Hæstiréttur íslands
Mál nr. 472/2017
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Óvenjulegur greiðslueyrir
- Endurgreiðslukrafa
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júlí 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara lækkunar endurgreiðslukröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Leiguvélar ehf. og Lýsing hf. gerðu með sér fimm fjármögnunarleigusamninga 3. október 2005 um jafn margar nýjar DAF-vörubifreiðir með fastanúmerunum LR-719, TY-608, SF-286, SM-606 og YT-487 og voru Leiguvélar ehf. leigutaki samkvæmt samningunum.
Leiguvélar ehf. leigðu áfrýjanda, sem þá bar heitið Úri ehf., vörubifreiðirnar LR-719, TY-608 og YT-487 með þremur samningum 6. júní 2012 og var samið um kauprétt áfrýjanda í lok leigutímans. Með samningsviðauka 5. október sama ár var ákveðið að allar leigugreiðslur gengju upp í kaupverð vörubifreiðanna ef áfrýjandi sæi sér hag í að kaupa þær að leigutíma liðnum. Leiguvélar ehf. leigðu áfrýjanda vörubifreiðirnar SF-286 og SM-606 með tveimur samningum 28. febrúar 2013 með sömu skilmálum og að framan greinir um kauprétt áfrýjanda í lok leigutíma og ráðstöfun leigugreiðslna upp í kaupverð. Samningarnir báru allir yfirskriftina „Samningur um útleigu á vinnuvél frá Leiguvélum ehf.“ Leigusali var tilgreindur sem „Leiguvélar ehf. … í samstarfi við VB Vörumeðhöndlun ehf. …“. Þá kom fram í öllum samningunum að vörubifreiðirnar væru eign Leiguvéla ehf., að framleiga á þeim væri óheimil án samþykkis hans, að leigugjald færi eftir gjaldskrá sem lægi frammi hjá Leiguvélum ehf. eða samkvæmt tilboði frá leigutaka og að Leiguvélar ehf. gætu sagt upp samningunum og sótt vörubifreiðirnar við tilteknar aðstæður. Þá sagði í samningunum að leigutaki greiddi fyrir olíunotkun vegna vörubifreiðanna samkvæmt áætlun „VB Vörumeðhöndlunar við skil“ og að leigutaki skyldi að leigutíma loknum skila þeim til „VB Vörumeðhöndlunar ehf.“ Áfrýjandi stóð við samningsskyldur sínar gagnvart Leiguvélum ehf. Félaginu var hins vegar ekki fært að efna þá samningsskyldu sína gagnvart áfrýjanda að yfirfæra eignarrétt að vörubifreiðunum til hans í lok samningstímans þar sem Lýsing hf. var enn þinglýstur eigandi þeirra.
Félagið Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf., er ýmist nefnt því nafni eða VB Vörumeðhöndlun ehf. í gögnum málsins en fékk síðar nafnið V62 ehf.
Ágreiningur kom upp milli Leiguvéla ehf. og Lýsingar hf. um hvort framangreindir samningar teldust hafa verið leigu- eða lánssamningar og hvort tenging þeirra við gengi erlendra gjaldmiðla hefði verið ólögmæt. Í dómi Hæstaréttar 4. mars 2015 í máli nr. 121/2015 var meðal annars fjallað um fjármögnunarleigusamninga Leiguvéla ehf. og Lýsingar hf. um fyrrnefndar vörubifreiðir. Með dóminum var með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á kröfu Lýsingar hf. um að vörubifreiðirnar, ásamt fleiri vélum og tækjum, yrðu teknar úr vörslum Leiguvéla ehf. með beinni aðfarargerð og fengnar Lýsingu hf. Í forsendum héraðsdóms sagði að ekki hafi verið samið svo um milli Leiguvéla ehf. og Lýsingar hf. að hið fyrrnefnda yrði, gegn greiðslu við lok grunnleigutíma, eigandi þeirra véla og tækja sem fjármögnunarleigusamningarnir tækju til. Leiguvélar ehf. hafi verið í slíkum vanskilum við Lýsingu hf. að heimilt hafi verið að rifta samningunum 7. maí 2013 eftir skilmálum þeirra.
Í kjölfarið gerði áfrýjandi kaupleigusamning við Lýsingu hf. 29. apríl 2015 um fjórar af fyrrnefndum fimm vörubifreiðum og var leigugrunnur samkvæmt samningnum 10.400.000 krónur auk virðisaukaskatts. Í kaupleigusamningnum fólst að þegar áfrýjandi hefði innt af hendi allar greiðslur og uppfyllt önnur skilyrði samningsins færðist eignarrétturinn yfir til hans. Fimmtu vörubifreiðinni skilaði áfrýjandi til Lýsingar hf.
II
Hinn 26. júní 2015 undirritaði Gunnar Viðar Bjarnason fyrirsvarsmaður Leiguvéla ehf. og Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. tvo löggerninga á sama skjali fyrir hönd félaganna en Jón Hinrik Garðarsson fyrirsvarsmaður áfrýjanda ritaði samþykki sitt á skjalið. Annar löggerningurinn bar yfirskriftina „Skuldaviðurkenning“ og fól í sér að Leiguvélar ehf. viðurkenndu að skulda áfrýjanda 12.123.125 krónur vegna uppgjörs á fyrrnefndum fimm vörubifreiðum. Í skuldaviðurkenningunni segir: „Þar sem Leiguvélar gátu ekki leyst þessi tæki út hjá Lýsingu vegna ágreinings um skuldir og uppgjör þá var farin sú leið að Norðnorðvestur keypti 4 bíla aftur beint frá Lýsingu og samið var um matsverð á fimmta bílnum og því skulda Leiguvélar ehf. Norðnorðvestur ehf. andvirði þessara kaupa með kostnaði.“ Fjárhæðin var sundurliðuð þannig að um væri að ræða andvirði fjögurra bifreiða 10.400.000 krónur, 1.600.000 króna matsverð fimmtu bifreiðarinnar og 123.125 króna kostnað Lýsingar hf. Hinn löggerningurinn bar yfirskriftina „Yfirtaka skuldar“ og fól í sér yfirlýsingu Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. um að félagið samþykkti að „yfirtaka neðangreinda skuld Leiguvéla ehf. og að Norðnorðvestur ehf. sé heimilað að skuldajafna reikningum Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. upp á þjónustureikninga og aðra reikninga sem Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. gefur út á Norðnorðvestur ehf. … Samkomulag er um að gert sé skuldabréf til 24 mánaða sem uppgjör á þessari skuld. Öll vörukaup og þjónustukaup dragast þó frá afborgunum á þessu skuldabréfi.“
Sama dag og fyrrnefnt skjal var undirritað var skuld Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. við Leiguvélar ehf. á viðskiptamannareikningi í bókhaldi Leiguvéla ehf. færð niður um 12.123.125 krónur, eða um sömu fjárhæð og skuld Leiguvéla ehf. við áfrýjanda sem Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. yfirtók. Færslutexti með bókhaldsfærslunni var „Yfirtaka VBV v. NorðNorðVestur“.
Í samræmi við fyrrnefnda yfirtöku Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. á skuld Leiguvéla ehf. við áfrýjanda gaf fyrrnefnda félagið út skuldabréf til áfrýjanda 14. júlí 2015 en samkvæmt því skuldbatt það sig til að greiða áfrýjanda 12.123.125 krónur með 24 afborgunum á mánaðarfresti. Fyrsti gjalddagi skuldabréfsins var 24. júlí 2015 en vextir voru reiknaðir frá 29. apríl sama ár. Skuldabréfið var sent Íslandsbanka hf. til innheimtu og greiddust sex fyrstu afborganirnar, sú fyrsta 7. ágúst 2015 en fimmta og sjötta afborgunin 10. febrúar 2017. Nafnverð greiddra innborgana var samtals 3.030.780 krónur en með vöxtum og kostnaði greiddust alls 3.877.505 krónur.
Bú Leiguvéla ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 7. janúar 2016. Stefndi beindi riftunaryfirlýsingu að áfrýjanda 24. ágúst 2016 og krafði hann um greiðslu á 12.123.125 krónum.
Bú Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 19. apríl 2017 en árangurslaus fjárnám höfðu verið gerð hjá félaginu 12. ágúst 2014 og 3. ágúst 2016.
III
Stefndi byggir riftunarkröfu sína aðallega á reglu 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en samkvæmt ákvæðinu má krefjast rifturnar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefndi byggir á því að öll þrjú skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt og að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum. Til vara byggir stefndi á riftunarreglu 141. gr. sömu laga.
Til þess að greiðslu verði rift á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 nægir að sá sem krefst riftunar sýni fram á að eitt af þremur skilyrðum ákvæðisins sé uppfyllt að því gefnu að sá sem riftunarkröfu er beint að geti ekki leitt að því nægilegum líkum að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.
Fyrir liggur að Leiguvélar ehf. gátu ekki staðið við þá skuldbindingu sína gagnvart áfrýjanda að yfirfæra eignarréttindi að vörubifreiðunum til hans í lok samningstímans. Eftir að Hæstiréttur staðfesti með dómi 4. mars 2015 í máli nr. 121/2015 rétt Lýsingar hf. til að fá umræddar vörubifreiðir afhentar átti áfrýjandi ekki annarra kosta völ en að semja við Lýsingu hf. um greiðslu fyrir þær eða að skila þeim til Lýsingar hf. Frá uppgjöri áfrýjanda við Lýsingu hf. var sem fyrr segir gengið 29. apríl 2015. Í skuldaviðurkenningu Leiguvéla ehf. gagnvart áfrýjanda 26. júní 2015 fólst þannig viðurkenning félagsins á skuld sem þegar hafði stofnast vegna vanefnda þess en þær leiddu til samtals 12.123.125 króna fjártjóns eins og nánar er lýst í skuldaviðurkenningunni. Upphafsdagur vaxta samkvæmt skuldabréfi því sem áfrýjandi fékk afhent var sem fyrr segir 29. apríl 2015 og rennir það frekari stoðum undir þá niðurstöðu að áfrýjandi og Leiguvélar ehf. hafi litið svo á að til skuldarinnar hafi stofnast ekki síðar en við uppgjör áfrýjanda gagnvart Lýsingu hf. Breytir engu þar um þótt skuld Leiguvéla ehf. við áfrýjanda hafi ekki komið fram í bókhaldi félagsins.
Samkvæmt yfirskrift fyrrnefndra leigusamninga áfrýjanda um vörubifreiðirnar fimm tók hann þær á leigu frá Leiguvélum ehf. Í samningunum kom fram að Leiguvélar ehf. væri eigandi vörubifreiðanna. Allar meginskyldur áfrýjanda samkvæmt samningunum voru við Leiguvélar ehf. og leigugreiðslur runnu til þess félags. Áfrýjandi átti þannig kröfu á Leiguvélar ehf. um útgáfu afsala og gat beint kröfu að félaginu um bætur fyrir tjón sem orsakaðist af því að það var ófært um að standa við skyldu sína um að yfirfæra eignarréttindi að bifreiðunum til áfrýjanda. Þennan skilning staðfesti fyrirsvarsmaður áfrýjanda með ritun samþykkis á skjal sem hafði að geyma yfirlýsingu Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. um yfirtöku á skuld Leiguvéla ehf. við áfrýjanda. Verður því ekki fallist á með áfrýjanda að það félag teljist hafa verið samskuldari eða borið samábyrgð með Leiguvélum ehf. þannig að líta beri svo á að skuldin hafi verið greidd af þriðja manni en ekki Leiguvélum ehf..
Ekki liggur fyrir í málinu að áfrýjandi hafi verið með í ráðum um að færa niður skuld Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. í bókhalda Leiguvéla ehf. Þegar litið er til þess tölulega og tímalega samhengis sem var milli yfirlýsingar Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf., um yfirtöku skuldar Leiguvéla ehf. við áfrýjanda, útgáfu skuldabréfs til áfrýjanda og niðurfærslu á skuld Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. við Leiguvélar ehf. í bókhaldi þess félags, verður að leggja til grundvallar að Leiguvélar ehf. hafi greitt skuld sína gagnvart áfrýjanda með hluta af kröfu sinni á hendur Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. Um þá greiðslutilhögun höfðu áfrýjandi og Leiguvélar ehf. ekki samið þegar til skuldarinnar stofnaðist og ekki er að sjá að greiðslan hafi átt hliðstæðu á fyrri stigum. Með skírskotun til framangreinds er fallist á með stefnda að greiðslan hafi verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. til hliðsjónar dóma réttarins í málum nr. 410/1994 í dómasafni réttarins 1996, bls. 892 og nr. 91/1995 í dómasafni réttarins 1996, bls. 1511 svo og dóm réttarins 20. janúar 2011 í máli nr. 277/2010.
Samkvæmt framansögðu hafði áfrýjandi orðið fyrir tjóni í viðskiptum sínum við Leiguvélar ehf. og átti eftir uppgjör við Lýsingu hf. 29. apríl 2015 kröfu á hendur hinu fyrrnefnda félagi. Þessa kröfu freistaði áfrýjandi að fá greidda með framangreindum hætti 26. júní 2015, innan sex mánaða fyrir frestdag sem var 21. október 2015 þegar beiðni um töku bús Leiguvéla ehf. til gjaldþrotaskipta var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur. Með greiðslu kröfunnar var raskað því jafnræði milli kröfuhafa við gjaldþrotaskipti Leiguvéla ehf. sem lögum nr. 21/1991 er ætlað að tryggja. Þegar framangreint er virt verður ekki talið að áfrýjandi hafi sýnt fram á að greiðsla Leiguvéla ehf. hafi mátt virðast venjuleg eftir atvikum. Er því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun greiðslunnar.
Áfrýjandi andmælir því að skilyrði 142. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt svo að taka megi til greina kröfu stefnda um endurgreiðslu. Samkvæmt gögnum málsins var skuldabréf það sem VB Vörumeðhöndlun ehf. gaf út til áfrýjanda til innheimtu hjá Íslandsbanka hf. Samkvæmt yfirliti frá bankanum voru sex af 24 afborgunum af skuldabréfinu greiddar á tímabilinu 7. ágúst 2015 til 10. febrúar 2017. Samtals námu innborganirnar 3.877.505 krónum, að meðtöldum dráttarvöxtum og kostnaði. Í fyrrnefndri yfirlýsingu Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. 26. júní 2015 var sérstaklega tilgreint að öll vörukaup og þjónustukaup myndu dragast frá afborgunum á skuldabréfinu. Áfrýjandi hefur ekki gert reka að því með framlagningu gagna eða munnlegri sönnunarfærslu að sýna fram á að skuld samkvæmt skuldabréfinu hafi einungis verið greidd með greiðslu afborgana fyrir milligöngu Íslandsbanka hf. þótt málatilbúnaður hans hafi gefið fullt tilefni til þess. Enda þótt árangurslaus fjárnám hafi verið gerð hjá Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. 12. ágúst 2014 og 3. ágúst 2016 greiddi félagið sex afborganir af skuldabréfinu, þar af tvær afborganir tæpum fimm mánuðum eftir síðara árangurslausa fjárnámið. Tæplega 21 mánuður leið frá útgáfu skuldabréfsins þar til bú Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 19. apríl 2017. Ekki verður séð að áfrýjandi hafi gert reka að því að fá skuldina greidda með öðrum hætti en að fela banka innheimtu skuldabréfsins. Með skírskotun til framangreinds verður að telja að það standi áfrýjanda nær að sanna að krafa sú sem hann fékk sem greiðslu frá Leiguvélum ehf. hafi ekki nýst honum með þeirri fjárhæð sem hún kvað á um og að hann hafi gert það sem í hans valdi stóð til að knýja á um greiðslu þess hluta kröfunnar sem kann að hafa verið ógreiddur. Samkvæmt framansögðu telst ósannað að greiðsla Leiguvéla ehf. hafi ekki orðið áfrýjanda að notum.
Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. hafi verið ógjaldfær þegar félagið tók yfir skuld Leiguvéla ehf. gagnvart áfrýjanda og skuld félagsins við Leiguvélar ehf. var færð niður í bókhaldi þess félags. Verður því að líta svo á að stefndi hafi orðið fyrir tjóni sem samsvarar hinni greiddu skuld. Af öllu framangreindu leiðir að ekki eru skilyrði til að fallast á varakröfu áfrýjanda um lækkun á endurgreiðslukröfu stefnda.
Samkvæmt framansögðu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr., sbr. 1. mgr. 142. gr., laga nr. 21/1991 til að taka til greina kröfur stefnda um riftun og endurgreiðslu úr hendi áfrýjanda og verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Með því að verulegur vafi þykir hafa verið um ýmsa þætti málsins verður málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2017
Mál þetta, sem dómtekið var 3. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 4. október 2016 af þrotabúi Leiguvéla ehf., Borgartúni 26, 105 Reykjavík, á hendur NORÐNORÐVESTUR ehf., Urriðakvísl 7, 110 Reykjavík.
I.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
i) Að rift verði með dómi greiðslum hins gjaldþrota félags, Leiguvéla ehf., til stefnda, að fjárhæð 12.123.125 kr. sem fram fóru á grundvelli samkomulags frá 26. júní 2015 og með eftirfarandi útgáfu á skuldabréfi að fjárhæð 12.123.125 kr. sem undirritað var þann 14. júlí 2015.
ii) Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 12.123.125 kr. ásamt skaðabótavöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 12.123.125 kr. frá 14. júlí 2015 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Þá gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.
Til vara krefst stefnandi þess að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega að mati dómsins.
Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
II.
Málsatvik
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 7. janúar 2016 var bú Leiguvéla ehf. tekið til gjaldþrotaskipta en skiptabeiðandi var Lýsing hf. Lilja Jónasdóttir hrl. var sama dag skipuð skiptastjóri í búinu. Innköllun birtist í fyrsta sinn í Lögbirtingablaðinu þann 14. janúar 2016 og kröfulýsingafrestur rann út 14. mars 2016. Fyrsti skiptafundur var haldinn þann 1. apríl 2016. Frestdagur við skiptin er 21. október 2015 en þann dag var gjaldþrotaskiptabeiðni móttekin hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. og tilkynningu um frestdag sem birtist í Lögbirtingablaðinu. Samkvæmt kröfuskrá, dags. 23. mars 2016, nema lýstar kröfur í búið samtals 775.655.275 kr.
Leiguvélar ehf. var félag sem starfaði við útleigu og sölu á vinnuvélum til fyrirtækja hér á landi og erlendis. Tilgangur félagsins, samkvæmt samþykktum dags. 20. desember 2012, var leiga og sala á tækjum, smásala og heildsala, ráðgjafarstarfsemi, leiga og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og tengd starfsemi. Framkvæmdastjóri og prókúruhafi Leiguvéla var Gunnar Viðar Bjarnason. Hann sat jafnframt í stjórn félagsins og var einn aðaleigandi þess í gegnum móðurfélagið Tá ehf., en það félag átti 92,46% eignarhlut í Leiguvélum. Tá ehf. átti einnig 75,49% eignarhlut í fyrirtækinu VB Vörumeðhöndlun ehf., en öll framangreind félög voru nátengd með þeim hætti að eignarhald og fyrirsvar var að mestu leyti í höndum Gunnars Viðars.
Leiguvélar ehf. áttu í umfangsmiklum viðskiptum við Lýsingu og Ergo fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka hf. á árunum 2002-2010 vegna fjármögnunar á vinnuvélum sem félagið leigði eða seldi í rekstri sínum. Samtals voru um 200 fjármögnunarleigusamningar gerðir við Lýsingu á umræddu tímabili og um 100 fjármögnunarleigusamningar við Ergo. Árið 2011 kom upp ágreiningur um efni þessara samninga sem var í grundvallaratriðum tvíþættur. Í fyrsta lagi laut ágreiningur aðila að því hvort Leiguvélar yrði, gegn greiðslu við lok grunnleigutíma, eigandi þeirra véla og tækja sem fjármögnunarleigusamningarnir tóku til. Í öðru lagi var tekist á um það hvort umræddir samningar væru lánssamningar, sem hefðu að geyma ólögmæta gengistryggingu, sem Leiguvélar ehf. ættu rétt á að yrðu endurútreiknaðir, eða hvort um væri að ræða leigusamninga þar sem aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.
Á árunum 2014-2016 voru rekin þrjú dómsmál milli Leiguvéla og Lýsingar, sem áttu öll rót að rekja til framangreinds ágreinings, sbr. Hrd. 4. mars 2015 í máli nr. 121/2015, Hrd. 4. febrúar 2016 í máli nr. 757/2015 og Hrd. 25. febrúar 2016 í máli nr. 563/2015. Lýsing vann öll dómsmálin. Þeir fjármögnunarleigusamningar sem þessi mál lutu að voru sambærilegir þeim samningum sem fjallað hafði verið um í dómum Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011 (Smákranar), Hrd. 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013 (Suðurverk) og Hrd. 3. apríl 2014 í máli nr. 717/2013 (Ölgerðin). Með framangreindum dómum hafði verið skorið úr um það að fjármögnunarleigusamningar Leiguvéla ehf. við Lýsingu væru gengistryggðir leigusamningar, sem og að ekki hefði verið samið um það að leigutaki eignaðist tækin við samningslok, sbr. dóm Hæstaréttar 4. mars 2015 í máli nr. 121/2015, sem varðaði kröfu Lýsingar um innsetningu í 42 tæki í eigu félagsins, þar sem úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðinn 23. janúar 2015, var staðfestur með vísan til forsendna. Í forsendum héraðsdómsins er farið ítarlega yfir málsástæður Leiguvéla ehf. m.t.t. þeirra dómafordæma sem þá lágu fyrir. Af fyrrnefndum dómi má ráða að búið hafi verið að eyða réttaróvissu varðandi þessa samninga þegar í apríl 2014.
Jafnframt var uppi ágreiningur milli Leiguvéla ehf. og Ergo vegna fjármögnunarleigusamninga. Leyst var úr þeim ágreiningi með þeim hætti að samningarnir voru endurreiknaðir í tvígang, þ.e. 3. október 2012 og 14. apríl 2015. Við endurútreikning var þessum samningum breytt í kaupleigu. Þrátt fyrir framangreint voru Leiguvélar í verulegum vanskilum við Ergo um margra ára skeið, enda hætti félagið að greiða af samningunum á fyrstu mánuðum ársins 2011 og bárust síðustu greiðslurnar 6. maí 2011. Greiðslur sem bárust eftir þetta voru ekki beint frá Leiguvélum heldur var um að ræða inneignir vegna endurútreiknings sem var ráðstafað til lækkunar á skuld Leiguvéla. Eftir að seinni endurútreikningur fór fram, 14. apríl 2015, nam skuld Leiguvéla við Ergo samtals 171.850.499 kr. og var hún öll í vanskilum, sbr. viðskiptayfirlit Ergo dags. 30. apríl 2015. Af þeim sökum var krafist innsetningar í tæki sem voru í eigu Ergo með aðfararbeiðnum sem beint var til Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 6. ágúst 2015.
Á meðan framangreindum ágreiningi stóð greiddu Leiguvélar ehf. ekki af umþrættum samningum, eða allt frá ágúst 2011 í tilviki Lýsingar og maí 2011 í tilviki Ergo. Á sama tíma höfðu Leiguvélar ehf. allnokkrar tekjur af útleigu og sölu á tækjum, án þess að þeim tekjum hafi verið ráðstafað til greiðslu skulda við þessa aðila um margra ára skeið. Lýstar kröfur Lýsingar í þrotabúið nema 543.575.126 kr. og lýstar kröfur Íslandsbanka hf. vegna Ergo nema 183.166.190 kr. Ekki var tekin afstaða til almennra krafna í búinu þar sem búið var eignalaust.
Við athugun skiptastjóra á bókhaldi Leiguvéla komu í ljós fjölmargar færslur og ráðstafanir sem þóttu óvenjulegar. Í þessu sambandi var annars vegar um að ræða viðskipti Leiguvéla við nákomna aðila, þ.e. VB Vörumeðhöndlun ehf. og Tá ehf. Hins vegar var um að ræða uppgjörssamkomulag við aðila, sem höfðu áður greitt Leiguvélum fyrir vélar og tæki sem voru í eigu þriðja aðila, þ.e. Ergo og Lýsingar. Skiptastjóri lét af þessum sökum framkvæma bókhaldsrannsókn á tilteknum atriðum í bókhaldi þrotabús Leiguvéla frá 1. janúar 2012 til úrskurðardags 7. janúar 2016, sem m.a. fól í sér athugun á viðskiptum félagsins á umræddu tímabili, sbr. skýrslu Ernst & Young ehf. dags. 23. ágúst 2016.
Í skýrslu Ernst & Young er m.a. gerð grein fyrir samkomulagi við stefnda, NORÐNORÐVESTUR ehf., (hér eftir „NNV“) sem undirritað var þann 26. júní 2015. Í samkomulaginu kemur fram að:
Leiguvélar ehf., kt. 640194-3089, viðurkenna að skulda NorðNorðVestur ehf. kt. 491209-0970 krónur 12.123.125.- vegna uppgjörs á fimm Daf vörubílum (LR-719, TY-608, SF-286, SM-606 og YT-487) sem fyrirtækið seldi NorðNorðVestur ehf. á sínum tíma en gat ekki fært eignarréttinn yfir vegna ágreinings við fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu.
Þar sem Leiguvélar gátu ekki leyst þessi tæki út hjá Lýsingu vegna ágreinings um skuldir og uppgjör þá var farin sú leið að NorðNorðVestur keypti 4 bíla aftur beint frá Lýsingu og samið var um matsverð á fimmta bílnum og því skuldar Leiguvélar ehf. NorðNorðVestur ehf. andvirði þessara kaupa með kostnaði.
Fyrir liggur staðfesting Lýsingar að NorðNorðVestur hafi verið heimilt að kaupa fjóra bíla beint af Lýsingu með greiðslu kr. 10.400.000.- plús mat á fimmta bílnum upp á kr. 1.600.000.- eða samtals kr. 12.000.000- Við þetta leggst síðan kostnaður frá Lýsingu upp á kr. 123.125
Í sama samkomulagi var samið um að skuldin skyldi gerð upp með skuldabréfi að fjárhæð 12.123.125 kr. og var skuldabréfið gefið út af VB Vörumeðhöndlun ehf. þann 14. júlí 2015. Framangreindir pappírar voru undirritaðir af fyrirsvarsmönnum stefnda sem og fyrirsvarsmanni Leiguvéla og VB Vörumeðhöndlunar ehf. Samhliða þessu var skuld VB Vörumeðhöndlunar ehf. við Leiguvélar lækkuð um 12.123.125 kr.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Í samkomulagi (skuldaviðurkenningu) því sem stefnandi og stefndi voru aðilar að og var undirritað þann 26. júní 2015 kom fram að vanefndir stefnanda gagnvart stefnda væru 12.123.125 kr. og gekk samkomulagið út á að gera þau vanskil stefnanda upp við stefnda. Riftunarkrafa stefnanda byggir á því að honum sé heimil riftun á greiðslum til stefnda sem fram fóru á grundvelli samkomulagsins.
Stefnandi vísar til þess að í bókhaldsskýrslu Ernst & Young ehf., sem unnin var fyrir þrotabúið, sé farið nákvæmlega yfir viðskiptareikning VB í bókhaldi Leiguvéla. Á bls. 23 í skýrslunni sé að finna kreditfærslu að fjárhæð 12.123.125 kr.vegna samkomulagsins sem bókuð er þann 26. júní 2015. Þessi kreditfærsla gerir það að verkum að krafa þb. Leiguvéla ehf. á VB Vörumeðhöndlun ehf. lækkar úr 47.806.184 kr. í 35.683.059 kr. Tjón búsins af framangreindu samkomulagi sé 12.123.125 kr. Stefnandi tekur fram að engu máli skipti þótt búið hafi verið svo um hnútana að skuldin væri gerð upp með skuldabréfi sem útgefið væri af VB Vörumeðhöndlun ehf. þar sem krafa þb. Leiguvéla ehf. á það félag hafi samhliða verið lækkuð og því sé tjón búsins 12.123.125 kr.
Riftunarkröfuna byggir stefnandi á því að umræddar greiðslur séu einkum riftanlegar með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991. Ef ekki verður fallist á að 134. gr. gþl. eigi við, byggir stefnandi kröfurnar á 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína á 142. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi byggir á því að þessi ráðstöfun sé riftanleg með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991. Hann byggir aðallega á því að greiðsla á skuld Leiguvéla ehf. við stefnda með samkomulagi, dags. 26. júní 2015, samtals að fjárhæð 12.123.125 kr. hafi falið í sér riftanlega ráðstöfun samkvæmt 1. mgr. 134. gr. gþl., þar sem greiðslan fór fram með óvenjulegum greiðslueyri, var greidd fyrr en eðlilegt var, auk þess sem hún skerti greiðslugetu þrotamannsins verulega. Skilyrðin þrjú skv. 134. gr. séu sjálfstæð og hlutlæg og nægi að einu skilyrðanna sé fullnægt svo riftun megi ná fram að ganga Einnig byggir stefnandi á því að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum.
Stefnandi byggir á því að ef framangreint samkomulag hefði ekki verið gert hefði stefndi orðið að lýsa almennri kröfu í búið að fjárhæð 12.123.125 kr. og hefði lítið sem ekkert fengið upp í þá kröfu þar sem engar eignir eru í búinu. Með greiðslunni hafi kröfuhöfum búsins verið mismunað að þessu leyti.
Skv. 134. gr. gþl. megi krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Frestdagur í slitameðferð stefnanda hafi verið 21. október 2015 þegar gjaldþrotaskiptabeiðnin var móttekin hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Ofangreind greiðsla skv. samkomulaginu hafi átt sér stað á grundvelli samkomulags sem undirritað var þann 26. júní 2015, sem var síðan fylgt eftir með útgáfu skuldabréfs þann 14. júlí 2015. Greiðslan átti sér þannig stað rétt rúmum þremur mánuðum fyrir frestdag og hafi því verið vel innan tímamarka ákvæðisins.
Þá hafi greiðslan farið fram með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. gþl. Sem rök fyrir því bendir stefnandi á að greiðslan fór fram með afhendingu á skuldabréfi sem gefið var út af þriðja aðila en slík skuldaskjöl séu talin vera óvenjulegur greiðslueyrir, sjá í því sambandi t.d. Hrd. 1990, bls. 748 og Hrd. 1992, bls. 1033.
Stefnandi byggir jafnframt á því að greiðslan, sem krafist er riftunar á, hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. gþl. Greiðslan hafi átt sér stað með útgáfu skuldabréfsins þann 14. júlí 2015. Á þeim tíma hafi langstærstu kröfuhafar félagsins, Lýsing og Ergo, verið með kröfur upp á mörg hundruð milljónir króna sem voru að verulegu leyti í vanskilum. Stefnandi hafði hætt að greiða Ergo inn á skuldbindingar þess félags í maí 2011 og stefnandi hafði ekki heldur greitt Lýsingu af fjármögnunarleigusamningum félagsins frá því í ágúst 2011. Því var óeðlilegt að stefnandi skyldi greiða stefnda upp allar vanefndir sínar við hann vegna vanefnda sem komu síðar til. Með þessu hafi verið brotið gróflega á jafnræði kröfuhafa.
Stefnandi byggir enn fremur á því að umrædd greiðsla Leiguvéla á skuldum við stefnda hafi skert greiðslugetu Leiguvéla verulega. Stefnandi telur að við mat á þessu atriði verði að líta til fjárhagsstöðu Leiguvéla á þessu tímabili í víðu samhengi, m.a. hvaða eignir hafi verið til ráðstöfunar, skuldastöðu félagsins, tekjur og umfang rekstrarins o.fl. Þá þurfi að meta fjárhæð hinnar riftanlegu greiðslu samanborið við aðrar greiðslur sem inntar voru af hendi á tímabilinu. Stefnandi byggir í þessu sambandi á eftirfarandi málsástæðum máli sínu til stuðnings:
i. Stefnandi vísar til umfjöllunar um 141. gr. gþl. í kafla 3 hér á eftir í umfjöllun um fjárhagslega stöðu félagsins á þessu tímabili. Stefnandi telur ljóst að Leiguvélar hafi verið ógreiðslufært og búið við talsverðan eignahalla allt frá 2012. Vænkaðist sú staða aldrei, heldur þvert á móti þar sem gjaldfallnar skuldir, sem ekki hafði verið greitt af um árabil, söfnuðu dráttarvöxtum og kostnaði. Það verður því að telja að Leiguvélar hafi verið ógjaldfærar a.m.k. í apríl 2014, þó sennilega fyrr eins og áður greinir.
ii. Stefnandi byggir á því að við mat á því hvort greiðslur hafi skert greiðslugetu verulega verði einnig að líta til greiðslugetu Leiguvéla með því að bera saman greiðslur sem inntar voru af hendi í rekstrinum og þær tekjur sem félagið hafði á þessum tíma. Tekjur Leiguvéla af útleigu tækja fyrir allt árið 2014 voru um 39.000.000 kr. og engar tekjur voru af útleigu tækja árið 2015. Stefnandi telur einsýnt að greiðslur til stefnda hafi verið mjög háar miðað við aðrar kröfur og tekjur í rekstrinum, sem smám saman fjaraði út og var í raun að engu orðinn árið 2015. Sem dæmi má nefna að á tímabilinu frá 3. apríl 2014 24. ágúst 2015 voru mjög óverulegar fjárhæðir greiddar stærstu kröfuhöfum félagsins, þannig voru aðeins 406.844 kr. greiddar Lýsingu og 613.073 kr. Ergo, en skuldir við þessa aðila námu á þessum tíma mörg hundruð milljónum króna, líkt og áður greinir.
iii. Stefnandi byggir á því að á sama tíma og greiðslurnar hafi farið fram hafi félagið átt óverulegar eignir til ráðstöfunar. Helsta eign félagsins á þessum tíma var krafa á hendur VB en meðalstaða á viðskiptamannareikningi VB var 30.000.000 kr. árið 2015. Stefnandi leggur áherslu á að við mat á þeim eignum sem hafi verið til ráðstöfunar á þessum tíma sé aðeins hægt að horfa til óveðsettra eigna, en af því leiðir að handveðsett bankainnstæða, sem samkvæmt drögum að ársreikningi 2014 nam 156.045.321 kr. í lok þess árs, hefur ekki þýðingu við þetta mat, enda tilheyrði hún réttilega Lýsingu.
Stefnandi byggir á því að umrædd ráðstöfun sé riftanleg skv. 134. gr. gþl. séu einhver af hlutlægum skilyrðum greinarinnar uppfyllt og ef greiðsla getur ekki talist venjuleg eftir atvikum, sbr. 1. mgr. 134. gr. i.f. Stefnandi vill benda á að ef skilyrði 134. gr. gþl. eru almennt uppfyllt hvíli það á stefnda að sýna fram á að umræddar ráðstafanir hafi verið venjulegar eftir atvikum.
Stefnandi byggir á því að greiðsla skv. hinu margnefnda samkomulagi geti á engan hátt talist eðlileg eftir atvikum, enda hafi verið um uppgreiðslu á skuld við einn kröfuhafa að ræða, á kostnað allra annarra kröfuhafa félagsins, skömmu fyrir gjaldþrot. Greiðslan hafi verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri og skerti hún greiðslugetu stefnanda verulega.
Með tilliti til ofangreinds telur stefnandi að hin umþrættu viðskipti geti ekki talist venjuleg eftir atvikum, sbr. 1. mgr. 134. gr. gþl.
Verði ekki fallist á að greiðslan sé riftanleg á grundvelli 134. gr. gþl. byggir stefnandi á því að greiðsla Leiguvéla ehf. til stefnda að fjárhæð 12.123.125 kr. þann 14. júlí 2015, sé riftanleg ráðstöfun á grundvelli 141. gr. gþl. Stefnandi telur að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leitt til þess að eignir Leiguvéla voru ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Stefnandi telur þannig einsýnt að þessi ráðstöfun hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu skuldaskilaréttar og orðið öðrum kröfuhöfum til tjóns.
Stefnandi bendir á að með greiðslunni hafi stórum hluta eigna Leiguvéla verið ráðstafað til stefnda. Þá hafi augljóslega verið um að ræða verulega fjárhæð samanborið við aðrar eignir sem voru til ráðstöfunar og tekjur í rekstrinum á þessum tíma, sem voru engar. Á sama tíma hafi ekki verið greitt af skuldum við stærstu kröfuhafa félagsins. Stefnandi telur því að svo há greiðsla til stefnda hafi verið ótilhlýðileg miðað við stöðu Leiguvéla á þessum tíma. Stefnandi byggir á því að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært félag er umrædd greiðsla fór fram og stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Leiguvéla ehf., sem og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Í hugtakinu ógjaldfærni í þessari merkingu felist annars vegar að fjárhag viðkomandi er þannig háttað að eignir eru minni en skuldir (eignahalli) og hins vegar að viðkomandi geti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verði talið sennilegt að greiðsluerfiðleikar muni líða hjá innan skamms tíma (ógreiðslufærni).
Stefnandi telur að gögn málsins sýni með óyggjandi hætti að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært félag er hin riftanlega ráðstöfun fór fram. Í þessu sambandi bendir stefnandi sérstaklega á eftirfarandi atriði máli sínu til stuðnings:
i. Samkvæmt ársreikningi Leiguvéla vegna ársins 2013 var bókfært eigið fé neikvætt um 40.972.250 kr. Í raun var staðan mun verri og má í því sambandi m.a. nefna að í ársreikningnum var bókfærð krafa á Vélaborg ehf. (síðar V67 ehf.) að fjárhæð um 130.000.000 kr. Í ársreikningnum kemur fram að óvissa ríki um það hvort Vélaborg ehf. sé rekstrarhæft og þar með væri óvissa um verðmæti kröfunnar, sbr. 11. tl. í skýringum með ársreikningum. Vélaborg ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 4. febrúar 2015, eftir að hafa áður leitað nauðasamninga við lánardrottna sína. Í ársreikningum er einnig að finna umfjöllun um óvissu um stöðu skulda og eigna félagsins vegna endurútreikninga lána í erlendri mynt, en svo virðist sem stjórn félagsins hafi á þessum tíma gengið út frá því að félagið myndi fá umtalsverðar skuldir leiðréttar, þrátt fyrir dóm Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011 (Smákranar), sbr. 9. og 12. tl. í skýringum með ársreikningnum. Þá kemur fram að rekstrarhæfi félagsins sé háð því að félagið fái umtalsverðar leiðréttingar á skuldum sínum og félagið nái að styrkja fjárhag þess með þeim hætti.
Stefnandi byggir á því að bókfærðar eignir Leiguvéla hafi, miðað við framangreint, verið stórlega ofmetnar við gerð ársreikningsins, a.m.k. sé óhætt að segja að veruleg óvissa hafi ríkt um verðmæti eigna félagsins og mögulegar skuldaleiðréttingar. Þrátt fyrir það hafi eigið fé Leiguvéla verið neikvætt um 40.972.250 kr. Af öllu framangreindu leiðir að Leiguvélar bjó við talsverðan eignahalla a.m.k. frá árslokum 2013 og vænkaðist sú staða aldrei, heldur þvert á móti, þar sem gjaldfallnar skuldir söfnuðu dráttarvöxtum og kostnaði. Það verður því að telja að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært félag a.m.k. í lok árs 2013, þó sennilega strax árið 2012.
ii. Samkvæmt drögum að ársreikningi Leiguvéla vegna ársins 2014, sem afhent voru af GVB við skýrslutöku hjá skiptastjóra 15. janúar 2016, var bókfært eigið fé neikvætt um 295.130.595 kr. Bókfærðar eignir félagsins námu samtals 408.237.433 kr. og skuldir námu 703.368.023 kr. Fjárfestingaeignir í útleigu voru bókfærðar á 0 kr. en helstu eignir félagsins voru 24,51% eignarhlutur í VB bókfærður á 25.000.000 kr., kröfur á hendur tengdum aðilum að fjárhæð 212.689.355 kr. og handveðsett bankainnstæða að fjárhæð um 156.000.000 kr. Stefnandi telur að í apríl árið 2014 hafi verið búið að eyða þeirri réttaróvissu sem hafði verið uppi varðandi fjármögnunarleigusamninga Lýsingar, sbr. umfjöllun í málavaxtalýsingu hér að framan Stefnandi telur því einsýnt að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært á þessum tíma og aðeins tímaspursmál hvenær félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
iii. Samkvæmt viðskiptayfirliti Lýsingar dags. 30. apríl 2015, námu skuldir Leiguvéla vegna fjármögnunarleigusamninga við félagið 792.864.466 kr. með vsk., þar af námu gjaldfallnar skuldir vegna útgefinna reikninga 378.040.824 kr. Þá var fyrir hendi skuld vegna jafngreiðsluláns í íslenskum krónum (án veðs) 43.089.859 kr. sem var gjaldfallið. Samtals námu skuldir Leiguvéla við Lýsingu á þessum tímapunkti því samtals 835.954.325 kr.
Um svipað leyti var fyrir hendi innstæða á handveðsettum bankareikningi í Kviku að fjárhæð 156.045.321 kr. miðað árslok 2014, sbr. drög að ársreikningi vegna 2014 og Hrd. 25. febrúar 2016 í máli nr. 563/2015.
Samkvæmt viðskiptayfirlitum Ergo námu skuldir Leiguvéla vegna fjármögnunar- og kaupleigusamninga við félagið 171.876.021 kr. miðað við 30. apríl 2015, þ.e.a.s. eftir seinni endurútreikning Íslandsbanka hf. sem miðaðist við 14. apríl 2015, og var öll fjárhæðin í vanskilum 30. apríl 2015. Rétt er að geta þess að hefðbundnar greiðslur af samningum hættu að berast Ergo í maí 2011. Þá greiddi Ergo samtals 3.950.309 kr. frá 7. mars 2011 til 7. janúar 2016 vegna vinnuvélaskoðunar, bifreiðagjalda, þungaskatts og trygginga, sem Leiguvélar sinnti ekki um að greiða. Stefnandi vísar í þessu sambandi að öðru leyti til málavaxtalýsingar eftir því sem við á varðandi samskipti og ágreiningsefni Leiguvéla við Lýsingu og Ergo.
Af framangreindu leiðir að árið 2015 voru skuldir Leiguvéla langt umfram eignir, auk þess sem á þeim tíma hafði ekki verið greitt af gjaldföllnum skuldum um margra ára skeið. Enn fremur liggi fyrir að tekjur Leiguvéla af útleigu tækja fóru sífellt minnkandi, en þær námu um 73.300.000 kr. árið 2013, 39.000.000 kr. árið 2014 og voru engar árið 2015. Lýstar kröfur Lýsingar í þrotabúið nemi 543.575.126 kr. og lýstar kröfur Íslandsbanka hf. vegna Ergo nemi 183.166.190 kr.
Með vísan til framangreinds byggir stefnandi á því að það sé engum vafa undirorpið að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært félag er hin riftanlega ráðstöfun fór fram.
Fjárkrafa stefnanda vegna þeirrar ráðstöfunar sem lýst er hér að framan og krafist er riftunar á á grundvelli 134. gr. gþl. byggir á 1. mgr. 142. gr. gþl. Telji dómurinn að krafan sé ekki riftanleg á grundvelli 134. gr. gþl., heldur þess í stað á grundvelli 141. gr. gþl. þá er endurgreiðslukrafan grundvölluð á 3. mgr. 142. gr. gþl. sem og almennum bótareglum. Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi haft hag af hinni riftanlegu ráðstöfun sem nam samtals 12.123.125 kr. Sú fjárhæð svari einnig til þess tjóns sem þrotabúið varð fyrir vegna þessarar ráðstöfunar, þar sem samsvarandi eignir eru ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Af framangreindum sökum beri að dæma stefnda til greiðslu skaðabóta, en verði ekki á það fallist ber að dæma stefnda til endurgreiðslu auðgunar.
Á grundvelli 1. mgr. 142. gr. gþl. krefst stefnandi skaðabótavaxta á kröfu sína sbr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, allt þar til krafan ber dráttarvexti vegna riftunar þrotabúsins. Að öðrum kosti auðgast stefndi með óréttmætum hætti um sem nemur þeim vöxtum sem falla til á því tímabili. Ef riftunarþoli þyrfti ekki að greiða vexti af slíkri endurgreiðslukröfu myndi hreinlega borga sig fyrir aðila í viðskiptum að taka við riftanlegum greiðslum og geyma inni á bankabók. Slík túlkun væri ekki í samræmi við megintilgang laganna eða orðalag ákvæðisins í 142. gr. gþl.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 134., 141. og 142. gr. laganna. Krafa um skaðabóta- og dráttarvexti er studd við ákvæði III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 8. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna. Um upphafsdag dráttarvaxta vísast til 4. mgr. 5. gr. laganna. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um málshöfðunarfrest vísast til 148. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi vísar til þess að hann hafi átt í viðskiptum við stefnanda og fyrirtækið VB Vörumeðhöndlun ehf. með leigu á vörubifreiðum frá 6. júní 2012. Stefndi hafi gert þrjá samninga þann dag um leigu á vinnuvélum frá Leiguvélum ehf. þar sem tiltekið var að leigusali væri Leiguvélar ehf. í samstarfi við VB Vörumeðhöndlun ehf. Samningarnir þrír voru gerðir fyrir vörubifreiðar með fastanúmerin LR-719, TY-608, og YT-487. Á leigusamningunum hafi verið tiltekið að vörubifreiðarnar væru eign Leiguvéla ehf. Þá var tiltekið, annars vegar á leigusamningunum og hins vegar í sérstökum viðauka við leigusamningana, að leigutaki skyldi eiga „kauprétt út úr leigu“ og skyldu þá allar leigugreiðslur ganga upp í nánar tilgreint kaupverð bifreiðanna. Samtals var kaupverð bifreiðanna samkvæmt leigusamningunum og viðaukanum 11.700.000 kr. auk virðisaukaskatts. Þann 28. febrúar 2013 hafi verið gerðir tveir samningar til viðbótar, sem hafi í öllum meginatriðum verið eins og hinir þrír fyrrnefndu. Þessir samningar voru um bifreiðarnar SM-606 og SF-286. Kaupverð hvorrar um sig skyldi vera 4.000.000 kr. auk virðisaukaskatts, þannig að samtals gerði stefndi leigu/kaupsamninga við stefnanda og VB Vörumeðhöndlun upp á 19.700.000 kr.
Þegar stefndi hafði staðið að fullu skil á kaupverði bifreiðanna með leigugreiðslum til stefnanda gat stefnandi ekki staðið við þá meginskyldu sína að færa eignarhaldið yfir á stefnda. Ástæða þess var sú að bifreiðarnar voru í raun eign Lýsingar, en ekki stefnanda eins og haldið hafði verið fram á leigusamningum milli stefnda og stefnanda/VB Vörumeðhöndlunar. Stefnandi hafði hins vegar gert fjármögnunarleigusamninga við Lýsingu um bifreiðarnar. Stefnandi hafði þannig vísvitandi gert sölusamninga við stefnda á bifreiðum sem hann hafði enga eignarheimild yfir.
Í júní 2015 hafi Libra lögmenn, f.h. Lýsingar, gert kröfu um að stefndi afhenti Lýsingu framangreindar bifreiðar en félagið hafði þá rift samningum sínum við stefnanda. Krafa Lýsingar hafi komið stefnda í opna skjöldu þar sem hann taldi sig hafa staðið full skil á samningum sínum við stefnanda/VB Vörumeðhöndlun. Þar sem stefndi þurfti nauðsynlega á bifreiðunum að halda í rekstri sínum og til að leysa málið gagnvart Lýsingu hafi stefndi gert samkomulag við Lýsingu um að kaupa fjórar hinna tilteknu bifreiða og afhenda þá fimmtu. Matsverð Lýsingar á bifreiðunum var samtals 12.123.125 kr. og var það jafnframt sú upphæð sem félagið krafðist sem endurgjalds fyrir bifreiðarnar. Þannig hafi stefndi verið búinn að greiða kaupverð bifreiðanna tvisvar sinnum, annars vegar stefnanda og hins vegar Lýsingu, samtals 31.823.125 kr.
Forsvarsmaður stefnda hafi krafið forsvarsmann stefnanda, Gunnar Viðar Bjarnason, um endurgreiðslu á kaupverðinu sem hann þurfti að greiða Lýsingu. Gunnar hafi sýnt stöðunni skilning en gat ekki staðið skil á endurgreiðslu til stefnda og þess í stað boðið að VB Vörumeðhöndlun myndi gefa út skuldabréf til tveggja ára til að endurgreiða stefnda skaðann sem hann hafði orðið fyrir. Stefndi hafi ekki átt um aðra kosti að velja en að samþykkja þessa málaleitan Gunnars sem útbjó í framhaldinu yfirlýsingu og skuldabréf. Forsvarsmaður stefnda hafi ritað samþykki sitt á yfirlýsinguna og tekið við skuldabréfinu. Skuldabréfið hefur frá fyrstu tíð verið í vanskilum og lítið fengist greitt af því.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að um grundvallarmisskilning sé að ræða í stefnu stefnanda. Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á bókhaldsskýrslu Ernst og Young ehf. Hluti skýrslunnar sé lagður fram í málinu og á bls. 17 sé fjallað um málefni stefnda. Þar sé tekið fram að samkvæmt bókhaldi stefnanda sé engin skuld færð gagnvart stefnda. Engu að síður sé augljóst skv. dómskjali 11, að forsvarsmaður félagsins, Gunnar Viðar, viðurkenni að félagið skuldi stefnda 12.123.125 kr., sem hann þurfti að greiða Lýsingu vegna vanefnda stefnanda. Þá sé jafnframt ljóst af umfjölluninni í dómskjali 12 að forsvarsmaður stefnanda á þeim tíma hafi lagst í töluverðar bókhaldsæfingar og m.a. nýtt sér yfirlýsinguna til stefnda til að lækka skuld síns eigin félags, VB Vörumeðhöndlunar ehf., gagnvart stefnanda og fært á móti niður skuld stefnanda við Lýsingu. Hann láti þannig líta út eins og VB Vörumeðhöndlun ehf. hafi greitt skuld stefnanda við Lýsingu. Það sé hins vegar fjarri öllum staðreyndum málsins að svo hafi verið og því einfaldlega um rangfærslu á í bókhaldi að ræða af hálfu forsvarsmanns stefnanda.
Af umfjölluninni í bókhaldsskýrslunni sé ljóst að engin færsla eigi sér stað gagnvart stefnda í bókhaldi félagsins því þar sé enga skuld að finna. Því sé ljóst að ekkert uppgjör hefur átt sér stað af hálfu stefnanda gagnvart stefnda, sem skaðar aðra kröfueigendur í félaginu, og engin greiðsla hafi átt sér stað út úr félaginu til stefnda. Það séu einungis bókhaldsæfingar forsvarsmanns stefnanda sem láti líta út fyrir að annað félag í eigu hans hafi greitt kröfu til Lýsingar, sem stefndi hins vegar greiddi. Stefndi getur ekki með nokkru móti borið ábyrgð á því hvernig stefnandi og eftir atvikum forsvarsmaður hans hagi bókhaldi félagsins, en í öllu falli sé ljóst að stefndi hefur ekki fengið neinar greiðslur frá stefnanda, sem hafa orðið öðrum kröfuhöfum til tjóns. Þvert á móti hafi stefndi greitt aðalkröfuhafa stefnanda, Lýsingu, beint það sem Lýsing krafðist vegna skuldar stefnanda við félagið vegna viðskipta með fimm tilteknar vörubifreiðar.
Stefndi byggir á því að stefnandi geti ekki rift greiðslu sem VB Vörumiðlun ehf. ákveði að greiða honum sem skaðabætur vegna viðskipta stefnda, stefnanda og VB Vörumeðhöndlunar ehf. Um sé að ræða samkomulag milli stefnda annars vegar og stefnanda og VB Vörumeðhöndlunar hins vegar, þar sem stefnandi viðurkennir að skulda stefnda vegna viðskiptanna með vörubifreiðarnar og VB Vörumeðhöndlun ehf. tekur að sér að greiða stefnda skuldina . Það félag hafi jafnframt verið aðili að leigu/kaupsamningum þeim sem aðilar höfðu gert með sér og ekkert sé óeðlilegt við að það félag endurgreiði stefnda. Stefndi hafi enga stjórn haft á því með hvaða hætti forsvarsmaður stefnanda nýtti sér samkomulag þeirra um endurgreiðslu á kröfu hans á hendur stefnanda. Þau viðskipti eða bókhaldsfærslur séu á milli félaga í eigu forsvarsmanns stefnanda og komi stefnda ekkert við. Þar að auki hafi ekki verið um beina greiðslu að ræða til stefnda, heldur var gefið út skuldabréf sem útgefandi hafi ekki staðið skil á nema að örlitlu leyti. Stefndi hefur þannig ekki endurheimt þann skaða sem hann varð fyrir með viðskiptunum við stefnanda og VB Vörumiðlun ehf. nema að litlu leyti og sitji því enn uppi með tjón sitt.
Stefndi telur enn fremur augljóst af málavöxtum að langstærsti kröfuhafi stefnanda og sá aðili sem krafðist gjaldþrotaskipta yfir honum, Lýsing, hafi þegar fengið fullnustu þess hluta kröfu sinnar á hendur stefnanda sem laut að viðskiptum með þær vörubifreiðar sem stefndi keypti af stefnanda. Með því að stefndi greiddi Lýsingu fyrir þessar tilteknu bifreiðar gerði hann upp kröfu Lýsingar á hendur stefnanda vegna þeirra. Lýsing eigi því ekki kröfu á hendur stefnanda vegna þessara tilteknu bifreiða. Ef stefndi ætti að greiða stefnanda aftur fyrir vörubifreiðarnar, væri hann með fyrirvara (de facto) að greiða Lýsingu, sem langstærsta kröfuhafa stefnanda, aftur fyrir bifreiðar sem hann hefur þegar keypt af félaginu. Augljóst má heita að slík niðurstaða sé með engu móti sanngjörn né eðlileg á nokkurn hátt með vísan til 32. og 36. gr. samningalaga.
Stefndi telur á hinn bóginn ljóst að Lýsing kunni að eiga kröfu á VB Vörumiðlun ehf. sem nemur þeirri upphæð sem forsvarsmaður félaganna færði ranglega á milli reikninga VB Vörumiðlunar ehf. og Lýsingar í bókhaldi stefnanda. Stefndi hafi verið sá aðili sem innti þessar greiðslur af hendi en ekki VB Vörumiðlun ehf. Ef orðið verður við kröfum stefnanda sé ljóst að stefndi þurfi í besta falli að greiða tvisvar fyrir þær bifreiðar sem hann samdi um kaup á við stefnanda/VB Vörumeðhöndlun, en í versta falli þrisvar sinnum ef skuldabréf það sem hann fékk afhent innheimtist ekki, eins og flest bendir til. Sá sem stæði uppi með hagnaðinn af þeirri niðurstöðu væri stærsti kröfuhafi stefnanda, Lýsing. Það veki sérstaka athygli að lögmenn félagsins hafi þegar innheimt greiðslu frá stefnda fyrir þeim bifreiðum sem riftunarmál þetta snýst um. Sömu aðilar sjái sig jafnframt hæfa til að fara fram með kröfur þessar gegn stefnda, í umboði Lýsingar sem stærsta kröfuhafa stefnanda. Telur stefndi að málatilbúnaður þessi sé bersýnilega ósanngjarn og til þess fallinn að Lýsing geti auðgast á ólögmætan hátt á hans kostnað.
Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að um riftanlega greiðslu sé að ræða með vísan til 134. gr. gjaldþrotalaga. Augljóst er af greininni að hún á við ef þrotamaður sjálfur innir af hendi greiðslu til eins aðila öðrum kröfuhöfum til skaða. Með vísan til þess sem hér að framan greinir er augljóst að það var ekki stefnandi sem innti af hendi greiðslu til stefnda, heldur þriðji aðili, VB Vörumiðlun ehf., sem jafnframt var aðili að þríhliða samkomulagi aðila um leigu/kaup á tilteknum fimm vörubifreiðum. Þá sé jafnframt ljóst að það var VB Vörumiðlun ehf., eða eftir atvikum, forsvarsmaður félagsins sem sem ranglega færði bókhald stefnanda og lét líta út fyrir að félagið hefði greitt Lýsingu kröfu og lækkaði þannig skuld VB Vörumiðlunar ehf. við stefnanda á kostnað Lýsingar.
Þá komi fram í bókhaldsrannsókn Ernst og Young að engar kröfur hafi verið í bókhaldi félagsins frá stefnda. Engar greiðslur eða millifærslur hafi því átt sér stað á milli þrotamanns og stefnda. Ekkert af skilyrðum greinarinnar eigi því við um viðskipti stefnanda og stefnda. Stefnandi byggi málatilbúnað sinn jafnframt á því að um riftanlega greiðslu sé að ræða á grundvelli 141. gr. gjaldþrotalaga. Greinin taki til þeirra ráðstafana sem gerðar eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra. Eins og fram kemur í fyrrgreindri bókhaldsrannsókn, var stefndi ekki kröfuhafi samkvæmt bókhaldi stefnanda og engin færsla átti sér stað á reikning hans hjá stefnanda. Á hinn bóginn nýtti annar aðili, VB Vörumiðlun ehf., félag með sömu eignaraðild og stefnandi, sér einhliða samkomulag sitt við stefnda til þess að lækka kröfu stefnanda á hendur sér og færa á móti til lækkunar kröfu Lýsingar á stefnanda. Hér sé augljóslega um ógildan gjörning að ræða, en riftunarkrafan geti eingöngu beinst að þeim sem nýtur gjörningsins en það sé VB Vörumiðlun ehf. Riftunarkrafa byggð á 141. gr. geti því eingöngu beinst að VB Vörumiðlun ehf. en ekki að stefnda.
Af framangreindu sé ljóst að sýkna beri stefnda af kröfu stefnanda vegna aðildarskorts. Bókhaldsrannsóknin sanni það að röngum aðila sé stefnt til riftunar.
Stefndi styður kröfu sína um sýknu aðallega við meginreglur kröfu og samningaréttar um að halda beri gerða samninga, og reglum um vanheimild. Stefndi hafi staðið við samninga við stefnanda/VB Vörumeðhöndlun að fullu en mótaðilar hans hafi brotið allar meginskyldur sínar. Þá styðst stefndi við 32. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Þá styður stefndi kröfu sína við reglur Jónsbókar um kaupfox. Stefndi keypti af stefnanda/VB Vörumiðlun bifreiðar sem hann átti ekki og hafði ekki heimild til að selja. Honum hafi því borið réttur til að heimta fé sitt til baka frá þeim sem seldi. Stefndi styður kröfu sína einnig við lög um bókhald, nr. 145 frá 1994, aðallega 8. gr., enda hefur stefnandi augljóslega, að mati stefnda, farið á sveig við lögin.
Loks styður stefndi kröfu sína um sýknu við lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.
Kröfuna um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Niðurstaða
Við aðalmeðferð gaf fyrirsvarsmaður stefnda, Jón Hinrik Garðarsson, skýrslu.
Jón Hinrik kvað að í umræddum leigusamningum hafi verið tekið fram að bifreiðarnar væru eign Leiguvéla ehf. og greidd leiga ætti að ganga upp í kaup á umræddum bifreiðum. Leiguvélar ehf. hafi síðan ekki getað afhent afsöl fyrir bifreiðarnar vegna deilu við Lýsingu. Þegar honum hafi síðan verið tilkynnt að krafa væri um að bílarnir yrðu teknir af stefnda hafi hann ekki átt annan kost en að kaupa allar bifreiðarnar utan eina þar sem stefndi hafi verið með þær í fullri vinnu. Hann kvaðst síðan hafi atast í Leiguvélum ehf. og krafist endurgreiðslu á sömu fjárhæð og bifreiðarnar hefðu verið keyptar á af Lýsingu. Skuldabréfið á dómskjali nr. 11 hafi átt að ganga upp í það sem hann hefði greitt.
Jafnframt gaf vitnaskýrslu Gunnar Viðar Bjarnason, framkvæmdastjóri VB Vörumeðhöndlunar ehf. Vitnið kvaðst um tíma hafa verið í fyrirsvari fyrir Leiguvélar ehf. og hafa verið eigandi að hluta í gegnum tengda aðila. Vitnið kvað Leiguvélar ehf. hafa verið í góðri trú um að félagið væri eigandi þeirra bifreiða sem samningar við stefnda Norðnorðvestur ehf. tóku til en Lýsing hf. hafi neitað að gera upp málið við félagið. Af hálfu Leiguvéla ehf. hafi verið gert ráð fyrir að félagið fengi dóm fyrir því að vera eigandi bílanna, en það hafi ekki gengið eftir. Vitnið kvaðst síðan hafa haft milligöngu við Lýsingu um að stefndi gæti keypt bílana af Lýsingu þar sem stefndi hafi verið búinn að greiða bílana að fullu og jafnframt Leiguvélar ehf.
Þær greiðslur hins gjaldþrota félags, Leiguvéla ehf. til stefnda, sem krafist er riftunar á með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti ofl., eru vegna uppgjörs á fimm Daf vörubílum, sem félagið seldi stefnda á sínum tíma og gat ekki fært eignarréttinn til stefnda vegna ágreinings við fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu. Af þessum sökum var farin sú leið að stefndi keypti fjóra bíla aftur beint frá Lýsingu og samið var um matsverð á fimmta bílunum. Samkvæmt samkomulaginu, sem undirritað var 26.6.2015 viðurkenndu Leiguvélar ehf. að skulda stefnda samtals 12.000.000 kr. að viðbættum kostnaði frá Lýsingu að fjárhæð 123.125 kr., eða samtals 12.123.125 kr. Leiguvélar greiddu skuldina með skuldabréfi að fjárhæð 12.123.125 kr. Skuldabréfið var síðan gefið út af VB Vörumeðhöndlun ehf. þann 14. júlí 2015.
Samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt er með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd fjárhæð hefur skert greiðslugetu þrotamanns, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum, en frestdagur í slitameðferð stefnanda var 21. október 2015.
Umrædd greiðsla, sem fór fram 14. júlí 2015, var innt af hendi á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Greiðslan fór fram með afhendingu á skuldabréfi sem gefið var út af þriðja aðila. Slík skjöl hafa verið talinn óvenjulegur greiðslueyrir.
Í málinu liggur fyrir bókhaldsskýrsla Ernst & Young ehf. þar sem farið var yfir viðskiptareikning VB Vörumeðhöndlunar ehf. og Leiguvéla ehf. Þar kemur fram að þann 26. júní 2015 er færð kreditfærsla að fjárhæð 12.123.125 kr. vegna samkomulagsins. Við þessa færslu lækkaði krafa Leiguvéla ehf. á félagið úr 47.806.184 kr. í 35.683.059 kr. Við aðalmeðferð byggði stefndi á því að VB Vörumeðhöndlun, sem gaf út skuldabréfið, hafi verið leigusali umræddra bifreiða ásamt Leiguvélum ehf. og vísaði í því sambandi til þess að í umræddum samningum um útleigu á vinnuvélum frá Leiguvélum efh. ehf. kæmi fram að Leiguvélar ehf. væri leigusali í samstarfi við VB Vörumiðlun ehf. og með útgáfu skuldabréfsins væri VB Vörumiðlun ehf. að greiða stefnda skaðabætur vegna þess tjóns sem stefndi hefði orðið fyrir vegna vanefnda leigusala á því að afhenda umræddar biðreiðar stefnda til eignar. Í þessu sambandi vísast til þess sem segir í umræddum samningum að hinar útleigðu vörubifreiðar séu eign Leiguvéla ehf. Á þessa málsástæðu stefnda verður ekki fallist enda skýrt í samkomulaginu, sem undirritað var 26.6.2015, að um væri að ræða skuld Leiguvéla ehf. við stefnda. Umræddar bifreiðar voru í samningnum sagðar eign Leiguvéla ehf. og leigusali þar af leiðandi eigandi þeirra. Ekki verður talið að máli skipti að málum hafi verið hagað þannig að skuldin væri greidd upp með skuldabréfi útgefnu af VB Vörumeðhöndlun ehf. þar sem krafa Leiguvéla ehf. á það félag var lækkuð samhliða. Þessari málsástæðu stefnda var mótmælt af hálfu stefnanda sem of seint fram kominni.
Þá er til þess að líta að þegar umrædd greiðsla átti sér stað voru Leiguvélar ehf. í verulegum vanskilum og höfðu ekki greitt af skuldbindingum sínum við stærstu kröfuhafana Lýsingu og Ergo frá því á árinu 2011. Það var því óeðlilegt að félagið greiddi upp allar vanefndir sínar við stefnda með þessum hætti og bryti með því á jafnræði kröfuhafa.
Skilyrðin þrjú til riftunar skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, eru sjálfstæð og hlutlæg og nægir að einu skilyrðanna sé fullnægt.
Fallist er á það með stefnanda að umrædd greiðsla hafi farið fram með óvenjulegum greiðslueyri og stefndi hefur heldur ekki fært sönnur á að greiðslan verði talin hafa verið venjuleg eftir atvikum. Tjón stefnanda af þessum sökum var því 12.123.125 kr. Ekki verður fallist á rök fyrir þeirri málsástæðu stefnda að stefnanda hafi borið að beina riftunarkröfu að VB Vörumiðlun ehf. Samkvæmt því sem rakið hefur verið er fallist á kröfu stefnanda um að rift verði umræddri greiðslu sem fram fór á grundvelli samkomulags frá 26. júní 2015 og með eftirfarandi útgáfu á skuldabréfi af fjárhæð 11.123.125 kr. undirrituðu 14. júlí 2015.
Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Stefnandi hafði hag af hinni riftanlegu ráðstöfun sem nam 12.123.125 kr. sem svarar til þess tjóns sem þrotabúið varð fyrir vegna þessarar ráðstöfunar. Fyrirsvarsmaður stefnanda bar að eitthvað hefði verið greitt af umræddu veðskuldabréfi og hefur ekki fært sönnur á að það muni ekki fást greitt. Því ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda skaðabætur sem nema framangreindri fjárhæð, 12.123.125 kr., ásamt skaðabótavöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 14. júlí 201 til þingfestingardags þann 4. október 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Rift er greiðslum hins gjaldþrota félags, Leiguvéla ehf., til stefnda, Norðnorðvestur, að fjárhæð 12.123.125 kr. sem fram fór á grundvelli samkomulags frá 26. júní 2015 og með eftirfarandi útgáfu á skuldabréfi að fjárhæð 12.123.125 kr. sem undirritað var þann 14. júlí 2015.
Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Leiguvéla ehf., 12.123.125 kr. ásamt skaðabótavöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 12.123.125 kr. frá 14. júlí 2015 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 kr. í málskostnað.