Hæstiréttur íslands
Mál nr. 392/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 28. ágúst 2013. |
|
Nr. 392/2013. |
Icelandair ehf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli I ehf. á hendur íslenska ríkinu var vísað frá dómi vegna vanreifunar. I ehf. hafði í málinu uppi kröfu um skaðabætur úr hendi íslenska ríkisins vegna tjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna ítrekaðrar hækkunar á svonefndu tollafgreiðslugjaldi. Félagið hélt því fram í málinu að hækkun gjaldsins eftir tiltekið tímamark ætti sér ekki stoð í tollalögum nr. 88/2005 og að innheimta þess fæli því í sér ólögmæta skattlagningu. Talið var að málatilbúnaður I ehf. uppfyllti skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði látinn niður falla.
Samkvæmt gögnum málsins nam gjald vegna hverrar tollafgreiðslu á flugvélum, sem fluttu farþega eða varning í atvinnuskyni, utan almenns afgreiðslutíma 10.000 krónum frá árinu 1997 og fram á mitt ár 2006. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli ákvað þá að gjaldið skyldi vera 18.900 krónur vegna tollafgreiðslu flugvéla á flugvellinum frá og með 1. júlí 2006. Síðan hækkaði gjaldið samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum í 23.100 krónur í júlí 2007 og í 23.900 krónur í febrúar 2008. Eftir að landið hafði verið gert að einu tollumdæmi var almennur afgreiðslutími á Keflavíkurflugvelli styttur og hann samræmdur afgreiðslutíma annarra tollhafna frá september 2009. Síðar það ár setti tollstjóri gjaldskrá þar sem meðal annars var kveðið á um tollafgreiðslugjöld utan almenns tollafgreiðslutíma á landinu öllu. Nam almennt tollafgreiðslugjald fyrir farþegavélar 26.566 krónum frá 1. desember 2009 og sérstakt tollafgreiðslugjald á stórhátíðardögum 35.175 krónum frá sama tíma. Með nýjum gjaldskrám, sem settar voru á árunum 2010 og 2011, voru þessi gjöld síðan hækkuð í 27.760 krónur og 36.756 krónur frá 1. janúar 2011 og 28.969 krónur og 38.356 krónur frá 1. október 2011.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 195. gr. tollalaga nr. 88/2005 er heimilt að innheimta tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu flugvéla utan almenns afgreiðslutíma. Skal gjaldið standa undir launakostnaði vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að gjaldtaka tollstjóra skuli miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er. Þessi ákvæði hafa staðið óbreytt frá því að lögin tóku gildi 1. janúar 2006.
Í máli þessu krefst sóknaraðili aðallega 187.646.284 króna í skaðabætur úr hendi varnaraðila á þeim grundvelli að honum hafi verið gert að greiða hærri gjöld fyrir tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma á tímabilinu 1. júlí 2006 til 31. mars 2012 en heimilt hafi verið samkvæmt tollalögum. Til vara krefst sóknaraðili af sömu ástæðu endurgreiðslu á 163.913.884 krónum samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda vegna tímabilsins frá 1. júní 2008 til 31. mars 2012. Að því frágengnu krefst hann skaðabóta að álitum vegna þeirra gjalda sem hann telur hafa verið oftekin samkvæmt framansögðu. Í héraðsdómsstefnu er gerð grein fyrir kröfugerð sóknaraðila og þar meðal annars tekið fram að ekki séu gerðar athugasemdir af hans hálfu „við fjárhæð gjaldsins að upphæð kr. 10.000 ... þótt ekki liggi fyrir rökstuðningur fyrir þeirri fjárhæð.“ Af þessu orðalagi og öðru því, sem fram kemur í stefnunni, er ljóst að sóknaraðili lítur svo á að það sé varnaraðila að færa sönnur á að gjaldtakan á fyrrgreindum tímabilum, umfram 10.000 krónur fyrir hverja tollafgreiðslu, hafi verið í samræmi við ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 195. gr. tollalaga, sbr. 3. mgr. þeirrar greinar. Fjárkröfur sóknaraðila eru reistar á þeim gjöldum, sem hann kveðst hafa greitt á fyrrgreindum tímabilum samkvæmt yfirliti er hann hefur lagt fram, að frádregnum 10.000 krónum fyrir hverja tollafgreiðslu. Í greinargerð varnaraðila í héraði er yfirlitinu mótmælt og það ekki talið viðhlítandi sönnunargagn um greiðslur á gjöldunum. Í greinargerðinni koma ekki fram aðrar upplýsingar um hvaða gjöld sóknaraðili hafi innt af hendi fyrir tollafgreiðslu á flugvélum utan almenns afgreiðslutíma á fyrrgreindum tímabilum. Gjöldin runnu í ríkissjóð og var varnaraðila því í lófa lagið að leiðrétta þær upplýsingar sem sóknaraðili byggir kröfur sínar á.
Dómkröfur sóknaraðila, sem koma fram í héraðsdómsstefnu og áður eru greindar, fullnægja þeim skilyrðum sem gerðar eru í d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, en heimilt er að krefjast þess að skaðabætur vegna stjórnvaldsákvarðana, sem stefnandi heldur fram að séu ólögmætar, skuli ákveðnar að álitum. Af stefnunni og gögnum, sem sóknaraðili lagði fram við þingfestingu málsins í héraði, verður ráðið hverjar eru þær málsástæður sem hann byggir málsókn sína á, svo og hvert sé samhengi þeirra, auk þess sem þar er vísað til helstu lagaákvæða og réttarreglna sem hann reisir málatilbúnað sinn á, sbr. e., f. og g. liði sömu málsgreinar. Þótt sóknaraðili hefði getað markað málsókn sinni skýrari farveg verður ekki séð að málatilbúnaður hans hafi gert varnaraðila erfitt um vik að taka til efnisvarna, svo sem hann gerði í greinargerð sinni í héraði. Voru því ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Af þeim sökum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Í ljósi þessara málsúrslita verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði í þessum þætti málsins og kærumálskostnað sem ákveðst í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Icelandair ehf., 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 17. apríl sl., er höfðað 22. maí 2012 af stefnanda Icelandair ehf. Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík á hendur stefnda íslenska ríkinu.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Aðallega að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 187.646.284 kr., ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 5.500.200 kr. frá 31. desember 2006 til 31. desember 2007, af 18.004.100 kr. frá þeim degi til 31. desember 2008, af 37.347.000 kr. frá þeim degi til 31. desember 2009, af 52.317.300 kr. frá þeim degi til 31. desember 2010, af 105.511.764 kr. frá þeim degi til 31. desember 2011, af 172.481.446 kr. frá þeim degi til 31. mars 2012 og af 187.646.284 kr. frá þeim degi til þingfestingardags og ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
2. Til vara að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 163.913.884 kr., ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, af 13.614.600 kr. frá 31. desember 2008 til 31. desember 2009, af 28.584.900 kr. frá þeim degi til 31. desember 2010, af 81.779.364 kr. frá þeim degi til 31. desember 2011, af 148.749.046 kr. frá þeim degi til 31. mars 2012 og af 163.913.884 kr. frá þeim degi til þingfestingardags og ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu og 2. mgr. 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda frá þeim degi til greiðsludags.
3. Til þrautavara að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að álitum.
Stefnandi krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að málinu verði vísað frá dómi og stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til þrautavara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Þann 17. apríl sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda í samræmi við 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að stefndi greiði stefnanda málskostnað vegna þessa þáttar málsins samkvæmt mati dómsins. Auk frávísunar málsins krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að ákvörðun málskostnaðar verði látin bíða efnisdóms í málinu.
I
Í stefnu kemur fram að stefnandi sé flugfélag sem bjóði upp á ferðir til og frá Íslandi með farþegaflugvélum. Farþegaflugvélar á vegum stefnanda fari um Keflavíkurflugvöll og hafi gert um árabil. Þar fari fram tollafgreiðsla farþegaflugvélanna, bæði innan og utan almenns afgreiðslutíma. Samkvæmt gjaldskrá sem tollstjórinn á Suðurnesjum hafi sett árið 2005 hafi gjald vegna tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns tollafgreiðslutíma numið 10.000 kr. Gjaldið hafi verið hækkað um 8.900 kr. í júlí árið 2006, um 4.200 kr. í júlí árið 2007 og um 800 kr. í febrúar árið 2008. Þá hafi gjaldið numið alls 23.900 kr.
Stefnandi rekur að 1. janúar 2009 hafi tekið gildi breytingar á tollalögum með lögum nr. 147/2008 og frá og með þeim degi hafi landið verið eitt tollumdæmi undir stjórn eins tollstjóra. Þann 1. desember 2009 hafi tekið gildi gjaldskrá fyrir innheimtu þjónustugjalda vegna tollafgreiðslu, tolleftirlits o.fl., en samkvæmt henni nemi gjald vegna tollafgreiðslu farþegaflugvéla 26.565 kr. Umrætt tollafgreiðslugjald hafi þá staðið óbreytt frá febrúar 2007, en hækkun samkvæmt gjaldskránni, dags. 1. desember 2009, nemi 2.665 kr. Gjaldið hafi enn verið hækkað í janúar 2011, eða úr 26.565 kr. í 27.760 kr. og í september sama ár hafi gjaldið loks hækkað úr 27.760 kr. í 28.969 kr. Af framangreindu leiði að gjald vegna tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma hafi hækkað um 18.969 kr. frá árinu 2005 til febrúar 2011.
Stefnandi kveðst ekki gera athugasemdir við fjárhæð gjaldsins sem sett hafi verið á árið 2005 að upphæð 10.000 kr. þótt ekki liggi fyrir rökstuðningur fyrir þeirri fjárhæð. Ljóst sé að einhver kostnaður falli til vegna tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli, en stefnandi telur að sá kostnaður hafi að hámarki numið 10.000 krónum frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012. Kröfugerð stefnanda sé við það miðuð.
Meðal framlagðra gagna af hálfu stefnanda eru átta blaðsíður með ýmsum töfluyfirlitum. Í stefnu er þetta dómskjal tilgreint sem Yfirlit yfir fjölda farþegaflugvéla á vegum stefnanda sem hafa verið tollafgreiddar á Keflavíkurflugvelli utan almenns afgreiðslutíma á tímabilinu frá og með janúar 2006 til og með mars 2012 og sundurliðaðar upplýsingar um kostnað.
Með vísan til þessa dómskjals kveðst stefnandi hafa frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012 greitt alls 311.516.284 kr. sem gjald vegna tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Í töflu á sama skjali megi sjá sundurliðaðar upplýsingar um fjölda farþegaflugvéla á vegum stefnanda sem hafi verið tollafgreiddar utan almenns afgreiðslutíma á tímabilinu frá og með 1. janúar 2006 til og með 31. mars 2012. Þar komi jafnframt fram sú fjárhæð sem stefnanda hafi verið gert að greiða umfram 10.000 kr. í hvert skipti og samtals frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012, en um sé að ræða alls 187.646.284 kr.
Með bréfi dagsettu 7. apríl 2009 kærðu stefnandi og Flugleiðir-Frakt ehf. til fjármálaráðuneytisins m.a. ákvörðun tollstjóra um hækkun gjaldskrár frá 1. desember 2009 og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi. Kæran var byggð á því að ekki væri lagastoð fyrir því að tollafgreiðslugjöld á farþegaflugvélar hefðu hækkað úr 23.900 kr. í kr. 26.566 eða um 11% og í því fælist ólögmæt skattlagning. Í kjölfarið óskaði fjármálaráðuneytið eftir því við tollstjóra að hann upplýsti um kostnaðarútreikningana sem lágu til grundvallar á hækkun þjónustugjalda vegna tollafgreiðslu og tolleftirlits flugfara utan almenns afgreiðslutíma. Í bréfi tollstjóra til ráðuneytisins, dags. 16. september 2011, kemur fram að þær breytingar sem gerðar hafi verið á gjaldtökunni hafi komið til vegna samræmingar á gjaldskrá tollstjóra á landsvísu þar sem landinu hefði frá 1. janúar 2009 verið breytt í eitt tollumdæmi. Gjaldtaka í hverju umdæmi hefði verið mismunandi en væri samræmd með þessu nýja fyrirkomulagi á gjaldtökunni. Með bréfinu fylgdu nánari forsendur fyrir útreikningi tollafgreiðslugjaldsins.
Í stefnu er því lýst að í þessum forsendum komi fram að við útreikning á afgreiðslugjöldum fyrir farþegavélar sé miðað við að það kosti tvo menn í svokölluðu útkalli að afgreiða hverja vél. Miðað sé við meðaltal af útkallstíma sem sé þrjár klukkustundir fyrir virka daga en fjórar klukkustundir fyrir aðra daga eða sjö klukkustundir samtals. Þá komi þar fram að gjaldskráin taki mið af launaflokki 13 hjá tollvörðum þannig að hver klukkustund reiknist á 3.795 kr. og að taxtinn sé hærri á stórhátíðardögum eða 5.025 kr. á klukkustund. Þá komi fram í bréfi tollstjóra að á Suðurnesjum séu menn á vakt allan sólarhringinn til þess að sinna þeirri þjónustu, m.a. að tollafgreiða farþegaflugvélar utan almenns afgreiðslutíma. Þrátt fyrir þessa staðreynd sé hvergi greint frá því hver sé launakostnaðurinn á vinnustund m.v. það vaktavinnufyrirkomulag sem virðist vera og hafa verið í gildi á Keflavíkurflugvelli a.m.k. frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012. Hins vegar sé tekið sérstaklega fram í umræddu bréfi að innheimt sé gjald fyrir þjónustuna eins og kallaðir væru út tveir tollverðir við afgreiðslu hverrar farþegaflugvélar, þótt fyrir liggi að svo sé ekki gert, þar sem menn séu þar á vakt allan sólarhringinn.
Stefnandi segir að samkvæmt þessu liggi fyrir að raunverulegur launakostnaður tollstjórans byggist á vaktavinnu en innheimtan byggist á kostnaðarliðum sem eigi sér enga stoð í raunverulegum tilkostnaði og öðrum lögmætum sjónarmiðum. Ekkert tillit sé tekið til þess að tollverðir afgreiði fjölda véla á þessum tíma og að starfskraftar tollvarða í útkalli myndu nýtast til að afgreiða fleiri flugvélar. Það sé almenn vitneskja að það taki ekki þrjár og hálfa klukkustund að tollafgreiða eina farþegaflugvél. Hvað þá að slíkur tími sé lagður til grundvallar sem meðaltal. Nær sé lagi að það taki í mesta lagi um eina til eina og hálfa klukkustund frá því að vél lendir þar til farþegar séu farnir úr flugstöð.
Þá er á því byggt í stefnu að við breytinguna á gjaldskránni 1. desember 2009 hafi heldur ekki verið tekið tillit til þess að fjöldi rukkaðra fluga margfaldaðist við þær breytingar að almennur tollafgreiðslutími á Keflavíkurflugvelli var takmarkaður við virka daga og að auki styttur um tvær klukkustundir á virkum dögum í tímabilið milli kl. 7 og 18 með reglugerð nr. 823/2009 um breytingu á reglugerð nr. 1100/2006. Umræddar breytingar hafi haft það í för með sér að afgreiðsludögum fækkaði úr 364 dögum í u.þ.b. 250 daga eða um tæpan þriðjung. Þá hafi almennur afgreiðslutími styst á virkum dögum úr 3.250 klukkustundum í 2.750 klukkustundir eða um 500 klukkustundir á ári. Þetta svari til 38,5 daga miðað við þann afgreiðslutíma sem hafi verið í gildi. Breytingin hafi því leitt af sér sér tæplega 42% styttingu á almennum afgreiðslutíma frá því sem áður var. Þessar breytingar hafi óhjákvæmilega haft í för með sér hagræði við tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma. Gjöld fyrir tollafgreiðslu farþegaflugvéla hefðu því átt að lækka.
Með úrskurði fjármálaráðuneytisins 1. nóvember 2011 var kröfu stefnanda og Flugleiða-Fraktar ehf. um að ráðherra felldi niður ákvörðun tollstjóra um að hækka þjónustugjöld á farþegavélar og frakt-, ferju- og einkavélar hafnað. Stefnandi bendir á að í bréfinu sé tekið fram að ráðuneytið geti ekki fallist á það með tollstjóra að stefnt skuli að því að samræma gjaldtöku á landsvísu þannig að kostnaði sem af þjónustunni leiðir skuli jafnað út á milli einstakra gjaldenda. Síðan segi þar orðrétt: „Þrátt fyrir það gerir ráðuneytið ekki athugasemdir við útreikninga tollstjórans, enda hvíla þeir á meðaltalslaunakostnaði þeirra starfsmanna sem sinna þjónustunni með útköllum.“ Niðurstaða ráðuneytisins hafi þannig verið sú að þótt umræddri þjónustu hafi sannanlega ekki verið sinnt með útköllum og útreikningarnir m.a. grundvallaðir á því að jafna út kostnaði á einstaka greiðendur, fælist ekki í útreikningum tollstjórans ólögmæt jöfnun á milli einstakra greiðenda og að gjaldskráin hafi verið reist á fullnægjandi grundvelli. Þessi niðurstaða eigi sér enga stoð að mati stefnanda.
Stefnandi heldur því fram að ákvarðanir um hækkanir á gjaldi fyrir tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma umfram 10.000 kr., þ.e. framangreindar ákvarðanir frá 2006 til og með 2011 hafi ekki verið grundvallaðar á lögmætum sjónarmiðum. Taka umrædds þjónustugjalds umfram 10.000 kr. frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012 sé því ólögmæt. Af þessum sökum sé stefnandi knúinn til þess að höfða þetta mál.
Stefnandi segir kjarna málsins lúta að því að á stefnanda hafa verið lögð þjónustugjöld án þess að grundvöllur þeirrar gjaldtöku hafi verið rökstuddur í samræmi við þær kröfur sem lög geri ráð fyrir. Af þessu leiði að öll gjaldtaka umfram 10.000 kr., sem stefnandi fellst á að sé eðlileg greiðsla fyrir tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma, sé ólögmæt. Réttlátt sé og eðlilegt að stefndi, íslenska ríkið, bæti stefnanda tjón hans vegna þessa eða eftir atvikum endurgreiði honum það sem hefur verið ofgreitt, enda muni það stuðla að auknu réttaröryggi borgara landsins og hefur varnaðaráhrif.
Til nánari rökstuðnings fyrir ólögmæti gjaldtökunnar til stuðnings aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda eru í stefnu nánar raktar málsástæður er í fyrsta lagi byggjast á lögmætisreglunni og meginreglu um að opinber þjónusta skuli veitt að kostnaðarlaus, í öðru lagi á því að gjaldtakan grundvallist á ómálefnalegum og ólögmætum sjónarmiðum og í þriðja lagi á almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar, s.s. um að ákvörðun um fjárhæð gjalds verði að vera rökstudd og byggð á traustum útreikningi á þeim kostnaði sem hljótist af því að veita umrædda þjónustu.
Um lagarök vísar stefnandi m.a. til sakarreglunnar og meginreglna skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð hins opinbera. Einnig tollalaga nr. 88/2005, einkum 1. tl. 1. mgr. 195. gr. og 3. mgr. sömu greinar, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meginreglna stjórnsýsluréttar, einkum lögmætisreglunnar og reglna um jafnræði, meðalhóf og málefnaleg sjónarmið. Einnig byggir stefnandi á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laganna, lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995, einkum 1. og 2. gr. laganna. Krafa stefnanda um málskostnað er reist á 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Verða nú raktar nánar málsástæður stefnanda fyrir einstökum dómkröfum.
Stefnandi byggir aðalkröfu og þrautavarakröfu á sakarreglunni og reglum um bótaábyrgð hins opinbera, en tollstjóri hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni með því að gera stefnanda að greiða gjald fyrir tollafgreiðslu farþegaflugvéla umfram 10.000 kr. á tímabilinu frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012, þ.e. umfram það sem heimilt er að innheimta samkvæmt lögum. Það sé viðurkennt í íslenskum rétti að ekki þurfi að sýna sérstaklega fram á að skilyrðinu um saknæmi sé fullnægt, ef fyrir liggur að yfirvöld hafi brotið lög í starfsemi sinni. Engu að síður sé einnig byggt á því að hér sé skilyrði um saknæmi fyrir hendi. Útreikningar tollstjóra sem liggi fyrir í málinu sýni að ákvarðanir um töku gjalds vegna tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns tollafgreiðslutíma hafi ekki verið rökstuddar með fullnægjandi hætti og að þær séu ekki í samræmi við heimild til gjaldtökunnar sem felist í 1. tl. 1. mgr. 195. gr. tollalaga, sbr. og 3. mgr. sömu greinar. Stefndi hafi þannig bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda á grundvelli sakarreglunnar og bótareglna um bótaskyldu hins opinbera.
Hin saknæma og ólögmæta háttsemi hafi leitt til þess að stefnanda hafi verið gert að greiða umfram 10.000 kr. fyrir tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns tollafgreiðslutíma á tímabilinu frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012, samtals 187.646.284 kr. Tjón stefnanda nam a.m.k. þeirri fjárhæð.
Stefnandi rökstyður tjón sitt samkvæmt aðalkröfu með fyrrgreindu yfirliti sínu um fjölda farþegaflugvéla á vegum stefnanda sem hafi verið tollafgreiddur á Keflavíkurflugvelli utan almenns afgreiðslutíma á tímabilinu frá og með janúar 2006 til og með mars 2010 og sundurliðuðum upplýsingum um kostnað. Þar komi fram sú fjárhæð sem stefnanda hafi verið gert að greiða umfram 10.000 kr. í hvert skipti og samtals frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012, en um sé að ræða alls 187.646.284 kr. Það sé tjón stefnanda og það sem hann hafi ofgreitt vegna þjónustu við tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma.
Bótakrafa stefnanda hafi stofnast á þeim degi sem greiðsla fjármuna umfram 10.000 kr. fyrir tollafgreiðslu hverrar farþegaflugvélar hafi átt sér stað og beri vexti frá þeim degi til þingfestingardags máls þessa. Stefnandi leggur til grundvallar að miða skuli við vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þar sem um skaðabótakröfu sé að ræða. Stefnandi tekur fram að hann krefjist einungis vaxta af þeirri heildarfjárhæð sem hann hafi ofgreitt á hverju ári, en alls sé um að ræða 11.915 afgreiðslur og illmögulegt fyrir stefnanda að reikna út vexti fyrir hverja afgreiðslu, þótt sú niðurstaða myndi augljóslega skila hærri vöxtum til handa stefnanda. Krafist sé dráttarvaxta frá þingfestingardegi máls þessa til greiðsludags með vísan til 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. vaxtalaga.
Þrautavarakrafa stefnanda er byggð á sömu rökum og aðalkrafa, en stefnandi telur sannað að stefndi, íslenska ríkið, hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda á grundvelli sakarreglunnar og bótareglna um skaðabótaskyldu hins opinbera. Verði komist að þeirri niðurstöðu að framangreint eigi ekki við útreikning á tjóni stefnanda, ekki teljist sannað hvert fjártjón stefnanda hafi nákvæmlega verið og varakrafa stefnanda ekki tekin til greina, krefjist stefnandi þess til þrautavara að honum verði dæmdar bætur að áliti dómsins með hliðsjón af þeim sönnunargögnum sem liggi fyrir í málinu.
Varakrafa stefnanda byggir á ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, einkum 1. og 2. gr. þeirra laga. Í nefndum lögum sé lögfest sú meginregla að gjaldandi sem ofgreitt hafi skatta eða gjöld, eigi rétt á endurgreiðslu óháð því hvort hann hafi greitt með fyrirvara eða ekki. Í 1. mgr. 1. gr. laganna segi að stjórnvöld, sem innheimti skatta eða gjöld, skuli endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum skv. 2. gr. þeirra.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skulu vextir til gjaldanda vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en vexti skal reikna frá þeim tíma sem greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram. Af 2. mgr. 2. gr. laganna leiði að dráttarvexti skuli greiða skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega hafi lagt fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra gjalda.
Gögn málsins sýni að ákvarðanir um fjárhæð hins umþrætta gjalds umfram 10.000 kr. séu ekki heimilar lögum samkvæmt. Við ákvarðanir um gjaldtökuna hafi verið farið út fyrir þá heimild sem felist í 1. tl. 1. mgr. 195. gr. tollalaga, sbr. og 3. mgr. sömu greinar. Stefnandi hafi því öðlast kröfu um endurgreiðslu á hendur stefnda, íslenska ríkinu á grundvelli laga nr. 29/1995.
Stefnandi segir að af 4. gr. þeirra laga leiði að stefnandi geri einungis kröfu vegna þeirra ofgreiðslna sem hafi átt sér stað eftir 31. maí 2008. Um sé að ræða alls 163.913.884 kr. Stefnandi leggi til grundvallar að hið ofgreidda fé skuli bera vexti, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 2. gr. laga nr. 29/1995. Af 1. mgr. 2. gr. laganna leiði að miða skuli við vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga og þeir skuli reiknast af því fé sem oftekið hafi verið frá þeim tíma sem greiðslan hafi átt sér stað og þar til endurgreiðsla fari fram. Stefnandi krefjist einungis vaxta af þeirri heildarfjárhæð sem hann hann hafi ofgreitt á hverju ári, en alls sé um að ræða 9.745 afgreiðslur og illmögulegt fyrir stefnanda að reikna út vexti fyrir hverja afgreiðslu, þótt sú niðurstaða myndi augljóslega skila hærri vöxtum til handa stefnanda. Krafist sé dráttarvaxta frá þingfestingardegi máls þessa til greiðsludags með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. vaxtalaga.
Stefndi vísar framangreindum sjónarmiðum stefnanda og kröfum á þeim reistum eindregið á bug. Rakin eru sjónarmið stefnda því til stuðnings að ekki hafi brostið lagastoð fyrir gjaldtöku tollstjóra á tollafgreiðslugjaldi á stefnanda umfram 10.000 kr. vegna tollafgreiðslu farþegaflugvéla hans á Keflavíkurflugvelli utan almenns afgreiðslutíma og þar hafi heldur ekki verið farið út fyrir lagaheimildir til gjaldtöku. Ósannað sé að stefnanda hafi með ólögmætum hætti verið gert að greiða gjald umfram kostnað við þá þjónustu sem hann naut. Engra haldbærra gagna nýtur við frá stefnanda sem gætu skotið stoðum undir kröfur hans í heild eða að hluta. Þá sé kröfugerð stefnanda að þessu leyti algerlega vanreifuð eins og rakið hafi verið til stuðning kröfu stefnda um frávísun
Stefndi vísar kröfum stefnanda um skaðabætur í aðal- og þrautavarkröfum hans á bug. Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Ekki hafi verið sýnt fram á að tjón hafi orðið né að fyrir hendi sé orsakasamband milli ætlaðs tjóns og ætlaðra bótaskyldra atvika. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á að um tjón í skilningi skaðabótaréttar geti verið að ræða og hafi ekki leitt líkur að því að gjaldtakan hafi haft áhrif á atvinnurekstur hans. Skaðabótakrafa stefnanda byggist á tollafgreiðslugjaldi sem hann telur sig hafa ofgreitt á tímabilinu frá 1. júlí 2006 til 31. mars 2012. Skaðabótakrafa stefnanda sem stefnandi hefur uppi annars vegar í aðalkröfu og hins vegar í þrautvarakröfu séu í eðli sínu endurgreiðslukröfur sem lúti reglum kröfuréttar. Því beri að sýkna af öllum kröfum stefnanda verði þeim ekki vísað frá dómi. Verði ekki fallist á að framangreind sjónarmið leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda er á því byggt að þau eigi að leiða til stórkostlegrar lækkunar stefnukrafnanna, sbr. þrautavarakröfu stefnda. Stefndi mótmælir öllum kröfum stefnanda sem allt of háum og krefst stórkostlegrar lækkunar á þeim. Þá mótmælir stefndi vaxtakröfum stefnanda.
II
Í þessum þætti málsins er deilt um það hvort málatilbúnaður stefnanda fullnægi ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi heldur því fram að kröfur stefnanda um skaðabætur í aðal- og þrautavarakröfu séu óljósar og vanreifaðar þannig að varði frávísun sbr. ákvæði d-, e- og g-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Öll gögn, rök og umfjöllun skorti til stuðnings skaðabótakröfum. Enga umfjöllun sé yfirhöfuð að finna um stefnanda og starfsemi hans, s.s. markaðsaðstæður, verðlagningu o.s.frv., né ætlað tjón eða í hverju það hafi falist. Í engu sé þannig fjallað um atriði er máli skipta og sem taka þurfi afstöðu til við mat á því hvort uppfyllt séu skilyrði um tjón og orsakasamband milli tjóns og háttsemi sem stofnað gæti til skaðabótaskyldu að lögum. Að auki skorti gögn til stuðnings tjóni.
Þá séu fjárkröfur sem stefnandi hefur uppi í skaðabótakröfum og í varakröfu hans um endurgreiðslu vanreifaðar og óljósar. Fyrrgreint „Yfirlit yfir fjölda farþegaflugvéla á vegum stefnanda sem hafa verið tollafgreiddar á Keflavíkurflugvelli utan almenns afgreiðslutíma á tímabilinu frá og með janúar 2006 til og með mars 2012 og sundurliðaðar upplýsingar um kostnað“ sem stefnandi hefur lagt fram sé einhliða óstaðfest yfirlit. Ekkert liggi fyrir um á hvaða gögnum það sé byggt né heldur frá hverjum það stafi. Það geti því ekki talist viðhlítandi gagn um greiðslur sem hann hafi innt af hendi eða grundvöll greiðslna.
Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefnda andmælti lögmaður stefnanda framangreindum sjónarmiðum stefnda. Fyrir lægi stefna málsins þar sem atvik og ágreiningur væri ljós. Kjarni málsins væri sá að lögð hefðu verið á stefnda þjónustugjöld umfram heimildir í lögum og að stefnandi teldi 10.000 kr. eðlilegt gjald og allt umfram það ólögmætt. Fyrrgreint yfirlit um þær fjárhæðir sem stefnanda hefði verið gert að greiða umfram 10.000 kr. virtist valda stefnda vandkvæðum en það væri að sjálfsögðu byggt á gögnum úr bókhaldi stefnanda. Þetta skjal var skýrt og enn fremur rökstuðningur í stefnu fyrir tjóni stefnanda annars vegar og fjárhæð ofgreiddra gjalda. Röksemdir stefnda snéru að efni, þ.e. hvort tjón væri sannað, en ekki formi. Stefnandi vísaði einnig til þess að stefndi hefði lagt fram yfirlit ásamt töflum um launakostnað og sértekjur á Keflavíkurflugvelli. Með hliðsjón af því kæmi á óvart að íslenska ríkið teldi sig ekki geta gripið til fullra varna þar sem þarna væri sundurliðað hvað hver flugfélag greiddi vegna álagningar tollafgreiðslu árið 2011 og þ.á m. hvað stefndi hefði greitt í þjónustugjöld. Ótvírætt væri af greinargerð stefnda hvert sakarefnið væri enda lýsti hann því í hnotskurn í greinargerð. Stefnda hefði ekki verið gert erfitt um vik í vörninni. Þá gæti stefnandi auðvitað lagt fram útreikninga og kvittanir undir rekstri málsins ef á þyrfti að halda. Hvorki væri þörf á ítarlegri umfjöllun um markaðsaðstæður né verðlagningu í máli þessu.
III
Bæði skaðabótakrafa stefnanda samkvæmt aðal- og þrautavarakröfu og endurgreiðslukrafa hans er reist á þeirri staðhæfingu hans að 10.000 krónur sé eðlileg greiðsla fyrir tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma en öll gjaldtaka umfram það sé ólögmæt. Réttlátt sé og eðlilegt að stefndi bæti stefnanda tjón hans vegna þessa eða eftir atvikum endurgreiði honum það sem hafi verið ofgreitt. Í stefnu er hins vegar á engan hátt leitast við að færa nokkur rök fyrir því hvers vegna miða beri við 10.000 krónur. Stefnandi lætur þannig þar við sitja að staðhæfa að stefnandi geri ekki athugasemdir við þá fjárhæð þótt ekki liggi fyrir rökstuðningur fyrir henni. Enn fremur að stefnandi telji að kostnaður vegna tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012. hafi að hámarki numið 10.000 krónum frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012.
Til stuðnings og skýringar á kröfum sínum, þ. á m. sundurliðun þeirra, skírskotar stefnandi enn fremur einvörðungu með almennum hætti til fyrrgreinds átta blaðsíðna tölu- og töfluyfirlits.. Þar komi fram sú fjárhæð sem honum hafi verið gert að greiða umfram kr. 10.000 í hvert og eitt skipti og samtals frá og með 1. júlí 2006 til og með 31. mars 2012, alls 187.646.284 krónur. Þetta sé tjón stefnanda og það hafi hann ofgreitt í gjöld vegna þjónustu við tollafgreiðslu farþegaflugvéla utan almenns afgreiðslutíma. Til stuðnings fjárhæðinni sem stefnanda krefst endurgreiðslu á til vara kveðst stefnandi einungis gera kröfu vegna þeirra ofgreiðslna sem hafi átt sér stað eftir 31. maí 2008, þ.e. alls 163.913.884 krónur. Engar nánari útskýringar á þessu dómskjali og sundurliðun krafna samkvæmt því er að finna í stefnu, s.s. á hvaða gögnum það byggi.
Með vísan til framanritaðs þykir stefnan ekki hafa að geyma nægilegar útskýringar á því á hvaða grunni dómkröfur stefnanda eru reistar og dómkröfur stefnanda svo vanreifaðar að dómur verður ekki lagður á þær. Er því fallist á það með stefnda að slíkir annmarkar séu á málatilbúnaði stefnanda að óhjákvæmilegt sé að vísa málinu frá dómi samkvæmt d-, e- og g-lið 1. mgr. 80. laga nr. 91/1991.
Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir eftir atvikum og umfangi málsins hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en ákvæðið hefur verið talið gilda um úrskurði þar sem afstaða er tekin til frávísunarkröfu stefnda og málflutningur hefur farið fram af því tilefni samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laganna. Aðilar og dómari töldu hins vegar ekki þörf á því að málið yrði flutt að nýju.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Icelandair ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað.