Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-228

Jakob Már Ásmundsson, Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir, Sigrún Arnardóttir og Sölvi Sveinbjörnsson (Óskar Sigurðsson lögmaður)
gegn
Hafnarfjarðarkaupstað (Sigríður Kristinsdóttir lögmaður) og Gunnari Hjaltalín (Þórólfur Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sveitarfélög
  • Skipulag
  • Friðun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 19. júlí 2019 leita Jakob Már Ásmundsson, Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir, Sigrún Arnardóttir og Sölvi Sveinbjörnsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. júní sama ár í málinu nr. 763/2018: Jakob Már Ásmundsson o.fl. gegn Hafnarfjarðarkaupstað og Gunnari Hjaltalín, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hafnarfjarðarkaupstaður og Gunnar Hjaltalín leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar gagnaðilans Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. nóvember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar að Hellubraut 5 og 7 og ákvarðanir byggingarfulltrúa hans frá 23. ágúst 2017 um að samþykkja umsóknir um byggingarleyfi vegna lóðanna. Leyfisbeiðendur kveðast vera eigendur fasteigna að Hamarsbraut 6 og 8 sem liggi gegnt þessum lóðum en gagnaðilinn Gunnar Hjaltalín hafi óskað eftir fyrrnefndum byggingarleyfum og breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar. Reisa leyfisbeiðendur kröfur sínar á því að þessar ákvarðanir séu haldnar slíkum form- og efnisannmörkum að það varði ógildingu þeirra. Í þeim efnum vísa leyfisbeiðendur meðal annars til þess að breytingin á deiliskipulagi sé andstæð skilyrðum sem Minjastofnun hafi sett fyrir endurnýjun friðaðs húss á lóðinni að Hellubraut 7 auk þess sem hún fari gegn almennum skilmálum deiliskipulagsins og gildandi aðalskipulagi. Þá feli breytingin í sér óhóflega aukningu á nýtingarhlutfalli á lóðunum sem hvorki eigi sér fordæmi né geti talist málefnaleg. Telja leyfisbeiðendur að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Loks hafi málsmeðferð sveitarfélagsins verið í andstöðu við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Gagnaðilar voru sýknaðir af kröfum leyfisbeiðenda í héraði og fyrir Landsrétti.

Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi annars vegar þar sem taka þurfi afstöðu til þess hvort Minjastofnun hafi heimild til að binda leyfi til niðurrifs friðaðra húsa skilyrðum á grundvelli 29. og 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og hins vegar um heimildir sveitarfélaga til breytinga á deiliskipulagi. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Loks vísa leyfisbeiðendur til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa fordæmisgildi um framangreind atriði. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.