Hæstiréttur íslands

Mál nr. 538/2017

A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem nauðungarvistun A var framlengd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 18. sama mánaðar um að framlengja nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi í allt að 21 sólarhring frá þeim degi að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2017.

Með kröfu, sem er dagsett 18. ágúst sl. og barst dóminum 21. ágúst sl., hefur sóknaraðili A, kt. [...], [...], Reykjavík, krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 18. ágúst sl., þar sem fallist var á að sóknaraðili yrði vistaður á sjúkrahúsi á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Þá krefst sóknaraðili þess að þóknun skipaðs talsmanns síns verði greidd úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Varnaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun sýslumanns höfuðborgarsvæðisins um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest.

Um aðild varnaraðila er vísað til 20. gr. laga nr. 71/1997, sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Málið var þingfest 22. ágúst sl. og tekið til úrskurðar samdægurs.

Í beiðni varnaraðila til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um nauðungarvistun sóknaraðila kemur fram að [...] ágúst sl. hafi sóknaraðili verið lagður inn gegn vilja sínum á deild 33C á LSH og settur á 72 tíma nauðungarvistun frá kl. 10:45 sama dag. Sóknaraðili hafi [...] ágúst sl. slegið til starfsmanns og í framhaldinu verið nauðungarsprautaður og fluttur á bráðageðdeild 32C. Fram kemur í beiðninni að sóknaraðili eigi sögu um þunglyndi og haft vaxandi örlyndiseinkenni sl. vikur sem hafi aukist hratt dagana fyrir innlögn. Örlyndisástand hans sé þannig að jafna megi það til alvarlegs geðsjúkdóms og sjúkdómsinnsæi hans sé nær ekkert. Nauðungarvistun hafi því verið óhjákvæmileg og því til stuðnings sé að öðru leyti vísað til meðfylgjandi læknisvottorðs B geðlæknis, dags. 17. ágúst 2017.

Í framangreindu vottorði er farið yfir sjúkdómsferil og félagslegar aðstæður sóknaraðila í aðdraganda þess að hann hafi verið settur í 72 tíma nauðungarvistun. Samkvæmt vottorðinu eigi sóknaraðili sögu um þunglyndi sem hafi fyrst greinst árið 2000 í kjölfar fjárhagsvanda hans. Hann sé með hrygggigt og í meðferð vegna þess. Þá hafi hann verið á lyfjum vegna þunglyndisins sl. vikur en þeirri meðferð hafi verið hætt fyrir innlögn sökum örlyndis hans.

Sóknaraðili hafi komið í viðtal á göngudeild í fylgd ættingja sem hafi lýst miklum áhyggjum af ástandi hans. Þeir hafi greint frá því að örlyndiseinkenni hans hafi aukist vikurnar á undan en fyrst hafi orðið vart við breytingar á sóknaraðila í maí sl. Þá hafi hann verið mikið á ferðinni og sofið minna. Ástand hans hafi svo versnað svo um munar dagana fyrir innlögn en þá hafi sóknaraðili að sögn ættingja verið hættur að sofa og varið tíma sínum í miðbæ Reykjavíkur um nætur. Við komu á geðdeild hafi sóknaraðili verið verulega æstur, með hækkaðan talþrýsting og virst algjörlega innsæislaus um ástand sitt. Hann hafi talið sig vera ofurkláran og með ofurminni og muna vel atburði frá fyrstu æviárum sínum. Þá hafi hann sagst vera kominn í sjálfboðaliðastarf fyrir eldri borgara um allt land og búinn að panta fund með forsetanum. Aðfaranótt [...]. ágúst sl. hafi sóknaraðili slegið til starfsmanns á geðdeildinni og í kjölfarið verið fluttur á bráðageðdeild 32C þar sem hann var nauðungarsprautaður.

Í vottorðinu kemur fram að í viðtali [...] ágúst sl. hafi sóknaraðili lýst því að hann kannist við atburði síðastliðnu daga en telji sig ekki þurfa að dvelja á geðdeild þó hann hafi verið í örari kantinum. Einnig hafi hann gert lítið úr handalögmálum sínum við starfsmenn geðdeildar nóttina áður. Hann hafi ítrekað að hann telji sig ofurnæman og ofurminnugan. Þá telji hann sig aldrei hafa verið jafn skýran og sé ekki haldinn ofskynjunum. Hann neiti því að vilja skaða sig, pirrist fljótt og kvarti yfir því að fá ekki greið og skjót svör við spurningum sínum, hækkar þá róminn. Samkvæmt skoðun geðlæknis sé niðurstaða sú að talþrýstingur sé greinilega aukinn og „affect“ hækkaður. Sóknaraðili sé með nánast ekkert sjúkdómsinnsæi og með stórmennskuranghugmyndir sem séu dæmigerðar í örlyndi Þá sé mikil breyting á hegðun og athöfnum hans. Sóknaraðili sé í greinilegu örlyndisástandi sem jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms og því sé nauðungarvistun óhjákvæmileg.

Dómari heimsótti sóknaraðila á geðdeild, ræddi þar við hana um líðan hans og aðstæður. Í máli sóknaraðila kom fram að hann teldi sig ekki vera í þörf fyrir frekari innlögn, en hann taldi sig reiðubúinn til að fara út af deildinni og vera án lyfja. Hann greindi frá því að hann væri búinn að vera að trappa sig niður af lyfjum sl. 22 daga og tæki nú engin geðlyf.

C geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst vera ábyrgur sérfræðilæknir í innlögn sóknaraðila. Hún kvað hann í mikilli maníu eða örlyndi. Hann væri orkumikill, hátt stemmdur og hefði átt erfitt með að sofa. Ástand hans jafnaðist á við alvarlegan geðsjúkdóm. Hann væri nú kominn í bata en þyrfti lengri tíma á geðdeild. Nauðungarvistun væri því óhjákvæmileg. Hann væri nú á geðrofslyfjum og hún vissi ekki til annars en hann hefði tekið þau. Færi sóknaraðili nú af deildinni myndi ástand hans versna og hann þyrfti aftur á innlögn að halda. Um fyrstu innlögn sóknaraðila væri að ræða. Það væri rétt sem hann greindi frá að hann hefði verið að trappa sig niður af þunglyndislyfjum sem hugsanlega hefðu orsakað maníuna en nauðsynlegt væri að meðhöndla þetta ástand og rannsaka hvort eitthvað annað, hugsanlega eitthvað líkamlegt, hefði orsakað þetta ástand.

B geðlæknir gaf skýrslu fyrir dóminum í gegnum síma. Hann staðfesti vottorð sitt og skýrði ástand sóknaraðila. Hann teldi ástand hans jafnast á við geðhvörf með oflæti. Hann hefði hitt hann stuttu eftir innlögn og hann hefði verið í maníu eða örlyndisástandi. Hann hefði meðal annars verið hættur að sofa og verið í bænum á nóttunni, eytt um efni fram, verið pirraður og lent í útistöðum við fólk. Hann hefði talað samhengislaust og mikið. Hann hefði verið haldinn stórmennskuhugmyndum og virst hættulegur umhverfinu. Þessi hegðun hefði verið úr takt við karakter hans og ástandið hefði farið versnandi dag frá degi. Óhjákvæmilegt væri að nauðungarvista hann til þess að koma honum í jafnvægi.

Skipaður talsmaður sóknaraðila mótmælir kröfu varnaraðila um nauðungarvistun sóknaraðila og byggir á því að ósannað sé að skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 séu fyrir hendi.

         Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. 1. málslið 2. mgr. sömu greinar, má vista sjálfráða mann gegn vilja sínum á sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólarhring ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á því að svo sé eða að ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Er það jafnframt skilyrði nauðungarvistunar í svo langan tíma að hún sé talin óhjákvæmileg að mati læknis.

         Fyrir liggur vottorð geðlæknis þar sem staðfest er að sóknaraðili glímir við ástand sem talið er jafnast á við alvarlegan geðsjúkdóm. Þá virðist hann ekki hafa nægilegt innsæi í ástand sitt og þarfir. Samkvæmt þessu mati og með vísan til þess sem fram hefur komið fyrir dómi um heilsufar sóknaraðila meðan hann hefur dvalið á geðdeild verður á það fallist að hann sé haldin ástandi sem jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Jafnframt verður með hliðsjón af vottorðinu og skýrslugjöf læknis fyrir dómi að fallast á að ástand hans kalli á tímabundna dvöl á geðdeild til að tryggja viðeigandi lyfjagjöf, aðstoð og eftirfylgni. Sóknaraðili virðist ekki gera sér fullnægjandi grein fyrir ástandi sínu og er mótfallin því að dvelja áfram á sjúkrahúsinu í því skyni að fá þá læknisaðstoð sem hann er í brýnni þörf fyrir. Eins og heilsufari hans er háttað telur dómurinn í ljós leitt með framlögðum gögnum og vætti tveggja geðlækna fyrir dómi að vistun á sjúkrahúsi gegn vilja hans sé óhjákvæmileg. Með vísan til þess sem rakið hefur verið er á það fallist að skilyrðum 3. mgr., sbr. 1. málslið 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sé fullnægt, og að ekki sé efni til þess að fella ákvörðun sýslumanns úr gildi eins og sóknaraðili fer fram á.

         Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 ber að greiða allan kostnað málsins úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 170.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

      Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 18. ágúst sl. um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Allur kostnaður af málinu, þar með talið þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 170.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.