Hæstiréttur íslands
Mál nr. 237/2012
Lykilorð
- Verksamningur
- Samruni réttar og skyldu
- Skuldajöfnuður
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 6. desember 2012. |
|
Nr. 237/2012.
|
Míla ehf. (Andri Árnason hrl.) gegn Djúptækni ehf. (Jóhann Pétursson hrl.) |
Verksamningur. Samruni réttar og skyldu. Skuldajöfnuður. Aðfinnslur.
D ehf. tók að sér samkvæmt verksamningi að leggja ljósleiðara fyrir M ehf. við V. Við framkvæmd verksins var legu ljósleiðarans breytt frá því sem upphaflega var áætlað og varð við það tjón á streng í eigu G. Í málinu krafðist D ehf. greiðslu úr hendi M ehf. vegna viðgerðar á strengnum. Krafðist M ehf. sýknu og taldi D ehf. bera skaðabótaábyrgð á tjóninu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar litið væri til þess hverjar skyldur hvíldu á M ehf. til upplýsingagjafar gagnvart D ehf. samkvæmt verksamningnum og það haft í huga að starfsmaður M ehf. var eftirlitsmaður með verkinu og fylgdist með framgangi þess, þótti M ehf. ekki hafa hnekkt þeirri staðhæfingu D ehf. að ákvörðun um skurðstæði og eftirfarandi breytingu á því hafi alfarið verið á áhættu M ehf. Ábyrgð á tjóni því er varð á streng G yrði því ekki lögð á D ehf. Af þessu leiddi að M ehf. var ekki talinn hafa sýnt fram á að D ehf. væri orðinn skuldari þeirrar kröfu sem félagið öðlaðist á hendur M ehf. vegna viðgerðar á strengnum og að krafa D ehf. væri af þeirri ástæðu fallin niður fyrir samruna réttar og skyldu. Þá hafi M ehf. heldur ekki sýnt fram á að félagið ætti kröfu sem komið gæti til skuldajafnaðar á móti greiðslukröfu D ehf. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um greiðsluskyldu M ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 8. febrúar 2012. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 21. mars 2012 og var því áfrýjað öðru sinni 12. apríl sama ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Ágreiningur í máli þessu snýst í aðalatriðum um tvennt. Í fyrsta lagi hvort áfrýjandi hafi með verkbeiðni þeirri til stefnda 8. október 2010, sem um getur í hinum áfrýjaða dómi, bakað sér greiðsluskyldu gagnvart stefnda vegna kostnaðar hins síðarnefnda af því að gera við ljósleiðarastreng í eigu Gagnaveitu Reykjavíkur. Í öðru lagi hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem varð á strengnum skömmu eftir að vinna undirverktaka hófst við verk það, er stefndi sem verktaki tók að sér að framkvæma fyrir áfrýjanda sem verkkaupa með samningi 17. september 2010 og fólst í lagningu nýs sæstrengs frá eldri streng sem liggur vestan Elliðaeyjar og í land á Heimaey í Vestmannaeyjum.
Málið höfðar stefndi á hendur áfrýjanda til heimtu skuldar samkvæmt reikningi fyrir viðgerðina en áfrýjandi krefst sýknu. Sú krafa er í fyrsta lagi studd þeim rökum að áfrýjandi sé ekki réttur aðili að málinu. Ef stefndi teljist á hinn bóginn eiga kröfu á hendur áfrýjanda vegna viðgerðar á streng Gagnaveitu Reykjavíkur, telur áfrýjandi í öðru lagi að stefndi sé í reynd orðinn skuldari þeirrar sömu kröfu, og þar sem réttur og skylda hafi færst á sömu hendi sé krafa stefnda fallin niður fyrir samruna réttar og skyldu. Í þriðja lagi telur áfrýjandi sig eiga gagnkröfu til skuldajafnaðar á móti kröfu stefnda um greiðslu kostnaðar vegna viðgerðarinnar. Stefndi hafnar því á hinn bóginn að hann beri skaðabótaábyrgð á tjóni því er varð á streng Gagnaveitunnar, en af því leiði að hvorki hafi réttur og skylda færst á sömu hendi né stofnast gagnkrafa sem áfrýjandi geti skuldajafnað á móti greiðslukröfu stefnda. Ekki er annað fram komið en að stefndi hafi borið allan kostnað af framkvæmd viðgerðar á umræddum streng í eigu Gagnaveitu Reykjavíkur. Málsaðilar deila ekki um fjárhæðir.
II
Í verksamningi aðila 17. september 2010 eru skyldur þeirra nánar afmarkaðar og greindar í einstaka verkþætti og áfanga. Frumskylda stefnda fólst samkvæmt 1. gr. í því að „leggja sæstreng frá eldri sæstreng sem liggur vestan Elliðaeyjar og í land á Heimaey.“ Strenginn skyldi „taka í land á milli nýju vatnslagnarinnar og kletts sem skagar í sjó fram á móti Ystakletti (aðeins vestan við Klettsnef) og ganga á frá sæstreng í brunni sem sýndur er á teikningu Mílu nr. 1A. Vestan Elliðaeyjar velur verktaki tengistað fyrir nýjan sæstreng við eldri streng þar sem eldri strengur er óskemmdur. Verktaki velur einnig lagnaleið fyrir sæstreng í samræmi við það sem hann hefur lagt til meðfram nýju vatnslögninni og fært hefur verið inn á teikningar Mílu.“ Þriðji áfangi verksins fólst í því ganga frá streng í landtöku. Skyldi verktaki grafa „1 m djúpan skurð í landi frá brunni og að fjöru og í gegnum fjöru og niður að sandbotni. Skurðdýpt í fjöru verður meiri en 1 m og ræðst af aðstæðum í fjörukambi og hversu grafan nær langt út. Notuð verður öflug grafa. Skurður næst sandbotni verður þó grunnur þar sem hann verður handgrafinn með járnkalli og handverkfærum.“ Í 6. gr. samningsins kom fram að verktaki skyldi ekki leggja fram tryggingar vegna verksins en hann skyldi hafa gildar ábyrgðartryggingar vegna skemmda sem hann kynni að valda þriðja manni. Þá ábyrgðist verktaki að lagfæra ágalla á verki í samræmi við ÍST30 sem gilti um verksamninginn eftir því sem við ætti.
Helsta skylda áfrýjanda samkvæmt verksamningnum fólst í greiðslu verklauna, en að auki skyldi hann samkvæmt 1. gr. leggja til sæstreng á trékefli og annast tengingu á ljósleiðarastrengjum. Þá skyldi stefndi og útvega „staðsetningu á legu ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur þar sem verktaki á að grafa fyrir sæstreng í landi.“ Einnig segir að áfrýjandi leggi „verktaka til kort sem sýnir fyrirhugaða legu nýja ljósleiðarans ásamt þeim lögnum sem fyrir eru á svæðinu ásamt ætlaðri legu nýrra rafstrengja og hnitaskrá yfir allar nefndar lagnir í lengd og breidd þar sem síðustu mín er skipt í þúsund parta. Ekki eru til upplýsingar um legu ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur frá stórstraumsfjöruborði upp á land í Heimaey. Verkkaupi mun aðstoða verktaka við að finna út hvar ljósleiðarastrengur Gagnaveitunnar liggur um fyrirhugað athafnasvæði á landi.“ Í aðfararorðum verksamningsins kemur fram að áfrýjandi hefði nafngreindan umsjónarmann með verkinu, stjórnandi verktaka væri Kjartan Jakob Hauksson og að starfmaður áfrýjanda væri eftirlitsmaður með verkframkvæmdinni.
III
Í héraðsdómi kemur fram og er óumdeilt að áfrýjandi lagði ekki fyrir stefnda gögn um legu strengs Gagnaveitu Reykjavíkur í samræmi við ákvæði verksamningsins en ákvað að starfsmaður sinn skyldi sóna út leguna á strengnum og merkja hana inn frá landtaki. Strengurinn var þó ekki sónaður alla leið, heldur einungis svo langt sem hægt var að gera á fjöru. Endanleg staðsetning á landtöku nýja ljósleiðarans var ekki ákveðin fyrr en um það leyti sem framkvæmdin hófst og í kjölfar þess að strengur Gagnaveitunnar var sónaður, en upphafleg tillaga um legu og landtöku nýja ljósleiðarans hafði verið byggð á áætlun frá stefnda. Eins og fram kemur í héraðsdómi fékk stefndi undirverktaka til þess að grafa í svokallaðri Skansfjöru fyrir landtöku ljósleiðarans og hófst sú framkvæmd 7. október 2010. Stuttu eftir að framkvæmdin hófst slitnaði strengur Gagnaveitunnar þótt grafið hafi verið 10 metrum norðan við áætlaða legu hans og varð mönnum þá ljóst að sá strengur tæki krappa beygju til hægri eða austurs strax eftir síðustu hnitamælingu samkvæmt fyrrgreindri sónun.
Aðdraganda þess að ákveðið var að grafa fyrir landtöku ljósleiðarans þar sem gert var lýsti Jón Viðar Björnsson, eftirlitsmaður áfrýjanda með framkvæmdinni, svo fyrir dómi, aðspurður um hver hefði tekið ákvörðun um skurðstæðið: „Það var ákveðið ... þarna í fjörunni ... við vorum búnir að leggja til eða sem sagt upprunalega planið var öðruvísi. Ég kom með tillögu þarna að smávægilegum breytingum á því því plani og Kjartan kemur svo með tillögu að enn breyttara plani og það er í raun og veru það sem að við héldum okkur síðan við“. Spurður um hið sama fyrir dómi svaraði Kjartan Jakob Hauksson, eigandi stefnda, því svo til: „Við gerum það í sameiningu Jón Viðar, starfsmaður Mílu eða verkeftirlitsmaður Mílu á staðnum. Við ráðum bara ráðum okkar með það að setja nýjan streng eða nýjan skurð austur af streng Gagnaveitunnar sem var í notkun.“ Aðspurður um hvort endanleg ákvörðun um skurðstæði og lagnaleiðina hafi verið í höndum stefnda sagði Kjartan: „Nei, það er ekki rétt. Ég ... er búinn að leggja alla sæstrengi hér við land síðustu 20 ár og ég hef aldrei tekið upp á mitt einsdæmi hvar ég legg sæstrengi eða hvar ég hef landtöku. Það geri ég aldrei. Það er alltaf verkkaupi. Ef að verkeftirlitsmaðurinn myndi segja mér að leggja hann annars staðar þá myndi ég aldrei ganga á móti því ... Við ræðum saman, Jón Viðar ... og ég, þegar búið er að sóna inn strenginn og meta það hvaða lagnir eru á svæðinu, að þá metum við það að svæðið austur af streng Gagnaveitunnar er eina svæðið sem vissa var fyrir að enginn strengur átti að vera. En í hina áttina var ný vatnsleiðsla þannig að ... það var tekin ákvörðun um að hafa það að austanverðu. En endanleg ákvörðun er ekki mín hvar ég legg lagnir. Það hefur aldrei verið þannig.“
IV
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á með stefnda að honum hafi verið rétt að líta svo á að í verkbeiðni áfrýjanda 8. október 2010 hafi jafnframt falist yfirlýsing hins síðarnefnda um greiðslu fyrir verkið. Með beiðninni og eftirfarandi framkvæmd verksins stofnaðist því, stefnda til handa, gild fjárkrafa á hendur áfrýjanda og verður hann því ekki sýknaður af kröfu stefnda vegna aðildarskorts. Í málinu er sem fyrr segir ekki deilt um fjárhæðir. Kemur þá til úrlausnar hvort aðrar þær málsástæður sem varnir áfrýjanda eru reistar á geti leitt til þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnda.
Sú meginregla gildir um verksamninga að verktaki ber skaðabótaábyrgð á tjóni sem þriðji maður kann að verða fyrir við framkvæmd verks. Frá reglunni eru ákveðnar undantekningar sem leitt geta til ábyrgðar verkkaupa þegar tengsl hans við verkið eru með þeim hætti að eðlilegra er að leggja á hann fremur en verktaka ábyrgð gagnvart þriðja manni. Meginreglunnar sér meðal annars stað í grein 22.6 í ÍST30:2003, Almennum útboðs- og samningsskilmálum um verkframkvæmdir, en þeir skilmálar gilda um verksamning áfrýjanda og stefnda eftir því sem við á, sbr. 7. gr. hans. Í tilvitnaðri grein ÍST30 segir: „Verktaki beri einn skaðabótaábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kann að verða fyrir við framkvæmd verksins nema tjónið hafi hlotist af mistökum eða vanrækslu verkkaupa sjálfs eða manna úr starfsliði hans. Ábyrgðin nær einnig til undirverktaka og leigutækja.“
Eins og áður greinir hvíldi sú skylda á áfrýjanda samkvæmt verksamningnum 17. september 2010 að útvega stefnda upplýsingar um staðsetningu á legu strengs Gagnaveitu Reykjavíkur, þar sem stefndi átti að grafa fyrir staðsetningu hins nýja ljósleiðara í landi. Jafnframt skyldi áfrýjandi leggja fyrir stefnda kort sem sýndi fyrirhugaða legu nýja ljósleiðarans ásamt þeim lögnum sem fyrir væru á svæðinu, eins og nánar er rakið hér að framan, og aðstoða verktaka við að finna út hvar strengur Gagnaveitu Reykjavíkur lægi. Af þessu varð ekki af ástæðum sem nánar koma fram í hinum áfrýjaða dómi, en þess í stað var lega strengs Gagnaveitunnar sónuð svo langt sem náði þurrum fótum. Í framhaldinu var skurðstæðinu breytt, gröftur hófst og tjón varð. Þegar litið er til þess hverjar skyldur hvíldu samkvæmt framansögðu á áfrýjanda til að veita stefnda upplýsingar á grundvelli verksamningsins og það haft í huga að starfsmaður áfrýjanda var eftirlitsmaður með verkinu og fylgdist með framgangi þess, þykir áfrýjandi ekki hafa hnekkt þeirri staðhæfingu stefnda, að ákvörðun um skurðstæðið og eftirfarandi breytingu á því hafi verið á áhættu áfrýjanda eins. Ábyrgð á tjóni því er varð á streng Gagnaveitu Reykjavíkur umrætt sinn verður því ekki lögð á stefnda. Af þessu leiðir að áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að stefndi sé orðinn skuldari þeirrar kröfu, sem hann öðlaðist á hendur áfrýjanda vegna viðgerðar á strengnum, og að krafa stefnda sé af þeirri ástæðu fallin niður fyrir samruna réttar og skyldu. Þá hefur áfrýjandi heldur ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu sem komið getur til skuldajafnaðar á móti greiðslukröfu stefnda.
Samkvæmt framansögðu er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms. Eftir þeim málsúrslitum ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir reifaðir eins og þeir horfa við frá sjónarhóli stefnda eins. Þessi háttur á samningu dóms er í andstöðu við d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þar segir að í dómi skuli greina stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því. Er þetta aðfinnsluvert.
Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Míla ehf., greiða stefnda, Djúptækni ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. september sl., er höfðað með stefnu birtri 25. janúar 2011.
Stefnandi er Djúptækni ehf., Hólmatúni 55, Álftanesi.
Stefndi er Míla ehf., Stórhöfða 22-30, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 19.295.625 krónur, með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, frá 23. desember 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Stefndi krefst málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
MÁLSATVIK
Stefnandi lýsir málsatvikum svo að með verksamningi aðila, dags. 17. september 2010, hafi stefnandi tekið að sér sem verktaki að leggja sæstreng sem liggur vestan Elliðaeyjar og í land á Heimaey. Þegar vinna við verkið hafi hafist hafi verið vitað af ljósleiðarastreng í eigu Gagnaveitu Reykjavíkur á svæðinu án þess þó að nákvæm lega hans lægi fyrir.
Í 1. gr. verksamnings aðila hafi sú skylda verið lögð á stefnda að afla gagna um nákvæma staðsetningu strengs Gagnaveitu Reykjavíkur. Stefndi hafi ekki útvegað fullnægjandi gögn um legu strengs Gagnaveitu Reykjavíkur en ákveðið að starfsmaður á vegum stefnda myndi sóna út leguna á strengnum og merkja hana inn frá landtaki. Í tölvupósti, dags. 12. október 2010, komi fram hjá Jóni Viðari Björnssyni, verkefnastjóra stefnda, að stefndi hafi falast eftir upplýsingum frá Gagnaveitunni um legu strengsins en ekki fengið þær upplýsingar og því hafi sú ákvörðun verið tekin að sóna legu strengsins. Í bréfi lögmanns Gagnaveitunnar, dags. 19. nóvember 2010, komi fram að starfsmanni stefnda hafi, með tölvupósti hinn 10. september 2010, verið sendar upplýsingar um staðsetningarhnit strengsins. Stefndi hafi engu að síður tekið þá ákvörðun að sóna strenginn frá landi en þó ekki sónað hann allan, eins og mögulegt hafi verið. Verkefnastjóri stefnda hafi séð um sónunina og verið til ráðgjafar um ákvörðun skurðstæðis og samþykkt skurðleiðina sem yfirmaður á verkstað.
Í kjölfar ákvörðunar skurðstæðis hafi stefnandi fengið Vélamiðstöðina til þess að grafa í svokallaðri Skansfjöru fyrir landtöku ljósleiðarastrengsins og hafi hún hafist handa hinn 7. október 2010, en stuttu eftir að vinna hafi hafist við að grafa út í sjó hafi strengur Gagnaveitunnar slitnað þrátt fyrir að grafið hafi verið um 10 metrum norðan við áætlaða legu strengsins samkvæmt fyrrgreindri sónun verkefnastjóra stefnda. Hafi mönnum þá orðið ljóst að strengurinn tæki krappa beygju til hægri eða austurs strax eftir síðustu hnitmælingu. Stefnandi hafi þá strax sent niður fjarstýrðan kafbát til að kanna aðstæður en ljóst hafi verið af þeirri könnun að um talsvert tjón hafi verið að ræða og hafi hann þá um leið sett kafara til vinnu við að ná upp slaka á strengnum. Stefnandi og stefndi hafi í kjölfarið hafið viðræður vegna hugsanlegrar viðgerðar á strengnum og með tölvupósti dags. 8. október 2010 hafi Jón Viðar Björnsson, verkefnastjóri stefnda, beðið stefnanda um að hefja vinnu við viðgerð á strengnum en í póstinum segi orðrétt:
,,Sæll
Fyrir hönd Mílu vill ég biðja þig um að hefja vinnu við viðgerð á sliti á sæstreng gagnaveitunnar í Vestmannaeyjahöfn.“
Það hafi legið fyrir á þeim tímapunkti að hagsmunir stefnda af því að gert yrði við strenginn hafi verið umtalsverðir þar sem búið hafi verið að flytja samband stefnda yfir á streng Gagnaveitunnar meðan unnið væri að lagningu strengs fyrir stefnda.
Ákveðið hafi verið að ganga hratt til verks og hafi stefndi lagt til verklag við umrædda viðgerð eins og ráða megi af tölvupósti Ólafs Sigurðssonar hjá Gagnaveitunni til Jóns Viðars Björnssonar verkefnastjóra stefnda, dags. 15. október 20100, en í umræddum tölvupósti hafi jafnframt komið fram að Gagnaveitan væri samþykk tillögunni og lýst hafi verið yfir fullu trausti á störfum stefnanda í máli þessu. Viðgerð stefnanda hafi falið í sér að strengurinn hafi verið grafinn upp, síðan dreginn undan vatnslögn sem lögð hefði verið yfir hann á þremur stöðum, tekinn í sundur, hífður um borð í lagnabát þar sem hann hafi verið hringaður niður og síðan endurlagður og endanum, ásamt nauðsynlegum slaka, komið í land nálægt brunni Gagnaveitunnar í Skansfjöru í Vestmannaeyjum.
Stefnandi hafi sent stefnda tölvupóst hinn 4. nóvember 2010 og Gagnaveitunni með beiðni um að tekið yrði á þessu máli en engin viðbrögð orðið við þeirri beiðni önnur en þau að stefndi hafi talið réttast að senda kröfuna á tryggingafélag Vélamiðstöðvarinnar. Viðbrögð við þeirri beiðni hafi verið þau að Tryggingamiðstöðin hafi hafnað bótaábyrgð Vélamiðstöðvarinnar. Vinna við lagfæringu ljósleiðarans hafi verið bæði kostnaðarsöm og tímafrek en heildarfjárhæð þeirrar vinnu sem þegar hafi verið unnin við viðgerð á strengnum sé 19.295.625 krónur með virðisauka skv. reikningi dags., 16. nóvember 2010.
Lögmaður stefnanda hafi sent stefnda bréf hinn 23. nóvember 2010, en afrit til Gagnaveitunnar, Tryggingamiðstöðvarinnar og Íslenska gámafélagsins. Í tölvupósti með bréfinu komi fram að staða stefnanda sé erfið þar sem hann hafi innt alla vinnuna af hendi með samþykki og að beiðni þeirra sem málið varði án þess þó að hafa fengið greitt fyrir hana. Með bréfi þessu, hafi stefnandi jafnframt farið fram á það við stefnda að hann, sem verkbeiðandi, greiddi stefnanda fyrir þá vinnu sem falist hafi í viðgerð á ljósleiðarastrengnum. Í bréfinu hafi jafnframt verið áskilinn réttur til þess að sækja rétt sinn fyrir dómstólum.
Í kjölfar framangreinds bréfs hafi stefnandi óskað eftir afstöðu tryggingafélags síns, TM hf., vegna mögulegrar bótaskyldu stefnanda. Afstaða TM hafi verið send með tölvupósti, dags. 10. desember 2010, þar sem framkemur að það telji að stefnandi beri ekki skaðabótaábyrgð í málinu
Stefndi hafi ekki brugðist við umræddu bréfi og kostnaður vegna vinnu við viðgerð ljósleiðarastrengsins hafi ekki enn fengist greiddur og hafi stefnanda því reynst nauðsynlegt að höfða mál þetta á hendur stefnda sem verkbeiðanda.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi kveður mál þetta höfðað til greiðslu verklauna vegna vinnu við viðgerð á ljósleiðarastreng í Vestmannaeyjum. Krafa stefnanda sé byggð á útgefnum reikningi vegna þeirrar vinnu en Jón Viðar Björnsson, verkefnastjóri hjá stefnda, hafi með tölvupósti dags. 8. október 2010 beðið stefnanda, f.h. stefnda, að gera við umræddan ljósleiðarastreng .
Ágreiningur hafi verið í málinu um það hverjum beri að greiða stefnanda fyrir umrædda vinnu. Stefnandi telji sig frá upphafi hafa unnið fyrir stefnda og ekki megi ráða annað af fyrirliggjandi gögnum en að svo hafi verið. Áður en stefnandi hafi hafið vinnuna við viðgerðina hafi hann óskað eftir verkbeiðni frá stefnanda, sem send hafi verið honum í tölvupósti hinn 8. Október, sbr. það sem að framan greinir. Stefnandi grundvalli kröfu sínu á hendur stefnda á því að stefndi hafi með skýrum hætti beðið stefnanda að taka að sér viðgerð á ljósleiðarastreng í Vestmannaeyjum.
Stefnandi bendir á að vinna við lagningu ljósleiðarastrengs fyrir stefnda hafi staðið yfir þegar óhappið varð, starfsmaður stefnda hafi sónað legu strengsins frá landi og stefndi beðið með skýrum hætti um að verkið yrði unnið. Stefnandi bendir einnig á að stefndi hafi frá upphafi tekið að sér verkstjórn verksins og verið í sambandi bæði við stefnanda og Gagnaveitu Reykjavíkur varðandi nánari tilhögun verksins, sbr. Tölvupóst, dags. 12. október 2010, þar sem starfsmaður stefnda taki það fram við starfsmann Gagnaveitunnar að stefndi hafi farið fram á það við stefnanda að hann hæfi vinnu við undirbúning að tengingu á strengnum sem slitnaði, til að lágmarka allar tafir sökum veðurs og hafstrauma.
Stefndi hafi einnig lagt fram tillögu að verklagi, sbr. Tölvupóst, dags. 15. október 2010, og þá liggi fyrir að Gagnaveitan hafi talið umrædda vinnu í höndum stefnda, sbr. tölvupóst, dags. 25. október 2010. Þessi skilningur Gagnaveitunnar sé staðfestur í bréfi lögmanns hennar, dags. 19. nóvember 2010, þar sem segi að stefndi hafi staðfest að hann myndi hafa forgang um viðgerð á ljósleiðarastrengnum, lagt fram tillögu að verklagi og viðgerðin farið fram á vegum stefnda.
Stefnandi bendir jafnframt á að það sé viðurkennd venja í viðskiptum almennt á Íslandi, og í viðskiptum þessara tilteknu aðila, að það sé verkbeiðanda að greiða fyrir þau verk sem hann fari fram á að séu unnin. Ef stefndi hafi ætlað sér að víkja frá þeirri venju hefði hann átt að gera skýrlega grein fyrir því í upphafi. Þar sem stefndi hafi ekki gert slíkan fyrirvara við greiðslu verklauna verði að telja að greiðsluskylda stefnda sé skýr. Það sé svo stefnda, eftir atvikum, að meta það hvort hann eigi hugsanlegar endurkröfur vegna málsins.
Í ljósi alls framangreinds telur stefnandi sig eiga rétt á greiðslu verklauna úr hendi stefnda sem verkbeiðanda.
Hinn 23. nóvember 2010 hafi lögmaður stefnanda sent kröfubréf og reikning vegna umræddrar viðgerðar, til stefnda, þar sem krafist hafi verið greiðslu og miðist upphaf dráttarvaxta við mánuð frá þeim degi.
Vísað sé til meginreglna samningaréttar, skaðabótaréttar og kröfuréttar, einkum meginreglna um efndir fjárskuldbindinga. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga um vexti og verðbætur nr. 38 frá 2001.
Málskostnaðarkrafa stefnanda byggi á XXI. kafla laga nr. 19/1991, sérstaklega 130. gr. laganna. Um varnarþing vísast til 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann sé ekki réttur aðili að máli þessu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, enda hafi ekki stofnast til sjálfstæðs samningssambands milli stefnanda og stefnda um viðgerð á streng Gagnaveitunnar með tölvubréfi starfsmanns stefnda til stefnanda hinn 8. október 2010 þannig að stefndi hafi með því skuldbundið sig í eigin nafni til þess að standa undir útlögðum kostnaði stefnanda við viðgerð á streng þriðja manns.
Í fyrsta lagi hafi umrætt tölvubréf eingöngu falið í sér tilmæli til stefnanda um að bæta tjón sem orðið hafi á hagsmunum þriðja manns við framkvæmd verksins, svo sem verktaka hafi borið skylda til samkvæmt 6. gr. verksamningsins, en ekki sérstaka verkbeiðni á ábyrgð stefnda svo sem stefnandi virðist ganga út frá. Þá telji stefndi að stefnanda hafi verið það ljóst frá upphafi að stefndi hygðist ekki standa undir kostnaði við viðgerð á streng Gagnaveitunnar. Megi til að mynda ráða af fyrirliggjandi tölvubréfasamskiptum að stefnandi hafði þegar hafið undirbúning að viðgerð á strengnum áður en umrætt tölvubréf var sent. Auk þess komi fram í tölvubréfi Kjartans J. Haukssonar, starfsmanns stefnanda, hinn 13. október 2010 að hann telji rétt í ljósi alvarleika málsins og beiðninnar að halda viðgerð á streng Gagnaveitunnar áfram þrátt fyrir að óvissa kynni að ríkja um það hverjum beri að greiða fyrir viðgerðina. Tilvitnuð ummæli stefnanda verði, að mati stefnda, ekki skilin öðruvísi en svo að stefnanda hafi verið kunnugt um að stefnda hafi ekki verið ætlað að standa undir kostnaði fyrir viðgerðina, en stefnandi hafi hins vegar, þrátt fyrir þá vitneskju, haldið áfram með viðgerðina. Að því virtu, og í ljósi atvika málsins að öðru leyti, þyki stefnda óhjákvæmilegt að líta svo á að stefnandi hafi unnið viðgerðina alfarið á eigin ábyrgð. Af þessum sökum telji stefndi ekki sýnt fram á að hann sé réttur aðili að greiðslukröfu stefnda og beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda í málinu þegar á þeim forsendum með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í annan stað, verði ekki fallist á framangreint, lítur stefndi svo á að með tilvísuðu tölvubréfi, hinn 8. október 2010, hafi starfsmenn hans í góðri trú, þar sem þeir hafi talið nauðsynlegt að grípa strax til lágmarksaðgerða til að afstýra frekara tjóni, í reynd tekið að sér, fyrir hönd Gagnaveitunnar að hafa milligöngu við stefnanda um að hefja lagfæringar á strengnum. Að því virtu að greiðslukrafa stefnanda í máli þessu verði rakin til athafna starfsmanna stefnda í þágu beinna hagsmuna Gagnaveitunnar, þyki af hálfu stefnda verða að líta svo á, að virtum almennum reglum um óumbeðinn erindisrekstur, að Gagnaveitan, sem eigandi strengsins og þar með þeirra hagsmuna sem í húfi voru, beri að standa undir kostnaði vegna vinnu stefnanda við lagfæringar á strengnum. Þessu til stuðnings megi einnig benda á að stefndi hafi ekki átt rétt á nokkurri þóknun fyrir erindisreksturinn auk þess sem fyrir liggi að tölvubréfið hafi verið sent stefnanda af hálfu starfsmanna stefnda með vitneskju og í samráði við Ólaf Sigurðsson, starfsmann Gagnaveitunnar, svo sem komi fram í tölvupósti Ingimars Ólafssonar, starfsmanns stefnda, til Ólafs Sigurðssonar hjá Gagnaveitunni hinn 12. október 2010. Í ljósi þessa telji stefndi að stefnandi hafi með réttu átt að beina greiðslukröfu sinni, verði tilvist kröfunnar viðurkennd, vegna viðgerðar á streng Gagnaveitunnar, að eiganda hagsmuna þeirra sem hafi verið að gæta. Beri að sýkna stefnda þegar af þeim ástæðum af kröfum stefnanda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi mótmælir enn fremur öllum fullyrðingum stefnanda, um tilvist viðurkenndrar venju í viðskiptum almennt á Íslandi og viðskiptum þessara aðila, sem ósönnuðum, svo og því að stefndi hafi tekið að sér verkstjórn við viðgerð strengsins, hann hafi lagt fram tillögu að verklagi við lagfæringu á strengnum og að stefndi hafi tekið að sér að hafa forgöngu um viðgerð á strengnum. Stefndi hafi aldrei lýst því yfir, hvorki gagnvart tjónþola né stefnanda, að hann hygðist bæta Gagnaveitunni það tjón sem félagið kynni að hafa orðið fyrir við vinnu stefnanda við verkframkvæmdina né að stefndi myndi standa undir kostnaði við nauðsynlegar lagfæringar á strengnum vegna tjónsins. Í tölvupósti Ingimars Ólafssonar, starfsmanns stefnda, til Ólafs Sigurðssonar, starfsmanns stefnda, dags. 12. október 2010, hafi stefndi eingöngu staðfest við Gagnaveituna að hinn 8. október hefði félagið farið þess á leit við stefnanda að hann færi „að vinna að því [að] finna streng Gagnaveitu Reykjavíkur sem hafði slitnað á fimmtudagsmorgun þann 7. okt. við landtökustað við Vestmannaeyjar og koma honum í land svo hægt [væri] að tengja hann. Þetta var gert í samráði við Ólaf Sigurðsson hjá Gagnaveitu Reykjavíkur“. Þá hafi sú tillaga að verklagi, sem kynnt hafi verið Gagnaveitunni og stefnandi vísi til, alfarið byggt á tillögu stefnanda um verklag við lagfæringar á strengnum. Að teknu tilliti til þess að stefndi beri ekki bótaábyrgð á umræddu tjóni, sbr. umfjöllun hér síðar, og að virtum atvikum málsins að öðru leyti, hefði að minnsta kosti þurft að liggja fyrir skýr og afdráttarlaus yfirlýsing stefnda þess efnis.
Í öðru lagi, verði ekki fallist á framangreindar málsástæður heldur litið svo á að til sjálfstæðs samningssambands hafi stofnast milli stefnanda og stefnda um viðgerð á streng Gagnaveitunnar, byggir stefndi á því að sýkna beri hann á grundvelli þess að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir samruna réttar og skyldu. Stefnandi beri í reynd skaðabótaábyrgð á því tjóni sem orðið hafi á streng Gagnaveitunnar hinn 7. október 2010 við lagningu sæstrengs stefnda samkvæmt verksamningi aðila. Stefndi vísar í því sambandi til 6. gr. verksamnings aðila, þar sem komi fram að verktaki skuli hafa gildar ábyrgðartryggingar vegna skemmda sem hann valdi þriðja aðila við framkvæmd verks, svo og ÍST 30, gr. 22.6., þar sem komi fram sú meginregla að verktaki beri einn skaðabótaábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kunni að verða fyrir við framkvæmd verksins nema tjónið hafi hlotist af mistökum eða vanrækslu verkkaupa sjálfs eða manna úr starfsliði hans. Ábyrgð verktaka samkvæmt ÍST 30, gr. 22.6. nái einnig til undirverktaka hans.
Að mati stefnda séu skilyrði skaðabótaábyrgðar stefnanda fyrir hendi. Óumdeilt sé að tjón hafi orðið á hagsmunum þriðja manns, Gagnaveitunnar, við skurðgröft undirverktaka stefnanda í landgrunni Vestmannaeyja. Þá sé ljóst að tjónið hafi átt sér stað í verkþætti sem stefnandi hafi borið ábyrgð á samkvæmt verksamningnum, en tjónið hafi átt sér stað við skurðgröft samkvæmt lagnaleið sem stefnandi hefði ákvarðað. Að mati stefnda hafi það engin áhrif á ábyrgð stefnanda að þessu leyti að undirverktaki stefnanda hafi framkvæmt sjálfan skurðgröftinn, sbr. ÍST 30, gr. 22.6. að framan. Þá hafi það heldur ekki áhrif á ábyrgð stefnda á framkvæmd verksins að eftirlitsmaður stefnda hafi verið á staðnum og samþykkt breytta lagnaleið stefnanda. Vísar stefndi í því sambandi til ÍST 30, gr. 17.9, en þar segi nánar tiltekið: „[v]erktaki skal í öllu vinna verk sitt á eigin ábyrgð, hvort sem verkkaupi kýs að hafa eftirlit á vinnustað eða ekki. Ef verktaki er í vafa um einstök atriði verksins skal hann leita úrskurðar umsjónarmanns. Samþykki verkkaupa eða umsjónarmanns á staðsetningu, efni, vinnuaðferðum eða vinnu leysir verktaka ekki undan ábyrgð þeirri sem á honum hvílir.“
Stefndi telur jafnframt að beita verði strangari skaðabótaábyrgð en ella við mat á bótaábyrgð stefnanda á tjóninu, enda hafi stefnandi verið fenginn til að taka að sér framkvæmd verksins sem sjálfstæður verktaki og sérfræðingur á því sviði sem framkvæmdin tók til. Í þessu sambandi þyki rétt að taka fram að stefnandi auglýsi sig sem eina fyrirtækið hér á landi sem sérhæfi sig í alhliða þjónustu við lagningu sæstrengja. Stefnandi verði einnig að teljast vel kunnugur staðháttum á framkvæmdasvæðinu enda ljóst að hann hafi staðsett legu allra sæstrengja á svæðinu, að undanskildum sæstreng Gagnaveitunnar, ekki löngu áður en framkvæmdirnar hafi hafist. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi lagt sæstreng Gagnaveitunnar upphaflega, svo sem hann hafi sjálfur bent á, auk þess sem stefnandi hafi unnið við lagfæringar á streng Gagnaveitunnar í landgrunni frá þeim tíma, að því er stefndi viti best. Að því virtu verði, að mati stefnda, að ganga út frá því að stefnandi hafi vitað, eða að minnsta kosti mátt vita, hvernig strengur Gagnaveitunnar hafi legið í gegnum athafnasvæðið.
Þegar stefnandi hafi ákveðið að rétt væri að breyta legu strengs stefnda miðað við fyrirliggjandi teikningar hafi hann haft undir höndum teikningu Verkís og teikningu frá stefnda, sem sýnt hafi legu strengs Gagnaveitunnar frá stórstraumsfjöruborði og á sjó út. Hún hafi byggst á hnitaskrá sem stefndi hafi fengið afhenta frá Gagnaveitunni hinn 10. september 2010. Stefnandi hafi sjálfur gefið til kynna að fyrirliggjandi gögn sem stefndi hafi afhent honum hafi aðeins innihaldið upplýsingar sem hann hafi þegar haft undir höndum, svo og „sónaða“ og innmælda legu strengsins frá stórstraumsfjöruborði og á land í Heimaey, en ljóst er að tjónið átt sér stað þegar komið var út sjó, þ.e. utan hins „sónaða“ svæðis. Að öllu þessu virtu, og í ljósi sérfræðiþekkingar stefnanda, sbr. að framan, verði að mati stefnda að líta svo á að stefnandi hafi þekkt, eða mátt þekkja, til þrautar þær hættur sem það gat haft í för með sér að breyta legu strengsins með þeim hætti sem gert hafi verið.
Þá telur stefndi ekki sýnt fram á að tjónið megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans, sbr. ÍST 30, gr. 22.6. Stefndi telur það ekki koma að sök þótt stefnandi hafi ekki fengið afhenta sjálfa hnitaskrána sem stefndi hafi fengið frá Gagnaveitunni um legu strengsins frá stórstraumsfjöruborði og út á sjó, sbr. að framan, enda hafi þau gögn ekki veitt betri upplýsingar um raunverulega legu strengsins en þau gögn og upplýsingar sem stefnandi hafi þegar haft undir höndum og hann hafi mátt hafa vitneskju um í ljósi þess að hann hafi lagt streng Gagnaveitunnar upphaflega. Þá líti stefndi svo á að stefnanda hefði borið, sem sérfræðingi við framkvæmd verksins, hefði hann litið svo á að fyrirliggjandi gögn veittu ófullnægjandi upplýsingar um legu strengs Gagnaveitunnar og nægðu ekki til að taka ákvörðun um legu strengsins, að óska eftir frekari gögnum eða afla frekari upplýsinga sjálfur áður en hann hóf framkvæmdir við verkið. Virðist stefnandi þannig ekki hafa sýnt fram á að hann hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir áður en verkframkvæmdir hófust til þess að komast hjá tjóni, sbr. til hliðsjónar 5. mgr. 71. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Verði stefnandi, sem sérfræðingur á þessu sviði, alfarið að bera hallann af því sjálfur.
Af hálfu stefnda þyki því ljóst að stefnandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni Gagnaveitunnar, sbr. að framan. Að því virtu að stefnandi hafi í reynd framkvæmt viðgerð á streng Gagnaveitunnar með samþykki tjónþola, verði, að mati stefnda, að líta svo á að kröfuréttarsambandið í máli þessu sé með þeim hætti að stefnandi hafi, með því að leggja út fyrir kostnaði sem tjónvaldi hafi með réttu borið að standa undir, öðlast endurkröfu á hendur þeim sem skaðabótaábyrgð hafi borið á tjóni Gagnaveitunnar. Að því virtu að stefnandi beri jafnframt skaðabótaábyrgð á tjóninu verði að mati stefnda að líta svo á að krafa stefnanda sé í reynd fallin niður fyrir samruna réttar og skyldu. Að mati stefnda beri þegar af þeim ástæðum að sýkna hann af kröfum stefnanda í máli þessu.
Af hálfu stefnda er jafnframt byggt á því, verði ekki fallist á framangreindar málsástæður hans, heldur litið svo á að gild greiðslukrafa hafi stofnast á hendur stefnda vegna umrædds tölvubréf hinn 8. október 2010, að höfð sé uppi gagnkrafa til skuldajafnaðar að því marki sem krafa stefnanda verði viðurkennd.
Stefndi lítur svo á að með því að hann verði látinn standa undir kostnaði við viðgerð á streng Gagnaveitunnar, hafi hann samhliða öðlast endurgreiðslukröfu á hendur þeim sem skaðabótaábyrgð beri á tjóni Gagnaveitunnar. Að mati stefnda séu skilyrði skaðabótaábyrgðar stefnanda á tjóni Gagnaveitunnar fyrir hendi, sbr. umfjöllun hér að framan. Að því virtu verði að líta svo á að stefndi hafi öðlast endurkröfu á hendur stefnanda samkvæmt þessu. Þá telur stefndi ljóst að öll skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi í málinu.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda um sýknu krefst stefndi þess til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega. Stefndi reisir varakröfu sína á sömu málsástæðum og sjónarmiðum og aðalkröfu. Af hálfu stefnda sé fjárhæð greiðslukröfu stefnanda enn fremur mótmælt, en stefndi telur fjárhæð reikninga stefnanda vera langt umfram það sem geti talist eðlilegt og sanngjarnt fyrir þá vinnu og kostnað sem lagt hafi verið út í við viðgerð á streng Gagnaveitunnar.
Stefndi byggir á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, almennum reglum kröfuréttar og meginreglum skaðabótaréttar. Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Fram kemur í málinu að strengur stefnda, Mílu ehf., var farinn að skemmast á kafla og var stefnandi að leggja nýjan streng fyrir stefnda frá Heimaey að Elliðaey þar sem hann átti að tengjast þeim gamla. Þá liggur strengur frá Gagnaveitu milli lands og Eyja. Þessi strengur slitnaði og varð þá sambandslaust við Eyjar þar sem gagnaflutningar um streng stefnda höfðu verið færðir yfir á streng Gagnaveitunnar.
Vitnið Jón Viðar Björnsson sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að aðdragandi þess að hann sendi tölvupóst til stefnanda hinn 8. október 2010, þar sem hann bað um það fyrir hönd stefnda að stefndi hæfi viðgerð á sliti á sæstreng Gagnaveitunnar í Vestmannaeyjahöfn, hafi verið sá að forsvarsmaður stefnanda hafi lagt áherslu á að fá einhvers konar beiðni um að hefja þessa vinnu. Vitnið hefði haft samband við Ólaf Sigurðsson hjá Gagnaveitunni en nokkuð ljóst hafi verið að þeir hafi lítinn sem engan áhuga haft á að blanda sér í málið. Það hafi verið efst í huga manna að koma viðgerð á strengnum í gang sem fyrst. Verklag hjá stefnda sé að koma strengjum í samband sem fyrst, undir slíkum kringumstæðum sem þarna ríktu. Vitnið kvað það rétt að forsvarsmaður stefnanda hafi ekki viljað hefja vinnu án þess að fá þessa verkbeiðni.
Eins og aðstæður voru í umrætt sinn mátti forsvarsmaður stefnanda ætla að í fyrrnefndum tölvupósti frá verkefnastjóra stefnda fælist beiðni um að hann framkvæmdi umbeðið verk sem skilja verður sem svo að stefndi greiddi jafnframt fyrir verkið. Verður á það fallist með stefnanda að samningur hafi komist á með aðilum máls þessa um að stefnandi tæki að sér umbeðið verk og að stefndi greiddi fyrir það.
Stefndi hefur uppi kröfu um sýknu vegna aðildarskorts en með því að það er niðurstaða dómsins að samningur hafi komist á með aðilum er þeirri málsástæðu hans hafnað. Þá verður ekki fallist á að sýkna beri vegna þess að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir samruna réttar og skyldu en grundvöllur málssóknar stefnanda er sá að komist hafi á samningssamband með aðilum þess efnis að stefnandi gerði við margnefndan sæstreng. Fallist er á það með stefnanda að gild greiðslukrafa hafi stofnast á hendur stefnda. Þá þykja atvik er strengur Gagnaveitunnar slitnaði ekki liggja það skýrt fyrir hér að afstaða verði tekin til þess hvort einhver, og þá hver, beri skaðabótaábyrgð á því að svo fór. Verður því ekki frekar fjallað um kröfu stefnda um skuldajöfnuð hér.
Stefnandi byggir fjárhæð kröfu sinnar á reikningi, dagsettum 16. nóvember 2010, að fjárhæð 15.375.000 krónur, að viðbættum virðisaukaskatti að fjárhæð 3.920.625 krónur, eða samtals 19.295.625 krónur. Ekki hefur verið sýnt fram á að reikningur þessi sé úr hófi hár og verður á honum byggt um fjárhæð kröfu stefnanda.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Míla ehf., greiði stefnanda 19.295.625 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 23. desember 2010 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.