Hæstiréttur íslands
Mál nr. 649/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Fimmtudaginn 13. desember 2007. |
|
Nr. 649/2007. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Júlíus Magnússon, fulltrúi) gegn X (Ásbjörn Jónsson hdl.) |
Kærumál. Farbann. Gæsluvarðhald.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 8. janúar 2008, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 8. janúar 2008 kl. 16, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 12. desember 2007. Hann krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald og einnig að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurður verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2007.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að X, kt. [...], pólskum ríkisborgara með dvalarstað að [...], Reykjanesbæ verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. janúar 2008 kl. 16:00.
Krafan er sett fram með vísan til a-liðar og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 10. gr. umferðarlaga nr. 50/ 1987.
Af hálfu kærða er gæsluvarðhaldskröfunni mótmælt.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að laust upp úr kl. 17:00 föstudaginn 30. nóvember 2007 hafi bifreið verið ekið á fjögurra ára dreng, A, á mótum Vesturgötu og Birkiteigs í Reykjanesbæ. Ökumaður bifreiðarinnar sem ók á drenginn hafi ekki stöðvað en ekið á brott af vettvangi án þess að huga að drengnum. Drengurinn lést á sjúkrahúsi laugardaginn 1. desember 2007 af þeim áverkum sem hann hlaut. Við eftirgrennslan lögreglu fannst bifreiðin [...], af gerðinni [...], blágræn að lit, kl. rúmlega 17.00 laugardaginn 1. desember og var kærði ökumaður bifreiðarinnar. Kærði var spurður um brotið vinstra framljós á bifreiðinni og sagði lögreglu þá að hann hefði lent í óhappi daginn áður, þ.e. 30. nóvember, en það er dagurinn þegar ekið var á drenginn. Er hann var tekinn við akstur bifreiðarinnar sýndi öndunarsýni 0.25 0/00 alkóhóls. Bifreiðin bar merki ákomu vinstra megin að framan og var m.a. framljós þeim megin brotið. Lögregla telur skemmdir á bílnum nýlegar. Fram kemur í greinargerð lögreglu að kærði hafi ekki gengist við því að hafa ekið á drenginn en mikils ósamræmis hafi gætt í framburði hans, hann orðið margsaga m.a. um það hvar hann var staddur á þeim tíma þegar ekið var á barnið. Þá hafi komið fram ósamrýmanlegir framburðir um það, bæði hjá kærða og vitnum, hvenær og hvernig framljós bifreiðarinnar brotnaði.
Tæknirannsókn lögreglu á bifreiðinni hafi m.a. leitt í ljós að tautrefjar fundust á bifreiðinni en bráðabirgðaniðurstöður rannsóknastofu norsku lögreglunnar, sem send voru sýni til rannsóknar, sem lögreglu bárust upplýsingar um í dag, samrýmist því að vera úr rauðri fleecepeysu, sem barnið klæddist. Þá hafi við leit í bifreiðinni þegar kærði var handtekinn, fundist handklæði sem sent var til DNA-rannsóknar en talið sé hugsanlegt að það hafi verið notað til að þurrka hugsanleg ummerki af bifreiðinni.
Fram kemur í greinargerð lögreglu að framburðir vitna, sem hafa verið yfirheyrð, hafi verið misvísandi innbyrðis og borið illa saman við framburði kærða þótt málið hafi skýrst. Ítarleg tæknileg rannsókn á bifreiðinni þyki renna sterkum stoðum undir að umræddri bifreið hafi verið ekið á barnið.
Meðal gagna sem aflað hafi verið frá 6. desember sl. sé skýrsla skráðs eiganda bifreiðarinnar, með vísan til 58. gr. umferðarlaga, um að kærði hafi einn haft aðgang að og ekið bifreiðinni.
Ljóst þyki að reynt hafi verið að villa um fyrir rannsókn lögreglu í málinu og verði að telja líklegt að það sé frá kærða komið. Öll framangreind atriði og gögn þykja rökstyðja að hætta sé á að kærði muni reyna að hafa áhrif á vitni eða samseka ef hann gangi laus.
Þá bendir lögregla á að fram hafi komið hjá kærða að hann hafi áformað að fara frá Íslandi mánudaginn 3. desember s.l. og væri ekki væntanlegur til landsins aftur.
Lögregla kveður rannsókn þessa máls vera mjög umfangsmikla og flókna. Þá sé eins og áður enn nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi ósamræmis í skýrslum kærða annars vegar og vitna hins vegar, svo og í ljósi misræmis í vitnaframburðum, að kærði fái ekki tækifæri til að hafa áhrif á vitni eða samseka í málinu. Eins og málið liggi fyrir nú eigi enn eftir að taka nokkurn fjölda skýrslna, m.a. til að leitast við að staðreyna atriði, sem þegar eru fram komin.
Lögð er áhersla á það í kröfugerð að kærði sé útlendingur og að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi. Kærði sé grunaður um brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga sem varðað geti fangelsi allt að 6 árum sem og brot gegn umferðarlögum. Telur lögregla með vísan til framanritaðs og framlagðra gagna að brýnt sé að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 8. janúar nk. en á þeim tíma verði leitast við að ljúka rannsókn málsins og senda það til ákærumeðferðar.
Í máli verjanda kærða við fyrirtöku kröfunnar kemur fram að hann mótmælir alfarið kröfu um gæsluvarðhald. Hann krefst þess að kröfunni verði hafnað, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Auk þess bendir hann á að vægari úrræði geti dugað ef kröfunni verður ekki alfarið hafnað.
Með því sem nú hefur verið rakið og með hliðsjón af framlögðum gögnum þykir hafa verið sýnt fram á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Lögreglustjóri byggir kröfu sína á því að enn eigi m.a. eftir að taka skýrslur af vitnum sem borið hafi á mismunandi vegu um atvik málsins og ferðir kærða. Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 2. desember sl. og hafa verið teknar fjölmargar skýrslur af vitnum. Rannsakendur hafa haft tök á því að ná til þeirra vitna sem þeir telja nauðsynlegt að taka frekari skýrslur af. Hafa því ekki verið færð fullnægjandi rök fyrir því að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hins vegar þykir rétt, með vísan til þess sem að framan er rakið og einkum á grundvelli þess að kærði er erlendur ríkisborgari, að beita ákvæðum b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og gera ákærða að sæta farbanni samkvæmt ákvæðum 110. gr. sömu laga allt til föstudagsins 8. janúar 2008 kl. 16:00.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærða, X, er bönnuð brottför frá Íslandi allt til þriðjudagsins 8. janúar 2008 kl. 16:00.