Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-27

Berjaya Hotels Iceland hf. og Icelandair Group hf. (Gunnar Sturluson lögmaður)
gegn
Suðurhúsum ehf. (Einar Þór Sverrisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Húsaleigusamningur
  • Vanefnd
  • Force majeure
  • Brostnar forsendur
  • Ógilding samnings
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. mars 2023 leita Berjaya Hotels Iceland hf. og Icelandair Group hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. febrúar 2023 í máli nr. 454/2021: Berjaya Hotels Iceland hf. og Icelandair Group hf. gegn Suðurhúsum ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandinn Berjaya Hotels Iceland hf. (þá Flugleiðahótel hf.) og gagnaðili gerðu með sér leigusamning á árinu 2014 þar sem tekin var á leigu fasteign í eigu gagnaðila til ársins 2036 í því skyni að reka þar hótel. Leyfisbeiðandinn Icelandair Group hf. ábyrgðist greiðslu sex mánaða leigu samkvæmt leigusamningnum. Vegna aðstæðna sem rekja mátti til Covid-19 faraldursins var hótelinu meðal annars lokað um tíma á árinu 2020.

4. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um vangoldnar leigugreiðslur á tímabilinu frá apríl 2020 til og með nóvember sama ár. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á að gagnaðili ætti kröfu á hendur Berjaya Hotels Iceland hf. vegna vangoldinnar leigu og á hendur Icelandair Group hf. á grundvelli ábyrgðarskuldbindingar. Frá kröfu sinni dró gagnaðili innborganir Berjaya Hotels Iceland hf. sem námu 20% af umsömdu leigugjaldi.

5. Í dómi Landsréttar var lagt til grundvallar að Covid-19 faraldurinn og ráðstafanir stjórnvalda tengdar honum hefðu falið í sér atburð sem í samningssambandi aðila hefði fallið undir hina óskráðu reglu kröfuréttar um óviðráðanlegar ytri aðstæður (force majeure). Greiðsluvandi Berjaya Hotels Iceland hf. hefði stafað af ófyrirsjáanlegum og óviðráðanlegum atburði ótengdum rekstri félagsins að öðru leyti og ekki um vanefnd að ræða af hálfu félagsins á tímabilinu. Í því fælist þó ekki sjálfkrafa að greiðsluskylda félli niður enda bæri skuldara að efna samningsskuldbindingar sínar þegar efndahindrun sem fellur undir regluna um force majeure væri úr vegi nema lög stæðu til annars. Þá féllst Landsréttur ekki á fella niður að hluta eða í heild greiðsluskyldu leyfisbeiðenda á grundvelli brostinna forsendna eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

6. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um áhrif ófyrirsjáanlegra og óviðráðanlegra ytri atvika á skuldbindingargildi samninga í ljósi Covid-19 faraldursins og aðgerða stjórnvalda í tengslum við hann. Auk þess reyni með fordæmisgefandi hætti á beitingu áhættuskiptareglna kröfuréttar og túlkun 36. gr. laga nr. 7/1936 við aðstæður þar sem slík atvik hafa áhrif á samninga til langs tíma. Þá varði málið mikla fjárhagslega hagsmuni leyfisbeiðenda og uppgjör fleiri samningsgreiðslna. Loks telja leyfisbeiðendur þá niðurstöðu Landsréttar ranga að á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 væru hvorki í heild né að hluta efni til að fella á gagnaðila hina endanlegu áhættu af áhrifum Covid-19 faraldursins.

7. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft verulegt almennt gildi um efndir og uppgjör í viðvarandi samningssambandi með hliðsjón af áhrifum ófyrirsjáanlegra og óviðráðanlegra ytri atvika og þýðingu ógildingarreglna samningaréttar við slíkt uppgjör. Beiðnin er því samþykkt.