Hæstiréttur íslands
Mál nr. 605/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Samlagsaðild
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 18.desember 2007. |
|
Nr. 605/2007. |
GulfCrown Seafood Company Inc. (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Rekstrarfélaginu hf. og (Kristinn Bjarnason hrl.) Optimar Ísland ehf. (Elvar Örn Unnsteinsson hrl.) |
Kærumál. Samlagsaðild. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
G kærði úrskurð héraðsdóms sem vísaði máli hans gegn R hf. og O ehf. frá dómi einkum á þeim grunni að G hefði ekki gert skýra grein fyrir hvern hann teldi vera þátt hvors um sig við ætlaðar vanefndir né hvers væri krafist af hvorum aðila. Í dómi Hæstaréttar sagði að eins og atvikum málsins væri háttað yrði að telja að uppfyllt væri skilyrði fyrir samlagsaðild R hf. og O ehf. samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hins vegar skorti svo mjög á að G hefði gert á gagnorðan og skýran hátt grein fyrir grundvelli krafna sinna og samhengi við málsástæður að fallast bæri á með héraðsdómara að vísa málinu frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14., 19. og 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar, Rekstrarfélagið hf. og Optimar Ísland ehf., krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins atvikum málsins er háttað verður að telja að uppfyllt séu skilyrði fyrir samlagsaðild varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfugerð sóknaraðila í stefnu er í fjölmörgum liðum. Svo mjög skortir á að sóknaraðili hafi gert á gagnorðan og skýran hátt grein fyrir grundvelli krafna sinna og samhengi við málsástæður, einkum hvað varðar kröfur hans á hendur báðum varnaraðilum um riftun samnings, ógildingu, aflsátt og um miskabætur, að fallast ber á það með héraðsdómara að vísa málinu frá dómi.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er óraskaður.
Sóknaraðili, GulfCrown Seafood Company Inc., greiði varnaraðilum, Rekstrarfélaginu hf. og Optimar Ísland ehf., hvorum um sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 2. október sl., er höfðað með stefnu, útgefinni 7. mars 2006.
Stefnandi er Gulf Crown Seafood Company Inc. 809 South Railroad Street, Delcambre, LA 70528, Louisiana, Bandaríkjunum.
Stefndu eru Rekstrarfélagið hf. (áður nefnt Ískerfi hf.), Austurstræti 11, Reykjavík og Optimar Ísland ehf., Stangarhyl 6, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Aðallega að viðurkennd verði riftun stefnanda frá 14. júlí 2005 á kaupsamningi um
Liquid Ice kælikerfi, dags. 7. nóvember 2002, og samningi um kaup á viðbótar 1400
lítra vatnstanki, dags. 9. desember 2002.
Jafnframt að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur sem nemur fjárhæð $1.890.886,47- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þingfestingardegi til greiðsludags.
2. Til vara að viðurkennd verði riftun stefnanda frá 14. júlí 2005 á kaupsamningi um
Liquid Ice kælikerfi, dags. 7. nóvember 2002, og samningi um kaup á viðbótar 1400
lítra vatnstanki, dags. 9. desember 2002.
Jafnframt að stefndu verði gert að greiða stefnanda lægri fjárhæð skaðabóta að mati dómsins með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þingfestingardegi til greiðsludags.
3. Til þrautavara að dómurinn ógildi kaupsamning um Liquid Ice kælikerfi, dags. 7.
nóvember 2002, og samningi um kaup á viðbótar 1400 lítra vatnstanki, dags. 9.
desember 2002.
Jafnframt að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur sem nemur fjárhæð $1.890.886,47- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þingfestingardegi til greiðsludags.
4. Til þrautavara nr. 2 að kaupsamningi um Liquid Ice kælikerfi, dags. 7. nóvember
2002 og samningi um kaup á viðbótar 1400 lítra vatnstanki, dags. 9. desember 2002,
verði ógiltir með dómi.
Jafnframt að stefnda verði gert að greiða stefnanda lægri fjárhæð skaðabóta að mati dómsins með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þingfestingardegi til greiðsludags.
5. Til þrautavara nr. 3 að stefnanda verði dæmdar skaðabætur vegna galla á
kælikerfinu, að fjárhæð $1.890.886,47- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr.
38/2001 um vexti og verðbætur frá þingfestingardegi til greiðsludags.
6. Til þrautavara nr. 4 að stefnanda verði dæmdur afsláttur af kaupverði kælikerfisins
skv. kaupsamningi, dags. 7. nóvember 2002, og samningi um kaup á viðbótar 1400
lítra vatnstanki, dags. 9. desember 2002, og að stefnanda verði dæmdar skaðabætur
að mati dómsins.
7. Til þrautavara nr. 5 að stefnanda verði dæmdur afsláttur af kaupverði kælikerfisins
skv. kaupsamningi, dags. 7. nóvember 2002, og samningi um kaup á viðbótar 1400
lítra vatnstanki, dags. 9. desember 2002.
8. Þá er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Af hálfu stefnda, Optimar Ísland ehf., er þess aðallega krafist að öllum kröfum stefnanda á hendur félaginu verði vísað frá dómi. Til vara krefst þessi stefndi sýknu og til þrautavara að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Af hálfu stefnda, Rekstrarfélagsins ehf., er þess krafist aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda.
Til vara er þess krafist að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
Í stefnu er málavöxtum lýst þannig að í október 2002 hafi komist á samband milli stefnanda og Ískerfa hf., fyrirrennara stefnda Rekstararfélagsins ehf., um hugsanleg kaup stefnanda á kælikerfi frá Ískerfum hf., með milligöngu Lárusar Guðbjartssonar sölumanns.
Um miðjan október 2002 hafi þáverandi framkvæmdastjóri Ískerfa hf., Jónas G. Jónasson, komið í starfsstöð stefnanda í Louisianafylki í Bandaríkjunum, til að skoða aðstæður. Hafi ferðin verið farin sérstaklega til að skilgreina þarfir og kröfur stefnanda til kælikerfis, sem kæla átti rækjuframleiðslu stefnanda en hann framleiddi rækju til manneldis. Hafi Jónas verið í verksmiðju stefnanda í heilan dag og tekið sér nægan tíma til að meta umhverfisaðstæður, spyrja spurninga og ræða við fyrirsvarsmenn stefnanda.
Þá hafi Lárus Guðbjartsson sent tölvupóst, 15. október 2002, til Þorsteins Víglundssonar hjá stefnda, með yfirliti um tölulegar upplýsingar frá stefnanda. Þar hafi komið skýrt fram að hitastig vatns á staðnum hafi verið í kringum 78°F og að hitastig rækjunnar væri 45°F og að kjörhiti fyrir rækjuna í kælikari væri 32-35.6°F.
Hinn 18. október 2002 hafi borist tölvupóstur sem innihélt kynningarbréf til stefnanda, ásamt tilboði og útreikningum um kælikerfi og ísvélar frá stefnda, Ískerfi hf., og tilvísunum til þarfa stefnanda og ýmissa umhverfisþátta. Í þessum fyrstu útreikningum stefnda hafi m.a. komið fram að þarfir stefnanda væru kæling á 90.600 kg af rækju á sólarhring og að stefnandi þyrfti að fylla alls 400 ískör hvern dag, miðað við 226.6 kg (400 pund) af rækju í hvert ískar, miðað við keyrslu á kælikerfi í 22 klst. á dag. Þá hafi einnig komið fram að hámarksmagn af ísi og vatni í hverju ískari væri alls 93.5 lítrar.
Hinn 23. október 2002 hafi Lárus Guðbjartsson tilkynnt, f.h. stefnanda, að stefnanda nægðu ekki 93.5 lítrar í hvert kar heldur þyrfti hann að fá allt að 260 lítra af 0°C heitu vatni í hvert kar, til að kæla þar umrædd 226.6 kg af rækju. Nánar tiltekið hafi Lárus verið að athuga þann möguleika hvort hægt væri að koma með annan forkæli til viðbótar við þann sem fyrir var, sem myndi gera það að verkum að tvær leiðslur væru að dæla kælivatni, ein frá liquid ice geymslutanki og önnur frá forkæli nr. 2. Þannig myndi forkælir nr. 2 dæla um 170 lítrum af 0°C heitu vatni í hvert ískar, ofan í 93 lítra af 25% þykku ísþykkni. Var stefndi beðinn um að taka afstöðu til þessa möguleika.
Í tölvupósti frá Jónasi G. Jónassyni hinn 24. október 2002, hafi verið fullyrt að stefndi Ískerfi hf. gæti notað hluta af forkældu vatni úr forkæli (sem er einn hluti kælikerfisins) til að fylla ískerin til að hægt verði að ná því vatnsmagni sem stefnandi þarfnast í hvert ískar. Með þessu hafi stefndi verið að segja að ekki sé nauðsyn á öðrum forkæli. Þrátt fyrir ofangreind loforð stefnda um gæði ísvélar B-120 hafi stefnandi ákveðið að hafa vaðið fyrir neðan sig og kaupa stærri ísvél B-130 og jafnframt að kaupa stærri forkæli, þ.e. ekki 50 Kw forkæli eins og stefndi bauð, heldur 100 Kw forkæli með mun meiri afkastagetu.
Stefnanda hafi svo borist tilboð, dags. 7. nóvember 2002, sem báðir aðilar hafi undirritað. Tilboðið hafi haft að geyma stutta tæknilega samantekt og samningsskilmála og sé ígildi kaupsamnings á milli stefnda, Ískerfis hf., og stefnanda. Í tilboðinu komi fram að keypt sé B-130 Liquid ice ísþykknisvél, 100 Kw forkælir, 3.200 lítra tankur o.fl.
Hinn 9. desember 2002 hafi Þorsteinn Víglundsson sent stefnanda tölvupóst þar sem hann hafi lýst flæði á ísþykkni í hinum 1.400 líta tanki og hafi sent tilboð um kaup á síkum tanki, dags. 9. desember 2002 sem gilt hafi til 15. desember 2002. Þessu tilboði hafi stefnandi tekið og þannig komist á kaupsamningur með aðilum um kaup á 1.400 lítra viðbótartanki.
Stefnanda hafi borist símbréf frá Ískerfi hf. hinn 11. febrúar 2003 þar sem lýst hafi verið frammistöðu á mótor utan á ísþykknisvél og fjalli um bæði þrýsting og afkastagetu á mótornum og um hinn keypta forkæli. Þá hafi stefnanda borist annað símbréf hinn 13. febrúar 2003 þar sem stefndi hafi lýst svokölluðum þétti innan ísþykknivélarinnar, þar sem fjallað sé m.a. um hitastig á inntaksvatni sem fari í þéttinn, sem tilgreint sé 27°C eða 70°F og hitastig á útstreymisvatni sem tilgreint er 39°C eða 102°F.
Þegar að því hafi komið að reyna að setja upp búnaðinn sem myndar kælikerfið, um miðjan febrúar 2003, hafi stefnanda verið tilkynnt um það frá þriðja aðila, að nauðsynlegt væri að setja upp kæliturn. Slíkt væri óhjákvæmilegt til að hægt væri að dæla köldu vatni í þéttinn og kæla þannig bæði vél forkælisins og vél B-130 ísvélarinnar. Hafi stefnda verið tilkynnt um þetta með tölvupósti, dags. 17. febrúar 2003.
Stefnanda hafi borist svar frá stefnda með tölvupósti, dags. 18. febrúar 2003, þar sem stefndi Ískerfi hf. hafi tilkynnt að það komi fyrirtækinu á óvart að það þurfi kæliturn en að það sé nauðsynlegt til þess að ná fram fullum afköstum út úr forkælinum. Það kom einnig fram að þörf á kæliturni færi eftir hitastigi inntaksvatns og umhverfishita. Þá sagði í póstinum að stefndi teldi að stefnandi hefði komist að réttri niðurstöðu með val á kæliturni.
Í byrjun maí 2003 hafi stefndi Ískerfi hf. sent starfsmann frá stefnda Optimar ehf. á starfsstöð stefnanda til að gangsetja kælikerfið. Sá starfsmaður hafi talið sig hafa lokið við uppsetninguna hinn 13. maí 2003 og farið fram á það við forsvarsmann stefnanda að hann undirritaði viðtökusamþykki fyrir kælikerfið. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi neitað að undirrita samþykki sitt fyrir viðtöku kerfisins, vegna þess að kælikerfið hafi átt það til að bila af einhverjum orsökum, afköst kælikerfisins hefðu ekki verið sannreynd og prufukeyrslu kælikerfisins væri ekki lokið.
Frá gangsetningu kælikerfisins hafi kælikerfið ekki getað starfað eðlilega, þ.e. ekki sé hægt að keyra kerfið samfellt 22 klst. á dag án einhvers konar bilunar og stundum bara í nokkra daga. Ekki hafi verið hægt að nota kælikerfið án þess að það bilaði með einhverjum hætti, annað hvort vegna rafmagnsbilana, affrystingar eða vegna þess að einstakir vélahlutar hafa verið að bila. Lagfæringar hafi margsinnis verið reyndar en eftir síendurteknar bilanir af ýmsum toga, hafi stefnandi endanlega gefist upp.
Jafnframt hafi kælikerfið aldrei afkastað því magni af ísþykkni og kældu vatni (per klst.) ofan í fyrrgreind kælikör til að kæla niður 226.6 kg af rækju í hverju kari, 400 ískör á dag, sem hafi verið ákvörðunarforsenda kaupanna af hálfu stefnanda.
Stefnandi hafi reynt að nota kælikerfið og að láta lagfæra það en þrátt fyrir allar tilraunir hafi kælikerfið sífellt bilað af mismunandi orsökum. Þegar það hefði keyrt eðlilega, hefði framleiðsla ísþykknis verið langt undir því magni sem Ískerfi hf. hefði ábyrgst að kælikerfið myndi skila.
Allur rekstur stefnda Ískerfa hf. í tengslum við „Liquid Ice“ kælikerfin hafi verið seldur stefnda Optimar Ísland ehf. með kaupsamningi dags. 30. maí 2003. Þessi kaup hafi orðið 2 vikum eftir að starfsmaður stefnda Optimar ehf. hefði gangsett kælikerfið á starfsstöð stefnanda og farið aftur heim til Íslands. Fyrirsvarsmaður stefnanda hefði margsinnis haft samband símleiðis við stefnda Optimar ehf. með tilkynningu um bilanir og galla í kælikerfinu. Bað stefnandi um að maður yrði sendur á staðinn og að kælikerfinu yrði komið í lag, þannig að það virkaði rétt og afkastaði því sem stefndi hafði lofað upphaflega.
Í tengslum við lagfæringar á kerfinu hafi stefndi Optimar ehf. sent alls þrjá varahluti til stefnanda, þ.e. frequency drive, pump og couplings. Hafi stefnandi sent hina gölluðu varahluti til baka. Þrátt fyrir hina nýju varahluti, hafi það engu breytt um bilanatíðni kerfisins, þar sem nýjar bilanir hafi stöðugt litið dagsins ljós.
Samskipti forsvarsmanna stefnanda við báða stefndu, Ískerfi hf. og Optimar ehf., hafi orðið erfið sumarið 2003 enda hefði stefndi Ískerfi hf. selt rekstur sinn til Optimar ehf., sem hafi sagst aðeins hafa yfirtekið ábyrgðir á framleiðslugöllum gagnvart stefnanda. Haustið 2003 hafi stefnandi loks fengið afrit af kaupsamningi á milli stefndu og orðið þá ljóst, að skyldur og ábyrgð seljanda kynnu hafa deilst á minnst tvær hendur, t.d. á Ískerfi vegna hönnunargalla, stjórnunarábyrgðar o.fl. atriða og á Optimar á Íslandi ehf. vegna framleiðslugalla.
Í stefnu eru síðan rakin bréfaskipti lögmanna stefnanda við forsvarsmenn stefndu og segir að ljóst sé að Hömlum hf., f.h. stefnda Ískerfa hf., og stefnda Optimar ehf. hafi verið gerð skriflega grein fyrir annmörkum kælikerfisins og að þeir voru krafðir um úrbætur. Hefðu þessir aðilar haft meira en nægan tíma til að framkvæma fullnægjandi úrbætur á kælikerfinu á eigin kostnað en látið það ógert. Þá eru raktar tilraunir til samkomulags sem ekki náðist með aðilum.
Hinn 28. júní 2004 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns sem skilaði matsgerð, dagsettri 12. apríl 2005.
Hinn 14. júlí 2005 sendi lögmaður stefnanda bréf til beggja stefndu og Hamla hf. þar sem fjallað var um efni matsgerðarinnar og lýst var yfir riftun á kaupsamningi skv. samþykktu tilboði, dagsettu 7. nóvember 2002, á Liquid lce kælikerfi (einingum sem mynda kælikerfið), þ.m.t. samningi um kaup á viðbótar 1.400 lítra vatnstanki skv. samþykktu tílboði, dags. 9. desember 2002.
Riftuninni var mótmælt af hálfu stefnda Optimar ehf.. og Ískerfa hf..,
Stefnandi byggir aðalkröfu sína um viðurkenningu á riftun sinni frá 14. júlí 2005, á því að formskilyrði fyrir riftun lausafjárkaupa séu uppfyllt.
Hið keypta kælikerfi sé haldið slíkum verulegum göllum í hönnun og útfærslu á kælikerfinu, að skilyrði 17., 18. og 21. gr. laga um lausafjárkaup fyrir riftun á kaupunum séu uppfyllt. Þá hafi seljandi kælikerfisins, þ.e. fyrst stefndi Ískerfi hf. (Rekstrarfélagið) og síðan stefndi Optimar ehf., sýnt af sér verulegar vanefndir gagnvart stefnanda. Þær felist m.a. í verulegri vanrækslu, mistökum í vinnubrögðum, langvarandi athafnaleysi og vítaverðu gáleysi í samskiptum sínum við stefnanda, sem veiti stefnanda sjálfstæða heimild til að rifta kaupunum í heild sinni, skv. 1. mgr. 39 gr. og 94. gr. laga um lausafjárkaup.
Til viðbótar fyrrgreindu séu forsendur fyrir lausafjárkaupunum brostnar, þar sem afkastageta kælikerfisins nái ekki þeim lágmarksafköstum sem verið hafi ákvörðunarástæða stefnanda fyrir kaupunum í upphafi. Þar með liggi fyrir önnur sjálfstæð heimild til riftunar á kaupunum, enda sé það viðurkennt að brostnar forsendur hafi áhrif á það hvort galli telst vera verulegur eða ekki.
Af hálfu stefnanda er matsgerð túlkuð þannig að gallar séu á kælikerfinu, afköst þess séu langt undir því sem stefnanda hefði verið lofað, að seljandi hafði sýnt af sér vanrækslu við tilboðsgerð og gert mistök, að seljandi hafi ekki spurt nauðsynlegra spurninga eða kynnt sér aðstæður hjá stefnanda með fullnægjandi hætti og að frágangur á samsetningu kælikerfisins við gangsetningu þess í maí 2003 hafi verið ófullnægjandi. Þá hafi leiðbeiningar er fylgdu með kerfinu verið algerlega ófullnægjandi.
Stefnandi byggir á því að hið keypta kælikerfi hafi ekki haft þá eiginleika sem stefnandi gerði kröfur til, enda gerði stefnandi einungis þær sjálfsögðu kröfur, annars vegar að kerfið myndi afkasta því magni af ísþykki og kældu vatni sem starfsmenn stefnda Ískerfis hf. höfðu lofað í tölvupóstsamskiptum við stefnanda og hins vegar að kerfið myndi starfa eðlilega og án rekstrartruflana.
Stefnandi byggir á því að sá aðili sem vanefndi kaupsamning aðila, fyrst stefndi Ískerfi hf. og síðar stefnandi Optimar ehf. (sem tók yfir samningssamband við stefnanda), hefðu átt að sjá fyrir afleiðingar þess fyrir stefnanda, að kælikerfið væri gallað og næði ekki umsömdum afköstum, og sömuleiðis skynsamur maður í sömu stöðu og við sömu aðstæður hefði með sanngirni getað séð fyrir.
Bótagrundvöllur fyrir kröfu stefnanda sé m.a. stjórnunarábyrgð stefnda Ískerfa hf. og síðar stefnda Optimar ehf., þ.e. seljandi hafi sýnt af sér vanrækslu við tilboðsgerð og gert mistök í útreikningum og mælingum. Sömuleiðis falli það undir stjórnunarábyrgð, að hafa ekki spurt stefnanda eða aðra nauðsynlegra spurninga eða kynnt sér umhverfisaðstæður við starfsstöð stefnanda með fullnægjandi hætti, sem gert hafi það að verkum að hönnunarforsendur urðu rangar.
Bótagrundvöllur fyrir kröfu stefnanda sé einnig sakarábyrgð stefnda sem felist m.a. í því, að frágangur á kælikerfinu sjálfu (þ.e. þeim einingum sem sendar voru til stefnanda til samsetningar) og vinnubrögð starfsmanns stefnda Optimar ehf., við yfirstjórn gangsetningar á kælikerfinu og viðgerðum og frágangi kerfisins, hafi verið svo forkastanleg, að þau feli sér stórkostlegt gáleysi.
Krafa um málskostnað kveður stefnandi fela í sér kröfu um endurgreiðslu á kostnaði við matsgerð, þ.m.t. ferða- og gistikostnað fyrir matsmann og lögmann stefnanda hjá starfsstöð stefnanda, og um endurgreiðslu á áföllnum lögfræðikostnaði.
Hér sé um að ræða útgjöld sem tjónþoli hafi af því að staðreyna galla, þ.m.t. kostnaður við matsgerð eða annar sérfræðikostnaður og því beint tjón í skilningi kaupalaga.
Eftirfarandi röksemdir eru færðar fram fyrir því að stefndu er stefnt sameiginlega og in solidum.
Samningsaðili við stefnanda hafi upphaflega verið Ískerfi hf. sem seljandi og síðan Optimar á Íslandi ehf., sem keypt hafi reksturinn af Ískerfi hf. og tekið á sig þjónustuskyldur gagnvart stefnanda.
Stefndi Ískerfi hf. sé upphaflegur seljandi kælikerfisins og hafi stefnandi raunar aldrei fengið formlega tilkynningu um að samningssambandið hafi verið framselt til stefnda Optimar Ísland ehf. Þannig sé stefndi Ískerfi hf. (nú Rekstrarfélagið hf.) réttilega stefndur aðili að máli þessu.
Hvað varði ábyrgðarhlut stefnda Optimar á Íslandi ehf. gagnvart stefnanda, liggi það fyrir að þessi stefndi hafi keypt allan rekstur af Ískerfi hf. með kaupsamningi, dags. 30. maí 2003, og yfirtekið þannig samningsréttarlegar skuldbindingar gagnvart stefnanda og ábyrgðir framleiðanda sömuleiðis. Í gögnum málsins komi fram sú skoðun stefnda Optimar ehf. að aðeins hafi sumar ábyrgðir framleiðanda gagnvart stefnanda, verið yfirteknar, þ.e. ábyrgðir á efnisgöllum.
Stefnandi byggir kröfur sínar á stefnda Optimar ehf. m.a. á 2. mgr. 18. gr. kpl. sem segir að 1. mgr. (18. gr.) gildi með sama hætti þegar söluhlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem annar en seljandi hefur gefið á umbúðum hlutarins, í auglýsingum eða við aðra markaðssetningu á vegum seljanda eða fyrri söluaðila. Þessi grein tekur af allan vafa um það, að stefndi Optimar ehf. beri að lögum ábyrgð á loforðum og markaðssetningu fyrri söluaðila (þ.e. stefnda Ískerfis hf.) gagnvart stefnanda, a.m.k, hvað varðar þau tilvik þegar söluhlutur svari ekki til þeirra upplýsinga sem kaupandi hafi fengið í hendur.
Að sama skapi beri stefndi Optimar ehf. ábyrgð á því skv. 2. mgr. 21. gr. kpl. að seljandi beri einnig ábyrgð á galla sem kemur fram síðar ef ástæðu gallans má rekja til vanefnda af hans hálfu. Stefnandi byggir á því að bæði vankunnátta starfsmanns stefnda Optimar ehf. við gangsetningu kerfisins, sem og langvarandi athafnaleysi félagsins við að senda viðgerðarmann út til að kanna og lagfæra galla á kerfinu og bregðast við kröfum um nýja afhendingu, geri það að verkum að stefndi Optimar ehf. beri sannanlega ábyrgð á þeim göllum sem eru til staðar í kaupunum.
Þar sem stefnandi geti ekki greint nákvæmlega hvar stjórnendaábyrgð, sakarábyrgð, samningsábyrgð og bótaábyrgð liggi, á milli þessara aðila, líti hann svo á að þeir beri sameiginlega (in solidum) ábyrgð á hinum verulegu vanefndum gagnvart sér, sem hann hefur orðið fyrir í hinum umræddu lausafjárkaupum.
Stefnandi byggir um kröfur sínar á lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup einkum ákvæðum IV., V., X. og XV. kafla laganna, reglum kröfuréttar um riftun og réttaráhrif riftunar, meginreglum samningaréttar um verulegar vanefndir og úrræði gegn þeim.
Krafa um málskostnað er reist á 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um dráttarvexti er byggð á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, með síðari breytingum. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Stefndi Optimar Ísland ehf. byggir aðalkröfu sína um frávísun í fyrsta lagi á því að stefnandi stefni Optimar Íslandi ehf. án þess að gera nokkra grein fyrir því á hverju aðild þess félags á að byggja. Stefndi Optimar Ísland ehf. sé ekki aðili að þeim samningum sem mál þetta er risið af og hafi aldrei verið. Hið eina sem félagið hafi gert sé að taka að sér að gera meðstefnda skaðlausan af kröfum vegna venjulegra framleiðslugalla og sé sú ábyrgð skilgreind í samningi milli stefndu, m.a. sé þar skýrt og skilmerkilega tekið fram hvernig ábyrgð Optimar Íslands ehf. takmarkist gagnvart meðstefnda. Þessi samningur skapi stefnanda engan beinan rétt á hendur stefnda Optimar Íslandi ehf. þótt stefndi hafi í raun, til einföldunar, sagt stefnanda að hafa samband við Optimar Ísland ehf. um venjulega framleiðslugalla. Hafi fyrirsvarsmanni stefnanda verið gerð skýr grein fyrir þessu. Á bls. 20 í stefnu sé fjallað lítillega um aðild. Þar segi að hið upphaflega samningssamband milli Rekstrarfélagsins/Ískerfa og stefnanda hafi verið framselt til Optimar Íslands ehf., sem hafi tekið á sig samningsréttarlegar skyldur gagnvart stefnanda og ábyrgðir framleiðanda sömuleiðis. Þetta sé rangt og ekkert í gögnum málsins renni stoðum undir þessa fullyrðingu, heldur sé þvert á móti alveg skýrt í samningi stefndu hvaða skyldur Optimar Ísland ehf. hafi tekið á sig gagnvart meðstefnda. Ekkert sé í samningnum um að yfirteknar hafi verið skyldur gagnvart þriðja aðila.
Helst sé að ráða af umfjöllun í stefnu um aðild, að henni sé beint að stefnda Optimar Íslandi ehf. sem seljanda. Þessu er mótmælt sem röngu. Optimar Ísland ehf. hafi aldrei selt stefnanda eitt eða neitt og ekkert í málinu renni stoðum undir fullyrðingar um annað.
Umfjöllun um vankunnáttu starfsmanns Optimar Íslands ehf. við gangsetningu hins selda forkælis og ísvélar er mótmælt. Ekkert í gögnum málsins renni stoðum undir fullyrðingar um slíkt og bent skuli á að engar kvartanir hafi komið frá stefnanda yfir slíku fyrr en löngu eftir gangsetningu. Megi m.a. benda á að í þeim bréfum sem hafi farið á milli aðila sé ekkert minnst á slíkt fyrr en í bréfi frá 4. desember 2003. Optimar Ísland ehf. hafi aldrei hafnað því að senda út nýja íhluti í stað þeirra sem bilað hafi, hvað þá því að senda út viðgerðarmenn. Hið rétta sé að engar kröfur, umfram þær sem sinnt var, hafi borist um slíkt frá stefnanda og raunar hafi þær ekki borist enn þann dag í dag. Optimar Ísland ehf. hafi t.d. aldrei verið látið vita af því að hið selda kerfi hefði stöðvast í ágúst 2003 vegna óverulegrar bilunar, hvað þá að stefnandi hafi látið svo lítið að senda upplýsingar um það hvað hafi staðið á upplýsingaskjá ísvélarinnar þegar hún stöðvaðist. Hefði það verið gert hefði verið einfalt að kippa þessu í liðinn, sbr. það sem matsmaður og starfsmaður Optimar Íslands ehf. gerðu á matsfundi hjá stefnanda. Seljandi, stefndi Rekstrarfélagið, hafi aldrei verið skuldbundið til þess, sbr. framlagða ábyrgðarskilmála, að senda starfsmenn sína til USA á eigin kostnað til þess að sinna einhverri óskilgreindri viðgerðarvinnu fyrir stefnanda. Stefnandi hafi átt að greiða ferða- og uppihaldskostnað sjálfur en hefur ætíð hafnað því. Auk þess hafi stefnandi auðvitað orðið að skilgreina vandann því ekki megi gleyma því að hinn umdeildi forkælir og ísvél séu einungis hluti þess búnaðar sem stefnandi hafi sjálfur sett upp í verksmiðju sinni.
Hugleiðingar stefnanda um að það að hann geti ekki skilgreint aðild í málinu dugi ekki til þess að honum sé rétt að stefna öllum þeim sem að málinu hafa komið. Hið rétta sé auðvitað að halda sig við viðsemjanda sinn. Hvort viðsemjandinn kunni síðan að eiga framkröfur á aðra sé allt annað mál, sem stefnanda komi ekkert við. Sé alveg fráleitt að rökstyðja aðild í máli á þennan hátt.
Þannig sé fyrsta lagi krafist frávísunar á þeim grundvelli að aðild stefnda Optimar Íslands ehf. sé vanreifuð.
Í öðru lagi er krafist frávísunar á þeim grundvelli að kröfugerð í málinu sé verulega vanreifuð og svo óskýr að erfitt sé eða vonlítið að átta sig á henni. Erfitt sé t.d. að gera sér grein fyrir því hvernig hægt sé að beina riftunarkröfu, ógildingarkröfu og/eða afsláttarkröfu að stefnda Optimar Íslandi ehf. Engin tilraun sé gerð í málinu til þess að skýra þetta. Verði hér að ítreka að Optimar Ísland ehf. sé ekki og hafi aldrei verið viðsemjandi stefnanda og eigi enga aðild að þeim sölusamningi sem deilt sé um í málinu. Séu kröfur málsins þannig, a.m.k. að verulegu leyti, ódómhæfar að mati stefnda Optimar Íslands ehf.
Hér beri einnig að benda á að öll kröfugerð um skaðabætur sé algjörlega fráleit og ekki í samræmi við íslenskan rétt, að því er best verði séð. Hún sé að verulegu leyti byggð á reikningum sem fram séu lagðir án skýringa og á erlendu tungumáli og er þessu mótmælt og þess krafist að fyrir stefnanda verði lagt að þýða þessi skjöl þannig að stefndu geti svarað fyrir þau. Það megi hér m.a. benda á að stór hluti bótakröfunnar virðist varða gallaða rækju sem skilað hafi verið. Virðist vera að sú rækja hafi verið framleidd og seld á tímabilinu september 2003 til september 2004. Hvernig hægt sé að halda því fram að ábyrgð á því falli á kerfi sem búið hafi verið að slökkva á þegar hér var komið sögu og halda því fram að það eigi sök á framleiðslugöllum á rækjunni sé furðulegt. Það sé líka spurning hvernig gæðaeftirlit í verksmiðju stefnanda hafi getað brugðist svo hrapallega og hver eigi að bera ábyrgð á slíku. Ekki megi heldur gleyma hér að verksmiðja stefnanda og framleiðsla byggist á miklu fleiru en einum forkæli og ísvél auk þess sem öll uppsetning og lagnir séu á vegum og ábyrgð stefnanda sjálfs. Ekkert liggi fyrir í málinu um það að hið mikla tjón sem stefnandi fullyrði að hann hafi orðið fyrir megi rekja til hinna seldu muna frekar en einhvers annars í verksmiðjunni. Að því er varðar það að vélarnar hafi stöðvast vegna bilana þá hafi þær bilanir sem rekja megi til annars en stefnanda sjálfs og annars búnaðar en þess sem seldur hafi verið óverulegar, sbr. matsgerð. Að lokum sé rétt að benda á að skaðabótakrafan virðist einnig byggjast á reikningum fyrir vinnu við breytingar á hinum selda búnaði og/eða á reikningum vegna einhverra lagfæringa, bæði á hinum selda búnaði og öðru, án nokkurs samráðs við seljanda eða Optimar Ísland ehf. Að lokum skuli bent á að ekkert mat hefur verið lagt fram í málinu til að gera með því tilraun til að sanna að um eitthvert tjón hafi orðið að ræða. Liggi þannig engar sannanir fyrir í málinu um meint tjón stefnanda.
NIÐURSTAÐA
Í stefnu segir að þar sem stefnandi geti ekki greint nákvæmlega á milli þess hvar stjórnendaábyrgð, sakarábyrgð, samningsábyrgð og bótaábyrgð liggi, á milli stefndu, líti hann svo á að þeir beri sameiginlega ábyrgð á vanefndum gagnvart sér. Kemur fram að stefnandi telur vanefndir stefndu verulegar, og að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra í umræddum lausafjárkaupum. Hins vegar gerir hann ekki skýrlega grein fyrir hvern hann telji vera þátt hvors aðila um sig og samrýmast þessir málsóknarhættir ekki ákvæðum 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran og glöggan málatilbúnað og þykir málið vanreifað af hálfu stefnanda hvað aðild snertir.
Þá skortir á að kröfugerð stefnanda sé nægjanlega reifuð og skýr um það hvers krafist sé af hvorum aðila um sig og er málatilbúnaður að þessu leiti óskýr og málið erfitt viðfangs í þeim búningi sem það hefur verið lagt fyrir dóminn. Þykir málatilbúnaður stefnanda ekki fullnægja skilyrðum d og e liða 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar til þessa er litið svo þess er áður segir um reifun varðandi aðild stefndu verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.
Stefnanda verður gert að greiða stefndu hvorum um sig 300.000 krónur í málskostnað sbr. 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Gulf Crown Seafood Company Inc., greiði stefnda, Rekstrarfélaginu ehf., 300.000 krónur í málskostnað og stefnda, Optimar Íslandi ehf., 300.000 krónur í málskostnað.