Hæstiréttur íslands
Mál nr. 154/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Aðild
- Samlagsaðild
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 14. apríl 2011. |
|
Nr. 154/2011.
|
A og B (Oddgeir Einarsson hdl.) gegn C D E F G H og I (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Aðild. Samlagsaðild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
A og B kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem máli þeirra á hendur C, D, E, F, G, H og I var vísað frá dómi. Í málinu kröfðust A og B þess að tiltekin ummæli í bréflegri tilkynningu C, D, E, F, G, H og I til barnaverndaryfirvalda yrðu dæmd dauð og ómerk og hver og einn aðili dæmdur til að greiða þeim hvoru um sig miskabætur. Við þingfestingu málsins höfðu A og B fallið frá kröfum á hendur J sökum þess að J hafði dregið til baka undirritun sína á tilkynninguna. Með úrskurði héraðsdóms var málinu vísað frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og sökum þess A og B hefðu ekki með neinum hætti gert grein fyrir því að lögvarðir hagsmunir þeirra stæðu til þess að efnisdómur gengi um kröfu þeirra. Í Hæstarétti var talið að 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 ætti við í málinu. Málið væri sprottið af sameiginlegri tilkynningu undirritaðri af öllum varnaraðilum er hver fyrir sig bæri ábyrgð á þeim ummælum sem þar kæmu fram. Málinu yrði því ekki vísað frá héraðsdómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laganna. Önnur atriði vörðuðu efnishlið málsins og málatilbúnaður A og B væri nægilega glöggur til að leggja mætti á það efnisdóm. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru móttekinni 9. mars 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. febrúar 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Til vara krefjast þau að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Varnaraðilar krefjast aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að miskabótakröfu sóknaraðila verði vísað frá héraðsdómi. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
I
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði höfðuðu sóknaraðilar mál þetta á hendur varnaraðilum og J og kröfðust þess að ummæli í bréflegri tilkynningu varnaraðila til Barnaverndar [...] 15. september 2009 yrðu dæmd dauð og ómerk og að hver og einn stefndu skyldi greiða hvorum sóknaraðila um sig 200.000 krónur í miskabætur með tilgreindum vöxtum. Ummælin eru í stefnu tilgreind í stafliðum A til G og tekin upp í hinum kærða úrskurði. Við þingfestingu málsins féllu sóknaraðilar frá kröfum á hendur J en þá hafði hún „dregið til baka undirritun“ sína á tilkynninguna. Málsástæður og lagarök málsaðila eru rakin í hinum kærða úrskurði, en með honum var fallist á kröfu varnaraðila um frávísun málsins á þeim forsendum að nauðsyn hafi borið til að allir upphaflegu stefndu í málinu hefðu áfram aðild að því, þar á meðal J, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þá kom fram í úrskurðinum að framangreind tilkynning til barnaverndaryfirvalda hafi verið trúnaðarmál, sbr. 8. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og að ekkert væri fram komið í málinu um að efni hennar hafi verið gert opinbert, auk þess sem þinghöld hefðu farið fram fyrir luktum dyrum að kröfu sóknaraðila. Í ljósi þessa hefðu sóknaraðilar „með engum hætti gert grein fyrir því að lögvarðir hagsmunir þeirra standi allt að einu til þess að efnisdómur gangi um þá kröfu þeirra.“
II
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að sækja fleiri enn einn í sama máli ef dómkröfur á hendur þeim eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Samkvæmt framansögðu er málið sprottið af sameiginlegri tilkynningu, undirritaðri af öllum varnaraðilum, er bera hvert fyrir sig ábyrgð á þeim ummælum er þar koma fram. Auk ómerkingar á ummælum í tilkynningunni gerir hvor sóknaraðili fyrir sig kröfu á hendur hverjum og einum varnaraðila um miskabætur vegna ummælanna. Er sú aðstaða uppi í máli þessu sem greinir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Verður því ekki fallist á það sem kemur fram í hinum kærða úrskurði að varnaraðilar og J beri óskipta skyldu þannig að til álita komi að vísa málinu frá héraðsdómi af ástæðum sem greinir í 2. mgr. 18. gr. laganna.
Eins og áður segir var í hinum kærða úrskurði talið að efni tilkynningarinnar hafi ekki verið gert opinbert og sóknaraðilar hafi ekki gert nægilega grein fyrir lögvörðum hagsmunum fyrir málsókn sinni. Sóknaraðilar halda því á hinn bóginn fram að opinber birting umræddra ummæla sé ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir því að fá dóm um þær kröfur sem þau hafa uppi í málinu. Auk þess hafi ummælin fengið töluverða útbreiðslu með nánar tilgreindum hætti. Hér er um að ræða atriði sem snerta efnislega úrlausn ágreinings málsaðila og verður því heldur ekki á það fallist að málinu skuli vísað frá héraðsdómi af ástæðum sem að þessu lúta.
Málatilbúnaður sóknaraðila er að öðru leyti nægilega glöggur til að leggja megi á málið efnisdóm og þykja því önnur þau atriði sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, og varnaraðilar hafa teflt fram, ekki vera þess eðlis að vísa beri málinu í heild eða að hluta frá héraðsdómi. Þá verður fallist á með sóknaraðilum að þau hafi reifað nægilega sjónarmið er lúta að því að fá efnislega úrlausn um hvort öll umþrætt ummæli í tilkynningu varnaraðila beinist að þeim báðum þótt einungis annars þeirra sé getið í ummælum í stafliðum E og F.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Sóknaraðilar krefjast ekki kærumálskostnaðar en fallist verður á þá kröfu þeirra, þótt kölluð sé til vara, að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23 febrúar 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 10. febrúar sl., var höfðað með birtingu stefnu þann 8. september 2010, og var málið þingfest þann 15. september s.á.
Stefnendur eru A, kt. [...], [...], [...], og B, kt. [...], [...], [...].
Stefndu eru C, kt. [...], [...], [...], D, kt. [...], [...], [...], E, kt. [...], [...], [...], F, kt. [...], [...], [...], G, kt. [...], [...], [...], H, kt. [...], [...], [...], I, kt. [...], [...], [...], og J, kt. [...], [...], [...].
Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega, að eftirfarandi ummæli í stafliðum A-G sem hver og einn stefndu lét falla um stefnendur í barnaverndartilkynningu sem send var til barnaverndarnefndar [...] og undirrituð var af öllum stefndu verði dæmd dauð og ómerk skv. heimild í 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940:
A. „hafa þau A og B beitt sér í ,hatursstríði´ gegn íbúum hússins“.
B. „Ljóst er að hvatinn að þessari ógeðfelldu hegðun þeirra hjóna á rætur að rekja til nafnlausrar tilkynningar til barnaverndaryfirvalda í [...]“.
C. „Hegðun þeirra A og B hefur frá þessum tíma einkennst af miklum hávaða sem hefur í tíma og ótíma borist frá íbúð þeirra. Oft hefur verið um ofsafenginn ,dómsdagshávaða´ að ræða, þung högg, skerandi hávaða frá einhverjum tækjum og tólum, trampi og þrammi frá íbúð þeirra, verið með háværa tónlist klukkustundum saman úti á svölum, o.s.frv.“.
D. „Við íbúarnir höfum orðið þess vör að börnin hafi verið fengin til að taka þátt í þessari óeðlilegu hegðun“.
E. „A hefur einnig reglulega stundað þann ljóta leik að gretta sig og geifla framan í nágranna sína, á hæðinni fyrir neðan og gesti þeirra. Þetta hefur hún stundað í nærveru barna sinna sem og barna nágranna sinna.“
F. „Þegar reynt hefur verið að ræða við þau hefur A oftar en einu sinni skellt hurðinni framan í viðmælandann, hótað lögfræðingi eða lögreglu, geiflað sig, gargað og sýnt ,puttann´. Þetta gerir hún fyrir framan börnin sín og hefur hegðun hennar við þau tækifæri einkennst af heift og ofsa.“
G. „Í hnotskurn þá teljum við að ástandið á heimili þeirra A og B brjóti í bága við ákvæði barnaverndarlaga“.
Þess er krafist að hverju og einu af stefndu verði gert að greiða hvorum stefnanda fyrir sig miskabætur skv. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga 50/1993 að fjárhæð 200.000 krónur, og beri sú fjárhæð vexti skv. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr., vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. september 2009 til 15. október 2010, en dráttarvexti frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndu verði hvert fyrir sig dæmd til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndu gera í fyrsta lagi þá dómkröfu að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefjast stefndu að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda. Þá krefjast stefndu að stefnendur verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað auk virðisaukaskatts.
Við þingfestingu málsins felldu stefnendur málið niður á hendur stefndu D. Aðrir stefnendur lögðu fram greinargerð í þinghaldi þann 8. desember 2010. Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnenda fór fram þann 10. febrúar sl. og var sú krafa tekin til úrskurðar að málflutningi loknum.
Dómkröfur stefnenda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið en auk þess krefjast þau málskostnaðar úr hendi stefndu.
Málsatvik.
Samkvæmt gögnum málsins fékk Barnaverndarstofa tilkynningu þann 8. desember 2008 vegna meints tilfinningalegs/sálræns ofbeldis gagnvart þremur börnum stefnenda. Var óskað nafnleyndar við tilkynninguna. Í athugasemdum í tilkynningunum, sem allar voru samhljóða, kemur fram að mikið sé öskrað á börnin og það sé óhugnanlegt að heyra það. Börnin hljóti samkvæmt tilkynnanda að bíða tjón af þessari framkomu sem þau fái. Tilkynnandi veit ekki hvort um líkamlegt ofbeldi sé að ræða en segir að þetta komi oft fyrir. Foreldrar barnsins eru tilgreindir stefnendur. Þann 28. janúar 2009 bárust Barnaverndarstofu þrjár tilkynningar vegna barna stefnenda, þar sem tekið var fram að tilkynnandi hefði áhyggjur af börnunum. Greindi tilkynnandi frá því að móðir sýni börnunum ógnandi hegðun, öskri á börnin og þau gráti undan henni. Einnig að rifrildi á milli hjónanna séu algeng á morgnana. Þá kemur fram að tilkynnanda gruni að faðir eigi við áfengisvanda að stríða. Var nafnleyndar óskað við ofangreinda tilkynningu.
Þann 15. september 2009 rita stefndu undir bréf til Barnaverndar [...]. Kemur fram í bréfinu að íbúar sambýlishússins að [...] óski eftir að barnaverndarnefnd geri úttekt og athugun á líðan þeirra barna sem búi að [...], efstu hæð. Foreldrar þeirra barna séu A og B. Segir í bréfinu að undanfarna sjö mánuði, nærri því linnulaust frá febrúar á því ári, hafi stefnendur beitt sér í „hatursstríði“ gegn íbúum hússins, þá einkum og sér í lagi íbúum á miðhæð [...], sem sé hæðin fyrir neðan íbúð þeirra. Ljóst sé að hvatinn að þessari ógeðfelldu hegðun þeirra hjóna eigi rætur að rekja til nafnlausrar tilkynningar til barnaverndaryfirvalda í [...], sem hafi líklega borist í byrjun árs 2009. Þá segir að hegðun þeirra A og B hafi frá þeim tíma einkennst af miklum hávaða, sem hafi í tíma og ótíma borist frá íbúð þeirra. Oft hafi verið um ofsafenginn „dómsdagshávaða“ að ræða, þung högg, skerandi hávaða frá einhverjum tækjum og tólum, trampi og þrammi frá íbúð þeirra, hávær tónlist sé klukkustundum saman úti á svölum o.s.frv. Þá segir að íbúarnir hafi orðið þess varir að börnin hafi verið fengin til að taka þátt í þessari óeðlilegu hegðun. A hafi einnig reglulega stundað þann ljóta leik að gretta sig og geifla framan í nágranna sína, á hæðinni fyrir neðan, og gesti þeirra. Þetta hafi hún stundað í nærveru barna sinna sem og barna nágranna sinna. Einnig hafi hún í tíma og ótíma tamið sér að stara í heift á nábúa sína, þá sem búi í íbúðinni fyrir neðan. Allar tilraunir húsfélagsins til að biðja þau hjón um að láta af þessari iðju sinni hafi verið árangurslausar. Þegar reynt hafi verið að ræða við þau hafi A oftar en einu sinni skellt hurðinni framan í viðmælandann, hótað lögfræðingi eða lögreglu, geiflað sig, gargað og „sýnt puttann“. Þetta geri hún fyrir framan börnin sín og hafi hegðun hennar við þau tækifæri einkennst af heift og ofsa. Þá segir í lokin að undirritaðir hafi haft þungar áhyggjur af tilfinningalegri líðan barna þeirra hjóna, líðan sinna eigin barna, sem þurfi að búa við þessi ósköp, sem og allra annarra íbúa húsfélagsins. Í hnotskurn þá telja þau að ástandið á heimili A og B brjóti í bága við ákvæði barnaverndarlaga og séu þau knúin til að biðja barnaverndarnefnd um að beita sér í málinu. Var tilkynning þessi skráð hjá Barnaverndarstofu þann 18. september 2009.
Þann 9. nóvember 2009 bárust Barnaverndarstofu þrjár tilkynningar vegna ofangreindra barna og var nafnleyndar óskað. Kemur fram í athugasemdum að lætin haldi áfram og ekkert sé að breytast í húsinu. Telur tilkynnandi „þetta“ klárlega falla undir barnaverndarlög. Öskrað sé og tónlist spiluð hátt og sennilega sé búið að kaupa skó til að trampa á. Börnin líði fyrir þetta.
Með bréfi þann 29. september 2009 voru stefnendur boðaðir á fund hjá Félagsþjónustu [...] vegna tilkynninga á grundvelli 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Með bréfi, dagsettu 1. desember 2009, óskaði barnaverndarnefnd eftir upplýsingum frá leikskóla K um almenna líðan hennar, umhirðu og aðbúnað, mætingar í leikskólann, samskipti barnsins við önnur börn og hegðun, samskipti starfsmanna leikskólans við foreldra og annað sem starfsmenn vildu koma á framfæri. Svar leikskólans var sent Félagsþjónustu [...] með bréfi, dagsettu 25. janúar 2010. Með bréfum 1. desember 2009 óskaði barnaverndarnefnd eftir sömu upplýsingum frá grunnskóla L og M. Svar barst með bréfi, dagsettu 4. desember 2009. Með bréfi, dagsettu 12. febrúar 2010, tilkynnti Félagsmálaráð [...] stefnendum um að könnun vegna barnaverndartilkynninga væri lokið og ekki væri þörf á frekari afskiptum í málinu.
Þann 4. maí 2009 rituðu stefndu, utan F og J, stefnendum bréf þar sem skorað var á þau að bæta umgengnishætti þeirra í húsinu og láta af óæskilegri háttsemi. Að öðrum kosti yrðu þau að nýta sér heimildir í lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús og vísuðu í 55. gr. Þá ritaði stjórn húsfélagsins stefnendum bréf þann 16. mars 2009 þar sem skorað var á stefnendur að láta af háttseminni. Með bréfi, dagsettu 23. október 2009, frá lögmanni stefnenda til Félagsmálaráðs [...], mótmæltu stefnendur því að hegðun þeirra bryti í bága við barnaverndarlög.
Í gögnum málsins liggja fyrir fundargerðir húsfélagsins að [...], [...]. Á stjórnarfundi húsfélagsins 15. mars 2009 er rætt um samskiptaerfiðleika. Þann 15. apríl 2009 er bókað að stjórn húsfélagsins hafi átt fund með lögmanni vegna umgengni að [...]. Á almennum húsfundi þann 4. júní 2009 er rætt um samskiptaerfiðleika. Á almennum húsfundi þann 23. júní 2009 var rætt um sambýlishætti innanhúss sem utan og húsreglur kynntar. Á stjórnarfundi húsfélagsins 8. desember 2009 er rætt um samskiptaerfiðleika. Á stjórnarfundi húsfélagsins 7. apríl 2010 er rætt um samskiptaerfiðleika. Á stjórnarfundi húsfélagsins 25. apríl 2010 er rætt um samskiptaerfiðleika. Á aðalfundi húsfélagsins þann 26. apríl 2010 eru samskiptamál aðila rædd og bókað ítarlega um þau. Þá liggur fyrir yfirlýsing D, dagsett 3. júlí 2009, þar sem hún tilkynnir að hún hafi farið til lögreglu vegna háreysti frá íbúð stefnenda. Með bréfi, dagsettu 14. september 2010, til lögmanns stefnenda dró D formlega til baka undirritun sína á tilkynningu til barnaverndaryfirvalda í [...], dagsetta 15. september 2009.
Málsástæður og lagarök stefnenda.
Stefnendur byggja kröfu sína um ómerkingar ummæla á eftirfarandi:
1. Ómerking ummæla í barnaverndartilkynningu stefndu vegna stefnenda
„hafa þau A og B beitt sér í ,hatursstríði´ gegn íbúum hússins“.
Stefnendur telja að þessi ummæli séu bæði ósönn og óþarflega meiðandi. Það liggi eðlilega fyrir að samskipti einhverra íbúa í fjölbýlishúsinu við [...] hafi ekki verið með besta móti. Stefnendur hafni því hins vegar að þau séu kerfisbundið að reyna að gera öðrum íbúum fjölbýlishússins lífið leitt. Í framhaldinu nefna stefndu í barnaverndartilkynningu sinni nokkurn fjölda atvika sem annaðhvort séu ýkt stórlega eða eigi ekki stoð í raunveruleikanum. Stefndu verði að gera grein fyrir því hvernig stefnendur hafi beitt sér gegn þeim persónulega í „hatursstríði“. Burtséð frá því hvort staðhæft verði að einhverjar deilur séu til staðar milli stefnenda og einhverra íbúa verði að telja að ástandið í fjölbýlishúsinu þurfi að vera afskaplega alvarlegt til að notað sé svo innihaldsríkt orð, þegar verið sé að senda inn erindi til barnaverndaryfirvalda. Lýsing deilna vegna meints hávaða í fjölbýlishúsi með þessu orðalagi sé sérstaklega til þess fallin að vekja athygli barnaverndaryfirvalda á heimilislífi stefnenda. Í þessu sambandi megi benda á að stefnandi A hafi mætt á sameiginlegan húsfund 30. september 2009 þar sem farið hafi verið yfir fjölmörg málefni húsfélagsins, án þess að nokkuð væri rætt um umgengni A eða hennar fjölskyldu. Verði að benda á að þá þegar höfðu verið send tvö ábyrgðarbréf til stefnenda vegna umgengni í húsinu, og stuttu áður hafi barnaverndartilkynning verið send, undirskrifuð af íbúum hússins. Á þeim tíma hafi stefnendur þó ekki verið búnir að fá þá tilkynningu í hendur. Sá húsfundur bendi ekki til að stefnendur séu í einhvers konar hatursstríði við aðra íbúa hússins.
„Ljóst er að hvatinn að þessari ógeðfelldu hegðun þeirra hjóna á rætur að rekja til nafnlausrar tilkynningar til barnaverndaryfirvalda í [...]“.
Stefnendur telja að þessi ummæli séu bæði ósönn og óþarflega meiðandi. „Þessi ógeðfellda hegðun“, sem stefndu vísa til sé hið svokallaða hatursstríð sem lýst sé í staflið A. Með því að lýsa hegðun stefnenda sem ógeðfelldri leiði það augljóslega til þess að meiri líkur séu á að barnaverndaryfirvöld haldi að verið sé að misnota börn stefnenda á einhvern hátt. Stefnendur hafni því einnig að þá hegðun sem þau hafi sannanlega viðhaft í fjölbýlishúsinu að [...] sé á einhvern hátt hægt að rekja til nafnlausrar tilkynningar til barnaverndaryfirvalda. Rétt sé að stefnendur komust í mikið uppnám þegar þeim var ljóst að þau höfðu verið tilkynnt til barnaverndaryfirvalda með fjölda ásakana sem hafi ekki átt við nein rök að styðjast. Það hafi þau hvorki látið bitna á börnum sínum né öðrum íbúum hússins. Telja verði þessi ummæli því ósönn.
„Hegðun þeirra A og B hefur frá þessum tíma einkennst af miklum hávaða sem hefur í tíma og ótíma borist frá íbúð þeirra. Oft hefur verið um ofsafenginn ,dómsdagshávaða´ að ræða, þung högg, skerandi hávaða frá einhverjum tækjum og tólum, trampi og þrammi frá íbúð þeirra, verið með háværa tónlist klukkustundum saman úti á svölum, o.s.frv.“.
Stefnendur telja að framangreind fullyrðing sé ósönn. Stefndu halda hér fram að í fjölbýlishúsinu að [...] sé „dómadagshávaði“ allan liðlangan daginn frá morgni til kvölds og stefnendur noti tæki og tól til að framkalla hávaða án þess að nánar sé skýrt hvers konar hávaða sé um að ræða eða hvað valdi honum. Þessi lýsing stefndu sé fjarri lagi. Það sé vissulega rétt að það geti verið hávaði á heimili stefnenda og þau viðurkenna það fúslega. Sá hávaði sé hins vegar fyrst og fremst eðlilegur og framkallast af eðlilegu heimilislífi hjóna með þrjú fjörmikil börn. Stefnendur hafi einnig verið mjög fús að leyfa öðrum börnum að koma í heimsókn á heimili þeirra, enda sé stefnandi A heimavinnandi að mestu leyti og geti því haft umsjón með þeim sem eru í heimsókn á hverjum tíma. Öllum börnum fylgi þó ákveðinn hávaði og verða stefndu að virða það sem íbúar í fjölbýlishúsi að það sé ekki ávallt fullkominn friður og ró í fjölbýlishúsinu. Stefnendur telji að sá hávaði sem þó sé til staðar sé á þeim tímum sem eðlilegt sé að umgangur sé í íbúðum. Ekki sé um það að ræða að hávaðinn sé á kvöldin og nóttunni heldur fyrst og fremst á fótaferðartíma barna þeirra. Þessi lýsing stefndu sé einnig sérstaklega meiðandi þegar haft sé í huga að hún er í barnaverndartilkynningu þar sem lýsingarnar eru svo ýktar að það sé með eindæmum.
Stefnendur hafni alfarið að beita sérstaklega einhverjum tækjum og tólum til þess að framkalla einhvern hávaða. Í þessu sambandi verði að benda á að kvartanir yfir hávaða eigi ekki heima í tilkynningu til barnaverndaryfirvalda heldur eigi að leysa úr slíkum deilum á vettvangi nábýlisréttar. Auk þess sé afar ótrúverðugt að slíkur hávaði sé í byggingunni alla daga, þegar stefndu hafi ekki í eitt skipti kvartað til lögreglu yfir hávaða svo vitað sé, eins og alvanalegt sé þegar óeðlilegur hávaði sé í fjölbýlishúsi. Þá hafi stefndu möguleika til þess að beina þessum ágreiningi til kærunefndar fjöleignarhúsamála, sbr. 79.-80. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Það hafi hin stefndu ekki gert, eins og eðlilegt sé þegar til staðar sé ágreiningur um réttindi og skyldur íbúa í fjölbýlishúsi.
„Við íbúarnir höfum orðið þess vör að börnin hafi verið fengin til að taka þátt í þessari óeðlilegu hegðun“.
Stefnendur telja að framangreind fullyrðing sé bæði ósönn og sérstaklega meiðandi. Ekki sé vitað í hvað stefndu vísa þegar þau segja að börnin séu að taka þátt í einhverri óeðlilegri hegðun, en það sé ekki sérstaklega útlistað í tilkynningunni. Í samskiptum stefnenda við barnaverndaryfirvöld hafi heldur aldrei fengist upplýst hvernig þessi meinta beiting barnanna ætti sér stað þrátt fyrir að lögfræðingur stefnenda hafi sérstaklega beðið barnaverndaryfirvöld um að fá að vita nákvæmlega hvernig verið væri að nota börnin til að taka þátt í hinni meintu „óeðlilegu hegðun“. Afrit þessa bréfs hafi verið sent stefndu. Aldrei hafi komið í ljós hvernig börnunum hafi verið beitt í þessu skyni. Þegar haldið sé fram að stefnendur beiti sínum eigin börnum til þess að taka þátt í hatursstríði gegn nágrönnum sínum veki það að sjálfsögðu athygli barnaverndaryfirvalda á því að eitthvað óeðlilegt sé í gangi hjá stefnendum. Verði að meta þessi ummæli í því samhengi sem þau séu sögð. Burtséð frá því sé það sérstaklega meiðandi fyrir stefnendur að vera vænd um að beita börnum sínum sem einhvers konar vopnum í ímyndaðri baráttu gegn öðrum íbúum fjölbýlishúss. Eins og fram hafi komið hér að framan viðurkenni stefnendur að börn þeirra geti á tímum haft einhvern hávaða, en augljóst sé af þessum ummælum að þau varði einhverja aðra sérstaklega tilgreinda hegðun þegar stefnendur eigi að hafa notað börn sín til þess að framkalla hávaða. Verði stefndu að bera ábyrgð á þessum ummælum, hvert fyrir sig.
„A hefur einnig reglulega stundað þann ljóta leik að gretta sig og geifla framan í nágranna sína, á hæðinni fyrir neðan og gesti þeirra. Þetta hefur hún stundað í nærveru barna sinna sem og barna nágranna sinna.“
Stefnendur telji að þessi lýsing sé gróflega ýkt og eigi nær enga stoð í raunveruleikanum. Stefnandi A viðurkenni að viðmót hennar gagnvart þeim nágrönnum sem harðast hafi gengið fram gegn henni og börnum hennar sé ekki gott og brosi hún ekki framan í þá þegar hún hittir þá í sameign fjölbýlishússins. Það að hún sé að gretta sig og geifla framan í nágranna sína, í nærveru sinna eigin barna og barna nágranna sinna, sé hins vegar langt því frá eðlileg lýsing á aðstæðum.
„Þegar reynt hefur verið að ræða við þau hefur A oftar en einu sinni skellt hurðinni framan í viðmælandann, hótað lögfræðingi eða lögreglu, geiflað sig, gargað og sýnt ,puttann´. Þetta gerir hún fyrir framan börnin sín og hefur hegðun hennar við þau tækifæri einkennst af heift og ofsa.“
Þessa lýsingu telja stefnendur vera stórlega ýkta og ranga. Hér dragi stefndu upp mynd af stefnendum sem hömlulausum dónum og sé um afar meiðandi lýsingu að ræða. Stefnendur viðurkenni að í örfáum tilvikum hafi nágrannar þeirra komið og rætt við þau um það sem þeir telja að hafi farið aflaga í samskiptum stefnenda við aðra íbúa fjölbýlishússins. Stefnendur hafni því að hafa nokkurn tímann sýnt viðmælendum sínum „puttann“, eða „geiflað sig“ eða „gargað“ á viðmælendur sína, hvað þá að hegðun stefnenda hafi einkennst af heift eða ofsa. Í þeim tilvikum sem til deilna hafi komið hafi slíkt ekki haft nein áhrif á börn þeirra, eða gert sérstaklega fyrir framan þau. Sé þeirri lýsingu því hafnað sem ósannaðri.
„Í hnotskurn þá teljum við að ástandið á heimili þeirra A og B brjóti í bága við ákvæði barnaverndarlaga“
Í þessum ummælum felist mikill áfellisdómur yfir stefnendum sem foreldrum. Slíkan áfellisdóm eiga þau ekki að þurfa að búa við á svo hæpnum grundvelli sem stefnendur undirbyggja kvörtun til barnaverndaryfirvalda. Í fyrsta lagi séu umrædd ummæli ósönn og megi sjá það af niðurstöðu barnaverndaryfirvalda í kjölfar þeirra tilkynninga sem um ræði, en barnaverndaryfirvöld hafi nú alls þrisvar sinnum fellt niður mál gagnvart stefnendum án nokkurra athugasemda og án aðgerða eða nánari afskipta af stefnendum. Niðurstaða barnaverndaryfirvalda sýni að börn stefnenda búi við fullnægjandi heimilisaðstæður og uppeldi og líðan þeirra sé almennt góð og brjóti heimilisaðstæður stefnenda því síður en svo í bága við barnaverndarlög. Þegar stefndu setji fram svo alvarlegan áfellisdóm gagnvart nábúum sínum verði að gera kröfu til þeirra að viðkomandi hafi raunverulega eitthvað til síns máls, ekki eingöngu óljósar tilvísanir í svipi stefnenda og meintan hávaða sem eigi að vera á heimili stefnenda. Hvernig þau atriði sem nefnd séu í tilkynningunni brjóti í bága við barnaverndarlög sé óljóst. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að gera þær kröfur til stefndu að þau þekki skil á efnisreglum barnaverndarlaga þá sé fullum fetum hægt að gera þá kröfu til þeirra að ekki séu sett svo alvarleg ummæli fram í kvörtun til yfirvalda nema vissa sé fyrir því að börn stefnenda séu beitt einhvers konar órétti.
Þá segja stefnendur að það verði að telja að framangreind ummæli stefndu í stafliðum A-G varði við 234., 235. og 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, enda ljóst að ummæli stefndu séu bæði óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnenda, og hafi leitt ótvírætt til mikillar röskunar á einkalífi stefnenda, með rannsókn barnaverndaryfirvalda.
Hvað 234. gr. varði teljast öll framangreind ummæli í stafliðum A-G falla undir verknaðarlýsingu ákvæðisins og sé vísað í framangreinda lýsingu á ástæðum þess. Í öllum tilvikum falli verknaðurinn einnig undir 235. gr., verið sé að drótta að stefnendum án ástæðu, að þeir fari illa með börn sín, ummælin séu í flestum tilvikum bæði meiðandi og ósönn. Vísað sé nánar í rökstuðning varðandi hver og ein ummæli.
Hvað 1. mgr. 236. gr. varði telji stefnendur að öll ummæli í stafliðum A-G falli einnig undir verknaðarlýsingu ákvæðisins. Stefnendur telji að öll ummælin séu höfð í frammi gegn betri vitund um það raunverulega ástand sem til staðar sé í fjölbýlishúsinu að [...]. Ummælin séu annaðhvort ósönn eða stórlega ýkt og virðist eini tilgangur þeirra að vekja áhuga barnaverndaryfirvalda á ímynduðum ásökunum stefndu, svo hægt sé að gera stefnendum lífið óbærilegt. Ef það komi í ljós að einhverjir stefndu hafi ekki sjálfir upplifað þær lýsingar sem sé að finna í bréfinu og framangreindum ummælum, heldur tekið upp lýsingar fárra aðila á framkomu og samskiptum við stefnendur sé augljóst að þeirra verknaður falli undir 1. mgr. 236. gr. hegningarlaga. Þeir aðilar séu því að bera fram ummæli sem augljóslega séu ærumeiðandi, og skrifi undir þau sem þau séu sín eigin.
Nauðsynlegt sé að leggja áherslu á að afleiðingar þessarar tilkynningar stefndu séu ekki bara orðin tóm. Stefnendur hafi legið undir því frá því í janúar 2009 að þau fari illa með börnin sín, fjölskyldufaðirinn sé áfengissjúklingur og að þau beiti sínum eigin börnum fyrir sig í einhverjum nágrannaerjum og fái þau til þess að búa til einhvers konar hávaða allan liðlangan daginn. Þessar staðhæfingar séu auðvitað rangar og megi sjá það meðal annars af niðurstöðu barnaverndaryfirvalda í máli stefnenda.
Með ærumeiðandi ummælum sínum hafi stefndu gert það að verkum að barnaverndaryfirvöld hafi farið í ítarlega könnun á högum stefnenda m.a. með viðtölum, skólar dætra þeirra voru látnir vita að yfir stæði könnun af hálfu barnaverndaryfirvalda í [...]. Útbreiðsla ummælanna hafi því verið þó nokkur þrátt fyrir að þau hafi ekki verið gerð opinber. Sérstaklega sé alvarlegt að skólar barna þeirra fái þá mynd af stefnendum að þau fari illa með börnin sín. Vandséð sé að hægt sé að væna foreldra um eitthvað verra en það. Á þessum grundvelli telji stefnendur að þeim sé sá kostur nauðugur að höfða mál á hendur stefndu, bæði til þess að fá bættan þann tilfinningalega skaða sem þau hafi orðið fyrir sem og til þess að reyna að koma í veg fyrir áframhaldandi einelti stefndu gagnvart þeim.
Þá verði sérstaklega að benda á að tilhögun þessarar tilkynningar, orðalag hennar og efnisinnihald hafi beinlínis leitt til þess að farið var í ítarlega könnun á högum stefnenda. Það sé staðfest í bréfi sem stafi frá N, lögfræðingi Félagsþjónustu [...], dagsettu 17. nóvember 2009. Þar standi orðrétt: „Í ljósi þess að um var að ræða þriðju tilkynningu sem borist hafði barnavernd og varðaði börn umbj. þinna og að í þetta sinn stóðu nokkrir aðilar saman að tilkynningunni var talin ástæða til þess að hefja könnun.“ Fjöldi þeirra sem skrifa undir tilkynninguna og efnisinnihald hennar hefur því haft grundvallaráhrif á viðbrögð barnaverndaryfirvalda og sé það staðfest í þessu bréfi. Í bréfinu sé fjöldamörgum staðhæfingum lýst um framkomu og heimilislíf stefnenda, þessa lýsingu skrifi allir átta stefndu undir.
Með því hafi þeir staðfest að allt sem fram komi í bréfinu sé satt og rétt, ásamt því að þeir hafi persónulega upplifað þær lýsingar sem þar koma fram. Ef sú sé ekki raunin verði að meta það viðkomandi aðila til sakar að hafa skrifað undir bréf, þar sem sé að finna alvarlegar ásakanir, sem hann hafi ekki raunverulega vitneskju um að séu sannleikanum samkvæmar. Þau ummæli sem sérstaklega sé beint gegn stefnanda A verður að telja að séu einnig ærumeiðandi gagnvart stefnanda B í ljósi þess að afleiðingar ærumeiðingarinnar séu þær að barnaverndaryfirvöld taki upp rannsókn á heimilislífi stefnenda.
Ummæli stefndu verður einnig að meta í ljósi þess sem gerst hafi í fjölbýlishúsinu á undanförnum mánuðum og árum. Hér megi benda á tvö ábyrgðarbréf frá nokkrum stefndu þar sem kvartað sé yfir meintum hávaða og þeim einnig beinlínis hótað að úrræðum fjöleignarhúsalaga verði beitt gegn þeim, og vísað sérstaklega í 55. gr. l. 26/2994 um fjöleignarhús sem varði útburð. Virðist því sem hluti íbúa fjölbýlishússins vilji losna við þau úr húsinu, með góðu eða illu, og víli ekki fyrir sér að nota bæði barnaverndaryfirvöld og önnur úrræði sem þeim detti í hug að nota til að ná því markmiði. Þetta megi einnig skýrlega sjá af fundargerðabók húsfélagsins, en í bókina hafi verið límd grein þar sem farið er yfir ferilinn sem þarf að fara í áður en hægt sé að nýta 55. gr. fjöleignarhúsalaga. Einnig hafi húsfélagið leitað til lögfræðings vegna þessa, en það megi einnig sjá af fundargerðabókinni.
Ummæli hluta stefndu í þessum ábyrgðarbréfum um mikinn hávaða, sem sé til staðar frá morgni til kvölds, jafnvel fram yfir miðnætti á virkum dögum, séu sérkennileg að skoða í ljósi þess að lögregluyfirvöld hafi aldrei verið kölluð til vegna mikils hávaða, hvorki kvölds né morgna, en það mætti ætla að lögregla væri daglegur gestur á heimili stefnenda ef hávaðinn væri svo mikill sem haldið sé fram. Þá verði að benda sérstaklega á að þegar allar fjórar barnaverndartilkynningarnar sem vísað hefur verið til séu skoðaðar, ásamt þeim ábyrgðarbréfum sem vísað sé til hér að framan, megi sjá að ekki sé heil brú í þessum tilkynningum. Það sé augljóst að í öllum tilvikum sé um nágranna stefnenda að ræða, enda enginn annar í raun sem geti vitnað á þann hátt sem gert sé í tilkynningunum um atferli stefnenda og barna þeirra yfir langt tímabil. Í fyrstu barnaverndartilkynningu sé tilkynnt um andlegt og mögulega líkamlegt ofbeldi, í annarri tilkynningunni sé síðan talað sérstaklega um ofbeldi, í framhaldinu komi tvö ábyrgðarbréf frá hluta stefndu sem minnast á hávaða á heimili stefnenda. Ítarlega sé svo fjallað hér að framan um þriðju tilkynninguna sem varði fyrst og fremst hið svokallaða „hatursstríð“ stefnenda og hávaða sem því fylgi. Í fjórðu barnaverndartilkynningunni sé síðan tilkynnt um vanrækslu á börnum og það eina efnislega sem vísað sé til sé að stefnendur hafi keypt skóbúnað á börn sín gagngert til þess að valda hávaða. Af þessu megi sjá að þær barnaverndartilkynningar og ábyrgðarbréf sem send hafa verið virðast send í annarlegum tilgangi, án þess að hagur barna stefnenda sé í fyrirrúmi. Markmiðið virðist því eingöngu vera að vekja athygli barnaverndaryfirvalda á málefnum stefnenda með öllum tiltækum ráðum. Stefnendur efist í ljósi þessa að stefndu hafi borið hag barna sinna fyrir brjósti þegar tilkynning sú er mál þetta varðar hafi verið send.
Þá segir í stefnu að það lýsi vel hugarástandi stefndu F, og þá hvernig hún virðist heltekin af stefnendum, að hún taki sérstaklega saman skjal, sem lagt hafi verið fram á húsfundi húsfélagsins í [...], þar sem hún lýsi nákvæmlega atferli stefnenda og tiltaki það sem hún telji að brjóti í bága við húsreglur [...]. Þau atriði sem hún tiltaki séu í flestum tilvikum afar ómerkileg, hér megi t.d. nefna að stefnda F telji að það brjóti í bága við ákveðna reglu í húsreglum að dóttir stefnenda hafi litið út um gluggann skælbrosandi, en þegar hún hafi séð F hafi hún hætt að brosa. Listinn sé um fjölmörg atriði, sem flest séu afar veigalítil, annar stefnenda hafi dustað úr kúst af tröppunum hjá sér, hjól barna stefnenda sé staðsett á röngum stað, vatn hafi lekið af svölum stefnenda niður á svalir nágranna og fleira í þeim dúr. Í þessu skjali séu bæði sannar lýsingar, en einnig fjölmargar ósannar. Nauðsynlegt sé að benda á þetta skjal til að sýna fram á það hvernig viðhorf stefndu hefur verið gagnvart stefnendum.
2. Ærumeiðandi verknaður
Stefnendur telja að sá verknaður að tilkynna þau til barnaverndaryfirvalda án nægilegs tilefnis, sé einn og sér ærumeiðandi og varði við 234. gr. hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. orðalagið „Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum“. Ef talið verði sannað að umrædd ummæli séu annaðhvort sérstaklega meiðandi eða ósönn verði því að telja að þessi verknaður sé einn og sér ærumeiðandi, auk þeirra ummæla sem sérstaklega er beðið um ómerkingu á. Því sé krafist miskabóta vegna þess. Ekki sé hægt að hugsa sér verknað sem kastar meiri rýrð á æru manns en að saka hann um að hafa farið illa með börnin sín án þess að eitthvað raunverulegt liggi þar að baki.
Beri að minna á að ekki sé nauðsynlegt, svo verknaður eða ummæli séu ærumeiðandi, að þau séu borin út opinberlega. Verði því að meta verknaðinn og ummælin án tillits til þess hvort þau séu opinberuð eða ekki. Samt sem áður hafi þessi verknaður stefndu fengið ákveðna útbreiðslu með því að skólum barna stefnenda hafi verið tilkynnt um að yfir stæði rannsókn barnaverndaryfirvalda á högum þeirra. Í öllum tilvikum hafi umsjónarkennarar barna stefnenda þurft að gera umsögn um viðkomandi barn, umsjónarkennarar eru almennt þeir sem eru í mestum samskiptum við foreldra og hafi því þessi tilkynning bein áhrif á álit umsjónarkennara barna þeirra á stefnendum. Auk þess sé slík könnun á högum barna til þess fallin að koma af stað orðrómi þess efnis að eitthvað verulegt sé að á heimili dætra stefnenda, enda eiga barnaverndaryfirvöld ekki að fara í slíka könnun nema rökstuddur grunur sé til staðar um að eitthvað sé að á heimili barnanna, sbr. 5. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Umrædd tilkynning sé einnig í heild sinni afar sérkennileg, en þar sé til dæmis vísað til þess að stefnendur mæti ekki á sameiginlega húsfundi íbúa hússins, og að það dugi ekki að rétta þeim húsreglur fjölbýlishússins að [...] svo þau hætti þeirri háttsemi sem lýst sé í bréfinu. Hvernig það hafi áhrif á líðan barna þeirra er óljóst. Húsreglurnar séu nokkuð staðlaðar og hvergi sé minnst nokkuð á framkomu við sín eigin börn í þeim. Brot á þessum húsreglum geti líka aldrei varðað barnaverndaryfirvöld sérstaklega. Meginefni tilkynningarinnar sé kvörtun yfir umgengni stefnenda í húsinu, en framkoma þeirra við börn sín virðist vera aukaatriði. Í rauninni séu einungis örfá atriði sem varði börn stefnenda með beinum hætti í þessari tilkynningu, ásakanir um að beita börnum sínum til að framkalla hávaða og rifrildi við nágranna sína fyrir framan börnin sín. Öll önnur atriði varði fyrst og fremst ónæði sem stefndu verða fyrir vegna meints hávaða í fjölbýlishúsinu, og framkomu stefnenda gagnvart öðrum íbúum hússins.
3. Miskabótakrafa
Stefnendur, hvor fyrir sig, krefjast 200.000 króna í miskabætur frá hverju og einu stefnda. Heildarkrafa frá stefnanda A á hendur stefndu er því 1.600.000 krónur og heildarkrafa frá stefnanda B er einnig 1.600.000 krónur.
Stefnendur byggja á því að umrædd ummæli, sem fram koma í stafliðum A-G og sá verknaður að tilkynna stefnendur til barnaverndaryfirvalda, hafi valdið stefnendum miklum miska, ummælin séu tilefnislaus og afar meiðandi. Þau sé að finna í barnaverndartilkynningu til stjórnvalda sem í framhaldinu hafi farið í viðamikla og persónulega rannsókn á högum stefnenda. Þá varði þau ekki eingöngu stefnendur sem persónur, heldur kasti það einnig rýrð á þau sem uppalendur og gefi til kynna, eins og ítrekað hefur verið nefnt, að þau fari illa með börnin sín. Krafa stefnanda um miskabætur er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og sakarreglu skaðabótaréttar. Við mat á miskabótum vísa stefnendur til grunnraka að baki 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um frekari rökstuðning fyrir miskabótakröfu stefnenda er vísað til röksemda í umfjöllun um ummæli stefndu í liðum A-G hér að ofan og umfjöllun um verknað stefndu.
4. Samlagsaðild.
Stefnendur vilja taka af öll tvímæli um að þeir hafi hagsmuni af því að fara í mál þetta á grundvelli samlagsaðildar, sbr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Öll framangreind ummæli er fram koma í stafliðum A-G sem krafist er ómerkingar á enda var beint gagnvart stefnendum persónulega og því augljóst að þeim er heimilt að fara þessa leið við tilhögun stefnugerðar. Það sama eigi við um samlagsaðild til varnar.
5. Málskostnaðarkrafa.
Þess er krafist að stefndu greiði stefnendum málskostnað og er krafan byggð á 130. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess er krafist að dæmdur málskostnaður beri virðisaukaskatt.
Kröfur sínar um ómerkingu ummæla styðja stefnendur við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem og grunnrök þeirra sem búi að baki framangreindum lagagreinum. Stefnandi vísar einnig til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttar, þ.m.t. sakarreglunnar. Að því marki sem fjöleignarhúsalög nr. 26/1994 koma til álita í málinu er vísað til þeirra. Aðild, bæði til varnar og sóknar, styðst við 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfur um vexti, þar með talda dráttarvexti og vaxtavexti, styðja stefnendur við reglur III.-V. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 32 gr. laga númer 91/1991.
Frávísunarkrafan.
Aðalkrafa stefndu byggir á því að aðild, bæði til sóknar og varnar, sé verulega áfátt og brjóti í bága við lög um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá sé stefnan að öðru leyti vanreifuð hvað varði málsástæður og röksemdir og óútskýrt í hverju meint sök stefndu felst. Þá sé ekki á nokkurn hátt gerð grein fyrir bótagrundvelli né meintu tjóni stefnenda. Þá hafi stefnendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá ofangreind ummæli ómerkt.
Hvað varðar aðild til varnar byggja stefndu á því að stefnendur hafa fallið frá málssókn á hendur einum stefnda. Með bréfi, dagsettu 14. september 2010, hafi stefnda D dregið undirritun sína á tilkynningu til barnaverndaryfirvalda [...], dagsetta þann 15. september 2009, til baka. Við þingfestingu málsins tilkynntu stefnendur að fallið hefði verið frá málssókn á hendur D. Að mati stefndu grafi þessi ákvörðun stefnenda undan öllum málatilbúnaði þeirra. Af hálfu stefnenda sé á því byggt að það beri að ómerkja þau ummæli sem fram komi í tilkynningu til barnaverndarnefndar. Jafnvel þótt svo færi að dómari kæmist að þeirri niðurstöðu að einhver ummæli skyldu dæmd ómerk myndi það einungis ná til stefndu í máli þessu en ekki D. Myndu ummæli D um stefnendur því enn standa óhögguð, enda verða ummæli eðlilega ekki ómerkt með því einu að draga undirritun til baka. Er vandséð hvernig hagsmunum stefnenda sé betur borgið með því að ein manneskja hafi viðhaft ummæli sem þeim líkar illa í stað átta aðila.
Þá byggi allur málatilbúnaður stefnenda á því að það hafi verið þau ummæli í tilkynningu til barnaverndarnefndar sem hafi valdið þeim miklum miska. Af stefnu megi því ráða að stefnendur telji að hinn ærumeiðandi verknaður hafi verið framinn þann 15. september 2009 eða þann dag er barnaverndartilkynningin var skrifuð. Ljóst sé að stefnendur telji að þau hafi orðið fyrir tjóni þann sama dag og fær það stuðning í framsetningu vaxtakröfu í dómkröfukafla stefnunnar. Þykir stefndu það því skjóta skökku við að málshöfðunin á hendur D sé felld niður þar sem hún hafi dregið undirritun sína til baka ári eftir að hún skrifaði undir tilkynninguna, enda hafi hið ætlaða tjón löngu verið komið fram sé litið til þeirra málsástæðna sem fram komi í stefnunni.
Þá byggi stefnendur á 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en þar segir að vísa skuli máli frá dómi ef öllum þeim sem bera óskipta skyldu er ekki veittur kostur á að svara til saka. Í 1. mgr. 18. gr. laganna er tekið fram að þeir eigi óskipta aðild sem bera óskipta skyldu. Stefndu byggja á að D beri jafn ríka ábyrgð á umþrættum ummælum og stefndu og beri því að svara til sakar líkt og aðrir stefndu í málinu, enda ritaði hún, ásamt öllum stefndu, undir barnaverndartilkynninguna. Stefna hafi verið birt fyrir D en stefnendur hafa ekki með nokkru móti útskýrt af hvaða sökum málssókn á hendur D hafi verið felld niður. Er um slíkan réttarfarslegan annmarka á málatilbúnaði stefnenda að ræða að vísa beri máli frá dómi. Við munnlegan málflutning varðandi þennan þátt, vísuðu stefndur til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um óskipta aðild. Afturköllun á undirritun hennar hafi enga þýðingu í málinu. Því beri að höfða málið gegn henni.
Þá sé aðild sóknaraðila að sama skapi verulega vanreifuð. Ekki sé með nokkru móti gerð grein fyrir því hvernig B hafi lögvarða hagsmuni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, af því að ummæli í staflið E og staflið F í stefnu verði dæmd ómerk. Ljóst sé að ummælin beinast einungis að A en ekki B. Á bls. 9 í stefnu sé vikið að því að þau ummæli sem beinist að A séu einnig ærumeiðandi gagnvart B. Skortir allan rökstuðning fyrir þessari staðhæfingu, enda sé með öllu ósannað að þau ummæli sem fram komi í stafliðum E og F hafi verið ástæða þess að barnaverndaryfirvöld hófu rannsókn á aðstæðum á heimili stefnenda. Þá hafi umrædd ummæli ekki farið í opinbera umræðu og eingöngu verið tilkynning til barnaverndaryfirvalda. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna alla stefndu af kröfum B hvað varðar stafliði E og F sökum aðildarskorts í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 16. gr. sem og 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála.
Þá skorti verulega á að stefna uppfylli skilyrði d-, e- og g-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Allur málatilbúnaður stefnenda sé vanreifaður, engin grein sé gerð fyrir því að hvaða leyti þau ummæli sem krafist er ógildingar á séu ærumeiðandi né að hvaða leyti þau teljist aðdróttun.
Þá sé bótakrafa stefnenda órökstudd og sé það óútskýrt af hverju stefndu eiga að bera ábyrgð á hinu meinta tjóni stefnenda. Bótakrafan sé einnig verulega vanreifuð. Fjárhæðin, 200.000 krónur til handa hvorum stefnanda fyrir sig úr hendi hvers og eins stefnda ásamt vöxtum frá 15. september 2009, sé úr lausu lofti gripin. Enga sundurliðun sé að finna á dómkröfunni en krafan sé allt í senn byggð á ærumeiðandi verknaði, aðdróttunum og útbreiðslu ærumeiðandi aðdróttana. Hins vegar sé ekki fjallað á neinn hátt um hvaða ætlaða tjón sé vegna hvers hlutar fyrir sig og því síður að sýnt sé fram á að stefndu hafi meitt æru stefnenda eða dróttað að stefnendum.
Að auki sé vaxtakrafa vanreifuð og órökstudd. Krafist sé vaxta frá 15. september 2009 án þess að gerð sé grein fyrir því af hverju miða eigi við það tímamark en hvergi kemur fram að hið meinta tjón stefnenda hafi komið fram á þeim tímapunkti.
Svo virðist sem að stefnendur byggi á því að af þeim sé létt allri sönnunarbyrði hvað varði hið meinta tjón með því einu að vísa til þess að barnaverndarnefnd [...] hafi ekki talið ástæðu til þess að grípa til aðgerða á heimili stefnanda. Á því virðist byggt að með því einu hafi stefnendur sýnt fram á að ummæli stefndu séu orðin tóm.
Þá byggja stefndu á því að verulega skorti á að gerð sé grein fyrir hvernig barnaverndartilkynningin hafi leitt til bótaskyldrar háttsemi. Skorti verulega á að gerð sé grein fyrir orsakatengslum og sennilegri afleiðingu, þrátt fyrir að stefnendur byggi á sakarreglu skaðabótaréttar.
Að öllu ofansögðu og samkvæmt almennum réttarfarsreglum sé stefnan svo verulega vanreifuð, bæði hvað varðar aðild, til sóknar og varnar, sem og málsástæður að vísa beri máli þessu frá.
Stefnendur krefjast þess að kröfum stefndu um frávísun málsins frá dómi verði hafnað.
Kveða þeir málsgrundvöllinn vera skýran. Engu skipti þótt mál gagnvart stefndu D hafi ekki verið þingfest þar sem samkomulag hafi náðst milli hennar og stefnenda. Samkomulagi þeirra megi líkja við réttarsátt. D búi ekki lengur að [...] en ástæða málsóknar hafi verið að hluta til til þess að koma í veg fyrir frekara áreiti og einelti nágranna. Þá eigi tilvísun stefndu til 2. mgr. 18. gr. laga ekki við þar sem öllum, sem skrifuðu undir yfirlýsinguna, hafi verið veittur kostur á að svara til saka, enda stefnan birt fyrir þeim öllum. Aðildarskortur leiði til sýknu og aðild til sóknar hafi verið rökstudd í stefnu. Þá séu afleiðingar ummæla í staflið e og f þær að þau teljist einnig ærumeiðandi fyrir stefnanda B. Þá mótmæla stefnendur því að málatilbúnaður þeirra sé vanreifaður og skýrlega komi fram í kaflanum „málsástæður“ að öll ummæli í liðum a-g falli undir verknaðarlýsingu 234.-236. gr. almennra hegningarlaga. Þá séu málsástæður og málsatvik skýr í stefnu. Þá kveða stefnendur bótakröfuna vera ítarlega reifaða en einstök ummæli og sá verknaður að tilkynna stefnendur til barnaverndaryfirvalda án ástæðu hafi valdið stefnendum miska samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Niðurstaða:
Stefnendur byggja samlagsaðild sína til sóknar og varnar á 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, bæði í stefnu og við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna. Stefndu byggja m.a. kröfu sína um að málinu verði vísað frá dómi á því að öllum stefndu sé ekki gert að svara til saka í málinu þar sem fallið hafi verið frá kröfum á hendur einum stefnda, D, og því séu skilyrði 2. mgr. 18. gr. laganna ekki uppfyllt. Við munnlegan málflutning byggði sóknaraðili á því að skilyrði 18. gr. laga nr. 91/1991, um samaðild, væri ekki uppfyllt og því bæri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá.
Í máli þessu er ágreiningur um aðild, bæði til sóknar og varnar. Varðandi aðildina til sóknar, þá gera báðir stefnendur kröfu um ómerkingu ummæla, sem snúa ýmist að þeim báðum, sbr. staflið a-d og g. Hins vegar snúa ummælin í staflið e og f eingöngu að stefnanda A. Ummælin stafa hins vegar öll frá sama gjörningi og geta stefnendur gert sömu dómkröfur á stefndu í aðskildu máli. Samlagsaðildin er því málinu til hagsbóta. Samkvæmt því er skilyrði 19. gr. laganna uppfyllt. Varnir byggðar á aðildarskorti leiða til sýknu sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þá er ágreiningur um aðildina til varnar. Undir rekstri málsins féllu stefnendur frá kröfum á hendur stefndu D. Í gögnum málsins liggur fyrir yfirlýsing frá D, stíluð á Oddgeir Einarsson, Opus lögmönnum, þann 14. september 2010, þar sem hún kveðst draga formlega til baka undirritun sína á tilkynningu til barnaverndaryfirvalda [...], dagsetta þann 15. september 2009. Af gögnum málsins verður ekki annað skilið en að tilkynning stefndu til barnaverndaryfirvalda hafi gert það að verkum að barnaverndaryfirvöld fóru í ítarlega könnun á högum stefnenda, m.a. með viðtölum við skólayfirvöld. Telja stefnendur að með því hafi útbreiðsla ummælanna orðið þó nokkur þrátt fyrir að þau hafi ekki verið gerð opinber. Könnun barnaverndaryfirvalda lauk með bréfi til stefnenda dagsett 12. febrúar 2010. Málshöfðun þessi hófst með birtingu stefnu þann 8. september 2010. Þá þegar hafði undirritun stefndu D, á tilkynninguna til barnaverndarnefndar, haft þá verkun að sérstök könnun fór af stað. Af þeim sökum hlýtur aðild stefndu D að vera nauðsynleg, þar sem yfirlýsing hennar ein og sér hjá lögmanni stefnenda getur ekki haft sömu réttaráhrif og dómsniðurstaða um ómerkingu ummæla. Af þeim sökum ber, með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, að vísa máli þessu frá dómi.
Þá liggur fyrir að stefndu tilkynntu til barnaverndaryfirvalda, með bréfi dagsettu 15. september 2009, um áhyggjur sínar af velferð barna stefnenda með vísan til barnaverndarlaga. Sú tilkynning er trúnaðarmál, sbr. 8. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og auðkennd þannig í gögnum málsins. Hefji barnaverndaryfirvöld könnun í framhaldi tilkynningar, er það gert í skjóli þess trúnaðar sem þeim ber að virða og á þeim hvílir. Ekkert er fram komið í máli þessu um að hugleiðingar stefndu um atvik og meinta háttsemi stefnenda hafi farið til skólayfirvalda barna stefnenda eða gerðar að öðru leyti opinberar. Könnun barnaverndaryfirvalda lauk með bréfi til stefnenda þann 12. febrúar 2010. Þá kröfðust stefnendur þess við fyrstu fyrirtöku málsins að þinghöld yrðu lokuð með vísan til a-liðar 1. mgr. 8. gr. laga nr. 91/1991 þar sem að börn stefnenda kæmu að málinu og um barnaverndarmál hefði verið að ræða. Var þeirri kröfu mótmælt af hálfu stefndu. Var ákvörðun dómara sú að þinghöld skyldu haldin fyrir luktum dyrum. Með vísan til þess sem að ofan er sagt, verður ekki séð að lögvarðir hagsmunir stefnenda geti snúið að öðrum en stefndu í máli þessu. Eins og áður sagði, þá voru umþrætt ummæli viðhöfð í tilkynningu til barnaverndaryfirvalda þar sem um trúnaðarmál er að ræða og ekki hefur verið sýnt fram á að um útbreiðslu ummælanna hafi verið að ræða. Í ljósi þessa hafa stefnendur með engum hætti gert grein fyrir því að lögvarðir hagsmunir þeirra standi allt að einu til þess að efnisdómur gangi um þá kröfu þeirra.
Með vísan til alls þess sem að ofan er rakið ber að vísa máli þessu í heild sinni frá dómi.
Í málinu hefur verið lagður fram mikill fjöldi gagna, sem varða húsfélag [...], sem verður ekki séð að hafi neina þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Auk þess er stefnan samtals 13 blaðsíður og greinargerð stefndu 18 blaðsíður. Er í báðum tilvikum nánast um skriflegan málflutning að ræða. Er málatilbúnaður þessi ekki í samræmi við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað.
Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða stefnendur til þess að greiða stefndu, C, E, F, G, H, I og J, málskostnað in solidum, sem þykir hæfilega ákveðinn samtals 300.000 krónur og hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefndu.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ú r s k u r ð u r
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, A og B, greiði stefndu, C, E, F, G, H, I og J, in solidum, samtals 300.000 krónur í málskostnað. Hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefndu.