Hæstiréttur íslands
Mál nr. 105/2006
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Örorka
|
|
Þriðjudaginn 19. desember 2006. |
|
Nr. 105/2006. |
Ólafía Guðrún Leifsdóttir(Atli Gíslason hrl.) gegn Eir hjúkrunarheimili (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Skaðabótamál. Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka.
Ó slasaðist í júlí 1999 við störf sín hjá E þegar hún var að aðstoða aldraða konu við að standa upp úr hjólastól. Ó skýrði hjúkrunarfræðingi á vaktinni frá atvikinu en taldi að hún myndi jafna sig í sumarleyfi sem hófst næsta dag. Þegar Ó kom aftur til starfa reyndist henni ókleift að halda áfram fyrra starfi vegna einkenna eftir slysið. E sendi Vinnueftirliti ríkisins tilkynningu um slysið í október 1999. Ó reisti kröfu sína á því að ekki hefðu verið nægilega mörg tæki eða lyftur til afnota fyrir starfsmenn til að aðstoða ósjálfbjarga vistmenn og hélt því fram að eina lyftan sem til var hefði verið í notkun þegar slysið varð. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að sú staðhæfing fengi ekki stoð í skýrslu M sem varð vitni að atvikinu og bar að lyfta hefði verið tiltæk en ekki verið notuð þar sem umræddur vistmaður hefði ekki verið tekinn í lyftu. Þá báru tveir starfsmenn að vistmaðurinn hefði verið mótfallinn því að hjálpartæki yrðu notuð til að aðstoða hana, en það hafi þó verið gert á síðari stigum. Tveir aðrir starfsmenn báru hins vegar að lyfta hefði verið notuð til að aðstoða vistmanninn, en af svörum þeirra var ekki ljóst hvort það hafi verið á þeim tíma sem slysið varð eða síðar. Samkvæmt framangreindu var talið ósannað að skorti á hjálpartækjum yrði kennt um slys Ó og voru heldur ekki talin efni til að meta E í óhag að slysið var ekki strax tilkynnt Vinnueftirlitinu. Var E því sýknað af kröfu Ó.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2006. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.745.923 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.405.823 krónum frá 12. júlí 1999 til 12. janúar 2000 og af 1.745.923 krónum frá þeim degi til 26. maí 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem hún naut fyrir héraðsdómi.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
I.
Í héraðsdómi eru rakin atvik að því að áfrýjandi slasaðist við störf sín hjá stefnda, sem fólust í umönnun vistmanna á heimilinu. Gerðist það þegar hún var að aðstoða aldraða konu við að standa upp úr hjólastól til að komast á salerni, en konan var haldin helftarlömun. Lét áfrýjandi hana taka utan um háls sér um leið og hún hugðist reisa konuna upp til að standa síðan í vinstri fót. Fóturinn brást konunni, sem féll niður og dró áfrýjanda með sér. Við þennan óvænta hnykk fékk áfrýjandi áverka, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Þar er einnig rakið að áfrýjandi skýrði hjúkrunarfræðingi á vaktinni frá atvikinu, en áfrýjandi var þá á síðustu vinnuvakt sinni fyrir sumarfrí. Fyrir dómi kvaðst áfrýjandi hafa sagt hjúkrunarfræðingnum að hún hlyti að jafna sig í sumarfríinu og ekki átt von á öðru en að þetta myndi bara ganga til baka. Hún hefði oft orðið fyrir hnjaski á vinnustaðnum, en þetta hefði verið nokkuð mikið. Hjúkrunarfræðingurinn lýsti samskiptum þeirra svo að áfrýjandi hefði sagt: „Þetta lagast nú kannski, ég held að þetta sé nú kannski ekkert svo mikið.“ Samkvæmt vinnuskýrslu áfrýjanda hófst síðasta vinnuvakt hennar fyrir sumarleyfi kl. 23:30 að kvöldi 11. júlí 1999 og lauk kl. 07:30 næsta morgun. Hefur slysið því orðið þessa nótt. Áfrýjandi gekk til starfa sinna á ný að loknu sumarleyfi. Kom í ljós að einkenni eftir slysið gengu ekki til baka og reyndist áfrýjanda ókleift að halda áfram fyrra starfi. Sendi stefndi Vinnueftirliti ríkisins tilkynningu um slysið 29. október 1999. Liggur jafnframt fyrir læknisvottorð Gerðar Jónsdóttur dagsett sama dag. Þar kemur meðal annars fram að áfrýjandi hafi fyrst leitað til hennar vegna slyssins 15. júlí 1999 og orðið óvinnufær 13. október sama ár. Segir þar ennfremur að við slysið hafi áfrýjandi hlotið tognun í brjóstbaki og hálsi.
II.
Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að ekki hafi verið nægilega mörg tæki eða lyftur til afnota fyrir starfsmenn til að aðstoða ósjálfbjarga vistmenn. Á deildinni hafi verið 25 vistmenn og margir þeirra þannig á sig komnir að þeir gátu ekki gengið. Einungis hafi verið ein lyfta á deildinni til að létta undir með starfsmönnum við umönnun vistmanna, en aðra hvora viku hafi deildin haft aðra lyftu til afnota, sem hafi þess á milli verið nýtt annars staðar á vistheimilinu. Þessi tækjakostur hafi verið alls ónógur. Þegar slysið varð hafi eina lyftan á staðnum verið í notkun og því ekki um annað að ræða en að reisa vistmanninn upp úr hjólastólnum án slíkra hjálpartækja. Á þessum vanbúnaði verði stefndi að bera ábyrgð. Vísar áfrýjandi meðal annars til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, sem hér eigi við. Samkvæmt þeim sé sú skylda lögð á atvinnurekendur að hafa tiltæk viðeigandi hjálpartæki til að komast hjá því að starfsmenn þurfi að handleika byrðar. Jafnframt hefur verið á því byggt að ekki hafi verið tilkynnt um slysið strax til Vinnueftirlits ríkisins, svo sem skylt hafi verið.
Stefndi andmælir því að áðurnefndur tækjakostur hafi verið ónógur og að slysið verði rakið til þess. Þá telur hann ósannað að lyfta hafi ekki verið tiltæk í umrætt sinn þegar áfrýjandi var kvödd á vettvang til að aðstoða vistmanninn. Áfrýjandi hafi verið þaulvön því starfi, sem hér um ræðir. Það hafi verið óhapp sem enginn gat séð fyrir að fótur vistmannsins gaf sig og verði stefnda ekki gefið að sök hvernig fór. Þá hafi ekkert tilefni gefist til að tilkynna óhappið til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en gert var, en meðan á sumarleyfi stóð hafi áfrýjandi ekki greint stefnda frá líðan sinni og afleiðingar atviksins ekki orðið ljósar fyrr en nokkru eftir að fríinu lauk.
III.
María Ósk Bender varð vitni að atvikinu, sem málið er sprottið af. Hún var þá sumarstarfsmaður á vistheimilinu og hafði starfað þar í nokkrar vikur. Kvað hún vistmanninn hafa leitað eftir aðstoð til að komast á salerni og hún ekið konunni þangað í hjólastól. Hafi hún síðan þurft að bíða nokkra stund þar til áfrýjandi kom til aðstoðar. Áfrýjandi heldur því fram að eina lyftan sem til var hafi þá verið í notkun annars staðar. Sú staðhæfing fær ekki stoð í skýrslu Maríu fyrir dómi, en fram kom hjá henni að lyfta hafi verið tiltæk. Ekki liggur fyrir hvort ein eða tvær lyftur hafi verið til umráða á deildinni nóttina, sem atvikið varð. Sama vitni var spurt um það hvers vegna lyftan, sem hún sótti fram á gang, hafi ekki verið notuð og svaraði því til að þessi kona hafi ekki verið tekin í lyftu. Er sá framburður í samræmi við skýrslur Jóhönnu Hrefnu Hólmsteinsdóttur hjúkrunarfræðings og Birnu Kristínar Svavarsdóttur hjúkrunarforstjóra fyrir dómi, sem báru að umræddur vistmaður hafi verið mótfallinn því að hjálpartæki yrðu notuð til að aðstoða hana. Það hafi hins vegar verið gert á síðari stigum. Tveir starfsmenn hafa hins vegar borið að lyfta hafi verið notuð til að aðstoða umræddan vistmann. Af svörum þeirra er þó ekki ljóst hvort það hafi verið á þeim tíma sem slysið varð eða síðar.
Samkvæmt öllu framanröktu er ósannað að skorti á hjálpartækjum verði kennt um slys áfrýjanda. Eru ekki heldur efni til að meta stefnda í óhag eins og atvik eru vaxin að slysið var ekki strax tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2005.
I
II
Málsatvik eru þau að stefnandi slasaðist við vinnu sína hjá stefnda í júlímánuði 1999. Hafði hún unnið við umönnun hjá stefnda frá því í janúar 1995, lengst af í 80% starfi. Umrætt skipti hafði samstarfskona stefnanda, María Ósk Bender, óskað eftir aðstoð stefnanda við að hjálpa aldraðri konu, sem var vistmaður á hjúkrunarheimilinu, á salerni. Hafði konan hægri helftarlömun og var henni ekið á salernið í hjólastól. Við verkið notuðu þær ekki lyftu heldur hjálpuðust þær að við að koma konunni úr hjólastólnum og var einhvers konar snúningsdiskur settur undir fætur hennar til að auðvelda verkið. Hélt konan um háls stefnanda og er stefnandi var í þann veginn að snúa konunni á salernið gaf vinstri fótur konunnar sig með þeim afleiðingum að stefnandi hentist fram fyrir sig. Hélt konan fast um háls stefnanda og virðist sem henni hafi ekki orðið meint af fallinu en stefnandi fékk mikið tog hægra megin á hálsinn og heyrðist smellur þegar hún féll. Við slysið fékk stefnandi mikinn verk hægra megin á hálsi, öxl og niður eftir herðablaði. Stefnandi var á leið í sumarfrí eftir þennan vinnudag og vonaðist til að verkir þeir sem hún fann fyrir eftir slysið myndu lagast.
Stefnandi kveðst hafa fundið fyrir verkjum og farið til heimilislæknis í kjölfar slyssins og fengið lyf við verkjum og bólgum. Hún mætti svo aftur til vinnu eftir sumarfrí í ágúst 1999 og fór strax að vinna á deild sem var ekki eins erfið líkamlega og sú sem hún hafði unnið á áður. Stefnandi kveður að eftir að hún byrjaði að vinna aftur eftir sumarfrí hafi verkir þeir sem hún hafði fundið fyrir eftir slysið aukist verulega og gat hún á endanum ekki sinnt vinnu sinni vegna verkja. Ákvað stefnandi í samráði við hjúkrunarforstjóra stefnda að fara í sjúkraþjálfun og að hún kæmi til vinnu að henni lokinni. Þrátt fyrir þetta fékk stefnandi ekki slíkan bata að hún gæti haldið áfram störfum sínum hjá stefnda og varð hún að hætta störfum sínum þar.
Stefnandi hóf störf í Borgarskóla í febrúar 2000 sem stuðningsfulltrúi jafnframt því sem hún hóf nám þar fyrir stuðningsfulltrúa og lauk því ári seinna. Starf stefnanda sem stuðningsfulltrúi reyndist stefnanda of erfitt vegna líkamlegs álags og haustið 2004 hóf hún störf á skrifstofu Borgarskóla og starfar hún þar í dag.
Stefndi tilkynnti um slysið til Vinnueftirlits ríkisins 29. október 1999 og kveður ástæðu þess að það var ekki tilkynnt fyrr vera þá að stefnandi hafi farið í sumarfrí strax í kjölfar slyssins og stefnda ekki verið kunnugt um að hún hafi slasast fyrr en eftir að hún kom úr fríi og í ljós hafi komið hvaða áhrif slysið hafði haft á heilsu hennar.
Tryggingastofnun ríkisins mat varanlega örorku stefnanda 25. nóvember 2002 vegna slyssins og var hún metin 15%. Þann 14. janúar 2003 var ákvörðun Tryggingastofnunar kærð til Úrskurðarnefndar almannatrygginga sem mat örorku stefnanda 18%.
Stefnandi krafði réttargæslustefnda um bætur á grundvelli ábyrgðartryggingar stefnda og úr slysatryggingu launþega. Þann 2. október 2003 fékk stefnandi greitt úr slysatryggingu launþega 480.384 krónur en með bréfi 20. janúar 2004 hafnaði réttargæslustefndi bótaskyldu á grundvelli ábyrgðartryggingar stefnda þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að rekja mætti slys stefnanda til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda, ófullnægjandi vinnuaðstæðna, annarra atvika eða aðstæðna sem stefndi bæri skaðabótaábyrgð á. Ákvörðun réttargæslustefnda var skotið til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem staðfesti niðurstöðuna í úrskurði 16. nóvember 2004.
Þann 17. janúar 2005 óskaði lögmaður stefnanda eftir mati Jónasar Hallgrímssonar læknis á afleiðingum slyssins á heilsu stefnanda. Er matsgerð hans dagsett 29. mars 2005 og er niðurstaðan samkvæmt matinu sú að tímabundið atvinnutjón stefnanda sé 100% í sex mánuði eða á tímabilinu frá 12. júlí 1999 til 12. janúar 2000, þjáningatímabil það sama og tímabil óvinnufærni án rúmlegu. Varanlegur miski var metinn 18% og varanleg örorka 10%.
Stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar 8. nóvember 2004.
Í málinu er ekki deilt um afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda heldur lýtur ágreiningur aðila fyrst og fremst að því hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Byggir stefnandi á því að óforsvaranlegt hafi verið að starfsfólk stefnda hafi aðeins haft aðgang að einni lyftu og aðra hverja viku að tveim lyftum sem hjálpartæki fyrir allan þann fjölda vistmanna á hjúkrunarheimilinu sem nauðsynlega hafi þurft á slíkum lyftum að halda við að komast á salerni. Með því hafi starfsmönnum stefnda ekki verið tryggt það örugga og heilsusamlega starfsumhverfi sem þeir eigi kröfu til. Stefndi hins vegar telur að slys stefnanda verði rakið til óhappatilviljunar og eftir atvikum eigin sakar stefnanda.
III
Stefnandi kveður að á þeirri deild sem hún vann hafi verið 25 heimilismenn og margir þeirra það veikir að þeir hafi ekki getað gengið af ýmsum ástæðum. Að minnsta kosti 14 þeirra hafi þurft aðstoð við að komast á salerni og annað vegna lömunar og annarra sjúkdóma. Ein lyfta hafi verið á deild stefnanda til notkunar við að setja sjúklinga á salerni auk þess sem deildin hafi haft afnot af annarri lyftu aðra hverja viku. Vegna þessa hafi það oft komið fyrir að starfsmenn hafi þurft að aðstoða heimilismenn við að komast á salerni án þess að hafa lyftu til afnota. Í umrætt sinn hafi lyftan verið upptekin.
Stefnandi byggir aðallega á því að stefndi beri bótaskyldu á afleiðingum slyss hennar þar sem óforsvaranlegt hafi verið að ekki hafi verið fleiri lyftum til að dreifa á deildinni til notkunar við að aðstoða heimilismenn og í því sambandi bendir stefnandi á að samkvæmt lögum nr. 46/1980 beri vinnuveitanda að tryggja starfsmanni sínum öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi í samræmi við tækniþróun. Við umönnunar-störf beri vinnuveitanda að ganga þannig frá vinnuaðstæðum starfsmanna að þeir forðist allt óþarfa álag, þar með talið að lyfta, bera, ýta og draga þungar byrðar. Það geti ekki talist í samræmi við skyldur vinnuveitanda í slíkum umönnunarstörfum að hafa einungis eina og hálfa lyftu til notkunar daglega fyrir að minnsta kosti 14 manns. Því sé byggt á því að bótaábyrgð stefnda grundvallist á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Sundurliðist krafa stefnanda svo:
1. Tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga:
(869.963-695.970) vegna tímabilsins 12. júlí 1999-12. janúar 2000 173.993
2. Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga:
Vegna tímabilsins 12. júlí 1999-12. janúar 2000 (154 dagar x 1.020) 183.600
3. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga:
18% x 5.823.000 1.048.230
4. Varanleg örorka samkvæmt 5.-8. gr. skaðabótalaga:
1.602.507 x 9,272 x 10% 1.485.844
Samtals 2.891.667
Að frádreginni greiðslu úr slysatryggingu launþega - 480.384
Að frádreginni greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins - 665.360
Heildarkrafa 1.745.923
Stefnandi kveður bótaskyldu stefnda byggja á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum þeim ákvæðum sem að framan greinir. Þá sé skaðabótaskylda stefnda byggð á þeirri dómvenju sem lögin byggist á og dómum sem gengið hafi á grundvelli þeirra og greiðsluskyldu. Þá sé vísað til þeirrar meginreglu skaðabótaréttarins að skaðabætur eigi að gera tjónþola eins settan og tjón hafi ekki orðið. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 sbr. lög nr. 50/1988.
V
Eins og rakið hefur verið er ekki deilt um afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda heldur er ágreiningur fyrst og fremst um skaðabótaskyldu stefnda. Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á hendur stefnda á því að aðstæður á vinnustaðnum þar sem slysið varð hafi verið óforsvaranlegar og ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Að mati stefnanda hafi lyftur, sem meðal annars voru notaðar til að aðstoða vistmenn hjúkrunarheimilisins á salerni, verið of fáar miðað við þann fjölda vistmanna sem þurft hafi á slíku hjálpartæki að halda.
Reglur nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, gilda á vinnustöðum sem framangreind lög ná til og um það þegar byrðar eru handleiknar og því fylgir hætta á heilsutjóni. Orðasambandið “að handleika byrðar” er skilgreint þannig í reglum þessum að það sé þegar einn eða fleiri starfsmenn flytja byrði úr stað eða styðja við hana. Þá segir að í því felist að lyfta, setja niður, ýta, draga, bera eða færa til byrði, sem geti meðal annars verið fólk.
Þá segir í reglum þessum að atvinnurekandi skuli gera skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki, einkum vélbúnað til að komast hjá því að starfsmenn þurfi að handleika byrðar. Þegar ekki sé hægt að komast hjá því að starfsmenn handleiki byrðar skuli atvinnurekandi skipuleggja vinnuaðstæður, nota viðeigandi búnað eða sjá starfsmönnum fyrir hjálpartækjum til að draga úr þeirri áhættu sem felst í starfinu. Þá kemur fram að vinnuaðstæður þar sem byrðar eru handleiknar skuli vera eins góðar og kostur er.
Ljóst er að framagreind skilgreining nær yfir það verk sem stefnandi var að annast umrætt sinn í félagi við samstarfskonu sína og snýst ágreiningur aðila í raun um það hvort vinnuaðstæður hafi verið í samræmi við framangreindar reglur.
Eins og fram er komið heldur stefnandi því fram að vinnuaðstæður hafi ekki verið forsvaranlegar og því ekki í samræmi við framangreindar reglur þar sem of fáar lyftur voru á staðnum. Stefndi heldur því fram að stjórnendur hans hafi frá upphafi lagt mikla áherslu á það að starfsfólk noti þau hjálpartæki sem unnt sé til að tryggja öryggi vistmanna og starfsmanna. Hins vegar sé það ávallt starfsmaðurinn sem meti þörfina hverju sinni um hvort nauðsynlegt sé að lyfta sé notuð eða hvort fleiri en einn starfsmann þurfi í verkið. Verður að fallast á það með stefnda að gera verði þær kröfur til starfsmanna hans að þeir meti hverju sinni hvort hjálpartæki séu nauðsynleg við verk en stefnda ber að tryggja að slík nauðsynleg hjálpartæki séu til staðar.
Aðila greinir á um það hvort lyfta hafi verið tiltæk og hvort nauðsyn hafi borið til að nota umrædda lyftu í því tilviki sem hér um ræðir. Þá kom fram við aðalmeðferð málsins er skýrslur voru teknar af starfsmönnum stefnda, Birnu K. Svavarsdóttur, hjúkrunarforstjóra og Hólmfríði Hólmsteinsdóttur hjúkrunarfræðingi að umræddur vistmaður hafi verið því mótfallinn að lyftan væri notuð. Hafi lyftan ekki verið notuð fyrir þennan vistmann fyrr en undir lokin, en hann mun hafa látist á árinu 2001. Stefnandi mótmælti þessum fullyrðingum og kveðst engin fyrirmæli hafa fengið um að ekki mætti nota lyftuna fyrir umræddan vistmann, þvert á móti hafi lyftan jafnan verið notuð fyrir vistmanninn ef hún var laus. Ekki er öðrum haldbærum gögnum til að dreifa um þetta og stendur því orð gegn orði og því ósannað að sú hafi verið raunin.
Stefndi tilkynnti ekki um slysið til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en rúmum þrem mánuðum eftir að það gerðist og skýrist sú töf á því að stefnandi taldi sjálf ekki að hún hefði slasast eins mikið og raun ber vitni. Stefnda var því ekki ljóst að um tilkynningarskylt slys hafi verið að ræða fyrr en eftir að stefnandi kom aftur til vinnu og í ljós kom að hún gat ekki unnið fyrir verkjum og að sjúkraþjálfun bar ekki tilskyldan árangur. Þá verður ekki séð að það hefði breytt nokkru þótt Vinnueftirlitið hefði komið á staðinn strax eftir slysið miðað við þann ágreining sem hér er uppi enda ekkert sem bendir til að aðstæður hafi verið breyttar.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að í tilviki umrædds vistmanns hafi hann getað staðið í annan fótinn og þurfti aðeins að aðstoða hann við að standa upp úr hjólastól sem ekið var alveg að salerninu og snúa honum yfir á salerni með hjálp snúningsdisks. Samkvæmt lýsingu stefnanda hélt vistmaðurinn um hálsinn á stefnanda og stefnandi um mitti vistmannsins. Verður því ekki séð að mikil hætta hafi verið á tjóni við þessar aðstæður og vandséð að tveir starfsmenn hafi ekki með góðu móti átt að geta valdið verkinu án þess að þurfa að nota lyftu til þess. Það sem gerðist hins vegar var að fótur vistmannsins gaf sig með fyrrgreindum afleiðingum og það gat enginn séð fyrir og verður engum um það kennt.
Stefnandi var þaulvön því verki sem hún var þarna að vinna við og hafði unnið hjá stefnda við umönnunarstörf í um fjögur og hálft ár þegar atburður þessi átti sér stað auk þess sem hún hafði áður unnið slík störf á Elliheimilinu Grund. Hefði hún metið stöðuna svo að nauðsynlegt hafi verið að notast við lyftu umrætt sinn bar henni skylda að bíða þar til hún losnaði. Stefnandi kaus sjálf að haga verki sínu með framangreindum hætti og hlýtur eins og hér háttar til að bera á því fulla ábyrgð.
Að öllu framansögðu virtu verður að telja að stefnandi hafi ekki leitt sönnur að því að slysið og tjónið sem af því hlaust verði rakið til sakar stefnda þannig að leiði til skaðabótaábyrgðar hans heldur verður að telja að slysið verði alfarið rakið til óhappatilviks sem enginn beri sök á. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir þó rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningslaun lögmanns hennar sem þykja hæfilega ákveðin 1.000.000 króna að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu stefnanda flutti málið Hulda R. Rúriksdóttir hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Guðmundur Pétursson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Hjúkrunarheimilið Eir, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Ólafíu Guðrúnar Leifsdóttur.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningslaun lögmanns hennar að fjárhæð 1.000.000 króna að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.