Mál nr. 240/2016
- Ráðningarsamningur
- Trúnaðarskylda
- Uppsögn
- Skaðabætur
G hóf störf hjá V ehf. í janúar 2014 og starfaði þar fram í ágúst sama ár er ráðningarsamningi hans var fyrirvaralaust sagt upp. Var ástæða uppsagnarinnar að G hefði án heimildar sent úr vinnupóstfangi sínu í einkanetfang sitt viðkvæmar trúnaðarupplýsingar um rekstur V ehf. og þannig gerst brotlegur í starfi. Í málinu krafðist G bóta vegna uppsagnarinnar. Með hliðsjón af skýrslugjöf aðila og vitna fyrir dómi, eðli þeirra gagna sem G hafði sent og atvikum málsins að öðru leyti var ekki fallist á með V ehf. að G hefði brotið gegn ráðningarsamningi sínum með þeim hætti að heimilt hefði verið að víkja honum úr starfi fyrirvaralaust. Var því talið að G ætti rétt til bóta vegna uppsagnarinnar sem næmi fjárhæð þeirra launa er hann hefði haft á uppsagnartíma ráðningarsamningsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Áfrýjandi heldur því fram að þau gögn, sem stefndi sendi sér á eigið netfang í þeim tilgangi að eigin sögn að vinna með þau heima hjá sér, hafi haft að geyma viðkvæmar upplýsingar um rekstur áfrýjanda í samkeppni við aðra. Þessi gögn hafi stefndi sent sér án þess að hafa haft til þess heimild, enda hafi hann ekki haft aðgang að þeim öllum í tölvutæku formi á starfsstöð áfrýjanda. Eigi það sérstaklega við um töflureikningsskjöl á excel-formi með svonefndum venditöflum er hafi haft inni að halda reikningsformúlur sem sýnt hafi innkaupsverð, magntölur og framlegð. Stefndi kveðst á hinn bóginn hafa haft aðgang að gögnunum, þar á meðal síðastgreindum skjölum sem hann hafi sannanlega fengið send frá framkvæmdastjóra áfrýjanda. Til stuðnings staðhæfingu sinni hefur áfrýjandi vísað til skýrslu framkvæmdastjóra síns og vitnisburðar fyrrum starfsmanns síns fyrir héraðsdómi. Að teknu tilliti til þess hve sá framburður var óljós um þetta atriði og sökum þess að eins og málið er vaxið stendur það áfrýjanda nær en stefnda að færa sönnur á þessa staðhæfingu sína verður lagt til grundvallar, svo sem gert var í héraðsdómi, að stefndi hafi haft aðgang að þeim gögnum, sem hér um ræðir, í starfi sínu hjá áfrýjanda.
Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi brotið gegn ráðningarsamningi sínum með þeim hætti að heimilt hafi verið að víkja honum úr starfi fyrirvaralaust. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest, en ekki er um að ræða tölulegan ágreining milli málsaðila.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Viðarsúla ehf., greiði stefnda, Gísla Elíassyni, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. janúar 2016
Mál þetta, sem var dómtekið 8. desember síðastliðinn, er höfðað 8. apríl 2015.
Stefnandi er Gísli Elíasson, Ásakór 5, Kópavogi.
Stefndi er Viðarsúla ehf., Smiðjuvegi 12, Kópavogi.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 2.655.723 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 329.800 krónum frá 1. september 2014 til 1. október 2014, af 1.009.800 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2014, af 1.689.800 krónum frá þeim degi til desember 2014, af 2.655.723 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
I
Stefnandi hóf störf hjá stefnda í byrjun janúar 2014 og starfaði sem sölumaður í fullu starfi. Gerður var ráðningarsamningur við stefnanda sem undirritaður var 17. desember 2013. Þar segir í skriflegri starfslýsingu stefnanda að hann beri ábyrgð á sölu og samskiptum við viðskiptavini, þróun á nýjum viðskiptasamböndum og vöruþróun, en sinni einnig heimsóknum og tilboðsgerð líkt og aðrir sölumenn. Þá segir að stefnandi muni hefja störf sem sölumaður en verða framkvæmdastjóra innan handar við sölustjórnun og að loknum þremur til sex mánuðum muni stefnandi taka við hlutverki leiðtoga í sölu Norpak ehf. Væri starfsmanni ætlað lykilhlutverk í þróun á sölu og markaðsstarfi Norpak ehf. Þá segir í starfslýsingu stefnanda að hann hafi kynnt sér fyrirkomulag starfsins, það er að hver sölumaður beri ábyrgð á sínum viðskiptavinum, heimsóknum og úthringingum. Vinnuferlar séu í þróun og taki starfsmaður þátt í þeirri vinnu.
Í ráðningarsamningnum segir einnig að föst mánaðarlaun stefnanda séu 680.000 krónur. Í 5. gr. samningsins segir að framkvæmdastjóra sé heimilt að víkja starfsmanni úr starfi fyrirvaralaust, brjóti hann samninginn í verulegum atriðum eða gerist brotlegur við landslög. Þá segir í 8. gr. samningsins að starfsmaður hafi þagnarskyldu um hverja þá vitneskju sem hann öðlist í starfi sínu um rekstur og viðskipti Norpak ehf. Sé starfsmanni óheimilt að tjá sig um málefni Norpak ehf., starfsmenn eða eigendur, í fjölmiðlum eða á annan opinberan máta. Gildi þagnarskyldan um hvers konar vitneskju, svo sem áætlanir, tæknilegar upplýsingar, útreikninga, rekstrarupplýsingar, hugbúnað, samninga o.fl. Þá segir að brjóti starfsmaður þær sérstöku skyldur sem greinin lýsir á meðan vinnusambandið er í gildi, skuli það teljast veruleg vanefnd sem heimili riftun samningsins. Í 9. gr. segir að brjóti starfsmaður gegn ákvæðum um samkeppnishömlur, reglur um þagnarskyldu og fari ekki eftir skýrum fyrirmælum næsta yfirmanns og framkvæmdastjóra skuli líta á það sem verulegar vanefndir á samningnum. Að öðru leyti gildi um verulegar vanefndir almenn sjónarmið þar að lútandi.
Óumdeilt er í málinu að stefnandi sendi sér sjálfum tiltekin gögn í eigu stefnda úr póstfanginu gisli@norpack.is, sem stefnandi fékk til afnota hjá stefnda þegar hann hóf störf, í persónulegt póstfang sitt, eliasson.gisli@gmail.com. Um var að ræða þrjá lista eða skrár með upplýsingum um viðskiptavini stefnda og vörur. Þann 22. janúar 2014 sendi stefnandi sjálfum sér þannig skrá með upplýsingum um nýja viðskiptamenn stefnda og skrá með upplýsingum um viðskiptamenn tveggja samstarfsmanna sinna. Þann 24. janúar sama ár sendi stefnandi sér upplýsingar um nýjar vörur, lista yfir viðskiptamenn og lista yfir aðrar vörur sem bjóða mætti viðskiptamönnum stefnda að kaupa. Loks sendi stefnandi sér þann 2. apríl 2014 upplýsingar um sölu til viðskiptamanna eftir vörutegundum.
Með bréfi 29. ágúst 2014 var stefnanda sagt upp störfum fyrirvaralaust og hann beðinn um að yfirgefa vinnustaðinn án tafar. Tekið er fram í bréfinu að stefnanda sé sagt upp vegna brota á starfsskyldum samkvæmt samningi. Um ástæður uppsagnarinnar segir orðrétt: „Trúnaðarupplýsingar teknar úr kerfum vinnuveitanda og sendar á einkapóst starfsmanns (gmail) sem litið er alvarlegum augum og er trúnaðarbrestur og réttlætir fyrirvaralausa uppsögn ...“ Að auki er tekið fram í bréfinu að notkun bifreiðar sé ekki í samræmi við lýsingu samnings og akstur og bensínkaup standist ekki skoðun. Gögn sýni óeðlilegar aksturstölur og bensínkaup. Enn fremur sé mætingum og viðveru ábótavant. Sölumarkmið náist ekki. Starfsmaður sé í aukastarfi sem samrýmist ekki starfsskyldum hans og að leyfi sé tekið án samráðs við vinnuveitanda.
Stefnandi mótmælti uppsögninni með bréfi til stefnda 2. september 2014 og áskildi sér rétt til að krefjast launa á uppsagnarfresti samkvæmt kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins, yrði hann ekki kallaður til vinnu innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Í svarbréfi stefnda 4. september 2014 segir að ástæða fyrirvaralausrar uppsagnar stefnanda hafi verið að við reglubundna samkeyrslu tölvukerfa hjá stefnda í ágúst 2014 hafi komið í ljós að stefnandi hafi tekið ófrjálsri hendi trúnaðarupplýsingar um kjarnastarfsemi stefnda, svo sem viðskiptamannaskrár tengdar sölu og vörunúmerum og sé það „ígildi þjófnaðar“ að mati stefnda sem réttlæti fyrirvaralausa uppsögn þar sem um verulegt brot hafi verið að ræða af hálfu stefnda. Með vísan til þess að stefnandi hafi sent tölvupósta á einkapóstfang sitt með trúnaðarupplýsingum frá stefnda sé uppsögnin lögmæt. Stefnandi mótmælti því með bréfi 9. september 2014 að hann hefði gerst brotlegur í starfi með því að senda tölvupósta úr vinnupóstfangi sínu í persónulegt póstfang. Ástæðu þessa sagði stefnandi vera þá að hann hefði unnið heima hjá sér og hafi ekki haft aðgang að vinnupóstfanginu þar. Einnig segir að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi hafi orðið fyrir tjóni af þessum sökum.
II
Stefnandi kveður þá háttsemi sína að senda lista á eigið póstfang í upphafi starfs síns hjá stefnda til að geta unnið á heimili sínu hafi ekki verið brot á starfssambandi, enda hafi öll samskipti við yfirmann stefnda í upphafi verið í gegnum einkapóstfang stefnanda. Umræddir listar hafi aðeins verið nýttir í þágu stefnda og hafi engar athugasemdir verið gerðar við þessi vinnubrögð fyrr en í september 2014, eða um 10 mánuðum eftir að stefnandi hóf störf hjá stefnda. Telji stefndi að stefnandi hafi brotið af sér í starfi beri samkvæmt meginreglum vinnuréttar að gefa áminningu áður en kemur til fyrirvaralausrar uppsagnar. Augljóst sé að stefnanda hafi verið sagt upp vegna stöðu fyrirtækisins og ástæða til að reka stefnanda fyrirvaralaust hafi verið tilbúin.
Stefnda hafi verið óheimilt að segja stefnanda upp störfum fyrirvaralaust og beri því að greiða stefnanda laun vegna ágúst 2014, auk launa í september, október og nóvember sama ár, ásamt áunnu orlofi, hlutdeild í desemberuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningi. Áunnið orlof frá 8. janúar til 1. desember 2014 séu 22 dagar að fráteknum 15 teknum orlofsdögum. Séu eftirstöðvar því sjö dagar, sem reiknist þannig: 10,17% x 680.000 krónur x 7 dagar = 219.659 krónur. Desemberuppbót hafi verið 73.600 krónur. Greiddar hafi verið 46.836 krónur og séu eftirstöðvar því 26.764 krónur.
Samkvæmt grein 1.9 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins sem gildi frá júní 2011 eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun séu greidd fyrir. Samkvæmt 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987 beri vinnuveitanda að greiða áunnin orlofslaun við lok ráðningartímans auk þess að greiða áunnið hlutfall launþega af orlofs- og desemberuppbótum samkvæmt köflum 1.3.1 og 1.3.2 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt kafla 12.1 í fyrrnefndum kjarasamningi sé uppsagnarfrestur þrír mánuðir eftir sex mánaða starf. Krafa stefnanda sundurliðast þannig:
Vangoldin laun í ágúst 2014 329.800 krónur
Vangoldin laun í september 2014 680.000 krónur
Vangoldin laun í október 2014 680.000 krónur
Vangoldin laun í nóvember 2014 680.000 krónur
Eftirstöðvar desemberuppbótar 26.764 krónur
Orlofsuppbót 39.500 krónur
Vangoldið orlof fyrir 7 daga 219.659 krónur
Samtals 2.655.723 krónur
Innheimtutilraunir stefnanda með bréfum 2. september, 2. október og 9. desember 2014 hafi ekki borið árangur. Kröfur stefnanda séu ýtrustu kröfur samkvæmt lögum og kjarasamningi. Stefnandi styður kröfur sínar við lög nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lög nr. 30/1987 um orlof, meginreglur kröfuréttar, vinnuréttar, kjarasamninga VR og Samtaka atvinnulífsins og bókanir sem teljast hluti af þeim. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Stefndi tekur fram að við samkeyrslu tölvukerfa BCM (Business Contact Manager) hafi komið í ljós að stefnandi hafi sent trúnaðarupplýsingar stefnda á einkapóstfang sitt. Hafi stefnanda verið sagt upp störfum án tafar. Byggir stefndi á því að allar upplýsingar sem stefnandi hafi sent úr tölvukerfi stefnda hafi verið trúnaðargögn sem hann hafði aðgang að hjá stefnda og hafi honum verið óheimilt að taka gögnin til sín persónulega frá félaginu. Hafi verið litið á það sem alvarlegt trúnaðarbrot sem réttlæti fyrirvaralausa uppsögn um leið og það hafi komist til vitundar forsvarsmanna félagsins. Þetta hafi verið veruleg brot á starfsskyldum stefnanda og brot á ákvæðum ráðningarsamnings aðila 17. desember 2013. Gögnin hafi verið upplýsingar um viðskiptavini, hvaða vörur þeir keyptu hjá stefnda, kostnaðarverð vöru, fjöldi vara og söluverð. Slíkar upplýsingar séu grundvallarupplýsingar fyrir stefnda og hafi ekki átt erindi út fyrir starfsstöð stefnda. Komist slíkar upplýsingar til samkeppnisaðila skaði það stefnda þar sem samkeppnisaðilar eigi þá auðvelt með að komast í viðskiptasambönd stefnda. Ljóst sé að þessar upplýsingar hafi ekki átt erindi í einkapóstfang stefnanda þar sem hann hafi verið með vinnupóstfang. Þá hafi komið í ljós að stefnandi hafi verið með upplýsingar frá N1 hf. sem hann hafi tekið ófrjálsri hendi að eigin sögn og brot hans í því ljósi mun alvarlegra en ella og ásetningur skýr.
Stefndi mótmæli því sem röngu að félagið standi illa og að það hafi verið ástæða uppsagnar stefnanda. Þjófnaður á lykilupplýsingum réttlæti fyrirvaralausa uppsögn og sé verulegt og gróft brot. Það sé vandséð hvernig þær upplýsingar sem teknar hafi verið hafi átt að gagnast stefnanda í starfi hans.
Almenn vinnuréttarsjónarmið leiði til þess að aðilar sem bundnir séu af ráðningarsamningi skuli vinna eftir honum en sé það ekki gert sé um vanefnd að ræða. Í því tilviki sem hér um ræði sé framganga stefnanda alvarleg og veruleg vanefnd á samningi aðila, það er þjófnaður á trúnaðarupplýsingum um kjarnastarfsemi félagsins, viðskiptamannaskrám og vörulistum, sem séu lífæð félags sem selji vörur í samkeppnisrekstri. Slík vanefnd sé veruleg og réttlæti fyrirvaralausa uppsögn aðila sem verði uppvís að slíku. Í tölvukerfi stefnda liggi fyrir óyggjandi sönnun þess að stefnandi haft sent út úr félaginu trúnaðarupplýsingar sem hann átti ekki að hafa í persónulegum fórum sínum og sé það ígildi þjófnaðar og brot á ráðningarsamningi aðila. Við slíkar aðstæður verði að telja að áminning eigi ekki við þar sem brot sé verulegt og alvarlegt. Það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn og missi réttinda samkvæmt ráðningarsamningi aðila. Einnig sé vísað til ákvæða í ráðningarsamningi aðila, aðallega til 5. gr. samningsins þar sem segi að framkvæmdastjóra sé heimilt að víkja starfsmanni fyrirvaralaust úr stöðu sinni ef hann brjóti samninginn í verulegum atriðum eða gerist brotlegur við landslög. Þá vísar stefndi til meginreglna vinnuréttar, kröfuréttar, samningaréttar og laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups. Um málskostnaðarkröfu stefnda er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Í máli þessu er deilt um það hvort stefnda beri laun frá stefnanda á þriggja mánaða uppsagnarfresti, laun fyrir hluta af ágúst 2014, auk orlofs, orlofsuppbótar og hluta af desemberuppbót eða hvort stefnda hafi verið heimilt að víkja stefnanda úr starfi án fyrirvara eins og hann gerði með uppsagnarbréfi 29. ágúst 2014. Ágreiningslaust er með aðilum að stefnandi fékk uppsagnarbréfið afhent þann dag og lét tafarlaust af störfum.
Auk launa fyrir ágúst 2014 krefst stefnandi greiðslu launa fyrir mánuðina september, október og nóvember 2014, svo og vangoldins orlofs í sjö daga, orlofsuppbótar og desemberuppbótar, samtals að fjárhæð 2.655.723 krónur. Ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum.
Dómakrafa stefnda byggir á því að stefnanda beri ekki laun í uppsagnarfresti, enda hafi stefnda verið heimilt að víkja stefnanda tafarlaust frá störfum vegna þess að hann hafi tekið til sín persónulega trúnaðargögn frá stefnda. Væri um að ræða alvarlegt trúnaðarbrot sem réttlætti fyrirvaralausa uppsögn. Fullyrðir stefndi að stefnandi hafi brotið starfsskyldur sínar samkvæmt ráðningasamningi með því að hafa tekið trúnaðarupplýsingar frá stefnda og sent sjálfum sér á einkapóstfang sitt. Sé það litið alvarlegum augum og sé trúnaðarbrestur, eins og tekið er fram í uppsagnarbréfi stefnda til stefnanda. Í málinu byggir stefndi einvörðungu á því að stefnandi hafi með þessu athæfi gerst brotlegur í starfi þannig að réttlæti hina fyrirvaralausu uppsögn úr starfi. Byggir stefndi því ekki á öðrum atriðum sem einnig eru tiltekin í uppsagnarbréfinu.
Samkvæmt reglum vinnuréttar er réttur atvinnurekanda til að víkja starfsmanni tafarlaust úr starfi háður því að viðkomandi starfsmaður hafi brotið gildandi ráðningarsamning í veigamiklum atriðum. Jafnframt er við það miðað að atvinnurekandi verði að áminna eða aðvara starfsmann áður en að honum er vikið tafarlaust úr starfi nema þá og því aðeins að brot starfsmanns sé alvarlegt.
Svo sem rakið er í kafla I að framan segir í 5. gr. ráðningarsamnings aðila að framkvæmdastjóra sé heimilt að víkja starfsmanni úr starfi fyrirvaralaust, brjóti hann samninginn í verulegum atriðum eða gerist brotlegur við landslög. Þá segir í 8. gr. samningsins að starfsmaður sé bundinn þagnarskyldu um hverja þá vitneskju sem hann öðlist í starfi sínu um rekstur og viðskipti Norpak ehf. og gildi það sama um viðskipti og rekstur viðskiptavina félagsins. Sé starfsmanni óheimilt að tjá sig um málefni Norpak ehf., starfsmenn eða eigendur, í fjölmiðlum eða á annan opinberan máta. Einnig segir að brjóti starfsmaður þær sérstöku skyldur sem lýst sé í greininni á meðan vinnusambandið sé í gildi teljist það veruleg vanefnd sem heimili Norpak ehf. riftun á samningnum.
Svo sem fram er komið var ráðningarsamningur gerður á milli Norpak ehf. og stefnanda. Við munnlegan flutning málsins upplýsti lögmaður stefnda að Viðarsúla ehf. væri hið rétta heiti félagsins, en kennitala Viðarsúlu ehf. er hin sama og Norpak ehf. Er því um sama aðila að ræða.
Ágreiningslaust er með aðilum að stefnandi sendi tiltekin gögn stefnda úr póstfanginu gisli@norpack.is, sem stefnandi fékk til afnota hjá stefnda þegar hann hóf störf, í persónulegt póstfang sitt, eliasson.gisli@gmail.com. Um var að ræða þrjá lista eða skrár með upplýsingum um viðskiptavini stefnda og vörulista, með og án verðupplýsinga. Þann 22. janúar 2014 sendi stefnandi sjálfum sér skrá með upplýsingum um nýja viðskiptamenn stefnda og skrá með upplýsingum um viðskiptamenn tveggja samstarfsmanna sinna. Þann 24. janúar sama ár sendi stefnandi sér upplýsingar um nýjar vörur, lista yfir kaupendur vörunnar og lista yfir aðrar vörur sem bjóða mætti viðskiptamönnum stefnda að kaupa. Þá sendi stefnandi sér þann 2. apríl 2014 upplýsingar um sölu til viðskiptamanna eftir vörutegundum.
Stefnandi greindi frá því fyrir dómi að hann hefði sent sér gögn á einkapóstfang sitt vegna þess að hann hefði ekki getað opnað vinnupóstfangið heima hjá sér. Stefnandi kvað hann og Sigurð framkvæmdastjóra stefnda hafa verið í miklum samskiptum í byrjun vegna starfs stefnanda og hefði Sigurður vitað að hann notaði einkapóstfangið vegna starfsins. Gögnin hefði Sigurður tekið út úr sölukerfum stefnda og sent stefnanda og hann sjálfum sér til þess að hann gæti kynnt sér hvaða fyrirtæki væru í viðskiptum við stefnda. Kvaðst stefnandi hafa ætlað að skoða gögnin heima hjá sér til að undirbúa sig sem best fyrir fundi hjá stefnda. Stefnandi kvaðst hafa haft aðgang að gögnunum í vinnu, en ekki vitað af því fyrr en við uppsögnin að hann hefði getað komist í vinnupóstfangið þótt hann væri heima hjá sér.
Í skýrslu Sigurðar L. Sævarssonar, framkvæmdastjóra stefnda, fyrir dómi kom fram að stefnanda hefði verið sagt upp störfum hjá stefnda fyrirvaralaust þegar hann hafi fengið vitneskju um að stefnandi hefði sent trúnaðargögn út úr fyrirtækinu, en stefnandi hafi ekki fengið heimild til þess. Sigurður kvað stefnda vera í harðri samkeppni og allt snúist um verð. Þegar trúnaðarupplýsingar um fjölda, verð og viðskiptavini fari út úr húsi skapist mjög mikil tjónsáhætta og viðskipti geti tapast. Kvaðst Sigurður ekki trúa á það að starfsmenn væru að vinna heima hjá sér á kvöldin. Þó gæti það komið fyrir, væru þeir eða börn þeirra veik, að starfsmenn ynnu heima, svöruðu síma og hringdu inn pantanir, en það hafi ekki verið ætlast til þess og beinlínis mælst gegn því að starfsmenn breyttu heimilum sínum í skrifstofu. Hluti af þeim gögnum sem stefnandi hefði sent til sín hafi ekki varðað starf hans hjá stefnda. Ætti það við um gögn um pantanir og innkaup fyrirtækisins.
Af hálfu stefnda er byggt á því að stefnanda hafi verið óheimilt að „taka gögnin til sín persónulega frá félaginu.“ Lítur stefndi svo á að um alvarlegt trúnaðarbrot hafi verið að ræða. Hafi það réttlætt fyrirvaralausa uppsögn um leið og stefndi hafi fengið vitneskju um athæfi stefnanda sem hafi verið verulegt brot á starfsskyldum hans og ráðningarsamningi aðila. Við mat á því verður að áliti dómsins að líta til þess hvers eðlis gögnin voru og í hvaða skyni stefnandi sendi þau úr vinnupóstfangi sínu í einkapóstfang sitt. Svo sem segir í greinargerð stefnda var um að ræða skrá yfir viðskiptamenn stefnda og vörulista. Heldur stefnandi því fram að gögnin hafi hann sent til að vinna með þau heima hjá sér í þeim tilgangi að fara yfir listana og bera saman við sitt eigið tengslanet í því skyni að athuga hvort hægt væri að auka viðskipti stefnda. Þykja þær skýringar stefnanda í sjálfu sér ekki ótrúverðugar. Þá getur framangreind háttsemi stefnanda að mati dómsins hvorki ein og sér falið í sér brot á starfsskyldum stefnanda við stefnda né á ákvæðum 8. gr. í ráðningarsamningi aðila, enda liggur fyrir að stefnandi hafði aðgang að þessum skrám og vörulistum við störf sín hjá stefnda og ekkert liggur fyrir um það að stefnandi hafi sent gögnin frá sér úr einkapóstfanginu og brotið með því trúnað og samningsbundna þagnarskyldu um málefni stefnda, sbr. fyrrnefnda 8. gr. samningsins. Samkvæmt þessu er ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi brotið ráðningarsamning sinn við stefnda „í verulegum atriðum eða gerst brotlegur við landslög“, enda liggur ekkert fyrir um það í málinu að stefnandi hafi tileinkað sér upplýsingar um viðskiptamenn stefnda og vörulista í þágu annarra en stefnda.
Hafi stefndi litið á þá háttsemi stefnanda að senda sér í einkapóstfang umrædd gögn sem brot á trúnaðarskyldum gagnvart stefnda er við það miðað að stefnda hafi borið að áminna stefnanda fyrir brot á starfsskyldum sínum gagnvart stefnda áður en til brottvikningar úr starfi gæti komið. Það gerði stefndi ekki en vék stefnanda úr starfi án fyrirvara. Kröfu stefnda um sýknu af kröfum stefnanda er því hafnað og fallist á að stefnandi eigi rétt á bótum vegna hinnar fyrirvaralausu uppsagnar sem samsvari vangreiddum launum fyrir ágúst 2014 og þeim launum sem stefnandi hefði fengið greidd á þriggja mánaða uppsagnartíma, auk orlofs, orlofsuppbótar og hluta af desemberuppbót samkvæmt kröfugerð stefnanda í málinu, en sem fyrr segir sætir dómkrafa stefnanda ekki tölulegum athugasemdum af hálfu stefnda. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 2.655.723 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.
Stefnandi krefst dráttarvaxta af 1.689.800 krónum frá 1. nóvember 2014 til „desember“ sama ár án frekari tilgreiningar. Hluti af þeirri fjárhæð eru laun stefnanda fyrir nóvember 2014, sem féllu í gjalddaga 1. desember 2014, sbr. ákvæði 1.9 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt því og að því gættu hvernig stefnandi hagar kröfu um dráttarvexti í málinu, sbr. enn fremur 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, er við það miðað að dráttarvextir af greindri fjárhæð reiknist frá 1. nóvember 2014 til 1. desember sama ár eins og greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Viðarsúla ehf., greiði stefnanda, Gísla Elíassyni, 2.655.723 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 329.800 krónum frá 1. september 2014 til 1. október 2014, af 1.009.800 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2014, af 1.689.800 krónum frá þeim degi til 1. desember 2014, af 2.655.723 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað.