Hæstiréttur íslands

Mál nr. 641/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Mánudaginn 1. desember 2008.

Nr. 641/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Erlendur Þór Gunnarsson hdl.)

 

Kærumál. Framsal. Kærufrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæra barst ekki héraðsdómi fyrr en að loknum kærufresti samkvæmt 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2008, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra 20. október 2008 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og  ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra um að framselja hann til Póllands verði felld úr gildi. Þá krefst hann  kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Hinn kærði úrskurður var, sem áður segir, kveðinn upp á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2008. Varnaraðili sótti ekki þing við uppkvaðningu úrskurðarins, en skipaður verjandi hans var þar staddur. Samkvæmt vottorði um birtingu var hinn kærði úrskurður birtur varnaraðila 21. nóvember 2008. Þar kemur fram að varnaraðila hafi verið kynntur kærufrestur til Hæstaréttar með aðstoð túlks. Í kæru varnaraðila til Hæstaréttar kemur fram að misskilnings hafi gætt milli verjanda og varnaraðila um kæru á úrskurðinum.

Samkvæmt 24. gr. laga nr. 13/1984 fer um kæru eftir almennum reglum laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Við birtingu hins kærða úrskurðar fyrir varnaraðila 21. nóvember 2008 hófst því þriggja sólahringa frestur til að kæra úrskurðinn samkvæmt 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991. Sá frestur var liðinn þegar kæra barst héraðsdómi 26. nóvember 2008. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist hjá að vísa máli þessu sjálfkrafa frá Hæstarétti. 

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessi er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2008.

I

Málið var tekið til úrskurðar 14. nóvember sl.  Það barst dómnum 11. nóvember sl. með bréfi ríkissaksóknara 10. sama mánaðar.  Ríkissaksóknari verður hér eftir nefndur sóknaraðili.

Málavextir eru þeir að dómsmálaráðherra ákvað 20. október sl. að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja X, kt. [...], pólskan ríkisborgara, sem hér eftir verður nefndur varnaraðili, til Póllands.  Varnaraðila var kynnt þessi ákvörðun 29. október sl. og sama dag krafðist hann úrskurðar dómsins um ákvörðunina.

Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun dómsmálaráðherra verði staðfest.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi og málsvarnarlaun greidd úr ríkissjóði.

II

Sóknaraðili gerir svofellda grein fyrir málavöxtum „að með bréfi pólska dómsmálaráðuneytisins, dags. 21. ágúst 2008, hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu borist beiðni um framsal X (varnaraðila) til Póllands til fullnustu refsidóms. Varnaraðili sé pólskur ríkisborgari með lögheimili í Reykjavík. Samkvæmt gögnum sem hafi fylgt framsalsbeiðninni hafi hún verið byggð á dómi Héraðsdómsins í Rzeszów uppkveðnum 13. maí 2005 þar sem varnaraðili hafi verið sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 284. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa 8. maí 1997 tileinkað sér og notað í heimildarleysi fólksbifreið sem hann hafði fengið til afnota og hafi verið í eigu bílaleigu. Refsing hafi verið ákveðin fangelsi í eitt ár og tvo mánuði, skilorðsbundið til fjögurra ára.

Þá liggi fyrir ákvörðun héraðsdómsstólsins í Rzeszów frá 13. júní 2007 þess efnis að varnaraðili skuli afplána fangelsisrefsinguna samkvæmt dóminum frá 13. maí 2005. Fram komi að varnaraðili hafi ekki greitt bætur til brotaþola líkt og kveðið hafi verið á um í fyrrgreindum dómi og hafi verið meðal skilyrða fyrir skilorðsbindingu. 

Hinn 15. september sl. hafi varnaraðila verið kynnt framsalsbeiðnin af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt lögregluskýrslu hafi varnaraðili kannast við að framsalsbeiðnin ætti við hann. Hann hafi jafnframt kannast við umræddan dóm en  hafi hafnað framsalsbeiðninni.

Að fenginni umsögn ríkissaksóknara, með bréfi dags. 13. október sl., um að uppfyllt væru skilyrði framsals skv. I. kafla laga nr. 13/1984, ákvað dómsmálaráðherra hinn 20. október sl. að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi kynnt varnaraðila ákvörðunina þann 29. f.m. Með bréfi sem borist hafði ríkissaksóknara sama dag hafi verjandi varnaraðila krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 sé vísað til áðurnefndrar umsagnar ríkissaksóknara. Jafnframt þyki fullnægt skilyrðum II. kafla laganna um form framsalsbeiðninnar.“

Varnaraðili hefur ekki mótmælt því að hann hafi hlotið framangreindan dóm.  Krafa hans byggist í fyrsta lagi á því að brot hans myndi hér á landi varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga þar sem refsiramminn er 4 ára fangelsi eða sektir.  Ljóst sé því að um smávægilegt brot hafi verið að ræða.

Í öðru lagi er krafa varnaraðila á því byggð að brot varnaraðila hafi verið fyrnt.  Vísar hann til 2. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga og bendir á að dómsmálaráðuneytið hafi byggt á 3. tl. sömu greinar sem hljóti að vera mistök.

III

Í 1. gr. laga nr. 13/1984 segir að þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé heimilt að framselja samkvæmt lögunum.  Í 2. gr. segir að ekki megi framselja íslenska ríkisborgara.  1. mgr. 3. gr. laganna segir að framsal á manni sé aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.  Í 3. mgr. segir að framsal til fullnustu á dómi sé aðeins heimilt ef refsing samkvæmt honum er minnst 4 mánaða fangelsi eða dómþoli skuli vistaður á stofnun í sama tíma hið minnsta.

Sú háttsemi sem sóknaraðili var dæmdur fyrir í Póllandi myndi varða við 1. mgr. 259. gr.  almennra hegningarlaga, en brot gegn því ákvæði getur varðað allt að 4 ára fangelsi.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið eru uppfyllt skilyrði 1. gr. og 1. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal.  Þá er og ekkert fram komið í málinu, er bent gæti til þess að ákvæði 5. mgr. 3. gr. laganna eigi við.  Loks er ljóst að sök er ekki fyrnd á hendur sóknaraðila, sbr. 9. gr. laganna. 

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið eru ekki lagaskilyrði til að verða við kröfu varnaraðila um að framangreind ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um framsal hans verði felld úr gildi.  Verður því tekin til greina krafa sóknaraðila um staðfestingu ákvörðunarinnar.

Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Erlendar Þórs Gunnarssonar hdl., úr ríkissjóði og þykir hún hæfilega ákveðin 272.780 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. 

Úrskurðarorð

Kröfu varnaraðila, X, kt. [...], er hafnað. 

Staðfest er ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 20. október 2008 um að framselja varnar­aðila til Póllands.

Þóknun verjanda varnaraðila, Erlendar Þórs Gunnarssonar hdl., 272.780 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði.