Hæstiréttur íslands

Mál nr. 719/2010


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Handveð
  • Skuldajöfnuður
  • Riftun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                                                                              

Fimmtudaginn 6. október 2011.

Nr. 719/2010.

Þrotabú Samsonar eignarhaldsfélags ehf.

(Helgi Birgisson hrl.

Jóhann H. Hafstein hdl.)

gegn

Arion banka hf.

(Andri Árnason hrl.

Karl Óttar Pétursson hdl.)

Fjármálafyrirtæki. Handveð. Skuldajöfnuður. Riftun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

Með yfirlýsingu 21. desember 2005 setti S ehf. bankanum K hf. að handveði hlutabréf í L hf. til tryggingar öllum skuldum félagsins við bankann. Með samningi 7. desember 2007 tók S ehf. lán hjá K hf. og til tryggingar skuldinni átti bankinn meðal annars að njóta réttar samkvæmt áðurgreindri handveðsyfirlýsingu. K hf. gerði í tvígang, 12. júní 2008 og 2. október sama ár, veðkall á hendur S ehf. Félagið brást við með annars vegar handveðsetningu á hlutum í L hf. 24. júní 2008 og hins vegar með tölvubréfi starfsmanns S ehf. til K hf. 6. október sama ár, þar sem veitt voru fyrirmæli til bankans um handveðsetningu óveðsettra hlutabréfa félagsins og ráðstöfun á innstæðu þess í peningamarkaðssjóðum bankans með það fyrir augum að veita nægilega tryggingu fyrir skuldum félagsins. K hf. var sett skilanefnd 9. október 2008 og var skuld S ehf. við bankann ráðstafað til A hf. í kjölfarið. Viðskipti voru stöðvuð með hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóði bankans 6. október sama ár og sjóðnum slitið 31. sama mánaðar. Var hlutdeild S ehf. í sjóðnum ráðstafað við það tækifæri á tvo reikninga hjá A hf. Bú S ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 12. nóvember 2008. Í málinu krafði þb. S ehf. A hf. um fjárhæðina sem ráðstafað var á reikninga hjá bankanum 31. október 2008, með áföllnum vöxtum. Einnig krafðist þb. S ehf. þess að rift yrði tveimur áðurgreindum ráðstöfunum félagsins í þágu K hf. en Hæstiréttur vísaði þeim kröfum af sjálfdáðum frá héraðsdómi. Um hina fyrstnefndu kröfu þb. S ehf. segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að í áðurgreindu tölvubréfi 6. október 2008 hafi ekki falist framsal á hlutdeildarskírteinum í peningamarkaðssjóðnum, heldur beiðni um að bankinn kæmi þeim í verð. Þótt litið yrði svo á að bréfið fæli í sér loforð S ehf. til K hf. um að bankanum væri heimilt að verja nánar tilgreindri fjárhæð af söluverðinu til greiðslu á skuldum félagsins við bankann yrði að gæta að því að ekkert lægi fyrir í málinu um að bankinn hefði lýst yfir samþykki slíks loforðs eða samþykkt það í verki, heldur hefði hann ráðstafað andvirði hlutdeildarskírteina S ehf. inn á tvo reikninga við slit sjóðsins. Féð hefði verið óhreyft þar til skiptastjóri þb. S ehf. hefði krafist þess að fá það afhent og þar með dregið til baka beiðni S ehf. um ráðstöfun þess. A hf. gæti því ekki reist tilkall sitt til fjárins á tölvubréfinu. Þá lægi ekkert fyrir um að K hf. hefði notið heimildar samkvæmt samningi við S ehf. til að ganga á innlánsreikninga félagsins til uppgjörs á skuldum þess, en af dómaframkvæmd Hæstaréttar leiddi að án slíkrar heimildar gæti bankinn ekki beitt skuldajöfnuði í þessu skyni. Var krafa þb. S ehf. um afhendingu fjárins því tekin til greina.  

Dómur Hæstaréttar

        Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 2010. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 520.669.019 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. nóvember 2008 til greiðsludags, svo og að rift verði annars vegar veðsetningu Samsonar eignarhaldsfélags ehf. 24. júní 2008 á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 52.000.000 krónur til Kaupþings banka hf. og hins vegar „ráðstöfun eigna búsins til handa stefnda sem felst í tölvupósti Sigþórs Sigmarssonar, dags. 6. október 2008, þar sem óskað er eftir að innistæða þrotamanns, Samsonar eignarhaldsfélags ehf., á peningamarkaðssjóðum félagsins hjá stefnda verði færð til lækkunar á skuldum þrotamanns við stefnda.“ Til vara krefst áfrýjandi að stefnda verði gert að greiða sér 127.669.019 krónur með dráttarvöxtum eins og að framan greinir. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins gaf Samson eignarhaldsfélag ehf. út yfirlýsingu 21. desember 2005, þar sem það setti að handveði til Kaupþings banka hf. hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 239.000.000 krónur til tryggingar öllum skuldum félagsins við fyrrnefnda bankann. Í yfirlýsingunni var meðal annars tekið fram að veðréttur bankans næði til allra tekna og arðs af hlutabréfunum og yrðu slíkar greiðslur varðveittar á sérstökum reikningi, sem skyldi settur að handveði með sömu skilmálum og hlutabréfin. Einnig var mælt svo fyrir að ef bankinn ráðstafaði greiðslum, sem honum bærust vegna hlutabréfanna, til kaupa á „nýjum fjármálagerningum“ tæki veðrétturinn jafnframt til þeirra. Þá var svofellt ákvæði í yfirlýsingunni: „Fari markaðsverðmæti veðandlagsins niður fyrir 130% af eftirstöðvum þeirra skulda sem veðandlagið á að tryggja skal veðsali greiða niður þær skuldir sem veðandlagið tryggir eða leggja fram nýjar tryggingar svo jafnvægi náist milli skuldanna og verðmæti veðandlagsins að mati veðhafa. Verði veðsali ekki við beiðni veðhafa í samræmi við framangreint innan 7 daga frá því að slík beiðni kemur fram skal litið á það sem vanefnd af hálfu veðsala“.

Samkvæmt málatilbúnaði stefnda greiddi Landsbanki Íslands hf. 347.350.038 krónur 23. mars 2006 inn á vörslureikning Samsonar eignarhaldsfélags ehf. hjá Kaupþingi banka hf., þar af 71.700.000 krónur vegna arðs af fyrrnefndum hlutabréfum, sem hann hafði að handveði. Stefndi kveður þessa fjárhæð að frádregnum fjármagnstekjuskatti hafa verið nýtta til kaupa á hlutdeildarskírteinum í peningamarkaðssjóði Kaupþings.

Með samningi 7. desember 2007 tók Samson eignarhaldsfélag ehf. 4.261.370.139 krónur að láni hjá Kaupþingi banka hf., sem verja átti til að greiða upp eldra lán félagsins hjá bankanum. Þetta nýja lán átti að bera svokallaða REIBOR vexti með 2,25% álagi og skyldi greiða þá ásamt höfuðstóli skuldarinnar í einu lagi 10. desember 2008. Til tryggingar skuldinni átti Kaupþing banki hf. að njóta handveðréttar í áðurgreindum hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. samkvæmt yfirlýsingunni frá 21. desember 2005, auk þess sem tveir nafngreindir menn gengjust í sjálfskuldarábyrgð fyrir henni. Um tryggingar sagði jafnframt eftirfarandi: „Fari markaðsverðmæti trygginga ... niður fyrir 130% hvenær sem er á lánstímanum skal lántaki greiða niður lán þetta eða leggja fram nýjar tryggingar, svo markaðsverðmæti trygginga verði aftur a.m.k. 150% og jafnvægi náist þar með á milli skuldarinnar skv. lánssamningi þessum og verðmæti trygginganna að mati bankans. Verði lántaki ekki við beiðni bankans í samræmi við framangreint innan 7 daga frá því að slík beiðni kemur fram skal litið á það sem vanefnd af hálfu lántaka“.

Kaupþing banki hf. sendi Samson eignarhaldsfélagi ehf. bréf 12. júní 2008, þar sem vísað var til áðurgreindrar yfirlýsingar frá 21. desember 2005 um handveðrétt bankans í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf., svo og ákvæða þar um skyldu félagsins til að láta í té frekari tryggingar eða greiða niður skuldir sínar við Kaupþing banka hf. ef verðmæti trygginga færi niður fyrir 130% af eftirstöðvum skuldanna. Við lok viðskipta í kauphöll 12. júní 2008 hafi verðmæti veðsettu hlutabréfanna numið 123% af skuldbindingum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. við Kaupþing banka hf. Af þeim sökum væri þess krafist að félagið legði fram frekari tryggingar eða greiddi niður skuld samkvæmt fyrrnefndum lánssamningi 7. desember 2007 ekki síðar en 20. júní 2008 þannig að verðmæti trygginga næmi að minnsta kosti 150% skuldarinnar, en ella myndi bankinn neyta vanefndaúrræða, sem kveðið væri á um í samningum þeirra. Samson eignarhaldsfélag ehf. brást við þessu með því að setja að handveði til Kaupþings banka hf. hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 52.000.000 krónur með yfirlýsingu 24. júní 2008.

Aftur beindi Kaupþing banki hf. bréfi til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. 2. október 2008, þar sem vísað var til þess að við lok viðskipta í kauphöll degi fyrr hafi verðmæti trygginga, sem félagið hafi látið bankanum í té, verið komið niður í 124,6% af skuldbindingum þess. Krafist var að félagið legði fram ekki síðar en 9. sama mánaðar frekari tryggingar eða greiddi niður skuld samkvæmt lánssamningnum 7. desember 2007 þannig að verðmæti trygginga svaraði að minnsta kosti til 150% af eftirstöðvum hennar. Af þessu tilefni sendi Sigþór Sigmarsson fyrir hönd Samsonar eignarhaldsfélags ehf. tölvubréf til bankans eftir hádegi 6. október 2008, þar sem sagði eftirfarandi: „Bankinn er með í vörslu 35.963.935 hluti til viðbótar, óveðsetta. Vinsamlegast takið veð í þeim og er þá heildarfjöldi bréfa kominn í 333.546.234 og veðhlutfall í 135%. Vinsamlegast seljið alla innistæðu félagsins í peningamarkaðssjóðum, 450m á öðrum fjárvörslureikningnum og 150m á hinum. Gerið upp yfirdrátt á cash-reikningi, ca. 23m. Eftir standa ca. 570m. Notið 370.000.000 til að greiða inn á vexti af láninu og verður þá þekjan komin í 150%. Millifærið afganginn, um 200m inn á reikning félagsins í LAIS ...“. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda var þennan sama dag tekin ákvörðun um að stöðva viðskipti með hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóði Kaupþings. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að bankinn hafi nokkuð aðhafst vegna framangreindrar beiðni Samsonar eignarhaldsfélags ehf.

Að kvöldi 6. október 2008 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., en með þeim var meðal annars bætt nýju ákvæði í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem varð 100. gr. a. þeirra laga. Á grundvelli þess tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Það sama var gert 9. sama mánaðar gagnvart Kaupþingi banka hf. Í framhaldi af því tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 21. október 2008 um ráðstöfun tiltekinna eigna og skuldbindinga Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., sem nú ber heiti stefnda. Óumdeilt er að fyrrgreind skuld Samsonar eignarhaldsfélags ehf. samkvæmt lánssamningnum 7. desember 2007 hafi verið meðal þeirra eigna, sem færðust á þessum grunni til stefnda. Þá liggur fyrir í málinu að peningamarkaðssjóði Kaupþings var slitið 31. október 2008 og komu í hlut Samsonar eignarhaldsfélags ehf. samtals 503.334.424 krónur vegna hlutdeildarskírteina, sem félagið hafði átt í sjóðnum. Fé þetta var lagt inn á tvo reikninga hjá stefnda, annars vegar 373.461.867 krónur á reikning nr. 0329-26-465763 og hins vegar 129.872.557 krónur á reikning nr. 0329-26-486472.

Bú Samsonar eignarhaldsfélags ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 12. nóvember 2008, en samkvæmt málflutningi áfrýjanda hafði félagið leitað heimildar til greiðslustöðvunar 7. október sama ár og hafi frestdagur við skiptin markast af því. Skiptastjóri leitaði 13. nóvember 2008 upplýsinga hjá stefnda um innstæður og aðrar eignir áfrýjanda, sem kynnu að vera í vörslum stefnda, og fékk af því tilefni sendar 20. sama mánaðar skilagreinar um útborganir handa Samson eignarhaldsfélagi ehf. við slit peningamarkaðssjóðsins og ráðstöfun fjárins á áðurgreinda tvo reikninga hjá stefnda. Skiptastjóri óskaði síðastgreindan dag eftir því að þessum reikningum yrði lokað og innstæða á þeim færð á reikning áfrýjanda við annan tilgreindan banka, en við því varð stefndi ekki. Þessi ósk var ítrekuð í bréfi 15. desember 2008, þar sem skiptastjóri krafðist meðal annars dráttarvaxta af innstæðufénu frá 20. nóvember sama ár. Þessu svaraði stefndi með bréfi 20. janúar 2009, þar sem meðal annars kom fram að samanlögð innstæða á reikningunum tveimur væri orðin 520.669.019 krónur að meðtöldum áföllnum vöxtum, en af þeirri fjárhæð teldi stefndi sig eiga tilkall til 479.238.704 króna. Annars vegar ætti það rætur að rekja til þess að Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi með áðurgreindu tölvubréfi 6. október 2008 ráðstafað til Kaupþings banka hf. samtals 393.000.000 krónum af inneign félagsins í peningamarkaðssjóði til að greiða upp yfirdrátt á bankareikningi og til innborgunar á vexti af skuld samkvæmt lánssamningnum frá 7. desember 2007, en þetta hafi félagið gert í samræmi við skyldur sínar samkvæmt þeim samningi og yfirlýsingu um handveðrétt bankans frá 21. desember 2005. Hins vegar nyti stefndi réttar til 86.238.704 króna af fénu, sem greitt hafi verið út við slit peningamarkaðssjóðsins, þar sem sá hluti inneignar félagsins í sjóðnum væri kominn til vegna áðurgreinds arðs að fjárhæð 71.700.000 krónur, sem Landsbanki Íslands hf. hafi greitt til Kaupþings banka hf. 23. mars 2006 af handveðsettum hlutabréfum, en í arðinum hafi síðarnefndi bankinn átt veðrétt samkvæmt handveðsyfirlýsingunni 21. desember 2005. Stefndi bauðst á hinn bóginn til að greiða áfrýjanda það, sem eftir stæði af fénu, 41.430.315 krónur, ef sá síðarnefndi féllist „á ofangreinda málavexti.“ Ekki verður séð af gögnum málsins að áfrýjandi hafi svarað þessu bréfi.

Stefndi lýsti kröfu á hendur áfrýjanda 13. janúar 2009 um greiðslu á samtals 5.054.598.393 krónum á grundvelli lánssamnings Samsonar eignarhaldsfélags ehf. við Kaupþing banka hf. 7. desember 2007. Í kröfulýsingu stefnda var einskis getið um greiðslu inn á þessa skuld af fénu, sem hann hafði samkvæmt áðursögðu undir höndum vegna útborgunar til félagsins við slit peningamarkaðssjóðs Kaupþings, eða hugsanlegt tilkall stefnda til þess.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 26. mars 2009 og gerði fyrir héraðsdómi sömu kröfur og hann gerir fyrir Hæstarétti. Þær 520.669.019 krónur, sem hann krefst úr hendi stefnda, nema samanlagðri fjárhæð innstæðna á fyrrnefndum tveimur reikningum hjá stefnda, sem hlutdeild Samsonar eignarhaldsfélags ehf. í peningamarkaðssjóði var ráðstafað inn á 31. október 2008, að meðtöldum áföllnum vöxtum til 20. janúar 2009. Fyrir héraðsdómi krafðist stefndi í öndverðu sýknu af kröfum áfrýjanda, en undir rekstri málsins viðurkenndi stefndi skyldu sína til að greiða áfrýjanda 127.669.019 krónur með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu. Þetta rakti stefndi til þess að annars vegar hafi hann sem áður segir viðurkennt í bréfi 20. janúar 2009 að áfrýjandi ætti tilkall til 41.430.315 króna af innstæðu á reikningunum tveimur og hins vegar féll stefndi frá málsástæðu um veðrétt sinn yfir fyrrgreindum 86.238.704 krónum. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi dæmdur til greiðslu í samræmi við þetta og unir hann þeirri niðurstöðu þótt hann hafi ekki efnt þessa skyldu sína samkvæmt dóminum.

Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti er féð, sem deila aðilanna stendur um, enn varðveitt á þeim tveimur bankareikningum, sem áður var getið.

II

Áfrýjandi reisir dómkröfu sína um riftun á veðsetningu Samsonar eignarhaldsfélags ehf. til Kaupþings banka hf. 24. júní 2008 á hlutabréfum að nafnverði 52.000.000 krónur í Landsbanka Íslands hf. á 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem þau tryggingarréttindi hafi verið veitt á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti á áfrýjanda, en ekki um leið og stofnað var til skuldarinnar, sem réttindin áttu að tryggja. Án tillits til þess hvort skilyrðum þessa lagaákvæðis sé hér fullnægt verður að gæta að því að riftun á þessari ráðstöfun varðar á engan hátt fyrrgreindar kröfur áfrýjanda um greiðslu úr hendi stefnda. Samkvæmt málflutningi aðilanna fyrir Hæstarétti er óumdeilt að hlutabréfin, sem Samson eignarhaldsfélag ehf. veitti Kaupþingi banka hf. veðrétt í 24. júní 2008, séu nú einskis virði. Að því virtu verður ekki séð að áfrýjandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um riftun þessarar ráðstöfunar.

Krafa áfrýjanda um riftun á ráðstöfun eigna Samsonar eignarhaldsfélags ehf., sem hafi falist í áðurgreindu tölvubréfi starfsmanns félagsins 6. október 2008 til Kaupþings banka hf., er reist á 141. gr. laga nr. 21/1991. Í héraðsdómsstefnu var hvorki skýrt af hvaða ástæðum þessi ráðstöfun geti hafa talist ótilhlýðileg né hvers vegna bankinn hafi mátt vita um ógjaldfærni félagsins fyrrgreindan dag og aðstæður, sem hafi gert ráðstöfunina ótilhlýðilega. Vegna þessarar vanreifunar er ófært að fella efnisdóm á þessa kröfu.

Af framangreindum ástæðum verður báðum kröfum áfrýjanda um riftun ráðstafana Samsonar eignarhaldsfélags ehf. vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

III

Eins og nánar greinir í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfu um greiðslu á 520.669.019 krónum á því að fjárhæð þessi, sem varðveitt er á tveimur reikningum hjá stefnda, tilheyri sér og njóti stefndi hvorki tryggingarréttinda í innstæðunum fyrir kröfu á hendur áfrýjanda né annarra heimilda til að taka hluta þeirra til sín.

Í yfirlýsingu Samsonar eignarhaldsfélags ehf. 21. desember 2005, þar sem Kaupþingi banka hf. var veittur handveðréttur yfir hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 239.000.000 krónur, var sem fyrr segir ákvæði um að veðrétturinn tæki meðal annars til arðs af hlutabréfunum auk svonefndra fjármálagerninga, sem kynnu að verða keyptir fyrir slíkan arð. Þess hefur og verið getið að samkvæmt málatilbúnaði stefnda greiddi Landsbanki Íslands hf. 23. mars 2006 til Kaupþings banka hf. arð af þessum hlutabréfum, sem hafi gengið til kaupa á hlutdeildarskírteinum í peningamarkaðssjóði Kaupþings. Arðurinn, sem greiddur var af handveðsettu hlutabréfunum, nam samkvæmt greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi 71.700.000 krónum, en þar kom einnig fram að til þeirrar greiðslu mætti rekja 86.238.704 krónur af fjárhæðinni, sem kom til útborgunar vegna hlutdeildarskírteina Samsonar eignarhaldsfélags ehf. við slit peningamarkaðssjóðsins 31. október 2008. Undir rekstri málsins í héraði viðurkenndi stefndi að áfrýjandi ætti rétt á að fá greiddar þessar 86.238.704 krónur og féll þar með frá því að veðréttur sinn næði til þeirrar fjárhæðar. Að öðru leyti hefur stefndi hvorki sýnt fram á að hann hafi notið veðréttinda yfir fénu, sem Samson eignarhaldsfélag ehf. átti í peningamarkaðssjóðnum, né þeim tveimur reikningum, sem féð var greitt inn á 31. október 2008.

Í áðurgreindu tölvubréfi starfsmanns Samsonar eignarhaldsfélags ehf. til Kaupþings banka hf. 6. október 2008 var meðal annars mælst til þess að bankinn seldi alla inneign félagsins í peningamarkaðssjóði, svo og að ráðstafað yrði af söluverðinu um 23.000.000 krónum til uppgjörs á skuld vegna yfirdráttar á bankareikningi og 370.000.000 krónum til greiðslu upp í vexti af skuld samkvæmt lánssamningnum frá 7. desember 2007. Í þessari orðsendingu fólst ekkert framsal á hlutdeildarskírteinum í peningamarkaðssjóðnum, heldur beiðni um að bankinn kæmi þeim í verð. Þótt litið yrði svo á að tölvubréf þetta hafi falið í sér loforð Samsonar eignarhaldsfélags ehf. til Kaupþings banka hf. um að þeim síðarnefnda væri heimilt að verja samtals um 393.000.000 krónum af söluverði hlutdeildarskírteina til greiðslu á fyrrnefndum skuldum félagsins við bankann verður að gæta að því að ekkert liggur fyrir í málinu um að hann hafi lýst yfir samþykki slíks loforðs. Ekki lét Kaupþing banki hf. eða stefndi heldur verða af því að samþykkja þetta í verki með því að gera ráðstafanirnar, sem Samson eignarhaldsfélag ehf. hafði óskað eftir, en þess í stað ráðstafaði stefndi öllu andvirði hlutdeildarskírteina félagsins inn á áðurgreinda tvo reikninga við slit peningamarkaðssjóðsins 31. október 2008. Féð var óhreyft á þeim reikningum þegar skiptastjóri áfrýjanda krafðist 20. nóvember sama ár að fá það afhent og dró með því til baka beiðni Samsonar eignarhaldsfélags ehf. um ráðstöfun þess, sem Kaupþing banki hf. og stefndi höfðu hvorki samþykkt né fylgt eftir. Að þessu virtu getur stefndi ekki reist tilkall til 393.000.000 króna af innstæðu þessara tveggja reikninga á tölvubréfinu, sem hér um ræðir.

Af hinum áfrýjaða dómi verður ráðið að stefndi hafi við munnlegan flutning málsins í héraði meðal annars borið fyrir sig að svokallaðir almennir markaðsskilmálar fyrir verðbréfaviðskipti milli Kaupþings banka hf. og viðskiptavina bankans frá nóvember 2007, sem Samson eignarhaldsfélag ehf. samþykkti með yfirlýsingu 25. janúar 2008 að gilda skyldu um viðskipti sín við bankann, hafi að geyma ákvæði, sem hafi heimilað honum að skuldfæra vörslureikninga félagsins vegna skulda þess við sig. Að þeirri málsástæðu var ekki vikið í greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi og getur hún þegar af þeim sökum engu varðað við úrlausn málsins, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í málinu liggur ekkert fyrir um að Kaupþing banki hf. hafi af öðrum sökum notið heimildar samkvæmt samningi við Samson eignarhaldsfélag ehf. til að ganga á innlánsreikninga félagsins til uppgjörs á skuldum þess, en af dómaframkvæmd leiðir að bankinn gat ekki án slíkrar heimildar beitt skuldajöfnuði í þessu skyni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 12. júní 1992 í máli nr. 373/1989 og 14. maí 1998 í máli nr. 377/1997, sem birtir eru í dómasafni 1992 bls. 1197 og 1998 bls. 1865.

Að virtu því öllu, sem að framan segir, verður að taka til greina kröfu áfrýjanda um að stefnda verði gert að greiða honum fjárhæðina, sem stóð 20. janúar 2009 samanlagt á reikningum nr. 0329-26-465763 og 0329-26-486472, eða 520.669.019 krónur. Með því að innifaldir munu vera í þeirri fjárhæð áfallnir vextir af innstæðunum til framangreinds dags verða dráttarvextir dæmdir af kröfu áfrýjanda eins og í dómsorði greinir.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Kröfum áfrýjanda, þrotabús Samsonar eignarhaldsfélags ehf., um riftun á ráðstöfunum félagsins gagnvart Kaupþingi banka hf. 24. júní og 6. október 2008 er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Arion banki hf., greiði áfrýjanda 520.669.019 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. janúar 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember sl. er höfðað með stefnu birtri 26. mars 2009. Málið var upphaflega flutt 26. maí sl. en endurupptekið og flutt að nýju 12. nóvember sl. vegna þess að dómur varð ekki lagður á það innan lögmælts frests  vegna anna dómara.

Stefnandi er Þrotabú Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Aðalstræti 6, Reykjavík.

Stefndi er Arion hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær:

1.            Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 520.669.019 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. nóvember 2008 til greiðsludags.

2.            Að rift verði með dómi veðsetningu þrotamanns, Samsonar eignarhaldsfélags ehf., á hlutabréfum í Landsbanka Íslands, kt. 540291-2259, að nafnvirði 52.000.000 króna samkvæmt viðauka við handveðsyfirlýsingu nr. 0358-63-722, dags. 24. júní 2008.

3.            Að rift verði með dómi ráðstöfun eigna búsins til handa stefnda sem felst í tölvupósti Sigþórs Sigmarssonar, dags. 6. október 2008, þar sem óskað er eftir að innstæða þrotamanns, Samsonar eignarhaldsfélagsins ehf., á peningamarkaðssjóðum félagsins hjá stefnda verði færð til lækkunar á skuldum þrotamanns við stefnda.

4.            Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, gegn greiðslu á 127.669.019 krónum ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppkvaðningu til greiðsludags.

Þá krefst stefndi málskostnaðar en til vara að hann verði felldur niður.

MÁLSÁSTÆÐUR OG ÖNNUR ATVIK SEM STEFNANDI BER FYRIR SIG

Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta hinn 12. nóvember 2008. Með bréfi skiptastjóra, dagsettu 20. nóvember 2008, til stefnda óskaði stefnandi eftir því að reikningum búsins hjá stefnda yrði lokað og innstæður þeirra lagðar inn á reikning stefnanda í Landsbankanum. Bréfinu var svarað samdægurs þar sem send voru yfirlit yfir bankareikningana þar sem fram kemur að innstæðan sundurliðaðist þannig:

                - innstæða á reikningi 0329-26-465763                                        kr. 373.461.867

                - innstæða á reikningi 0329-26-486472                                        kr. 129.872.557

Ekki hafi verið farið að fyrirmælum um að færa eignir stefnanda inn á reikning þrotabúsins í Landsbankanum sem ítrekuð hafi verið í tölvupósti til starfsmanns bankans í kjölfarið. Þar sem ekki hafi verið orðið við beiðninni þrátt fyrir ítrekanir hafi innheimtubréf verið sent stefnda, dagsett 15. desember 2008, þar sem m.a. hafi verið skorað á stefnda að greiða innstæðuna inn á bankareikning þrotabúsins.

Svar hafi borist með bréfi stefnda, dagsettu 20. janúar 2009. Þar sé á því byggt af hálfu stefnda að bankinn eigi tilkall til 479.238.704 króna af innstæðu þrotabúsins hjá bankanum. Fram komi í bréfi stefnda að nefndar innstæður eigi rót að rekja til innlausnar á peningamarkaðssjóðum í eigu þrotabúsins. Fyrirsvarmaður félagsins hafi nánar óskað eftir því með tölvupósti, dagsettum 6. október 2008, að 393.000.000 króna af innstæðunni yrði ráðstafað til að greiða inn á skuldir Samsonar við bankann þar sem verðmæti trygginga Samsonar vegna lántöku hafi verið komið niður í 124,6% af eftirstöðvum skuldbindinga félagsins við bankann en hafi ekki mátt fara niður fyrir 130%  samkvæmt handveðslýsingu, dagsettri 21. desember 2005.  Telji bankinn sig í ljósi framangreinds eiga rétt til 393.000.000 króna af innstæðu búsins.

Þá hafi stefndi talið sig auk þess eiga tilkall til 86.238.704 króna. Sú fjárhæð hafi verið arður af hlutabréfum í Landsbankanum sem settur hafi verið stefnda til tryggingar samkvæmt veðsamningi stefnda og stefnanda, dags. 21. desember 2005.  Stefndi hefur fallið frá þessari kröfu sinni undir rekstri málsins. Í niðurlagi bréfsins segi orðrétt:  ,,Með vísan til þess sem hér segir telur NKB ljóst að hann hafi heimild til að halda eftir kr. 479.238.704 auk vaxta, af innistæðum á reikningum þrotabús Samsonar í bankanum nr. 329-26-486472 og 329-26-465763. Eftirstöðvar eða kr. 41.430.315 munu greiddar til þrotabús Samson fallist félagið á ofangreinda málavexti“.

Stefnandi geti ekki fallist á að stefndi eigi tilkall til fjármuna inni á reikningum þrotabúsins hjá bankanum.

Samkvæmt handveðsyfirlýsingu, dags. 21. desember 2005, hafi Samson eignarhaldsfélag ehf., sett Kaupþingi banka hf., að handveði hlutabréf í Landsbanka Íslands að nafnverði 239.000.000 króna og skyldi veðandlagið geymt á vörslureikningi Samsonar eignarhaldsfélags hjá bankanum nr. 465763. Með viðauka við handveðsyfirlýsinguna, dagsettum 24. júní 2008, hafi hlutabréfum í Landsbanka Íslands að nafnvirði kr. 52.000.000 verið aukið við handveðið.

Með lánssamningi milli Kaupþings banka hf. og Samsonar eignarhaldsfélags ehf., dagsettum 7. desember 2007, hafi bankinn lánað Samsoni eignarhaldsfélagi ehf., 4.261.370.139 krónur. Hafi bankanum verið heimilað að skuldfæra reikning nr. 0313-26-902 í bankanum fyrir greiðslum afborgana og vaxta. Samningurinn hafi hins vegar ekki veitt stefnda heimild til að skuldfæra aðra reikninga í eigu félagsins hjá  bankanum. Um tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu var vísað til fyrrgreindrar handveðslýsingar auk þess sem Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson gengu í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu.

Af framansögðu sé ljóst að Kaupþing banki hf., (nú stefndi) hafi notið samningsbundinna veða í tilgreindum eignum Samsonar eignarhaldsfélags til tryggingar kröfu sinni samkvæmt lánasamningnum og hafi haft heimildir til að skuldfæra tilgreindan reikning í eigu félagsins. Stefndi hafi á hinn bóginn ekki haft neinn samning um handveðsrétt eða aðrar tryggingar í bankainnstæðum Samsonar. Njóti stefndi því engra veða í reikningum nr. 329-26-486472 og 329-26-465763. Þá hafi stefndi auk þess enga heimild samkvæmt samningi við þrotabúið til að færa fjármuni út af reikningum þess til greiðslu á ætluðum skuldbindingum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. við bankann.

Stefndi virðist byggja á því  að hann eigi tilkall til nefndrar peningafjárhæðar vegna veðsamninganna og vegna fyrirmæla í tölvupósti fyrirsvarmanns Samsonar eignarhaldsfélags ehf., dagsettum 6. október 2008, um ráðstöfun fjármuna sem þá hafi verið geymdir í peningamarkaðssjóði. Stefnandi telji tölvupóst þennan enga þýðingu hafa um ætlað tilkall stefnda til hluta af innstæðu á nefndum reikningum. Ef stefnda hafi raunverulega verið veitt heimild til að ráðstafa hluta af fjármunum stefnanda til lækkunar á lánasamningi liggi fyrir að stefndi hafi ekki nýtt sér þá heimild. Komi það fram í bréfi stefnda, dagsettu 20. janúar 2008, auk þess sem stefndi lýsi kröfu í þrotabúið að fjárhæð 5.054.598.393 krónur. Sé ljóst af kröfulýsingunni að eignum búsins hafi ekki verið ráðstafað til lækkunar á láninu auk þess sem enginn áskilnaður sé gerður um slíka ráðstöfun.  Nánar sé á því byggt af hálfu stefnanda að stefndi gæti í besta falli átt kröfu á hendur þrotabúinu sem nemi ætlaðri beiðni fyrirsvarsmanns stefnda um ráðstöfun fjármuna af peningamarkaðsreikningi inn á umræddan lánasamning. Stefndi hafi hins vegar ekki lýst kröfu í búið vegna þeirrar kröfu heldur byggi hann kröfulýsingu sína aðeins á lánasamningnum. Krafa á þessum grundvelli sé því vanlýst enda kröfulýsingarfrestur liðinn. Stefndi geti þannig aldrei átt rétt á að ráðstafa fjármunum út af reikningi gjaldþrota félags til lækkunar á eldri skuld á kostnað annarra kröfuhafa þrotabúsins. Í þessu sambandi sé áréttað að stefndi hafi hvorki átt veð í peningamarkaðssjóðnum né bankareikningnum en af málatilbúnaði stefnda megi ætla að hann telji sig eiga einhvers konar ígildi handveðsréttar sem leiði af handveðsyfirlýsingunum og tölvupóstinum, dagsettum 6. október 2008.  Þessu sé mótmælt.

Þá hafi það verið viðurkennt í kröfugerð stefnda að stefnandi eigi tilkall til 86.238.704 króna sem hann hafi talið arð af hlutabréfum í Landsbankanum sem sett hafi verið Kaupþingi banka að veði.

Hér beri til þess að líta að réttur stefnda til skuldajafnaðar kemur því aðeins til greina að um það hafi verið gerður sérstakur samningur við Samson eignarhaldsfélag ehf. Stefndi hafi hvorki notið veðréttar í innstæðum umræddra reikninga né annars konar heimildar samkvæmt samningi til að ráða yfir henni. Þá leiði hvorki af almennum reglum né 100. gr. laga 21/1991 að stefndi njóti rýmri réttar til skuldajafnaðar gagnvart stefnanda, en hann hafi notið fyrir upphaf gjaldþrotaskipta en því sé auk þess mótmælt að skilyrði skuldajafnaðar séu uppfyllt samkvæmt ákvæðinu. Stefndi hafi þannig enga lögmæta heimild til þess að taka innstæðurnar til sín með þeim hætti sem hann hafi boðað og beri honum því að standa stefnanda skil á þeim.

Þá er á því byggt að viðauki við handveðsyfirlýsingu nr. 0358-63-722, dags. 24. júní 2008, sé riftanlegur með vísan til 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, enda hafi veðsetningin átt sér stað innan sex mánaða frá frestdegi. Þá byggi stefnandi á því að framangreind ráðstöfun sé einnig riftanleg á grundvelli hinnar almennu riftunarreglu 141. gr. gjaldþrotalaga en á því sé byggt að stefnda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg með tilliti til aðstæðna. Sé þess krafist að veðsetningunni verði rift með dómi. 

Ef svo ólíklega vilji til að litið verði svo á að stefndi geti ráðstafað innstæðu á bankareikningi stefnanda til sín á grundvelli tölvupósts Sigþórs Sigmarssonar, dagsetts 6. október 2008, til niðurgreiðslu skulda stefnanda við bankann, sé á því byggt að sú ráðstöfun sé riftanleg með vísan til 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Sé á því byggt að ráðstöfunin sé á ótilhlýðilegan hátt stefnda til hagsbóta á kostnað annarra enda félagið ógjaldfært sem stefndi hafi vitað eða mátt vita um þegar ráðstöfunin hafi átt sér stað. Með vísan til framangreinds sé á því byggt að ráðstöfuninni verði rift með dómi.

Fjárkrafa stefnanda byggi einkum á því að stefndi eigi ekkert tilkall til innstæðna á nefndum bankareikningum á grundvelli veðréttinda. Þá hafi stefndi auk þess enga heimild að lögum til skuldajafnaðar. Þegar af framangreindum ástæðum beri að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð. Hvað sem öðru líði sé jafnframt á því byggt að riftanlegar séu ætlaðar ráðstafanir sem stefndi byggi rétt sinn á eins og fyrr greinir. Fjárkrafa stefnanda byggi þannig enn fremur á 142. gr. gjaldþrotalaga.  Samkvæmt upplýsingum frá stefnda sé staðan á bankareikningum stefnda samtals 520.669.019 krónur. Miðar stefnandi fjárkröfu sína við þær upplýsingar en dráttarvaxta er krafist frá 20. nóvember 2008 eða frá þeim degi er krafist var greiðslu.

Kröfur stefnanda kveðst hann byggja á almennum reglum kröfuréttar og þeirri almennu reglu að lánastofunum sé ekki heimilt að nota kröfur sínar á hendur skuldurum til skuldajafnaðar við innstæður á bankareikningum. Þá vísar stefnandi til laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, einkum 10. kafla laganna.

Um vaxtakröfu stefnanda vísast til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist er dráttarvaxta frá þeim degi er hinn ólögmæti skuldajöfnuður átti sér stað.

Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNDA

Krafa stefnda um sýknu af fjárkröfu stefnanda er byggð á því að Kaupþingi banka hf. hafi borist óafturkallanleg fyrirmæli frá Samsoni eignarhaldsfélagi ehf. hinn 6. október 2008 um að greiddar yrðu 393.000.000 króna inn á vexti af láni félagsins í framhaldi af beiðni bankans um að félagið greiddi inn á lán sitt eða legði fram frekari tryggingar. Stefndi byggir á að ekki hafi verið unnt að framkvæma fyrirmælin þar sem innlausn í Kaupþingi Peningamarkaðssjóði hafi verið stöðvuð sama dag. Stefndi byggir á því að í fyrirmælum Samsonar hafi falist framsal til Kaupþings banka hf. á hlutdeildarskírteinum félagsins í Kaupþingi Peningamarkaðssjóði sem svaraði til nefndrar fjárhæðar. Stefndi byggir rétt sinn til umræddra 393.000.000 króna á beinum

eignarrétti á grundvelli óafturkræfrar yfirlýsingar Samsonar eignarhaldsfélags ehf. þess efnis að nefnd eign yrði notuð til að greiða inn á lán félagsins hjá Kaupþingi banka hf. hinn 6. október 2008. Vegna þeirra atvika sem áttu sér stað á íslenskum fjármálamarkaði hafi hins vegar ekki reynst unnt að framkvæma fyrirmælin á umræddum degi í samræmi við beiðni félagsins og hafi fjárhæðin því verið lögð inn á vörslureikning félagsins hjá stefnda. Sé engu að síður um að ræða eign stefnda.

Við flutning málsins var fallist á að stefnandi fái greiddar þær 86.238.704 krónur sem stefndi kvað í greinargerð sinni til komnar vegna arðs sem Landsbanki Íslands hf. hafi greitt inn á vörslufjárreikning Samson eignarhaldsfélags ehf. á árinu 2006.

Stefndi byggir jafnframt á því að innstæður á vörslureikningum nr. 486472 og 465763 séu ekki innstæður á hefðbundnum innlánsreikningum sem standi viðskiptavinum til frjálsrar ráðstöfunar. Báðir vörslureikningarnir séu skráður á kennitölu stefnda, en ekki stefnanda, og séu honum því aðeins til ráðstöfunar að fenginni heimild bankans. Stefndi byggi jafnframt á því að í útreikningum Kaupþings banka hf. á samningsbundinni tryggingaþekju samkvæmt 6. gr. lánssamningsins og tryggingaskjölum hafi fjárhæðir samkvæmt hlutdeildarskírteinum í Kaupþingi Peningamarkaðssjóði verið sagðar handveðsettar. Samkvæmt þessu sé á því byggt að Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi fengið umrædd gögn í hendur og samþykkt efni þeirra. Af þeim sökum njóti stefndi réttinda yfir þeim fjármunum sem lagðir hafi verið inn á vörslureikning samkvæmt sérstakri handveðsyfirlýsingu þeirri sem áður greinir ólíkt því sem um sé að tefla H 1992:1197 og 1998:1865, þar sem ekki var fyrir að fara samkomulagi um sérstök réttindi eða kröfu viðkomandi fjármálafyrirtækja gagnvart innstæðu þrotamanns. Hafi fyrrgreindir dómar sem stefnandi vitnar til í málatilbúnaði sínum því ekki þýðingu fyrir úrslit þessa máls.

Verði ekki fallist á að réttur stefnda sé nægjanlega skýr eða sérgreindur byggir stefndi allt að einu á því að skilyrði séu til að skuldajafna kröfum stefnda vegna réttinda til arðgreiðslna á móti innstæðum á vörslureikningi 465763, sbr. meðal annars 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o .fl.

Stefndi telur engu skipta þótt hann hafi lýst kröfu í stefnanda án þess að taka tillit til lækkunar umræddrar innborgunar enda mun stefndi lækka kröfulýsingu verði hann sýknaður af kröfu stefnda í máli þessu. Við meðferð málsins var lögð fram bókun af hálfu stefnda þar sem staðfest er að verði fallist á kröfu stefnda um sýknu af greiðslu 393.000.000 króna af stefnufjárhæðinni miðað við 20. nóvember 2008 falli stefndi frá 370.000.000 króna af kröfu sinni á hendur stefnanda við skiptameðferð bús hans.

Stefndi mótmælir því að ráðstafanir Samson eignarhaldsfélags ehf. séu riftanlegar á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum sé fullnægt hvíli á stefnanda og stefnanda hafi ekki tekist sú sönnun. Hvað sem öðru líði byggi stefndi á því að skilyrðum ákvæðisins sé ekki fullnægt. Ekki sé um ótilhlýðilega ráðstöfun eða háttsemi að ræða. Í lánssamningi og handveðsyfirlýsingu sé mælt fyrir um ákveðna tryggingaþekju, þ.e. að veðandlagið eigi ætíð að tryggja ákveðið hlutfall miðað við skuld samkvæmt lánssamningnum. Handveðsyfirlýsingin sé frá árinu 2005 og lánssamningurinn frá árinu 2007, en andvirði láns samkvæmt þeim lánssamningi hafi verið nýtt til að greiða lán samkvæmt eldri lánssamningi frá árinu 2005. Umrætt lán og handveð eigi því uppruna sinn á árinu 2005 og ljóst að skilyrði lánveitingar stefnda til félagsins hafi frá upphafi verið að ákveðin lágmarkstryggingaþekja væri til staðar þannig að bankinn hefði heimild til að krefjast leiðréttingar á henni með því að kalla eftir viðbótartryggingum eða greiðslum inn á lánið ef skilyrði um lágmarkstryggingaþekju væru brotin. Samkvæmt því sé um að ræða greiðslu í samræmi við réttmæta kröfu stefnda um að tryggingarþekja samkvæmt lánssamningi og handveðsyfirlýsingu sé yfir ákveðnu marki. Með hliðsjón af þessu geti stefndi því ekki fallist á að um ótilhlýðilega ráðstöfun hafi verið að ræða. Hann hafi eingöngu verið að gæta að samningsbundu ákvæði. Þá mótmælir stefndi því að Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi verið ógjaldfært þegar Kaupþing banki hf. hafi krafist greiðslu umræddra fjármuna. Stefndi byggi á því að á umræddum tíma hafi eignir félagsins sannanlega verið meiri en skuldir, hvernig svo sem mál hafi þróast síðar. Hvað sem öðru líði skorti það skilyrði að sá sem hag hafi af ráðstöfuninni hafi verið grandsamur um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.

Stefndi mótmælir því sérstaklega að viðauki við handveðsyfirlýsingu, dags. 24. júní 2008, sé riftanlegur á grundvelli 137. gr. laganna. Ákvæðið sem um ræði hljóði svo: „Krefjast má riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi fékk á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað var til skuldarinnar.“ Ekki verði fallist á það að verðmætin sem handveðsett hafi verið stefnda með viðauka við handveðsyfirlýsingu séu riftanleg. Eins og að framan greini hafi verið gerð krafa um ákveðna tryggingaþekju í þeim lánssamningi og handveðsyfirlýsingu sem að framan greini. Slík krafa um tryggingaþekju hafi verið skilyrði fyrir lánveitingu Kaupþings banka hf. Kjarni þess hvort ráðstöfunin sé riftanleg sé mat á því hvenær kröfuhafi fái tryggingarréttindi í skilningi ákvæðisins Vegna séreðlis verðbréfafjármögnunar og ákvæða í láns- og handveðssamningum um rétt til að kalla eftir auknum tryggingum hvenær sem er á lánstíma, við ákveðin skilyrði, byggi stefndi á því að miða verði hér við það tímamark þegar samningur sé gerður um að veð eða annar tryggingarréttur skuli vera fyrir skuld. Lánssamningurinn og handveðsyfirlýsingin sem um ræði hafi bæði verið gerð á árunum 2007 og 2005, og verði viðauka við handveðsyfirlýsinguna þess vegna ekki rift á grundvelli 137. gr. laganna.

Kröfur stefnda um sýknu eru reistar á almennum reglum fjármunaréttar, ákvæðum laga nr. 75/1997 um samningsveð og ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum X. kafla laganna. Krafa um málskostnað er reist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála

NIÐURSTAÐA

                Hinn 7. desember 2007 veitti Kaupþing banki hf. Samsoni eignarhaldsfélagi ehf. lán að fjárhæð 4.261.370.139 krónur Lán þetta var veitt til greiðslu á eldra láni félagsins hjá bankanum sem hafði verið veitt til kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. Í 1. mgr. 6. gr. lánssamnings sem aðilar gerðu með sér er tekið fram að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar setji lántaki bankanum að handveði hluti í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 239.000.000 króna. Með handveðsyfirlýsingu, dagsettri 21. desember 2005 voru Kaupþingi banka hf. sett að handveði hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 239.000.000 króna. Skyldi veðandlagið geymt á vörslureikningi veðsala hjá veðhafa nr. 465763. Tekið er fram að handveðsrétturinn taki til allra tekna og arðs af veðandlaginu sem falli til á gildistíma veðsetningarinnar. Færi markaðsverðmæti veðandlagsins niður fyrir 130% af eftirstöðvum þeirra skulda sem veðandlagið átti að tryggja skyldi veðsali greiða niður þær skuldir sem veðandlagið tryggði eða leggja fram nýjar tryggingar. Hinn 23. mars 2006 greiddi Landsbanki Íslands hf. arð sem nam 347.350.038 krónum inn á vörslureikning Samson eignarhaldsfélags ehf. hjá bankanum.

Markaðsverðmæti hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. náði hámarki sumarið 2007 en hóf að lækka frá þeim tíma. Í 3. mgr. 6. gr. lánssamningsins er ákvæði um að fari markaðsverðmæti trygginga samkvæmt 1. mgr. 6. gr. niður fyrir 130% hvenær sem er á lánstímanum skuli lántaki greiða niður lánið eða leggja fram nýjar tryggingar, svo markaðsverðmæti trygginga verði aftur a.m.k. 150% og jafnvægi náist þar með á milli skuldarinnar og verðmæti trygginga.

Með bréfi Kaupþings banka hf., dags. 12. júní 2008, krafðist bankinn þess að Samson eignarhaldsfélag ehf. legði fram viðbótartryggingar og/eða greiddi niður skuldbindingar sínar vegna lækkunar á verðmæti trygginga. Samson eignarhaldsfélag ehf. brást við kröfu bankans með því að setja bankanum að veði hluti í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 52.000.000 króna til viðbótar við þá hluti sem bankinn naut á þeim tíma veðréttar í. Þessu til staðfestingar undirritaði félagið sérstakan viðauka við handveðsyfirlýsinguna frá 21. desember 2005 hinn 24. júní 2008.

Markaðsverðmæti hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. hélt áfram að lækka haustið 2008. Af þessum sökum krafðist Kaupþing bank hf. þess með bréfi, dags. 2. október 2008, að Samson eignarhaldsfélag ehf. legði fram viðbótartryggingar og/eða greiddi niður skuldbindingar sínar.

Með tölvupósti frá Sigþóri Sigmarssyni starfsmanni Samsonar eignarhaldsfélags ehf. hinn 6. október 2008 var bankanum veitt heimild til að taka veð í 35.963.935 hlutum í Landsbanka Íslands hf. til viðbótar við þá hluti sem þegar voru veðsettir. Þá var mælt fyrir um að selja skyldi alla innstæðu félagsins í peningamarkaðssjóðum. Þá sagði að nota skyldi 370.000.000 króna til að greiða inn á vexti af láninu og 23.000.000 króna til þess að greiða yfirdráttarskuld.

Ákveðið var að stöðva innlausn í Kaupþingi Peningamarkaðssjóði hinn 6. október 2008. Er opnað var fyrir innlausn úr sjóðnum að nýju 31. október 2008 var andvirði innleystra hlutdeildarskírteina lagt inn á vörslureikninga félagsins hjá stefnda, annars vegar nr. 329-26-465763 og hins vegar nr. 329-26-486472.

Í fyrirmælum frá 6. október 2008 fólst framsal til Kaupþings banka hf. á hlutdeildarskírteinum félagsins í Peningamarkaðssjóði Kaupþings og enda þótt fyrirmælin hafi ekki verið framkvæmd samdægurs var fjárhæðin lögð inn á vörslureikning félagsins hjá stefnda. Samkvæmt d lið 3. gr. í almennum markaðsskilmálum fyrir verðbréfaviðskipti milli Kaupþings banka hf. og viðskiptavina bankans frá nóvember 2007 var Kaupþingi heimilt að sækja rétt eða eign sem stofnaðist vegna fjármálgerninga á vörslureikningi, m.a. að innheimta afborganir, arð, verðbætur, vexti og jöfnunarhlutabréf. Þá segir í 4. gr. skilmálanna að samningar geti komist á skriflega, með símtali, símbréfi tölvupósti eða öðrum rafrænum hætti sem bankinn hefur samþykkt. Samkvæmt skilmálum þessum er stefnda heimilt að taka til sín þær fjárhæðir sem stefndi ber fyrir sig að honum beri ekki að greiða stefnanda af umræddum reikningum.

Samkvæmt þessu lá fyrir að Kaupþing banki hf. hafði fengið fyrirmæli frá Samsoni ehf. um að bankinn skyldi ráðstafa samtals 393.000.000 króna til greiðslu á skuldum félagsins við bankann. Stefnandi hefur haldið því fram að stefndi geti ekki borið fyrirmæli þessi fyrir sig þar sem sú ráðstöfun sé riftanleg með vísan til 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Sé á því byggt að ráðstöfunin sé á ótilhlýðilegan hátt stefnda til hagsbóta á kostnað annarra enda félagið ógjaldfært sem stefndi hafi vitað eða mátti vita um þegar ráðstöfunin hafi átt sér stað. Hefur stefnandi enda krafist þess að ráðstöfuninni verði rift með dómi. Í lánssamningi aðila og handveðsyfirlýsingu Samsonar er mælt fyrir um ákveðna tryggingaþekju. Handveðsyfirlýsingin sé frá árinu 2005 og lánssamningurinn frá árinu 2007, en andvirði láns samkvæmt þeim lánssamningi hefur verið nýtt til að greiða lán samkvæmt eldri lánssamningi frá árinu 2005. Umrætt lán og handveð eiga því uppruna sinn á árinu 2005 og ljóst að skilyrði lánveitingar stefnda til félagsins hafi frá upphafi verið að ákveðin lágmarkstryggingaþekja væri til staðar þannig að bankinn hefði heimild til að krefjast leiðréttingar á henni með því að kalla eftir viðbótartryggingum eða greiðslum inn á lánið ef skilyrði um lágmarkstryggingaþekju væru brotin. Ekki verður fallist á það með stefnanda að um sé að ræða ótilhlýðilega ráðstöfun eða háttsemi. Þá er ekki sýnt fram á að Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi verið ógjaldfært þegar Kaupþing banki hf. hafi krafist greiðslu umræddra fjármuna. Það skilyrði að sá sem hag hafi af ráðstöfuninni hafi verið grandsamur um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg er heldur ekki uppfyllt.

Er það því niðurstaða málsins að stefnda hafi verið heimilt að byggja á því að fyrir lægju gild fyrirmæli frá Samsoni eignarhaldsfélagi ehf. til ráðstafana þeirra sem hann greip til og verður kröfu stefnanda um að umræddri ráðstöfun starfsmanns Samsonar hinn 6. október 2008 verði rift hafnað.

Stefnandi krefst þess að veðsetning á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. frá 24. júní 2008 verði ógilt. Veðsetning þessi var í framhaldi af lánssamningi aðila og í  handveðssamningi frá árunum 2007 og 2005 í framhaldi af veðkalli bankans. Ekki verður fallist á það með stefnanda að ákvæði 137. gr. laga nr. 21/1991 taki til þessa tilviks vegna sbr. og framanritað um tengsl við lánssamning aðila. Verður stefndi því sýknaður af þessum kröfulið stefnanda.

Að fenginni þeirri niðurstöðu að kröfum stefnanda um riftun ráðstafana er hafnað og þess að þær fela í sér að 393.000.000 króna var ráðstafað til stefnda verður 1. liður kröfugerðar stefnanda ekki tekinn til greina að öðru leyti en því að í  kröfugerð stefnda um sýknu gegn greiðslu á 127.669.019 krónum felst viðurkenning á hluta stefnukrafna sem þeirri fjárhæð nemur og verður stefndi dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar með vöxtum eins og krafist er af stefnda en taka verður tillit til þess að innstæður á vörslureikningi stefnanda hjá stefnda bera vexti.

                Eftir úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

      Stefndi, Arion banki hf., greiði þrotabúi Samsonar hf. 127.669.019 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

      Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.