Hæstiréttur íslands

Mál nr. 808/2016

Íslenska auglýsingastofan ehf. og Seimur ehf. (Bjarni Aðalgeirsson hdl.)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Samlagsaðild
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Úrskurður héraðsdóms, þar sem máli Í ehf. og S ehf. var vísað frá dómi, var felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til frekari meðferðar. Í dómi Hæstaréttar sagði að atvikin að baki kröfu Í ehf. og S ehf. í fyrsta og öðrum lið kröfugerðar væru þau sömu í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 og því væru ekki efni til að verða við kröfu Í um frávísun málsins vegna brests á heimild þeirra til að sækja í einu máli þær dómkröfur í samlagi. Þótt ákveðnir annmarkar væru á málatilbúnaði Í ehf. og S ehf. að því er varðaði þriðja lið dómkrafna þeirra, m.a. gagnvart öðrum kröfum, væru þeir þó ekki slíkir að næg efni stæðu til að vísa málinu nú þegar í heild frá dómi meðan óreynt væri hvort úr yrði bætt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Svo sem lýst er í hinum kærða úrskurði kveðast sóknaraðilar hafa á árunum 2004, 2005 og 2006 átt í viðskiptum, sem hafi leitt til þess að sóknaraðilinn Íslenska auglýsingastofan ehf. hafi greitt sóknaraðilanum Seimi ehf. þóknun, og hafi virðisaukaskattur verið lagður við hana. Hafi sóknaraðilarnir staðið hvor fyrir sitt leyti að uppgjöri virðisaukaskatts og greiðslu hans til varnaraðila til samræmis við þetta. Skattstjórinn í Reykjavík hafi á árinu 2008 tekið forsendur þessara skattskila sóknaraðilanna til athugunar, sem hafi leitt til þess að með úrskurðum 28. apríl 2009, er vörðuðu hvorn sóknaraðila fyrir sig, hafi opinber gjöld þeirra vegna fyrrgreindra ára verið ákveðin á ný. Þar hafi verið lagt til grundvallar að ekki hafi að réttu lagi átt að líta á greiðslur sóknaraðilans Íslensku auglýsingastofunnar ehf. til sóknaraðilans Seims ehf. sem þóknun og hafi þær því ekki átt að bera virðisaukaskatt. Hafi þannig fyrrnefndi sóknaraðilinn ranglega nýtt sér í uppgjörum á virðisaukaskatti þá fjárhæð, sem hann hafi greitt þeim síðarnefnda vegna virðisaukaskatts á umræddu þriggja ára tímabili, samtals 22.618.817 krónur, og af þeim sökum vangreitt hana til varnaraðila. Því til samræmis hafi sóknaraðilinn Seimur ehf. ofgreitt sömu fjárhæð í virðisaukaskatt. Sóknaraðilarnir hafi kært úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar, sem hafi staðfest þá að þessu leyti með úrskurðum 1. júní 2011, og hafi sóknaraðilar unað við þau málalok.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er byggt á því að í uppgjörum á opinberum gjöldum þeirra, sem hafi farið fram að gengnum úrskurðum yfirskattanefndar, hafi verið gengið út frá því að sóknaraðilanum Íslensku auglýsingastofunni ehf. bæri að standa varnaraðila skil á 22.618.817 krónum vegna vangreidds virðisaukaskatts á árunum 2004, 2005 og 2006 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem vegna þessa hafi numið 25.601.318 krónum. Þá hafi sóknaraðilinn Seimur ehf. átt að fá fyrrgreindu fjárhæðina, 22.618.817 krónur, endurgreidda vegna ofgreidds virðisaukaskatts á sama tímabili. Á hinn bóginn hafi vextir af þessari ofgreiðslu sóknaraðilans Seims ehf. verið reiknaðir eftir ákvæðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, og numið 9.437.953 krónum. Gagnvart varnaraðila hafi höfuðstóll vangreidds virðisaukaskatts sóknaraðilans Íslensku auglýsingastofunnar ehf. svarað til höfuðstóls ofgreiðslu sóknaraðilans Seims ehf., en á dráttarvöxtum af vangreiðslunni og vöxtum af ofgreiðslunni hafi aftur á móti munað 16.163.365 krónum.

Sóknaraðilar kveðast sameiginlega hafa leitað eftir því við tollstjóra 28. janúar 2013 að fá að neyta heimildar í 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að koma að leiðréttingu á virðisaukaskatti sín á milli vegna fyrrnefndra viðskipta á árunum 2004, 2005 og 2006, þannig að skilaskylda á þeim skatti teldist hafa fallið niður. Hafi sóknaraðilinn Íslenska auglýsingastofan ehf. jafnframt krafist á þeim grunni endurgreiðslu á áðurgreindum 16.163.365 krónum vegna ofgreiddra dráttarvaxta, en til vara hafi sóknaraðilinn Seimur ehf. gert kröfu um greiðslu á sömu fjárhæð. Þessu hafi tollstjóri hafnað 4. mars 2013 og hafi sóknaraðilar skotið þeirri ákvörðun til ráðherra, sem hafi staðfest hana með úrskurði 27. nóvember 2013.

Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta gegn varnaraðila 16. febrúar 2016 og kröfðust þess í fyrsta lagi hvor fyrir sitt leyti að fyrrnefnd ákvörðun tollstjóra 4. mars 2013 yrði felld úr gildi og í öðru lagi sameiginlega að viðurkennt yrði að þeim væri heimilt að koma að leiðréttingu á virðisaukaskatti sín á milli á árunum 2004, 2005 og 2006 þannig að sá skattur gengi „til baka án nokkurrar vaxtagreiðslu.“ Í þriðja lagi krafðist sóknaraðilinn Íslenska auglýsingastofan ehf. þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér 25.601.318 krónur með dráttarvöxtum frá 28. febrúar 2013 til greiðsludags. Í hinum kærða úrskurði var orðið við kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi.

II

Sóknaraðilar krefjast þess sem áður segir hvor fyrir sitt leyti í fyrsta lið dómkrafna sinna að felld verði úr gildi ákvörðun tollstjóra 4. mars 2013 um að verða ekki við kröfum þeirra um að fá samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 að leiðrétta virðisaukaskattskil vegna fyrrgreindra viðskipta þeirra á árunum 2004, 2005 og 2006. Kröfur þessar, sem hefðu fremur átt að snúa að úrskurði fjármála- og efnahagsráðherra 27. nóvember 2013, varða einu og sömu ákvörðun, sem tekin var um málaleitan beggja sóknaraðila. Til að koma við leiðréttingu af þeim toga, sem sóknaraðilar hafa óskað eftir, þyrfti sjálfstæðan atbeina þeirra vegna virðisaukaskattskila hvors um sig. Atvikin að baki slíkum leiðréttingum yrðu á hinn bóginn í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 þau sömu gagnvart hvorum sóknaraðila fyrir sig, enda komu þau til vegna rangrar kröfu sóknaraðilans Seims ehf. um greiðslu úr hendi sóknaraðilans Íslensku auglýsingastofunnar ehf. á fjárhæð, sem svaraði til virðisaukaskatts af þóknun þess fyrrnefnda. Eru því ekki efni til að verða við kröfu varnaraðila um frávísun málsins að þessu leyti frá héraðsdómi vegna brests á heimild sóknaraðila til að sækja í einu máli dómkröfur í fyrsta lið kröfugerðar sinnar í samlagi. Á sama grunni verður að líta svo á að sóknaraðilum sé í einu máli heimilt að leita dóms um þær kröfur hvors þeirra, sem koma fram í öðrum lið kröfugerðar, að viðurkennt verði að þeim sé heimilt á þann hátt, sem áður greinir, að koma að leiðréttingu á virðisaukaskatti sín í milli vegna áranna 2004, 2005 og 2006.

Þriðja liðinn í dómkröfum samkvæmt héraðsdómsstefnu hefur sóknaraðilinn Íslenska auglýsingastofan ehf. á hinn bóginn einn uppi og leitar hann þar dóms um skyldu varnaraðila til að greiða sér 25.601.318 krónur. Ekki verður annað séð en að fjárhæð þeirrar dómkröfu feli í sér þversögn gagnvart fyrri liðunum tveimur í dómkröfunum, sem beinast eins og áður greinir að því að sóknaraðilar fái samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 báðir að leiðrétta virðisaukaskattskil sín 2004, 2005 og 2006. Slík leiðrétting myndi eftir málatilbúnaði þeirra leiða til þess að niður félli krafa varnaraðila á hendur sóknaraðilanum Íslensku auglýsingastofunni ehf. um dráttarvexti að fjárhæð 25.601.318 krónur af vangreiddum virðisaukaskatti og um leið skylda varnaraðila til að greiða sóknaraðilanum Seimi ehf. 9.437.953 krónur í vexti af ofgreiddum virðisaukaskatti. Er ekki reifað með viðhlítandi hætti í héraðsdómsstefnu hvernig þessi þriðji liður í dómkröfunum geti staðið í því horfi sem hann er borinn fram.

Um málatilbúnað sóknaraðila er þess að öðru leyti að gæta að með því að krafa sóknaraðilans Íslensku auglýsingastofunnar ehf. um greiðslu úr hendi varnaraðila samkvæmt þriðja lið dómkrafna hljóti eðli máls samkvæmt að vera háð þeirri forsendu að komið yrði fram leiðréttingu á virðisaukaskattskilum, sem sóknaraðilinn Seimur ehf. stæði einnig að, er óhjákvæmilegt að samhliða þeim kröfulið standi annað hvort fyrsti liðurinn í dómkröfunum eða annar liðurinn. Þeirra beggja er á hinn bóginn ekki þörf.

Eins og málið liggur fyrir eru samkvæmt framansögðu annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila. Þeir eru þó ekki slíkir að næg efni standi til að vísa málinu nú þegar í heild frá dómi meðan óreynt er hvort úr verði bætt. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til frekari meðferðar.

Rétt er að ákvörðun um málskostnað í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði endanlegrar úrlausnar í því, en dæma verður varnaraðila til að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til frekari meðferðar.

Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðilum, Íslensku auglýsingastofunni ehf. og Seimi ehf., hvorum fyrir sig 175.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2016.

I

Mál þetta var þingfest 19. apríl 2016 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 17. október sl. Stefnendur eru Íslenska auglýsingastofan ehf. og Seimur ehf., báðir til heimilis að Laufásvegi 49-51 í Reykjavík. Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík.

Stefnendur krefjast þess hvor um sig að ákvörðun Tollstjóra, dagsett 4. mars 2013, um að hafna endurgreiðslukröfu stefnenda og beiðni stefnenda um að koma að leiðréttingu virðisaukaskatts þeirra í milli í samræmi við 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði felld úr gildi. 

Einnig krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði að stefnendum sé heimilt að koma að leiðréttingu virðisaukaskatts sín á milli, með milligöngu ríkissjóðs, vegna virðisaukaskattsgreiðslna milli stefnenda á tímabilinu frá 2004 til 2006, þannig að virðisaukaskattur, sem ranglega hafi verið tilgreindur á virðisaukaskattsskýrslum, sbr. niðurstöðu skattyfirvalda í málum stefnenda, gangi til baka, án nokkurrar vaxtagreiðslu.

Þá krefst stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., þess að stefndi greiði honum 25.601.318 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2013 til greiðsludags. 

Að lokum krefjast stefnendur, hvor um sig, málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnendur, hvor um sig, verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnenda og að stefnendur, hvor um sig, verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa stefnda um frávísun málsins og málskostnað. Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að þeim verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.

II

Helstu málavextir eru þeir að hinn 27. september 2003 var gerður samningur milli stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., og Atla Freys Sveinssonar og Hjalta Jónssonar, um kaup óstofnaðs einkahlutafélags í þeirra eigu, síðar stefnandi, Seimur ehf., á hlutum í Íslensku auglýsingastofunni ehf. af eigendum þess félags, Ólafi Inga Ólafssyni og Jónasi Ólafssyni. Í kjölfarið voru gerðir kaupsamningar milli stefnanda, Seims ehf., og sömu seljenda um fleiri hluti í stefnanda, Íslensku auglýsingastofunni ehf., dagsettir 9. september 2005, 8. júní 2006 og 11. apríl 2007. Munu samningarnir hafa falið í sér að stefnandi, Seimur ehf., eignaðist hagsmuni af afkomu stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., vegna tiltekinna viðskiptavina stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf. Stefnanda, Seimi ehf., hafi borið að nýta það fé, sem þannig rann til hans, með tilteknum hætti til að kaupa hlutafé í stefnanda, Íslensku auglýsingastofunni ehf. Í bókhaldi og skattskilum stefnenda voru þessar greiðslur stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., til stefnanda, Seims ehf., færðar sem þóknun síðarnefnds félags í þágu fyrrnefnds félags fyrir veitta þjónustu. Aðilar töldu því að rétt væri að á þóknun stefnanda, Seims ehf., yrði lagður virðisaukaskattur, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi, Seimur ehf., tilgreindi þennan virðisaukaskatt sem útskatt og innti hann af hendi í uppgjöri á virðisaukaskatti. Stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., tilgreindi sömu fjárhæð sem innskatt og naut hann fjárhæðarinnar í uppgjöri á virðisaukaskatti.

Skattstjórinn í Reykjavík tók til endurskoðunar skattskil annars vegar stefnanda, Seims ehf., og hins vegar stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., rekstarárin 2004, 2005 og 2006, á grundvelli 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með úrskurðum skattstjóra 28. apríl 2009 voru opinber gjöld og virðisaukaskattur stefnenda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf. og Seims ehf., endurákvörðuð vegna rekstaráranna 2004, 2005 og 2006. Athugun skattstjóra leiddi í ljós að rekstartekjur stefnanda, Seims ehf., samkvæmt útgefnum reikningum á hendur stefnanda, Íslensku auglýsingastofunni ehf., árin 2004, 2005 og 2006 væru ekki virðisaukaskattskyldar tekjur í skilningi B-liðar 7. gr. tekjuskattslaga, heldur launatekjur fyrirsvarsmanna félagsins. Virðisaukaskattskil beggja stefnenda voru því endurákvörðuð. Virðisaukaskattur (útskattur) sem stefnandi, Seimur ehf., hafði greitt í ríkissjóð árin 2004, 2005 og 2006, samtals að fjárhæð 22.618.817 krónur, var felldur niður sem leiddi til þess að engum samsvarandi innskattsfrádrætti hjá stefnanda, Íslensku auglýsingastofunni ehf., var til að dreifa.

Að beiðni stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., endurupptók skattstjóri úrskurð í máli félagsins. Í nýjum úrskurði, uppkveðnum 7. maí 2009, var fallist á að félaginu væri heimilt að gjaldfæra dráttarvexti vegna hækkunar virðisaukaskatts og tryggingagjalds, sem leiddi af úrskurðinum frá 28. apríl 2009, samtals að fjárhæð 5.827.537 krónur vegna rekstarársins 2004, 13.219.618 krónur vegna rekstarársins 2005 og 10.212.039 krónur vegna rekstrarársins 2006. Þar af gjaldfærði stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., dráttarvexti af vangoldnum virðisaukaskatti framangreind ár, samtals að fjárhæð 24.309.183 krónur.

Í kjölfarið voru breytingar samkvæmt úrskurðunum framkvæmdar og voru stefnanda, Seimi ehf., greiddir inneignarvextir að fjárhæð 9.437.953 krónur. Voru vextirnir til reiðu hinn 12. maí 2009 þegar fyrirsvarsmenn stefnanda, Seims ehf., fóru þess á leit við Tollstjóra að innstæðu félagsins hjá Tollstjóra að fjárhæð 13.471.583 krónur yrði ráðstafað til greiðslu á virðisaukaskatti stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf. Uppgjöri stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf, á greiðslu dráttarvaxta á vanskil félagsins lauk 16. júní 2011.

Báðir stefnendur kærðu úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar 27. júlí 2009 og voru úrskurðir yfirskattanefndar í málum stefnenda hvors um sig kveðnir upp 1. júní 2011. Í úrskurðum yfirskattanefndar var ekki hróflað við niðurstöðu skattstjóra að því er varðaði virðisaukaskattskil þeirra.

Með sameiginlegu bréfi stefnenda til Tollstjóra, dagsettu 28. janúar 2013, var þess krafist fyrir hönd stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., að félaginu yrði endurgreiddur vaxtamunur, sem tilheyrði samstæðu félaganna, að fjárhæð 9.437.953 krónur, ásamt vöxtum frá dagsetningu innborgunar, á þeim grundvelli að stefnendum hefði ekki verið bent á að unnt væri að koma á leiðréttingu þeirra á milli, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988. Til vara var gerð sama krafa fyrir hönd stefnanda, Seims ehf.

Tollstjóri hafnaði kröfu stefnenda með bréfi, dagsettu 4. mars 2013, á þeim grundvelli að vextir á inneign stefnanda, Seims ehf., annars vegar og skuld stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., hins vegar væru reiknaðir á mismunandi veg í samræmi við lög þar að lútandi.

Stefnendur kærðu þessa ákvörðun sameiginlega til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 23. maí 2013 og kröfðust þess að ákvörðun Tollstjóra yrði felld úr gildi og að stefnanda, Íslensku auglýsingastofnunni ehf., yrðu endurgreiddar 16.163.365 krónur en til vara að stefnanda, Seimi ehf., yrði endurgreidd sama fjárhæð. Fjármála- og efnahagsráðuneytið staðfesti ákvörðun Tollstjóra í úrskurði, uppkveðnum 27. nóvember 2013, og hinn 2. febrúar 2015 hafnaði ráðuneytið endurupptöku úrskurðarins.

III

Stefnendur krefjast þess í fyrsta lagi að ákvörðun Tollstjóra, dagsett 4. mars 2013, um að hafna endurgreiðslukröfu stefnenda og beiðni stefnenda að koma að leiðréttingu virðisaukaskatts þeirra í milli í samræmi við 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði felld úr gildi. Stefnendur vísa til þess þeir hafi talið sig hafa hagað skattskilum sínum með réttum hætti við lögskipti sín í milli. Niðurstaða skattstjóra og yfirskattanefndar hafi hins vegar verið sú að stefnandi, Seimur ehf., hefði ranglega innheimt virðisaukaskatt af stefnanda, Íslensku auglýsingastofunni ehf., sem hafi verið skilað til ríkissjóðs. Virðisaukaskattskyld velta stefnanda, Seims ehf., hafi því verið felld niður, auk þess sem innskattur stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., hafi verið lækkaður. Þessar breytingar hafi leitt til þess að annar stefnanda hafi ofgreitt ríkissjóði virðisaukaskatt en hinn stefnanda hafi vangreitt sömu fjárhæð. Við þessa niðurstöðu skattyfirvalda hafi því verið tilefni til að leiðrétta greiðslur milli aðila.

Stefnendur byggja á því að samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 skuli skila virðisaukaskatti í ríkissjóð ef skattskyldur aðili tilgreinir á reikningum sínum of háan virðisaukaskatt eða virðisaukaskatt af viðskiptum sem ekki eru skattskyld. Síðan segi að verði leiðréttingu komið við gagnvart kaupanda, falli skilaskylda samkvæmt málsgreininni niður. Þar sem ljóst sé að hinn ranglega innheimti virðisaukaskattur hafi allur verið til kominn vegna viðskipta stefnenda, hefði verið eðlilegast að stefnendur fengju að leiðrétta greiðslur sín í milli. Þrátt fyrir þessa heimild, hafi ríkissjóður hins vegar kosið að gera upp við aðilana í sitt hvoru lagi með þeim hætti að innheimtir hafi verið dráttarvextir af stefnanda, Íslensku auglýsingastofunni ehf., en stefnandi, Seimur ehf., hafi fengið kröfu sína greidda með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Stefnendur benda á að Tollstjóri vísi í bréfi sínu til 28. gr. laga nr. 50/1988 til grundvallar innheimtu dráttarvaxta af stefnanda, Íslensku auglýsingastofunni ehf. Þar komi fram að sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga, skuli greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið sé. Stefnendur byggja á því að ef fallist verði á ósk þeirra um leiðréttingu ofgreiddra virðisaukaskattsgreiðslna sín á milli, svo sem lög standi til, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988, sé ljóst að ekki hafi verið grundvöllur til nokkurrar dráttarvaxtagreiðslu, enda séu aðilar sammála um að láta uppgjör fara fram með þeim hætti. Auk þess sé um að ræða samrættar kröfur og því leiði af almennum reglum kröfuréttar að þegar slíkar kröfur jafnist á móti hvor annarri, reiknist ekki vextir á kröfurnar þar sem uppgjör sé í reynd afturvirkt, þ.e. ex tunc. Stefnendur byggja á því að á grundvelli lokamálsliðar 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988, eins og hún verði skilin með hliðsjón af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 319/2001 og ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 1085/2012, hefði stefnda borið að fallast á beiðni stefnenda um leiðréttingu skattskila í bréfi, dagsettu 28. janúar 2013, með innheimtu í samræmi við beiðni stefnenda sem hafi falið í sér að kröfur stefnanda, Seims ehf., yrðu jafnaðar á móti skuld stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf. Við slíka leiðréttingu hefðu fallið niður kröfur um greiðslu vaxta af hinum ofgreidda virðisaukaskatti, enda séu stefnendur ásáttir um uppgjör með þeim hætti.

Með hliðsjón af framangreindu telja stefnendur að þeim sé heimilt að framkvæma leiðréttingu á skattskilum sínum og að ríkissjóði beri að framkvæma þá leiðréttingu í samræmi við ósk stefnenda sem í raun eigi umrædda hagsmuni, sbr. 22. gr. laga nr. 55/1988.

Stefnendur byggja jafnframt á því að innheimta Tollstjóra og eftirfarandi ákvörðun um höfnun á leiðréttingu og endurgreiðslu sé í andstöðu við ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra og feli því í sér brot á jafnræði. Í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra sé sú afstaða ríkisskattstjóra skýr, að breytingar á skattskilum samkvæmt lögum hefðu orðið mjög umfangsmiklar og tímafrekar, án þess þó að þær hefðu raunverulega fjárhagslega þýðingu, hvorki fyrir virðisaukaskattsskylda aðila né ríkissjóð. Ef framkvæmd skattyfirvalda hefði verið með sama hætti gagnvart aðilum, sem féllu undir ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra, og gagnvart stefnendum hefði þessi breyting haft verulega þýðingu fyrir þá aðila sem greitt hefðu fyrir leiguvélar og nýtt virðisaukaskattsgreiðslur til innskatts. Hefði það þýtt að stefndi hefði krafist dráttarvaxta af ofreiknuðum innskatti. Ríkisskattstjóri virðist því ekki hafa verið þeirrar skoðunar að það væri mögulegt samkvæmt efni ákvarðandi bréfs hans. Það sé því í andstöðu við jafnræðisreglu, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, að beita annarri framkvæmd gagnvart stefnendum en öðrum.

Stefnendur byggja einnig á því að verði ekki fallist á kröfu stefnenda leiði það til óréttmætrar auðgunar stefnda á kostnað stefnenda. Stefndi hafi fengið greiddar 16.163.365 krónur umfram það sem honum hafi borið samkvæmt lögum vegna greiðslu stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., á umkröfðum dráttarvöxtum að teknu tilliti til vaxtagreiðslna til stefnanda, Seims ehf. Slík auðgun sé að mati stefnenda án lagaheimildar og auk þess án þess að um nokkurn raunverulegan greiðsludrátt hafi verið að ræða, enda hafi stefndi fengið sömu fjárhæð ofgreidda frá stefnanda, Seimi ehf., og hefði verið vangreidd af hálfu stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf. Aldrei hafi því verið um raunverulegan greiðsludrátt að ræða. Innheimta dráttarvaxta samkvæmt framangreindu feli því í sér óréttmæta auðgun stefnda og feli auk þess í sér ólögmæta skattheimtu sem sé andstæð 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944.

Með vísan til framangreinds sé því ljóst, að Tollstjóra hafi ekki verið rétt að hafna beiðni um leiðréttingu virðisaukaskatts og því beri að fella þá ákvörðun úr gildi.

Stefnendur byggja viðurkenningarkröfu sína í öðrum kröfulið, að breyttu breytanda, á sömu málsástæðum og rakin hafa verið hér að framan vegna kröfunnar um að ákvörðun Tollstjóra verði felld úr gildi. Stefnendur telja að það leiði af 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 að verði leiðréttingu komið við gagnvart kaupanda, falli skilaskylda niður. Stefnendur hafi farið fram á að fá að leiðrétta virðisaukaskattsgreiðslur og byggja einnig á því að fallast beri á kröfuna á grundvelli jafnræðissjónarmiða. Verði fallist á heimild stefnenda til að leiðrétta virðisaukaskatt sín á milli, eins og óskað hafi verið eftir, telja stefnendur að ekki hefði átt að greiða vexti af endurgreiðslukröfunum, enda hafi stefnendur verið ásáttir um slíkt uppgjör sín á milli, auk þess sem slíkt leiði af almennum reglum kröfuréttar.

Stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., byggir fjárkröfu sína á hendur stefnda á því að ef fallist hefði verið á málatilbúnað stefnenda um að þeim sé heimilt að leiðrétta og gera upp virðisaukaskatt sín á milli, hefðu vaxtagreiðslur fallið niður, enda hefði leiðrétting greiðslna náð aftur til þess tíma þegar þær voru upphaflega greiddar, enda hafi stefnendur fallist á að gera upp ofgreiddan virðisaukaskatt með þeim hætti. Þannig hefði vangreiðsla stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., jafnast að fullu á móti ofgreiðslu stefnanda, Seims ehf. Stefnanda, Íslensku auglýsingastofunni ehf. hafi því ekki borið að greiða dráttarvexti í ríkissjóð. Stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., kveðst því byggja á sömu málsástæðum, að breyttu breytanda, og áður hafi komið fram vegna fyrstu tveggja dómkröfuliða.  

Stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., kveðst hafa ofgreitt 25.601.318 krónur í dráttarvexti vegna ofreiknaðs innskatts af viðskiptum stefnenda og hafi þá verið tekið tillit til þess að hluti umkrafinna vaxta snerti ótengt mál. Með vísan til meginreglunnar um endurgreiðslu ofgreidds fjár og 1. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, eigi hann því rétt á að fá hina ofgreiddu dráttarvexti endurgreidda.

Í málsástæðnakafla stefnunnar er sett fram varafjárkrafa stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., þess efnis að verði ekki fallist á fjárkröfu hans samkvæmt framangreindu, krefjist hann til vara greiðslu að fjárhæð 16.163.365 krónur. Þar sem stefnandi, Seimur ehf., hafi ekki notið innskattsfrádráttar, hafi fjárhæðirnar, sem stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., vangreiddi og stefnandi, Seimur ehf., ofgreiddi, verið þær sömu og hafi því engin nettóáhrif haft á ríkissjóð. Með álagningu dráttarvaxta skapist hins vegar misræmi milli útgreiddra inneignarvaxta til stefnanda, Seims ehf., 9.437.953 krónur, og álagðra dráttarvaxta á stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar hf., 25.601.318 krónur. Verði ekki fallist á kröfu stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., hagnist stefndi ranglega um 16.163.365 krónur vegna þessa vaxtamunar.

Varakrafan byggist á meginreglunni um óréttmæta auðgun og meginreglunni um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., byggir á því að tilgangur dráttarvaxta sé að bæta kröfuhafa það tjón sem hann verði fyrir af greiðsludrætti skuldara. Stefndi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna greiðsludráttar stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., þar sem hann hafi fengið nákvæmlega sömu fjárhæð greidda á sama tíma frá stefnanda, Seimi ehf., sem ekki hafi borið slíka greiðsluskyldu. Stefndi hafi því verið eins settur að því er varðar skil stefnenda á virðisaukaskatti og ef skattskil hefðu frá öndverðu verið í samræmi við úrskurð yfirskattanefndar.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að stefnendur eigi ekki lengur kost á að leiðrétta virðisaukaskattskil sín á milli, byggir stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., fjárkröfu sína að fjárhæð 16.163.365 krónur til vara á almennum reglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni. Ef ekki reynist unnt að leiðrétta virðisaukaskattskil, megi rekja það til þess að stefndi hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglum sömu laga.

Stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., vísar til þess, að á grundvelli leiðbeiningarskyldu stjórnvalda hefði stefnda borið, þegar uppgjör virðisaukaskatts hafi farið fram, að gera stefnanda grein fyrir því að ef honum væri mögulegt að koma á leiðréttingu gagnvart þeim aðila, sem hann átti umrædd viðskipti við og sem voru upphaflega tilefni innskattsfrádráttar hans, þá væri honum það heimilt. Stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., hefði augljóslega byggt nýtt þessa heimild, hefði hún verið honum ljós, og þá hefði stefnandi ekki þurft að greiða neina vexti til ríkisins af virðisaukaskattsgreiðslum sínum. Með því að stefndi sinnti ekki leiðbeiningarskyldunni, og ef það leiðir til þess að stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., glati rétti, sé á því byggt að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi sem leitt hafi til tjóns fyrir stefnanda. Tjónið hafi falist í því að stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., hafi greitt of háa vexti. Öll skilyrði sakarreglunnar séu því uppfyllt. Krafist sé dráttarvaxta frá 28. febrúar 2013 eða þeim degi þegar liðinn var mánuður frá því að stefnandi sendi erindi til Tollstjóra og krafðist endurgreiðslu á ofgreiddum vöxtum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Um lagarök vísast til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, einkum 3. mgr. 22. greinar laganna, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. jafnræðisreglu 11. gr. laganna. Þá vísast til meginreglna skattaréttar og stjórnskipunarréttar, sbr. m.a. 40., 65. gr. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1994, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og viðurkenndra reglna íslensks réttar um réttmætar væntingar. Enn fremur er vísað til meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun og reglunnar um endurgreiðslu ofgreidds fjár, auk þess sem vísað er til almennra reglna skaðabótaréttar, þ.m.t. sakarreglunnar. Um endurgreiðslu- og vaxtakröfu vísast til laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, einkum 1. og 2. gr. laganna. Um dráttarvaxtakröfu vísast til III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um aðild er vísað til 18 og 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um málskostnaðarkröfur til 129. og 130. gr. sömu laga nr. 91/1991. 

IV

                Stefndi, íslenska ríkið, byggir aðalkröfu sína um frávísun á því að skattskylda stefnenda sé ekki sameiginleg og þegar af þeirri ástæðu séu skilyrði samaðildar samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ekki fyrir hendi. Tilefni málsóknar stefnenda á hendur stefnda lúti að endurkröfu dráttarvaxta sem annar þeirra greiddi í ríkissjóð. Í stefnu sé ekki gerð grein fyrir sameiginlegri aðild stefnenda að málinu til sóknar að öðru leyti en því að í lagarökum sé vísað til 18. gr. og 19. gr. laga nr. 19/1991. Stefndi telur að skilyrði samaðildar 18. gr. séu ekki fyrir hendi, enda sé hvort félag um sig sjálfstæður skattaðili samkvæmt 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þessi skortur á samaðild stefnenda blasi við við lestur á kröfugerð stefnenda en einungis annar þeirra geri fjárkröfu á hendur stefnda.

                Þá telur stefndi að skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991 séu heldur ekki uppfyllt. Dómkröfur stefnenda eigi ekki rót að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Þótt stefnendur séu tengdir aðilar, snúi sakarefni málsins algerlega öndvert við þeim, m.a. að því leyti að úrskurðir skattyfirvalda skapi gerólíka aðstöðu hvors stefnanda fyrir sig. Annar teljist eiga inni fé hjá ríkissjóði ásamt vöxtum, hinn skuldi ríkissjóði virðisaukaskatt ásamt áföllnum dráttarvöxtum. Þar sem svona hátti til séu skilyrði samlagsaðildar ekki fyrir hendi og beri því að vísa málinu frá dómi þegar af þeirri ástæðu.

                Þá bendir stefndi á að leiðréttingu á virðisaukaskattsgreiðslum stefnenda sé lokið. Þeim hafi lokið 28. apríl 2009 þegar stefnendum, hvorum um sig, hafi verið tilkynnt um leiðréttingu á virðisaukaskattskilum þeirra. Stefndi fái því ekki séð að lögvarðir hagsmunir stefnenda samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 séu fyrir hendi til að fá leyst úr fyrstu tveimur dómkröfuliðunum. Beri því að vísa málinu frá dómi.

                Stefndi byggir frávísunarkröfu sína jafnframt á því, að annar og þriðji dómkröfuliður í stefnu ósamrýmanlegir. Ekki verði séð að stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um báðar kröfurnar. Dómsúrlausn um greiðslukröfuna feli jafnframt í sér úrlausn á viðurkenningarkröfunni.

Stefndi kveður stefnanda, Seim ehf., ekki hafa rökstutt hvaða sjálfstæðu og lögvörðu hagsmuni hann hafi af úrlausn málsins, að teknu tilliti til þess að virðisaukaskattskil hans voru leiðrétt 28. apríl 2009. Þá sé óumdeilt að ríkissjóður hafi greitt þessum stefnanda vexti að fjárhæð 9.437.953 samkvæmt 1. og 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 séu því ekki fyrir hendi og beri af þeim sökum að vísa málinu frá dómi.

Stefndi telur vafa leika á því hvort dómstóll sé bær til að dæma um það sakarefni,  sem fólgið sé í öðrum dómkröfulið stefnenda, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Þótt dómstólar hafi heimild til að dæma hvort farið hafi verið að lögum við ákvörðun Tollstjóra, leiði þrískipting ríkisvaldsins samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, til þess að almennt sé það ekki á færi dómstóla að taka nýjar ákvarðanir um málefni sem stjórnvöldum séu falin að lögum.

Stefndi bendir á að ýmsar aðrar frávísunarástæður séu fyrir hendi málinu. Þannig sé kröfugerð stefnenda ekki svo skýr sem skyldi og uppfylli vart ákvæði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ekki sé gerð nein varakrafa í dómkröfum, þrátt fyrir að slík krafa sé reifuð í málsástæðukafla stefnunnar. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 eigi dómkröfur ekki heima í málsástæðukafla stefnu.

Loks byggir stefndi á því, að dráttarvaxtakrafa stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., sé óljós og í andstöðu við ákvæði f-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og beri því að vísa henni frá dómi. Í stefnu sé krafa um dráttarvexti þannig ýmist studd 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, 2. mgr. 5. gr. sömu laga eða 1. og 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Stefndi mótmælir öllum málatilbúnaði stefnenda sem röngum og byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að skilyrði lokamálsliðar 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, séu ekki uppfyllt. Í öðru lagi krefst stefndi sýknu með vísan til þess að endurgreiðslukrafa stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., sé fallin niður fyrir fyrningu.

Til viðbótar þeim lagarökum stefnda, sem hér að framan eru tilgreind, vísar stefndi um málskostnaðarkröfu sína til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

Stefnendur mótmæla frávísunarkröfu stefnda. Við munnlegan málflutning um ágreining aðila að þessu leyti, vísuðu stefnendur til þess að kröfugerð í stefnu væri þríþætt. Samkvæmt fyrsta kröfulið í stefnu geri stefnendur hvor um sig kröfu um að felld verði úr gildi ákvörðun Tollstjóra frá 4. mars 2013 og því sé um að ræða samlagsaðild stefnenda samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Aðild stefnenda að viðurkenningarkröfunni í öðrum dómkröfulið byggi á ákvæðum 18. gr. sömu laga um samaðild, enda lúti sú krafa að óaðskiljanlegum réttindum þeirra til að gera upp virðisaukaskatt sín í milli en sömu viðskipti hafi bæði leitt til ofgreiðslu og vangreiðslu skattsins. Þá liggi ljóst fyrir að stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., standi einn að greiðslukröfu í þriðja dómkröfulið. Í raun liggi fyrir að allar dómkröfur stefnenda séu af sömu rót runnar og því standi engin rök til þess að vísa málinu frá á grundvelli sjónarmiða um samaðild eða samlagsaðild.

Stefnendur kveða augljóst að þeir eigi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um dómkröfur sínar, þ. á m. um viðurkenningu á rétti þeirra. Loks vísa stefnendur því á bug að málið teljist vanreifað með vísan til ákvæða b- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, svo sem stefndi haldi fram. 

V

Í stefnu eru dómkröfur stefnenda settar fram í þremur liðum. Eins og rakið er hér að framan, krefjast stefnendur þess í fyrsta dómkröfulið að felld verði úr gildi tiltekin ákvörðun Tollstjóra um að hafna í fyrsta lagi endurgreiðslukröfu stefnenda og í öðru lagi beiðni þeirra um að koma að leiðréttingu virðisaukaskatts þeirra á milli með milligöngu ríkissjóðs vegna virðisaukaskattsgreiðslna á tilteknu tímabili með tilteknum hætti þannig að virðisaukaskattur gangi til baka án nokkurrar vaxtagreiðslu. Þessari kröfu til stuðnings vísa stefnendur til ákvæða 3. mgr. 22. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem mælir fyrir um að skilaskylda skattsins til ríkissjóðs sem verði til þegar skattskyldur aðili tilgreinir á reikningum sínum of háan virðisaukaskatt eða virðisaukaskatt af viðskiptum, sem ekki séu skattskyld, falli niður þegar leiðréttingu verður komið við gagnvart kaupanda. Sá virðisaukaskattur, sem ranglega hafi verið reiknaður, hafi allur verið kominn til vegna viðskipta stefnenda innbyrðis og því hafi verið eðlilegast að stefnendur fengju sjálfir að leiðrétta greiðslurnar sín á milli. Ljóst er að málsókn stefnenda er til komin vegna endurkröfu stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., á dráttarvöxtum sem hann greiddi í ríkissjóð vegna viðskiptanna.

                Fyrir liggur að til grundvallar dómkröfum stefnenda liggja tveir úrskurðir yfirskattanefndar frá 1. júní 2011 um endurákvörðun opinberra gjalda, annars vegar vegna stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., og hins vegar vegna stefnanda, Seims ehf. Óumdeilt er að samkvæmt niðurstöðu yfirskattanefndar vangreiddi stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., virðisaukaskatt vegna umræddra viðskipta stefnenda en stefnandi, Seimur ehf., ofgreiddi virðisaukaskatt vegna sömu viðskipta.

                Af framgreindu er ljóst að niðurstaða yfirskattanefndar í framangreindum úrskurðum og jafnframt umþrætt ákvörðun Tollstjóra hefur skapað gjörólíka aðstöðu hvors stefnanda um sig með tilliti til sakarefnisins. Dómkröfur stefnenda geta því ekki talist eiga rót að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður jafnframt að líta til þess að þótt stefnendur séu tengd félög eru þeir sjálfstæðir skattaðilar og verður af framangreindu ekki séð að þeir eigi óskipt réttindi að því er varðar stefnukröfur máls þessa. Af þeim sökum verður aðild stefnenda ekki byggð á ákæðum um samaðild í 1. mgr. 18. gr. sömu laga. Af framangreindum sökum þykir, þegar af þeim ástæðum, verða að vísa frá dómi tveimur fyrstu dómkröfuliðum stefnenda í stefnu, þ.e. kröfu um að felld verði úr gildi ákvörðun Tollstjóra, dagsett 4. mars 2013, og kröfu um að viðurkennt verði að stefnendum sé heimilt að koma að leiðréttingu virðisaukaskatts sín á milli með þeim hætti sem þar er lýst.

                Stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., gerir í þriðja dómkröfulið kröfu um að stefnda verði gert að greiða honum ofgreidda dráttarvexti að fjárhæð 25.601.318 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2013 til greiðsludags. Krafan er byggð á sömu málsástæðum og fyrsti dómkröfuliður byggist á, „að breyttu breytanda“, auk þess sem vísað er til meginreglunnar um endurgreiðslu ofgreidds fjár og 1. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Í ljósi þess hvernig stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., hefur með þessum hætti lagt grundvöll að kröfugerð sinni í þessum kröfulið, er ljóst að úrlausn um hana fæli í raun jafnframt í sér að leyst yrði efnislega úr framangreindum kröfum sem þegar hefur verið vísað frá dómi. Þykir því ekki verða hjá því komist að fallast á frávísunarkröfu stefnda hvað hana varðar.

Í málsástæðnakafla stefnunnar er að finna varakröfu stefnanda, Íslensku auglýsingastofunnar ehf., að því er fjárkröfu hans varðar. Þar krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða honum 16.163.365 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi hefur mótmælt varakröfunni með vísan til ákvæða d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, enda sé engin varakrafa sett fram í dómkröfukafla stefnunnar, auk þess sem þessi dómkrafa sé óskýr. Í tilvitnuðum ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 er að finna skýr fyrirmæli um framsetningu annars vegar kröfugerðar og hins vegar málsástæðna í stefnu. Að því virtu og þegar litið er til þess að kröfugerðin er að þessu leyti óskýr að því er varðar lagagrundvöll og málsástæður þykir verða að fallast á það með stefnda að þessum kröfulið beri að vísa frá dómi.

Að öllu framangreindu virtu verður, þegar af framangreindum ástæðum, ekki hjá því komist að vísa öllum kröfum stefnenda frá dómi, svo sem krafist er.

Eftir niðurstöðu málsins og með vísan til ákvæða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnendum gert að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnendur, Íslenska auglýsingastofan ehf. og Seimur ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 500.000 krónur í málskostnað.