Hæstiréttur íslands

Mál nr. 50/2014


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Verðbréfaviðskipti
  • Ógilding
  • Galli
  • Riftun
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 5. júní 2014.

Nr. 50/2014.

Magnús Björn Brynjólfsson

(Hilmar Magnússon hrl.)

gegn

Hildi Petersen

(Andri Árnason hrl.)

Kaupsamningur. Verðbréfaviðskipti. Ógilding. Galli. Riftun. Skaðabætur.

M höfðaði mál gegn H og krafðist aðallega riftunar á kaupum hans á stofnfjárbréfum í tilteknum sparisjóði af H, sem var formaður stjórnar sparisjóðsins þegar viðskiptin fóru fram. Til vara krafðist M greiðslu fjárhæðar sem nam kaupverðinu en að því frágengnu viðurkenningar á skaðabótaskyldu H. Í dómi Hæstaréttar kom fram að innherjaákvæði laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti hefðu ekki gilt um viðskiptin. Þá yrðu ekki dregnar svo víðtækar ályktanir af innri reglum sparisjóðsins að það leiddi til þess að hliðstæðar innherjareglur hefðu gilt. Ekki var talið að H hefði búið yfir óbirtum upplýsingum um sparisjóðinn sem máli skiptu. Þá varð ógildi viðskiptanna ekki reist á því að H hefði leynt því að hún væri seljandi stofnfjárbréfanna, enda var framkvæmdin í samræmi við afstöðu Fjármálaeftirlitsins til upplýsingagjafar innherja á tilboðsmarkaði fyrir slík bréf. Ekki var talið að ógilda bæri viðskiptin á þeim grundvelli að tiltekinna formreglna hefði ekki verið gætt, enda lægi fyrir að engin efnisleg álitamál hefðu verið uppi varðandi sölu H. Einnig var hafnað málsástæðum M er lutu að því að ógilda bæri viðskiptin á grundvelli 30., 33. eða 36. gr. laga nr. 3/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, reglum um brostnar forsendur og lögjöfnun frá ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélag. Loks gátu stofnfjárbréfin ekki talist gölluð í skilningi laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Með vísan til þessa var H sýknuð af kröfum M.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2014. Hann krefst þess aðallega að viðurkennd verði riftun 15. september 2009 á kaupum áfrýjanda 26. júlí 2007 á stofnfjárbréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis af stefndu að fjárhæð 5.000.005 krónur og að stefndu verði gert að endurgreiða sér þá fjárhæð með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 39/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júlí 2007 til 16. september 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi að stefnda verði dæmd til að greiða sér 5.000.005 krónur með vöxtum eins og greinir í aðalkröfu. Að því frágengnu krefst áfrýjandi að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna sölu umræddra stofnfjárbréfa. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis gaf út fréttatilkynningu 17. júlí 2007 þar sem meðal annars var greint frá því að stjórn sparisjóðsins hafi samþykkt þann dag að undirbúa breytingu hans í hlutafélag og óska eftir skráningu þess í kauphöll. Ráðgjafafyrirtækið Capacent hafi metið markaðsvirði sparisjóðsins miðað við 31. mars 2007, en á grundvelli þess mats ættu 85% hlutafjár í félaginu að falla til stofnfjáreigenda í honum en 15% til sjálfseignarstofnunar, sbr. þágildandi 74. gr. og 76. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ráðgert væri að markaði fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum yrði lokað 7. ágúst 2007 og myndi stjórn hans ekki samþykkja framsal á þeim upp frá því, en eftir það yrði næst unnt að eiga viðskipti með eignarhluti í sparisjóðnum í formi hlutabréfa eftir skráningu hans í kauphöll. Væri stefnt að því að sú skráning fengist í september 2007. Stefnda var formaður stjórnar sparisjóðsins. Í umfjöllun fjölmiðla í kjölfar fréttatilkynningarinnar kom meðal annars fram að Capacent teldi að markaðsvirði sparisjóðsins væri um 60 milljarðar króna miðað við fyrrgreint tímamark,  en skýrsla Capacent var ekki birt í heild sinni. Á fundi stofnfjáreigenda í sparisjóðnum 21. ágúst 2007 var samþykkt tillaga um staðfestingu á samrunaáætlun hans og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., en skráning hlutafélagsins í kauphöll mun hafa gengið eftir í framhaldi af því.

Samkvæmt gögnum málsins voru mikil viðskipti með stofnfjárbréf í sparisjóðnum á tímabilinu frá því að fyrrnefnd fréttatilkynnig var gefin út þar til 7. ágúst 2007 er lokað var fyrir viðskipti með stofnfjárbréf. Áfrýjandi var meðal þeirra sem gerðust stofnfjáreigendur á þessu tímabili. Leitaði hann í því skyni 25. júlí 2007 til SPRON verðbréfa hf., sem hafði á hendi markað fyrir  stofnfjárbréf í sparisjóðnum, en þau voru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Meðal gagna málsins er endurrit af hljóðrituðu símtali sem áfrýjandi átti við nafngreindan verðbréfamiðlara. Ekki bar á góma í því samtali hverjir mögulegir seljendur kynnu að vera. Óskaði áfrýjandi að gert yrði fyrir sig tilboð í stofnfjárbréf á genginu 5,05 og við það miðað að heildarkaupverð yrði 5.000.000 krónur. Á grundvelli þess tilboðs komust á kaup 26. sama mánaðar um 17,78244 stofnfjárhluti sem hver var að nafnverði 25.000 krónur, en það var framreiknað með stuðlinum 2,20509 og taldist þannig nafnverðið alls 980.297 krónur. Voru þessir hlutir keyptir á áðurnefndu gengi og var verð þeirra því 4.950.500 krónur, en við það bættist þóknun að fjárhæð 49.505 krónur. Stefnda bauð til sölu á þessum tíma á stofnfjárbréfamarkaðnum hluta af stofnfjáreign sinni í sparisjóðnum og raðaðist hluti af stofnfjárbréfum hennar á móti tilboði áfrýjanda. Áfrýjandi greiddi kaupverðið, 5.000.005 krónur, 30. júlí 2007 inn á bankareikning SPRON verðbréfa hf. Í samræmi við samþykktir sparisjóðsins voru eigendaskipti að stofnfjárbréfum í honum borin undir stjórn hans á fundi 9. ágúst 2007. Var lagður fyrir stjórn sparisjóðsins til samþykktar listi með yfir 350 viðskiptum með stofnfjárbréf og voru fyrrnefnd kaup áfrýjanda þar á meðal. Listinn samþykktur í einu lagi og vék stefnda ekki sæti við þá afgreiðslu.

Fjármálaeftirlitið tók 21. mars 2009 yfir vald hluthafafundar í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., vék félagsstjórn frá störfum og skipaði félaginu skilanefnd í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með lögun nr. 125/2008. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði félaginu slitastjórn 23. júní 2009 samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt gögnum málsins óskaði áfrýjandi allt frá 9. mars 2009 ítrekað eftir því við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. að upplýst yrði hver hefði verið viðsemjandi hans í fyrrgreindum kaupum. Fékk hann loks svar við því frá slitastjórn 2. september 2009. Í framhaldi af því sendi áfrýjandi stefndu bréf 15. sama mánaðar, þar sem hann lýsti yfir riftun og krafðist endurgreiðslu á kaupverðinu, sem hann kvað vera 5.000.000 krónur, auk dráttarvaxta og kostnaðar og nam krafa hans samtals 8.552.498 krónum. Stefnda hafnaði kröfu áfrýjanda með bréfi 28. september 2009. Áfrýjandi lýsti kröfu að sömu fjárhæð við slit Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Ágreiningi vegna þeirrar kröfulýsingar var vísað til dómstóla og lauk honum með dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2012 í máli nr. 650/2012 þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu áfrýjanda við slit félagsins. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 14. júlí 2011.

II

Fyrir liggur að þegar viðskipti aðila með stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fóru fram í lok júlímánaðar 2007 voru bréfin óskráð, og raunar ekki hægt að skrá þau á skipulegum verðbréfamarkaði þar sem takmarkanir giltu um framsal þeirra samkvæmt þágildandi 64. gr. laga nr. 161/2002. Enda þótt samþykkt hafi verið á fundi stjórnar sparisjóðsins 17. júlí 2007 að undirbúa breytingu hans í hlutfélag og skráningu þess á markaði var það ekki fyrr en eftir stjórnarfundinn 21. ágúst 2007 og samruna sparisjóðsins við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. í kjölfar hans sem mögulegt var að óska eftir slíkri skráningu. Liggur enda fyrir í bréfi Fjármálaeftirlitsins 27. janúar 2010 að slík umsókn hafði ekki borist Kauphöll Íslands þegar viðskipti aðila áttu sér stað. Samkvæmt 56. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, tóku ákvæði IX. kafla laganna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja til viðskipta með verðbréf sem skráð voru eða óskað hafði verið eftir að skráð yrðu á skipulegum verðbréfamarkaði. Þar sem svo háttaði ekki til um stofnfjárbréf í sparisjóðnum giltu innherjaákvæði þessa kafla laganna ekki um viðskipti aðila, sbr. dóm Hæstaréttar 29. apríl 2010 í máli nr. 407/2009. Ekki verður heldur fallist á með áfrýjanda að svo víðtækar ályktanir verði dregnar af innri reglum, sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafði sett sér, að það leiði til þess að hliðstæðar innherjareglur hafi gilt um viðskiptin þótt þau hafi fallið utan gildissviðs IX. kafla þágildandi laga um verðbréfaviðskipti, en áfrýjandi hefur í þeim efnum einkum borið við 1. mgr. 10. greinar eftirlits- og starfsreglna sparisjóðsins frá 31. janúar 2007.

Áfrýjandi hefur uppi margvíslegar málsástæður er lúta að því að ógilda beri samning aðila eða víkja honum til hliðar. Hann bendir í því sambandi á að fyrrnefnd skýrsla Capacent, sem stefndu hafi verið kunn sem stjórnarformanni, hafi ekki verið birt en þar hafi verið að finna upplýsingar er áhrif hafi getað haft á mat á virði stofnfjárbréfa í sparisjóðnum. Við lestur á umræddri skýrslu verður ekki séð að þar sé að finna neinar trúnaðarupplýsingar eða aðrar upplýsingar sem hér skipta máli. Það er hins vegar ljóst að gengi stofnfjárbréfa í sparisjóðnum á umræddum tíma, þar með talið gengið sem áfrýjandi miðaði tilboð sitt við, var ekki í neinu samræmi við verðmat Capacent og sýnist hátt gengi hafa ráðist af væntingum markaðarins vegna fyrirhugaðrar breytingar sparisjóðsins í hlutafélag og skráningu þess í kauphöll, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 407/2009.  Þá hefur áfrýjandi bent á að tekjur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis af eiginlegri sparisjóðsstarfsemi hafi ekki staðið undir rekstargjöldum hans og að verulegur hluti tekna sparisjóðsins hafi stafað af fjárfestingum. Þetta sést glögglega af ársreikningum sparisjóðsins og árshlutareikningi hans fyrir fyrsta ársfjórðung 2007, sem allir höfðu verið birtir er viðskiptin áttu sér stað. Einu óbirtu upplýsingarnar er þetta varða voru í árshlutareikningi fyrir fyrri árshelming 2007, en þar voru þessi hlutföll mjög á sömu lund og verið hafði. Stefnda bjó því heldur ekki yfir óbirtum upplýsingum um þetta er máli skiptu.

Áfrýjandi byggir einnig á að með því að skýra ekki frá því að hún væri seljandi bréfanna hafi stefnda leynt upplýsingum sem máli skiptu við kaupin, en áfrýjandi kveðst ekki myndu hafa keypt bréfin ef hann hefði vitað að stjórnarformaður sparisjóðsins mæti horfur svo að hún vildi selja stofnfjárbréf sín. Í þessu sambandi verður til þess að líta að á sínum tíma leitaði Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis álits Fjármáleftirlitsins á drögum að reglum um viðskipti á tilboðsmarkaði með stofnfjárhluti í sparisjóðnum. Fjármáleftirlitið svaraði erindinu með bréfi 30. júní 2004. Í hinum fyrirhuguðu reglum hafði verið gert ráð fyrir að upplýsingar um aðila sem væru á fruminnherjalista yrðu gerðar opinberar og við þá upplýsingagjöf tekið mið af 48. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Var það mat Fjármálaeftirlitsins að með slíkri upplýsingagjöf væri verið að líkja eftir reglum sem giltu um skráða fjármálagerninga og væri það líklegt til að valda ruglingshættu milli tilboðsmarkaðarins og kauphallar eða skipulegs tilboðsmarkaðar. Verður bréf Fjármálaeftirlitsins ekki skilið á annan veg en þann að ekki væri nóg með að óskylt væri að birta slíkar upplýsingar þegar óskráð verðbréf ættu í hlut heldur væri það beinlínis óæskilegt. Framkvæmd stefndu við að bjóða stofnfjárfréf sín til sölu á tilboðsmarkaðnum var því í samræmi við afstöðu Fjármálaeftirlitsins til upplýsingagjafar innherja á tilboðsmarkaði fyrir slík bréf og verður ógildi viðskiptanna ekki á því reist.

Áfrýjandi hefur í máltilbúnaði sínum talið að stefnda hafi í ýmsum greinum  farið á svig við innri reglur sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafði sett um starfsemi sína. Er áður vikið að einu atriði í þeim efnum varðandi gildssvið reglna um innherjaviðskipti. Hér verður tekin afstaða til tveggja annarra atriða. Annars vegar var stefndu óheimilt að eiga viðskipti með stofnfjárbréfin án fyrirfram skriflegrar heimildar regluvarðar, sbr. 7. grein eftirlits- og starfsreglna sparisjóðsins frá 31. janúar 2007. Verður að telja ósannað í ljósi skýrslu regluvarðar að hún hafi leitað slíkrar heimildar. Í því sambandi ber þó til þess að líta að regluvörður bar fyrir dómi að hann hafi talið að á þessum tíma hafi engar innherjaupplýsingar legið fyrir. Hafi hann komist að þeirri niðurstöðu í samráði við lögfræðing sparisjóðsins og tjáð þá afstöðu í tölvupósti til annars stjórnarmanns sem hugðist selja. Hins vegar liggur fyrir að stefndu bar samkvæmt 2. mgr. 22. gr. reglna sparisjóðsins um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra, sem tóku gildi 1. mars 2007, að víkja af fundi stjórnar þegar fjallað var um sölu hennar á stofnfjárbréfum, en það gerði hún ekki á fundinum 9. ágúst 2007 eins fyrr segir. Hér er þess þó að gæta að á þeim fundi var afgreiddur í einu lagi listi með yfir 350 viðskiptum með stofnfjárbréf og að ekki voru uppi álitamál varðandi samþykki stjórnar á þeim viðskiptum. Verður í ljósi framanritaðs ekki talið að áfrýjandi geti reist kröfu um ógildingu viðskiptanna á því að framangreindra formreglna hafi ekki verið gætt, en fyrir liggur að engin efnisleg álitamál voru uppi varðandi sölu stefndu.

Einnig vísar áfrýjandi um kröfur sínar varðandi ógildingu viðskiptanna almennt til 30. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Að framan er vikið að ýmsum atriðum er lúta að ætlaðri vitneskju stefndu um stöðu sparisjóðsins og aðstöðumun aðila. Hefur áfrýjandi ekki fært fram önnur og frekari atriði sem leitt geta til þess að tilvitnaðar greinar geti átt við um ógildingu samnings aðila eða þess að honum verði vikið til hliðar. Þá eru haldlausar þær málsástæður áfrýjanda að ógilding viðskipanna verði reist á reglum um brostnar forsendur eða lögjöfnun frá nánar tilteknum ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Varðandi kröfu sína um riftun vísar áfrýjandi til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og tilgreinir sérstaklega í stefnu ákvæði 18. gr., 19. gr. og 1. mgr. 39. gr. laganna. Eins og að framan er rakið óskaði áfrýjandi eftir því 25. júlí 2007 að nafngreindur verðbréfamiðlari gerði fyrir sig tilboð í stofnfjárbréf á genginu 5,05 og urðu viðskipti aðila á grundvelli þess tilboðs. Samkvæmt gögnum málsins virðist umrætt gengi hafa verið í samræmi við viðskiptaverð á markaði með stofnfjárbréf á þessum tíma. Verð á stofnfjárbréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sýnist, eins og að framan er rakið, í lok júlí og byrjun ágúst 2007 fyrst og fremst hafa ráðist af væntingum markaðarins um verðþróun í framtíðinni. Geta bréfin ekki talist gölluð í skilningi kaupalaga þótt mat á efnislegu raunvirði félagsins kunni að hafa verið annað og lægra, enda lágu opinberar upplýsingar um niðurstöðu slíks mats miðað við lok mars 2007 fyrir við kaupin. Það getur heldur ekki leitt til þess að verðbréf teljist gölluð að þróun á markaðsverði þeirra verði önnur og óhagstæðari en kaupandi vænti. Verðbréfaviðskipti eru í eðli sínu áhættusöm og slíka áhættu hljóta kaupendur þeirra að taka. Raunar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að stofnfjárbréfin og hlutabréfin sem í þeirra stað komu hafi haldið verðgildi alllengi eftir kaupin.

Áfrýjandi tilgreinir í stefnu sérstaklega ákvæði 18. gr. og 19. gr. laga nr. 50/2000 og telur að af þeim verði leitt að stofnfjárbréfin hafi verið haldin galla. Verður ráðið að með því sé af hans hálfu vísað til þess að seljandi hafi búið yfir óopinberum upplýsingum, er snertu verðmat á stofnfjárbréfunum, sem honum hafi borið að upplýsa kaupanda um og þar sem hann hafi ekki gert það teljist bréfin gölluð. Er í þessu efni af hálfu áfrýjanda vísað til sömu atriða og um var fjallað hér að framan varðandi málsástlæður hans fyrir ógildingu samnings aðila. Með vísan til þess sem þar sagði verður heldur ekki fallist á þessar málsástæður við mat á því hvort stofnfjárbréfin hafi verið haldin galla í skilningi laga nr. 50/2000. Kröfu áfrýjanda um að riftun hans 15. september 2009 á kaupum aðila verður því hafnað.

Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Magnús Björn Brynjólfsson, greiði stefndu, Hildi Petersen, 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2013.

Mál þetta sem dómtekið var þann 1. október sl. var höfðað 14. júlí 2011 af Magnúsi Birni Brynjólfssyni, Hafnarstræti 20 í Reykjavík gegn Hildi Petersen, Hörgshlíð 26 í Reykjavík til riftunar kaupa og endurgreiðslu kaupverðs.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að viðurkennd verði riftun, dags. 15.9.2009 á kaupum hans á stofnfjárbréfum stefndu, er áttu sér stað þann 26.7.2007 að fjárhæð kr. 5.000.005 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og að stefndu verði gert að endurgreiða 5.000.005 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26.7.2007 til 16.9.2009; en þá með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða skaðabætur að fjárhæð 5.000.005 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26.7.2007 til 16.9.2009; en þá með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til þrautavara er þess krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna sölu hennar á stofnfjárbréfum til stefnanda hinn 26.7.2007 að fjárhæð 5.000.005 krónur í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis.

Stefnandi krefst málskostnaðar sér að skaðlausu auk virðisaukaskatts eftir ákvörðun dómsins.

Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda þess að henni verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna               

Atvik máls þessa eru þau að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis sendi frá sér fréttatilkynningu 17. júlí 2007, þar sem greint var meðal annars frá því að stjórn sparisjóðsins hefði samþykkt þann dag að undirbúa breytingu hans í hlutafélag og óska eftir skráningu þess í kauphöll. Hafi ráðgjafarfyrirtækið Capacent metið markaðsvirði sparisjóðsins miðað við 31. mars 2007, en á grundvelli þess mats ættu 85% hlutafjár í hlutafélaginu að falla til stofnfjáreigenda í honum og 15% til sjálfseignarstofnunar, sbr. þágildandi 74. gr. og 76. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ráðgert væri að markaði fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum yrði lokað 7. ágúst 2007 og myndi stjórn hans ekki samþykkja framsal á þeim upp frá því, en eftir það yrði næst unnt að eiga viðskipti með eignarhluti í sparisjóðnum í formi hlutabréfa eftir skráningu hlutafélagsins í kauphöll. Væri stefnt að því að sú skráning fengist í september 2007.

Stefnandi var meðal þeirra, sem gerðust stofnfjáreigendur á þessu tímabili. Í því skyni leitaði hann 25. júlí 2007 til SPRON verðbréfa hf., sem hafði á hendi markað fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum, en þau voru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Samkvæmt endurriti af hljóðrituðu símtali, sem stefnandi átti þá við tiltekinn verðbréfamiðlara, óskaði sá fyrrnefndi eftir því að gert yrði fyrir sig tilboð í stofnfjárbréf á genginu 5,05 og miðað við að heildarkaupverð yrði 5.000.000 króna. Verðbréfamiðlarinn skýrði stefnanda í símtalinu frá því að kaupin væru háð því hvort þeir sem ættu bréf vildu selja og með kauptilboðinu væri stefnandi raunverulega að reyna að freista þeirra. Ódýrasta sölutilboðið þann dag væri á genginu 5,13 og það væri þá frá stofnfjáreiganda sem með því auglýsti að hann væri tilbúinn að selja á því verði. Hvorki var spurt um né það upplýst í símtalinu hver það væri sem væri seljandi stofnfjárhlutanna. Í símtalinu kom fram að gengið hefði hækkað mikið eftir að birt var fréttatilkynning um að SPRON væri á leið inn í Kauphöllina og markaðurinn hefði tekið við sér, of mikið fyrir minn smekk, hafði verðbréfamiðlarinn sagt. Á grundvelli tilboðs stefnanda komust á kaup 26. júlí 2007 á genginu 5,05 og greiddi stefnandi 30. júlí s.á. SPRON verðbréfum hf. kaupverð bréfanna sem var 4.950.500 krónur og 1% kaupþóknun, 49.505 krónur, samtals 5.000.005 krónur.

Á stjórnarfundi í sparisjóðnum 9. ágúst 2007 voru kaup stefnanda á stofnfjárbréfunum samþykkt. Á fundinum kom fram að 5,4% stofnfjár í sparisjóðnum höfðu skipt um hendur á tímabilinu frá 24. júlí 2007 fram að lokun markaðar fyrir stofnfjárbréf 7. ágúst s.á. og hefði stofnfjáreigendum þá fjölgað um 200, þannig að heildarfjöldi þeirra væri orðinn rúmlega 1.700. Á fundi stofnfjáreigenda, sem stefnandi þá tilheyrði, í sparisjóðnum, 21. ágúst 2007, var samþykkt að breyta Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í hlutafélag og var félagið skráð í kauphöll í framhaldi af því. Stefnandi fékk hlutabréf í hlutafélaginu að nafnverði 198.883 krónur í stað stofnfjárbréfa sinna.

Fjármálaeftirlitið tók 21. mars 2009 yfir vald hluthafafundar í félaginu, vék félagsstjórn frá störfum og skipaði því skilanefnd og Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði síðan slitastjórn 23. júní 2009. Stefnandi krafði skilanefnd og síðar slitastjórn um upplýsingar um það hver hefði átt þau stofnfjárbréf sem hann hafði keypt í júlí 2007. Stefnandi fékk þær upplýsingar 2. september 2009 að stefnda, sem þá hafði verið formaður stjórnar SPRON, hefði verið seljandi bréfanna.

Stefnandi sendi stefndu riftunar- og kröfubréf 15. september 2009 þar sem lýst var yfir riftun á kaupunum vegna galla á grundvelli laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Í bréfinu segir stefnandi stórfellda galla vera á stofnfjárbréfunum þar sem stefnda hafi, sem stjórnarmaður í SPRON á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram, haft upplýsingar um verðmæti sparisjóðsins og þar með bréfanna sem stefnandi hafi ekki haft. Stefnda hafi, sem stjórnarmaður og innherji, misnotað aðstöðu sína og trúnaðarupplýsingar Capacent ráðgjafar frá því í maí 2007, sem engum öðrum hafi verið aðgengilegar, með grófum og stórfelldum hætti. Stefnda hafi hagnýtt sér upplýsingar með óheiðarlegum og saknæmum hætti henni til hagsbóta en stefnanda til tjóns. Í bréfinu var jafnframt vísað til samningalaga, nr. 7/1936, þar sem hugsanlega hafi verið um fjársvik að ræða. Stefnandi krafðist endurgreiðslu fimm milljóna króna með tæplega þriggja milljón króna dráttarvöxtum, auk innheimtuþóknunar og virðisaukaskatts, samtals 8.522.498 króna, innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins.

Með bréfi lögmanns stefndu 28. september 2009 til stefnanda var kröfum hans um riftun og endurgreiðslu hafnað og sjónarmiðum hans mótmælt. Í bréfinu kemur fram að stefnda hafi ekki við sölu á stofnfjárbréfunum haft undir höndum neinar sértækar eða leynilegar upplýsingar eða gögn um verðmæti SPRON sem ekki hafi verið eða mátt vera öðrum kunn. Verðmat á sparisjóðnum hafi verið birt opinberlega 17. og 18. júlí 2007 og markaðsverð á bréfunum hafi tekið mið af almennum væntingum á þessum tíma. Ekki hafi verið vísað til neinna gagna um þá fullyrðingu að stefnda hafi beitt blekkingum við sölu hlutanna með því að leyna upplýsingum sem verulegu máli kynnu að skipta við mat á verðmæti sparisjóðsins. Sala stofnfjárhlutanna hafi að öllu leyti verið í samræmi við þær reglur sem um sölu slíkra hluta giltu.

Ágreiningur máls þessa snýst um réttmæti riftunarkröfu stefnanda og kröfu hans um endurgreiðslu eða skaðabætur úr hendi stefndu vegna kaupa hans á stofnfjárbréfum hennar.

Umrædd viðskipti aðila hafa áður komið til umfjöllunar dómstóla og einnig stjórnvalda á undangengum misserum að frumkvæði stefnanda. Upplýsingar um þau mál eru hluti af málatilbúnaði stefnanda og verður hér greint frá þeim.

Stefnandi sendi slitastjórn SPRON hf., 16. september 2009, kröfulýsingu að sömu fjárhæð og hann krafði stefnanda um, með vísun til riftunar viðskiptanna, og lýsti henni sem almennri kröfu í búið. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var máli stefnanda til viðurkenningar á kröfunni vísað frá dómi en kom til meðferðar dómsins að nýju með dómi Hæstaréttar í máli nr. 315/2012. Með úrskurði héraðsdóms 28. september 2012, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 650/2012 14. nóvember 2012 var því hafnað að viðurkenna kröfuna við slitameðferð SPRON hf. Þar kom fram að orsök tjóns stefnanda verði ekki rakin til meintrar ólögmætrar eða saknæmrar háttsemi af hálfu stjórnar, stjórnarformanns eða starfsmanna SPRON eða SPRON verðbréfa hf. og sé ekki sennileg afleiðing af þeirri háttsemi. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að regluverði í þjónustu SPRON hefði hvorki verið tilkynnt um viðskipti stjórnarformanns Sparisjóðsins við stefnanda né verið af öðrum sökum kunnugt um þau. Ætluð háttsemi stjórnarformannsins, sem stefnandi telji varða skaðabótaskyldu, gæti í engu fallið undir þá ábyrgð sem SPRON hafi borið á gerðum stjórnarformannsins vegna rækslu starfa hans, en sala á stofnfjárbréfum hans hafi verið þeim störfum með öllu óviðkomandi.

Með bréfi til Fjármálaeftirlitsins 2. nóvember 2009 óskaði stefnandi svara við tilteknum spurningum varðandi það hvaða reglur giltu um sölu stefndu á stofnfjárhlutum í SPRON á umræddum tíma. Í svari Fjármálaeftirlitsins 27. janúar 2010 kom m.a. fram að þágildandi innherjareglur 9. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti giltu ekki um stjórnendur sparisjóða á þeim tíma sem stefnda seldi stofnfjárbréf sín og þeim hafi þá verið óskylt að birta upplýsingar um viðskipti sín með óskráð stofnfjárbréf. Í viðskiptum með óskráða fjármálagerninga njóti samningsaðilar réttarverndar almennra reglna samningaréttar svo sem ákvæða um upplýsingaskyldu seljanda og ákvæða um misneytingu og svik.

Með kærubréfi, 28. janúar 2010, til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra krafðist stefnandi rannsóknar á því hvort stefnda hefði gerst sek um fjársvik eða annað refsivert athæfi samkvæmt almennum hegningarlögum við sölu stofnfjárbréfa sinna til stefnanda. Að lokinni rannsókn málsins var kærunni vísað frá 11. nóvember 2010 með ákvörðun Ríkislögreglustjóra. Sú ákvörðun var borin undir ríkissaksóknara sem staðfesti ákvörðun Ríkislögreglustjóra 7. janúar 2011. Í ákvörðun ríkissaksóknara kom m.a. fram að reglur um innherjaviðskipti hafi ekki átt við um stefndu á þeim tíma sem hún seldi bréf sín og að skylda fruminnherja til að birta upplýsingar um viðskipti sín hafi ekki hvílt á henni á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram. Við rannsókn málsins hafi komið fram að stefnda hafi ekki selt allan hlut sinn í SPRON og hafi enn haft mikilla hagsmuna að gæta við hlutafjárvæðingu SPRON. Rannsókn málsins hafi ekki leitt í ljós að hún hafi á ólögmætan hátt leynt upplýsingum sem áhrif gætu hafa haft á verðmæti bréfanna. Ekki hafi verið sýnt fram á samhengi milli ætlaðrar almennrar hvatningar frá stjórnarmönnum eða starfsmönnum SPRON til viðskiptavina um að kaupa bréfin og hækkunar á verði þeirra og sölu stefndu á bréfum. Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að slík hvatning hafi átt sér stað til viðskiptavina í sviksamlegum tilgangi, en stefnda hafi almennt ekki verið í þeirri stöðu að ræða við hugsanlega kaupendur bréfa.Væntingar vegna fyrirhugaðrar breytingar félagsins í hlutafélag með þeim möguleikum sem því fylgi hafi væntanlega leitt til aukins áhuga á kaupum bréfanna á þessum tíma og haft áhrif til hækkunar á verði. Endanleg ákvörðun um það hvort félaginu yrði breytt í hlutafélag hafi verið í höndum stofnfjáreigendanna sjálfra. Ekki hafi tekist að sýna fram á að stefnda hafi með háttsemi sinni framið refsiverðan verknað sem heimfærður yrði undir 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Stefnandi höfðaði vitnamál gegn stefndu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, mál nr. V-11/2011, og voru vitnaskýrslur teknar fyrir dóminum af formanni slitastjórnar SPRON hf. og regluverði SPRON 30. júní 2011. Meðal þess sem þar kom fram var að samkvæmt reglum SPRON, á þeim tíma sem umrædd viðskipti áttu sér stað, skyldi regluvörður veita leyfi fyrir viðskiptum stjórnarmanna SPRON með stofnbréf, með fyrirvara um samþykki stjórnar. Regluvörður kannaðist ekki við að hafa fengið beiðni um slíkt samþykki frá stefndu fyrir sölu hennar á stofnfjárbréfum, en staðfesti að á svipuðum tíma hefði hann heimilað viðskipti annarra stjórnarmanna með stofnfjárbréf. Heimildir til viðskipta hafi í öllum tilvikum verið veittar, með fyrirvara um samþykki stjórnar, með hliðsjón af því að á þeim tíma hafi engar innherjaupplýsingar legið fyrir sem haft gætu áhrif á viðskipti með stofnbréf þar, sem upplýsingar um verðmat Capacent á sparisjóðnum hafði verið birt opinberlega.

Stefnda kom fyrir dóminn við aðalmeðferð þessa máls og skýrði frá því að ástæða þess að hún ákvað að selja innan við þriðjung stofnfjárbréfa sinna í sparisjóðnum á þessum tíma var sú að hún kaus að fjárfesta í Auði Capital, til að leggja þeim konum lið sem að því félagi stóðu. Hún hafi ákveðið að selja aðeins 27% af eignarhlut sínum því hún hafi talið SPRON vera góða fjárfestingu á þeim tíma. Hún hafi ekki vitað að það var stefnandi sem keypti bréfin og hafi ekki séð fyrir að stefnandi yrði fyrir tjóni með kaupunum, en bréfin hefðu verið eftirsótt á markaði á þeim tíma. Stefnda gat ekki gefið skýringar á því hvers vegna engar upplýsingar væru fyrir hendi um að hún hefði leitað heimildar regluvarðar vegna sölunnar, en regluvörður og lögmaður hefðu á þessum tíma farið yfir þessi mál og upplýst stjórnarmenn um að þeim væri heimilt að eiga viðskipti með stofnfjárbréf eftir birtingu fréttatilkynningar um skýrslu Capacent. Stefnda upplýsti að þegar stjórn sjóðsins samþykkti söluna 9. ágúst 2007 hafi hún ekki vikið af fundi, þar sem engin álitamál hefðu komið upp varðandi viðskiptin, en salan var þar samþykkt ásamt fjölda annarra viðskipta með stofnbréf.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi styður kröfur sínar þeim málsástæðum að stefnda hafi verið fruminnherji og hafi búið yfir innherjaupplýsingum við sölu bréfanna, um bága eða mjög slæma fjárhagsstöðu SPRON, sem gert hafi það að verkum að hún hafi ákveðið að selja bréf sín. Stjórn SPRON hafi verið send matsskýrsla Capacent um verðmat SPRON, hún hafi verið merkt sem trúnaðarmál og enginn haft aðgang að henni nema stjórn og formaður hennar. Þótt tölur hafi verið birtar úr skýrslunni áður en stefnandi hafi keypt stofnbréfin hafi forsendur hennar ekki verið birtar, en innihald skýrslunnar og innihaldsleysi séu mjög mikilvægar innherjaupplýsingar. Stefnda sé sek um blekkingar og hafi þagað sviksamlega yfir mikilvægum upplýsingum.

Stefnda hafi brotið gegn tilgreindum innri reglum SPRON og því séu viðskiptin ekki gild. Hún hafi sniðgengið regluvörð SPRON, en hún hafi haft tilkynningarskyldu um viðskipti sín og eftirlitsskyldu með störfum regluvarðar. Hún hafi með athöfnum sínum eða athafnaleysi sýnt af sér ásetning og/eða stórkostlegt gáleysi og valdið því að stefnandi glataði verðmæti stofnfjárins í hendur stefndu. Tjón stefnanda sé altjón sem stefnda beri ábyrgð á samkvæmt sakarreglunni. Verulegur galli hafi verið á hinu selda og sé riftun því heimil. Bréfin hefðu ekki verið keypt ef upplýst hefði verið um hver væri seljandinn. Skaðabótaábyrgð sé fyrir hendi vegna verulegra vanefnda.

Aðstöðumunur hafi verið á aðilum stefnanda í óhag og riftun sé heimil vegna brostinna forsendna. Ógilding kaupanna sé heimil á grundvelli samningalaga vegna þess að leynt hafi verið með óheiðarlegum hætti hver seljandinn væri. Víkja megi samningnum um kaupin til hliðar af því að ósanngjarnt sé að bera hann fyrir sig vegna aðstöðumunar aðila og þess að stefnda hafi misnotað sér aðstöðu sína til að hagnast á kostnað stefnanda, en beita megi lögjöfnun frá lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, um stöðu hennar.

Þá styður stefnandi kröfu um riftun og endurgreiðslu því að stefnda hafi notað stöðu sína gagnvart honum í því skyni að koma á viðskiptum á afar viðkvæmum tíma í skjóli upplýsinga, sem hún ein hafi setið að en leynt stefnanda. Stefnandi telji, með vísan til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins m.a. um brostnar forsendur, að það leiði til þess að heimilt sé að rifta kaupunum. Þá bendi stefnandi á 18. og 19. gr. laga nr. 50/2000, til stuðnings riftunarkröfu sinni. Aðilar hafi ekki setið við sama borð. Stefndu hafi verið skylt samkvæmt almennum reglum samnings- og kröfuréttar að veita stefnanda þær upplýsingar er áhrif gætu haft á kaupin. Stefnda hafi vanrækt það og því teljist söluhlutur, stofnfjárbréfin, gallaður og haldinn verulegum galla. Hefði stefnandi vitað að eigandi stofnfjárbréfanna væri stjórnarformaður bankans, sem búið hafi yfir innherjaupplýsingum, hefði hann aldrei keypt þau. Skilyrði riftunar séu uppfyllt. Hér sé um verulega vanefnd að tefla. Sök sé fyrir hendi, ásetningur og/eða gáleysi. Yfirlýsing um riftun hafi verið lögð fram um leið og ljóst hafi verið hver hafi verið viðsemjandi stefnanda. Af þeim sökum sé stefnanda heimilt að rifta kaupunum samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 50/2000.

Þá beri að líta til þess að stefnandi hafi ekki verið sérfræðingur í verðbréfaviðskiptum og hafði aldrei átt viðskipti með stofnfjárbréf í sparisjóði. Stefnda hafi hins vegar verið æðsti yfirmaður sparisjóðsins og hafi haft allar upplýsingar í hendi um slæma stöðu sparisjóðsins, sem meta megi til innherjaupplýsinga. Hún hafi sniðgengið regluverk bankans sem fruminnherji. Hún beri sönnunarfærsluna fyrir því að hún hafi verið í góðri trú og farið að reglum SPRON í einu og öllu er hún hafi selt stofnfjárbréfin til stefnanda.

Um fjártjón og orsakasamband kveði stefnandi tjón sitt vera sennilega afleiðingu af hinni bótaskyldu háttsemi stefndu. Bein orsakatengsl séu milli háttsemi stefndu og tjónsins. Stefnda hafi skert lögvarða hagsmuni stefnanda með háttsemi sinni, sem falist hafi í því að koma fram sem stjórnarformaður (fruminnherji), fara með leynd og blekkja stefnanda til viðskipta með sviksamlegu athæfi sínu. Hið bótaskylda atvik hefði ekki átt sér stað ef stefnda hefði komið heiðarlega fram og upplýst stefnanda um stöðu sína og fyrirætlan áður en kaupin voru gerð. Allar eftirlits- og starfsreglur SPRON, lög nr. 33/2003, reglugerð nr. 630/2005 og lög nr. 50/2000 og samningalög nr. 7/1936 hafi verið brotin. Stefnda hafi valdið stefnanda altjóni, sem nemi 5.000.005 krónum. Meginmarkmið bótakröfunnar sé að stefnda, sem beri persónulega ábyrgð á háttsemi sinni, greiði stefnanda þá fjármuni, sem hann sannanlega hafi látið af hendi vegna þessara viðskipta og geri hann eins settan eins og viðskiptin hafi ekki átt sér stað.

Altjón stefnanda sundurliðist þannig að stefnandi hafi keypt að nafnvirði 444.561 hlut. Hlutirnir hafi verið framreiknaðir þannig: 444.561 x 2,205509 = 980.297. Gengið hafi verið ákveðið 5,05 x 980.297 = 4.950.500 krónur, sem sé kaupverð stofnfjárins. Kaupþóknun hafi verið 1% af kaupverði eða 49.505 krónur. Samtals hafi því uppgjörsverð á stofnfjárhlutum sem stefnda hafi selt verið 5.000.005 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins. Stefnandi hafi orðið fyrir því tjóni vegna sviksamlegrar háttsemi stefndu. Orsakasamband sé á milli athafna stjórnarformannsins og altjóns stefnanda, sem sé afleiðing af athöfnum/athafnaleysi stjórnarformannsins. Hún beri persónulega ábyrgð á því með ásetningi eða gáleysi sínu að hafa blekkt stefnanda sem fruminnherji. Það geri hana skaðabótaskylda. Sé ekki unnt að fallast á kröfu stefnanda um fjárhæðir sé gerð þrautavarakrafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu.

Stefnandi hafi ekki sýnt tómlæti, þar sem hann hafi ekki haft hugmynd um við hvern hann hafi átt viðskipti fyrr en það hafi verið upplýst í september 2009. Þá hafi hann strax sent stefndu riftunar- og kröfubréf. Þá hafi hann bæði ritað regluverði bankans og þeim verðbréfasala innan bankans sem komið hafi á umræddum viðskiptum. Hvorugur hafi svarað bréfum hans. Stefnandi hafi kært stefndu til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og síðar ríkissaksóknara. Stefnandi hafi beðið niðurstöðu þeirra rannsókna, sem hafi ekki legið fyrir fyrr en 7. janúar 2011. Það hafi ekki verið fyrr en með yfirheyrslum 30. júní 2011 sem mál hafi tekið að skýrast varðandi athafnaleysi regluvarðar gagnvart stefndu.

Vextir samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 séu miðaðir við þann tíma er kaupin hafi átt sér stað 26. júlí 2007 til 15. september 2009 en þá hafi verið krafist riftunar og endurgreiðslu samkvæmt bréfi stefnanda. Dráttarvextir séu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga. 

Um lagarök byggi stefnandi á reglum SPRON sem dagsettar séu 11. desember 2003, 1. mars 2007, 31. janúar 2007, 2. nóvember 2006 og árið 2004. Stefnandi vísi til almennrar sakarreglu skaðabótaréttar varðandi sök stefndu. Stefnandi byggi á 54. gr., 55. gr., 62. gr. og 64. gr. laga, nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, 18. gr., 19. gr. og 30. gr. til 40. gr. laga, nr. 50/2000, um lausafjárkaup, 30. gr., 33. gr. og 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936, og almennra reglna kröfuréttarins, 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og laga, nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Einnig sé bent á 6. gr., 14. gr., 15. gr., 56. gr., 58. gr., 59. gr., 60. gr., 61. gr., 63. gr. og 64. gr. laga, nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, til stuðnings málstað stefnanda. Þá byggi stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga, nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi málskostnað og 8. gr. og 6. gr. laga, nr. 38/2001, um vexti af kröfu stefnanda. Máli sínu til stuðnings bendi stefnandi á reglugerð, nr. 630/2005, um innherjaupplýsingar og markaðssvik, sem gildi um athæfi stefndu. Þá bendi stefnandi á gildi reglugerðar, nr. 994/2007, um innleiðingu reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB), nr. 1287/2006 frá 10. ágúst 2006, um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB, að því er varði skyldur fjármálafyrirtækja varðandi skýrsluhald, tilkynningar um viðskipti, gagnsæi á markaði, töku fjármálagerninga til viðskipta og hugtök sem séu skilgreind að því er tilskipunina varði. Stefnandi byggi einnig á ákvörðum sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 65/2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn sem tekið hafi gildi 29. apríl 2005. Þá bendi stefnandi á 1. mgr. 2. gr. laga, nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið til stuðnings máli sínu.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefndu er öllum málsástæðum stefnanda um að stefnda hafi búið yfir innherjaupplýsingum um bága eða slæma fjárhagsstöðu SPRON, eða að stefnda hafi á annan hátt beitt blekkingum sem fruminnherji við sölu á stofnfjárbréfum 26. júlí 2007, eða misnotað aðstöðu sína á annan hátt til að hafa fjármuni af stefnanda, hafnað. Stefnda vísi því alfarið á bug að skilyrði riftunar hafi verið fyrir hendi þegar stefnandi hafi lýst yfir riftun 15. september 2009. Því sé alfarið hafnað að hin seldu stofnbréf hafi verið gölluð í skilningi laga nr. 50/2000 eða samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, þegar viðskiptin hafi átt sér stað í lok júlí 2007. Verðrýrnun stofnfjárbréfanna í kjölfar mikils verðfalls á fjármálamörkuðum á árinu 2008 geti engin áhrif haft í því sambandi. Leggi stefnda jafnframt áherslu á að lagaskilyrði til riftunar í verðbréfaviðskiptum séu mjög þröng og nægi ekki það eitt að ekki hafi verið gætt allra form- og verklagsreglna sem fara hafi átt eftir, ef því væri til að dreifa. Til stuðnings kröfu sinni vísi stefnda jafnframt til þeirrar meginreglu laga að gerða samninga beri að halda.

Þá hafni stefnda því alfarið að skilyrði séu til beitingar 30., 33. eða 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936. Stefnda hafi hvorki fengið stefnanda til þess með svikum að ganga til kaupa á umræddum stofnfjárbréfum, né hafi hún þagað sviksamlega yfir atvikum sem máli hafi skipt um löggerninginn. Ekki verði heldur talið óheiðarlegt af stefndu að bera fyrir sig umræddan samning enda engin slík atvik fyrir hendi sem leiða ættu til slíkrar niðurstöðu. Verði ekki heldur fallist á að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að stefnda beri kaupin fyrir sig. Líta verði svo á að stefnandi, sem sé löglærður og hafi starfað sem lögmaður um árabil, hafi vitað eða mátt vita um áhættu þá sem felist almennt í viðskiptum með stofnfjárbréf í sparisjóði.

Með vísan til eðlis markaðar með stofnfé í sparisjóði sé á engan hátt unnt að fallast á að slík viðskipti geti gengið til baka árum síðar, þegar hagnaðarvon aðila hafi ekki gengið eftir. Þá verði að líta svo á að með tómlæti sínu hafi stefnandi í reynd samþykkt viðskiptin og komi riftun ekki til álita tæpum tveimur árum eftir kaupin, sbr. 32. gr. og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/2000. Stefnda byggi á því að hún hafi á engan hátt brotið gegn lagaákvæðum, verklagsreglum SPRON eða hagsmunum stefnanda og bendi jafnframt á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stofnfjárbréfin hafi verið haldin galla í skilningi 18. gr. eða 19. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, við kaupin. Eins hafi stefnandi ekki sýnt fram á að stofnfjárbréfin hafi ekki haft þá eiginleika söluhlutar sem kveðið sé á um í 17. gr. lausafjárkaupalaga. Enn fjarlægara sé að stefnandi hafi sýnt fram á að bréfin hafi verið haldin verulegum galla, en slíkt sé skilyrði riftunar samkvæmt 39. gr. sömu laga. Auk þess vísi stefnda til 66. gr. lausafjárkaupalaga. Þar komi fram að aðeins sé heimilt að rifta kaupum að kaupandi geti skilað söluhlut að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni og hlutur var í þegar kaupandi veitti honum viðtöku.

Því sé hafnað að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi, sbr. varakröfu stefnanda. Að mati stefndu hafi stefnandi ekki sýnt fram á að stefnda hafi valdið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, auk þess sem ekki sé fallist á að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru tjóni vegna viðskiptanna eða að orsakasamband sé á milli þess og viðskipta stefndu við stefnanda, auk þess sem tjónið verði ekki talin sennileg afleiðing umræddra viðskipta. Verði stefnda ekki talin bera ábyrgð á afleiðingum sem séu ófyrirséðar eða tilviljunarkenndar, eins og hér sé raunin. Þá sé og til þess að líta að stefnandi hefði orðið fyrir nákvæmlega sama tjóni ef seljandi stofnfjárbréfanna hefði verið annar stofnfjáreigandi en stefnda, enda eina orsök verðfalls stofnfjárbréfa í SPRON sú fjármálakreppa sem riðið hafi yfir haustið 2008. Því sé alfarið hafnað að háttsemi stefndu, eða annarra aðila sem komið hafi að umræddum viðskiptum, hafi orðið þess valdandi að stofnfjárbréf stefnanda hafi fallið í verði eftir kaupin. Þá verði ekki betur séð en að stefnandi hafi haft 19 mánuði, frá kaupum stofnfjárbréfanna að telja, til þess að takmarka tjón sitt með því að selja bréfin áður en SPRON hf. var tekið til slitameðferðar. Sérstaklega sé tekið fram, með vísan til dómkrafna stefnanda, að ekki sé litið svo á að stefnandi byggi á sjónarmiðum um afslátt. Slíkum sjónarmiðum sé einnig alfarið mótmælt til öryggis (ex tuto). Með sömu rökum sé þrautavarakröfu stefnanda, um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, alfarið hafnað.

Við munnlegan málflutning vísaði lögmaður stefndu sérstaklega til dóms Hæstaréttar 29. apríl 2010 í máli nr. 407/2009, sem hafi fullt sönnunargildi í þessu máli.

Stefnda styður sýknukröfu sína við almennar reglur samninga- og kröfuréttar og kröfu um málskostnað við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Niðurstaða                                                          

Svo sem rakið er í kafla um málsatvik hér að framan var fjallað um sömu atvik og liggja máli þessu til grundvallar í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2012, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2012 í málinu nr. 650/2012. Í því máli krafðist stefnandi viðurkenningar á skaðabótakröfu sem hann lýsti við slit SPRON hf. vegna tjóns sem hann hefði orðið fyrir, við þau kaup sem krafist er riftunar á eða skaðabóta vegna í þessu máli. Körfulýsingin, sem stefnandi lagði fram sem dómskjal í þessu máli, var sömu fjárhæðar og aðal- og varakröfur hans í þessu máli og var hún send slitastjórn SPRON hf. daginn eftir að stefndu var send sú yfirlýsing um riftun og krafa um endurgreiðslu sem aðalkrafa þessa máls byggir á. Í máli stefnanda á hendur slitastjórninni komu í meginatriðum fram sömu málsástæður og lagarök fyrir meintum saknæmum og ólögmætum athöfnum stefndu, sem stjórnarformanns SPRON, og stefnandi byggir á í þessu máli til stuðnings dómkröfum sínum á hendur henni sjálfri, og raktar hafa verið hér að framan. Það var niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar að orsök tjóns stefnanda verði ekki rakin til meintrar ólögmætrar og saknæmrar háttsemi af hálfu stjórnar, stjórnarformanns, starfsmanna SPRON eða starfsmanna SPRON verðbréfa hf. og sé ekki sennileg afleiðing af þeirri háttsemi. Stefnandi hafði ekki sýnt fram á að SPRON bæri skaðabótaábyrgð á meintu tjóni hans og var kröfu hans hafnað með svofelldum rökstuðningi:

Sóknaraðili byggir skaðabótakröfu sína á sakarreglunni og telur varnaraðila eiga sök á meintu tjóni sínu, þar sem stjórnarformaður varnaraðila og stjórn hans hafi af gáleysi eða ásetningi skaðað sóknaraðila fjárhagslega með ólögmætum athöfnum sínum, þannig að hann tapaði allri stofnfjáreign sinni. Þá byggir sóknaraðili á reglunni um húsbóndaábyrgð varnaraðila, þar sem regluvörður og stjórnarformaður varnaraðila og regluvörður SPRON verðbréfa hf. hafi ekki farið að þeim reglum sem þeim hafi verið settar af stjórn varnaraðila.

Í sakarreglunni felst að maður beri ábyrgð á tjóni sem hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun hans og raski hagsmunum sem verndaðir eru með skaðabótareglum. Öll skilyrði reglunnar þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að leggja skaðabótaábyrgð á tjónvald vegna meints tjóns. Til þess að á varnaraðila verði felld bótaábyrgð í máli þessu nægir því ekki að sýnt sé fram á saknæma og ólögmæta háttsemi varnaraðila, heldur þarf sóknaraðili að sýna fram á orsakatengsl milli þeirrar háttsemi og þess tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir og að tjónið sé sennileg afleiðing hinnar ólögmætu og saknæmu háttsemi.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að tjón hans hafi orðið á þeirri stundu er hann keypti umrædd stofnfjárbréf, 26. júlí 2007. Við aðalmeðferð málsins var sóknaraðili sérstaklega inntur eftir því hvort hann teldi að tjón sitt hefði orðið þá og kvaðst hann telja að þegar blekkingum hafi verið beitt af hálfu varnaraðila á kaupdegi bréfanna, hafi hann orðið fyrir því tjóni sem krafa hans eigi rætur að rekja til, en krafa hans er að fjárhæð 5.005.005 krónur, auk vaxta.

   Fram kemur í gögnum málsins að samkvæmt uppgjöri ársins 2007 nam hagnaður SPRON vegna ársins 3,3 milljörðum króna og fyrir liggur einnig í gögnum málsins að stofnfjáreigendum var greiddur arður í lok maí 2008. Fram kemur á dómskjali því sem lagt var fram fyrir upphaf aðalmeðferðar, nr. 95, að sóknaraðili var einn þeirra stofnfjáreigenda sem fengu greiddan arð af bréfunum í maí 2008. Samkvæmt framangreindu er ljóst að þau stofnfjárbréf sem sóknaraðili keypti 26. júlí 2007 urðu ekki einskis virði á kaupdegi, eins og sóknaraðili hefur haldið fram. Því verður ekki fallist á að tjón sóknaraðila hafi orðið á þeim degi. Sóknaraðili aðhafðist heldur ekkert í kjölfar kaupanna, sem rennt getur stoðum undir þá staðhæfingu hans, að hann hafi á þeim degi talið sig hafa orðið fyrir tjóni. Hann freistaði þess fyrst í september 2009, eða rúmum tveimur árum eftir kaupin, að rifta kaupum á bréfunum. Hann hélt því umræddum bréfum í rúm tvö ár og fékk greiddan arð af þeim. Hann gerði ekkert til takmarka meint tjón sitt fyrr en rúmum tveimur árum eftir að hann taldi sig hafa orðið fyrir tjóni, en þá hafði Fjármálaeftirlitið skipað SPRON skilanefnd og hlutabréf í varnaraðila voru orðin verðlaus.

Sóknaraðili falaðist sjálfur eftir að kaupa títtnefnd stofnfjárbréf, en kaup á slíkum bréfum fela ávallt í sér ákveðna áhættu þar sem erfitt getur verið að sjá fyrir um þróun markaðarins hverju sinni. Viðskipti aðila voru með óskráð verðbréf, sem ekki var hægt að skrá á skipulegum verðbréfamarkaði og á þeim tíma er viðskipti aðila fóru fram hafði ekki verið óskað eftir skráningu SPRON í kauphöll. Því var áhætta af slíkum viðskiptum enn meiri en ella.

Á sóknaraðila hvílir sönnunarbyrði fyrir því að meint tjón hans verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi varnaraðila og að orsakatengsl séu milli þeirrar háttsemi og meints tjóns, sem og þess að tjónið sé sennileg afleiðing háttseminnar. Það er mat dómsins að slík sönnun hafi ekki tekist, heldur hafi verið í ljós leitt að tjón   sóknaraðila verði rakið til hans sjálfs og þeirra atburða er urðu í íslensku efnahagslífi í október árið 2008, sem leiddu til falls íslensku bankanna, og þess að stjórn Fjármálaeftirlitsins skipaði skilanefnd yfir SPRON 21. mars 2009. Tjónið verði einnig rakið til þeirrar áhættu er hann tók er hann keypti umrædd bréf og þess að hann reyndi ekki að takmarka tjón sitt, í kjölfar meints tjónsatburðar. Þessir atburðir eru orsök tjóns sóknaraðila og hefur ekkert fram komið í málinu er fært geta sönnur á að tjón hans verði rakið til annars, hvað sem líður vitneskju stjórnar varnaraðila og stjórnarformanns um fjárhagsstöðu SPRON á þeim tíma er sóknaraðili keypti umrædd bréf. Þá breyta meint brot stjórnarformanns, stjórnar og starfsmanna SPRON og SPRON verðbréfa hf. á lögum nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, meint brot gegn lögum um hlutafélög, meint brot gegn reglum sem giltu um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja, meint brot þeirra á eftirlits- og starfsreglum SPRON verðbréfa hf., meint brot þeirra á eftirlits- og starfsreglum SPRON, meint brot á reglum SPRON um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra, eða meint brot á reglum um viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON engu um það heldur. Orsök tjóns sóknaraðila verður ekki rakin til meintrar ólögmætrar og saknæmrar háttsemi af hálfu stjórnar, stjórnarformanns eða starfsmanna varnaraðila eða starfsmanna SPRON verðbréfa hf. og er ekki sennileg afleiðing af þeirri háttsemi.

Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, hefur dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað. Í máli þessu hefur ekkert það komið fram sem teljist sanna hið gagnstæða og verður framangreint því talið fullsannað. Í því felst meðal annars að tjón stefnanda er að rekja til annarra orsaka en háttsemi stefndu og ber hún þegar af þeirri ástæðu ekki bótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglna um skaðabætur utan samninga.

Stefnandi byggir á því að um stefndu hafi átt að gilda reglur um innherjaviðskipti í þágildandi lögum, nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti. Á það verður ekki fallist, svo sem einnig er vikið að í rökstuðningi úrskurðar héraðsdóms sem tekinn er upp hér að framan, sbr. og dóm Hæstaréttar 29. apríl 2010 í máli nr. 407/2009, enda var skráning SPRON í Kauphöll ekki möguleg fyrr en stofnfjáreigendur, þar á meðal stefnandi, höfðu samþykkt að breyta sparisjóðnum í hlutafélag en það var gert 21. ágúst 2007. Þá eiga lög um hlutafélög, nr. 2/1995, ekki við í málinu, enda var SPRON ekki orðið hlutafélag þegar atvik málsins áttu sér stað. Um viðskipti stefndu með stofnfjárhluti giltu á hinn bóginn þær innri reglur SPRON sem stefnandi hefur vísað til.

Af er á því hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda hafi brotið gegn reglum SPRON með því að leita ekki heimildar regluvarðar til sölu stofnfjárbréfa sinna eins og henni hafi verið skylt og því séu viðskiptin ekki gild. Stefnda bar fyrir dóminum að hún gæti ekki fullyrt um það hvort, og ef svo væri hvenær, hún hefði tilkynnt regluverði um viðskiptin en taldi sig hafa gert það. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 650/2012 er það talið óumdeilt að regluverði hafi hvorki verið tilkynnt um viðskipti stjórnarformannsins né honum verið um þau kunnugt af öðrum sökum og er það í samræmi við framburð regluvarðar um atvik í vitnamálinu nr. V-11/2011 og telst upplýst. Fallist er á það með stefnanda að það var í ósamræmi við þágildandi innri reglur SPRON að stefnda lét fyrirfarast að hafa samband við regluvörð vegna sölunnar. Heimild regluvarðar til viðskiptanna gat þó aldrei haft úrslitaáhrif um gildi þeirra, enda þurfti, í samræmi við samþykktir sparisjóðsins, samþykki stjórnar til eigendaskipta að stofnfjárbréfum í honum. Viðskiptin voru borin undir stjórn sparisjóðsins á fundi 9. ágúst 2007, þau voru þar samþykkt og öðluðust gildi. Málsástæðu stefnanda um ógildi viðskiptanna er því hafnað.

Stefnandi byggir kröfur sínar meðal annars á því að stefnda hafi búið yfir óbirtum upplýsingum um stöðu SPRON vegna þess að skýrsla Capacent var ekki birt í heild sinni. Það hafi verið innherjaupplýsingar sem ekki hafi verið upplýst um við söluna. Því hafi hið selda verið gallað í skilningi 18. gr. og 19. gr. laga um lausafjárkaup. 

Þessi málsástæða stefnanda að hann hafi verið leyndur mikilvægum upplýsingum um verðmæti sparisjóðsins, sem stefnda hafi búið yfir, byggist á því að hluti skýrslu Capacent um ætlað verðmat tiltekinna fasteigna var ekki birtur. Upplýsingar um verðmæti sparisjóðsins samkvæmt skýrslu Capacent höfðu verið birtar opinberlega áður en kaupin gerðust, en gengi á stofnfjárbréfum í SPRON var þó ekki í samræmi við matið, heldur virðist hafa stjórnast af væntingum markaðarins vegna fyrirhugaðrar skráningar sparisjóðsins í Kauphöll, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 407/2009. Að dómi þessum virtum og því hve lítil áhrif verðmat Capacent virtist hafa á gengi bréfanna í raun, verður ekki talið að þær takmörkuðu upplýsingar sem ekki voru birtar hefðu haft þá þýðingu að ætla megi að það hafi haft áhrif á kaupin eða verulegu máli skipt, þannig að 1. mgr. 18. gr. og b-liður 1. mgr. 19. gr. laga um lausafjárkaup geti átt við.

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 650/2012 felst full sönnun þess að þau stofnfjárbréf sem stefnandi keypti 26. júlí 2007 urðu ekki einskis virði á kaupdegi. Ekki hefur verið sýnt fram á að hin seldu bréf hafi ekki við afhendingu svarað til þeirra upplýsinga sem veittar voru við markaðssetningu þeirra og ekki hefur heldur verið sýnt fram á að seljandi hafi vanrækt að gefa upplýsingar sem verulegu máli skiptu varðandi bréfin og kaupandi mátti ætla að hann fengi upplýsingar um. Stefnandi hefur samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á að hið selda hafi verið gallað við kaupin, en áhætta af söluhlut flyst yfir til kaupanda þegar hann hefur verið afhentur, sbr. 13. gr. laga um lausafjárkaup. Þá var vanræksla stefndu á því að hafa samband við regluvörð ekki orsök þess verðhruns hins selda sem síðar varð og upplýst er með fyrrnefndum dómi að tjón stefnanda er ekki sennileg afleiðing af þeirri háttsemi.

Að því virtu að hið selda var ekki gallað getur stefnandi ekki átt kröfu til riftunar kaupanna vegna galla, sem telji megi til verulegra vanefnda samkvæmt 39. gr. laga um lausafjárkaup. Hann getur ekki heldur átt kröfu til skaðabóta vegna tjóns sem hann hafi beðið vegna galla á hinu selda samkvæmt 40. gr. laganna og ekki er fyrir að fara vanefnd sem bakað geti seljanda ábyrgð samkvæmt reglum 2. mgr. 21. gr. laganna um ábyrgð á galla sem síðar kemur fram, enda ekkert orsakasamband fyrir hendi. Kröfum og málsástæðum stefnanda sem byggjast á vanefndaúrræðum ákvæða laga um lausafjárkaup vegna galla á söluhlut verður samkvæmt framangreindu hafnað.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi með sviksamlegum hætti verið leyndur upplýsingum um hver verið hafi eigandi bréfanna, sem hann hefði aldrei keypt ef hann hefði haft upplýsingar um að það væri stefnda og því séu forsendur kaupanna brostnar. Upplýst er í málinu að stefnandi óskaði ekki eftir upplýsingum um það hver hefði verið eigandi bréfanna fyrr en á árinu 2009 og ekkert hefur komið fram sem styður þá fullyrðingu að yfir þeim upplýsingum hafi hvílt sviksamleg eða saknæm leynd. Engin gögn eða upplýsingar um það hvernig kaupin gerðust styðja þá málsástæðu stefnanda að það hafi verið forsenda hans við kaupin eða ákvörðunarástæða að bréfin sem hann keypti væru ekki í eigu stefndu eða annarra í svipaðri aðstöðu til upplýsinga um sparisjóðinn, og er henni hafnað. Dómurinn tekur undir sjónarmið stefndu um að sú málsástæða stefnanda að ósanngjarnt sé að bera samninginn fyrir sig vegna aðstöðumunar aðila, eigi ekki við nein rök að styðjast, í ljósi menntunar og starfsferils stefnanda. Þá hefur ekki með neinum hætti verið sýnt fram á réttmæti málsástæðu stefnanda um að stefnda hafi komið óheiðarlega fram eða að það sé óheiðarlegt að hún vilji láta kaupin, sem fram fóru árið 2007, standa.

Stefnandi hefur því hvorki sýnt fram á að málsástæður sem byggjast á tilvísan til 30. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, né málsástæður sem byggjast á sjónarmiðum samningaréttarins um brostnar forsendur, séu á rökum reistar og verður þeim hafnað.

Þegar allt framangreint er virt hefur stefnandi ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að fallast á kröfur hans að neinu leyti og verður stefnda því sýknuð af dómkröfum hans.

Í samræmi við niðurstöðu málsins, og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. apríl 2013.

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, Hildur Petersen, er sýknuð af kröfum stefnanda, Magnúsar Björns Brynjólfssonar.

Stefnandi greiði stefndu 1.100.000 krónur í málskostnað.