sem ekki störfuðu við Hellisheiðarvirkjun, hafi hlaupið á eftir kærða út á bifreiðaplan en misst af honum, stuttu eftir árásina. Þá þekkti vitnið kærða á mynd úr starfsmannaskrá. Við húsleit á heimili kærða daginn eftir árásina, fundust þrír dúkahnífar, hnífsblöð í dúkahnífa og þrír aðrir hnífar. Herbergisfélagi kærða staðfesti hjá lögreglu að eiga hnífana utan að kærði átti einn dúkahníf og hnífsblöð. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að kærði hafði afnot af bifreiðinni Z, sem er í eigu Y ehf., umrætt kvöld en kærði er starfsmaður fyrirtækisins. Umrædd bifreið sást á vettvangi umrætt kvöld með þremur karlmönnum í.  Þá liggur fyrir að tveir aðrir pólskir karlmenn yfirgáfu vettvang mjög skyndilega um leið og kærði. Þá hefur ekki verið hægt að yfirheyra árásarþola vegna ölvunarástands. Þá liggur fyrir að vitnið B hefur bent á kærða sem geranda í málinu. Kærði hefur neitað sök og lýst atburðarásinni á allt annan veg en þegar hefur komið fram hjá þeim sem gefið hafa skýrslu fyrir lögreglu.

Af öllu ofansögðu má ætla að lögreglan hafi rökstuddan grun um að kærði sé hinn meinti gerandi í máli þessu. Kærði er grunaður um líkamsárás gagnvart kæranda og getur háttsemi hans varðað hann fangelsisrefsingu allt að 16 árum ef sök sannast.  Kærði neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja grun um aðild hans að líkamsárás gagnvart kæranda.  Eftir er að yfirheyra kæranda nánar, svo og allmörg vitni. Þá ber nauðsyn til að samprófa aðila. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og verður að telja að hætta sé á því að kærði geti spillt rannsókninni með óskertu frelsi, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða þá sem hugsanlega eru samsekir. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                Ú R S K U R Ð A R O R Ð

             Kærði, X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, skal sæta gæsluvarðhaldi til  mánudagsins 26. nóvember nk. kl. 16:00.