Hæstiréttur íslands

Mál nr. 258/2008


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Sakhæfi
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 5. febrúar 2009.

Nr. 258/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Björn L. Bergsson hrl.

 Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.

 Ása Ólafsdóttir hrl. réttargæslumaður)

 

Kynferðisbrot. Börn. Sakhæfi. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stjúpbarnabarni sínu og annarri stúlku, sbr. 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þótti framburður stúlknanna trúverðugur en framburður X ekki. Var X sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Við ákvörðun refsingar hans var litið til þess að brot hans voru trúnaðarbrot og beindust að stúlkum sem honum var beint eða óbeint treyst fyrir þegar þær voru litlar. Þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá þótti X með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til stúlknanna sem ákveðnar voru 500.000 og 900.000 krónur.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða A 1.000.000 krónur og B 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. júní 2003 til 29. júlí 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og dæmdar bætur lækkaðar.

Samkvæmt beiðni ákærða voru geðlæknarnir dr. Páll Matthíasson og Nanna Briem dómkvödd 12. september 2008 sem yfirmatsmenn til að meta geðheilbrigði ákærða. Matsgerð þeirra frá 28. nóvember 2008 hefur verið lögð fyrir Hæstarétt. Í niðurstöðum hennar kemur fram að yfirmatsmenn sjái engin merki geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands hjá ákærða, sem gæti hafa gert hann ófæran um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma er hann framdi brot sín, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sjá yfirmatsmenn ekki neitt það samkvæmt 16. gr. sömu laga sem komið gæti í veg fyrir að refsing beri árangur. Yfirmatsmenn taka fram að líklegt megi telja að ákærði geti verið hættulegur börnum, sérstaklega ókynþroska stúlkum, en barnagirnd sé almennt ekki álitin „vel meðhöndlanlegt ástand“.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákvæði hans um refsingu ákærða staðfest. Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um bætur handa A, en þegar litið er til þeirra erfiðleika, sem B hefur eftir gögnum málsins átt við að stríða og að hluta til verða raktir til brots ákærða, eru bætur til hennar hæfilega ákveðnar 900.000 krónur. Ákvörðun héraðsdóms um upphafstíma almennra vaxta og dráttarvaxta af þessum bótum verður staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða, X, greiðslu úr hendi hans til A og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði B 900.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. desember 2003 til 29. júlí 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.222.465 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. mars sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 21. desember 2007 á hendur X, kt. [...],[...], Reykjavík, fyrir kynferðisbrot framin í Reykjavík sem hér greinir:

1.  Gegn stjúpbarnabarni sínu, A, fæddri árið 1989, með því að hafa, á heimili hennar að [...], í eitt sinn á árunum 1999-2003, káfað á brjóstum hennar og bringu innanklæða.

Þetta er talið varða við 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992 og 10. gr. laga nr. 61/2007 og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003, og 11. gr. laga nr. 61/2007.

2.  Gegn B, fæddri árið 1982, með því að hafa, á heimili sínu að [...], í eitt skipti árið 1994 er stúlkan var 11 ára, káfað á baki hennar, brjóstum og maga innanklæða, nuddað geirvörtur hennar og kynfæri                innanklæða, farið með fingur upp í leggöng hennar og sett tungu sína í munn hennar.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa.

Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaða­bóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. desember 2000 til 1 júlí 2001 en frá þeim degi með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til 29. júlí 2007 en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Af hálfu B, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 1.200.000 auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. október 1994 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til 29. júlí 2007 en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

1. tl. ákæru.

Föstudaginn 11. maí 2007 mætti á lögreglustöð C, móðir A, og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur hennar. Greindi C frá því að A hafi farið á kristilegt skólamót í [...] páskana 2007, en skólamótið hafi verið haldið á vegum þjóðkirkjunnar. Fimmtudaginn 12. apríl 2007 hafi sr. D kallað A og móður hennar á sinn fund og greint C frá því að A hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu X, ákærða í máli þessu, þegar stúlkan hafi verið 11 eða 12 ára gömul. Á fundinum hafi komið fram að A hafi trúað D fyrir þessu á skólamótinu í [...]. Á fundinum með D og C hafi A lýst því að ákærði hafi káfað á henni í sjónvarpsholi uppi á efri hæð að [...] í Reykjavík. Hafi hún munað eftir þegar ákærði hafi byrjað á þessu en eftir það muna atburði óljóst þar til hún hafi verið inni í hjónaherbergi við glugga til að eiga þann möguleika að kalla á hjálp ef ákærði áreitti hana frekar. Ekki kvaðst C hafa fengið frekari upplýsingar um atvikið hjá dóttur sinni. Hafi A tjáð móður sinni að hún hafi ætlað að segja móður sinni frá atvikinu á sínum tíma. Á sama tíma hafi frænka hennar, B, tjáð foreldrum sínum að ákærði hafi einnig káfað á henni. Þegar það hafi verið borið undir ákærða og eiginkonu hans, E, hafi ákærði harðneitað ásökununum og E staðið með sínum manni. Það hafi orðið til þess að A hafi ákveðið að segja ekki frá atvikinu. Kvaðst C hafa farið á heimili móður sinnar E og ákærða vegna þessa atviks þar sem hún hafi borið ásakanirnar upp á ákærða. Hafi ákærði svarað því til að ef hann hafi gert einhverjum eitthvað bæðist hann fyrirgefningar á því. Er C hafi borið upp á ákærða að hann hafi einnig brotið gegn henni sjálfri er C hafi verið ung hafi ákærði ekkert tjáð sig um það, en móðir C vísað henni burt.  

Ákærði kvaðst hafa umgengist A talsvert er A hafi verið krakki, en hún væri dóttir stjúpdóttur ákærða. Er A hafi verið 11 eða 12 ára gömul hafi hann snert öxl hennar. Atburðurinn hafi átt sér stað í svokölluðu sjónvarpsholi að [...] í Reykjavík, en hún hafi setið í sófa fyrir framan sjónvarpið en  ákærði í stól. Hafi hann ætlað að taka í öxl hennar í kveðjuskyni og staðið upp í þeim tilgangi. Hafi hún þá snúið sér snöggt við og hann farið með hendi niður á brjóst hennar. Hún hafi verið í fleginni skyrtu. Hafi ákærði snert hana undir fötin. Ekki kvaðst ákærði muna hvort hann hafi snert á henni brjóstin sjálf. Kvaðst ákærði hafa hrokkið við og farið út úr húsinu. Ákærði kvaðst ekki hafa snert [...] í kynferðislegum tilgangi. Hafi hann snert stúlkuna fyrir slysni. Stúlkan hafi verið ein heima er þetta hafi verið og ákærði sennilega að bíða eftir að móðir hennar kæmi heim. Ákærði kvað samband sitt við A hafa orðið stirt eftir þessa atburði. Hafi verið skiljanlegt að hún hafi tekið þessu illa. Hafi honum fundist sem hún yrði óttaslegin er atburðirnir hafi gerst. Er ákærði gaf skýrslu vegna málsins hjá lögreglu kvaðst hann hafa leitað sér læknisaðstoðar á Landspítalanum vegna málsins en hann ætti það til að káfa á fullorðnum konum og hefði hann í sumum tilfellum ekki stjórn á því. Hafi hann í framhaldi farið í sálfræðiviðtöl.  

A kvaðst hafa verið ein heima hjá sér á laugardegi að [...] í Reykjavík er hún hafi verið 10 til 12 ára gömul. Atburðurinn hafi gerst einhvern tíma frá í júní 2000 til haustsins 2002. Ákærði, stjúpafi A, hafi komið heim til hennar og hún hleypt honum inn í húsið. Eftir það hafi hún farið upp að horfa á sjónvarpið. Hafi ákærði komið upp tröppurnar og sest þétt við hlið hennar í hornsófa fyrir framan sjónvarpið. Hafi hann byrjað á því að kyssa á koll A. Hafi hann farið með hægri hendi yfir öxl A og niður og káfað innanklæða á hliðinni á báðum brjóstum hennar á milli brjóstanna. Hafi A verið klædd í náttbuxur og hlýrabol með flegnu hálsmáli. Kvaðst A telja að hún hafi nánast strax náð að fara í burtu og inn í hjónaherbergið og sest þar út í stóran glugga. Hafi ákærði við svo búið yfirgefið heimilið. Móðir hennar hafi komið heim um klukkustundu síðar. A kvað sér hafa liðið mjög illa eftir þessa atburði. Hafi hún orðið reið þar sem henni hafi fundist sem hún hafi átt að geta treyst ákærða. A kvaðst hafa sagt bestu vinkonu sinni, F, frá atvikinu en það hafi verið á árinu 2007. Hafi það verið á föstudeginum langa. F hafi náð í bróður sinn, D prest, og hafi D því næst verið sagt frá þessu. Á þessum tíma hafi þau verið stödd á skólamóti í [...]. A kvaðst ekki hafa sagt frá atvikinu á sínum tíma þar sem amma A, E, hafi brugðist mjög illa við er önnur stúlka hafi borið á ákærða svipaðar sakir. Á þeim tíma hafi móðir hennar sagt við A að hún skyldi gæta sín á ákærða þar sem hún hafi sjálf orðið fyrir einhverju af hálfu ákærða þegar hún hafi verið yngri. A kvað mál þetta allt hafa haft áhrif á sig. Hafi hún eftir atburðinn alltaf verið hrædd og þá aðallega við karlmenn. Kvaðst hún enn þann dag í dag finna fyrir slíkri hræðslu.   

C kvaðst í æsku hafa orðið fyrir kynferðisbrotum af hálfu stjúpföður síns. Þá kvaðst hún vita til þess að fleiri stúlkur hafi einnig orðið fyrir kynferðisbrotum af hans hálfu. Af þessum sökum hafi hún reynt að sjá til þess að dóttir hennar, A, væri aldrei í þeirri stöðu að vera ein með ákærða. C kvaðst á árinu 2007 hafa verið boðuð á fund í kirkju til að hitta D prest. Á þeim fundi hafi D tjáð C að dóttir hennar hafi fengið taugaáfall á skólamóti í [...]. Hafi þá komið fram að ákærði hafi káfað á A er A hafi verið yngri. Í viðræðum við A hafi lítið komið fram um atburðinn annað en að hann hafi átt að hafa átt sér stað í sjónvarpsholi á heimili C. C kvað A hafa tjáð sér að hún hafi reynt að segja móður sinni frá atvikinu á sínum tíma en alltaf gugnað. C kvaðst minnast þess að hafa heyrt af máli B en ákærði hafi verið grunaður um að hafa brotið gegn stúlkunni. Allt hafi orðið vitlaust á þeim tíma og fjölskyldumeðlimir skipst í tvær fylkingar. Þá hafi verið ákveðið að gera ekkert frekar í málinu. C kvaðst eftir á að hyggja telja að dóttir hennar hafi á einhverjum tíma í námunda við brotið hafa farið að hanga meira utan í móður sinni. Þá hafi dóttir hennar breyst eftir að málið hafi komið upp en hún vilji ekki ræða það neitt. Ætti hún erfitt. 

D kvað skólamót fyrir ungmenni á aldrinum 15 til 20 ára hafa verið haldið í [...] yfir páskana 2007. Hafi hann verið umsjónar- og ábyrgðarmaður á mótinu ásamt fleira fólki. Í dagskrá mótsins á föstudagskvöldi hafi verið svokallaður vitnisburður. Þá væri krökkum gefinn kostur á að segja frá erfiðleikum og lýsa því hvernig trú hafi hjálpað þeim. Eftir fundinn hafi hann tekið eftir að A hafi verið miður sín. Einhverju síðar hafi hann verið beðinn um að ræða við A. Hafi hún þá verið hágrátandi. Er hann hafi innt hana eftir hvað væri að hafi hún tjáð honum að hún hafi verið misnotuð kynferðislega af ,,afa sínum“. Fram hafi komið að hún hafi ekki gert neinum grein fyrir þessu. Næsta dag hafi þau orðið sammála um að hann myndi aðstoða A með því að segja móður hennar frá þessu. Hafi það verið gert.

G kvað þær A vera systrabörn.  Kvaðst hún sjálf hafa orðið fyrir kynferðisbrotum af hálfu ákærða er hún hafi verið ung. Af þeim sökum hafi hún alla tíð forðast heimili ákærða að [...] í Reykjavík. Ekki hafi hún á þeim tíma þorað að segja neinum frá  atvikunum. Eftir páska 2007 hafi hún frétt af því að A hafi orðið fyrir kynferðisbrotum af hálfu ákærða þegar hún hafi verið yngri. Hafi það orðið til þess að G hafi gert móður sinni grein fyrir þeim brotum er G hafi orðið fyrir. Í framhaldi hafi hún farið til ömmu sinnar E. Amma hennar hafi brugðist illa við þar sem hún hafi vitað erindi G. Hafi hún vísað henni á dyr. Hafi móðir G tjáð G að hún hafi sjálf orðið fyrir kynferðislegu áreiti af hálfu ákærða í æsku. 

Margrét K. Magnúsdóttir sálfræðingur staðfesti vottorð vegna A frá 11. janúar 2008. Margrét kvað mest hafa slegið sig varðandi A hvernig fas og framkoma stúlkunnar hafi verið. Hún hafi verið alvarleg, leið og döpur. Hafi hún fundið fyrir áhugaleysi gagnvart lífinu sem hún hafi tengt því atviki er til umfjöllunar væri. Við það hafi stúlkunni fundist sem hún missti trú og traust gagnvart fólki. Hafi hún aldrei reynt að fegra sjálfa sig í viðtölunum. 

Niðurstaða:

Ákærði hefur lýst því að hann hafi eitt sinn er A var ung og ein heima komið á heimilið og síðan ætlað að kveðja stúlkuna og í þeim tilgangi stutt hönd á öxl hennar. Í því hafi hún skyndilega snúið sér við og hendi hans þá runnið niður á brjóst stúlkunnar. Hafi það verið fyrir slysni. A hefur lýst atvikum með þeim hætti að hún hafi verið ein heima á laugardegi er ákærði hafi knúið dyra. Eftir að hafa hleypt honum inn hafi hún farið upp á efri hæð hússins til að horfa á sjónvarp. Ákærði hafi komið á eftir A og sest við hlið hennar í sjónvarpssófa á efri hæð. Hafi hann sett hægri hendi yfir öxl hennar og stungið hendinni niður á milli brjósta hennar. Hafi hann komið við bæði brjóst hennar.    

Ekkert vitni var að þessum atburði. A lýsir atvikum þannig að ekki getur hafa verið um óhapp að ræða, heldur hafi ásetningur ákærða staðið til þess að káfa á brjóstum hennar innanklæða. Það sem styður framburð A er sú staða í fyrsta lagi að framburður ákærða þykir ótrúverðugur og ekki fá staðist sú atburðarás er ákærði lýsir um að hann hafi farið með hendi inn undir nærbol og niður á brjóst stúlkunnar við það eitt að hún hafi skyndilega snúið sér við. Í öðru lagi hefur ákærði viðurkennt að samskipti hans við stúlkuna hafi öll breyst við atburðinn og eftir það orðið stirð. Ef um raunverulegt óhapp var að ræða gat það að mati dómsins vart leitt til slíkra afleiðinga. Loks þykir vottorð sálfræðings styðja það að stúlkan hafi við atburðinn lent í lífsreynslu sem valdið hafi henni skaða og haft áhrif á persónuleika hennar. Þegar þessi atriði eru virt er það niðurstaða dómsins að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar niðurstöðu, en framburður hennar þykir trúverðugur. Telur dómurinn með því sannað að ákærði hafi káfað innanklæða á brjóstum og bringu A. Við aðalmeðferð málsins gat A afmarkað betur í tíma hvenær atburðurinn átti sér stað og telur að það hafi verið frá í júní 2000 til haustsins 2002. Verður það lagt til grundvallar niðurstöðu en þá var stúlkan á aldursbilinu 10 til 12 ára. Verður ákærði samkvæmt þessu sakfelldur samkvæmt ákæru. Eru brotin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.   

2. tl. ákæru.

Fimmtudaginn 31. maí 2007 mætti B á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Við það tilefni var tekin skýrsla af B þar sem hún greindi frá þeim atvikum að er hún hafi verið 11 eða 12 ára hafi hún verið í heimsókn á heimili ákærða og ömmusystur hennar að [...] í Reykjavík. Í sófa í stofu hafi ákærði káfað á baki, brjótum og maga hennar innanklæða, auk þess að hafa nuddað geirvörtur hennar og kynfæri innanklæða. Þá hafi hann farið með fingur upp í leggöng hennar og sett tungu sína í munn hennar. Lýsti hún við þetta tækifæri nánar einstökum atriðum tengdum atburðinum.

Ákærði kvaðst einungis hafa séð B í eitt sinn en það hafi verið er hún hafi komið heim til ákærða ásamt sonardóttur ákærða, H. Hafi þær komið á heimili ákærða til að fá sér að borða. Á heimili ákærða hafi þær dvalið í 1 til 2 klukkustundir. Eiginkona ákærða, E, hafi verið heima á þessum tíma. Ekki kvaðst ákærði hafa snert stúlkuna kynferðislega. Ákærði kvaðst hafa legið hálf sofandi í sófa í stofu eftir næturvakt. Hafi stúlkurnar sest í sófann fyrir framan ákærða. Ákærði kvaðst hafa leitað til geðlæknis en hann hafi verið orðinn þunglyndur. Kvað hann aðra fjölskyldumeðlimi hafa borið ákærða sökum um kynferðisbrot. Ætti ákærði það til að klappa fólki og væri ekkert kynferðislegt fólgið í því. Ekki kvaðst ákærði hafa kynferðislega tilhneigingu gagnvart börnum eða unglingum né hafa svokallaða barnagirnd.

B kvaðst hafa verið send í pössun að [...] í Reykjavík er hún hafi verið 11 ára gömul, en atburðurinn hafi verið í apríl 1994. Atburðinn tengi B við það að hann hafi átt sér stað fyrir fermingu systur hennar. Um hafi verið að ræða svokallaða pabbahelgi. Með B hafi verið frænka hennar H, en þær hafi báðar komið á heimilið með feðrum sínum. Á heimilinu hafi verið ákærði og E, sem B hafi hitt margoft áður. Eftir að hafa farið nokkuð um húsið hafi hún og H sest niður í stofu þar sem þær hafi ætlað að horfa á sjónvarpið. Hafi þær sest niður í gamlan sófa. Um leið hafi þær verið að leika sér að dúkkum. Ákærði hafi þá lagst niður fyrir aftan þær í sófanum. Hafi hann farið að hæla þeim og segja að þær væru sætar afastelpur. Síðan hafi hann byrjað að strjúka á þeim bakið. Í kjölfarið hafi hann farið inn undir peysuna hjá B og farið að strjúka henni um bakið, en hún hafi einungis verið í háskólabol en ekki nærbol. Þá hafi hún verið í svokölluðum leggings­buxum. Hafi B verið litið yfir á H, sem litið hafi niður við það. Hafi hann hætt að strjúka H og farið að strjúka B um hægra brjóst, geirvörtur og maga. Hafi hún ,,frosið“ við það og ekkert hreyft sig. Síðan hafi hann farið með hendi ofan í nærbuxur B og ýtt fótum hennar í sundur. Þá hafi hann strokið kynfæri B og sett fingur inn í leggöng. Hafi hann nokkrum sinnum skipst á að strjúka kynfærin og setja fingur í leggöng. Hafi ákærði talað til B allan tímann og sagt að þetta ætti að vera leyndarmál þeirra. Þá hafi H skyndilega rokið upp og sagt að þær skyldu fara á klósettið og um leið tekið í hendi B. Ákærði hafi þá kippt að sér hendinni og staðið upp. Hafi hann spurt þær hvort þær ætluðu ekki að kyssa afa sinn bless og í því beygt sig niður, gripið um háls B og troðið tungu sinni upp í munn hennar. B hafi elt frænku sína inn á bað þar sem hún hafi læst hurðinni. Hafi B snúið sér að H og spurt af hverju ákærði hafi gert þetta og hafi hún sagt að þetta væri ,,bara afi“ og að B skyldi bíta saman tönnunum en það væri það sem H gerði alltaf. Faðir B hafi komið um hálfri klukkustundu síðar. Eftir að þau hafi verið komin út í bifreið hafi hún tjáð föður sínum hvað ákærði hafi gert. Einu viðbrögð sem B hafi fengið við það hafi verið að faðir hennar hafi sagt ,,oj gerði hann það“. Um viku síðar hafi verið orðnar slíkar hegðunarbreytingar hjá B að móðir hennar hafi gengið á hana með hvað væri að. Hafi B þá brotnað saman. Fjölskyldan hafi ,,sprungið í loft upp“ við þetta en fjölskyldan hafi skipst í tvennt vegna málsins. Fjölskylda ákærða hafi haldið fund um málið og tekið þá ákvörðun að halda því fram að málið væri allt uppspuni og B og móður hennar hótað ef málinu yrði haldið til streitu. B hafi lagst í þunglyndi og fengið miklar geðsveiflur. Hafi hún m.a. verið send á barna- og unglingageðdeild. Henni hafi fundist skilaboðin vera þau að líkami hennar væri fyrir gamla menn að nota. Síðar meir hafi hún leiðst út í vændi o.fl. Hafi henni verið nauðgað er hún var 17 ára. B kvaðst hafa ákveðið að kæra ákærða nú fyrir verknaðinn þegar hún hafi frétt að önnur stúlka hafi tekið sig til og kært ákærða fyrir atvik sem nokkuð væri um liðið síðan hafi átt sér stað. 

H kvaðst hafa búið á heimili ákærða að [...] fram að 9 ára aldri en eftir það komið oft á heimili hans og ömmu hennar. Eitt sinn hafi hún ásamt B komið á heimili ákærða. Ekki myndi hún hvort feður þeirra hafi verið með í för. Þær hafi þá sennilega verið um 12 ára að aldri. Ekki myndi hún hvað þær hafi verið að gera áður en þær hafi farið á [...]. Þá myndi hún ekki nákvæmlega hve lengi þær hafi staldrað við á [...]. Myndi hún að þær hafi eitthvað verið í eldhúsi og á klósettinu. Ekki gæti hún munað hvort þær tvær hafi setið í sófa í stofu og ekki vilja útiloka það. Kvaðst hún muna að B hafi spurt H hvort ákærði hafi einhverju sinni snert H. Einhverju síðar hafi faðir H sagt að ákærði hafi gert B eitthvað. Á þeim tíma hafi slitnað upp úr vinskap föður H og föður B, en þeir hafi verið góðir vinir fram að því. Kvaðst H hafa talið sig vera að verja ömmu sína síðar er gengið hafi verið á H með þessi atriði. Ákærði hafi snert brjóst H og káfað á hálsi hennar. Þannig hafi hlutirnir gengið frá því H myndi eftir sér. Hafi H fundist sem B hafi upplifað það sama á [...] umrætt sinn.

I kvaðst muna eftir því að B hafi á árinu 1994 farið í heimsókn að [...] ásamt dóttur J, H. Á þeim tíma hafi I og J verið góðir vinir. Einhverju síðar hafi I sótt dóttur sína á [...] og hún sagt honum á leiðinni heim að henni fyndist ákærði vera skrýtinn karl. Hafi hún sagt að ákærði hafi reynt að setja tungu upp í munn hennar. Þá hafi hún sagt að H hafi tjáð henni að hægt væri að verjast þessu með því að bíta tönnunum saman. Þá kvaðst I telja að B hafi einnig sagt að ákærði hafi káfað á henni. Hafi I orðið reiður við þessa frásögn. Hafi hann greint móður B frá þessu og móðirin viljað leggja fram kæru. Einnig hafi hann hringt í J. Hafi J verið mjög brugðið en beðið um að ekki yrði lögð fram kæra á hendur ákærða þar sem móðir J væri veik. Hafi I orðið við þessu og ekki lagt fram kæru á hendur ákærða. Eftir þetta hafi slitnað upp úr vinskap I og J. 

K kvað dóttur sína, B, hafa tjáð sér að ákærði hafi gert henni eitthvað í heimsókn að [...] er B hafi verið 11 ára. Ekki hafi K vitað fyrr en síðar hve alvarlegir atburðirnir hafi verið. Á þessum tíma hafi B verið hjá föður sínum. Mikið hafi verið í gangi þá og B verið erfið. Hafi það orðið til þess að K hafi gengið á hana með hvað hafi gerst. Hafi B þá sagt að ákærði hafi gert eitthvað ljótt og með puttunum. Ekki hafi K viljað ganga frekar á B með hvað hafi gerst. K hafi hins vegar hringt í kunningjakonu sína og spurt hana ráða. Hafi kunningjakonan rætt við B í framhaldinu. B hafi fullyrt að hún hafi tjáð föður sínum frá atvikinu á leiðinni heim og að hún hafi sagt honum að ákærði hafi farið með putta inn í kynfæri hennar. Jafnframt að H hafi verið á staðnum sem hafi farið með B inn á klósett. Hafi K rætt málið við I og viljað leggja fram kæru. Hafi enginn í fjölskyldu ákærða viljað taka á málinu. K kvað dóttur sína hafa verið miður sín er hún hafi sagt frá atvikinu. Hafi dóttirin aldrei orðið söm eftir þetta. Hafi hún orðið mjög reiðigjörn, þunglynd og leitað í mat. Fyrir þetta atvik hafi stúlkan hins vegar alltaf verið meira og minna brosandi. Hafi hún farið með dóttur sína á Barna- og unglingageðdeild þar sem stúlkan hafi farið í viðtal. Það hafi verið mjög erfitt að ná til hennar. Samskipti á milli B og systkina hennar hafi orðið mjög slæm og upplausn orðið á heimilinu. Hafi K upplifað það þannig að dóttir hennar hafi fengið mikið ógeð á sjálfri sér.

J kvaðst hafa verið vinur föður B, I. Einhverju sinni hafi B og H verið í pössun hjá foreldrum J að [...]. Hafi þær verið þar í 2 eða 3 klukkustundir. I hafi síðan komið og sótt dóttur sína. Það sama kvöld hafi I hringt og verið mikið niðri fyrir. Hafi hann sagt að ákærði hafi þuklað á B. Hafi J brugðið mjög við þetta og sagt að þetta gæti ekki verið. Hafi hann jafnframt beðið I um að fara ekki lengra með málið þar sem J vildi ræða málið við fjölskylduna. Þetta sama kvöld hafi J rætt við móður sína. Í framhaldi hafi móðir J rifist eitthvað við H, sem hafi sagt að hún myndi ekki hvað hafi gerst á þeim tíma sem hún hafi verið í pössun. Hafi H sennilega valið þann kostinn að segjast ekkert muna. J kvaðst í dag sannfærður um að þær sakir er B bæri á ákærða ættu við rök að styðjast. Allt hafi gengið út á að hlífa móður J. Hafi ákærði einnig brotið gegn fleiri stúlkum. J kvaðst ekki vera í neinu sambandi við föður sinn í dag, en hann hafi slitið á öll tengsl við hann fyrir um ári síðan.

L kvaðst muna eftir umræðu um að B hafi átt að hafa orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Kvaðst L aldrei hafa hitt B og því ekkert þekkja stúlkuna. Kvaðst L muna að B hafi borið sakir á ákærða, sem hún hafi síðar dregið til baka. Móðir L hafi orðið mjög reið er þessi mál hafi komið upp og verið rædd. Hafi hún fyrst frétt af máli A er kæra í því máli hafi verið lögð fram. L kvaðst vera í 8 systkina hópi. Væru tvö þau yngstu börn ákærða en ekki hin sex. Samskipti innan fjölskyldunnar væru ekki góð. Allir nema L og bróðir hennar sem byggi í [...] hafi snúið baki við ákærða. Ákærði væri orðin mjög ,,tættur“ í dag. Myndi hann atburði orðið mjög lítið. Þá væri móðir L, sem væri 77 ára í dag, þannig að hún ,,ruglaði mikið“. Gæti hún ekki verið ein. Ákærði sæi mikið um húshald á heimili hans og konu hans. Væri móðirin búin að vera sjúklingur í mörg ár.

Tómas Zoëga geðlæknir staðfesti geðrannsókn á ákærða frá 26. september 2007 og fyrir liggur í gögnum málsins. Gerði hann grein fyrir einstökum atriðum í geðrann­sókninni. Kvaðst Tómas hafa rætt við ákærða einu sinni. Þá hafi hann metið geðhagi ákærða einnig út frá öðrum gögnum er hann hafi haft aðgang að. Niðurstaða Tómasar hafi verið að ákærði hefði tilhneigingu til að leita á ungar stúlkur. Hafi hann greint ákærða með svokallaða barnagirnd. Væri hún fólgin í því að fullorðinn einstaklingur leitaði á börn fyrir kynþroska í kynferðislegum tilburðum. Hafi ákærði verið ófús að ræða þessi mál. Væri ekki ástæða til að efast um sakhæfi ákærða. Ákærði hafi flokkast undir einstakling með laka sjálfsmynd og aðstæðubundna kyn­hneigð.

Anna Kristín Newton sálfræðingur staðfesti vottorð um hagi ákærða frá 1. júní 2007. Anna kvað aðdraganda þess að ákærði hafi komið til sín hafa verið að hann hafi farið til geðlæknis sem hafi beint honum til Önnu Kristínar. Hafi ákærði komið í tengslum við mál er til meðferðar hafi verið á hendur honum hjá lögreglu. Hafi honum  verið ætlað að koma vegna óæskilegrar kynferðislegrar hegðunar. Hafi hann verið illa staddur, þunglyndur, með kvíða og sjálfsvígshugsanir. Hafi hún tekið hann í sjö viðtöl. Hafi hann ekki neitað kynferðislegri hegðun gagnvart brotaþolum en borið við minnis­leysi. Hafi hann gert grein fyrir óeðlilegri kynhegðun. Í frásögn ákærða hafi komið fram að hann hafi orðið fyrir höfuðhöggi sem barn sem leitt hafi til þess að hann hafi lamast öðrum megin á líkama. Væri ákærði illa staddur félagslega og hafi hann átt veika eiginkonu er hann hafi þurft að annast. 

Ína Marteinsdóttir geðlæknir staðfesti læknisvottorð á dskj. nr. 7. Kvaðst hún hafa annast B, en B hafi komið í viðtöl til Ínu 1. júní og 22. júní 2007. Ástæða þess að B hafi komið í viðtöl hafi verið að móðir stúlkunnar hafi haft áhyggjur af dóttur sinni. Hafi dóttirin viljað leggja fram kæru í þessu máli en liðið mjög illa. Hafi hún lýsti því að hún hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni við 10 ára aldur. Hafi hún þá setið í stofu með vinkonu sinni er afi vinkonunnar hafi þuklað á kynfærum stúlkunnar. Hafi vinkonan ekki brugðist við. Væri B mjög döpur stúlka og með mikinn kvíða. Fram hafi komið að stúlkan hafi verið áberandi átakamikil sem ung stúlka. Reki hún hörmungasögu sína til þessa atviks með ákærða. Þá hafi B lýst kynferðisbroti er hún hafi orðið fyrir 17 ára gömul á [...]. Erfitt væri að meta áhrif þess brots, en það væri viss tilhneiging til staðar að ef einstaklingur yrði fyrir misnotkun einhverju sinni þá myndi hann lenda í öðru slíku tilviki síðar.

Guðný Anna Arnþórsdóttir geðhjúkrunarfræðingur kvað B hafa leitað til sín í tvígang á árinu 2004. Guðný Anna hafi fengið mikið af fólki í meðferð til sín á þessum tíma. B hafi verið með sturlunareinkenni í kjölfar fæðingar barns. Hún hafi glímt við erfiðan uppvöxt þar sem hafi verið félagsvandi og afbrot í föðurfjölskyldu. Kvaðst Guðný muna eftir umræðu um kynferðislega mis­notkun. Guðný hafi vísað B áfram, til sálfræðings og læknis í lyfja­meðferð.

Niðurstaða: 

Ákærði kveðst muna eftir tilviki þar sem B og H hafi komið á heimili ákærða og eiginkonu hans. Hafi stúlkurnar þá verið ungar að árum. Ákærði hafi hins vegar ekki framið kynferðisbrot gagnvart B. B hefur lýst þessu tilviki þannig að hún og H hafi setið í sófa í stofu er ákærði hafi lagst fyrir aftan þær tvær. Hafi hann tekið til við að strjúka á þeim bakið. Í framhaldi hafi hann strokið bak B innanklæða, maga og því næst hægra brjóst og geirvörtu. Eftir það hafi hann farið með hendi ofan í nærbuxur hennar, strokið henni um kynfærin og farið með fingur upp í leggöng hennar. Er B hafi staðið á fætur hafi hann sett tungu sína í munn hennar.

Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að B greinir frá atviki sem tengist raunverulegum atburðum. Bera hún og H um tilvik þar sem þær hafi farið ungar á heimili ákærða. Sækir framburður B einnig stoð í framburð föður hennar og föður H, sem báðir bera um þetta tilvik. Þá hefur faðir B staðfest þann framburð stúlkunnar að hún hafi greint sér frá tilvikinu á leið frá heimili ákærða. Móðir B hefur greint frá því að þetta atvik hafi borist til hennar vitundar nokkru eftir atburðinn er hún hafi gengið á dóttur sína vegna hegðunar­breytinga. Einnig liggur fyrir að mál þetta var rætt innan fjölskyldu ákærða á sínum tíma þar sem B bar ákærða sökum um kynferðisbrot. Þá bar H að B hafi í heimsókninni spurt hana að því hvort ákærði hafi einhvern tíma snert hana. Öll þessi umgjörð styrkir mjög það að B sé að bera sann­leik­anum samkvæmt, en stúlkan var trúverðug í framburði sínum fyrir dóminum. Þá ber vitnisburður Ínu Marteinsdóttur geðlæknis vitni um að stúlkan hafi upplifað atburði á þessum tíma sem valdið hafi henni mikilli vanlíðan. Þegar gögn þessi eru virt í heild sinni þykir dóminum rétt að leggja stöðugan framburð B til grundvallar niðurstöðu málsins. Með því er sannað að ákærði hafi framið það brot sem lýst er í þessum hluta ákæru. Er brotið rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.   

Ákærði er fæddur í [...] 1934. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot svo kunnugt sé. Brot ákærða eru alvarleg, en hann hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart tveim ungum stúlkum. Eru brotin trúnaðarbrot, en þau hafa beinst að stúlkum er honum var beint og óbeint treyst fyrir þegar þær voru litlar. Með hliðsjón af þessu og með vísan til 1. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár. Með hliðsjón af gildi refsinga í brotum sem þessum og eðli brotanna þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu ákærða að nein leyti þó svo hann sé nú 73 ára að aldri.

Réttargæslumaður hefur krafist skaðabóta fyrir hönd brotaþolanna. Krafa A hefur verið rökstudd þannig að atvikið hafi haft í för með sér miklar og afdrifaríkar afleiðingar. Brotið hafi átt sér stað þegar stúlkan hafi verið barn að aldri og í fjölskyldutengslum við ákærða. Stúlkan hafi skýrt svo frá að atvikið hafi leitt til margvíslegra erfiðleika í lífi hennar, en hún hafi m.a. vantreyst karlmönnum og átt í erfiðleikum með að mynda heilbrigð og eðlileg tengsl við karlmenn. Brotið hafi haft í för með sér neikvæð áhrif á geðheilsu og félagslega aðlögun stúlkunnar og dregið úr sjálfstrausti hennar. Hafi hún reynt að gleyma atburðinum en þrátt fyrir það rifjist hann reglulega upp og valdi henni óróleika og kvíða. Í skýrslu Margrétar K. Magnúsdóttur sálfræðings kemur fram að viðtöl og sjálfsmatskvarði leiði í ljós margvísleg einkenni sem oft megi sjá hjá þolendum kynferðisbrota, eins og þunglyndi og kvíða, einbeitingarerfiðleika, áhugaleysi og lágt sjálfsmat. Ætla megi að hið ætlaða kynferðisbrot hafi valdið A töluverðum skaða og hafi haft veruleg áhrif á persónuleika hennar, félagsmótun og lífssýn. Með vísan til alvarleika háttsemi ákærða var brot hans til þess fallið að valda A miska. Með vísan til þess er hér að framan greinir eru bætur til hennar hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir. Er í því efni miðað við að brotið hafi verið framið í síðasta lagi haustið 2002.

Krafa B hefur verið rökstudd með þeim hætti að atvikið hafi haft miklar og afdrifaríkar afleiðingar í för með sér. Það hafi átt sér stað þegar stúlkan hafi verið barn að aldri og á meðan faðir stúlkunnar hafi falið ákærða umsjá hennar. Atburðurinn hafi jafnframt sótt á stúlkuna og truflað líf hennar með ýmsum hætti. Sjálf hafi hún skýrt svo frá að margvíslega erfiðleika í lífi hennar, m.a. neyslu vímuefna og þunglyndi sé að rekja til atviksins. Þá hafi atvikið leitt til þess að mat hennar á væntumþykju og ástúð hafi brenglast og hafi hún átt í erfiðleikum með að mynda heilbrigð og eðlileg tengsl við karlmenn. Þá hafi brotið haft í för með sér áhrif á geðheilsu og félagslega aðlögun stúlkunnar og dregið úr sjálfstrausti hennar. Hún  hafi reynt að gleyma atburðinum en þrátt fyrir það rifjist hann reglulega upp fyrir henni og valdi henni óróleika og kvíða. Í vætti Ínu Marteinsdóttir geðlæknis kom fram að B væri mjög döpur stúlka og með mikinn kvíða. Fram hafi komið að stúlkan hafi verið áberandi átakamikil sem ung stúlka. Reki hún hörmungasögu sína til þessa atviks með ákærða. Erfitt væri að meta áhrif síðara kynferðisbrots, en það væri viss tilhneiging til staðar að ef einstaklingur yrði fyrir misnotkun einhverju sinni þá myndi hann lenda í öðru slíku tilviki síðar. Þó svo B búi við aðra röskun í lífi sínu hefur brot ákærða gagnvart henni vissulega verið til þess fallið að valda henni miska. Eru bætur hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Mál þetta var höfðað við útgáfu ákæru 21. desember 2007 og eru vextir, sem féllu eftir atvikum á kröfur brotaþola fyrir 21. desember 2003, því fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en ákærði hefur m.a. haldið fram vörnum á grundvelli fyrningar.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti ríkissaksóknara. Þá greiði ákærði ferðakostnað vitna að heildarfjárhæð 34.528 krónur. Loks greiði ákærði málsvarnarlaun skipaðs verjanda og laun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Huldu Elsu Björgvinsdóttur aðstoðar­saksóknara.

Héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Pétur Guðgeirsson og Sigrún Guðmundsdóttir kváðu upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði A, 500.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. desember 2003 til 29. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B, 700.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. desember 2003 til 29. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. 

Ákærði greiði 1.292.346 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, 565.230 krónur og þóknun til réttargæslumanns brotaþolanna Ásu Ólafsdóttur hæstaréttar­lögmanns, 227.088 krónur.