Hæstiréttur íslands
Mál nr. 381/2008
Lykilorð
- Málsástæða
- Gagnkrafa
- Ómerking héraðsdóms
- Dómur
|
|
Fimmtudaginn 5. mars 2009. |
|
Nr. 381/2008. |
Óskar Ásgeirsson(Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Helgu Bjarnadóttur (Guðni Á. Haraldsson hrl.) og gagnsök |
Málsástæður. Gagnkröfur. Ómerking héraðsdóms. Dómur.
Með kaupsamningi 24. janúar 2006 keypti H fasteign S af Ó fyrir 40.000.000 krónur. H hélt því fram að gallar hefðu verið á fasteigninni og að þeir hefði komið í ljós fljótlega eftir afhendingu. Vegna þessa galla hélt H eftir 2.000.000 krónum af þeirri fjárhæð sem hún átti eftir að greiða samkvæmt kaupsamningi. Ó höfðaði mál þetta til heimtu eftirstöðva kaupverðsins. H hafði uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar og taldi sig eiga rétt á skaðabótum eða afslætti samkvæmt tilgreindum ákvæðum laga nr. 40/2002. Því til stuðnings lagði hún fram matsgerð dómkvaddra manna. Matsgerðin tók til fjölmargra atriða, sem óskað hafði verið mats á vegna þess að um meinta galla væri að ræða og tekin afstaða til þess hvað kosta myndi að bæta úr þeim. Við munnlegan málflutning málsins fyrir Hæstarétti kvaðst Ó hafa í málflutningi í héraði haft uppi efnisvarnir gegn kröfuliðum í matsgerðinni og einkum hefði hann byggt á reglu 2. ml. 18. gr. laga nr. 40/2002 um gallaþröskuld, svonefndrar skoðunarskyldu kaupanda, rétt seljanda til úrbóta á galla, tilkynningarskyldu kaupanda vegna galla og tómlæti vegna vanrækslu á henni svo og um skyldu kaupanda til að takmarka tjón sitt og um lækkun skaðabóta. Engin grein var gerð fyrir þessum andmælum Ó í héraðsdómi. Þá var heldur ekki getið um þá málsástæðu H að um neytendakaup væri að ræða. Þetta var talið fara í bága við e. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Ekki var heldur tekin afstaða til einstakra þátta sem um var fjallað í matsgerð, né einstakra töluliða, heldur var á hana fallist í heild sinni án sérstaks rökstuðnings. Ekki var tekin afstaða til þess hvers vegna skilyrði væru til að taka kröfur H til greina, annars vegar um skaðabætur eða afslátt, sem hún reisti að mestu á matsgerðinni eða um skaðabætur fyrir óbeint tjón, en sömu skilyrði um rétt til greiðslna eiga ekki við samkvæmt þessum lagaákvæðum. Ennfremur var ekki fjallað um í héraðsdómi hvort skilyrði væru til að líta framhjá reglu um gallaþröskuld í 2. ml. 18. gr. laga nr. 40/2002, og ekki með fullnægjandi hætti tekin afstaða til þeirrar málsástæðu Ó, að hann hefði ekki átt þess kost að bæta úr göllum, sbr. 39. gr. laganna. Þetta var allt talið fara í bága við f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Vegna þessara annmarka á hinum áfrýjaða dómi var óhjákvæmilegt að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2008. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmd til þess að greiða honum 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 10.500.000 krónum frá 15. apríl 2006 til 10. maí sama ár, en af 2.000.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 16. september 2008. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, en til vara að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu eftirstöðva kaupverðs íbúðar á efri hæð ásamt bílskúr og hlutdeild í sameign í húsinu nr. 31 við Safamýri í Reykjavík. Gagnáfrýjandi hafði keypt fasteignina af honum með kaupsamningi 24. janúar 2006 fyrir 40.000.000 krónur, sem greiðast skyldu með nánar umsömdum hætti, meðal annars skyldi greiða 10.500.000 krónur 15. apríl 2006. Á söluyfirliti sem notað var til kynningar á fasteigninni kemur meðal annars fram að húsið væri allt nýstandsett að utan og málað. Að innan væri íbúðin einnig öll nýstandsett, þar með talið rafmagn og rafmagnslagnir, ofnar og ofnalagnir, allar innréttingar og hurðir, gólfefni og öll tæki í eldhúsi og baði væru ný. Samkvæmt kaupsamningi skyldi fasteignin afhent við undirritun hans. Gagnáfrýjandi kveður ýmsa galla á fasteigninni hafa komið í ljós fljótlega eftir afhendingu og hafi hún gert ýmsar athugasemdir við áfrýjanda vegna þeirra. Hún hélt eftir 2.000.000 krónum af þeirri fjárhæð sem hún átti að greiða samkvæmt kaupsamningi 15. apríl 2006.
Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu síðast greindrar fjárhæðar. Rökstyður hann kröfu sína meðal annars með því að fram hafi komið athugasemdir af hálfu gagnáfrýjanda ,,án haldbærra gagna, sem stefnanda gafst ekki kostur á að líta á og eftir atvikum lagfæra“. Kveðst hann gera kröfu um réttar efndir kaupverðsins og vísar um það til 49. gr. og 50. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup.
Í héraðsgreinargerð gagnáfrýjanda kemur fram í lýsingu hennar á málsástæðum og réttarheimildum að hún telji sig hafa keypt algerlega endurnýjaða íbúð og bílskúr. Hafi aðaláfrýjandi ábyrgst að íbúðin væri sem ný. Standist fasteignin ekki þær kröfur sem gera megi til hennar miðað við 18. gr. laga nr. 40/2002. Hún sé gölluð í skilningi 27. gr. sömu laga. Einnig er á því byggt í greinargerðinni að um neytendakaup sé að ræða, sbr. 19. gr. laga nr. 40/2002 og eigi því fasteignin að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar hafi verið í lögum, stjórnvaldsreglum eða fyrirmælum reistum á þeim, þegar hún var endurbyggð. Gagnáfrýjandi telur sig eiga rétt á skaðabótum eða afslætti samkvæmt tilgreindum ákvæðum laga nr. 40/2002. Hún krefst jafnframt sýknu af kröfu aðaláfrýjanda um dráttarvexti þar sem hún hafi haft heimild samkvæmt 44. gr. laga nr. 40/2002 til þess að neyta stöðvunarréttar og þurfi þess vegna ekki að greiða dráttarvexti, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2001. Í greinargerð hennar kemur einnig fram að hún hafi fengið dómkvadda menn til þess að meta umfang afsláttar eða skaðabóta.
Á dómþingi 3. desember 2008 lagði gagnáfrýjandi fram matsgerð tveggja matsmanna 30. nóvember 2007. Matsgerðin tekur bæði til fasteignar gagnáfrýjanda og íbúðar á neðri hæð auk bílskúrs, sem Ólafur Ingi Baldvinsson og Margrét Héðinsdóttir höfðu keypt af aðaláfrýjanda, en þau deila einnig við hann vegna meintra galla á fasteigninni. Um þann ágreining er fjallað í hæstaréttarmálinu nr. 380/2008. Matsgerðin tekur til fjölmargra atriða, sem óskað hafði verið mats á vegna þess að um meinta galla væri að ræða og er tekin afstaða til þess hvað kosta myndi að bæta úr þeim. Er bæði fjallað um meinta galla á séreign og sameign hússins. Skipta matsliðir tugum og varða ýmist tilvik þar sem frágangi er ekki talið lokið eða að verkinu sé ábótavant. Veigamesti matsliðurinn snertir ýmsa vankanta á bílskúr. Matsmenn telja, miðað við verðlag í apríl 2006, að kostnaður við úrbætur á hinum meintu göllum nemi 2.188.598 krónum með virðisaukaskatti en 1.757.882 krónum án virðisaukaskatts. Gagnáfrýjandi lagði fram í þinghaldi 28. mars 2008 yfirlit um einstaka liði kröfu sinnar. Samkvæmt því taldi hún gagnkröfu sína nema 2.524.043 krónum, sem hún reisi einkum á matsgerð hinna dómkvöddu manna auk þess sem hún eigi kröfu til skaðabóta fyrir óbeint tjón, samkvæmt b. lið 2. mgr. 59. gr. laga nr. 40/2002, vegna afnotamissis af bílskúr í 17 mánuði, 595.000 krónur. Samtals telur hún sig eiga gagnkröfu að fjárhæð 3.119.043 krónur og krefst því sýknu í málinu þar sem hún sé hærri en krafa aðaláfrýjanda.
II
Í hinum áfrýjaða dómi er málsatvikum lýst í stuttu máli. Gerð er grein fyrir dómkvaðningu matsmanna sem áður er nefnd. Því næst er tekið orðrétt upp úr matsgerð á 6 blaðsíðum í dóminum, það sem lýtur að fasteign gagnáfrýjanda, án nokkurrar úrvinnslu. Þá er í stuttu máli gerð grein fyrir helstu málsástæðum aðila og tilgreindir þeir, sem gáfu skýrslur við aðalmeðferð málsins og hvað hafi helst komið fram í skýrslunum. Í kafla í dóminum sem nefndur er ,,ályktunarorð“ er í stuttu máli gerð grein fyrir lýsingu á fasteigninni í söluyfirliti og kauptilboði, sem til þess vísar, og að því búnu vikið að dómkvaðningu matsmanna og niðurstöðu þeirra í viðbótarmatsgerð. Þá er sagt vera óumdeilt að ógreitt sé af kaupverði 2.000.000 krónur. Um vanefnd sé þó einnig að ræða af hálfu aðaláfrýjanda þar sem hann hafi ekki afhent eignina fullkláraða eins og um hafi verið samið og ekki sýnt fram á með rökstuddum og trúverðugum hætti að gagnáfrýjandi hafi komið í veg fyrir að hann lyki verkinu. Þá segir: ,,Telja verður því að stefnda eigi rétt á afslætti, sbr. ákvæði 41. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002. Að áliti dómsins, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmönnum, og með vísun til matsgerðar dómkvaddra matsmanna og jafnframt með hliðsjón af öðrum gögnum málsins þykir mega jafna kröfufjárhæð stefnanda við ætlaðan kostnað stefndu við að ljúka endurbótum og endurnýjun á eigninni til samræmis við lýsingu eignarinnar í umræddu söluyfirliti. Samkvæmt framansögðu verður stefnda sýknuð af kröfum stefnanda.“
III
Eins og fram er komið er krafa aðaláfrýjanda óumdeild en gagnáfrýjandi hefur uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar sem aðaláfrýjandi hefur mótmælt. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kvaðst aðaláfrýjandi hafa í málflutningi í héraði haft uppi efnisvarnir gegn kröfuliðum í matsgerðinni. Einkum hefði verið byggt á reglu 2. málsliðar 18. gr. laga nr. 40/2002 um gallaþröskuld, á því sem hann nefndi skoðunarskyldu kaupanda, rétt seljanda til úrbóta á galla, tilkynningarskyldu kaupanda vegna galla og tómlæti vegna vanrækslu á henni svo og um skyldu kaupanda til að takmarka tjón og um lækkun skaðabóta. Engin grein er í héraðsdómi gerð fyrir þessum andmælum aðaláfrýjanda. Ekki er heldur að neinu marki fjallað um þær málsástæður sem hann annars teflir fram gegn kröfu gagnáfrýjanda. Þá er heldur ekki getið um þá málsástæðu gagnáfrýjanda að um neytendakaup sé að ræða. Fer þetta í bága við e. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er í héraðsdómi ekki tekin afstaða til einstakra þátta sem um er fjallað í matsgerð heldur virðist dómurinn fallast á matsgerðina í heild án sérstaks rökstuðnings. Ekki er heldur tekin afstaða til einstakra töluliða í matsgerðinni og ekkert að því vikið hvort heildarfjárhæð matsgerðar 2.188.598 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, skuli lækka vegna réttar til endurgreiðslu á 60% greidds virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Í matsgerðinni er að finna ábendingu sem að þessu lýtur. Fyrir liggur að krafa gagnáfrýjanda er tvíþætt. Annars vegar um skaðabætur eða afslátt, sem hún reisir á matsgerðinni, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. og 41. gr. laga nr. 40/2002, og hins vegar um skaðabætur fyrir óbeint tjón samkvæmt b. lið 2. mgr. 59. gr. laganna. Ekki eiga við sömu skilyrði um rétt til greiðslna samkvæmt þessum lagaákvæðum. Engin afstaða er tekin til þess hvers vegna skilyrði séu til að taka kröfu reista á þessum reglum til greina. Ekkert er í héraðsdómi vikið að þeim kröfulið gagnáfrýjanda sem lýtur að óbeinu tjóni og hvort á hann sé fallist. Þá er ekki fjallað um hvort skilyrði séu til að líta framhjá reglu um gallaþröskuld í 2. málslið 18. gr. laga nr. 40/2002 og ekki með fullnægjandi hætti tekin afstaða til þeirrar málsástæðu aðaláfrýjanda, sem fram kemur í héraðsstefnu, að hann hafi ekki átt þess kost að bæta úr göllum, sbr. 39. laganna. Fer þetta allt í bága við f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.
Vegna þessara annmarka á hinum áfrýjaða dómi er óhjákvæmilegt að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. mars 2008, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Óskari Ásgeirssyni, kt. 120941-4299, Rauðagerði 8, Reykjavík, á hendur Helgu Bjarnadóttur, kt. 071259-4989, Safamýri 31, Reykjavík, með stefnu er birt var 22. júní 2007.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 10.500.000 kr. frá 15. apríl 2006 til 10. maí 2006, en þá af 2.000.000 kr. frá 10. maí 2006 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. apríl 2007, en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefndu eru aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Helstu málavextir eru að aðilar gerðu með sér kaupsamning, hinn 24. janúar 2006, þar sem stefnandi seldi stefndu íbúð á annarri hæð ásamt bílskúr í húsinu nr. 31 í Safamýri í Reykjavík. Kaupverðið var ákveðið 40.000.000 kr. sem greiðast átti á eftirfarandi hátt: Við undirritun kaupsamnings 4.500.000 kr. Með skuldabréfi, að fjárhæð 25.000.000 kr. með veði í eigninni, er greiðast skyldi með 484 mánaðarlegum afborgunum. Þá átti stefnda að greiða stefnanda 10.500.000 kr. hinn 14. apríl 2006. Afhendingardagur eignarinnar var sama dag og kaupsamningur aðila var undirritaður.
Stefnda greiddi stefnanda 4.500.000 kr. við undirritun kaupsamnings og afhenti stefnanda skuldabréf að fjárhæð 25.000.000 kr. eins og um var samið. Þá greiddi stefnda stefnanda að lokum 8.500.000 kr. hinn 10. maí 2006.
Fyrir liggur í málinu að Auðunn Elíson, húsasmiður og byggingafræðingur og Freyr Jóhannesson byggingatæknifræðingur voru dómkvaddir, hinn 26. október 2007, til að meta og virða galla, frágang og ólokna verkþætti við íbúðir og bílskúra í húsinu nr. 31 við Safamýri í Reykjavík. Matsbeiðendur voru stefnda, Ólafur Ingi Baldvinsson og Margrét Héðinsdóttir, er keypt höfðu af stefnanda neðri hæð ásamt bílskúr í húsinu. Matsgerðin er dagsett 30. nóvember 2007. Þar segir undir fyrirsögninni 4.0 Umfjöllun og niðurstöður matsmanns.
Fasteignin að Safamýri 31, Reykjavík er þríbýlishús á þremur hæðum og er samkvæmt upplýsingum frá FMR byggt 1966 en bílskúrar byggðir 2004. Húsið stendur innst í botnlaga við Safamýri. Samkvæmt eignarskiptasamning þá skiptast eignarhluti matsbeiðanda í Húsi:
Fastanúmer 201-4177, 02-01. Hlutfallstala er 34,21% í sameign allra, hús og lóð og 51,11% í sameign allra í mhl. 02 (bílskúr)
Fastanúmer 201-4178, 03-01. Hlutfallstala er 35,57% í sameign allra, hús og lóð og 49,89% í sameign allra í mhl. 02 (bílskúr)
Þá segir í matsgerðinni undir fyrirsögninni 5.0 Niðurstöður:
Matsmenn skipta matsspurningum upp í þá þætti sem fjallað er um í hverjum liði. Hverjum lið er gefið númer með tilliti til höfuðnúmers. Er þetta eingöngu gert til aðgreiningar á verkþáttum.
Þegar matsmenn skoðuðu vettvang öðru sinni kom í ljós að ekki var einangrun undir dúk á þaki heldur um 10 mm þykkt fyllt efni.
Þá segir í matsgerðinni undir fyrirsögninni 7.0 Safamýri 31, efri hæð og bílskúr.
7.1 Dyrasími
7.1.1 „Hvort kostnaður við lagfæringu á dyrasíma teljist eðlilegur en hann nam kr. 92.379 skv. greiðslukvittun frá Jóni Jónssyni, löggiltum rafverktaka, fyrir efri og neðri hæð. Þess er óskað að matsmenn fái viðgerðarlýsingu frá þeim sem sá um verkið.“
Matsmenn skoðuðu reikning Jóns Jónssonar rafverktaka og telja að kostnaður sem þar er tilgreindu sé innan þeirra marka sem matsmenn telja eðlilegan fyrir þá vinnu.
Matsmenn ræddu við Jón Jónsson rafvirkja 28.11.2007 og fengu viðgerðarlýsingu á þeirri framkvæmd sem ofangreindur reikningur er fyrir. Þegar Jón kemur til verksins þá er „frontur“ á útstöð en enginn búnaður á bak við hann. Draga varð streng frá töflu og dýrasímaboxi, setja upp nýjan spenni, í aðaltöflu, setja nýja hátalaraeiningu við útstöð og setja nýja dyrasíma í íbúðirnar. Búið var að setja dyrasíma í íbúðina uppi en sá sími var fyrir tveggja víra tengingu en það gekk ekki saman við það sem sett var upp.
7.2 Svefnherbergi
7.2.1 „Að matsmenn skoði og meti orsök leka í útvegg við svalir og meti kostnað við lagfæringu. Að matsmenn meti hvað ný svalahurð kosti og hvað það kosti að rífa þá niður sem fyrir er og setja upp nýja hurð.“
Við skoðun kom í ljós að rakablettir eru á útvegg svefnherbergis. Um er að ræða rakabletti á vegg móti suðri beggja vegna glugga en í honum er svalahurð.
Matsmenn telja víst að leki komi frá gluggum og þéttingum með þeim. Greinilegt var að hluti hliðar- og botnstykkja gluggans er verulega fúinn. Þar sem svo mikill fúi er í gluggaefni en illmögulegt er að þétta gluggann.
Svalhurð er ekki nýleg og er ekki með þeim styrkleika sem svalahurð þarf að hafa. Þó svo hurð sé læst þarf ekki að þrýsta mikið á hana til að þar að hún gapi í falsi.
Taka þarf gler úr gluggum, fjarlægja hluta karms- og botnstykkja og setja nýtt efni í stað þess sem var fjarlægður. Gluggi er síðan glerjaður og málaður bæði að utan og innan. Taka þarf hurð úr og setja nýja hurð með þriggja punkta læsingu ásamt hurðarhúnum.
Matsverð er: Akstur, efni og vélar 146.200 kr. Vinna 225.600 kr. Samtals 371.800 kr.
7.3 Þakskegg
7.3.1 „Að matsmenn meti kostnað við fullnaðarfrágang á þakskeggi.“
Matsmönnum var bent á að frágangur þaks á norðurhlið hússins en þar vantar áfellu á þakskegg vegna stöllunar á þaki.
Mæla þarf fyrir nýrri áfellu, smíða á blikksmíðaverkstæði og fara upp á þak og festa fyrrnefnda áfellu.
Þakkantur, eignarhluti 35,57% Sjá lið 9.9.2
7.4 Forstofa
7.4.1 „Gluggi í forstofu. Móða á milli glerja og lokast illa.“
Gluggi í forstofu er nýlegur og opnanlegt fag sem er við stigapall er brotið og móða er milli glerja. Einnig er opið fag stíft í falsi þannig að erfitt er að opna það og loka.
Tak þarf gler úr fagi og endurglerja, einnig þarf að hefla lítillega af fagi þar til þess að það falli betur í fals.
Matsverð er: Akstur, efni og vélar 3.000 kr. Vinna 18.000 kr. Samtals 21.000 kr.
7.5 Gluggar, opnanleg fög
7.5.1 „Farið er fram á að frágangur glugga verði skoðaður í íbúðinni og hann metinn. Ef viðgerða er þörf hvaða viðgerða er þörf og hvað þær kosti.“
Samkvæmt bókun á matsfundi er einungis átt við opnanleg för. Vísað er í lið 6.1.4 hér að framan.
Matsverð er: Akstur, efni og vélar 16.200 kr. Vinna 81.000 kr. Samtals 97.200 kr.
7.6 Bílskúr
7.6.1 „Þá er þess óskað að matsmenn meti hvað kosti að fullklára bílskúr. Þess er óskað að matsmenn meti sömu þætti varðandi bílskúr og fram koma vegna neðri hæðar.“
Hita- og neysluvatnslagnir:
Vísað er í lið 6.8.3 hér að framan en þar er fjallað um hita- og neysluvatnslagnir í bílskúrnum.
Ekki eru neinar neysluvatnslagnir í bílskúrnum og hitavatnslagnir eru tengdar við lagnir í bílskúrnum við hliðina. Miðstöðvarofn er til staðar í bílskúrnum.
Leggja þarf nýjar neyslu- og hitavatnslagnir frá miðstöðvarklefa að bílskúr, tengja miðstöðvarofn og setja upp krana fyrir neysluvatn.
Matsverð er: Akstur, efni og vélar 92.400 kr. Vinna 114.400 kr. Samtals
296.800 kr.
7.6.2 „Þá er þess óskað að matsmenn meti hvað kosti að fullklára bílskúr. Þess er óskað að matsmenn meti sömu þætti varandi bílskúr og framkoma vegna neðri hæðar.“
Einangrun og klæðningar veggja og lofts:
Útveggir í bílskúr eru klæddir gipsplötum og einangraðir með 50mm steinullar múrplötum. Loft er óeinangrað og án yfirborðsmeðhöndlunar sem og útveggur við innkeyrslu, veggur milli bílskúra er klæddur með tvöfaldri gipsplötuklæðningu og einangrað með steinull. Mikil rakaskemmd er í plötum á langhlið (útvegg) bílskúrsins og telja matsmenn að það komi frá vatni sem kemur með bílsskúrshurð. Ekki er til staðar milliveggur sem afmarkar geymslu og bílskúr eins og fram kemur á samþykktum teikningum.
Til að fullklára bílskúr þarf að fjarlægja plötur af langvegg ásamt einangrun, endureinangra í samræmi við gildandi byggingarreglugerð og endurklæða með gipsplötum, einnig er miðað við að ganga frá útvegg við innkeyrsluhurð á sama hátt. Sett verði grind neðan á þak bílskúrsins og það einangrað og klætt með gipsplötum. Miðað er við 100 mm einangrun. Allar klæðningar verði síðan spartlaðar og málaðar með viðurkenndu málningarkerfi.
Matsverð er: Akstur, efni og vélar 130.000 kr. Vinna 446.700 kr. Samtals
576.700 kr.
7.6.3 „Á samþykktri bygginganefndarteikningu er teiknuð geymsla í enda bílskúrs.“
Engin milliveggur er í bílskúr annar en sá sem skilur á milli matshluta. Samkvæmt byggingarnefndar teikningum er veggur í enda bílskúrs sem afmarkar rými fyrir geymslu.
Settur verði upp milliveggur í samræmi við teikningu. Miðað er við að skilveggir séu með blikkstoðum, 50mm einangrun og klæddur með einfaldri gipsklæðningu. Innihurð sett í vegg í samræmi við fyrrnefndar teikningar.
Matsverð er: Akstur, efni og vélar 72.000 kr. Vinna 96.000 kr. Samt. 168.000 kr.
Málun veggja og lofts (sjá lið 7.6.2 og 7.6.3)
Matsverð er: Akstur, efni og vélar 33.200 kr. Vinna 149.400 kr. Samtals
182.600 kr.
7.6.4 „Gólfhalli í bílskúr er rangur og þarf að leggja í gólf að nýju, bílskúr er verulega hornskakkur, skiptir tugum cm.“
Gólf í bílskúr er vélslípuð steypt plata. Matsmenn gerður hæðarmælingar á plötunni og var hæðarmunur umtalsverður.
Flota þarf gólf þannig að hæfilegur halli verði að niðurfalli sem er staðsett rétt innan við bílskúrshurð.
Við mælingar milli horna í bílskúr kemur í ljós að munur á hornalínu er 4 cm. Matsmenn telja ofangreinda skekkju hafa óveruleg áhrif á notkun bílskúrsins.
Matsverð er: Akstur, efni og vélar 39.600 kr. Vinna 56.600 kr. Samt. 90.200 kr.
7.6.5 „Raflagnir eru svo til engar til staðar.“
Engar raflagnir eru í bílskúrnum.
Setja þarf upp tengitöflu í bílskúrinn og leggja aflstreng frá aðaltöflu að tengitöflu. Leggja þarf raflagnir, setja upp dósir fyrir tengla, rofa og ljós, draga í víra og rör og setja upp allan rafbúnað.
Matsverð er: Akstur, efni og vélar 95.000 kr. Vinna 102.500 kr. Samtals
197.500 kr.
7.6.6 „Þá var bílskúrshurð ranglega í sett og þegar kvartað var óskaði seljandi eftir því að matsbeiðandi fengi menn til þess að lagfæra hurðina. fyrir liggur reikningur frá matsbeiðanda vegna lagfæringar upp á kr. 91.216. Þess er óskað að matsmenn afli sér verklýsingar frá Hurðaþjónustunni Ás ehf. og meti síðan hvort reikningur að fjárhæð kr. 91.216 sé hæfileg fyrir þá viðgerð sem framkvæmd var.“
Matsmenn telja að reikningur fyrir lagfæringar á hurð 45.608 kr. sé hæfilegur fyrir þá vinnu sem framkvæmd var. Vísað er í fundargerð matsfundar þar sem tilgreint er að reikningur frá Hurðarþjónustunni Ás ehf. að upphæð 91.216 kr. sé fyrir báða bílskúrana.
7.6.7 „Þá er óskað mats matsmanna á því hvort bílskúrinn í því ástandi sem hann nú er í sé hæfur sem geymsla og hvort geymslukostnaður matsbeiðanda sé hæfilegur en hún hefur þurft að geyma hluta af búslóð sinni hjá pökkun og flutningum ehf. og hefur greitt fyrir það á mánuði kr. 12.184 með vsk.“
Þar sem bílskúr er upphitaður ætla matsmenn að bílskúr hafi verið hæfur til að vera sem geymsla fyrir búslóð en aftur á móti með hliðsjón af þeim leka sem komið hefur inn með bílskúrshurð og þeim pollum sem verð á gólfi og sveppamyndun í gipsklæðningu þá telja matsmenn að bílskúrinn hafi ekki verið nothæfur geymslustaður fyrir viðkvæma hluti. Leigugjald kr. 12.184 kr./mánuð telja matsmenn vera eðlilegt.
8.0 Sorpgeymsla
8.1 Beiðni kom frá lögmanni matsbeiðanda (fskj.3) um að matsmenn taki með í mati þessu sorpgeymslu sem er samkvæmt byggingarnefndarteikningum staðsett austan við bílskúr. Sorpgeymsla hefur ekki verið sett upp í samræmi við fyrrnefnda teikningu.
Matsmenn staðfesta að ekki sé sorpgeymsla við austurhlið (langhlið) bílskúrs. Til að setja upp sorpgeymslu í samræmi við ofangreinda teikningu þarf að skipta um jarðveg undir sorpgeymslunni og annað hvort að einingar sem rúma þrjár sorptunnur eða slá upp og steypa á hefðbundin hátt. Síðan er sorpgeymslu lokað með grindarhurð.
Þar sem samþykkt byggingarnefndarteikning gerir ráð fyrir staðsteyptri sorpgeymslu er miðað við það í kostnaðarsundurliðun hér að aftan.
Uppsetning á sorpgeymslu fellur á alla eignarhluta eignarinnar Safamýri 31 og er kostnaður skiptur upp í samræmi við eignaskiptayfirlýsingu.
Matsverð hluta efri hæð 35,57% sameignar er: Akstur, efni og vélar 63.700 kr. Vinna 95.700 kr. Samtals 159.400 kr.
9.0 Kostnaðarsundurliðun
Kostnaðarmat miðast við verðlag í nóvember 2007 með virðisaukaskatt á efni og vinnu. rétt er að benda á reglur í skattalögum um endurgreiðslu á 60% af VSK af vinnu á vinnustað fyrir íbúðarhúsnæði. Matsmenn miða við að útseldur tímataxti iðnaðarmanna á vettvangi sé kr. 4.500 kr./klst. en 5.500 kr./klst. fyrir vinnu á verkstæði. Að öðru leyti er miðað við mælingataxta iðnaðarmanna þar sem það á við.
9.1.2 Matsverð þakkantar efri hæð 35,57% sameignar er: Akstur, efni og vélar 4.980 kr. Vinna 12.800 kr. Samtals 17.780 kr.
9.1.3 Matsverð þakniðurfalla við bílskúr, frárennslislögn og jarðvinna efri hæð 48,89% sameignar er: Akstur, efni og vélar 30.340 kr. Vinna 46.120 kr. Samtals 76.460 kr.
9.1.4 Matsverð vinnupalla efri hæð 50% sameignar er: Akstur, efni og vélar 25.000 kr. Vinna 50.000 kr. Samtals 75.000 kr.
9.3 Annar kostnaður efri hæðar
9.3.1 Hönnun hita-, vatns- og frárennslislagnir 48,89% er 97.780 kr.
9.3.2 Hönnun raflagna 48,89% er 73.335 kr.
9.3.3 Umsjón og eftirlit er 100.000 kr.
Samtals efri hæð og bílskúr með virðisauka:
Akstur, efni og vélar 1.022.735 kr. Vinna 1.488.820 kr. Samtals 2.511.555 kr.
Samtals efri hæð og bílskúr án virðisauka:
Akstur, efni og vélar 821.461 kr. Vinna 1.195.820 kr. Samtals 2.017.281 kr.
Kostnaðarmat miðað við verðlag í apríl 2006
Samtals efri hæð og bílskúr með virðisauka:
Akstur, efni og vélar 873.386 kr. Vinna 1.315.212 kr. Samtals 2.188.598 kr.
Samtals efri hæð og bílskúr án virðisauka:
Akstur, efni og vélar 01.504 kr. Vinna 1.056.378 kr. Samtals 1.757.882 kr.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi vanefnt kaupsamning aðila. Hinn 15. apríl 2006 hafi stefnda átt að greiða stefnanda 10.500.000 kr. en aðeins greitt 8.500.000 kr. Eftir standi því 2.000.000 kr. Stefnda hafi borið fram athugasemdir um eignina án haldbærra gagna og án þess að gefa stefnanda færi á að líta á og eftir atvikum að lagfæra. Stefnandi vísar til 49. gr. og 50. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 máli sínu til stuðnings.
Stefnda byggir á því að hafa keypt algjörlega endurnýjaða íbúð og bílskúr, bæði að utan og innan. Miðað við þá ágalla sem komið hefðu fram á eigninni standist hún ekki þær kröfur sem leiða mátti af söluyfirliti sem var hluti kaupsamnings, sbr. 18. gr. laga nr. 40/2002. Eignin væri gölluð í skilningi 27. gr. laganna. Um neytendakaup í skilningi 19. gr. sömu laga væri að ræða, en stefnandi hafi tekjur af því að gera upp notaðar íbúðir og selja. Stefnandi hafi hins vegar á engan hátt afhent algjörlega endurnýjaða fasteign heldur gallaða.
Stefnda byggir skaðabótakröfu sína á því að stefnandi hafi af ásetningi eða gáleysi vanefnt kaupsamninginn með því að skila eigninni ekki í umsömdu ástandi. Verði ekki fallist á skaðabætur krefst stefnda afsláttar er nemi sömu fjárhæð og þarf til að bæta úr göllum. Vísað er til 41. gr. og 1. og 2. mgr. 43. laga nr. 40/2002 í þessu sambandi.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann væri formlegur aðili að þessu máli. Húsið [Safamýri 31] hafi verið á hans nafni og kaupin gerð í hans nafni. Að öðru leyti hafi hann ekki komið nálægt þessu. Hann sagði að sonur sinn hefði séð um allar framkvæmdir og allt í sambandi við þetta.
Stefnandi sagði að einu samskipti hans við stefndu hafi verið við undirritun á kauptilboðum. Helga Bjarnadóttir hefði reyndar hringt einu sinni til hans og spurt hann hvernig hún næði í Sævar son hans. Önnur samskipti hefði hann ekki haft við þetta fólk.
Stefnandi kvaðst ekki hafa atvinnu af því að selja hús, hann væri verslunarmaður að atvinnu. Hann kvaðst hafa keypt húsið til að eiga það en hafi síðan hætt við það. Hann kvaðst ekki áður hafa komið að kaupum og sölu húss með þessum hætti.
Stefnda, Helga Bjarnadóttir, gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að kaup hennar á íbúðinni að Safamýri 31 hafi aðallega ráðist af því að í söluyfirliti fasteignasölunnar hafi staðið að íbúðin væri öll nýuppgerð, bæði að innan og utan. Það hafi ráðið úrslitum þar sem það hentaði henni mjög vel að kaupa nýtt til að þurfa ekki að laga sjálf.
Vísað var til þess að hún hefði gert kauptilboð í eignina 10. janúar 2006 og spurt var hvort hún hefði skoðað eignina áður. Hún kvað svo hafa verið. Hún hafi skoðað eignina með fasteignasala frá fasteignasölunni Valhöll. Spurt var hvort hún hefði séð að gera þyrfti við húseignina. Hún kvaðst ekkert hafa séð þegar hún skoðaði íbúðina. Fasteignasalinn hefð sýnt henni bílskúrinn og sagt henni að honum yrði skilað fullbúnum.
Eftir að hún flutti í íbúðina kvaðst Helga hafa orðið þess áskynja að svalahurðin var ónýt vegna þess að Sævar, sem hún hitti í íbúðinni nokkrum sinnum, hefði sagt henni það. Hann hafi sagt henni að hann ætti nýja hurð, ókomna, sem ætti eftir að skipta út. Hún hefði vænst þess að komið yrði með hurðina. Eftir að hún fór að búa í íbúðinni hefði alltaf verið kalt þar, sama hvað hún hækkaði í ofnunum. Þá hafi hún farið að finna trekk við gluggana.
Spurt var hvort það hefði komið til tals, þegar kaupsamningurinn var gerður, hvenær ætti að klára bílskúrinn. Hún kvað svo ekki hafi verið en hún hefði talið að það yrði ekki seinna en 15. apríl 2006 þegar gengið yrði frá afsali.
Helga sagði að hún hefði orðið vör við að dyrasíminn virkaði ekki eftir að hún flutti inn. Sævar hefði boðið henni að láta sjálf laga dyrasímann og yrði kostnaðurinn dreginn frá við lokauppgjör.
Vísað var til dskj. nr. 10, sem er reikningur frá Hurðaþjónustunni Ási ehf. á Helgu Bjarnadóttur, að fjárhæð 91.216 kr., með eindaga 26. mars 2006. Þá staðhæfði lögmaður stefndu að fram kæmi í matgerðinni, dskj. nr. 12, að matsmenn tækju helminginn af þessum reikning og spurði, hvort það væri ekki rétt hjá honum, að hún hefði ein greitt hann vegna þess hennar hurð var biluð. Helga sagði að svo hefði verið. Lögmaðurinn spurði hvenær það hefði komið í ljós að hurðin var biluð. Helga sagði að það hefði verið þegar hún var að fara út í bílskúr, þá hafi hurðin staðið á sér. Lögmaðurinn spurði hvað hefði komið í ljós varðandi það þegar gert var við hurðina. Helga sagði að hún hefði rætt þetta við Sævar. Hafi hún sagt honum að hurðin væri biluð. Hann hafi sagt að það gætti passað, en þá þyrfti að láta líta á hana. Hann hafi margoft lofað að láta gera það en aldrei hafi neitt orðið úr því. Hann hefði spurt hvort hún vildi ekki sjá um að láta líta á þessa hurð. Hún hafi spurt hann hvar hún hefði verið keypt. Þá hafi hann bent henni á Húsasmiðjuna. Hún hafi fengið upplýsingar þar hvert hún ætti að leita til viðgerðarmanna sem sæju um að þjónusta þessar hurðir fyrir þá. Kona hefði komið frá því fyrirtæki með menn með sér sem skoðuðu hurðina. Þá hefði konan sagt: „Það er raunar mjög hættulegt hvernig hurðin er sett upp hérna. Það eru orðnar svo skakkar brautirnar af því að hún er búin að pína sig af því að hjólin eru ekki í réttum brautum.“
Helga sagði að sorpgeymslan, sem átti að vera við hliðina á bílskúrnum, hafi ekki sérstaklega komið til tals. Hún kvaðst vita að sorpgeymsla ætti að vera til staðar og hafi því talið að það myndi klárast með bílskúrnum fyrir 15. apríl 2006.
Helga kvaðst hafa haft samband við lögmann sem hún þá hafði, Þórð Þórðarson. Hún hafi farið með lista til hans yfir hluti sem ætti eftir að laga, sem á þeim tíma var svalahurðin, bílskúrinn, dyrasíminn og glugginn í forstofunni, og beðið hann um að koma kvörtunum á framfæri við Sigmund [lögmann stefnanda].
Auðunn Elíson, byggingarfræðingur, kom fyrir réttinn, og staðfesti að hafa, ásamt Frey Jóhannssyni, byggingatæknifræðingi, unnið matsgerð er liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 12 og 13, og svaraði spurningum lögmanns aðila í því sambandi.
Freyr Jóhannsson, byggingatæknifræðingur, kom fyrir réttinn, og staðfesti að hafa, ásamt Auðuni Elísyni, byggingarfræðingi, unnið matsgerð er liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 12 og 13, og svaraði spurningum lögmanns aðila í því sambandi.
Guðni Þór Sigurjónsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði unnið við endurnýjun og endurbætur á húsinu að Safamýri 31 fyrir stefnanda. Hann væri pípulagningameistari og hafi hann mælt grindina við bílskúrinn, skipt um ofna, er hann taldi þá að þörf væri að endurnýja, sett nýja loka og nýtt kerfi, endurnýjað baðherbergi og sett nýjar leiðslur, endurnýjað skólplögn inni í húsinu en ekki undir húsinu. Skólplögn undir húsinu hafi verið í lagi. Þá hafi hann lagt í bílskúrana vatns- og hitalögn. Þá hafi hann gengið frá niðurföllum fyrir framan bílskúrana. Þá hafi hann komið að endurnýjun á eldhúsum íbúða hússins.
Guðni Þór kvað klæðningu á bílskúrum að innan ekki hafa verið lokið er hann hætti störfum fyrir stefnanda. Hann hafi ekki lokið frágangi á pípulögnum í bílskúrnum að öllu leyti vegna þess að klæðningu á bílskúrum að innanverðu var ekki lokið, en lítið hefði verið eftir að gera varðandi pípulögnina. Hann hafi ekki verið beðinn um að ljúka pípulögninni í bílskúrunum. Hann hefði síðar komið á staðinn og honum þá verið tjáð að þetta væri komið í mál þannig að ekkert væri fyrir hann að gera þarna.
Spurt var fyrir hvern hann hefði unnið að Safamýri 31. Guðni Þór kvaðst hafa unnið fyrir Sævar. Sævar hefði greitt honum þau laun sem hann fékk.
Vísað var til dskj. nr. 5, sem er söluyfirlit fasteignasölunnar, sem sá um sölu á eigninni. Bent var á að þar komi fram lýsing á eigninni og spurt var, hvort hann hefði séð þá lýsingu þegar hann var byrjaður að vinna fyrir Sævar. Kvaðst Guðni Þór hafa séð að lýsingin var röng að mörgu leyti. Ekki hefðu allir ofnar verið teknir, ekki öll vatnslögnin og ekki allt skólpið. Tekið hefði verið upp það sem hann hafi talið að þyrfti að gera.
Guðni Þór kvað byggingastjóra hafa verið að verkinu, en hann myndi ekki nafn hans. Byggingastjórinn hefði lítið fylgst með verkinu.
Guðni Þór kvaðst ekki hafa haft uppdrætti til að vinna eftir við þessa lagnavinnu svo sem í bílskúrnum. Hann kvaðst sjálfur hafa ákveðið hvernig staðið var að þessu í bílskúrnum. Hann kvaðst ekki muna eftir úttekt byggingarfulltrúa á þessum verkum, en eitthvað hefði verið farið yfir þetta. Það hefði verið byggingastjórans að sjá um að úttekt færi fram.
Sigurður Haukur Gestsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að aðkoma hans að þessu máli hefði verið sú að Sævar Óskarsson hefði beðið hann um að skoða verkefni við að bæta úr göllum á húseigninni að Safamýri 31. Hann hafi múrara, smiði og málara á sínum vegum og hafi skoðað þetta.
Vísað var til dskj. nr. 3, sem er kaupsamningur aðila frá 24. janúar 2006, og spurt var hvenær hann hefði verið beðinn um að líta á verkið. Sigurður Haukur kvaðst ekki muna það en líklega hafi það verið vorið 2007 eða fyrr. Hann kvaðst ekki hafa komið að verki við að bæta úr göllum á húseigninni. Hann hafi haft samband við eigendur og skoðað aðstæður. Þá hafi hann haft samband við Sævar og Óskar um kostnaðaráætlun o.fl. En er hefja átti framkvæmdir hafi honum verið tjáð að verkinu yrði ekki fram haldið og ekkert yrði gert nema í samráði við lögfræðing. Þar með hafi framkvæmdir af hans hálfu stöðvast.
Sigurður Haukur kvaðst eiga fyrirtæki, TF hús ehf. Hann væri múrari, en ekki með meistarapróf.
Þórður Þórðarson gaf skýrslu gegnum síma í heyranda hljóði á dómþingi. Hann sagði m.a. að stefnda hefði haft samband við sig á útmánuðum 2006 vegna galla á fasteign hennar að Safamýri 31, en á þeim tíma hafi hann starfað fyrir hana sem lögmaður. Hann hafi átt fund með henni þar sem hún setti fram þá galla, sem hún taldi vera á eigninni samkvæmt kaupsamningi. Í framhaldi af því hafi hann haft samband við Sigmund Hannesson lögmann stefnanda. Þeir hefðu tvisvar rætt saman símleiðis en hist í maí 2006 til að fara yfir málið. Hann hafi reifað málsástæður stefndu, þ.e. lýsingu á göllum á eigninni og grófa kostnaðarlýsingu á lagfæringu galla.
Vísað var til samskipta milli Sigmundar og Jónasar lögmanns, sem fram koma í máli stefnanda gegn Ólafi Inga Baldvinssyni og Margréti Héðinsdóttur [E-4840/2007], þar sem þeir ræða um að ná samkomulagi um það að seljandinn fái að koma að verkinu til að ljúka því. Þá var vísað til þess að stefnda hefði borið fyrir réttinum að hann [Þórður] hefði hvatt hana til að leyfa þetta og spurt var hvort hann gæti staðfest það. Þórður kvaðst staðfesta það.
Þórður sagði að fyrst hefði stefnda viljað láta utanaðkomandi aðila vinna verkið á kostnað seljanda, en að kröfu Sigmundar hefði verið fallist á að seljandinn sjálfur annaðist viðhald eða endurbætur á eigninni. Kvaðst Þórði vera kunnugt um að hann hafi mætt einu sinni á svæðið vorið 2006 eða í júní en síðan ekki söguna meir. Um sumarið og fram á haustið hafi hann og Sigmundur átt í samskiptum varðandi málið, þeir hefðu haft vilja til að sátta. Þá hefðu þeir komið saman á skrifstofu Sigmundar í desember 2006 og farið aftur yfir þessa sömu liði og þeir fóru yfir á útmánuðum. Samkomulag hefði orðið um að gerð yrði lokatilraun til þess að seljandinn endurbætti það sem þyrfti til að kaupsamningurinn teldist vera efndur. Til að greiða fyrir því að þetta væri unnt þá hafi hann mælst til að settur yrði yfir verkið byggingarstjóri eða eftirlitsmaður, Sigurður Geirmundsson byggingameistari, og hafi Sigmundur samþykkt það. Samþykkt hefði verið að gerðar yrðu endurbætur og stefnandi fengi til þess ákveðinn tíma, tvær þrjár vikur, ella myndi kaupandi láta framkvæma endurbætur á eigninni á kostnað seljanda. Kvaðst Þórði vera kunnugt um að sonur stefnanda hefði einu sinni mætt á staðinn.
Þórður sagði að miðað hefði verið við að kostnaður við endurbætur jafnaðist við eftirstöðvar greiðslu samkvæmt kaupsamningi.
Ályktunarorð
Í söluyfirliti fasteignasölunnar Valhallar, er hafði milligöngu um sölu stefnanda og kaup stefndu á umræddri fasteign að Safamýri 31, segir m.a. að eignin hafi algjörlega verið endurnýjuð að utan sem innan og bílskúrinn sé fullbúinn með vandaðri hurð. Þá segir í kauptilboði um eignina frá 10. janúar 2006 m.a.: „Aðilar (kaupandi og seljandi) hafa kynnt sér söluyfirlit Valhallar dags. í dag og skoðast það sem hluti af kauptilboði þessu. Seljandi klári bílskúr.“ Með kaupsamningi 24. janúar 2006 seldi stefnandi og afhenti stefndu eignina.
Héraðsdómi barst matsbeiðni frá stefndu, hinn 26. september 2007, þar sem þess var farið á leit að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að meta og virða galla, frágang og ólokna verkþætti við íbúðir og bílskúra í húsinu nr. 31 við Safamýri í Reykjavík. Á dómþingi hinn 26. október 2007 voru dómkvaddir matsmenn. Matsgerðin er dagsett 30. nóvember 2007 og liggur fyrir í málinu.
Af hálfu stefndu var óskað eftir að matsmenn áætluðu kostnað, er fram kemur í matsgerðinni á verðlagi í apríl 2006. Var orðið við því. Viðbót matsgerðar er dagsett 8. janúar 2008 og var lögð fram á dómþingi hinn 9. janúar 2008. Niðurstaðan var sú að kostnaður væri 2.188.598 krónur með virðisauka, en 1.757.882 krónur án virðisauka.
Óumdeilt er að stefnda hefur ekki greitt hluta kaupverðsins, samtals að fjárhæð 2.000.000 króna. En um vanefnd af hálfu stefnanda er einnig að ræða. Hann afhenti ekki eignina fullkláraða, eins og um var samið, og hefur ekki sýnt fram á með rökstuddum og trúverðugum hætti að afskipti og íhlutun stefndu hafi komið í veg fyrir að hann kláraði verkið. Telja verður því að stefnda eigi rétt á afslætti, sbr. ákvæði 41. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002.
Að áliti dómsins, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmönnum, og með vísun til matsgerðar dómkvaddra matsmann og jafnframt með hliðsjón af öðrum gögnum málsins, þykir mega jafna kröfufjárhæð stefnanda við ætlaðan kostnað stefndu við að ljúka endurbótum og endurnýjun á eigninni til samræmis við lýsingu eignarinnar í umræddu söluyfirliti.
Samkvæmt framansögðu verður stefnda sýknuð af kröfum stefnanda.
Með vísun til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari, Björn Björnsson húsasmíðameistari og Þorkell Jónsson byggingatæknifræðingur kveða upp dóminn.
Dómsorð:
Stefnda, Helga Bjarnadóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Óskars Ásgeirssonar.
Málskostnaður fellur niður.