Hæstiréttur íslands
Mál nr. 248/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 23. ágúst 1999. |
|
Nr. 248/1999. |
Eggert Arnórsson (sjálfur) gegn íslenska ríkinu (enginn) |
Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Talið var að E skorti heimild til að kæra þá athöfn héraðsdómara, að beina því til hans, með vísan til 6. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að hann réði sér hæfan umboðsmann til að flytja mál sitt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 1999, þar sem héraðsdómari beindi því til sóknaraðila með vísan til 6. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að hann réði sér hæfan umboðsmann til að flytja mál sitt á hendur varnaraðila. Skilja verður kæru sóknaraðila svo að hann krefjist að ákvörðun þessi verði felld úr gildi.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í 143. gr. laga nr. 91/1991 eru tæmandi taldar heimildir til að kæra til Hæstaréttar úrskurði, sem ganga undir rekstri einkamáls í héraði. Þar er hvergi getið heimildar til að beita kæru um það efni, sem mál þetta varðar. Samkvæmt því brestur heimild til kæru í málinu, sem verður þannig vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.