Hæstiréttur íslands

Mál nr. 477/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti


Þriðjudaginn 14

 

Þriðjudaginn 14. desember 1999.

Nr. 477/1999.

Haraldur Jónsson

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Valdemar Jónssyni

Hjördísi Jónsdóttur og

Jóni Sverri Jónssyni

(Knútur Bruun hrl.)

 

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti.

Eftir að bú J var tekið til opinberra skipta reis ágreiningur milli erfingja hans um ráðstöfun jarðarinnar V. Í frumvarpi skiptastjóra var ráðgert að jörðin yrði lögð erfingjunum út til greiðslu arfs að fjórðungi til hvers. Samþykktu þrír erfingjanna frumvarpið, en erfinginn H greiddi atkvæði á móti. Beindi skiptastjórinn ágreiningnum til héraðsdóms í kjölfarið. Talið var að lagaheimild brysti til að ljúka skiptum á dánarbúinu á þennan hátt, gegn mótmælum H, þar sem eign dánarbús yrði aldrei lögð út erfingja til greiðslu arfs nema samkvæmt kröfu hans sjálfs. Var frumvarp skiptastjóra því fellt úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. desember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 1999, þar sem hafnað var mótmælum sóknaraðila gegn frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar við opinber skipti á dánarbúi Jóns Jónssonar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að frumvarp skiptastjóra 17. maí 1999, sem samþykkt var af meiri hluta erfingja á skiptafundi í dánarbúinu 15. júní 1999, verði fellt úr gildi og sér lögð út jörðin Varmadalur á Kjalarnesi að arfi, til vara að sér verði lögð út hálf jörðin, en til þrautavara að eignum dánarbúsins verði komið í verð og andvirði þeirra skipt á milli erfingja.

Varnaraðilar krefjast aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar. Til vara krefjast þau þess að jörðin Varmadalur verði lögð þeim út, enda greiði þau sóknaraðila hans erfðahluta í henni samkvæmt virðingu. Til þrautavara krefjast þau þess, ef lög standi til að einum erfingja verði lögð út öll jörðin, að hlutkesti ráði hver málsaðila fái hana útlagða. Í öllum tilvikum krefjast þau kærumálskostnaðar.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gerðu Valdimar Guðmundsson og eiginkona hans Elísabet Þórðardóttir, eigendur og ábúendur jarðarinnar Varmadals, sem var gerð að ættaróðali 15. júní 1944, erfðaskrá 23. september 1962, þar sem þau lýstu meðal annars þeirri ákvörðun að dóttir þeirra, Unnur, skyldi taka við óðalinu. Elísabet mun hafa látist á árinu 1965. Unnur Valdimarsdóttir fékk jörðina afhenta frá föður sínum 6. júlí 1971 sem fyrirframgreiðslu arfs. Hún mun hafa látist 1979. Eftirlifandi eiginmaður Unnar, Jón Jónsson, sat í óskiptu búi þar til hann lést 11. september 1996. Þau létu ekki eftir sig erfðaskrá eða önnur fyrirmæli um ráðstöfun eigna eftir sinn dag.

Bú Jóns Jónssonar var tekið til opinberra skipta 13. mars 1997. Málsaðilar, sem eru börn hans og Unnar Valdimarsdóttur, eru erfingjar þeirra og hafa lýst yfir að þau taki að sér ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins. Við upphaf opinberra skipta reis ágreiningur milli aðilanna um hvort ákvæði um óðalsjarðir í VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976 ættu að ráða hvernig jörðin Varmadalur félli að arfi, svo og hvort sóknaraðili þessa máls eða varnaraðilinn Jón Sverrir fullnægðu skilyrðum til að neyta forgangs til að taka við henni sem óðali. Úr þeim ágreiningi var leyst með dómi Hæstaréttar, sem er birtur í dómasafni 1998, bls. 2833. Varð niðurstaðan sú að reglum jarðalaga um óðalsjarðir yrði ekki beitt um Varmadal, en ekki var kveðið nánar á um hvernig jörðin ætti að falla að arfi við skiptin.

Ekki tókst samkomulag á milli málsaðila um ráðstöfun jarðarinnar að gengnum fyrrnefndum dómi. Fór svo að skiptastjóri gerði frumvarp til úthlutunar 17. maí 1999, þar sem lagt var til grundvallar að jörðin yrði lögð erfingjum út til greiðslu arfs að fjórðungi til hvers, svo og að eins yrði farið með innbúsmuni, hlutabréf, stofnsjóðseign og hreina peningaeign dánarbúsins, samtals að andvirði 2.142.044 krónur. Á skiptafundi 15. júní 1999 samþykktu varnaraðilar frumvarpið, en sóknaraðili lýsti sig andvígan því. Beindi skiptastjóri ágreiningnum til héraðsdóms og er mál þetta rekið af því tilefni.

II.

Ákvæði 2. þáttar laga nr. 20/1991, sem lúta að bústjórn og ráðstöfun eigna við opinber skipti á dánarbúum, eru reist á þeirri meginreglu að við slík skipti verði öllum eignum gjaldfærs bús komið í verð og andvirði þeirra að frádregnum skuldum, kostnaði og erfðafjárskatti greitt erfingjum til fullnustu arfskröfum þeirra. Frá þeirri meginreglu verður ekki vikið nema í þeim mæli, sem um ræðir í III. kafla laganna, og þá öðru fremur með því að einstökum eignum dánarbús verði ekki ráðstafað við skiptin með sölu, heldur verði þær lagðar út erfingjum samkvæmt kröfu þeirra sjálfra á matsverði til greiðslu arfs. Þegar eftirlifandi maki stendur ekki til arfs og sá látni hefur ekki mælt fyrir um ráðstöfun einstakra eigna með erfðaskrá, getur hver og einn erfingi krafist að fá arf sinn greiddan með því að fá muni lagða sér út, sbr. 36. gr. laga nr. 20/1991, en sú heimild er þó ávallt háð því að matsverð muna rúmist innan arfshluta ef erfingjar semja ekki sérstaklega á annan veg.

Samkvæmt gögnum málsins er fasteignamatsverð jarðarinnar Varmadals alls 9.385.000 krónur eða sem svarar meira en 80 hundraðshlutum af andvirði heildareigna dánarbús Jóns Jónssonar. Sóknaraðili, sem mun taka fjórðung eigna dánarbúsins að arfi við lok skipta, getur því samkvæmt áðursögðu hvorki krafist að fá jörðina alla né helming hennar lagða sér út án sérstaks samþykkis varnaraðila, enda andvirðið langt umfram arfshlutann, sem hann á í vændum. Er því bæði aðalkrafa hans og varakrafa með öllu haldlaus.

Eins og áður greinir leiðir af ákvæðum laga nr. 20/1991 að eign dánarbús verður aldrei lögð út erfingja til greiðslu arfs nema samkvæmt kröfu hans sjálfs. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að sóknaraðili hafi nokkru sinni krafist þess að fá fjórðung Varmadals lagðan sér út til óskiptrar sameignar með varnaraðilum, heldur þvert á móti hafi hann mótmælt slíkum málalokum eindregið, svo sem felst í fyrrgreindri þrautavarakröfu hans. Brestur því lagaheimild gegn þeim mótmælum sóknaraðila til að ljúka skiptum á dánarbúinu á þann hátt, eins og ráðgert er í frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar. Af þessum sökum verður að hnekkja frumvarpinu í heild sinni.

Eins og atvikum er háttað er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Frumvarp skiptastjóra í dánarbúi Jóns Jónssonar 17. maí 1999 til úthlutunar er fellt úr gildi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 1999.

Mál þetta var þingfest 25. júní sl. og tekið til úrskurðar 18. október sl. að loknum munnlegum mál­flutn­ingi.

Sóknaraðili er Haraldur Jónsson kt. 240747-4219, Varmadal, Kjalarneshreppi.        

Varnaraðilar eru Valdemar Jónsson kt. 091237-7099, Reykholti, Mosfellssveit, Hjördís Jónsdóttir kt. 270334-3939, Leysingjastöðum, Austur-Húnavatnssýslu og Jón Sverrir Jónsson kt. 011242-2009, Varmadal, Kjalarneshreppi.

Sóknaraðili gerir þær dómkröfur að frumvarp skiptastjóra í dánarbúi Jóns Jónssonar dags. 17. maí 1999 og sem samþykkt var á skiptafundi í dánarbúinu hinn 15. júní 1999 verði fellt úr gildi. Krefst sóknaraðili þess að jörðin Varmadalur verði lögð sér út að arfi. Til vara krefst sóknaraðili þess að ofangreint frumvarp skiptastjóra í dánarbúi Jóns Jónsonar verði fellt úr gildi, sér verði lögð út hálf jörðin Varmadalur að arfi. Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að ofangreint frumvarp verði fellt úr gildi og eignum búsins verði komið í verð og andvirðinu skipt á milli erfingja. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins ásamt virðisaukaskatti.

Varnaraðilar gera þær dómkröfur að frumvarp skiptastjóra Jóhanns Níelssonar hrl. dags. 17. maí 1999 að úthlutunargerð, sem lagt var fram og fjallað um á skiptafundum 21. maí 1999 og 15. júní s.á., verði lagt til grundvallar við skipti á dánarbúinu, þ.e. að hver erfingja fái í sinn hlut 25% af eignum búsins. Erfingjarnir eignist jörðina Varmadal í sömu hlutföllum og eigi hana saman í óskiptri sameign. Í aðalkröfu er fólgið, að dómurinn geri skiptastjóra að ljúka búskiptum í dánarbúi Unnar Valdimarsdóttur og Jóns Jónssonar í samræmi við framangreint frumvarp hans að úthlutunargerð í dánarbúinu. Til vara er þess krafist, verði aðalkrafan ekki tekin til greina, að jörðin Varmidalur verði lögð út öllum varnaraðilum enda greiði þau sóknaraðila Haraldi Jónssyni hans erfðahluta í jörðinni samkvæmt virðingu. Þrautavarakrafa: Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að lög standi til að einum erfingja verði lögð öll jörðin Varmidalur ráði hlutkesti hver erfingja skuli fá jörðina útlagða. Í öllum tilvikum krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts.

 

I

Málavextir

Með yfirlýsingu 15. júní 1944 gerði Valdemar Guðmundsson bóndi í Varmadal jörð sína að ættaróðali. Kona hans var Elísabet Þórðardóttir. Með arfleiðsluskrá 23. september 1962 ákváðu þau hjónin að dóttir þeirra Unnur skyldi erfa óðalið. Fékk Unnur óðalið sem fyrirframgreiddan arf 1971, en Elísabet andaðist 1965. Tóku Unnur og eiginmaður hennar Jón Jónsson við búinu eftir Valdemar. Unnur lést 1979 og fékk þá eiginmaður hennar leyfi til setu í óskiptu búi en hann andaðist 11. september 1996. Börn þeirra eru aðilar máls þessa.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 1997 var bú Jóns Jónssonar tekið til opinberra skipta og Jóhann Níelsson hrl. skipaður skiptastjóri. Kom upp ágreiningur meðal erfingjanna um ráðstöfun jarðarinnar Varmadals í Kjalarneshreppi og gekk sá ágreiningur til úrskurðar dómstóla og kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í málinu 22. september 1998. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að við skipti á dánarbúi Jóns Jónssonar skuli ekki beitt um fasteign þess reglum um óðalsjarðir í jarðalögum nr. 65/1976 með áorðnum breytingum. Eftir uppkvaðningu dóms þessa hefur verið reynt að ná sáttum milli erfingjanna en án árangurs. Skiptastjóri hefur lagt fram frumvarp að úthlutunargerð í dánarbúinu sem samþykkt var á skiptafundi 15. júní sl. Var frumvarpið samþykkt með þremur atkvæðum varnaraðila gegn atkvæði sóknaraðila. Vill sóknaraðili ekki una frumvarpinu eins og það er og hefur ágreiningi um það verið vísað til héraðsdóms.

 

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili hefur krafist þess að að sér verði lögð út öll jörðin Varmadalur en til vara helmingur jarðarinnar. Hann kveðst telja sig eiga forgangsrétt til jarðarinnar skv. 36. gr. laga nr. 20/1991 þar sem jörðin hafi sérstakt gildi fyrir hann. Það byggist á því að hann búi á jörðinni og hafi gert frá fæðingu. Hann hafi búið á jörðinni síðan 1963. Hann sé ábúandi á hálfri jörðinni og hafi lífsviðurværi sitt af búskapnum. Kveðst hann benda á að ekkert systkina hans hafi stundað búskap í Varmadal. Hjördís sé húsmóðir á Leysingjastöðum í Húnavatnssýslu, Valdemar sé tónlistarkennari í Mosfellsbæ og Jón Sverrir sé með vörubílaútgerð.

Sóknaraðili kveðst lýsa því yfir að hann sé reiðubúinn til þess að stunda áfram búskap í Varmadal. Ekkert hinna systkinanna sé líklegt til þess að gera það enda hafi þau ekki forsendur til þess. Jón Sverrir búi í Varmadal II sbr. ljósrit úr jarðaskrá. Sé þar um að ræða annað býli. Hafi Jón Sverrir ekki stundað neinn búskap en börn hans muni halda hesta.

Kveður sóknaraðili ekki leika neinn vafa á því að þessi tiltekna eign dánarbúsins hafi sérstakt gildi fyrir hann umfram aðra erfingja. Kveðst hann gera kröfu til útlagningar á allri jörðinni þar sem hann telji ekki rétt að skipta henni. Muni það valda honum erfiðleikum við búskapinn ef aðrir erfingjar eigi helming jarðarinnar á móti honum. Verði ekki á þá kröfu hans fallist kveðst hann krefjast útlagningar á hálfri jörðinni en hann sé ábúandi á helmingi jarðarinnar.

Sóknaraðili kveðst styðja þrautavarakröfu sína eftirfarandi rökum: Hann telji að frumvarp skiptastjóra hafi það í för með sér að hann sé þvingaður gegn vilja sínum til þess að eiga jörðina Varmadal í óskiptri sameign með systkinum sínum. Það vilji sóknaraðili ekki og telji að skiptastjóra beri að taka tillit til þessarar óskar hans. Þessi afstaða sóknaraðila hafi legið fyrir allan þann tíma sem skiptameðferð hafi staðið. Óttist sóknaraðili að sameign hans og systkina hans um jörðina muni valda honum miklum erfiðleikum við búskapinn. Sóknaraðili kveðst benda á að í forsendum fyrrgreinds hæstaréttardóms segi að í dánarbúinu verði að taka ákvörðun um hvort eigninni verði komið í verð við skiptin eða erfingjar, allir eða einhverjir, fái hana lagða sér út að arfi og þá í hvaða hlutföllum.

Þá kveðst sóknaraðili telja að sú niðurstaða sem fram komi í frumvarpi skiptastjóra sé ekki skipti á eignum búsins. Erfingjar séu nú og hafi verið frá andláti föður þeirra sameigendur eigna búsins. Hér sé því ekki um að ræða nein skipti á eignum búsins milli erfingja. Beðið hafi verið um opinber skipti á dánarbúinu þar sem erfingjar hafi ekki getað komið sér saman um skipti á eignum sem þau áttu í óskiptri sameign sem samerfingjar. Ef frumvarp skiptastjóra standi sé ekki um að ræða neina breytingu þar á. Ekki hafi farið fram nein skipti heldur hafi aðeins verið skjalfest að erfingjar ættu eignir dánarbúsins saman í óskiptri sameign.

Sóknaraðili kveðst vísa til 36. gr. laga nr. 20/1991 máli sínu til stuðnings.

 

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðilar hafa krafist þess í aðalkröfu að öllum eignum dánarbúsins verði skipt jafnt á milli erfingjanna, þ.e. í fjóra jafna hluti og að erfingjarnir eignist jörðina Varmadal þannig í óskiptri sameign. Jörðin sé langverðmætasta eign búsins. Með þessari kröfugerð sé jafnframt mótmælt þeirri kröfu sóknaraðila að hann fái sér lagða út alla jörðina eða hana hálfa. Rök gegn því séu eftirfarandi:

Í frumvarpi að úthlutunargerð í dánarbúinu á bls. 5 segi skiptastjóri: "Að vel athuguðu máli lýsir skiptastjóri því yfir sem skoðun sinni að erfingi geti ekki á grundvelli 36. gr. laga nr. 20/1991 fengið útlagningu á eignum búsins nema að því marki sem svarar til greiðslu á arfi hans, nema samþykki samerfingja liggi fyrir”.

Í skýringum við 36. gr. laga nr. 20/1991 sé vísað sérstaklega til eldri skiptalaga nr. 3/1887 þ.e. 46. gr. og segi að ákvæði 36. gr. séu nánast í öllum atriðum sama efnis og reglur 46. gr. eldri laga. Þar segi: "Hver erfingi á heimtingu á að arfahluti hans sé lagður honum út eftir virðingu........ og síðar í 1. mgr. 46. gr. segi "Ef fleiri en einn erfingi krefjist þess, að hinn sami hlutur sé þeim útlagður, skal hlutkesti ráða......."

Í Erfðarétti Ármanns Snævarr (útg. 1991) bls. 119 og 120 segi svo um 36. gr. skl.: "Í þessu ákvæði segir að hver erfingja eigi tilkall til þess að munir séu lagðir sér út eftir virðingu við dánarbúskipti og ráði hlutkesti ef fleiri en einn erfingi krefjist sama hlutar".

Í Erfðarétti Páls Sigurðssonar (útg. 1998 ) segi svo á bls. 224: "Þess skal sérstaklega getið að skv. 2. mgr. 36. gr. el. getur arfleiðandi mælt svo fyrir í erfðaskrá sinni að tiltekin skylduerfingi hans skuli fá í sinn hlut ákveðna muni úr séreign hans eða hjúskapareign enda fari verð þessara muna ekki fram úr skylduerfðahluta erfingjans að viðbættum þeim eignarhluta sem arfleiðanda er heimilt að ráðstafa skv. fyrrnefndri meginreglu í 35. gr."

Orðalag dönsku skiptalaganna 47. gr. sé ekki að öllu leyti samhljóða 36. gr. ísl. laganna en þó megi ætla að sömu meginreglur gildi við ákvörðun um útleggingarkröfu erfingja við skipti á dánarbúum í Danmörku og hér á landi Úr Skifteloven komenteret af Per Halkmann Olsen og Niels Viltoft grein 47: "Enhver arving er berettiget til for sin arvelod at fordre udlæg eftir vurdering, dog ikke i fast ejendom."

Meginreglan hljóti að vera sú, að útleggingarkrafa skylduerfingja, sem ekki sé maki, takmarkist við arfshluta hans og sé jafnframt bundin við einstaka muni í dánarbúinu. Það geti ekki verið ætlun löggjafans, að einn erfingja geti krafist útlagningar á megineign bús t.d. fasteign, sem þá mundi hafa í för með sér mikinn ójöfnuð fyrir aðra erfingja búsins. Framanritaðar tilvitnanir renni stoðum undir þá lögskýringu.

Jörðin Varmidalur geti ekki haft neitt sérstakt huglægt gildi fyrir sóknaraðila fram yfir varnaraðila. Tveir erfingjanna hafi búið á jörðinni frá fæðingu þ.e. sóknaraðilinn og varnaraðilinn Jón Sverrir. Varnaraðilinn Valdemar hafi búið á jörðinni fram til ársins 1965 og hafi frá árinu 1979 séð um allar fjárreiður og skattaframtöl fyrir föður sinn og hafi enn þann dag í dag þau störf á hendi. Hvorugur þeirra erfingja, sem búi í eigin einbýlishúsum á jörðinni, hafa lífsviðurværi sitt af henni. Annar stundi vörubílaakstur, hinn hafi verið leigubílstjóri um langt árabil. Sóknaraðili sem fullyrði í greinargerð, að hann hafi lifsviðurværi sitt af búskap á jörðinni hafi sjálfur lagt fram landbúnaðarskýrslur frá árunum 1984-1996 í því máli sem rekið hafi verið fyrir dómstólum um óðalsrétt. Þær skýrslur hafi sýnt uppsafnað tap á búskapnum að upphæð kr. 1.6 milljón. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafi verið fram í Hæstarétti í fyrrgreindu máli um óðalsrétt, liggi fyrir, að talsverður hluti af landi Varmadals verði á síðari stigum nýttur fyrir íbúðabyggð enda segi Hæstiréttur í dómi sínum á bls. 3 um jörðina Varmadal: "Þar er hvorki stundaður búskapur nú né líkur á að svo verði í framtíðinni".

Um varakröfu og þrautavarakröfu þykja varnaraðilar ekki rétt að fara mörgum orðum. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að heimila einum erfingjanna að fá jörðina útlagða alla eða hálfa í sinn hlut hljóti allir erfingjarnir að eiga þann rétt og yrði því að varpa hlutkesti milli þeirra allra.

Þrautavarakröfu sóknaraðila sé mótmælt. Rétt sé að benda á að sóknaraðili hafi gert kröfu til þess að jörðin yrði seld á uppboði með bréfi dags. 08.02.1999, en með bréfi dags. 23.02.1999 frá lögmanni erfingjans Haraldar Jónssonar hafi hann fallið frá þeirri kröfu sinni að fram fari nauðungarsala á jörðinni Varmadal. Sóknaraðili hafi því fallið frá þessari kröfu sinni, þ.e. að jörðin verði seld. Eðlilegt og nauðsynlegt sé, að skipti fari fram í dánarbúinu samkvæmt fyrirliggjandi úthlutunargerð skiptastjóra. Öllum eignum búsins, að undanskilinni jörðinni, sé unnt að skipta hreint og afmarkað milli erfingja. Jörðinni verði ekki skipt milli þeirra nema þau eigi hana að jöfnu í óskiptri sameign. Sóknaraðila sé síðan í lófa lagið, og reyndar hverjum erfingja fyrir sig að krefjast uppboðs á jörðinni til skipta á sameign ef þeir vilji ekki eiga jörðina saman eða geti ekki náð samkomulagi um sölu jarðarinnar að hluta eða að öllu leyti.

Skipti á jörðinni í samræmi við tillögur skiptastjóra rýri því ekki hlut neins erfingja né komi í veg fyrir að þeir geti selt eignarhluta sinn og losnað úr sameigninni óski þeir þess. Fullyrðingum sóknaraðila í niðurlagi greinargerðar hans um að niðurstöður í úthlutunargerð skiptastjóra séu ekki skipti á eignum búsins er mótmælt..

Varðandi málskostnaðarkröfu varnaraðila sé lögð rík áhersla á að fá málskostnað tildæmdan úr hendi sóknaraðila í máli þessu. Það sé rökstutt með því, að sóknaraðili hafi með óbilgjörnum kröfum komið í veg fyrir skipti í dánarbúi foreldra sinna í tæp þrjú ár, en faðirinn hafi látist 11. september 1996. Sóknaraðili hafi allan þennan tíma staðið í vegi fyrir því, að sættir tækjust með aðilum um sanngjörn og eðlileg skipti á eignum búsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þar að lútandi af hendi skiptastjóra og með samþykki varnaraðila. Sóknaraðili hafi tapað máli í Hæstarétti fyrir um það bil einu ári um óðalsrétt sér til handa. Samt geri hann ennþá kröfu til þess, með nýrri málshöfðun, að fá í sinn hlut alla jörðina Varmadal, megineign búsins, sem augljóslega myndi skerða stórlega réttindi allra samerfingja hans. Verði aðalkrafa varnaraðila tekin til greina beri að dæma sóknaraðila til að greiða fullan málskostnað.

Varnaraðilar kveðast vísa um skiptin til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. sérstaklega 36. gr. svo og annarra greina eftir því sem við á svo og til erfðalaga nr. 8/1962. Um málskostnað vísa varnaraðilar til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála XXI. kafla sérstaklega 130.gr. og 131. gr.

 

IV

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. getur hver erfingi um sig krafist þess að fá útlagðar eignir búsins eftir matsverði til greiðslu arfs, enda hafi sá látni ekki ráðstafað eignunum sérstaklega með erfðaskrá. Samkvæmt ákvæði þessu er réttur erfingja til útlagningar einstakra eigna búsins, annarra en maka, takmarkaður við arfshluta þeirra í búinu. Jörðin Varmidalur í Kjalarneshreppi er megineign dánarbús Jóns Jónssonar og sóknaraðili er einn af fjórum erfingjum búsins. Kröfur sóknaraðila um útlagningu jarðarinnar eru því langt umfram arfshluta hans. Þá má líta til þess að samkvæmt staðfestu aðalskipulagi fyrir Kjalarneshrepp 1990-2010 er gert ráð fyrir íbúðarbyggð á hluta af landi Varmadals. Verður því ekki um það að ræða að jörðin verði nýtt til venjulegs landbúnaðar í framtíðinni. Að því leyti til hefur eignin ekki sérstakt gildi fyrir sóknaraðila umfram aðra erfingja búsins, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Ber því að hafna aðal-og varakröfu sóknaraðila um útlagningu jarðarinnar Varmadals í Kjalarneshreppi.

Á skiptafundi í dánarbúi Jóns Jónssonar hinn 15. júní 1999 fór fram atkvæðagreiðsla um frumvarp að úthlutunargerð í búinu dags. 17. maí 1999. Var það samþykkt með þremur atkvæðum varnaraðila gegn atkvæði sóknaraðila. Af hálfu sóknaraðila var þess óskað að frumvarpið í heild yrði lagt fyrir héraðsdóm til úrlausnar samkvæmt ákvæðum 79. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Fyrir dóminum hefur sóknaraðili krafist þess að frumvarpið verði fellt úr gildi en ekki sett fram kröfur um einstakar breytingar á því. Með því að hafnað hefur verið kröfum sóknaraðila um útlagningu jarðarinnar Varmadals samkvæmt framansögðu og sóknaraðili hefur ekki sett fram aðrar kröfur um breytingu á frumvarpinu ber að líta svo á að forsendur þess standi óhaggaðar. Telst það því samþykkt og ber að leggja það til grundarvallar við skipti á dánarbúi Jóns Jónssonar, svo sem varnaraðilar gera kröfu til, sbr. 3. mgr. 79. gr. laga nr. 20/1991. Ber skiptastjóra að ljúka búskiptum í samræmi við það.

Eftir þessum úrslitum málsins ber sóknaraðila að greiða varnaraðilum málskostnað, sem ákvarðast 120.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Úrskurðinn kveður upp Eggert Óskarsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Hafnað er aðal-og varakröfu sóknaraðila um útlagningu jarðarinnar Varmadals í Kjalarneshreppi við skipti á dánarbúi Jóns Jónssonar. Frumvarp að úthlutunargerð dags. 17. maí 1999 skal lagt til grundvallar við skipti búsins og ber skiptastjóra að ljúka búskiptum í samræmi við það.

Sóknaraðili, Haraldur Jónsson, greiði varnaraðilum, Valdemar Jónssyni, Hjördísi Jónsdóttur og Jóni Sverri Jónssyni, 120.000 kr. í málskostnað.