Hæstiréttur íslands

Mál nr. 252/2000


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Vinnuvélar
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. nóvember 2000.

Nr. 252/2000.

Jón Hlíðdal ehf. og

Jón Hlíðdal Sigbjörnsson

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Birgi Vilhjálmssyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

                                                   

Vinnuslys. Vinnuvélar. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur.

B slasaðist er hann, við vinnu sína hjá J ehf., féll 3 – 4 metra til jarðar úr skúffu hjólaskóflu, sem notuð var við flutning malarflokkunarvélar af flutningavagni. Verkið var unnið undir verkstjórn J. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að slysið mætti rekja til þess að hreyfing hafi komið á skúffu hjólaskóflunnar þegar J lét þyngri enda malarflokkunarvélarinnar síga niður, en við það hafi B misst jafnvægið og fallið úr skúffunni. Þar sem að stórfelld hætta hlyti að fylgja því að hreyft yrði við flokkunarvélinni meðan B var enn í skúffunni þóttu ekki efni til að láta hann sjálfan bera alla eða einhverja sök á slysinu. Niðurstaða héraðsdóms um skaðabótaábyrgð J og J ehf. var staðfest fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. júní 2000 og krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess að dæmdar bætur verði lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms, þó þannig að höfuðstóll beri 2% ársvexti frá 23. desember 1997 til 2. september 1999, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Áfrýjendur samþykktu að stefndi kæmi að þessari breytingu á vaxtakröfu.

I.

Stefndi varð fyrir líkamstjóni 23. desember 1997 þegar hann vann ásamt þremur öðrum starfsmönnum áfrýjandans Jóns Hlíðdal ehf. að því að taka malarflokkunarvél af flutningavagni undir stjórn áfrýjandans Jóns Hlíðdal Sigbjörnssonar. Gerðist þetta í malarnámu í landi Þrándarstaða í Eiðahreppi. Verkið þurfti að vinna með því að nota saman nokkur stórvirk öku- og vinnutæki og krafðist allnákvæmrar skipulagningar. Fyrir Hæstarétti deila aðilar um sök á slysinu, en ekki um fjárhæðir.

Stefndi féll 3 til 4 metra til jarðar úr skúffu hjólaskóflu. Hann kom illa niður og brotnaði á báðum úlnliðum, auk þess að slasast á hægri öxl. Var hann fluttur á heilsugæslustöð á Egilsstöðum. Áfrýjandinn Jón Hlíðdal kveðst sama dag hafa haft samband við starfsmann Vinnueftirlits ríkisins, en ákveðið hafi verið að bíða með skýrslugerð. Engin rannsókn fór fram af hálfu vinnueftirlitsins eða lögreglunnar eftir slysið. Hefði rannsókn farið fram á vettvangi hefðu ljósmyndir og skýrslur getað varpað ljósi á verk það, sem þarna var unnið, einkum að því er varðar vélarnar og vinnutækin, svo og hvernig þau stóðu og voru tengd saman þegar slysið bar að höndum. Eftir 2. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum bar áfrýjendum að tilkynna slysið til lögreglunnar og vinnueftirlitsins, sem hefði samkvæmt 4. mgr. 81. gr. laganna átt að rannsaka það. Þar sem þetta var ekki gert hafa ekki fengist nægilega glöggar upplýsingar um fyrrnefnd atriði. Verða áfrýjendur að bera hallann af því.

II.

Fram er komið að þannig var að verki staðið í umrætt sinn að hjólaskóflu var ekið að aftari enda flutningavagns, sem áðurnefnd flokkunarvél var flutt á. Var hún fest við hjólaskófluna með vírstroffu og strekkt á með talíu, sem komið hafði verið fyrir í skúffu hjólaskóflunnar. Í því skyni fór stefndi upp í skúffuna eftir færibandi flokkunarvélarinnar, festi saman og fór aftur niður að svo búnu. Var hjólaskóflunni svo ekið aftur á bak og flokkunarvélin þannig dregin áleiðis af vagninum þar til hjólafestingar undir miðju hennar stóðu út af pallendanum. Þegar hjólabúnaði flokkunarvélarinnar hafði verið komið fyrir var henni slakað niður á hjólin og haldið með hjólaskóflunni meðan flutningavagninn var dreginn undan hinum enda flokkunarvélarinnar. Hélt hjólaskóflan lausa endanum frá jörðu með vogarafli, en skúffa hennar, sem flokkunarvélin var fest í, var þó í allhárri stöðu. Krani á vörubifreið, sem notuð var til að flytja flokkunarvélina á áfangastað, var festur við lausa endann, þann þyngri, til þess að unnt yrði að láta hann síga til jarðar eftir að hinn endinn yrði losaður frá hjólaskóflunni. Klifraði stefndi aftur sömu leið og áður upp í skúffuna til að losa um stroffuna á milli skúffunnar og flokkunarvélarinnar. Hafði hann rétt lokið því verki þegar hann féll til jarðar úr skúfunni og slasaðist.

Samstarfsmaður stefnda, sem stjórnaði hjólaskóflunni, bar fyrir lögreglunni 27. apríl 1998 að hann hafi beðið eftir að stefndi losaði flokkunarvélina frá skúffunni og ekki hreyft við neinum stjórntækjum hjólaskóflunnar. Hann hafi fundið að „það skeði eitthvað og skóflan hristist og Birgir datt úr skóflunni og féll niður á jörðina... Flokkunarvélin hristist eitthvað til og við það hristist hjólaskóflan sem ég sat í.“ Í skýrslu fyrir dómi 4. desember 1998 bar samstarfsmaðurinn efnislega á sama veg um atvik.

III.

Áfrýjendur halda fram að ólíklegt sé að flokkunarvélin hafi slegist utan í skúffuna og valdið hristingi, því ljóst sé að sá endi flokkunarvélarinnar, sem var í skúffunni, hafi lyfst upp og frá henni þegar hinum endanum var slakað niður. Hljóti hristingur, sem áðurnefndur samstarfsmaður stefnda bar um, að hafa stafað af því að stefndi hafi runnið til í skúffunni og fallið niður úr henni. Ennfremur halda áfrýjendur fram að jafnvel þótt talið væri að eitthvað hafi rekist í skúffuna, þá sé ekki við annan að sakast en stefnda sjálfan, því hann hafi sagt að það mætti láta síga. Leiði það til sýknu eða sakarskiptingar.

Áðurnefnd talía, sem notuð var til að festa enda flokkunarvélarinnar við skúffu hjólaskóflunnar, var samkvæmt málflutningi aðilanna föst við botn skúffunnar. Samkvæmt framlögðum gögnum var skúffan 2,87 metrar á breidd. Á ljósmyndum, sem liggja fyrir í málinu, má sjá þennan enda flokkunarvélarinnar. Er fram komið að fremsti hluti þessa enda hafi verið færanlegur og látinn hanga lóðrétt niður á eins konar hjörum, en sá hluti, sem þar var aftan við, gengið inn í skúffuna. Fremsti hluti þessa enda, sem hékk niður, er af myndum að dæma breiðari en sá hluti, sem gekk inn í skúffuna og var festur þar. Verður ekki annað séð en að þessi aðferð til að tengja flokkunarvélina við skúffuna hafi valdið því að sá hluti enda flokkunarvélarinnar, sem hékk niður, hafi numið við skúffuna að neðan. Þegar þetta er virt og litið til þess hvernig tækin voru að öðru leyti tengd saman er ljóst að lítilsháttar hreyfing á hinni löngu og þungu flokkunarvél, sem í hinn endann hékk í bílkrana, gat hæglega komið hreyfingu á þann enda hennar, sem stefndi losaði frá skúffu hjólaskóflunnar. Fylgdi augljós og stórfelld hætta þeim vinnubrögðum, sem óumdeilt er að áfrýjandinn Jón Hlíðdal stýrði, að láta þyngri enda flokkunarvélarinnar síga til jarðar úr bílkrananum meðan stefndi var enn uppi í skúffunni. Af áðurnefndum framburði samstarfsmanns stefnda er sýnt að hristingur eða högg kom á hjólaskófluna rétt áður en stefndi féll niður úr skúffunni. Þegar litið er til þess að hjólaskóflan er samkvæmt gögnum málsins um 16,4 tonn að þyngd getur ekki staðist að slíkur hristingur eða högg hafi komið til í tengslum við fall stefnda úr skúffunni. Verður því að gættu öllu framangreindu að leggja til grundvallar að slys stefnda verði rakið til þess að hreyfing hafi komið á skúffu hjólaskóflunnar þegar áfrýjandinn Jón Hlíðdal lét þyngri enda flokkunarvélarinnar síga niður, en við það hafi stefndi misst jafnvægið og fallið úr skúffunni.

Áfrýjandinn Jón Hlíðdal hefur borið að áður en hann lét þann enda flokkunarvélarinnar, sem bílkraninn hélt við, síga til jarðar hafi stefndi kallað til sín að það væri í lagi. Stefndi hefur hins vegar borið að hann hafi eingöngu sagt að hann væri búinn að losa talíuna, en í beinu framhaldi af því hafi komið slynkur á skúffu hjólaskóflunnar. Jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að stefndi hefði látið slík orð falla, sem áfrýjandinn bar um, verður að líta til þess, sem áður segir, að stórfelld hætta hlaut að fylgja því að hreyft yrði við flokkunarvélinni meðan stefndi var enn við þröngar aðstæður í skúffu hjólaskóflunnar, auk þess sem ekki verður séð hvernig stefndi hefði þá átt að komast niður á öruggan hátt. Verður því ekki fallist á með áfrýjendum að efni séu til að láta stefnda sjálfan bera alla eða einhverja sök á slysinu.

Að þessu athuguðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um skaðabótaábyrgð áfrýjenda á tjóni stefnda og fjárhæð bóta, en um hana er sem áður segir ekki deilt fyrir Hæstarétti. Ber sú fjárhæð vexti í samræmi við dómkröfu stefnda, eins og nánar greinir í dómsorði.

Áfrýjendum verður í sameiningu gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem mælt er fyrir um í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Jón Hlíðdal ehf. og Jón Hlíðdal Sigbjörnsson, greiði í sameiningu stefnda, Birgi Vilhjálmssyni, 8.100.000 krónur með 2% ársvöxtum frá 23. desember 1997 til 2. september 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjendur greiði í sameiningu stefnda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 27. ágúst 1999.

Stefnandi er Birgir Vilhjálmsson, kt. 010360-2349, Reynivöllum 12, Egilsstöðum.

Aðalstefndu eru Jón Hlíðdal ehf., kt. 460697-2639, Reynivöllum 3, Egilsstöðum og Jón Hlíðdal Sigurbjörnsson, kt. 230157-4809, sama stað og krefst stefnandi þess að þeir verði dæmdir til að greiða honum in solidum 8.294.990 krónur með almennum sparisjóðsvöxtum frá 23. desember 1997 til þingfestingardags, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 35/1987 til greiðsludags auk málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Til vara stefnir stefnandi Jóni Hlíðdal ehf., kt. 460697-2639, Reynivöllum 3, Egilsstöðum og Sjóvá Almennum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, in solidum til greiðslu á 8.294.990 krónum með almennum sparisjóðsvöxtum frá 23. desember 1997 til þingfestingardags, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 35/1987 til greiðsludags auk málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur aðalstefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi hans.  Til vara eru þær kröfur gerðar að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Dómkröfur varastefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi hans.  Til vara eru þær kröfur gerðar að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málsatvik

Stefnandi var starfsmaður stefnda Jóns Hlíðdal ehf.  Hinn 23. desember 1997 var stefnandi ásamt fleirum að vinna við að taka malarflokkunarvél (hörpu) af flatvagni og koma henni fyrir í malarnámu í námunda við Þrándarstaði í Eiðaþinghá.

Flokkunarvélin var á flatvagni sem dreginn var af vörubifreiðinni VU-740, eign stefnda Jóns Hlíðdal ehf.  Verið var að taka hana af flatvagninum.  Það var gert þannig að hjólaskóflu var ekið að aftari enda flatvagnsins og endi malarflokkunarvélarinnar festur við hana.  Síðan var hjólaskóflunni ekið aftur á bak og flokkunarvélin þannig dregin aftur af vagninum.  Um miðbik flokkunarvélarinnar eru hjólafestingar og voru hjól sett undir hana sem hún gat síðan hvílt á en þyngri endi hennar eða neðri endi þar sem möl er sturtað í hana hvíldi enn þá á vagninum sem ekið var undan endanum.  Hvíldi flokkunarvélin þá á hjólunum og var léttari endi hennar nú fastur við skófluna.  Vörubifreiðinni var nú ekið að hörpunni og þyngi endi hörpunnar festur við krana sem er áfastur vörubifreiðinni en síðan átti að láta þann enda síga til jarðar með krananum eftir að hinn endinn hefði verið losaður úr skóflunni.  Stefnandi klifraði upp eftir færibandi á malarhörpunni og festi enda hennar í skófluna.  Hann fór síðan niður aftur og harpan var dreginn aftur af flatvagninum.  Þessu næst fór hann upp í skófluna og losaði endann.  Eftir að hann hafði losað endann vildi það til að hann datt niður úr skóflunni og hlaut við það áverka.

Þann 19. febrúar 1998 gaf stefnandi að eigin frumkvæði skýrslu um atvik hjá lögreglu á Egilstöðum.  Hann kvaðst hafa farið upp í skófluna og losað vírstroffu og púllara sem notuð hefðu verið til að festa malarflokkunarvélina við skófluna.  Hann hafi þurft að krjúpa við verk þetta og reis síðan upp.  Segir síða að honum hafi orðið fótaskortur og annar fóturinn, vinstri, hafi runnið út úr skúffunni og hann fallið til jarðar.  Þann 27. apríl 1998 gaf vitnið Bóas Eðvaldsson skýrslu hjá lögreglu.  Hann sat í hjólaskóflunni enda stjórnaði hann henni umrætt sinn.  Hann kvaðst hafa beðið í skóflunni, ekki hreyft við neinum stjórntækjum og beðið eftir að stefnandi losaði talíuna en vélin verið í gangi.  Hann hafi fundið að eitthvað skeði og skóflan hristist og stefnandi datt úr skóflunni.  Ekki hafi hann vitað af hverju skóflan hristist en datt í hug að flokkunarvélin hafi oltið eitthvað til.  Flokkunarvélin hafi hrist eitthvað til og við það hafi hjólaskóflan sem hann sat í hrist.  Stefnandi hafi verið með hjálm.  Stefndi Jón Hlíðdal Sigurbjörnsson gaf skýrslu hjá lögreglu 7. maí 1998 og sagði þar m.a. að stefnandi hefði kallað til sín og sagst vera “búinn að losa púllarann og ég mætti láta síga, það er láta enda hörpunnar síga niður.  Ég lét endann síga mjög hægt niður.”  Hann kvað stefnanda hafa verið í sjónmáli frá sér en ekki hafa séð hvernig hann stóð þar. 

Þann 4. desember 1998 fóru fram vitnaleiðslur að beiðni stefnanda við Héraðsdóm Austurlands skv. XII kafla laga um meðferð einkamála.

Í skýrslu stefnda Jóns Hlíðdal Sigurbjörnssonar sagði að hann hefði haft á hendi verkstjórn enda eigandi fyrirtækis þess sem unnið var fyrir.  Hann hefði ekki orðið var við hristing og ekki horft á stefnanda þegar hann datt.  Ekki mundi hann orðrétt kvað stefnandi hefði sagt en hann hefði sagt að hann væri búinn að losa og það mætti láta síga.  Hann hafi látið síga, mjög rólega.  Stefnandi sagðist hafa kallað til félaga sinna að hann væri búinn að losa eða eitthvað í þá áttina og að við það hafi komið einhver dynkur og slinkur, skóflan hefði hrist og hann dottið aftur fyrir sig út úr skóflunni til jarðar.  Stefndi Jón hafi stjórnað framkvæmdum á staðnum.  Hann sagðist hafa verið á leiðinni niður úr skóflunni en ekki gefist tími til þess.  Hann hefði einungis sagt að hann væri búinn að slaka “púllaranum” en ekki gefið fyrirmæli um að láta endann síga.  Nánar aðspurður sagði stefnandi að hann hafi gert ráð fyrir því að fara úr skóflunni áður en hinn endi malarflokkunarvélarinnar yrði látinn síga með sama hætti eins og hann fór niður úr skóflunni áður en flokkunarvélin var dregin af vagninum eftir að hann hafði fest hana.  Vitnið Bóas Eðvaldsson sagði í sinni skýrslu að skóflan hefði hrist og stefnandi dottið úr henni.  Hann sagði samstæðuna   hafa verið komna niður á þyngri endann eftir að stefnandi datt.  Hann hefði ekkert hreyft við stjórntækjum hjólaskóflunnar sem hann stjórnaði.  Hann sagði vélina hafa verið í gangi.  Vitnið Sigurbjörn Sigurðsson, faðir stefnda Jóns Hlíðdal sagðist hafa staðið þyngri enda flokkunarvélarinnar en ekki séð til stefnanda þar sem hann var uppi í skóflunni.  Hann kvaðst ekki hafa séð vélina hristast og ekki hafa orðið var við nokkurn skapaðan hlut.  Þá hafi hann ekki heyrt hvað mönnum fór á milli.  Þó minnti hann að stefnandi hefði sagt að láta síga.  Hann kvað stefnanda hafa dottið hér um bil um leið og byrjað var að láta síga.  Vitnið Örn Stefánsson kvaðst hafa verið á vettvangi er slysið varð en hann hafi komið á vettvang vegna þess að hann ætlaði að hafa tal af stefnda Jóni.  Hafi hann staðið rétt hjá honum og hafi Jón verið að færa bómuna á krananaum til.  Minnti vitnið að hann hefði verið að færa hana út en var þá búinn að tengja bómuna við flokkunarvélina.  Við það að kraninn var færðu hafi flokkunarvélin hreyfst og minnti vitnið að hún hefði færst til hliðar.  Vitnið sá stefnanda í skóflunni og þegar hann datt.  Ekki kvaðst hann hafa heyrt nein orðaskipti áður en stefnandi datt og kvaðst telja að hann hefði hlotið að heyra það ef svo hefði verið.  Vitnið sagði flokkunarvélin og hjólaskóflan hafi lyfst ”einhvern veginn og þá flýgur hann bara úr skóflunni.” 

Stefnandi hlaut áverka við slys þetta og hefur lagt fram örorkumat Júlíusar Valssonar læknis þar sem segir m.a:

"Samantekt og niðurstaða:

Um er að ræða þrjátíu og níu ára gamlan mann, sem slasaðist við störf sín hjá verktakafyrirtæki á Egilsstöðum er hann datt úr skóflu á stórri gröfu og var fallið um fjórir metrar.  Kom hann niður á báðar hendur og á hægri hliðina.  Fékk hann mikinn  fjöláverka m.a. rifbrot hægra megin og hann mun einnig hafa slasast í báðum úlnliðum svo og hægri öxl i þessu slysi.  Hann hefur gengist undir a.m.k. þrjár aðgerðir hjá bæklunarlækni á Akureyri, þ.e. á báðum úlnliðum svo og hægri öxl.  Í ljós kom við þessar aðgerðir, að í úlnliðum hefur orðið talsverður liðbandaáverki hægra megin og vinstra megin hafði orðið skemmd á liðþófa.  Einnig reyndust þar þrengsli í sinaslíðri aðlægt úlnlið handarbaksmegin.  Við aðgerð á hægri öxl kom i ljós að slit var í sin ofankambsvöðva hægra megin og var sinin saumuð saman.

Eftir slysið hefur slasaði haft talsverð óþægindi frá báðum úlnliðum í formi verkja og stirðleika og einnig í formi hreyfiskerðingar.  Einnig er talsvert kuldaóþol í báðum höndum.  Þar að auki er hann með þrálát einkenni frá hægri öxl vegna verkja, skertra hreyfinga og skerts álagsþols.  Starfsemi beggja griplima er því talsvert skert vegna slyssins. Frekari meðferð er ekki fyrirhuguð.  Endurhæfing er nú fullreynd.

Ljóst er að vinnuslysið í desember 1997 hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.  Það hefur skert vinnugetu slasaða og valdið óvinnufærni fyrst tímabundið um alllangt skeið en síðan hefur það haft slæm áhrif á vinnugetu hans og skert starfsmöguleika hans til frambúðar.  Telja má stóraukna hættu á snemmtilkomnum slitgigtarbreytingum í úlnliðum sérstaklega vinstra megin vegna liðþófaáverkans. Slasaði á eftir slysið í erfiðleikum með öll átök og erfiðisvinnu og þreytist fyrr en áður. Einnig kemur til talsvert kuldaóþol.  Fyrir slysið var hann hraustur og einkennalaus og hefur ekki sögu um önnur slys.  Hann er menntaður sem línumaður og er ólíklegt að hann geti unnið við það starf í framtíðinni.  Einnig verður að teljast mjög óvíst hvort og hve lengi hann getur starfað áfram í erfiðisvinnu t.d. á þungavinnuvélum.

Tímabært er að leggja mat á afleiðingar vinnuslyssins þann 23. desember 1997.

Niðurstöður undirritaðs eru að öðru leyti eftirfarandi:

1. Tímabundið atvinnutjón vegna vinnuslyssins þann 23. desember 1997, skv. 2. gr. skaðabótalaga Nr. 50/1993 telst vera 100% í tólf (12) mánuði og 50% í sex (6) mánuði.

2. Varanlegur miski af völdum vinnuslyssins þann 23. desember 1997, samkvæmt 4, gr. skaðabótalaga Nr. 50/1993 er 20% (tuttugu af hundraði).

3. Varanleg örorka af völdum vinnuslyssins þann 23. desember 1997, samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga Nr. 50/1993, er 20% (tuttugu af hundraði).

4. Slasaði telst hafa þurft að vera rúmfastur vegna afleiðinga slyssins þann tíma er hann var inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna skurðaðgerða þ.e. samtals í 8 daga.  Hann telst einnig hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga þó án þess að vera rúmliggjandi frá slysadegi og fram í byrjun júnímánaðar 1999 eða samtals í átján (18) mánuði.

5. Önnur slys eða sjúkdómar teljast ekki eiga þátt í örorku slasaða nú.  Sá miski, sú örorka og önnur þau atriði sem metin er hér að ofan er því einungis tilkomin vegna afleiðinga vinnuslyssins þann 23. desember 1997."

Af hálfu stefnanda er kröfugerð byggða á ofangreindu örorkumati sem ekki er mótmælt af hálfu stefndu og raunar ekki ágreiningur um tölulegan þátt kröfugerðar stefnanda utan þess að stefndu telja þjáningarbætur of háar í kröfugerð.

Stefnandi vann hjá RARIK janúar til og með maí 1997 og hafði í laun 645.269 krónur.  Frá og með júlí til desember 1997 hafði hann í laun frá Jóni Hlíðdal ehf. 1.971.132 krónur.  Samtals eru laun hans síðustu 12 mánuði fyrir slys því 2.616.410 og að viðbættu 6% lífeyrisframlagi kr. 2.773.394.

Skv. þessu er krafa stefnanda sundurliðuð þannig:

1. Tímabundið tekjutap stefnanda miðast við tímabilið janúar 1998 til og með maí 1999.  Hann er metinn 100% óvinnufær í 12 mánuði og 50% óvinnufær í 6 mánuði.  Um er að ræða 18 mánaða tímabil.  Meðaltalslaun hans 12 mánuði fyrir slys voru 231.116 krónur.  Þannig er tjón hans tekjutap í 18 mánuði eða 3.466.740 krónur.  Frá dragast greidd laun frá stefnda Sjóvá Almennum tryggingum h.f. 328.616 krónur og laun greidd frá Jóni Hlíðdal ehf. fyrir janúar til og með maí 354.870 krónur.

Tjónið sé því 2.783.254 krónur.

2. Skv. mati Júlíusar Valssonar var stefnandi rúmliggjandi í 8 daga og veikur í skilningi skbl. án þess að vera rúmliggjandi í 18 mánuði.  Krafist er 1.480 króna í 8 daga og 800 króna í 547 daga með vísan til 3. gr. skaðabótalaga.  Tjónið sé því 449.440 krónur.

3. Varanlegur miski er metinn 20%.  Skv. því er tjón stefnanda miðaða við grunnfjárhæðina 4.561.000krónur,  912.200 krónur.

4. Varanleg örorka er metin 20%.  Viðmiðunartekjur eru 2.773.394 krónur.  Þannig sé tjónið 5.546.788 krónur.  Sé litið til aldurs stefnanda er krafa samkvæmt þessum lið kr. 4.881.173.

Samtals eru þessir liðir að fjárhæð 8.294.990 krónur sem jafnframt er dómkrafa stefnanda.

Málsástæður og lagarök

Aðalkrafa stefnanda er á því byggð að þau mistök hafi orðið við framkvæmd verksins að malarharpan hafi verið látin síga áður en stefnanda gafst færi á að fara niður úr skóflunni.  Verkstjóra stefnda hafi borið að sjá til þess að enginn væri uppi í skóflunni eða hörpunni áður en hann lét þyngri enda hennar síga.  Þetta hafi leitt til þess að slinkur hafi komið á samstæðuna og hjólaskófluna og stefnandi dottið við það og slasast.

Þá er því haldið fram að aðferð sú sem notuð var hafi verið beinlínis hættuleg.  Í staðinn hefði átt að nota krana til að hífa samstæðuna í einu lagi af pallinum.

Á því er byggt að stefndi Jón Hlíðdal ehf. beri ábyrgð samkvæmt reglum um húsbóndaábyrgð en að stefndi Jón Hlíðdal Sigurbjörnsson verkstjóri og eigandi Jóns Hlíðdal ehf., sé ábyrgur fyrir framkvæmd verksins og honum hafi orðið á mistök sem hann beri persónulega ábyrgð á.  Þá sé hann sem eigandi kranans ábyrgur fyrir tjóni sem verður af notkun hans.

Verði ekki fallist á aðalkröfu ber stefnandi fyrir sig í varakröfu að slysið megi rekja til notkunar ökutækisins VU-740 sem verið hafi eign stefnda Jóns Hlíðdal ehf. og tryggt hjá Sjóvá Almennum Tryggingum hf. ábyrgðartryggingu samkvæmt umferðarlögum.  Kraninn hafi verið áfastur henni og gengið fyrir sama vélarafli og hún.  Bifreiðin hafi þannig verið sem slík verið útbúin til þeirra starfa sem unnið hafi verið að og trygging hennar taki til þeirra verka sem tengist eðlilegri notkun vörubifreiðar með áföstum krana.

Af hálfu aðalstefndu er því haldið fram að ekkert hafi verið athugavert við það að slaka varlega niður þyngri enda malarflokkunarvélarsinnar eins og stefndi Jón Hlíðdal gerði, eftir að stefnandi hefði tilkynnt að hann væri búinn að losa hinn endann frá hjólaskóflunni, enda þótt stefnandi væri enn uppi í skúffunni þar sem það hafi ekki getað valdið neinni hreyfingu á skúffunni, sem verið hafi laus frá flokkunarvélinni. 

Sé ósannað sé að orsakasamband hafi verið með því að enda flokkunarvélarinnar var slakað niður og slyss stefnanda.  Ekki sé sannað að endi flokkunarvélarinnar hafi rekist í skúffuna og stefnandi þess vegna dottið úr henni.  Stefnandi hafi sagt í skýrslu sinni hjá lögreglu að honum hefði orðið fótaskortur.  Geti það að flokkunarvélin hreyfðist, stafað af því að stefnandi datt úr henni.

Þá er því mótmælt að aðferð sú sem notuð var hafi verið hættuleg og nota hefði átt krana til þess að lyfta flokkunarvélinni af flatvagninum.  Sú aðferð sem notuð var hefði verið alvanaleg enda hefði stefnandi sjálfur talið öll vinnubrögð í lagi nema að titringur hafi komið á skófluna. 

Því er mótmælt að notkun bílkranans á bifreiðinni VU-740 falli undir notkunarhugtak sérreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga.  Affermingu hefði verið lokið þegar flokkunarvélin var komin niður á jörð og aðeins hefði verið eftir að láta enda hennar síga með krananum.

Varakrafa stefndu er á því byggð að stefnandi eigi sjálfur sök á slysi sínu og að skipta beri sök og færa bætur verulega niður í hlutfalli við þá sök.  Stefnandi hafi gefið merki um að stefndi mætti láta endann síga þótt hann væri enn uppi í skóflunni.  Hafi hann manna best getað metið hvort hætta væri á því að endi flokkunarvélarinnar gæti rekist í hjólaskófluna eða hristingur komið á skúffuna við það að endinn færi niður.  Hafi það gerst eigi stefnandi sjálfur sök á slysinu.  Þá hafi honum borið að gæta sérstakrar varúðar uppi í skúffunni þar sem hreyfingar hans sjálfs gátu nemi valdið því að skúffan hristist.

Auk lækkunar vegna eigin sakar stefnanda telja stefndu að lækka beri þjáningarbætur til hans bæði vegna oflengdar bótatímabils og þar sem bætur meira en 200.000 krónum sbr. 3. gr. skaðabótalaga.  Eigi stefnandi ekki bætur fyrir annan tíma en hann var veikur í skilningi ákvæðisins.

Þá beri að lækka kröfu um bætur fyrir varanlega örorku um 12% af bótafjárhæð vegna aldurs skv. 9. gr.skaðabótalaga en stefnandi var 37 ára á slysdegi.  Loks er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Niðurstaða

Stefnandi stóð í skúffu hjólaskóflunnar eftir að hafa losað enda malarflokkunarvélarinnar, sem hvíldi á skóflunni og haldið var við hinn endann með krananum á bílnum.  Stefndi Jón Hlíðdal stóð við hinn enda flokkunarvélarinnar og slakaði á krananum.  Þegar litið er til framburðar vitnisins Arnar Sigurðssonar um að hann hafi ekki heyrt nein orðaskipti með stefnanda og stefnda Jóni og að vélar hjólaskóflunnar og vörubifreiðarinnar voru í gangi þykir ekki liggja fyrir sönnun um það að stefnandi hafi kallað til stefnda Jóns að láta endann síga eins og stefndi heldur fram.

Það var augljóslega hættulegt að láta endann síga á meðan stefnandi var uppi í skóflunni eins og stefndi Jón hefur lýst að hann hafi gert og er sú orsök slyss stefnanda.  Stefnandi fór niður úr skúffunni áður en malarflokkunarvélin var dregin af flatvagninum og hefur borið að hann hafi ætlað að fara niður úr henni áður en þyngri endi flokkunarvélarinnar yrði látinn síga.  Ekki þykja efni til annars en að leggja frásögn stefnanda um þetta til grundvallar hér og er ekki á það fallist með stefndu að stefnandi beri eigin sök á slysi sínu með því að stefndi Jóns sýndi af sér fljótræði við að láta endann síga áður en stefnanda gafst tóm til þess að fara niður úr skúffunni og framkvæmd verksins í umrætt sinn var á ábyrgð stefndu.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða um aðalsök að stefndu Jón Hlíðdal ehf og Jón Hlíðdal Sigurbjörnsson beri solidariska ábyrgð á tjóni stefnanda.

Ekki er ágreiningur með aðilum um örorkumat það sem stefnandi byggir á hér né heldur útreikninga byggða á því utan það að stefndu telja að lækka beri kröfu um þjáningarbætur með vísan til 3. gr. skaðabótalaga.  Á það er fallist með stefndu að efni séu til þess að færa þennan lið niður og samkvæmt því verða stefndu dæmd in solidum til að greiða stefnanda  8.100.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.  Eftir úrslitum málsins ber stefndu að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað og er þá litið til reglna af virðisaukaskatti af málskostnaði.

Varastefndi Sjóvá Almennar hefur haldið uppi vörnum og krafist sýknu og málskostnaðar.  Fallast verður á það með varastefnda að notkun bifreiðarinnar eða öllu heldur aflvélar hennar í umrætt sinn falli ekki undir notkun í skilningi 88. gr. umferðarlaga enda hafði bifreiðinni verið ekið undan malarflokkunarvélinni og affermingu því raunar lokið að því leyti em hún skiptir máli hér. Verður þessi varastefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn

DÓMSORÐ

Stefndu Jón Hlíðdal ehf. og Jón Hlíðdal Sigurbjörnsson greiði stefnanda Birgi Vilhjálmssyni 8.100.000 krónur með almennum sparisjóðsvöxtum frá 23. desember 1997 til 2. september 1999 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

Varastefndi Sjóvá Almennar skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Birgis Vilhjálmssonar.  Málskostnaður þeirra á milli fellur niður.