Hæstiréttur íslands
Mál nr. 61/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 16. febrúar 2001. |
|
Nr. 61/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (enginn) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X kærði þann úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur að hann sætti gæsluvarðhaldi. Fallist var á með sóknaraðila að fullnægt væri skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir X. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 12. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í úrskurði héraðsdómara er varnaraðili borinn sökum um að hafa ásamt öðrum nafngreindum manni framið rán í fjórum söluturnum í Reykjavík, þar sem starfsmönnum var ógnað með vopnum, svo og að hafa gert tilraun til ráns í söluturni eitt skipti til viðbótar. Gerðist þetta á tímabilinu frá 14. janúar til 11. febrúar sl. Verðmæti þess, sem tekið var í þessum ránum, er að sögn sóknaraðila á bilinu milli 150.000 og 260.000 krónur.
Varnaraðili og áðurnefndur samverkamaður hans hafa báðir gengist við þessum brotum. Í því ljósi hafa engin viðhlítandi rök verið færð fyrir því að nauðsyn geti borið til gæsluvarðhalds á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Varnaraðili hlaut dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. janúar 2000 fyrir rán, sem hann framdi 3. október 1999 með sama samverkamanni og um ræðir í þessu máli. Þau fimm brot, sem varnaraðili er nú borinn sökum um, voru framin á fjögurra vikna tímabili. Í skýrslu, sem hann gaf fyrir lögreglunni 12. febrúar sl., kvaðst hann vera fíkniefnaneytandi, en kostnaður af neyslu hans hefði undanfarið verið að meðaltali um 10.000 krónur á dag. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með sóknaraðila að fullnægt sé skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Gæsluvarðhaldinu er markaður hæfilegur tími í úrskurði héraðsdómara, sem verður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2001.
Ár 2001, mánudaginn 12. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ragnheiði Bragadóttur, settum héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi:
Í gærkvöldi kl. 23:29 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um að reynt hefði verið að ræna söluturninn T hér í borg. Hefðu tveir menn, með dökkar húfur, reynt að ráðast inn í söluturninn með því að koma á hurðina, sem var læst, með miklum látum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að opna hurðina hafi það ekki tekist og þeir hlaupið á brott.
Nokkrum mínútum síðar eða kl. 23:37 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um að rán hefði verið framið í G, hér í borg. Voru ránsmennirnir tveir, vopnaðir hnífum, með hettur á höfði og klæddir í bláa íþróttagalla. Höfðu þeir á brott með sér um kr. 30.000 í peningum. Svaraði lýsing á ránsmönnunum til lýsingar á þeim mönnum, sem reynt höfðu að ræna söluturninn T stuttu áður.
Um kl. 23:43 var kærði ásamt kærða, B, handtekinn á Hringbraut eftir að bifreið sú sem þeir voru í var stöðvuð þar.
Kærði hefur játað fyrir lögreglu að hafa í félagi með kærða, B, framið ránið í G og að hafa gert tilraun til að ræna T í gærkvöldi.
Kærði ásamt kærða B eru undir rökstuddum grun um að tengjast fleiri ránum sem framin hafa verið með svipuðum hætti í Reykjavík á undanförnum 4 vikum og hefur hann játað aðild sína að eftirtöldum ránum:
[...]
Lögregla kveður rannsókn mála þessara á hendur kærðu er á frumstigi. Kærði hafi í dag játað fyrir lögreglu aðild sína að brotunum en annarri rannsóknarvinnu er ólokið.
Vegna rannsóknarhagsmuna þyki nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi meðan rannsókn málanna standi yfir til að koma í veg fyrir að kærði spilli sakargögnum eða hafi samband við aðra þá sem tengst geta málinu eða komist undan.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hefur kærði borið að vera atvinnulaus og fíkniefnaneytandi og að hann þurfi um kr. 10.000 á dag til að svala þörf sinni. Skuldi hann fíkniefnasölum tugi þúsunda króna vegna fíkniefnakaupa. Þá hafi kærði veirð dæmdur þann 27. janúar 2000 í 4 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir hlutdeild í ráni, með kærða, B. Telur lögregla miklar líkur til að kærði haldi áfram afbrotum.
Hér sé um sérstaklega alvarleg brot að ræða, þau séu skipulögð og hafi kærðu ógnað með hnífum og gengið harkalega til verks. Að mati lögreglunnar séu því miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfu hennar svo koma megi í veg fyrir frekari afbrot og ofangreind mál verði að fullu upplýst.
Lögregla kveður kærða undir rökstuddum grun um 4 brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, og 1 brot gegn 252. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., sömu laga.
Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a. og c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, fari lögregla þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.
Kærði hefur játað fyrir lögreglu að hafa í félagi með kærða, B, framið rán í G og að hafa gert tilraun til að ræna söluturninn T í gærkvöldi. Þá hefur kærði játað aðild sína að ránum, sem framin hafa verið með svipuðum hætti í Reykjavík á undanförnum 4 vikum, þ.e. [...].
Þegar litið er til rannsóknargagna málsins verður að fallast á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot er varðað getur hann fangelsisrefsingu. Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Búið er að taka stutta skýrslu af kærða, en hann var handtekinn í gærkvöldi, en annarri rannsóknarvinnu mun vera ólokið, s.s. skýrslutöku af vitnum, frekari rannsókn á vettvangi, leit á heimilum kærðu o.s.frv. Í ljósi þessa þykir hætta á að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni og samseka, fari hann frjáls ferða sinna.
Kærði hefur við skýrslutöku hjá lögreglu borið að vera fíkniefnaneytandi og að hann hafi fallið fyrir um einum og hálfum mánuði. Hann noti hass, en einnig hörð efni eins og e-töflur og amfetamín og stöku sinnum kókaín. Segist hann þurfa að meðaltali um 10.000 krónur á dag til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína. Tilgangurinn með ránunum hafi verið að afla fjár til kaupa á fíkniefnum.
Hinn 27. janúar 2000 var kærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir sama brot, þ.e. rán í félagi við kærða, B. Þá hefur kærði, svo sem að framan greinir, játað aðild sína að fjórum ránum og einni tilraun til ráns á undanförnum 4 vikum. Með vísan til þessa og framangreindra persónulegra og félagslegra aðstæðna kærða þykir ástæða til að ætla að hann muni halda áfram brotum á meðan máli hans er ekki lokið, fari hann frjáls ferða sinna.
Með vísan til framanritaðs og a. og c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 12. mars 2001 kl. 16:00.