Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2010
Lykilorð
- Umboð
- Skaðabótaskylda innan samninga
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 7. október 2010. |
|
Nr. 4/2010. |
Guðrún Björg Tómasdóttir (Skarphéðinn Pétursson hrl.) gegn Ingibjörgu Sigurðardóttur (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) og gagnsök |
Umboð. Skaðabótaskylda innan samninga. Gjafsókn.
I krafðist skaðabóta úr hendi G vegna tjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir af hennar völdum. Málsatvik voru með þeim hætti að G hafði með höndum fjárreiður fyrir S, föður I, frá árinu 2000 allt fram að andláti hans 17. janúar 2004. Höfðaði I, eini erfingi S, mál þetta gegn G eftir að bókhaldsrannsókn á fjárhaldi G fyrir hinn látna leiddi í ljós að verulegum fjármunum af fé hins látna hafði verið ráðstafað í þágu annarra aðila án skýringa. Í dómi Hæstaréttar segir að G hafi annast átölulaust matarinnkaup og greiðslu á reikningum fyrir S árin 2000 til 2003. S hafi ekki veitt G skriflegt umboð fyrr en 30. desember 2002 en að heimild sú sem lá til grundvallar umboðsmennsku G fyrir þann tíma hafi verið athafnaleysi S, sem jafna megi til löggernings. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að G yrði að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að henni hafi verið heimilt að ráðstafa því fé í eigin þágu eða fjölskyldu sinnar. Þá var kröfu G um lækkun á kröfu I hafnað með vísan til meginreglu þess efnis að umboðsmanni beri að standa umbjóðanda sínum skil á erindum sem hann rekur fyrir hann í skjóli umboðs. Var aðalkrafa I því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason dómstjóri.
Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. október 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 9. desember 2009 og áfrýjaði hún öðru sinni 6. janúar 2010 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju, en að því frágengnu krefst hún sýknu af kröfu gagnáfrýjanda. Í öllum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi gagnáfrýjanda. Til þrautavara krefst aðaláfrýjandi þess að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og að málskostnaður falli niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 11. mars 2010. Hún krefst þess aðallega að kröfum aðaláfrýjanda um frávísun og ómerkingu verði hafnað og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða 5.458.695 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 27. júní 2007 til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms. Hún krefst í báðum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Sigurður Guðmundsson, faðir gagnáfrýjanda, lést 17. janúar 2004. Gagnáfrýjandi fékk leyfi til einkaskipta 16. febrúar 2004 og lauk skiptum 18. mars 2005. Var þá bókuð sú athugasemd að við bókhaldsrannsókn á fjárhaldi þriðja aðila fyrir hinn látna tímabilið 1. janúar 2001 til andlátsdags hefði komið í ljós að verulegum fjármunum af fé hins látna hefði verið ráðstafað í þágu annarra aðila án skýringa. Hefði verið óskað lögreglurannsóknar á fjárhaldi fyrir hinn látna og yrði gerð bótakrafa í því máli fyrir hönd dánarbúsins eða erfingja ef tilefni gæfist til. Gagnáfrýjandi er eini erfingi Sigurðar Guðmundssonar. Er hún samkvæmt því réttur aðili málsins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 2000, bls. 2835 í dómasafni réttarins það ár, í mál nr. 142/2000.
Krafa aðaláfrýjanda um frávísun málsins verður ekki tekin til greina enda er málið nægilega reifað svo dómur verði á það lagður. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á verulega annmarka á héraðsdómi verður krafa gagnáfrýjanda um ómerkingu heldur ekki tekin til greina.
II
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, verður staðfest sú niðurstaða hans að þrátt fyrir að Sigurður Guðmundsson hafi verið haldinn geðklofa hafi ekki verið sýnt fram á að hann hafi verið ófær um að bera skynbragð á fjárhagslegar ráðstafanir sínar. Þá liggur fyrir að Sigurður Guðmundsson var fjárráða alla tíð frá fjárræðisaldri.
Gagnáfrýjandi byggir á því að aðaláfrýjanda hafi verið óheimilt að nýta fjármuni föður hennar í eigin þágu samkvæmt þeirri heimild sem aðaláfrýjandi hafði frá honum til að greiða reikninga fyrir hann og annast innkaup. Gagnáfrýjandi reisir kröfu sína á reglum um skaðabótaskyldu innan samninga.
Af hálfu aðaláfrýjanda er á því byggt að hún hafi haft heimild frá Sigurði til að taka út peninga af reikningi hans. Í skýrslu aðaláfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að eftir lát móður Sigurðar hefði hann beðið hana að sjá um matarinnkaup og að greiða alla reikninga í banka fyrir sig. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að aðaláfrýjandi hafi ekki haft aðra heimild frá Sigurði en ráðin verði af því umboði sem hann undirritaði 30. desember 2002.
Fyrir liggur að Sigurður veitti aðaláfrýjanda ekki skriflegt umboð fyrr en 30. desember 2002 en þar segir: „Ég undirritaður Sigurður Guðmundsson kt. ... veiti hér með Guðrúnu Björgu Tómasdóttur kt. ... fullt umboð til að annast fjárreiður mínar í Landsbankanum.“ Ekki er til að dreifa öðrum skjölum í málinu þar sem Sigurður veitti aðaláfrýjanda heimild til úttekta af bankareikningi hans. Á hinn bóginn liggur fyrir að aðalafrýjandi annaðist átölulaust matarinnkaup svo og greiðslu á reikningum fyrir Sigurð árin 2000 til 2003 út af bankareikningi hans. Telja verður að heimild sú, sem lá til grundvallar umboðsmennsku aðaláfrýjanda, þar til Sigurður veitti henni skriflegt umboð, hafi verið athafnaleysi hans, sem jafna megi til löggernings.
Staðfest er sú niðurstaða héraðsdóms að aðaláfrýjandi verði að bera hallan af því að hafa ekki sýnt fram á að henni hafi verið heimilt að ráðstafa því fé í eigin þágu eða fjölskyldu sinnar, sem krafa gagnáfrýjanda byggir á, enda var aðaláfrýjanda í lófa lagið að afla sér nauðsynlegra sannana þar að lútandi frá Sigurði. Með vísan til forsendna héraðsdóms er jafnframt staðfest sú niðurstaða hans að samtals sé um að ræða 8.255.607 krónur sem aðaláfrýjandi hafi þannig ráðstafað heimildarlaust af fjármunum Sigurðar Guðmundssonar.
Aðaláfrýjandi hefur stutt kröfu sína um lækkun á kröfu gagnáfrýjanda þeim rökum, að mikið af þeim fjármunum, sem hún hafi tekið út af reikningi Sigurðar, hafi runnið til hans, bæði í formi peninga og til greiðslu á ýmsum kostnaði hans. Gagnáfrýjandi hefur fallist á að draga megi 2.796.912 krónur frá framangreindri fjárhæð og því er krafa hennar í málinu að aðaláfrýjanda beri að greiða 5.458.695 krónur. Aðaláfrýjandi telur aftur á móti að lækka beri þá fjárhæð verulega þar sem framfærsla Sigurðar hafi numið mun hærri fjárhæð. Aðilar málsins deila um hvorum þeirra standi nær að færa sönnur á hver kostnaður hafi verið af framfærslu Sigurðar Guðmundssonar árin 2000 til 2003.
Sú meginregla gildir að umboðsmanni ber að standa umbjóðanda sínum skil á erindum sem hann rekur fyrir hann í skjóli umboðs, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 1999, bls. 1817 í dómsafni réttarins það ár, í máli nr. 406/1998. Með viðtöku og vörslu fjármuna í eigu Sigurðar fylgdi því skylda fyrir aðaláfrýjanda til að gera grein fyrir ráðstöfun þeirra, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 1993, bls. 2119 í dómasafni réttarins það ár, í máli nr. 61/1990. Það stendur því aðaláfrýjanda næst að sýna fram á að frádráttur vegna framfærslu Sigurðar Guðmundssonar hafi numið hærri fjárhæð en byggt er á af hálfu gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjanda hefur ekki tekist sú sönnun og verður því krafa gagnáfrýjanda tekin til greina, svo og krafa hennar um dráttarvexti.
Eftir þessum málsúrslitum verður aðaláfrýjanda með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmd til að greiða málskostnað í héraði og Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsókn var ekki áfrýjað til Hæstaréttar og stendur það því óraskað.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Guðrún Björg Tómasdóttir, greiði gagnáfrýjanda, Ingibjörgu Sigurðardóttur, 5.458.695 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 27. júní 2007 til greiðsludags.
Aðaláfrýjandi greiði 600.000 krónur í málkostnað í héraði er renni í ríkissjóð. Þá greiði aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað er óraskað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. febrúar 2009.
Mál þetta var höfðað 8. september 2008 og tekið til úrskurðar 16. janúar 2009. Stefnandi er Ingibjörg Sigurðardóttir, Aðalstræti 10, Akureyri. Stefnda er Guðrún Björg Tómasdóttir, Borgarholtsbraut 61, Kópavogi.
Í málinu gerir stefnandi þá dómkröfu að stefnda verði dæmd til að endurgreiða stefnanda kröfu að fjárhæð 5.458.695 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júní 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu án tillits til gjafsóknar sem stefnanda hefur verið veitt.
Stefnda krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hún sýknu, en að því frágengnu lækkunar á kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa stefndu um að málinu verði vísað frá dómi. Stefnandi gerir þá kröfu að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins.
I.
Faðir stefnanda, Sigurður Guðmundsson, lést 17. janúar 2004. Fékk stefnandi leyfi sýslumannsins í Reykjavík 16. febrúar sama ár til einkaskipta á dánarbúi föður síns, en hún var eini erfingi hans. Fól hún lögmanni að annast skiptin og undirritaði lögmaðurinn einkaskiptagerð fyrir hennar hönd 18. mars 2005. Mun sýslumaður hafa staðfest hana og lauk skiptum á dánarbúinu þar með, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í einkaskiptagerð segir svo í kafla sem ber yfirskriftina „athugasemdir“: „Við bókhaldsrannsókn á fjárhaldi þriðja aðila fyrir hinn látna tímabilið 1.1.2000 til andlátsdags kom í ljós að verulegum fjármunum af fé hins látna hafði verið ráðstafað í þágu annarra aðila án skýringa. Vegna þessa var óskað lögreglurannsóknar á fjárhaldi fyrir hinn látna og verður gerð bótakrafa í því máli f.h. dánarbúsins og/eða erfingja ef tilefni gefst til, og skipti dánarbúsins endurupptekin ef þörf krefur.“ Í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til lögmanns þess sem annaðist skiptin á dánarbúinu, dags. 14. september 2005, kemur fram að ekki hafi þótt efni til að taka málið til frekari rannsóknar, sbr. 76. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Á árinu 2007 höfðaði stefnandi bótamál á hendur stefndu og var krafan grundvölluð á því að stefnda hafi án heimildar varið fjármunum í eigu föður stefnanda til að standa straum af persónulegum útgjöldum sínum og fjölskyldu sinnar og í því skyni notfært sér andlega vanheilsu hans. Málinu var vísað frá dómi hinn 2. júlí 2008. Stefnandi höfðaði svo á ný mál þetta.
II.
Stefnda byggir frávísunarkröfu sína á því að mál þetta sé vanreifað af hálfu stefnanda og kröfur séu ekki dómtækar þar sem dómari hafi ekki möguleika á að átta sig á því hvert sakarefnið sé, sbr. e-liður 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ekki verði byggt á einhliða áliti stefnanda hvað varði framfærslukostnað föður stefnanda. Framlagt skjal stefnanda, yfirlit yfir áætlaðan framfærslukostnað, hafi enga þýðingu og verði ekki lagt til grundvallar við úrlausn í málinu. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa málinu frá dómi. Stefnda vísar í því sambandi til úrskurðar dómsins í málinu nr. E-1500/2007.
III.
Við munnlegan flutning málsins var því mótmælt að málið væri vanreifað. Stefnandi telur sakarefni málsins skýrt. Þá hafi verið bætt úr annmörkum sem hafi leitt til frávísunar máls nr. E-1500/2007, en því hafi verið vísað frá dómi þar sem dómari hafi ekki talið á sínu færi að meta að álitum framfærslukostnað föður hennar. Stefnandi hafi nú bætt úr því með því að útbúa og leggja fram skjal um framfærslukostnað föður síns, en hún þekki neysluvenjur hans þar sem hún hafi búið hjá honum um tíma. Um sé að ræða ítarlega og nákvæma áætlun um neyslu og í stefnu málsins sé ítarleg umfjöllun um hana. Er því mótmælt að skjal þetta sé að engu hafandi. Stefnandi telur ekki aðra leið færa en að leggja fram einhliða áætlun um framfærslukostnað, en ekki sé unnt að dómkveðja matsmenn. Stefnandi telur að hún hafi gert allt sem í hennar valdi stendur til að sýna fram á framfærslukostnað. Þá telur stefnandi að stefnda hafi sönnunarbyrði fyrir því að fyrirliggjandi áætlun um framfærslukostnað sé ekki rétt.
IV.
Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefnda endurgreiði henni kröfu að fjárhæð 5.458.695 krónur auk dráttarvaxta. Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefnda hafi misnotað sér bágindi og aðstæður föður hennar með ólögmætum og saknæmum athöfnum sínum sem hafi valdið henni fjárhagslegu tjóni. Þá er byggt á því að stefnda hafi í heimildarleysi og án umboðs ráðstafað fjármunum af reikningi föður hennar til greiðslu eigin reikninga og útgjalda. Verði talið að stefnda hafi haft umboð föður stefnanda er byggt á því að það hafi ekki náð til annars en að greiða reikninga og útgjöld hans. Stefnandi vísar til ákvæða laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, almennra reglna kröfuréttarins og sakarreglunnar. Að mati dómsins er grundvöllur málatilbúnaðar sóknaraðila nægilega skýr og þær málsástæður sem hún reisir kröfur sínar á.
Við útreikning á stefnufjárhæð málsins hefur stefnandi dregið frá áætlaðan framfærslukostnað föður hennar árin 2000 til 2003. Áætlun þessi er útbúin af stefnanda sjálfri, en gögn hafa ekki verið lögð fram sem liggja til grundvallar þeirri áætlun. Taka má undir með stefndu að þörf sé á því að varpa skýrara ljósi á málið hvað varðar framfærslukostnað Sigurðar heitins. Það er hins vegar á forræði stefnanda hvaða gögn hún færir fram til þess að sanna tjón sitt og málsaðilar hafa ekki lýst gagnaöflun lokið. Mótmæli stefndu við gildi þeirra gagna sem stefnandi reisir útreikninga sína á, og það hvort faðir stefnanda hafi verið svo andlega vanheill að hann hafi verið ófær um að ráða persónulegum högum sínum og fé, varða efnishlið málsins en leiða ekki til frávísunar þess.
Samkvæmt framansögðu verður frávísunarkröfu stefndu hafnað. Málskostnaður verður ekki úrskurðaður sérstaklega, en litið verður til úrslita í þessum þætti við ákvörðun málskostnaðar í dómi í málinu.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu stefndu, Guðrúnar Bjargar Tómasdóttur, um frávísun málsins er hafnað.
Ákvörðun um málskostnað bíður dóms.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. júlí 2009.
Mál þetta var höfðað 8. september 2008 og dómtekið 23. júní 2009. Stefnandi er Ingibjörg Sigurðardóttir, Aðalstræti 10, Akureyri. Stefnda er Guðrún Björg Tómasdóttir, Borgarholtsbraut 61, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda er þær að stefnda verði dæmd til að endurgreiða stefnanda kröfu að fjárhæð 5.458.695 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 27. júní 2007 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefndu eru aðallega þær að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefnda verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara er þess krafist að stefnukrafa verði lækkuð verulega. Jafnframt er gerð krafa um að stefnandi verði í öllum tilvikum dæmd til að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.
Hinn 19. febrúar 2009 fór fram málflutningur um frávísunarkröfu stefndu og með úrskurði dómsins 27. sama mánaðar var kröfunni hafnað.
I.
Faðir stefnanda, Sigurður Guðmundsson, lést 17. janúar 2004. Fékk stefnandi leyfi sýslumannsins í Reykjavík 16. febrúar sama ár til einkaskipta á dánarbúi föður síns, en hún var eini erfingi hans. Fól hún lögmanni að annast skiptin og undirritaði lögmaðurinn einkaskiptagerð fyrir hennar hönd 18. mars 2005. Sýslumaður staðfesti hana og lauk skiptum á dánarbúinu þar með, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í einkaskiptagerð segir svo í kafla sem ber yfirskriftina „athugasemdir“:
Við bókhaldsrannsókn á fjárhaldi þriðja aðila fyrir hinn látna tímabilið 1.1.2000 til andlátsdags kom í ljós að verulegum fjármunum af fé hins látna hafði verið ráðstafað í þágu annarra aðila án skýringa. Vegna þessa var óskað lögreglurannsóknar á fjárhaldi fyrir hinn látna og verður gerð bótakrafa í því máli f.h. dánarbúsins og/eða erfingja ef tilefni gefst til, og skipti dánarbúsins endurupptekin ef þörf krefur.
Með bréfi, dags. 24. apríl 2005, lagði stefnandi fram kæru á hendur stefndu, mágkonu hins látna, og eiginmanni hennar, Axel Guðmundssyni, bróður hins látna, vegna meðferðar á fjármunum hins látna. Í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 14. september 2005, kemur fram að ekki hafi þótt efni til að taka málið til frekari rannsóknar, sbr. 76. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Í gögnum málsins liggur fyrir umboð sem Sigurður heitinn veitti stefndu 30. desember 2002. Þar segir að Sigurður veiti stefndu „fullt umboð til að annast allar fjárreiður mínar“, en síðan er strikað yfir orðið „allar“ og handskrifað „í Landsbankanum“ á eftir orðunum „fjárreiður mínar“. Í bréfi þáverandi lögmanns stefnanda, dags. 2. apríl 2004, kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá viðskiptabanka Sigurðar heitins hafði stefnda frá árinu 1999 prókúruumboð á reikningi hans í útibúi Landsbankans, nr. 0139-05-19800.
Í máli þessu er ágreiningur um málsatvik hvað varðar andlegt ástand Sigurðar heitins, föður stefnanda. Í stefnu segir stefnandi að hann hafi verið andlega vanheill frá því hann var um þrítugt er hann hafi veikst af geðsjúkdómi, geðklofa (schizophrenia). Faðir stefnanda hafi verið vel gefinn og hafði fyrir veikindin lokið iðnnámi í járnsmíði og síðan vélstjórnarnámi frá Vélskóla Íslands og unnið sem vélstjóri á farþega- og flutningaskipum. Eftir að hann hafi veikst skyndilega af sjúkdómi sínum um borð í farskipi hafi hann alveg hætt til sjós, en fyrir velvilja vinnuveitanda hafi hann fengið að starfa sem járnsmiður í Stálvík í Garðabæ þar til hann hafi misst vinnuna árið 1990. Allan þann tíma hafi Sigurður verið mikið andlega veikur og af þeim sökum engan veginn getað skilað fullnægjandi vinnuframlagi. Allt frá árinu 1990 hafi faðir stefnanda alltaf mætt á fimmtudögum kl. 15:00 og skráð sig atvinnulausan og síðan farið rakleitt á skrifstofu verkalýðsfélags.
Stefnandi kveður að geðsjúkdómur föður hennar hafi verið krónískur og á háu stigi. Hann hafi þurft aðstoð við alla daglega umhirðu, bæði um mat, þrifnað o.fl. Um fjármál hafi hann engan veginn verið fær um að sjá sjálfur, enda hafi hann ekki borið neitt skynbragð á þau. Hann hafi hins vegar alls ekki viljað fara til læknis og móðir hans hafi ekki viljað beita hann valdi til þess.
Allt frá því er faðir stefnanda hafi veikst af geðklofa hafi móðir hans hugsað um hann, m.a. hafi hann verið hjá foreldrum sínum í mat á hverjum degi auk þess sem móðir hans hafi alfarið séð um fjármálin. Sigurður hafi í fjölmörg ár gengið til foreldra sinna á hverjum degi úr Hafnarfirði og dvalið þar fram á kvöld.
Jafnframt kemur fram í stefnu að stefnandi hafi ekki alist upp hjá föður sínum, en hún hafi heimsótt hann og þá ávallt á heimili ömmu sinnar. Stefnandi lýsir því að hún hafi búið á heimili Sigurðar um tveggja ára skeið er hún hafi verið í háskóla og þá kynnst daglegum venjum og ástandi föður síns. Henni hafi þá orðið ljóst hversu alvarlega veikur faðir hennar hafi verið og ófær að sjá um sjálfan sig. Stefnandi hafi óskað eftir því að honum yrði komið til hjálpar á sjúkrahúsi og fengi betri líðan með lyfjagjöf, en faðir hennar hafi ekki mátt heyra minnst á lækna og amma hennar hafi verið föst fyrir með það að ástandið skyldi vera eins og það hefði verið. Stefnandi kveðst ekki hafa treyst sér til að standa gegn vilja ömmu sinnar sem ávallt hefði séð um föður hennar.
Stefnandi lýsir því að eftir andlát móður Sigurðar hafi stefnda farið að sjá um fjármál Sigurðar. Hafi verið ákveðið að Sigurður keypti fasteign foreldra sinna af dánarbúinu en að dóttir stefndu og tengdasonur keyptu íbúð Sigurðar í Hafnarfirði. Hafi stefnda alfarið annast um úttektir á bankareikningum Sigurðar. Stefnandi kveðst hafa staðið í þeirri trú að þær ráðstafanir hefðu verið gerðar með hagsmuni föður hennar að leiðarljósi, en við könnun á bankayfirlitum undanfarin ár hafi komið í ljós að stefnda hafi tekið út fé af reikningum Sigurðar heitins og greitt með því ýmis útgjöld og reikninga á nafni stefndu, eiginmanns stefndu sem og dætra stefndu. Í kjölfarið hafi stefnandi óskað rannsóknar lögreglu á þessum ráðstöfunum, eins og rakið var hér að framan.
Í málinu liggja fyrir læknisvottorð vegna Sigurðar heitins. Í vottorði Gunnsteins Stefánssonar, læknis á Heilsugæslustöðinni við Sólvang í Hafnarfirði, dags. 17. september 1996, vegna umsóknar um örorkubætur, segir að Sigurður hafi verið metinn í apríl 1996 75% öryrki. Þetta hafi verið metið á grundvelli vottorðs læknisins, en það vottorð liggur ekki fyrir í málinu. Fram kemur að læknirinn hafi aldrei séð Sigurð, en sjúkrasaga verið fengið frá tveimur nánum venslamönnum, Pétri Lúðvíkssyni barnalækni og Guðrúnu Tómasdóttur, stefndu í máli þessu. Í samantekt læknisins segir að um sé að ræða 57 ára gamlan karlmann sem alla tíð virðist hafa verið nokkuð einrænn og fáskiptinn, en veikst um 30 ára aldurinn með „acut psychotisku“ ástandi þegar hann hafi verið staddur um borð í farskipi. Hann hafi sennilega aldrei fengið mat geðlæknis, en tímabundna lyfjameðferð. Þetta „acuta psychotiska“ ástand virðist hafa gengið yfir, en Sigurður hafi aldrei orðið samur og ekki komist aftur á sjó. Hann virðist hafa skilað vinnuframlagi um tíma í skipasmíðastöðinni Stálvík, en á síðari árum dvínandi. Það virðist því ljóst af upplýsingum frá venslafólki að svo megi ráða að Sigurður sé haldinn krónískri geðveiki, sennilega „schizophreniu“ á það háu stigi að hann sé gjörsamlega ófær um að sjá sér farborða. Ástandið sé löngu orðið krónískt og ekki hægt að koma Sigurði til geðskoðunar nema með valdbeitingu sem móðir hans sé mótfallin og þjóni sennilega litlum tilgangi nú orðið. Sigurður virðist hins vegar þarfnast þeirrar framfærslu sem hann eigi rétt til vegna heilsubrests síns og óvinnufærni.
Sami læknir ritaði vottorð á ný 19. mars 1997, vegna endurnýjunar umsóknar um örorkubætur. Þar er vísað til fyrra vottorðs, rituðu 2. apríl 1996, sem ekki liggur fyrir í málinu eins og áður segir. Læknirinn vísar til þess að sjúkrasaga sé fengin frá sömu venslamönnum og áður. Um ástand Sigurðar segir síðan að það virðist vera krónískt og „stationert“, hann loki sig af í sínum heimi þar sem hjá honum virðist gæta bæði „hallusionationir“ og ranghugmynda, auk tortryggni og „paranoiu“. Það þurfi að umgangast hann með mikilli lempni, en hann sé ekki truflandi ef hann er látinn í friði. Hann sé algjörlega upp á venslafólk sitt komið varðandi „praktíska aðstoð og að sjálfsögðu algjörlega ófær um að sjá sér farborða“. Þá segir í vottorðinu að engin breyting hafi orðið á högum Sigurðar frá vottorðinu 2. apríl 1996. Hann fari daglega til móður sinnar og tali mikið við sjálfan sig og lífsmáti hans sé í mjög föstum skorðum með „steriotypu“ mynstri.
Í bréfi landlæknis, dags. 30. október 2006, vegna beiðni um afhendingu á læknisfræðilegum gögnum um Sigurð, segir að samkvæmt gögnum hafi Sigurður verið haldinn geðsjúkdómnum „schizophrenia“ eða geðklofa, en hann hafi verið um þrítugt þegar hann veiktist. Fyrirliggjandi gögn um hann séu eingöngu vottorð læknis sem hafi hlutast til um að hann fengi örorku. Sá læknir hafi haft takmarkaðar upplýsingar um heilsufar Sigurðar, sem muni ekki hafa verið mikið fyrir heimsóknir til lækna, en vottorð hafi verið skrifað að tilhlutan ættingja til að Sigurður kæmist á örorku eftir atvinnumissi sinn. Þótt læknirinn hafi ekki haft mikið með sjúklinginn að gera hafi þótt réttlætanlegt að hafa þennan hátt á þar sem augljóslega hafi verið um rétt til örorku að ræða miðað við sjúkdómsástandið. Þá segir í bréfi landlæknis að Sigurður hafi verið einrænn og fáskiptinn, eins og títt sé um fólk með þennan sjúkdóm. Hins vegar komi ekkert fram um hæfni hans til að ráðstafa fjármálum.
Einnig liggur fyrir minnisblað Lúðvíks Ólafssonar læknis vegna heimsóknar hans, í fylgd stefndu, á heimili Sigurðar hinn 12. desember 2003. Þar segir að dyr hafi verið opnar hjá Sigurði og þegar komið hafi verið inn hafi mætt þeim geysilega vond lykt, eins og af gömlum skemmdum mat. Sigurður hafi ógjarnan viljað tala við lækninn en samt gert það um nokkra hríð. Hann hafi verið mjög illa klæddur, í gauðrifinni gamalli úlpu og lélegum buxum og verið á sokkum sem hafi verið skítugir. Hann hafi verið grannleitur og að sögn stefndu hafi hann grennst mjög mikið síðustu mánuði. Stefnda hafi sagt hann hafa mikinn bjúg á fótum og það sjáist í gegnum buxurnar. Hægri ganglimur hafi verið verulega bólginn og töluverður bjúgur virst vera á báðum ristum. Þá segir að stofan hafi verið mjög þrifaleg og allt í röð og reglu þar, en annars staðar á heimilinu mikil óreiða, ekki þó mikið af uppsöfnuðu dóti en samt töluvert af rusli og allt illa þrifið þar. Teppi hafi verið eins og gegnsósa af drullu. Ekki beri á rugli hjá Sigurði, en hann sé þó ekki ræðinn og sé staðfastur í því sem hann segi. Þvottur sé inni hjá honum og að sögn stefndu þvoi hann mjög reglulega af sér og sé að því leyti þrifinn. Þá segir í minnisblaðinu að Sigurður neiti algjörlega allri læknishjálp og þegar læknirinn spyrji hann um meltinguna segi hann að allt sé í lagi með hana og hann myndi ekki segja lækninum frá því þótt eitthvað væri að því það væri trúnaðarmál. Aðspurður um þvagið þegi hann. Læknirinn kveðst hafa rætt ítarlega við stefndu á eftir og lýst fyrir henni að ekki væru neinar forsendur fyrir nauðungarvistun.
Á árinu 2007 höfðaði stefnandi bótamál á hendur stefndu og var krafan grundvölluð á því að stefnda hafi án heimildar varið fjármunum í eigu föður stefnanda til að standa straum af persónulegum útgjöldum sínum og fjölskyldu sinnar og í því skyni notfært sér andlega vanheilsu hans. Málinu nr. E-1500/2007 var vísað frá dómi hinn 2. júlí 2008. Stefnandi höfðaði svo á ný mál þetta.
Við aðalmeðferð máls þess sem hér er til úrlausnar gaf stefnandi skýrslu. Þá gaf vitnið Guðrún Valdimarsdóttir, hálfsystir stefnanda, skýrslu fyrir dómi og vitnið Pétur V. Maack Pétursson. Stefnda kom ekki fyrir dóm, en aðilar eru sammála um að leggja til grundvallar í málinu skýrslutökur í máli nr. E-1500/2007.
II.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefnda hafi misnotað sér bágindi og aðstæður föður hennar með ólögmætum og saknæmum athöfnum sínum sem hafi valdið henni fjárhagslegu tjóni.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi í algjöru heimildarleysi og án umboðs ráðstafað verulegum fjármunum af reikningi Sigurðar, föður stefnanda, til greiðslu eigin reikninga og útgjalda, sem og reikninga á nafni eiginmanns hennar og barna. Stefnda hafi framkvæmt sjálf allar úttektirnar, hún sé gerandinn og sé því krafist endurgreiðslu úr hendi hennar. Umboð Sigurðar til stefndu sé dagsett 30. desember 2002, en stefnda hafi byrjað að sjá um fjármál hans áður en móðir Sigurðar lést á árinu 1999. Stefnandi telur að allar fjármálalegar ráðstafanir stefndu árin 1999, 2000, 2001 og 2002 hafi því verið framkvæmdar án umboðs frá föður stefnanda. Stefnda hafi ekki sýnt fram á að hún hafi haft umboð frá Sigurði né heldur umboð frá honum til að greiða reikninga og ýmis útgjöld annarra en hans. Sé stefnda því bótaskyld gagnvart stefnanda samkvæmt 25. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Verði talið að stefnda hafi haft umboð frá Sigurði byggir stefnandi á því að slíkt umboð hafi aldrei náð til að inna af hendi greiðslur reikninga og útgjalda fyrir aðra en hann sjálfan. Umboð það sem Sigurður hafi veitt stefndu hinn 30. desember 2002 hafi ekki náð til greiðslu reikninga fyrir aðra en hann. Í umboði hafi falist heimild til ráðstafana fyrir umbjóðanda en ekki fyrir umboðsmanninn sjálfan og nánustu aðstandendur hans, eins og stefnda hafi gert. Stefnandi telur að stefndu hafi borið að tryggja sér skýra heimild frá Sigurði til þeirra úttekta sem stefnandi krefst endurgreiðslu á, en slík heimild sé ekki til staðar og sé stefnda því bótaskyld. Stefnda hafi ráðstafað fé því sem krafist er endurgreiðslu á, að stærstum hluta í algjöru heimildarleysi og farið út fyrir umboð sitt og sé hún því bótaskyld samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins. Stefnda hafi sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi haft umboð frá Sigurði til þeirra ráðstafana sem krafist er endurgreiðslu á í máli þessu. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart henni samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins, skaðabótaréttarins og ákvæðum samningalaga.
Stefnandi segir að stefndu og fjölskyldu hennar hafi verið manna best kunnugt um hið alvarlega sjúkdómsástand föður hennar og hafi dóttir stefndu m.a. viðurkennt í framlagðri greinargerð, dags. 31. október 2007, að hann hafi vegna geðsjúkdóms verið ófær um að taka virkan þátt í samfélaginu og að ítrekað hafi stefnda, börn stefndu sem og stefnandi rætt við móður Sigurðar um hvort svipta hafi átt hann sjálfræði og þar með fjárræði, en móðir Sigurðar hafi alfarið verið á móti því. Ástæðu þessara umræðna telur stefnandi hafa verið hversu ófær Sigurður var um að ráða bæði persónulegum högum sínum og fé. Vitneskja stefndu og fjölskyldu hennar um gerhæfisskort Sigurðar sé því sönnuð.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi með misneytingu gagnvart veikum föður hennar, hagnýtt fjármuni hans án heimildar í eigin þágu eða fjölskyldu sinnar, sem hafi leitt til þess að þeir fjármunir hafi ekki verið til staðar í dánarbúi föður stefnanda. Notkun stefndu á fé föður stefnanda hafi verið án heimildar og hafi aðeins getað átt sér stað vegna alvarlegra og langvarandi andlegra veikinda Sigurðar og þess að hann hafi á engan hátt verið fær um að gera sér grein fyrir fjármálum. Faðir stefnanda hafi verið haldinn krónískri geðveiki á það háu stigi að hann hafi gjörsamlega verið ófær um að sjá sér farborða og hafi um allar dagsdaglegar þarfir, þ.m.t. um fjárhagslegar athafnir, verið háður öðrum. Vitni geti staðfest að hin andlegu veikindi Sigurðar Guðmundssonar hafi verið með þeim hætti að þau hafi ekki farið framhjá neinum sem áttu einhver samskipti við hann. Byggir stefnandi á því að faðir hennar hafi fullnægt öllum skilyrðum fyrir sjálfræðissviptingu, en vegna andstöðu hans við að fara til lækna og þeirrar staðreyndar að þurft hefði að beita valdi til að koma honum til læknis, hafi ekki verið um slíkt að ræða. Staðreyndin sé eftir sem áður sú að faðir stefnanda hafi verið algjörlega ófær um að ráða persónulegum högum sínum og fé.
Stefnandi telur að þegar fjármálaumsjón stefndu hófst hafi andleg veikindi Sigurðar heitins verið orðin krónísk og verið það um áratuga skeið og sjúkdómurinn kominn á mjög alvarlegt stig. Faðir stefnanda hafi þá um margra ára skeið verið án atvinnu og að öllu leyti háður aðstoð við fjármál. Umsjón stefndu hafi tekið við af umboðsmennsku móður Sigurðar heitins og byggir stefnandi á því að sú umsjón hafi verið nauðsynleg að mati allra, þar sem hann hafi algjörlega verið ófær um að bera nokkurt skynbragð á peninga og fjárhagslega þýðingu ráðstafana á þeim.
Stefnandi byggir á því að faðir hennar hafi hvorki haft hæfi né getu né verið í nokkurri aðstöðu til að fylgjast með þeim ráðstöfunum sem stefnda hafi gert á fé hans allt frá því er hún hóf afskipti sín af fjármálum hans. Stefnanda hafi verið kunnugt um þessar úttektir í ársbyrjun árið 2004 og hafi þá þegar óskað eftir skýringum á þeim úr hendi stefndu. Stefnda hafi svarað með bréfi lögmanns, dags. 31. maí 2004, en komið hafi í ljós að ýmsar veigamiklar fullyrðingar um fjármál föður stefnanda sem þar komi fram séu rangar og ekki í samræmi við þau gögn sem aflað hafi verið af bankareikningum og í tengslum við fasteignaviðskipti föður stefnanda. Stefnda hafi nýtt sér andlegt og líkamlegt ástand föður stefnanda með því að draga sér umtalsverða fjárhæð af fjármunum hans og beri stefndu því að bæta stefnanda hana með greiðslu skaðabóta í samræmi við stefnukröfur. Stefnda hafi ráðstafað fé í algjöru heimildarleysi og eftir að hún hafi fengið umboð hafi hún farið langt út fyrir umboð sitt með þessum ráðstöfunum.
Stefnandi heldur því fram að öll skilyrði sakarreglunnar séu uppfyllt í máli þessu þar sem ráðstöfun stefndu á fé föður stefnanda hafi bæði verið saknæm og ólögmæt. Stefndu hafi verið fullkunnugt um að faðir stefnanda hafi um áratugaskeið verið svo veikur andlega að hann hafi verið með öllu óhæfur til að fara með eigin fjármál. Hafi stefndu verið fullkunnugt um það ástand og hafi stefnda m.a. lýst ástandinu fyrir Gunnsteini Stefánssyni heilsugæslulækni á árinu 1997, sbr. vottorð hans, dags. 19. mars 1997. Þar lýsi stefnda því m.a. að faðir stefnanda hafi lifað algjörlega í eigin heimi, hafi iðulega verið í hrókasamræðum við háværar raddir í höfði sínu, hann væri mjög stífur og þver ef reynt væri að nálgast hann með einhverjum fyrirmælum eða óskum. Stefnandi byggir á því að þær upplýsingar sem stefnda hafi veitt lækni á árinu 1996 lýsi raunverulegu ástandi föður hennar og komi engan veginn heim og saman við þær rangfærslur sem fram koma í bréfi lögmanns stefndu, dags. 31. maí 2004.
Þá byggir stefnandi á því að ef stefnda heldur því fram að hún hafi haft heimild til að nýta fé Sigurðar með þessum hætti, þá beri henni að sýna fram á ótvírætt og skriflegt umboð þess efnis, m.a. varðandi fasteignaviðskipti, erfðauppgjör og annað sem þeim tengist. Stefnda hafi ekki getað framvísað bókhaldsgögnum vegna fjármálaumsýslu fyrir hinn látna og stefnukrafa málsins sé byggð m.a. á ítarlegri úttekt endurskoðunarskrifstofu sem hafi kannað allar fjármálalegar ráðstafanir frá árinu 2000. Stefnandi telur að allan halla af skorti á sönnun eigi vegna þessa að leggja á stefndu.
Jafnframt er byggt á því að jafnvel þótt stefnda hafi haft heimild til úttekta af reikningum Sigurðar, þá hafi hún ekki haft heimild til að nýta fé hans í eigin þágu, eins og hún hafi ótvírætt gert með því að greiða kröfur á hana sjálfa af hans fé, svo og kröfur á eiginmann sinn og börn. Á sama tíma hafi Sigurður verið alvarlega veikur og einangraður og hefði í raun átt að vera á sjúkrahúsi vegna ástands síns og hafi því með engu móti getað fylgst með athæfi stefndu né gefið henni heimild til að taka fé hans traustataki í eigin þágu. Stefnandi segir að fyrir liggi viðurkenning stefndu um brot sín með því að hún hafi viðurkennt að hafa blandað eigin fjármálum saman við fjármál Sigurðar heitins, millifært af hans reikningi yfir á sinn þegar þörf krafði og greitt eigin reikninga. Stefnandi telur brot stefndu bæði fjármálaóreiðu og fjárdrátt þar sem hún hafi dregið sér fé Sigurðar langt umfram kostnað af framfærslu hans.
Stefnda hafi með athæfi sínu valdið stefnanda bótaskyldu tjóni þar sem hún sé einkaerfingi föður síns og hafi við útgáfu einkaskiptaleyfis sýslumannsins í Reykjavík 12. febrúar 2004 tekið við öllum réttindum og skyldum sem tilheyrðu dánarbúi hins látna. Stefnandi eigi því þann rétt til bóta og endurgreiðslu sem faðir hennar hefði átt áður, ef misneyting stefndu hefði komið í ljós á meðan faðir hennar var enn á lífi. Þeir fjármunir sem stefnda hafi nýtt sér í heimildarleysi hefðu ella runnið inn í dánarbú hins látna og þar með til hennar sem einkaerfingja.
Stefnandi sundurliðar stefnukröfu sína með eftirfarandi hætti:
1. Úttektir stefndu af bankareikningi Sigurðar sem hafi verið ráðstafað til annarra en hans.
Stefnandi kveður að úttektum stefndu af bankareikningi Sigurðar hafi verið ráðstafað til annarra. Þar sem um verulegan fjölda færslna hafi verið að ræða og háar upphæðir hafi verið óskað úttektar frá Endurskoðunarsviði PricewaterhouseCoopers, Skógarhlíð 12 í Reykjavík. Þórir Ólafsson, löggiltur endurskoðandi, hafi farið yfir bankareikninga og ráðstöfun fjár í eigu hins látna á tímabilinu 1. janúar 2000 til ársloka 2003. Stefnufjárhæð miðist við niðurstöðu úttektar hans. Niðurstaða hans komi fram á 22 skjölum, sem lögð hafa verið fram í málinu, þar sem úttektir og greiðslur séu sundurliðaðar eftir því hver skuldari greiddra reikninga sé og hvort um peningaúttekt sé að ræða. Stefnda hafi alfarið séð um þessar úttektir sem hafi falið í sér greiðslu reikninga eða annarra greiðsluskjala sem stíluð séu á stefndu sjálfa og eiginmann hennar, Axel Guðmundsson, auk þess sem um talsverðar peningaúttektir sé að ræða. Ýmist hafi peningaúttektirnar verið teknar út af reikningi Sigurðar og lagðar beint inn á bankareikning stefndu, ellegar peningarnir verið afhentir stefndu sjálfri og hún kvittað fyrir móttöku þeirra. Af þeirri fjárhæð, 4.511.621 krónu, sem ráðstafað hafi verið til greiðslu reikninga eða annarra greiðsluskjala sem stíluð voru á aðra aðila en Sigurð, hafi 2.663.186 krónum verið ráðstafað til greiðslu skjala á nafni stefndu. Þannig hafi 1.156.296 krónum verið ráðstafað til greiðslu skjala á nafni eiginmanns stefndu, Axels Guðmundssonar, 198.855 krónum á nafni tengdamóður stefndu, 20.950 krónum á nafni dóttur stefndu og 25.284 krónum á nafni dóttur stefndu. Samtals krefst stefnandi endurgreiðslu að fjárhæð 4.074.571 króna, vegna úttekta sem stefnda hafi innt af hendi af reikningi Sigurðar Guðmundssonar og ráðstafað til annarra aðila en hans og stefnanda. Vísar stefnandi um sundurliðun til bréfs Þóris Ólafssonar endurskoðanda.
Þá krefst stefnandi endurgreiðslu á peningaúttektum sem framkvæmdar hafi verið af stefndu, samtals 1.781.036 krónum.
Stefnandi segir að heildarupphæð úttekta stefndu sundurliðist þannig:
Samkvæmt yfirliti fyrir tímabilið 10. janúar 25. febrúar 2000 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 146.441 króna og samtala peningaúttekta 42.000 krónur, samtals 188.441 króna.
Á tímabilinu 6. mars 2000 til 4. maí 2000 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 145.200 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 19.697 krónur, og samtala peningaúttekta 25.000 krónur. Samtals 189.897 krónur.
Á tímabilinu 17. maí 26. júlí 2000 greiði stefnda inn á reikning Sigurðar 66.605 krónur, greiddir reikningar stílaðir á stefndu nemi samtals 51.144 krónum. Eftirstöðvar séu því 15.461 króna. Samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu sé því 166.668 krónur og samtala peningaúttekta 34.512 krónur. Samtals 185.719 krónur.
Á tímabilinu 3. ágúst 1. september 2000 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 5.900 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 45.857 krónur og samtala peningaúttekta 21.946 krónur. Samtals 73.703 krónur.
Á tímabilinu 5. september 15. nóvember 2000 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 4.100 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 85.698 krónur og samtala peningaúttekta 88.000 krónur. Samtals 177.798 krónur.
Á tímabilinu 1.-29. desember 2000 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 2.598 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 9.498 krónur og samtala peningaúttekta 43.301 króna. Samtals 55.397 krónur.
Á tímabilinu 3. janúar 5. mars 2001 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 20.442 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 82.900 krónur og samtala peningaúttekta 65.307 krónur. Samtals 168.649 krónur.
Á tímabilinu 8. mars 15. maí 2001 greiði stefnda inn á reikning Sigurðar 178.976 krónur og greiddir reikningar stílaðir á stefndu séu samtals 121.764 krónur. Eftirstöðvarnar séu þá 57.212 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu sé 175.779 krónur og samtala peningaúttekta 70.200 krónur. Samtals 188.767 krónur.
Á tímabilinu 1. júní 2. júlí 2001 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 3.050 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu sé 47.977 krónur og samtala peningaúttekta 1.338.000 krónur. Samtals 1.389.027 krónur.
Á tímabilinu 4. júlí 28. september 2001 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 98.001 króna, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu sé 92.005 krónur og samtala peningaúttekta 76.862 krónur. Samtals 266.868 krónur.
Á tímabilinu 1. október 31. desember 2001 er samtala greiddra reikning stílaða á eiginmann stefndu 5.905 krónur og samtala peningaúttekta 156.922 krónur. Samtals 162.827 krónur.
Á tímabilinu 3. janúar 2. apríl 2002 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 34.636 krónur og samtala peningaúttekta 217.238 krónur. Samtals 251.964 krónur.
Á tímabilinu 10. apríl 8. júlí 2002 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 128.396 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 37.014 krónur og samtala peningaúttekta 58.143 krónur. Samtals 223.553 krónur.
Á tímabilinu 11. júlí 1. október 2002 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 203.745 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 29.931 króna og samtala peningaúttekta 189.987 krónur. Samtals 423.663 krónur.
Á tímabilinu 10. október 5. desember 2002 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 28.150 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 213.610 krónur og samtala peningaúttekta 2.920 krónur. Samtals 244.680 krónur.
Á tímabilinu 11.31. desember 2002 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 63.968 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 9.171 króna og samtala peningaúttekta 22.000 krónur. Samtals 95.139 krónur.
Á tímabilinu 7. mars 16. maí 2003 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 97.385 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 19.351 króna og samtala peningaúttekta 104.000 krónur. Samtals 220.736 krónur.
Á tímabilinu 3. janúar 4. mars 2003 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 139.359 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 83.469 krónur og samtala peningaúttekta 90.578 krónur. Samtals 313.406 krónur.
Á tímabilinu 20. maí 1. ágúst 2003 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 119.453 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 29.366 krónur og samtala peningaúttekta 84.800 krónur. Samtals 233.619 krónur.
Á tímabilinu 1. ágúst 1. október 2003 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 76.640 krónur og samtala peningaúttekta 117.000 krónur. Samtals 193.640 krónur.
Á tímabilinu 6. október 16. desember 2003 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 85.445 krónur, samtala greiddra reikninga stílaða á eiginmann stefndu 2.400 krónur og samtala peningaúttekta 123.845 krónur. Samtals 211.690 krónur.
Á tímabilinu 22.-31. desember 2003 sé samtala greiddra reikninga stílaða á stefndu 32.950 krónur og samtala peningaúttekta 56.100 krónur. Samtals 89.050 krónur.
Samtals greiði stefnda reikninga fyrir aðra en Sigurð Guðmundsson að fjárhæð 4.074.571 króna og krefst stefnandi endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.
2. Úttektir í peningum.
Stefnandi kveður að samkvæmt framangreindu yfirliti endurskoðanda hafi stefnda tekið peninga út af reikningi Sigurðar að fjárhæð 1.781.036 krónur og krefst stefnandi endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Vísar stefnandi þar um til ofangreindrar sundurliðunar og framlagðra skjala frá löggiltum endurskoðanda.
Heildarfjárhæð úttekta sem krafist er greiðslu á er 5.855.607 krónur.
Stefnandi segir að þar sem um mikinn fjölda færslna og greiðsluskjala sé að ræða sé ekki unnt að telja það allt upp í stefnu, heldur vísar stefnandi til fyrirliggjandi yfirlitsblaða endurskoðanda um þetta atriði sem jafnframt sé sett fram sem hluti af stefnu. Sem dæmi nefnir stefnandi að stefnda hafi látið Sigurð með þessum hætti greiða fyrir sig bifreiðagjöld, kreditkortareikninga, styrki til ýmissa aðila, áskriftir og fleira. Færslur þessar séu auðrekjanlegar þar sem viðskiptabanki Sigurðar hafi geymt afrit af viðkomandi greiðsluseðli í tölvukerfi sínu, í hvert sinn sem fé á bankareikningi hans hafi verið notað til að greiða greiðsluskjal með þessum hætti.
Stefnandi vísar til þess að hún hafi höfðað mál á árinu 2007 vegna ofangreinds, en því hafi verið vísað frá dómi þar sem dómara hafi þótt skorta á að taka tillit til raunverulegs framfærslukostnaðar Sigurðar heitins. Stefnandi hafi því lagt í mikla vinnu við að finna út raunverulegan framfærslukostnað föður hennar og dregið framfærslukostnað frá stefnukröfunni. Sjúkdómur Sigurðar hafi verið þannig að hann hafi ávallt framkvæmt sömu hlutina, m.a. hafi hann alltaf borðað sama matinn. Stefnandi hafi kynnst þessum venjum hans vel en hún hafi búið um tveggja ára skeið á heimili hans. Stefnandi hafi fengið upplýsingar um verð þeirra vara sem Sigurður hafi notað og neytt á árunum 2000-2003 frá Hagkaupum, sundurliðað í skjali sem lagt hefur verið fram, auk þess sem stefnandi hafi fengið upplýsingar um verð á þessum árum af heimasíðu Hagstofunnar og upplýsingar um lyf frá Lyfju. Matarvenjur Sigurðar hafi verið fábrotnar og venjubundnar og sé framfærslukostnaður hans því nokkuð lægri en heilbrigðs einstaklings. Stefnandi hafi samt sem áður haft magn viðkomandi vörutegunda ríflegt, m.a. vegna þess að faðir hennar hafi stundum skilið eftir mat í umbúðum og hafi stefnandi frekar viljað vera við efri mörk en neðri mörk. Stefnandi kveðst hafa tekið með í útreikninginn allar nauðsynjar föður síns, þ.e. matarinnkaup, þvottaefni og fatakaup, auk fasteignagjalda, hita, rafmagns, símareikninga, Morgunblaðsáskriftar og vasapeninga. Stefnandi hafi lagt í þetta mikla vinnu og telur að sundurliðunin gefi raunsanna mynd af neyslu föður hennar. Samtals hafi neysla föður hennar á árunum 2000-2003 numið 2.796.912 krónum og hafi stefnandi dregið þá fjárhæð frá í stefnukröfunni.
3. Sala húsbréfa.
Stefnandi vísar til þess að faðir hennar hafi átt fjögurra herbergja íbúð að Suðurvangi 4 í Hafnarfirði og búið þar lengst af. Eftir lát móður hans 25. nóvember 1999 hafi helmingur fasteignar hennar fallið í hlut Sigurðar, en hann og eiginmaður stefndu hafi verið einkaerfingjar. Hafi stefnda og eiginmaður hennar ákveðið að selja þessa íbúð og hafi kaupandinn verið dóttir stefndu og maður hennar. Hafi kaup þessi ekki farið í gegnum fasteignasölu heldur hafi kaupverðið verið 8.800.000 krónur og alfarið ákveðið af stefndu. Lögmaður hafi verið fenginn til að útbúa kaupsamning og afsal. Kaupverðið skyldi innt af hendi með þeim hætti að 3.080.000 krónur skyldu greiðast í peningum á 13 mánaða tímabili og 5.720.000 krónur skyldu inntar af hendi með fasteignaveðbréfi. Faðir stefnanda hafi sjálfur verið látinn rita undir kaupsamninginn 24. janúar 2000 þótt hann hafi samkvæmt læknisvottorði fjórum árum fyrr verið talinn gjörsamlega ófær til slíkra ráðstafana.
Samhliða uppgjöri þess dánarbús hafi verið útbúinn kaupsamningur og afsal þar sem faðir stefnanda hafi keypt 50% eignarhluta eiginmanns stefndu í tveggja herbergja íbúð að Hæðargarði 20, fyrir 3.000.000 króna. Undirritun föður stefnanda hafi verið á skjalinu. Stefnda og dóttir stefndu hafi verið vottar og beri skjalið með sér að stefndu hafi verið afhent skjalið úr þinglýsingu. Kaupverð fasteignarinnar að Hæðargarði hafi verið staðgreitt við undirritun kaupsamnings.
Samkvæmt yfirliti frá Íbúðalánasjóði 30. mars 2000 hafi verið keypt fasteignaveðbréf að andvirði 5.662.800 krónur og hafi nafnvirði þeirra húsbréfa verið 4.730.000 krónur.
Faðir stefnanda hafi í tvö skipti fengið útdrátt á húsbréfum, fyrst að nafnvirði 100.000 krónur, sem hafi verið á söluvirði 155.689 hinn 16. desember 2002, og að nafnvirði 1.000.000 króna sem dregið hafi verið út hinn 15. júní 2001 á söluvirði 1.339.605 krónur. Hinn 20. janúar 2003 hafi verið seld húsbréf að nafnverði 3.630.000 krónur og keypt sparibréf Landsbankans að verðmæti 1.990.000 krónur, nafnverð 1.516.768 krónur. Hinn 22. janúar 2003 hafi verið keypt peningabréf í Landsbanka að verðmæti 2.012.435 krónur, nafnverð 111.529 krónur, hvorutveggja á nafni föður stefnanda. Mismunurinn á söluvirði húsbréfanna, 1.400.000 krónur, hafi hins vegar verið lagður inn á reikning stefndu og krefst stefnandi endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.
Í bréfi lögmanns stefndu 31. maí 2004 hafi verið gefnar þær skýringar á framangreindri millifærslu inn á reikning stefndu að um væri að ræða eftirstöðvar vegna greiðslu kaupverðs að Hæðargarði. Stefnandi hafi mótmælt þeirri skýringu harðlega sem rangri, enda hafi sérstaklega sagt í kaupsamningi og afsali, tveimur og hálfu ári fyrr, að kaupverðið hefði allt verið greitt strax við undirritun kaupsamnings. Útborgun vegna sölu á Suðurvangi, fasteign föður stefnanda, hafi dugað fyrir greiðslu til bróður hans og rúmlega það.
Stefnandi krefst endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar, 1.400.000 króna, þar sem þeirri fjárhæð hafi ekki að nokkru leyti verið varið í þágu föður hennar.
4. Ranglega gengið frá dánarbússkiptum.
Stefnandi vísar til þess að erfingjar foreldra Sigurðar, samkvæmt erfðafjárskýrslu staðfestri af sýslumanninum í Reykjavík 13. nóvember 2000, hafi verið faðir stefnanda og eiginmaður stefndu. Eina eign dánarbúsins sem þar hafi verið tilgreind hafi verið fasteign, en peningaeignir í bönkum verið tilgreindar svo lágar að ekki hafi dugað fyrir útfararkostnaði. Samkvæmt erfðafjárskýrslunni hafi fasteigninni verið skipt á milli bræðranna og hvor um sig greitt erfðafjárskatt af sínum arfshluta.
Stefnandi krefst endurgreiðslu á 1.000.000 króna sem faðir stefnanda hefði átt að fá meira í sinn hlut við skipti á dánarbúi foreldra sinna. Stefnda hafi viðurkennt að hafa millifært á dóttur sína 2.000.000 króna af söluverði íbúðar foreldra Sigurðar sem þá hafi verið 1/3 hluti þess arfs sem þau hafi látið eftir sig. Stefnda hafi gert þessa ráðstöfun á grundvelli erfðaskrár, dags. 20. nóvember 1982, sem aldrei hafi verið undirrituð, hvorki af foreldrum Sigurðar né arfleiðsluvottum og sé þetta því ekki gilt plagg. Formskilyrði erfðaskráa séu mjög skýr samkvæmt 40. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og því ljóst að ráðstöfun stefndu á arfi til dóttur sinnar hafi verið algjörlega heimildarlaus og brot á erfðalögum. Í þeim skjölum sem stefnda hafi skilað inn til sýslumanns, þ.e. erfðafjárskýrslu og skiptayfirlýsingu, sé hins vegar lýst að arfinum hafi verið skipt í tvennt og hvergi minnst á dóttur stefndu í því sambandi. Telur stefnandi þá staðreynd staðfesta ásetning stefndu til að hafa fé af föður hennar. Faðir stefnanda hafi greitt helming erfðafjárskatts en einungis fengið í sinn hlut 1/3 af arfi. Stefnda hafi viðurkennt að hafa greitt dóttur sinni tvær milljónir vegna þessara búskipta. Stefnda hafi framkvæmt þá greiðslu og sé því gerð krafa um endurgreiðslu úr hennar hendi, 1.000.000 króna, sem sannanlega hefði átt að koma í hlut föður stefnanda.
Samkvæmt framansögðu er sundurliðun stefnukröfu þannig:
|
1. |
Úttektir stefndu af bankareikningi Sigurðar. Stefnda greiðir eigin reikninga og reikninga barna sinna. |
kr. 4.074.571 |
|
2. |
Stefnda tekur út peninga. |
kr. 1.781.036 |
|
3. |
Mismunur á sölu húsbréfa og kaupa á sparibréfum og Peningabréfum, lagður inn á reikn. stefndu |
kr. 1.400.000 |
|
|
Stefnda ráðstafar 1/3 af arfi foreldra til dóttur sinnar. Hlutur sem Sigurður hefði átt að fá |
kr. 1.000.000
|
|
|
Samtals |
kr. 8.255.607 |
|
Framfærslukostnaður Sigurðar árið 2000 (52.057 pr. mán) |
kr. 641.016 |
|
Framfærslukostnaður Sigurðar árið 2001 (57.088 pr. mán) |
kr. 703.476 |
|
Framfærslukostnaður Sigurðar árið 2002 (57.441 pr. mán) |
kr. 709.500 |
|
Framfærslukostnaður Sigurðar árið 2003 (60.174 pr. mán) |
kr. 742.920 |
|
Samtals framfærsla til frádráttar |
kr. 2.796.912 |
|
Samtals endurgreiðslukrafa |
kr. 5.458.695 |
Stefnandi krefst dráttarvaxta á stefnukröfuna frá 27. júní 2007 en þann dag hafi stefnandi þingfest mál þar sem krafist hafi verið bóta vegna ofangreindra fjárhæða. Gerir stefnandi því kröfu um dráttarvexti frá þingfestingardegi í fyrra málinu.
Um lagarök byggir stefnandi á almennum reglum samninga- og kröfuréttarins, og vísar bótakröfum sínum til stuðnings til 25. gr. sem og III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 30., 31. og 36. gr. Endurgreiðslukrafa stefnanda styðst auk þess við almennar reglur kröfuréttar sem og skaðabótaréttar, þ.m.t. sakarregluna.
Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur laga nr. 38/2001. Kröfu um málflutningsþóknun styður stefnandi við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og gjafsóknarleyfi dómsmálaráðuneytis.
III.
Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi geti ekki átt kröfu um að faðir hennar hegðaði sér með tilteknum hætti meðan hann lifði. Hann hafi verið fjár síns ráðandi og treyst sínum nánustu til þess að fara með fjármál sín. Það sé með öllu ósannað að hann hafi ekki haft skynbragð á fjármál sín eða verið til þess vanhæfur, enda hafi hann verið fjár síns ráðandi alla tíð. Það að stefnda hafi greitt reikninga í eigin þágu út af reikningi föður stefnanda segi ekki neitt um endurgjald það sem stefnda hafi lagt á móti. Stefnandi hafi ekkert um það að segja hvernig farið var með fjármuni föður hennar fyrir andlát hans og ljóst sé að fjármunirnir hafi verið notaðir til framfærslu hans og til uppgjörs við bróður sinn á arfi eftir foreldra. Fyrir liggi umboð, dags. 30. desember 2002, þar sem faðir stefnanda veiti stefndu ótakmarkað umboð til þess að sjá um fjárreiður sínar í Landsbankanum. Á umboði þessu séu engar takmarkanir og með tilliti til þeirra aðstæðna að stefnda hafi annast öll innkaup, greiðslur á tilfallandi reikningum og séð til þess að Sigurður hefði nægilegt reiðufé, sé ekki að sjá annað en að þeir fjármunir sem hafi runnið til Sigurðar á árunum 1999 til dánardags hans hafi verið notaðir í hans þágu að mestu leyti. Hafi stefnda nýtt sér fjármuni í eigin þágu þá hafi það verið með vitund og samþykki Sigurðar. Þar með eigi stefnandi ekki lögvarða kröfu á hendur stefndu.
Þá vísar stefnda til þess að stefnandi byggi á því að hún eigi skaðabótakröfu á hendur stefndu vegna þess að hún hafi með saknæmum hætti valdið sér tjóni. Tjónið eigi að vera fólgið í því að arfur hennar hafi skerst vegna háttsemi stefndu, þ.e. að hún hafi misnotað sér aðstöðu sína og beitt misneytingu gagnvart föður hennar. Stefnda mótmælir þessum málatilbúnaði sem röngum og ósönnuðum. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að faðir stefnanda hafi verið svo andlega vanheill að hann hafi ekki verið fær um að ákveða sjálfur hvernig farið var með fjármál hans. Þvert á móti hafi stefnda gripið til margra ráðstafana sem gerði stefnanda enn betur settan en ella hefði verið, bæði áður en móðir Sigurðar lést á árinu 1999 og fram að andláti Sigurðar.
Hvað varðar þrautavarakröfu um lækkun bótafjárhæðar, fallist dómurinn á að stefnda beri bótaábyrgð gagnvart stefnanda, er þess krafist að fjárhæð bóta verði færð verulega niður. Er í því sambandi í fyrsta lagi vísað til þess að í kröfugerð sé tvítalin upphæð vegna söluandvirðis húsbréfa Sigurðar og beri því ótvírætt að leiðrétta kröfugerð til lækkunar sem nemi 1.300.000 krónum. Í annan stað miði kröfugerð við að Sigurður heitinn hafi lifað á 58.269 krónum og sé það byggt á áætlun sem stafi frá stefnanda sjálfum. Því er mótmælt að þetta dómskjal verði lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Frá eftirstöðvum kröfunnar megi því einnig draga 482.462 krónur sem notaðar hafi verið til greiðslu á reikningum sem stílaðir voru á Sigurð sjálfan og móður hans. Stefnda byggir einnig á því að leiða megi líkur að því að eftirstöðvar kröfunnar, 3.676.233 krónur, hafi runnið til framfærslu föður stefnanda á tímabilinu frá andláti móður hans árið 1999 og þar til hann lést hinn 17. janúar 2004, eða í rúm fjögur ár. Sé miðað við fjögur ár séu það 76.588.187 (sic) á mánuði á þessu tímabili að meðaltali. Þá sé ekki tekið tillit til 300.000 króna sem vitað sé að hafi runnið til stefnanda. Þá er á því byggt að hafi fjármunir runnið til stefndu og fjölskyldu hennar hafi það verið með fullu samþykki og vitund Sigurðar Guðmundssonar.
Um lagarök vísar stefnda til almennra reglna kröfuréttarins, laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., lögræðislaga nr. 71/1997 og I. og II. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.
Málskostnaðarkrafan er byggð á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Í máli þessu er deilt um það hvort stefnda hafi hagnýtt án heimildar fjármuni föður stefnanda, Sigurðar Guðmundssonar heitins, til að standa straum af persónulegum útgjöldum sínum og fjölskyldu sinnar og í því skyni notfært sér andlega vanheilsu hans. Kröfugerð stefnanda í málinu tekur til tímabilsins 1. janúar 2000 til 1. janúar 2004, en Sigurður lést í byrjun þess árs þá tæplega 65 ára að aldri.
Þau læknisfræðilegu gögn sem fyrir liggja um andlega heilsu Sigurðar heitins eru fyrst og fremst vottorð Gunnsteins Stefánssonar læknis, annars vegar frá 17. september 1996, vegna umsóknar um örorkubætur, og hins vegar frá 19. mars 1997, vegna endurnýjunar umsóknar um örorkubætur. Vottorð þessi eru ekki byggð á athugun læknisins á Sigurði heldur lýsingu aðstandenda hins látna, nánar tiltekið stefndu og Pétri Lúðvíkssyni barnalækni. Samkvæmt þeirri lýsingu sem fram kemur í vottorðunum og öðrum gögnum málsins virðist sem Sigurður hafi verið haldinn geðklofa (schizophrenia) frá því hann var um þrítugt. Þrátt fyrir að hann hafi verið haldinn þeim sjúkdómi er ekki unnt að álykta sem svo að hann hafi verið ófær um að ráða fé sínu, en hann var alla tíð lögráða. Hann hélt sjálfur heimili en heimsótti foreldra sína daglega meðan þau voru á lífi og móðir hans annaðist fjármál hans þar til hún lést á árinu 1999. Þá fór hann vikulega og skráði sig vegna atvinnuleysisbóta og fór á skrifstofu verkalýðsfélags síns. Stefnandi bjó um tíma hjá föður sínum er hún var þrítug, á árunum 1996 til 1997. Hún segir að henni hafi þá orðið ljóst að faðir hennar væri alvarlega veikur og ófær um að sjá um sjálfan sig, en hún hlutaðist hvorki þá né síðar til um að hann fengi læknisaðstoð eða yrði sviptur sjálfræði eða fjárræði. Í bréfi landlæknis 30. október 2006 segir að í læknisfræðilegum gögnum um Sigurð komi ekkert fram um hæfi hans til að ráðstafa fjármálum. Ekki verður fram hjá því litið í máli þessu að í desember 2003 fór Lúðvík Ólafsson læknir á heimili Sigurðar og ræddi þar við hann. Niðurstaða athugunar læknisins var sú að ekki væru forsendur til að nauðungarvista Sigurð, en skilyrði þess eru þau að maður sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur taldar á að svo sé, eða ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Er því ekki unnt að fallast á með stefnanda að faðir hennar hafi fullnægt skilyrðum fyrir sjálfræðissviptingu eða álykta sem svo að hann hafi verið ófær um að bera skynbragð á fjárhagslegar ráðstafanir sínar. Samkvæmt þessu er málsástæðu stefnanda um misneytingu af hálfu stefndu því hafnað.
Stefnandi vísar jafnframt til 30. gr. laga um samningsgerð, umboð, og ógilda löggerninga nr. 7/1936, en ákvæðið fjallar um svik. Stefnandi gerir hins vegar ekki skýra grein fyrir því hvernig svikum hafi verið háttað og er með öllu ósannað að um svik hafi verið að ræða af hendi stefndu. Þá verður að hafna ásökunum stefnanda um fjárdrátt stefndu.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn einnig á því að allar fjárhagslegar ráðstafanir stefndu sem hún framkvæmdi á tímabilinu 1999 til 2002, áður en fékk skriflegt umboð frá Sigurði 30. desember 2002, hafi verið gerðar án umboðs frá honum. Á þetta er ekki fallist enda kemur fram í gögnum málsins að stefnda hafi haft frá árinu 1999 prókúruumboð á reikning Sigurðar hjá Landsbanka Íslands. Þannig hafði hún heimild til að taka út fé af reikningi Sigurðar. Frá 30. desember 2002 hafði stefnda svo heimild til að annast fjárreiður hans í Landsbankanum á grundvelli sérstaks umboðs. Stefnda verður hins vegar að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að henni hafi verið heimilt að ráðstafa fénu í eigin þágu eða fjölskyldu sinnar. Þá hefur hún í engu sýnt fram á að hún hafi lagt fram eigið fé í þágu Sigurðar sem réttlætt geti þessar ráðstafanir. Samkvæmt þessu er stefnda bótaskyld gagnvart stefnanda.
Stefnandi hefur lagt fram ýmsa reikninga stílaða á stefndu og fjölskyldu hennar, s.s. vegna síma, rafmagns, fasteignagjalda, bifreiðagjalda, skuldabréfa, happdrættismiða og framlaga til félagasamtaka. Með reikningunum fylgja viðskiptakvittanir frá Landsbanka Íslands sem sýna að þeir voru greiddir með úttektum stefndu af reikningi Sigurðar. Auk þess er um að ræða peningaúttektir stefndu af reikningi hans. Jafnframt hefur verið lögð fram samantekt löggilts endurskoðanda. Samkvæmt þeirri samantekt námu úttektir stefndu, sem ráðstafað var í þágu stefndu og fjölskyldu hennar, samtals 4.074.571 krónu. Peningaúttektir stefndu, sem ekki er vitað hvernig var ráðstafað, nema alls 1.781.036 krónum. Verður fallist á þessa kröfuliði stefnanda. Einnig verður að fallast á að stefndu beri að greiða 1.400.000 krónur sem lagðar voru inn á reikning stefndu vegna sölu húsbréfa. Ekki verður séð að sú fjárhæð sé tvítalin í kröfu stefnanda eins og stefnda heldur fram. Þá verður fallist á að stefndu beri að greiða stefnanda þá fjárhæð sem stefnda ráðstafaði til dóttur sinnar af arfi sem Sigurður átti að fá, 1.000.000 króna. Samtals er um að ræða 8.255.607 krónur og dregur stefnandi frá þessu 2.796.912 krónur sem hún áætlar sem framfærslukostnað sem Sigurður hafi haft frá árinu 2000 til ársins 2003. Þannig gerir stefnandi kröfu um að stefnda greiði henni 5.458.695 krónur, sem er stefnufjárhæð málsins.
Stefnandi byggir framfærslukostnað föður síns á eigin áætlun. Þannig telur hún að framfærslukostnaðar hans hafi numið 641.016 krónum árið 2000, 703.476 krónum árið 2001, 709.500 krónum árið 2002 og 742.920 krónum árið 2003. Samtals eru þetta 2.796.912 krónur. Stefnda mótmælir því harðlega að þessi áætlun verði lögð til grundvallar í málinu.
Eins og fram hefur komið var fyrra máli stefnanda á hendur stefndu, nr. E-1500/2007, vísað frá dómi vegna þess að á skorti að fyllilega væri gerð grein fyrir framfærslukostnaði sem kæmi til lækkunar á fjárkröfu stefnanda. Stefnandi höfðaði svo mál þetta og krafðist stefnda frávísunar vegna vanreifunar. Í úrskurði dómsins 6. febrúar 2009 er tekið undir með stefndu að þörf væri á því að varpa skýrara ljósi á málið hvað varðar framfærslukostnað Sigurðar heitins. Frávísunarkröfu var hins vegar hafnað í ljósi þess að það er á forræði stefnanda hvaða gögn hún færir fram til þess að sanna tjón sitt og gagnaöflun hafði ekki verið lýst lokið.
Stefnandi hefur hafnað því að fá dómkvaddan matsmann til að meta tjón sitt þar sem það sé erfiðleikum bundið að meta framfærslukostnað Sigurðar sem er fallinn frá. Stefnandi hefur hins vegar eftir uppkvaðningu úrskurðarins lagt fram frekari gögn, nánar tiltekið upplýsingar um verð á nokkrum vörutegundum sem faðir hennar hafi neytt og hún byggir áætlun sína á. Jafnframt hefur hún lagt fram upplýsingar frá Hagstofu Íslands um meðalneyslu einhleypings á árunum 2002 og 2003 á tilteknum neysluútgjöldum. Um er að ræða mat og drykkjarvörur, húsnæði, hita og rafmagn, tryggingar og lyf.
Stefnandi hefur sýnt fram á að bótagrundvöllur sé fyrir hendi og að hún hafi orðið fyrir tjóni. Þar sem torvelt er að meta hver hafi verið framfærslukostnaður föður hennar verða henni dæmdar bætur að álitum. Að mati dómsins vanáætlar stefnandi framfærslukostnað föður síns. Ætla má að framfærslukostnaður hans hafi verið nokkuð undir meðalneyslu einhleypings. Í gögnum þeim sem stefnandi hefur lagt fram frá Hagstofunni koma ekki fram upplýsingar um meðalneyslu ýmissa vörutegunda, s.s. áfengis og tóbaks, fatnaðar, heimilisbúnaðar, síma, blaða og sjónvarps. Með tilliti til þessa verður framfærslukostnaður ákveðinn að meðaltali 1.600.000 krónur á ári á því tímabili sem um ræðir, eða samtals 6.400.000 krónur sem koma þá til frádráttar 8.255.607 krónum. Samkvæmt framansögðu ber stefndu að greiða stefnanda 1.855.607 krónur. Með vísan til 2. málsliðar 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, verða dráttarvextir dæmdir frá dómsuppsögu.
Við ákvörðun málskostnaðar er óhjákvæmilegt að líta til þess að kröfum og málsástæðum stefnanda hefur verið hafnað í veigamiklum atriðum. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir því rétt að láta hvorn aðila bera sinn kostnað af málinu.
Stefnanda hefur verið veitt gjafsókn í málinu og því greiðist allur gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 900.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir ásamt geðlæknunum Tómasi Zoëga og Þórði Sigmundssyni. Uppkvaðning dómsins hefur dregist lítillega vegna sumarleyfa.
D ó m s o r ð:
Stefnda, Guðrún Björg Tómasdóttir, greiði stefnanda, Ingibjörgu Sigurðardóttur, 1.855.607 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá dómsuppsögu til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 900.000 króna málflutningsþóknun lögmanns hennar, Hildar Sólveigar Pétursdóttur hæstaréttarlögmanns.