Hæstiréttur íslands

Mál nr. 822/2017

A, B (Valgeir Kristinsson lögmaður), C (enginn) og Valgeir Kristinsson (sjálfur)
gegn
Jóni Auðuni Jónssyni (sjálfur)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Skiptastjóri
  • Aðfinnslur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfum A, B og C, um að J yrði vikið úr starfi skiptastjóra í dánarbúi, var hafnað og A og B gert ásamt lögmanni sínum að greiða sekt í ríkissjóð vegna nánar tilgreindra ummæla og staðhæfinga í greinargerð. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að ekki væru efni til að víkja J frá störfum á grundvelli þeirra aðfinnsla sem höfð voru uppi um störf hans. Þá taldi Hæstiréttur að þótt þau ósæmilegu ummæli og staðhæfingar sem fram hefðu komið í greinargerð A og B væru stórlega aðfinnsluverðar, væru ekki alveg næg efni til að leggja á sektir eftir 135. gr. laga nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður samkvæmt því staðfestur um annað en greiðslu sektar til ríkissjóðs.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.  

Sóknaraðilarnir A og B skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. janúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. desember 2017 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði vikið úr starfi skiptastjóra í dánarbúi D. Kæruheimild var í 173. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

C hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

D lést [...] og er skiptum á búi hans enn ólokið, en varnaraðili var skipaður skiptastjóri 18. nóvember 2011. Í hinum kærða úrskurði er nokkurra dóma Hæstaréttar getið er varða þær deilur sem risið hafa um málefni búsins. Þá kemur fram í úrskurði héraðsdóms að þetta er ekki í fyrsta sinnið sem sóknaraðilar hafa borið fram kröfu í máli um að varnaraðila verði vikið úr starfi skiptastjóra í dánarbúinu. Fallist er á það með héraðsdómi að ekki séu efni til að víkja varnaraðila úr starfi sem skiptastjóra dánarbúsins vegna þeirra aðfinnslna um störf hans, sem sóknaraðilar hafa gert.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði eru í greinargerð sóknaraðilanna A og B í héraði viðhöfð ósæmileg ummæli og staðhæfingar. Þótt þetta sé stórlega aðfinnsluvert eru ekki alveg næg efni til að leggja á sektir eftir d. og e. liðum 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en greiðslu sektar til ríkissjóðs.

Sóknaraðilar, A og B, greiði óskipt varnaraðila, Jóni Auðuni Jónssyni, 600.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 15. desember 2017

Með bréfi A og B, dags. 24. ágúst 2017, erfingjum í dánarbúi D, var þess krafist: „að viðurkennd verði með úrskurði (dómi) fjárkröfur á hendur Jóni Auðunni Jónssyni hrl. vegna vanrækslu að innheimta og gera kröfu í greiðslu frá [...] að fjárhæð 75,000,000 sjötíu og fimm milljónir króna ásamt vöxtum og dráttarvöxtum til handa erfingjum sem eru eftirstöðvar á greiðslu fyrir eignarnám árin 1998 og 2000.“ Einnig var þess krafist að nýr skiptastjóri yrði skipaður.

Á fundi sem haldinn var vegna framkominna krafna, skv. 1. mgr. 47. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum, tók dómari þá ákvörðun að verða ekki við kröfu um frávísun skiptastjóra. Var krafist úrskurðar um þá ákvörðun, sbr. 3. mgr. 47. gr. laga nr. 20/1991, og þá þingfest þetta ágreiningsmál.

Sóknaraðilar eru A, kt. [...], með lögheimili [...], B, kt. [...],[...], og C, kt. [...], með lögheimili [...].

Varnaraðili er skiptastjóri dánarbús D, Jón Auðunn Jónsson hrl., Fjarðargötu 11, 220 Hafnarfirði.

Endanlegar dómkröfur sóknaraðila A og B eru þær að nýr skiptastjóri verði skipaður í dánarbúi D, í stað Jóns Auðuns Jónssonar hrl. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðilum málskostnað að mati réttarins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Sóknaraðili C gerir þær dómkröfur að skiptastjóra, Jóni Auðuni Jónssyni hrl., verði vikið úr starfi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.

Varnaraðili, Jón Auðunn Jónsson hrl., skiptastjóri, gerir þær dómkröfur að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að honum verði dæmdur óskiptur málskostnaður, að skaðlausu úr hendi allra sóknaraðila skv. mati dómsins.

Munnlegur málflutningur um framangreindan ágreining fór fram 29. nóvember sl. og málið þá lagt í úrskurð.

I

Málstæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðilar A og B telja að varnaraðili hafi ekki uppfyllt skyldu sína skv. 53. gr. og 54. gr. skiptalaga nr. 20/1991 um að taka yfir umráð og umsjá eigna búsins. Nú séu liðin fjögur og hálft ár frá því að Hæstiréttur hafi í máli nr. 701/2012 kveðið á um að dánarbúið ætti beinan eignarrétt í jörðinni [...]. Hafi skiptastjóri í engu hlutast til um skráningu jarðarinnar sem eign dánarbúsins eða breytt lögbýlisskráningu hennar, né hlutast til um að hlutum jarðarinnar sem tilheyri dánarbúinu sé skilað, og skiptastjóri hafi ekki komið í veg fyrir að lóðir úr landi dánarbúsins væru seldar til húsbygginga. Sóknaraðilar telja að afstaða varnaraðila sé sú að heimilt sé um ófyrirsjáanlega framtíð að selja lóðir úr ræktuðu og óræktuðu landi [...]. Hafi lóðir, sem komi fram í meðfylgjandi gögnum málsins, verið seldar án greiðslu og þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar til varnaraðila um að grennslast fyrir um það og gera athuganir á lóðarleigusamningum geri varnaraðili ekkert og telji ekkert athugavert við þessi viðskipti. Hafi varnaraðili fengið gögn í hendur í febrúar á þessu ári fyrir tilstuðlan sóknaraðila, en varnaraðili aðhafist ekkert.

Auk framangreinds hafi varnaraðili ekki óskað eftir leiðréttingu á ranglega þinglýstum gögnum hjá sýslumanni. Varnaraðila hafi borið að gera sýslumannsembætti viðvart um að kaupendur á lóðum úr dánarbúinu gætu átt það á hættu að þurfa að endurgreiða kaupverð til réttra eigenda. Hefði varnaraðila borið að gera könnun á því hvers vegna lóðir úr landi dánarbúsins væru nú þinglýstar eign E, F og systkina, sbr. hesthúsalóðir í [...] og lóðir úr ræktuðu heimatúni jarðarinnar.

Þá hafi varnaraðila borið að tilkynna [...] strax um að allar greiðslur vegna [...] ættu að greiðast til dánarbúsins þar til niðurstaða fengist í málefni búsins fyrir dómstólum. Í því sambandi megi benda á að [...] hafi greitt upp skuldabréf sem hafi verið gefið út í tengslum við eignarnámsbætur vegna jarðarinnar.

Sóknaraðilar telja að varnaraðili hefði, til að ljúka skiptum, átt að vera byrjaður að selja eignir dánarbúsins eins og sumarhús að [...], einbýlishús [...], sex bifreiðar og annað lausafé og einnig að selja þann hluta jarðarinnar sem eftir sé í eigu dánarbúsins. Einnig hefði varnaraðila borið að láta frysta allar bankainnistæður í umsjá E, ekkju G, og F sem hafi ranglega fengið greiðslur sem skipti milljörðum króna.

Sóknaraðilar benda á að í frumvarpi varnaraðila til úthlutunar, dags. 15. apríl 2014, sem hafi verið ógilt með dómi Hæstaréttar nr. 751/2014, komi fram sjónarmið varnaraðila um hvernig skipta eigi dánarbúinu, en þrátt fyrir það virðist varnaraðili ekki ætla að breyta afstöðu sinni í samræmi við dóminn. Í dómsorði komi fram að til þess að hægt sé að gera nýtt frumvarp skuli varnaraðili koma í verð þeim hluta jarðarinnar sem ennþá sé í eigu dánarbúsins, annaðhvort með beinni sölu eða með eignarnámssátt við [...]. Hafi varnaraðili ekkert gert í þessa veru eða athugað hversu mikinn fyrirfram greiddan arf G og F sonur hans hefðu tekið til sín í peningagreiðslum.

Sóknaraðilar telja að varnaraðili hafi ekki þekkingu á grundvallargildum erfðaréttar og vaði í villu um að F sé erfingi eða arftaki í dánarbúi arfláta. Þá teljist yfirlýsing F um að greiða alla vinnu varnaraðila á mjög gráu svæði.

Sóknaraðilar benda einnig á að varnaraðili hafi ekki í sex ár, þrátt fyrir lagaskyldu 49. gr. laga nr. 20/1991, gert skýrslur, hvorki til yfirvalda né erfingja. Varnaraðili hafi staðfest að vörslureikningur sé til vegna leigutekna sem hann innheimti en hafi ekkert upplýst um það gagnvart erfingjum eða skattayfirvöldum.

Með vísan til alls framangreinds, ásamt 47. og 48. gr. skiptalaga nr. 20/1991, verði ekki hjá því komist að krefjast þess að skipaður verði nýr skiptastjóri. Um lagarök er vísað til skiptalaga nr. 20/1991, einkum 46. gr., 49. gr., 54. gr. og 67. gr. þeirra laga.

---

Sóknaraðili C byggir á því að varnaraðili hafi gert frumvarp til úthlutunar þrátt fyrir að óleyst væri deila erfingja um hvort ráðstafa ætti beinum eignarrétti að jörðinni eftir ákvæðum erfðaskrár H frá 4. janúar 1938 eða lögerfðareglum. Þetta hafi varnaraðili gert þrátt fyrir dóm Hæstaréttar nr. 701/2012, og að í dómi Hæstaréttar nr. 740/2013 hafi verið lagt fyrir sýslumann að færa í þinglýsingabók nafn dánarbúsins sem eiganda jarðarinnar [...]. Jafnframt hafi þá verið óleystur ágreiningur um hvort G, E eða F hafi með réttu getað tekið við bótum vegna eignarnáms á landi [...], eða hvort slíkar bætur hefðu átt að renna til dánarbús arfláta vegna þess beina eignarréttar að jörðinni sem það hafi haft allan þann tíma sem opinberu skiptin á því hafi staðið yfir. Hafi Hæstiréttur staðfest framangreint með dómi sínum nr. 751/2014 um að það hafi verið ótímabært að leitast við að ljúka skiptum á þessum tíma.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hefði, þegar við skipun hans á árinu 2011, átt að leita vitneskju um þær eignir sem hafi tilheyrt dánarbúinu, sbr. 54. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Auk þess hefði hann tafarlaust átt að gera allar ráðstafanir sem nauðsynlegar hafi verið til að tryggja varðveislu eigna og taka við umráðum þeirra og umsjón. Varnaraðila hafi líka mátt vera það ljóst að [...] hafði þá tekið mikið land [...] eignarnámi og verið í skuld við dánarbúið vegna hins beina eignarréttar. Varnaraðili hafi hins vegar ekkert gert til að tryggja hagsmuni dánarbúsins gagnvart [...] sem hafi greitt eignarnámsbætur til F, sem engan rétt hafi átt til þeirra. Meðal annars hafi verið um að ræða eignarnámsbætur vegna 54,5 ha landspildu úr landi [...] og hafi [...] greitt F 180.000.000 króna, en varnaraðili ekkert gert til þess að ná þeim greiðslum undir dánarbúið, jafnvel ekki greiðslum sem hafi verið á gjalddaga eftir að hann tók við sem skiptastjóri árið 2011. Með framangreindu athafnaleysi hafi varnaraðili sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og kann að hafa bakað bótaskyldu gagnvart erfingjum dánarbúsins, sbr. 4. mgr. 48. gr. laga nr. 20/1991. Sóknaraðili og aðrir erfingjar dánarbúsins þurfi ekki að sæta því að skiptin á dánarbúinu verði áfram á hendi aðila sem kunni að hafa bakað búinu og þeim tjóni. Skiptastjóra sem vanræki starf sitt og hirði ekki um að tryggja hagsmuni dánarbúsins beri héraðsdómi að víkja úr starfi.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili eigi ekki eingöngu að huga að eigum dánarbúsins og tryggja að þær skili sér, heldur eigi hann einnig að sjá um reikningshald þess og gefa skýrslur til yfirvalda og erfingja um fjármuni dánarbúsins og rekstur þess eftir því sem þörf krefji, sbr. 1. og 2. mgr. 49. gr. laga nr. 20/1991. Varnaraðila hafi því borið að skila skattaframtölum vegna dánarbúsins, enda sé það skattskylt skv. 5. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé sóknaraðila ekki kunnugt um að varnaraðili hafi sinnt þeirri lögboðnu skyldu sinni.

Með vísan til framangreinds er byggt á því að Héraðsdómi Reykjaness beri að víkja varnaraðila úr starfi sem skiptastjóra í dánarbúinu og skipa skiptastjóra sem hafi lagalega þekkingu og áhuga á starfinu.

Um lagarök vísar sóknaraðili einkum til ákvæða V. og VI. kafla laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., einkum 47., 48., 49. og 54. gr. laganna. Krafan um málskostnað byggist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 og ákvæði XVII. kafla laganna.

II

Málstæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili bendir á í sinni greinargerð að á fundi í dánarbúinu þann 16. janúar 2012 hafi því verið lýst yfir af hálfu erfingja að þeir teldu ekki þörf á því að birta opinbera innköllun. Á fundi 9. febrúar 2012 hafi komið fram hjá erfingjum að þeir teldu allar kröfur á hendur hinum látna fyrndar hafi þær einhverjar verið. Þá hafi verið rætt á fundinum um ágreining erfingja og um það hvort einhverjar eignir væru í búinu og þá hverjar þær væru. Varnaraðili hafi vísað til forsendna sem fram komi í dómi Hæstaréttar nr. 375/2011; „Skiptir í því efni ekki máli þótt fyrir liggi að jörðin [...] er ekki lengur meðal eigna búsins.“ Hafi varnaraðili metið framangreind orð Hæstaréttar þannig að jörðin [...] væri ekki meðal eigna dánarbúsins. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012, frá 3. maí 2013, hafi síðan verið dæmt að beinn eignarréttur að jörðinni [...] væri enn á hendi dánarbúsins og ráðstafa þyrfti honum til að ljúka skiptum. Varnaraðili hafi í framhaldi af því, þann 21. maí 2013, ritað bréf til [...] þar sem hann hafi vakið athygli á niðurstöðu Hæstaréttar og krafist ítarlegra upplýsinga um viðskipti [...] við þinglýsta eigendur jarðarinnar og greiðslur til þeirra. Jafnframt hefði þess verið krafist að [...] felldi niður allar frekari greiðslur á grundvelli eignarnámssáttar sem [...] hafði gert og þær greiðslur sem kynnu að falla í gjalddaga yrðu varðveittar á vörslureikningi þar til skorið yrði úr því hver væri réttur viðtakandi. Hefði [...] ekki greitt F neitt frá því að varnaraðili hafi tekið við skiptastjórn í búinu í lok árs 2011. [...] hafi hins vegar greitt upp skuldabréf sem hafi verið gefið út vegna eignarnáms árið 2000. Það hafi [...] gert þrátt fyrir óvissu hvað varði eignarhaldið að jörðinni. Hafi þetta verið gert að eigin frumkvæði og á eigin ábyrgð [...] án nokkurs samráðs við skiptastjóra. Ljóst væri hins vegar að dánarbúið hefði ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna þessa og að skiptastjóri hafi gætt allra skyldna sinna til að verja það tjóni. Það sé alvarlegt mál að saka skiptastjóra um saknæma og ólögmæta hegðun sem grundvöll bótaskyldu hans gagnvart búinu, án þess að færa fyrir því nokkur rök og í raun án þess að sýna fram á að tjón hafi orðið.

Varnaraðili kveðst hinn 3. júní 2013 hafa ritað bréf til sýslumannsins í [...] og vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 701/2012 og lýst þeirri skoðun sinni að dómurinn kvæði á um eignarheimild yfir jörðinni [...] og þess óskað að skráning eignarinnar yrði færð til rétts vegar. Sú skráning hefði hins vegar ekki átt sér stað fyrr en eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 740/2013, en jörðin hafi síðan verið skráð eign dánarbúsins í þinglýsingabókum, sbr. 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Hafi þannig verið tryggð skráning jarðarinnar og engar ráðstafanir eða röskun átt sér stað frá þeim tíma. Á skiptafundi þann 14. júní 2013 hafi skiptastjóri upplýst lögmenn erfingja um að búið væri að óska eftir þinglýsingu og að óska eftir upplýsingum frá [...] um greiðslur eignarnámsbóta. Á sama fundi hefði varnaraðili tilkynnt að hann hygðist ekki ráðast í tilteknar aðgerðir sem fram hefðu komið í tillögum nokkurra erfingja, á þeim forsendum að mikil óvissa ríkti um það hverjum þau verðmæti tilheyrðu. Hafi það verið niðurstaða varnaraðila að þær ráðstafanir væru eingöngu heimilar þeim sem ættu hin beinu og/eða óbeinu eignarréttindi að jörðinni. Því væri nauðsynlegt að skera fyrst úr um það hverjum þessi réttindi tilheyrðu áður en ráðist væri í slíkar aðgerðir, en þær gætu valdið búinu stórkostlegu tjóni og varðað bæði við almenn lög og refsilög, reyndust þær heimildarlausar. Fyrr en niðurstaða um það atriði lægi fyrir væri ekki unnt að skera úr því hvernig atkvæðisréttur ætti að skiptast á milli erfingja í hlutföllum.

Varnaraðili bendir á að þrátt fyrir yfirlýsingu erfingja um að þeir hafi sjálfir ætlað að sækja fyrir dómstólum meintan rétt búsins á hendur [...] og F, hafi þeir engan reka gert að málarekstri fyrr en með stefnu í apríl 2014. Nefnt mál sé enn í rekstri fyrir héraðsdómi og matsvinna í gangi. Skiptum á búinu geti ekki lokið fyrr en niðurstaða fáist í því máli og sé það ekki á næstunni. Dánarbúið eigi enga aðild að málinu og geti engin áhrif haft á rekstur þess. Skiptastjóri hafi ítrekað boðið lögmönnum erfingja að halda skiptafund til að fara yfir gang skiptanna en það hafi ætíð verið afþakkað, enda talið óþarft og lögmenn sóknaraðila haft fullan skilning á því að ekkert væri gert í skiptum búsins, meðan ólokið væri framangreindu dómsmáli fyrir héraðsdómi.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar séu nú í þriðja sinn að bera sama ágreiningsefni fyrir dóm. Í Hæstaréttarmáli nr. 751/2014 hafi sóknaraðilar byggt kröfu sína um ógildingu frumvarps skiptastjóra m.a. á því að málsmeðferð hans hafi í ýmsum atriðum verið röng eða henni áfátt eða allt frá því að hann tók við skiptastjórn í nóvember 2011. Hafi þeir borið fyrir sig flest þau sömu atriði og málatilbúnaður þeirra nú byggist á. Þá hafi sóknaraðilar byggt á því að skiptastjóri hefði vanrækt að birta innköllun til kröfuhafa. Hæstiréttur hafi bent á að innköllun hefði verið birt á árinu 1968 og að lagaskilyrði væru ekki til þess að birta nýja innköllun og að ástæðulaust hafi verið fyrir skiptastjóra að kalla eftir afstöðu þeirra til þess hvort þeir gengjust við skuldum búsins, þar sem þær gætu engar verið vegna ákvæða laga um fyrningu.

Næst hafi sóknaraðilar A og B sett fram kröfu um að skiptastjóra dánarbúsins yrði vikið frá störfum og að nýr skiptastjóri yrði skipaður í hans stað, með bréfi til Héraðsdóms Reykjaness dagsettu 15. júní 2016. Hafi þau þá borið fyrir sig sömu ástæður og hér séu til meðferðar og sakað skiptastjóra um vanhæfni og að hafa ekki sinnt því að heimta verðmæti inn í búið eða komið í veg fyrir að verðmæti væru tekin ófrjálsri hendi úr búinu. Jafnframt að varnaraðili stefndi réttmætum eignum og hagsmunum búsins í viðsjárverða hættu að ófyrirsynju. Héraðsdómur hafi hafnað þessum málsástæðum öllum og rakið að gögn málsins sýndu ekki að eignir hafi verið seldar úr búinu, eingöngu leigulóðarréttindi sem heimilt væri að gera samkvæmt erfðaskrá. Þá hafi héraðsdómur hafnað því að sóknaraðilar hefðu sýnt fram á að skiptastjóri bæri ábyrgð á einhverju tjóni sem búið hafi orðið fyrir. Héraðsdómari hafi vikið að því að dómsmál væru í gangi vegna ágreinings á milli erfingjanna sem nauðsynlegt væri að ljúka. Komi fram í forsendum dómsins: „Að mati dómsins hafa sóknaraðilar ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að skiptastjóri hafi ekki sinnt hlutverki sínu á fullnægjandi hátt. Eru aðfinnslur sóknaraðila við störf skiptastjóra tilhæfulausar og er því hafnað að skiptastjóra verði vikið frá störfum.“

Í bréfi sóknaraðila til héraðsdóms nú, dagsettu 24. ágúst 2017, séu færð fram öll sömu rök og ástæður og sóknaraðilar byggðu á í fyrrgreindum Hæstaréttardómi og í fyrri kvörtun þeirra til héraðsdóms. Vísar varnaraðili til afstöðu Hæstaréttar og héraðsdóms til þessara ásakana um leið og þeim sé hafnað sem röngum. Það sé ámælisvert að sóknaraðilar skuli ítrekað, með aðstoð hæstaréttarlögmanna, bera sömu aðfinnslur og ásakanir á hendur skiptastjóra fyrir dómstóla. Það sé eingöngu fallið til þess að valda búinu tjóni auk þess sem það samrýmist ekki réttarfarslögum að bera sama ágreininginn sí og æ fyrir dómstóla, enda hafi ekkert breyst í stöðu búsins síðan héraðsdómur hafi síðast hafnað kröfum sóknaraðila. Enn sé deilt um hver eigi rétt til eignarnámsbóta fyrir dómstólum og hafi skiptastjóri engin ráð til að hafa áhrif á þann málarekstur. Engu að síður sé ljóst að skiptum verði ekki lokið á búinu fyrr en niðurstaða fáist í því máli. Meginatriðið sé þó það að erfingjar hafi sjálfir fengið að annast nefnd verkefni, en kvarti nú undan því að skiptastjóri hafi ekki unnið þau.

Varnaraðili telur að í raun komi aðeins fram ein ný athugasemd frá báðum sóknaraðilum sem ekki hafi komið fram áður og lúti að því að skiptastjóri hafi ekki talið fram til skatts fyrir dánarbúið. Bendir varnaraðili á að skattstjóri hafi fallist á þá niðurstöðu skiptaráðanda sem fram komi í bréfi dagsettu 15. ágúst 1969, að ekki væri unnt að gera skattskýrslu fyrir búið, enda hefði það engar tekjur. Ekkert hafi breyst í þessum efnum, og ekki heldur við dóma Hæstaréttar í nýgengnum málum. Búið hafi engar tekjur, enda renni þær allar til eiganda hins óbeina eignarréttar samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar sem er afdráttarlaus, sbr. einnig dóma Hæstaréttar í málum nr. 110/1967, 99/1968 og 167/2015. Greiðsla sem hafi borist frá einum lóðarleiguhafa hefði verið greidd til baka til eiganda afnotaréttar jarðarinnar [...].

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að ekki hafi verið skorið úr um það hvort hinn beini eignarréttur að landinu feli í sér fjárhagsleg verðmæti fyrir eiganda hans og þá hver þau séu. Staðan sé því óbreytt hvað þetta varði frá 1969. Engin leið sé til þess að telja fram þessa eign fyrir búið og ekki verði séð að það valdi neinu tjóni þótt það sé ekki gert. Engir fjármunir séu í búinu umfram tryggingu fyrir skiptakostnaði sem skiptabeiðendur hafi lagt fram í upphafi. Hafi beiðendur alfarið synjað kröfum skiptastjóra um að þeir greiddu frekar inn á skiptakostnaðinn. Skiptastjóri hafi haldið skrá yfir þá tíma sem hann hafi unnið í búinu og erfingjar hafi fengið afrit af henni þegar þeir hafi kallað eftir henni. Samtals hafi skiptastjóri nú unnið 374 tíma í þágu búsins án þess að fá nokkuð greitt. Hafa sóknaraðilar, sem beri sem skiptabeiðendur ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar, ekki sýnt fram á það með neinum hætti að tryggt verði að þeir efni þessa skyldu sína verði skiptastjóra vikið frá störfum og engin fullvissa þess að sá kostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Af framansögðu megi ljóst vera að engin rök standa til þess að víkja skiptastjóra dánarbúsins úr starfi, enda verði að telja málatilbúnað sóknaraðila þeim fyrst og fremst til vansa. Varnaraðili sé ausinn auri og borinn ásökunum um lögbrot sem enginn fótur sé fyrir auk þess sem fram komi alvarlegar ásakanir á hendur aðilum sem ekki eigi aðild að þessu máli. Alvarlegt sé að þessi málflutningur sé borinn fyrir dóm af hæstaréttarlögmanni. Varnaraðili telur að dóminum beri að líta til ákvæða d- og e- liða 1. mgr. 135. gr. einkamálalaga auk 2. mgr. þeirra laga, auk þess að líta til málatilbúnaðar sóknaraðila í heild við ákvörðun málskostnaðar.

Varnaraðili vísar til ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Hann vekur athygli dómsins á ákvæðum 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem hann telur að koma ættu til skoðunar dómara. Krafan um máls­kostnað styðst við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála, sbr. 2. mgr. 131. gr. skiptalaga nr. 20/1991. 

III

Niðurstaða

Sóknaraðilar byggja á því að varnaraðili hefði þegar á árinu 2011 átt að leita upplýsinga um eignir búsins. Samkvæmt gögnum málsins var fyrsti fundur um málefni dánarbúsins haldinn 16. janúar 2012. Á þeim fundi var þess óskað að hver og einn erfingi tæki afstöðu til þess hvort einhverjar eignir væru í búinu sem eftir væri að skipta. Erfingja töldu að jörðin [...] tilheyrði búinu en ekki var bent á aðrar eignir. Erfingjar töldu jafnframt ekki þörf á því að gefin yrði út opinber innköllun í þeim tilgangi að kalla eftir eignum búsins. Ekki hefur verið sýnt fram á að einhverjar eignir hafi verið skráðar á dánarbúið á þessum tíma eða að til staðar hafi verið aðrar eignir sem varnaraðili átti að vita um. Er nefndri aðfinnslu hafnað.

Sóknaraðilar vísa til þess að varnaraðila hafi borið að telja fram fyrir hönd búsins og þá vanti reikninga fyrir vinnuframlagi hans. Brjóti þetta gegn ákvæðum 49. gr. laga nr. 20/1991. Varnaraðili upplýsti að engir peningar eða vörslureikningar fyrir utan skiptatryggingu væru í búinu og liggur ekkert annað fyrir í málinu. Varnaraðili gerði grein fyrir innborgun vegna lóðarleigu sem honum hefði borist sem hann hefði millifært annað þar sem hann taldi þá leigu ekki tilheyra búinu. Þá upplýsti varnaraðili að búinu væri ekki skylt að telja fram þar sem það hefði engar tekjur og því væri ekki þörf á þeim reikningsskilum, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 20/1991. Hafa sóknaraðilar ekki sýnt fram á annað. Skiptum búsins er ekki lokið og því er ótímabært að gefa út reikninga vegna vinnu skiptastjóra. Þá verður af fundargerðum dánarbúsins eða gögnum málsins ekki séð að nokkru sinni hafi verið kallað eftir framangreindum upplýsingum eða athugasemdir verið gerðar um þessi atriði af hálfu sóknaraðila. Um þá athugasemd sóknaraðila að F hafi boðist til að greiða allan skiptakostnað dánarbúsins liggur ekkert fyrir um hvernig það tengist störfum skiptastjóra. Með vísan til þessa er framangreindri aðfinnslu hafnað.

Sóknaraðilar byggja á því að varnaraðili hafi ekki tryggt skráningu á réttindum dánarbúsins eftir dóm Hæstaréttar nr. 701/2012, þann 3. maí 2013, þar sem mælt var fyrir um að beinn eignarréttur að jörðinni [...] tilheyrði dánarbúinu. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að varnaraðili sendi bréf þann 3. júní 2013 til sýslumanns, þar sem óskað var eftir því að skráning í veðmálabókum yrði færð til samræmis við niðurstöðu Hæstaréttar og jafnframt að honum yrði látið í té afrit af þinglýstum skjölum á eigninni. Fyrir liggur að framangreind skráning á réttindum dánarbúsins var framkvæmd eftir dóm Hæstaréttar nr. 740/2013. Er framkominni aðfinnslu hafnað með vísan til þessa.

Á því er byggt að varnaraðili hafi ekkert gert til þess að tryggja hagsmuni búsins gagnvart [...]. Hafi [...] greitt eignarnámsbætur til F eftir skipan skiptastjóra í nóvember 2011, og með því kunni varnaraðili að hafa bakað erfingjum tjón, sbr. 4. mgr. 48. gr. laga nr. 20/1991. Þá hafi [...] greitt upp lán sem [...] hafði tekið vegna þessa. Í málinu liggur fyrir afrit bréfs, dags. 21. maí 2013, sem varnaraðili ritaði til [...] eftir dóm Hæstaréttar nr. 701/2012. Í bréfinu er þess krafist að [...] felli niður allar frekari greiðslur til F og greiði þess í stað inn á geymslureikning þangað til skorið verði úr um afdrif hins beina eignarréttar. Varnaraðili hefur upplýst að engar greiðslur hafi verið greiddar af hálfu [...] eftir þetta tímamark og liggur ekkert annað fyrir í málinu en að þær upplýsingar varnaraðila séu réttar. Óútskýrt er af hálfu sóknaraðila með hvaða hætti uppgreiðsla [...] á skuld sem [...] stóð í við þriðja aðila hafi getað valdið dánarbúinu tjóni eða hvernig sú ákvörðun [...] tengist störfum varnaraðila. Liggur því ekkert fyrir um að varnaraðili hafi valdið dánarbúinu eða erfingjum tjóni skv. nefndu lagaákvæði. Með vísan til framangreinds er þessari aðfinnslu hafnað.

Í máli sóknaraðila var að nokkru vikið að því hversu stór hluti jarðarinnar [...] sé í ræktuðu eða óræktuðu landi og hver væru grunnréttindi bónda. Að mati dómsins eru engar forsendur til að taka afstöðu til þess í þessu ágreiningsmáli hvort jörðin uppfylli skilyrði lögbýlisskráningar eða ekki og þá hvort það hafi verið aðfinnsluvert af hálfu varnaraðila að aðhafast ekkert í því.

Fyrir dóminn var lagður nokkur fjöldi skjala er varða lóðarleigusamninga um lóðir úr jörðinni [...]. Að mati sóknaraðila hefði varnaraðili eftir dóm Hæstaréttar í maí 2013 átt að hlutast til um það að þessum lóðum væri skilað inn í dánarbúið og að koma í veg fyrir að lóðir úr landi dánarbúsins væru seldar. Varnaraðili upplýsti að engar ráðstafanir hafi átt sér stað eftir þann tíma sem hefðu raskað réttindum búsins. Liggur ekki annað fyrir en að það sé rétt. Ágreiningur er hins vegar meðal erfingja í dánarbúinu um það hverjum hin óbeinu eignarréttindi tilheyri og þar með heimild til að ráðstafa óbeinum eignarrétti með lóðarleigusamningum. Varnaraðili telur nauðsynlegt að skera úr um þann ágreining áður en ráðist er í slíkar aðgerðir, enda gætu þær valdið búinu stórkostlegu tjóni og varðað bæði við almenn lög og hegningarlög, reyndust þær heimildarlausar. Upplýst er að þessi ágreiningur sé nú fyrir Héraðsdómi Reykjaness, honum er ólokið og varnaraðili á enga aðild að því máli. Meðan því máli er ólokið er ekki hægt að fallast á aðfinnslu sóknaraðila um meinta verkfælni eða þekkingarleysi varnaraðila á lögum.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. Q-8/2016 var tekið á nokkrum þeirra aðfinnsla sem nú koma fram. Ekki þykir ástæða til að fjalla um þær aðfinnslur að nýju eins og aðfinnslur er varða gerð frumvarps að úthlutun úr búinu á árinu 2014.

Að mati dómsins hafa sóknaraðilar ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að varnaraðili hafi ekki sinnt hlutverki sínu á fullnægjandi hátt. Eru aðfinnslur sóknaraðila við störf skiptastjóra ekki á rökum reistar og með vísan til alls framangreinds er því hafnað að skiptastjóra verði vikið frá störfum.

Með vísan til niðurstaðna málsins, ásamt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., verður sóknaraðilum, A, B og C, gert að greiða sóknaraðila, Jóni Auðuni Jónssyni hrl., óskipt 600.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Varnaraðili telur að dóminum beri að líta til ákvæða 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hvað varðar málatilbúnað sóknaraðilanna A og B í heild sinni sem borinn sé fram af Valgeiri Kristinssyni hæstaréttarlögmanni. Í málinu sé varnaraðili ausinn auri og borinn ásökunum um lögbrot og um að draga taum ákveðinna erfingja. Þá komi fram svívirðingar um menn og málefni, sérstaklega lögmann eins erfingja í dánarbúinu sem ásakaður sé um fjölda refsiverðra brota.

Greinargerð sóknaraðila A og B er undirrituð af A og Valgeiri Kristinssyni fyrir hönd sóknaraðilans Bog var málið flutt af Valgeiri Kristinssyni fyrir hönd þeirra beggja. Eftirfarandi kemur meðal annars fram í greinargerð sóknaraðila:

2.06. „Að mati sóknaraðila er leynt og ljóst verið að tæma eignir dánarbúsins innanfrá með ólöglegri sjálftöku með hjálp lögmanns erfingjans G ...“

2.09 „... telja sóknaraðilar að I hrl. hafi gerst fjárhaldsmaður F og raunverulega sé F sviptur fjárræði og sjálfræði.“

4.00 „Listi yfir lögbrot skiptastjórans atvikalýsing á aðgerðarleysi hans:“

4.09 „Skiptastjóri ætti að setja rannsókn í gang með hvaða hætti eignarhaldsfélagið J ehf. þar sem lögmaðurinn I hrl. er í viðskiptasamböndum með skjólstæðingi sínum F en þeir selja síðan félagið til [...]. Samkvæmt lögum frá 1926 er óheimilt að selja hlunnindi undan jörðum og samkvæmt siðareglum lögmannafélagsins er ekki ætlast til að lögmenn blandi saman viðskiptum með skjólstæðingum sínum.“

4.10 „Hvernig fóru viðskipti fram með lóðir í eigu dánarbúsins, eins og t.d. í eigu fyrrverandi [...], K og núverandi [...]?“

4.11 „Hversu náin eru samskipti I hrl. og L [...] hjá sýslumanni? Er það meira en skólasystkini, nágrannar og vinir? Ekki verður annað sé en að [...] þinglýsi ranglega útbúnum skjölum ... . Ekki er nóg með að fjölskyldan [...] steli eignum dánarbúsins heldur er hrópandi stuldur á öllum skattgreiðslum, allt í boði lögmannsins I hrl.“

4.14 „Sóknaraðilar telja F ekki fjárráða eða sjálfráða og raunverulegur umráðamaður jarðarinnar [...] vera lögmanninn I hrl.“

4.15 „Skiptastjóri hefur upplýst sóknaraðila um að hann sæki lögfræðiráðgjöf til fyrrverandi [...] hr. M sem sóknaraðilum finnist óviðeigandi og opinberun á vankunnáttu á erfðalögum og lögum um skiptingu á dánarbúum.“

Framangreindar staðhæfingar og ósæmileg skrif eru ámælisverð, eiga ekkert erindi í þetta mál og eru að engu hafandi. Með vísan til d- og e- liða 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 135. gr., verður sóknaraðilum A og B ásamt Valgeiri Kristinssyni hæstaréttarlögmanni gert óskipt að greiða 300.000 króna sekt sem renni í ríkissjóð.

Úrskurðinn kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð.

      Kröfu sóknaraðila, A, B og C, um að varnaraðila, Jóni Auðuni Jónssyni hrl., skiptastjóra í dánarbúi D, verði vikið frá störfum, er hafnað.

      Sóknaraðilar greiði varnaraðila óskipt 600.000 krónur í málskostnað.

Sóknaraðilar A og B ásamt Valgeiri Kristinssyni hrl., greiði óskipt 300.000 sekt í ríkissjóð.