Hæstiréttur íslands
Mál nr. 763/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Afhending gagna
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði með beinni aðfarargerð gert að veita sér „aðgang að skjölum þrotabús Guðnýjar Pálsdóttur, þ.m.t. rafrænum, til skoðunar og afhenda gerðarbeiðanda eftirrit af þeim á kostnað gerðarbeiðanda: kröfulýsingum, fundargerðum, bréfum til héraðsdóms og samskiptum skiptastjóra og þrotamanns.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem segir í dómsorði.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, um að sér verði heimilað að fá með innsetningargerð aðgang að skjölum þrotabús Guðnýjar Pálsdóttur í vörslum varnaraðila, Smára Hilmarssonar, og afhent eftirrit af þeim.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 8. nóvember 2016
Mál þetta barst dóminum með aðfararbeiðni 22. september sl. Sóknaraðili er Lánasjóður íslenskra námsmanna, kt. 710169-0989, Borgartúni 21, Reykjavík. Varnaraðili er Smári Hilmarsson, kt. [...], Holtavegi 10, Reykjavík, skiptastjóri í þrotabúi Guðnýjar Pálsdóttur, kt. [...].
Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að varnaraðila „verði með beinni aðfarargerð, gert að veita gerðarbeiðanda aðgang að skjölum þrotabús Guðnýjar Pálsdóttur, þ.m.t. rafrænum, til skoðunar og afhenda gerðarbeiðanda eftirrit af þeim á kostnað gerðarbeiðanda: kröfulýsingum, fundargerðum, bréfum til héraðsdóms og samskiptum skiptastjóra og þrotamanns. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.“
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila
Málið var tekið til úrskurðar 1. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi.
I
Málavextir
Bú Guðnýjar Pálsdóttur var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 19. maí 2014 og var varnaraðili skipaður skiptastjóri í búinu. Skiptum lauk 13. ágúst 2014 á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur en þær námu 8.871.314 krónum auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir upphaf skipta. Skiptastjóri tók ekki afstöðu til almennra krafna.
Sóknaraðili lýsti við skiptin fjórum kröfum af sjö í flokki almennra krafna, samtals að fjárhæð 6.187.842 krónur eða sem svaraði til um 70% af kröfum sem lýst var í þeim flokki. Sóknaraðili höfðaði mál á hendur Guðnýju Pálsdóttur 10. ágúst 2016 til viðurkenningar á slitum á fyrningu á áðurnefndum kröfum hans.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að mál það sem hann hafi nú höfðað á hendur þrotamanni, Guðnýju Pálsdóttur, sé rekið á grundvelli 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 svo sem þeim var breytt með 1. mgr. laga nr. 142/2010. Málið sé höfðað til öflunar viðurkenningardóms um slit fyrningar á kröfu stefndu um endurgreiðslu námsláns sem hún fékk á sínum tíma. Lög nr. 142/2010 reisi skorður við því að slíkur viðurkenningardómur verði kveðinn upp í þágu kröfuhafa. Í lagaákvæðinu segi að viðurkenningu skuli því aðeins veita með dómi að lánardrottinn sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningarfresti.
Sóknaraðili telji að meðal skjala þrotabúsins kunni að vera gögn sem gagnast kunni honum við greinda sönnunarfærslu. Því hafi af hans hálfu verið leitað eftir aðgangi að þeim hjá varnaraðila sem hafi synjað og m.a. borið fyrir sig sjónarmið um persónuvernd. Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 beri skiptastjóra að varðveita gögn bús um sinn eftir að skiptum lýkur. Þá segi í 2. mgr. að sá sem sýni skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta geti krafist þess að fá aðgang að skjölum þrotabúsins til skoðunar og eftirrit af þeim á eigin kostnað meðan skiptastjóri hafi þau í vörslum sínum. Hér sé um skýra og ótvíræða réttarfarsreglu að ræða sem verði í réttarfarsframkvæmd að ganga framar sjónarmiðum um persónuvernd enda ekki unnt að líta svo á að lagaákvæði um persónuvernd víki afdráttarlausum réttarfarsákvæðum til hliðar. Gjaldþrotaskipti séu fullnustugerð sem fram fari í þágu kröfuhafa og fyrir því hafi verið gerð grein að hagsmunir sóknaraðila séu enn til staðar eftir skiptalok. Réttur hans hljóti því að teljast ótvíræður og skýr enda studdur beint við fyrirmæli tilvitnaðs ákvæðis laga nr. 21/1991. Um lagarök sé jafnframt vísað til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 73. gr. þeirra um innsetningu í umráð eftirrita af skjölum búsins. Skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Þá uppfylli krafa hans til dómsins einnig skýrleika. Krafist sé afhendingar tiltekinna gagna með beinni aðfarargerð. Hafnar sóknaraðili því að krafa hans sé ekki tæk til úrskurðar svo sem varnaraðili hafi haldið fram.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Varnaraðila vill í upphafi taka fram að hann hafi sem skiptastjóri í þrotabúi Guðnýjar Pálsdóttur sent tilkynningu til héraðsdóms um lok skipta með vísan til 1 mgr. 162. gr. laga nr. 21/1991 og auglýst skiptalok í Lögbirtingablaðinu 20. ágúst 2014. Eftir það hafi hann ekki haft afskipti af málefnum búsins. Erindi hafi borist frá lögmanni sóknaraðila í ágúst 2016 þar sem farið hafi verið fram á afhendingu gagna búsins. Hafi varnaraðili ekki talið sóknaraðila hafa lögvarða hagsmuni af því að fá afrit af gögnum búsins eða samskiptum þrotamanns og skiptastjóra.
Guðný Pálsdóttir hafi á þessum tíma sett sig í samband við varnaraðila þar sem búið hafi verið að birta henni stefnu í máli sóknaraðila á hendur henni. Í stefnunni hafi verið skorað á hana að hún legði fram ákveðin gögn í því máli. Hafi varnaraðili upplýst hana og lögmann hennar um fram komna kröfu sóknaraðila. Hafi þau bæði sett sig upp á móti því að gögnin yrðu afhent.
Sóknaraðili hafi ekki sætt sig við afstöðu varnaraðila og lagt fram kvörtun til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem gerðar voru aðfinnslur við störf skiptastjóra. Hafi það fengið númerið Ö-26/2016. Það mál hafi verið fellt niður af hálfu sóknaraðila þar sem héraðsdómur hafi talið að einungis væri unnt að gera skriflegar aðfinnslur við störf skiptastjóra meðan á skiptum standi. Málið hafi því farið í þann farveg sem það sé nú í.
Varnaraðili kveður sóknaraðila byggja kröfu sína á því að hann eigi sem kröfuhafi lögvarða hagsmuni af því að fá þau gögn sem skiptastjóri hefur undir höndum. Sé þar m.a. um að ræða skiptabeiðni, skattskýrslur, samskipti skiptastjóra og þrotaaðila, kröfulýsingar og fylgigögn þeirra, eignakannanir, yfirlit yfir bankainnstæður, o.fl. Varnaraðili telji hér vera um að ræða gögn sem falli undir persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Svo að slíkar upplýsingar verði veittar þurfi að fullnægja einhverjum þeim skilyrðum sem fram komi í 8. gr. þeirra laga. Ekkert þeirra eigi við um tilvik þetta. Ljóst sé að lög nr. 77/2000 beri að skýra þröngt og allan vafa beri að túlka einstaklingi í hag. Þá bendir varnaraðili á að hefði hann samþykkt að afhenda gögnin hefði hann gerst brotlegur gagnvart þrotamanni á grundvelli laga nr. 77/2000 og gæti þurft að sæta ábyrgð af þeim sökum með vísan til VII. kafla laganna. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kröfum sóknaraðila.
Þá telji sóknaraðili sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá aðgang að gögnum búsins í skilningi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991. Ákvæðið sjálft gefi ekki fyrirmæli um hvernig skilgreina beri lögvarða hagsmuni og þá sé ekki að finna leiðbeiningar um það í lögskýringargögnum. Óljóst sé því hvað falli hér undir og beri því að skýra ákvæðið þröngt. Afhending til þriðja aðila eins og sóknaraðila standist vart skoðun.
Þá byggir varnaraðili á því að skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 séu ekki uppfyllt í málinu. Málið snúist ekki um afhendingu á skráðri eign, eða öðrum réttindum sem sóknaraðili getur sannað eignarhald sitt á, heldur sé um persónuleg gögn að ræða sem tilheyri einstaklingi sem ekki sé einu sinni aðili að þeirri aðfarargerð sem lögð hafi verið fram. Ákvæðið hafi verið skýrt svo að krafa gerðarbeiðanda verði að vera skýr eða ljós og um skýlausan rétt að ræða eða að réttmæti kröfu hans sé það ljóst að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana. Skilyrði þessi séu ekki uppfyllt og því varhugavert að gerðin nái fram að ganga, sbr. 83. gr. áðurnefndra laga.
Sóknaraðili styðji kröfu sína við 2. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Með því ákvæði sé ekki veittur almennur aðgangur að skjölum þrotabús. Ekki nægi að sá sem krefst aðgangs hafi hagsmuni af því heldur verða þeir hagsmunir að vera lögvarðir. Hæstiréttur hafi staðfest það með dómum að aðili geti átt rétt á að fá afhent gögn úr þrotabúi með það sjónarmið í huga að slík gögn geti gagnast við ákvarðanatöku um hvort höfða eigi mál á hendur þrotaaðila til heimtu skaðabóta. Í þessum dómum hafi kröfunni verið beint að lögaðilum en ekki einstaklingum. Sé þar ólíku saman að jafna og enn brýnna að standa vörð um einkamálefni einstaklings. Þá fái það varla staðist að þriðji aðili, sem lýst hafi kröfu í bú, geti með þessum hætti fengið aðgang að skjölum þrotabús og skipti þá engu máli hvort sá aðili er einstaklingur að lögaðili. Með engu móti sé hægt að réttlæta að skiptastjóra sé gert að afhenda slíkum aðila gögn er varða mjög persónuleg málefni þrotamanns.
Þá bendir varnaraðili á að í máli þessu hátti svo til að sóknaraðili hafi nú þegar höfðað mál á hendur þrotamanni. Sóknaraðili hafi því væntanlega metið það svo á grundvelli fyrirliggjandi gagna að efni stæðu til þess að fara í dómsmál. Verður því ekki séð að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá umrædd gögn afhent í sérstöku innsetningarmáli. Telji sóknaraðili að umrædd gögn geti nýst honum við sönnunarfærslu í því máli séu aðrar leiðir fyrir hendi fyrir hann til þess að nálgast gögnin, sbr. reglur 2. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Telji verði eðlilegra að dómari þess máls meti hvort umrædd gögn eigi erindi inn í málið á grundvelli málsmeðferðarreglna laga nr. 91/1991. Endanlegt mat um það hvort þessi gögn séu nauðsynleg eigi heima hjá þeim dómara sem fari með það mál sem sóknaraðili hafi nú höfðað.
Að lokum tekur varnaraðili fram að hann telji sig sem skiptastjóra ekki bæran til að taka ákvörðun um afhendingu, sem snerti persónuleg málefni þrotamanns, úr búi þar sem skiptum sé lokið. Telji sóknaraðili innsetningarmál á annað borð vera réttan farveg fyrir kröfu sína hefði hann átt að beina kröfu sinni um afhendingu að þrotamanni sjálfum.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess með beinni aðfarargerð að varnaraðila verði, sem skiptastjóra í þrotabúi Guðnýjar Pálsdóttur, gert að veita sóknaraðila „aðgang að skjölum þrotabús Guðnýjar Pálsdóttur, þ.m.t. rafrænum, til skoðunar og afhenda [sóknaraðila] eftirrit af þeim á kostnað [sóknaraðila]“. Samkvæmt kröfugerð sóknaraðila er þar nánar um að ræða kröfulýsingar, fundargerðir, bréf til héraðsdóms og samskipti skiptastjóra og þrotamanns.
Kröfu sína byggir sóknaraðili á 78. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 73. gr. þeirra. Sóknaraðili vísar þó einnig til 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 til nánari útskýringar eða fyllingar á því að hann hafi, sem kröfuhafi í bú þrotamanns, lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá umrædd gögn. Varnaraðili hefur hafnað því að gögn þau sem tilgreind eru í kröfu sóknaraðila verði tekin með beinni aðfarargerð úr hans vörslum þar sem efnisleg skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 séu ekki uppfyllt svo að gerðin megi fara fram. Þá hefur varnaraðili einnig talið að kröfugerð sóknaraðila sé með þeim hætti að hún sé ekki tæk til úrskurðar í innsetningarmáli samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1989. Varnaraðili hefur einnig vísað til þess að honum sé á grundvelli laga nr. 77/2000 ekki heimilt að afhenda umbeðin gögn. Jafnframt hefur varnaraðili á því byggt að þar sem sóknaraðili hafi nú þegar höfðað mál á hendur þrotamanni til viðurkenningar á rofi fyrningar eigi krafa hans um afhendingu gagnanna og meðferð hennar heima undir rekstri þess máls en ekki í sérstöku innsetningarmáli.
Mál þetta er rekið á grundvelli 12. kafla laga nr. 90/1989 um útburðar- og innsetningargerðir án undangengins dóms eða réttarsáttar. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 gildir það almenna skilyrði fyrir beinni aðfarargerð að krafa gerðarbeiðanda sé skýr eða ljós, að um skýlaus réttindi sé að ræða eða að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst, að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana og sönnur fyrir því verði færðar með þeim gögnum sem aflað verður fyrir dómi samkvæmt reglum 83. gr. sömu laga þannig að ekki verði talið varhugavert að hún nái fram að ganga.
Sóknaraðili hefur vísað til þess að Hæstiréttur hafi í fjölmörgum dómum fallist á að aðili hefði rétt til að fá gögn afhent úr þrotabúum í því skyni að auðvelda ákvarðanatöku við það hvort höfða eigi mál á hendur þrotamanni.
Í máli þessu liggur á hinn bóginn fyrir að sóknaraðili hefur höfðað mál á hendur þrotamanni, Guðnýju Pálsdóttur, til viðurkenningar á slitum fyrningar á kröfu sem lýst var við skipti á búi hennar. Er það rekið fyrir dóminum undir númerinu E-2919/2016 og var þingfest 27. september sl. Stefna málsins liggur fyrir í máli þessu en þar skorar sóknaraðili, sem stefnandi málsins, á stefndu að leggja fram skattframtöl síðustu þriggja ára og útprentun úr staðgreiðsluskrá yfirstandandi ár auk skýrslu hennar hjá skiptastjóra samkvæmt 81. gr. laga nr. 21/1991 og ljósrit af öllum kröfulýsingum sem lýst var í þrotabúið. Af þessu er ljóst að hér er að nokkru um að ræða sömu gögn og krafist er afhendingar á í því máli sem hér liggur fyrir dóminum en þó ekki að öllu leyti.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að gögn þau sem hann óskar afhendingar á „kunni að vera gögn sem gagnast kunni honum við greinda sönnunarfærslu“ í máli nr. E-2919/2016. Var það ítrekað af hálfu lögmanns sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að öflun umræddra gagna væri liður í sönnunarfærslu í ofangreindu máli og að þau kynnu að vera lögð fram undir rekstri þess máls.
Ekki verður því um það deilt að sóknaraðili freistar þess í því máli sem hér er til umfjöllunar að afla gagna til framlagningar og sönnunarfærslu í ofangreindu máli. Í því ljósi verður að telja það fara í bága við meginreglur réttarfars að taka kröfu hans til greina í þessu máli. Verður að fallast á þau sjónarmið varnaraðila að sóknaraðila beri að fara eftir þeim gagnaöflunarleiðum sem lög nr. 91/1991 gera ráð fyrir og að það sé í höndum þess dómara sem fer með ofangreint mál að taka afstöðu til þess hvort umrædd gögn kunni að hafa þýðingu við úrlausn þess máls og hvernig með eigi að fara verði þau ekki lögð fram, sbr. X. kafla þeirra laga og eftir atvikum VIII. kafla þeirra. Að mati dómsins er við úrlausn málsins óhjákvæmilegt að hafa til leiðsagnar þau sjónarmið sem fram koma í dómi Hæstaréttar í máli nr. 821/2014. Þar sem mál þetta er ekki rekið fyrir dóminum á réttum lagagrundvelli brestur lagaskilyrði til að leysa efnislega úr kröfu sóknaraðila og þegar af þessari ástæðu er óhjákvæmilegt að vísa því frá dómi. Koma því önnur sjónarmið aðila ekki til frekari skoðunar í málinu.
Í samræmi við úrslit málsins, og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 78. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 24. október sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði varnaraðila, Smára Hilmarssyni, hdl. skiptastjóra, 280.000 krónur í málskostnað.