Hæstiréttur íslands

Mál nr. 78/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Frávísun frá héraðsdómi


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. mars 2004.

Nr. 78/2004.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði

(Brynja Stephanie Swan fulltrúi)

gegn

Fataefni ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem „ákvörðun“ sýslumanns „um að taka ekki afstöðu til mótmæla“ F ehf. við frumvarp að úthlutunargerð vegna nauðungarsölu tiltekinnar fasteignar var felld úr gildi. Niðurstaða héraðsdóms var byggð á því að ekki hefði verið sýnt fram á að F ehf. hafi borist boðun til fundar, þrátt fyrir að boðunarbréf hafi verið sent í ábyrgðarpósti á lögheimili þess, auk þess sem sýslumaður hefði ekki tekið formlega afstöðu til mótmæla félagsins. Í Hæstarétti var talið að ákvörðun sýslumanns hafi lotið að því að hafna efnislega mótmælum F ehf. og hafi kröfugerð F ehf. í málinu því ekki verið í samræmi við 1. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Hafi því ekki verið skilyrði að lögum til að leita úrlausnar héraðsdómara með þeim hætti sem gert var og hafi honum borið að vísa kröfunni frá dómi, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem móttekin var af Héraðsdómi Reykjaness 4. febrúar 2004. Kærumálsgögn bárust Hæstarétti 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. janúar 2004, þar sem „ákvörðun“ sýslumanns „um að taka ekki afstöðu til mótmæla“ varnaraðila við frumvarp að úthlutunargerð vegna nauðungarsölu fasteignarinnar Reykjavíkurvegar 74, Hafnarfirði, var felld úr gildi. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að framangreindum úrskurði verði breytt og „sú ákvörðun“ sem kærð var til héraðsdóms verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér kærumálskostnað.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var haldinn fundur 12. mars 2003 til að taka til úrlausnar skrifleg mótmæli varnaraðila við frumvarpi sýslumanns 10. janúar 2003 að úthlutunargerð söluandvirðis vegna nauðungarsölu á fasteigninni Reykjavíkurvegur 74, Hafnarfirði. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið sýnt fram á að varnaraðila hafi borist boðun til fundarins, þrátt fyrir að boðunarbréf hafi verið sent í ábyrgðarpósti á lögheimili varnaraðila. Þá hafi sýslumaður á hinum umrædda fundi 12. mars 2003 ekki tekið formlega afstöðu til mótmæla varnaraðila, sem honum hafi allt að einu borið að gera.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði bókaði fulltrúi sýslumanns í gerðarbók á umræddum fundi, að vegna þess að ekki væri mætt til fundarins af hálfu varnaraðila og að teknu tilliti til gagna málsins, væri ekki ástæða til að taka afstöðu til mótmælanna. Hins vegar er þess ekki getið í úrskurði héraðsdóms að sýslumaður bókaði jafnframt í beinu framhaldi sérstaka niðurstöðu undir fyrirsögninni „ákvörðun“ um að hann tæki ekki til greina mótmæli varnaraðila. Þrátt fyrir misvísandi bókanir sýslumanns telst hann með þessu hafa fullnægt nægilega þeirri skyldu sinni að taka afstöðu til framkominna skriflegra mótmæla. Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila krefst hann ógildingar á þeirri „ákvörðun“, sem hann telur sýslumann hafa tekið þess efnis að taka ekki afstöðu til framkominna mótmæla sinna við frumvarp að úthlutunargerð. Af framanröktu sést hins vegar að sú eina ákvörðun, sem tekin var á umræddum fundi, laut þvert á móti að því að hafna efnislega mótmælum varnaraðila. Kröfugerð varnaraðila í málinu lýtur því ekki að þeim atriðum sem tilgreind eru í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991, um staðfestingu, breytingu eða ómerkingu á ákvörðun sýslumanns. Voru því ekki skilyrði að lögum til að leita úrlausnar héraðsdómara með þeim hætti sem gert var. Þegar af þessari ástæðu bar héraðsdómara að vísa kröfunni frá dómi, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991. Reynir þá ekki sérstaklega á önnur atriði, svo sem aðild sýslumanns að málinu.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. janúar 2004.

Mál þetta var þingfest 30. júní sl. og tekið til úrskurðar 5. desember sl. Sóknaraðili er Fataefni ehf., kt. 700269-5669, Stórhöfða 15, Reykjavík en varnaraðili sýslumaðurinn í Hafnarfirði, kt. 490169-5559, Bæjarhrauni 18, Hafnarfirði.

Kröfur sóknaraðila eru þær að ógilt verði sú ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 21. mars 2003 um að taka ekki afstöðu til mótmæla sóknaraðila við frumvarpi að úthlutunargerð í tengslum við nauðungarsölu fasteignarinnar Reykjavíkurvegur 74 í Hafnarfirði. Þá er þess krafist að mótmæli kæranda við frumvarpi að úthlutunargerð verði tekin til greina. Þá er krafist málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að embætti sýslumannsins í Hafnarfirði verði alfarið sýknað af öllum kröfum sóknaraðila. Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili gerði einnig þá kröfu að málinu yrði frávísað. Með úrskurði 30. október 2003 var þeirri kröfu hrundið.

I.

Fasteignin Reykjavíkurvegur 74, Hafnarfirði, var seld nauðungarsölu á framhaldsuppboði þann 10. janúar 2003. Hæstbjóðandi á ofangreindu uppboði var Jónas Guðmundsson fyrir hönd sóknaraðila með boð upp á 62.000.000 króna. Samþykkisfrestur var upphaflega veittur til 24. janúar 2003 sem síðan var framlengdur tvívegis, fyrst til 31. janúar og svo til 5. febrúar. Við lok samþykkisfrests þann 5. febrúar 2003 kom í ljós að Fataefni ehf. gat ekki staðið við boð sitt og eignin gekk því til næsthæstbjóðanda Nýsirs hf. sem Stefán Þórarinsson hafði boðið fyrir með boð upp á 61.000.000 króna.

Frumvarp að úthlutunargerð nauðungarsöluandvirðisins var gefið út þann 6. febrúar 2003. Frumvarpsfrestur var veittur til 20. febrúar 2003. Sóknaraðili mótmælti úthlutunargerð frumvarpsins með bréfi dagsettu 19. febrúar 2003 sem barst sýslumanni á faxi þann 20. febrúar 2003.

Boðunarbréf voru póstlögð í ábyrgðarpósti þann 21. febrúar 2003 um að mæta á fund til úrlausnar um mótmælin. Boðunarbréfin eru dagsett 20. febrúar 2003. Fundurinn var síðan haldinn þann 12. mars 2003 kl. 14:00. Boðunarbréfið sem stílað var á sóknaraðila var sent með ábyrgðarpósti á lögheimili félagsins að Stórhöfða 15 í Reykjavík samkvæmt þjóðskrá og samkvæmt uppgefnu heimilisfangi frá Jónasi Guðmundssyni fyrirsvarsmanni sóknaraðila á kröfulýsingu þeirra. Deginum fyrir áætlaðan mótmælafund var boðunarbréfið endursent með árituninni að viðtakandi væri óþekktur. Ekki var mætt á fundinn af hálfu sóknaraðila og leit sýslumaður þá þannig á málið að fallið hefði verið frá mótmælunum og ekki væri ástæða til að taka frekari afstöðu til þeirra.

Er málið var tekið fyrir hjá sýslumanni þann 12. mars 2003 var bókað:

“Fyrir hönd Íslandsbanka hf. mætir Árni Einarsson hdl. Fyrir hönd Nýsirs hf. mætir Stefán Þórarinsson. Fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar mætir Bjarni Lárusson hdl. Ekki er mætt af hálfu Jónasar Guðmundssonar f.h. Fataefnis ehf. sem mótmælti frumvarpinu.

Fulltrúi sýslumanns ákveður með tilliti til þess að ekki sé mætt af hálfu Fataefnis ehf. og þeirra gagna sem frammi liggja í málinu að ekki sé ástæða til að taka afstöðu til mótmælanna.”

Afsal var gefið út fyrir eigninni þann 13. mars 2003. Það var síðan með bréfi dags. 24. mars 2003 að sóknaraðili tilkynnti sýslumanni að kæra ætti málið til héraðsdóms. Í bréfinu kom fram að sóknaraðila hafi fyrst orðið kunnugt um ákvörðunina þann 21. mars 2003.

Jónas Guðmundsson kom fyrir dóm. Hjá honum kom fram að lögheimili félagsins sé nú að Stórhöfða 15 í Reykjavík. Póstur til félagsins hafi borist honum þannig að hann hafi verið settur í póstkassa félagsins. Félagið hafi áður verið með starfssemi í Skeifunni í Reykjavík en hafi flutt lögheimili félagsins í maí 2002 að Stórhöfða 15 í Reykjavík.

II.

Mótmæli sóknaraðila gegn frumvarpi til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar Reykjavíkurvegur 74 í Hafnarfirði voru tekin fyrir hjá sýslumanni þann 12. mars 2003. Ekki var mætt á fundinn af hálfu sóknaraðila og leit sýslumaður þá þannig á málið að fallið hefði verið frá mótmælunum og ekki væri ástæða til að taka frekari afstöðu til þeirra. Sóknaraðili lýsti því yfir með bréfi til sýslumanns dags. 24. mars 2003 að hann leitaði úrskurðar héraðsdómara um þá ákvörðun sýslumanns að taka ekki afstöðu til mótmæla sóknaraðila vegna frumvarps til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar.

Sóknaraðili byggir á því að fundurinn sem boðaður hafi verið þann 12. mars 2003 þar sem taka átti fyrir mótmæli sóknaraðila hafi verið ólögmætur. Ástæðan sé sú að ekki hafi tekist að boða sóknaraðila til fundarins. Þá byggir sóknaraðili á því að sú ákvörðun sýslumanns að taka ekki afstöðu til mótmæla sóknaraðila vegna þess að ekki hafi verið mætt á fundinn af hálfu sóknaraðila hafi verið ólögmæt.

Varnaraðili byggir á því að hvergi í kærunni hafi verið vísað til þeirra lagagreina sem kæran byggir á. Þar sem lagagreinarnar hafi ekki komið fram í kærunni sjálfri verður að ætla að samkvæmt bréfi dags. 26. mars 2003 frá lögmanni sóknaraðila sem barst sýslumanni á faxi sama dag, að málið sé kært á grundvelli 73. gr. laga um nauðungarsölu. Sú grein eigi hinsvegar ekki við í þessu máli enda eigi hún aðeins við um ágreining sem snýr að því hvort að nauðungarsalan fari fram. Í því máli sem hér um ræðir hafi salan hinsvegar þegar farið fram og málinu síðan lokið með útgáfu afsals þann 13. mars 2003. Með vísan til 74. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 hafi dómari átt að vísa málinu frá ex officio án þess að kveða aðila til.

Þá byggir varnaraðili á því að málið verði ekki tekið upp aftur og nýr mótmælafundur haldinn enda sé búið að afsala eigninni og greiða út uppboðsandvirðið og kæra sóknaraðila hafi ekki komið fram fyrr en að þeim tíma liðnum.

Varnaraðili bendir á að jafnvel þó málið verði tekið upp aftur og boðaður verði annar mótmælafundur eða ef tekin hefði verið afstaða til mótmælanna á fundinum, þrátt fyrir að ekki hafi verið mætt af hálfu sóknaraðila og öll mótmæli hans tekin til greina, þá sé ekki að sjá að sóknaraðili hefði fengið neitt upp í sína kröfu enda bæði fjárnám frá varnaraðila og 6.000.000 króna skuldabréf frá Spron á undan þeim veðrétti en á uppboðsdegi hljóðaði krafa Spron upp á tæpar 7.000.000 króna.

Mótmælt sé dagsetningunni 21. mars 2003 sem vísað sé til í kærunni. Sóknaraðili krefst þess að ógild verði sú ákvörðun sem varnaraðili á að hafa tekið þann 21. mars 2003. Varnaraðili tók hinsvegar enga ákvörðun í málinu þann 21. mars 2003 enda hafi afsal fyrir eigninni verið gefið út þann 13. mars 2003 og því hafi ekki verið á  valdsviði embættisins að taka ákvarðanir í loknum málum. Augljóst sé að ekki sé hægt að ógilda einhverja ákvörðun frá ofangreindri dagsetningu þar sem engin slík dagsetning sé til staðar.

Þá bendir varnaraðili einnig á að fyrsti liðurinn í mótmælum sóknaraðila eigi ekki við rök að styðjast. Þar hafi fyrirsvarsmaður sóknaraðila m.a. mótmælt innheimtulaunum lögmanns Hafnarfjarðarbæjar og krefst þess að þau verði lækkuð. Augljóst sé að ekki sé um eðlileg mótmæli að ræða heldur sé einungis verið að mótmæla til að mótmæla einhverju.

Varðandi mótmælin vegna kröfu Íslandsbanka sé ómögulegt fyrir varnaraðila að taka afstöðu til samnings sem uppboðskaupandinn Nýsir hf. á að hafa svikið enda engin gögn um að slíkur samningur hafi verið til staðar.

III.

Fundur var haldinn þann 12. mars 2003 til þess að taka til úrlausnar mótmæli sóknaraðila gegn frumvarpi að úthlutunargerð. Ekki var mætt á fundinn af hálfu sóknaraðila. Boðunarbréf dags. 20. febrúar 2003 sem stílað var á sóknaraðila var sent með ábyrgðarpósti á lögheimili félagsins. Deginum fyrir áætlaðan mótmælafund var boðunarbréfið endursent með árituninni að viðtakandi væri óþekktur. Aðrar tilkynningar og bréf, frumvarp og afsal voru hinsvegar send á þetta sama heimilisfang og virðast hafa skilað sér til viðtakanda.

Fyrst ekki var mætt á fundinn af hálfu sóknaraðila leit sýslumaður þannig á málið að fallið hefði verið frá mótmælunum og ekki væri ástæða til að taka frekari afstöðu til þeirra. Mótmæli sóknaraðila við frumvarpi að úthlutunargerð voru því ekki tekin til greina. Afsal var síðan gefið út fyrir eigninni þann 13. mars 2003 og var sóknaraðila tilkynnt um það með bréfi dags. sama dag.

Sóknaraðili gerir kröfu um að ógilt verði sú ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði um að taka ekki afstöðu til mótmæla sóknaraðila við frumvarpi að úthlutunargerð í tengslum við nauðungarsölu fasteignarinnar Reykjavíkurvegur 74 í Hafnarfirði. Þá gerir sóknaraðili kröfu um að mótmæli kæranda við frumvarpi að úthlutunargerð verði tekin til greina.

Sóknaraðili byggir á því að fundurinn sem boðaður var þann 12. mars 2003 þar sem taka átti fyrir mótmæli sóknaraðila hafi verið ólögmætur. Ástæðan sé sú að ekki hafi tekist að boða sóknaraðila til fundarins. Boðunarbréf dags. 20. febrúar 2003 sem stílað hafi verið á sóknaraðila hafi verið merkt Skeifunni 8 í Reykjavík í stað Stórhöfða 15 í Reykjavík sem á þeim tíma hafi verið lögheimili sóknaraðila. Þá byggir sóknaraðili á því að sú ákvörðun sýslumanns að taka ekki afstöðu til mótmæla sóknaraðila vegna þess að ekki hafi verið mætt á fundinn af hálfu sóknaraðila hafi verið ólögmæt.

Í 52. gr. laga um nauðungarsölu segir að ef fram komi mótmæli gegn frumvarpi skuli sýslumaður boða þá sem mótmælin varða á sinn fund. Þá segir að þegar hlutaðeigendum hafi gefist kostur á að tjá sig um mótmælin bókar sýslumaður ákvörðun í gerðabók um hvort hann taki þau til greina og breyti frumvarpi því til samræmis.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sýslumaður hafi boðað til fundarins með því að senda boðunarbréf í ábyrgðarpósti til sóknaraðila að Stórhöfða 15 í Reykjavík sem á þeim tíma hafi verið lögheimili sóknaraðila.

                Boðunarbréfið til sóknaraðila vegna fundarins 12. mars 2003 er stílað á nafn sóknaraðila með heimilisfang að Stórhöfða 15, Reykjavík.  Hins vegar er umslagið sem bréfið var sent í stílað á Stórhöfða 15, Reykjavík, heldur er eina heimilisfang sem þar kemur fram Skeifan 8, 108 Reykjavík, sem hefur verið handskrifað á umslagið og kemur fram í tilkynningarmiða póstsins, sem límt var á umslagið að þar þekkist sóknaraðili ekki sbr. dskj. nr. 128.  Fram kom í skýrslu sóknaraðila að þetta sé eldra lögheimili hans en hann hafi verið fluttur þó nokkru áður með starfssaðstöðu sína að Stórhöfða 15, Reykjavík.  Í málinu hefur ekki verið sýnt fram á með öruggum hætti, að bréfið hafi verið sent á rétt heimilisfang sóknaraðila og fyrir liggur að ekki hafði tekist að afhenda honum það og það var varnaraðila ljóst, er fundurinn vegna mótmæla sóknaraðila var haldinn.

                Þegar þett er virt, verður að telja að varnaraðili hafi ekki haft ástæðu til að ætla, að það að sóknaraðili sótti ekki fundinn væri til merkis um að hann væri fallin frá mótmælum sínum.  Tilgangurinn með að senda boðunarbréf og tilkynningar í ábyrgðarbréfi er að tryggja að þau berist hlutaðeigandi eða hann hafi haft öruggan aðgang að því eftir tilkynningu sem birt er honum.

                Það er mat réttarins að við þessar aðstæður hafi ekki verið skilyrði til að halda fundinn, heldur hafi varnaraðili átt að fresta fundinum og boða til annars fundar með tryggilegum hætti.  Alla vega hafi ekki mátt túlka fjarveru sóknaraðila svo, að hann væri fallinn frá mótmælum sínum og hafi varnaraðila a.m.k. borið að taka afstöðu til þeirra, en þá ákvörðun hefði þá sóknaraðili getað kært, ef hann sætti sig ekki við hana.

                Í málinu er því fallist á kröfu sóknaraðila um að ákvörðun sýslumanns um að taka ekki afstöðu til mótmæla sóknaraðila við frumvarpið um úthlutunargerð vegna nauðungarsölu fasteignarinnar Reykjavíkurvegur 74, Hafnarfirði verði felldur úr gildi.

                Eftir þessum úrslitum ber að dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðila 120.000 krónur í málskostnað.

                Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Ákvörðun varnaraðila sýslumannsins í Hafnarfirði um að taka ekki afstöðu til mótmæla sóknaraðila, Fataefnis ehf., við frumvarp um úthlutunargerð vegna nauðungarsölu fasteignarinnar Reykjavíkurvegur 74, Hafnarfirði er felld úr gildi.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 120.000 krónur í málskostnað.