Hæstiréttur íslands
Mál nr. 577/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Börn
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 21. nóvember 2006. |
|
Nr. 577/2006. |
A(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn B (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Börn. Frávísun máls frá Hæstarétti.
A krafðist þess að fá son sinn tekinn úr umráðum móður drengsins, B, og afhentan sér með beinni aðfarargerð. Reisti hann kröfuna á ákvæðum laga nr. 160/1990 og vísaði til þess að B hefði flutt barnið með ólögmætum hætti frá Danmörku, sbr. 11. gr. laganna. Áður en meðferð málsins lauk fyrir Hæstarétti tók A umráð sonar síns og hélt þeim síðan. Þar sem drengurinn var ekki lengur í umráðum B var ekki unnt að krefjast þess að hann yrði tekinn úr umráðum hennar og afhentur A. Við svo búið varð að vísa málinu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá nafngreindan son aðilanna tekinn úr umráðum varnaraðila og afhentan sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerðin verði heimiluð og varnaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins fæddist sonur aðilanna 21. apríl 2006. Þau höfðu þá verið búsett í Danmörku frá því í október 2004 og voru þar uns varnaraðili yfirgaf heimili þeirra með soninn 16. ágúst 2006. Hún kom skömmu síðar með hann hingað til lands. Hún leitaði ekki eftir samþykki sóknaraðila fyrir því að flytja barnið frá Danmörku og virðist honum ekki hafa verið kunnugt um þá fyrirætlan fyrr en eftir að hún kom til Íslands. Sóknaraðili krafðist 5. september 2006 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur heimildar til að fá son aðilanna afhentan sér með innsetningargerð. Var sú krafa reist á ákvæðum laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., svo og samnings um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, sem gerður var í Haag 25. október 1980. Með hinum kærða úrskurði var þessari kröfu sóknaraðila sem fyrr segir hafnað.
Með bréfi til Hæstaréttar 20. nóvember 2006 greindi varnaraðili frá því að sóknaraðili hafi átt umgengni við son þeirra 18. sama mánaðar og tekið þá barnið í umráð sín, sem hann hafi haldið síðan. Af hálfu sóknaraðila hefur verið staðfest að rétt sé með farið. Samkvæmt 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 er það markmið beinnar innsetningargerðar að veita gerðarbeiðanda, sem með ólögmætum hætti er aftrað að neyta réttinda sinna, umráð yfir öðru en því, sem um ræðir í 72. gr. laganna, með því að taka það úr umráðum gerðarþola og afhenda honum. Sonur aðilanna er samkvæmt framansögðu ekki lengur í umráðum varnaraðila. Við svo búið verður að vísa málinu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2006.
I
Málið barst dóminum 6. september sl. og var þingfest 15. sama mánaðar. Það var flutt og tekið til úrskurðar 16. október sl., en endurupptekið og tekið til úrskurðar að nýju í dag.
Sóknaraðili er A, [heimilisfang], Danmörku.
Varnaraðili er B, til heimilis á sama stað, en dvelst að [heimilisfang].
Sóknaraðili krefst þess að sonur hans og varnaraðila, C sem fæddist 21. apríl sl., verði tekinn úr umráðum varnaraðila og afhentur sér með beinni aðfarargerð með vísan til Haag samningsins um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, sbr. lög nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst sýknu og að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Einnig að meðferð málsins verði látin bíða þar til skorið hefur verið úr um faðerni barnsins. Verði fallist á kröfu sóknaraðila er þess krafist að málskot fresti aðfarargerð. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
II
Sóknaraðili kveður sig og varnaraðila hafa flutt til Danmerkur haustið 2004 og séu þau skráð þar í sambúð. Þeim hafi fæðst sonur eins og að framan greinir og fari þau sameiginleg með forsjá hans. Sóknaraðili kveðst hafa komið heim úr vinnu 16. ágúst sl. og hafi þá varnaraðili verið farin af heimilinu með son þeirra. Hann hafi síðar komist að því að hún hafi farið til Íslands með drenginn, en það hafi verið gegn vilja hans. Í framhaldinu hafi hann komið til landsins og snúið sér til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem hafi talið að um ólögmætt brottnám hafi verið að ræða.
Varnaraðili gerir þær athugasemdir við málavaxtalýsingu sóknaraðila að þau hafi ekki verið skráð í sambúð í Danmörku. Til að feðra drenginn hafi hins vegar þurft að fylla út og undirrita eyðublað. Varnaraðili, sem ekki kveðst vera fær í dönsku, kveðst hafa talið sig með útfyllingunni vera að feðra drenginn, gefa honum nafn og skrá hann inn í danska kerfið, en ekki fela sóknaraðila forsjá hans með sér. Varnaraðili kveðst hafa farið af heimilinu vegna þess að ástandið hafi verið sér óbærilegt og hafi hún skilið eftir bréf þar sem hún skýrði sóknaraðila frá því. Hún hafi hins vegar ekki sagt honum hvert hún væri að fara, enda hafi hún ekki vitað það þá.
Í málavaxtalýsingu varnaraðila kemur fram að þau hafi hafið sambúð fyrir sex árum þegar hún hafi verið 15 ára en sóknaraðili 31 árs. Af greinargerð hennar og framburði má ráða að hún telur sóknaraðili hafa ráðið yfir sér og stjórnað lífi sínu. Tilraunir hennar til að losna úr sambandinu hafi ekki borið árangur fyrr en hún hafi flúið af heimilinu með drenginn. Hún hafi fyrst leitað til kvennaathvarfs í Danmörku, en þar hafi henni verið ráðlagt að fara til Íslands þar sem hún nyti stuðnings fjölskyldu sinnar.
Í gögnum málsins, þar með töldum framburði aðila, kemur fram að varnaraðili telur vafa leika á hvort sóknaraðili sé faðir drengsins. Hefur hún gert reka að því að höfða faðernismál í Danmörku og tilgreint þar annan mann sem hugsanlegan föður. Fyrir dómi voru aðilar sammála um að auk þessara tveggja kæmi þriðji maður til greina sem faðir.
III
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að varnaraðili hafi numið drenginn á brott með ólögmætum hætti frá Danmörku þar sem hann var búsettur. Með þessu hafi hún brotið gegn rétti hans sem forsjáraðila, en hann sé skráður faðir drengsins í Danmörku og aðilar fari sameiginlega með forsjá hans. Máli sínu til stuðnings vísar hann til ákvæða laga nr. 160/1995.
Varnaraðili byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að sóknaraðili eigi ekki aðild að málinu vegna þess að verulegur vafi leiki á að hann sé faðir drengsins. Í öðru lagi er á því byggt að vafi leiki á um að aðilar fari sameiginlega með forsjá hans. Varnaraðili hafi ekki talið sig vera að deila forsjánni með sóknaraðila þegar hún undirritaði yfirlýsingu um faðernið. Í þriðja lagi er á því byggt að það myndi skaða drenginn, bæði andlega og líkamlega ef orðið yrði við kröfu sóknaraðili. Drengurinn sé mjög ungur og enn á brjósti. Hann sé því algerlega háður móðurinni sem yrði neydd til að flytja til Danmerkur og yrði við það algerlega háð sóknaraðila í stað þess að njóta stuðnings fjölskyldu sinnar hér á landi. Vísar varnaraðili einkum til ákvæða 7., 11 og 12. gr. framangreindra laga. Krafan um að málskot fresti aðför er byggð á 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 91/1991.
IV
Meðal gagna málsins er skjal sem ber heitið Omsorgs- og ansvarserklæring (medförer fælles forældremyndighed). Í skjalinu er sóknaraðili tilgreindur faðir drengsins og varnaraðili móðir. Þau rita bæði undir skjalið og auk þess maður sem tilgreindur er sem kordegn í Lystrup Sogn. Maður þessi hefur enn fremur vottað í skjali að “omsorgs- og ansvarserklæringen blev underskrevet den 2. maj af [B] og [A] under min tilstedeværelse, og at jeg var af den opfattelse, að moderen var klar over retsvirkningerne af at underskrive blanketten.” Samkvæmt þessu verður að líta svo á að aðilar fari sameiginlega með forsjá drengsins og á því sóknaraðili aðild að málinu. Engin lagarök eru til þess að fresta málinu þar til skorið hefur verið úr um faðerni drengsins eins og varnaraðili krefst.
Varnaraðili fór með drenginn til Íslands án samráðs við sóknaraðila og braut með því í bága við rétt hans til að annast drenginn, sbr. 1. tl. 11. gr. laga nr. 160/1995.
Samkvæmt þessu bæri að verða við aðalkröfu sóknaraðila, sbr. 1. mgr. nefndrar 11. gr., ef ekki kæmi til ákvæði 2. tl. 12. gr. sömu laga. Samkvæmt því má synja um afhendingu barns ef alvarleg hætta er á að afhendingin muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu. Drengurinn er nú sex mánaða gamall og er ómótmælt að hann sé enn á brjósti eins og eðlilegt er. Barn á þessum aldri þarf meira á móður sinni að halda til umönnunar en föður og er því ekki óeðlileg sú viðbára varnaraðila að drengurinn sé mjög háður henni. Loks er á það að líta að aðilar eru sammála um að tveir menn, auk sóknaraðila, geta komið til greina sem feður drengsins, en varnaraðili hefur þegar gert reka að feðrunarmáli í Danmörku. Þegar allt þetta er virt fellst dómurinn á með varnaraðila að alvarleg hætta sé á að svo ungt barn skaðist við það að vera tekið af móður sinni, varnaraðila, og afhent sóknaraðila sem sjálfur telur tvo aðra menn koma til greina sem feður þess. Kröfu sóknaraðila er því hafnað.
Málskostnaður skal falla niður en gjafsóknarkostnaður varnaraðila skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 635.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Kröfu sóknaraðila, A, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður, en gjafsóknarkostnaður varnaraðila, B, skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 635.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.