Hæstiréttur íslands

Mál nr. 385/1998


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Dráttarvextir
  • Málatilbúnaður
  • Ómerking
  • Heimvísun


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 6. maí 1999.

Nr. 385/1998.

Stefán Stefánsson

(Þorsteinn Júlíusson hrl.)

gegn

Ferðamálasjóði

(Jónatan Sveinsson hrl.)

Skuldabréf. Dráttarvextir. Málatilbúnaður. Ómerking. Heimvísun.

F stefndi S til greiðslu eftirstöðva skuldabréfs. Ágreiningur var með aðilum um hvort kostnaður og dráttarvextir hefðu verið ofteknir við þær greiðslur sem þegar höfðu verið inntar af hendi. F lagði ekki fram útreikninga vegna þessara atriða og var talið að málatilbúnaður F hefði í upphafi ekki verið svo skýr sem krefjast mátti. Talið var að héraðsdómur hefði mátt hafna frávísunarkröfu S þar sem bæta mátti úr þessu undir rekstri málsins. Á hinn bóginn hefði héraðsdómur þá átt að leita eftir skýringum hjá F vegna þessa. Þetta var þó ekki gert og var málið dæmt í héraði án þess að S fengi kost á að koma að sjónarmiðum sínum vegna útreiknings F á þessum liðum. Var meðferð málsins fyrir héraðsdómi eftir uppkvaðningu frávísunarúrskurðarins því ómerkt og málinu vísað aftur heim í hérað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Haraldur Henrysson, og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 16. september 1998. Hann krefst þess að dómkröfum stefnda verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann þess að hann verði sýknaður að svo stöddu af kröfum stefnda. Í báðum tilfellum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms með þeirri breytingu, að til frádráttar dæmdri fjárhæð komi 23.124 krónur, sem áfrýjandi hafi greitt inn á skuldina 15. janúar 1996.  Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Kröfur áfrýjanda eru óbreyttar frá því er var í héraði. Með úrskurði héraðsdóms 2. mars 1998 var kröfu hans um frávísun hafnað. Í áfrýjunarstefnu sér þess engin merki að þeim úrskurði sé áfrýjað. Er áfrýjandi því við þann úrskurð bundinn og kemur frávísun málsins ekki til álita fyrir Hæstarétti nema að því leyti, sem rétturinn gætir þess af sjálfsdáðum.

I.

Ágreiningur málsaðila varðar innheimtu skuldabréfs, sem áfrýjandi gaf út til stefnda 12. desember 1990, með fimm jöfnum afborgunum á gjalddögum 10. desember ár hvert, í fyrsta sinn 1991. Samkvæmt skýringum lögmanns stefnda fyrir Hæstarétti telur hann að fyrstu þrjár afborganirnar séu að fullu uppgerðar og mál þetta varði eingöngu innheimtu tveggja síðustu afborgananna, að því þó undanskildu að áfrýjandi hafi greitt 23.124 krónur inn á fjórðu afborgun lánsins. Fyrir Hæstarétti dró hann þessa innborgun frá dæmdri fjárhæð í héraði. Stefndi krefst þess að innheimtum vegna fyrri afborgana verði haldið utan máls þessa því að með þær hafi verið farið sem sjálfstæð innheimtumál.

Áfrýjandi ber ekki brigður á að hann skuldi stefnda en hefur hins vegar haldið því fram að kröfugerð stefnda sé vanreifuð að því er varðar ráðstöfun þess fjár sem hann hafði þegar greitt stefnda inn á skuldabréfið. Honum sé því ókleift að móta kröfur sínar og halda uppi vörnum í málinu. Bendir hann á í því sambandi að stefndi hafi við upphaflega kröfugerð í héraði krafist  dráttarvaxta, sem hafi verið dæmdir ólögmætir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 1997 í máli Hótels Leifs Eiríkssonar ehf. gegn stefnda, sem hafi unað dóminum. Af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en stefndi hafi við innheimtu fyrri afborgana skuldabréfsins reiknað sér þessa ólögmætu dráttarvexti. Hefur áfrýjandi frá upphafi málsins í héraði krafist þess að stefndi gerði grein fyrir þessari töku dráttarvaxta. Þá heldur hann því fram að stefndi hafi við þá innheimtu ljóslega reiknað sér kostnað við meðferð uppboðsmáls, en uppboðsheimild sé ekki í skuldabréfinu. Í báðum tilvikum geti verið um að ræða fjárhæðir sem dragast eigi frá stefnufjárhæð.

II.

Fyrir héraðsdóm voru lögð yfirlit um fyrri innheimtu stefnda vegna skuldabréfsins án þess að skýrt komi fram hvaða dráttarvextir voru þá reiknaðir. Verður að fallast á það með áfrýjanda að hugsanlega ofteknir dráttarvextir hefðu mátt  koma til lækkunar á kröfum stefnda í þessu máli. Sama gat gilt um oftekinn uppboðskostnað. Málatilbúnaður stefnda var ekki í upphafi máls svo skýr sem krefjast mátti, sbr. e. lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og þótt hann hefði nokkuð skýrst með framlögðum skjölum við meðferð málsins skorti enn á um skýrleika hans, þegar  héraðsdómari hafnaði frávísunarkröfu áfrýjanda. Þar sem sú leið var valin í héraði var mikilvægt að héraðsdómur leitaði eftir því samkvæmt 3. mgr. 101. gr. sömu laga, sbr. og 2. mgr. sömu greinar, að fá skýrar yfirlýsingar hjá stefnda þessu lútandi fyrir aðalflutnings málsins í héraði. Áfrýjandi hefði þá átt þess kost, ef á þurfti að halda, að bera fram mótmæli sín og hugsanlegar kröfur til lækkunar kröfum stefnda. Yrði stefndi ekki við kröfum dómara í þessu efni hefði hann getað vísað málinu frá dómi þrátt fyrir fyrri úrskurð. Héraðsdómari, sem tók við málinu eftir uppkvaðningu þessa úrskurðar, lagði hins vegar dóm á málið án nokkurra frekari skýringa stefnda eða útreikninga, auk þess sem hann virðist hafa gengið út frá því að áfrýjandi krefðist sýknu af  kröfum stefnda, en hann krefst sýknu að svo stöddu svo sem að framan greinir.

Þegar framangreint er virt þykir ekki hjá því komist að ómerkja héraðsdóm og meðferð málsins eftir uppkvaðningu úrskurðar þar sem frávísun var hafnað og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju.

Samkvæmt þessum úrslitum ber stefnda að greiða áfrýjanda upp í málskostnað fyrir Hæstarétti 40.000 krónur.

                                                    Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur og meðferð málsins eftir 2. mars 1998 eru ómerkt og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Stefndi, Ferðamálasjóður, greiði áfrýjanda, Stefáni Stefánssyni, 40.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. f.m. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ferðamálasjóði, kt. 630179-0689, Hverfisgötu 6, Reykjavík, á hendur Stefáni Stefánssyni, kt. 270853-4939, Starrahólum 9, Reykjavík, með stefnu sem birt var 23. júní 1997.

Dómkröfur aðalstefnanda: Endanlegar dómkröfur aðalstefnanda eru þær að aðalstefndi verði dæmdur til þess að greiða aðalstefnanda USD 11.035,46 auk vaxta p.a. sem nema millibankavöxtum á USD á erlendum fjármagnsmörkuðum, LIBOR, auk 2% vaxtaálags frá 20.12.1993 til 20.12.1994 en með dráttarvöxtum af USD skv. aug­lýsingu Seðlabanka Íslands á grundvelli vaxtalaga nr. 25/1987 frá þ.d. til greiðsludags. Að staðfestur verði 8. veðréttur og uppfærsluréttur aðalstefnanda í fasteigninni Starra­hólum 9, Reykjavík. Að aðalstefndi verði dæmdur til þess að greiða aðalstefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Dómkröfur aðalstefnda: Aðalstefndi gerði upphaflega þær dómkröfur að kröfum aðalstefnanda yrði vísað frá dómi og aðalstefnanda yrði gert að greiða aðalstefnda málskostnað að mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti. Aðalstefndi gerði þá varakröfu að hann yrði sýknaður að svo stöddu af öllum kröfum aðalstefnanda og aðalstefnanda yrði gert að greiða aðalstefnda málskostnað að mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur aðalstefnda í gagnsök: Með stefnu, sem birt var 14. maí 1997, gagnstefndi aðalstefndi aðalstefnanda, eru gerðar þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að láns- og endurgreiðslukjör á láni aðalstefnanda til aðalstefnda skv. skuldabréfi, útg. 12.12.1990, að fjárhæð USD 27.588,74 hafi verið ólögmæt. Auk þess er gerð krafa um það að aðalstefnanda verði gert að greiða aðalstefnda málskostnað að mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur aðalstefnanda í sakaukastefnu: Með sakaukastefnu, sem lögð var fram í málinu í þinghaldi 22. maí 1997, stefndi aðalstefnandi Vönum ehf., kt. 690494-2809, Brautarholti 22, Reykjavík, til að þola staðfestingu 8. veðréttar og uppfærslu­réttar stefnanda í fasteign sakaukastefnda að Starrahólum 9, Reykjavík. Að auki krafð­ist aðalstefnandi þess að sakaukastefnda yrði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Sakaukastefndi krafðist aftur á móti sýknu auk málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda eins og fram kemur í greinargerð hans, sem lögð var fram 26. júní 1997.

Á dómþingi 4. september sl. lagði aðalstefnandi fram greinargerð sína í gagnsök. Þar gerir hann aðallega þær dómkröfur að kröfum aðalstefnda í gagnsök verði vísað frá dómi.

Með úrskurði uppkveðnum 2. mars 1998 var kröfum aðalstefnda í gagnsök vísað frá dómi að kröfu aðalstefnanda enda var meira en mánuður liðinn frá þingfestingu aðalsakar og þar til gagnstefnan var birt sbr. 2. ml. 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sömuleiðis var frávísunarkröfu aðalstefnda hafnað þar sem kröfur aðalstefnanda þóttu ekki vanreifaðar, enda þótt hann hafi ekki að mati aðalstefnda gert fullnægjandi grein fyrir greiðslum, sem aðalstefndi taldi sig hafa innt af hendi til greiðslu á veðskuldabréfi.

Málsatvik, málsástæður og lagarök.

Ágreiningur aðila byggist á skuldabréfi, útg. 12. desember 1990 í Reykjavík, nr. 823, sem aðalstefndi gaf út til stefnanda í kjölfar lánveitingar sjóðsins til stefnda. Var lánið upphaflega USD 27.588,74. Skyldi til viðbótar greiðslu afborgunar og vaxta greiða á gjalddaga, eða á síðari greiðsludegi, verðbætur á afborgunar- og vaxtagreiðslur sem miðuðust við breytingu á skráðu sölugengi á USD frá 54,37 kr. sem var gengi USD á útborgunardegi lánsins. Þá skyldu eftirstöðvar lánsins breytast á sama hátt.

Aðalstefndi skuldbatt sig til þess að greiða af láninu með 5 jöfnum árlegum greiðslum afborgana og vaxta hinn 20. desember ár hvert, í fyrst sinn þann 20. desember 1991.

Vextir skyldu vera 2% yfir millibankavöxtum á erlendum fjármagnsmörkuðum, (LIBOR), sem aðalstefnandi hefur undirgengist að greiða sínum lánveitendum, sem eru m.a. Norræni fjárfestingarbankinn NIB og Framkvæmdasjóður Íslands. Skyldu vextir reiknast frá útborgun lánsins sem var útgáfudagur skuldabréfsins.

Greiðslustaður lánsins var Búnaðarbanki Íslands, aðalbanki, Austurstræti, Reykjavík og var skuldabréfið vistað þar til innheimtu.

Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, vaxta verðbóta og alls kostnaðar, var aðalstefnanda sett að veði, með 8. veðrétti og uppfærslurétti, fasteignin að Starrahólum 9, Reykjavík, sem þá var þinglesin eign aðalstefnda Stefáns Stefáns­sonar. Þegar að því kom að stefna skuldara lánsins fyrir dómstóla vegna vanskila, kom í ljós að eigendaskipti höfðu orðið að umræddri fasteign og aðalstefnanda því nauðugur einn kostur að stefna nýjum eigendum fasteignarinnar, Vönum ehf., með sakaukastefnu til að þola viðurkenningu á veðréttinum. Sakaukastefndi fellst á uppfærslu á veðréttinum en gerir þá kröfu að það verði ekki gert á hans kostnað.

Aðalstefndi hefur ekki greitt af skuldabréfinu frá og með gjalddaga 20.12.1994 og er því krafist samningsvaxta frá 20.12.1993 til 20.12.1994, en dráttarvaxta skv. auglýsingu Seðlabanka Íslands á grundvelli vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefnandi vísaði upphaflega til 3. gr. sbr. IV. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 sbr. og IV. kafla l. nr. 117/1994 sbr. og ákvæði eldri laga nr. 79/1985 um heimild og skyldu sjóðsstjórnar og ráðherra til þess að leggja til og ákveða um vaxtakjör sjóðsins í sínum útlánum. Um lagaskyldu vísaði aðalstefnandi til innheimtu ábyrgðargjalds úr hendi aðalstefnda. Vísaði aðalstefnandi til l. nr. 37/1961 um ríkisábyrgðir, sbr. l. nr. 68/1987, svo og til reglugerðar nr. 450 frá 2. október 1987.

Við aðalmeðferð málsins breytti aðalstefnandi vaxtakröfu sinni og vísaði eingöngu til auglýsingar Seðlabanka Íslands um dráttarvexti á grundvelli vaxtalaga nr. 25/1987.

Aðalstefnandi krefst málskostnaðar með vísan til 21. kafla laga nr. 91/1991 auk greiðslu virðisaukaskatts.

Aðalstefndi hefur haldið því fram að sýkna bæri hann að svo stöddu og vísar í því sambandi til 1. og 2. mgr. 1. gr. tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798.

Aðalstefnandi heldur því fram að umrætt ákvæði sé fallið úr gildi fyrir notkunarleysi (desvetudo) þar sem ekki tíðkist lengur að árita skuldabréf.

Aðalstefndi krefst málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málskostnað.

Niðurstaða.

Við meðferð málsins fyrir dómi hefur ágreiningsefnum aðila fækkað. Það eina sem aðilar deila nú um er varakrafa aðalstefnda um sýknu. Krafa aðalstefnda um sýknu byggist á 1. og 2. mgr. 1. gr. tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798, þ.e. að ekki hafi verið farið eftir því ákvæði þegar aðalstefndi greiddi af bréfinu. Ekki verður fallist á röksemd aðalstefnanda að ákvæðið sé fallið niður fyrir notkunarleysi, en nútímaviðskiptahættir eru með þeim hætti að löngu er hætt að árita á skuldabréf um greiðslu afborgana. Þó að bréfið hafi ekki verið áritað um greiðslu svo sem mælt er fyrir um í hinni fornu tilskipun veitir það aðalstefnda ekki heimild til að hætta greiðslum af því. Það er óumdeilt að aðalstefndi tók lán hjá aðalstefnanda á árinu 1990. Lánið skyldi endurgreiðast með fimm jöfnum afborgunum. Greiðslur aðalstefnda féllu niður frá og með gjalddaga í desember 1994 og hefur hann því aðeins greitt þrjár afborganir af fimm. Aðalstefndi skuldar aðalstefnanda enn eftirstöðvar bréfsins ásamt vöxtum og dráttarvöxtum. Aðalstefndi þykir ekki hafa sýnt fram á það með neinum hætti að krafa hans um sýknu eigi að ná fram að ganga. Ekki verður fallist á sýknukröfu aðalstefnda með vísan til þess að aðalstefnandi hafi ekki látið árita skuldabréfið um greiðslu svo sem lögboðið er.

Þegar litið er til þess sem hér að framan er rakið, er fallist á kröfur aðalstefnanda þess efnis að aðalstefndi greiði honum USD 11.035,46 auk vaxta svo sem nánar greinir í dómsorði.

Fasteignin Starrahólar 9 var eign aðalstefnda við útgáfu skuldabréfsins. Hún var sett að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, vaxta og verðbóta og alls kostnaðar. Núverandi eigandi fasteignarinnar er Vanir ehf. Framkvæmdarstjóri þess fyrirtækis er aðalstefndi Stefán Stefánsson og hefur hann prókúruumboð þess. Í stjórn er Kristinn Arnar Stefánsson og Eggert Magnús Ingólfsson. Aðalstefndi sakaukastefndi Vönum ehf. núverandi eiganda hinnar veðsettu eignar nr. 9 við Starrahóla í Reykjavík, til að þola staðfestingu á veðrétti. Sakaukastefndi hefur ekki mótmælt þeirri kröfu.

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið er staðfestur 8. veðréttur og uppfærsluréttur sakaukastefnanda Ferðamálasjóðs í fasteigninni Starrahólum 9, Reykjavík, eign sakaukastefnda Vana ehf.

Aðalstefndi greiði aðalstefnanda málskostnað að fjárhæð 190.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Halla Bachmann Ólafsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Aðalstefndi, Stefán Stefánsson, greiði aðalstefnanda, Ferðamálasjóði, USD 11.035,46 auk vaxta sem nemur millibankavöxtum á USD á erlendum fjármagnsmörkuðum, LIBOR, auk 2% vaxtaálags frá 20.12.1993 til 20.12.1994, en með dráttarvöxtum af USD skv. auglýsingu Seðlabanka Íslands á grundvelli vaxtalaga nr. 25/1987 frá þ.d. til greiðsludags.

Staðfestur er 8. veðréttur og uppfærsluréttur sakaukastefnanda Ferðamálasjóðs í fasteign sakaukastefnda Vana ehf. að Starrahólum 9, Reykjavík.

Aðalstefndi greiði aðalstefnanda málskostnað að fjárhæð 190.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.