Hæstiréttur íslands
Mál nr. 451/2013
Lykilorð
- Líkamsárás
- Miskabætur
- Sérálit
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2014. |
|
Nr. 451/2013.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn Bjarna Þór Steindórssyni (Guðmundur Ágústsson hrl.) (Kristján B. Thorlacius hrl. f.h. brotaþola) |
Líkamsárás. Miskabætur. Sérálit.
B var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa slegið A einu hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut ýmiss konar beinbrot. Var B fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var honum gert að greiða A 600.000 krónur í skaðabætur auk vaxta.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 900.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júlí 2012 til 25. apríl 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Framburður ákærða og vitna er réttilega rakinn í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því að samkvæmt vætti C og D höfðu þeir hitt ákærða fyrr um kvöldið og heyrt þá að hann héti Bjarni. Með þá vitneskju hafi þeir leitað að honum á fésbókinni og fundið frekari upplýsingar um hann þar. Einnig leiðrétti E sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítalans áverkavottorð sitt þannig að rispa hafi verið vinstra megin við augnkrók brotaþola en ekki hægra megin eins og segir í vottorðinu og ákæru. Að þessu gættu og að virtri 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Einn dómenda, Ólafur Börkur Þorvaldsson, telur með tilliti til brots ákærða og afleiðinga sem það hefur haft fyrir brotaþola rétt að ákveða bætur til hans úr hendi ákærða 800.000 krónur.
Með vísan til 3. mgr. 176. gr., sbr. 210. gr., laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Bjarni Þór Steindórsson, greiði A 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 264.968 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2013.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 2. maí síðastliðinn var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 19. febrúar sl., á hendur Bjarna Þór Steindórssyni, kt. [...], „fyrir líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 15. júlí 2012 utan við veitingastaðinn Pizza Pronto við Bankastræti 14 í Reykjavík, slegið A, kt. [...], einu hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut nefbrot, kjálkabrot á framvegg vinstri kjálkaholu, brot í botni vinstri augntóftar, yfirborðsáverka við vinstra auga, rispu undir hægra auga auk grunns sárs vinstra megin á nefi.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Þá gerir Gylfi Thorlacius hrl., f.h. A, kt. [...], kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta samtals að fjárhæð kr. 900.000 með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá árásardegi 15. júlí 2012 og þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ef lögmaður brotaþola verður ekki skipaður réttargæslumaður hans, þá er þess krafist að ákærði greiði brotaþola málskostnað, auk virðisaukaskatts, að mati dómsins vegna lögmannsaðstoðar við að hafa bótakröfuna uppi.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns. Hann krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.
II
Brotaþoli kom á lögreglustöð 17. júlí 2012 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir árás þá sem í ákæru greinir. Kvaðst hann hafa verið staddur á þeim stað, sem í ákæru greinir, þegar maður hafi undið sér að honum og viðhaft klúryrði við sig. Brotaþoli kvaðst hafa svarað og hefði maðurinn þá slegið sig með krepptum hnefa í andlitið og hefði höggið komið á vinstra kinnbein, vinstra auga og nef. Eftir þetta hefði maðurinn hlaupið á brott, en frændi sinn hefði fundið hann á Fésbók og væri maðurinn ákærði í málinu.
Brotaþoli fór á slysadeild og í vottorði þaðan segir að greinileg bólga og mar hafi verið undir vinstra auga og vægt mar á efra augnloki utanverðu. Síðan segir: „Hann var með grunnt sár utanvert á nefbryggjunni vi. megin. Einnig rispa neðan við hæ. innri augnkrók. Þegar þreifað var á neðri brún vi. augntóftar þreifaðist stallur í beininu. Fengin var sneiðmynd af andlitsbeinum sem sýndi brot í botninum á vi. augntóft með 3 mm stallmyndun. Einnig innkýling á framvegg vi. kjálkaholu. Brot sást í nefbeinum.“ Brotaþoli var lagður inn á háls-, nef- og eyrnadeild og aðgerð gerð á kjálkabrotinu. Var það fest með skrúfum og plötu.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu. Hann neitaði sök en kvaðst hafa verið í miðborginni þessa nótt og hafa verið undir áhrifum áfengis.
III
Við aðalmeðferð neitaði ákærði sök. Hann kvaðst hafa verið með félögum sínum í miðborg Reykjavíkur umrædda nótt og farið einn heim undir morgun. Hann kvaðst hafa drukkið deginum áður, en hætt því um klukkan tíu um kvöldið. Ákærði kvaðst ekki hafa farið austur fyrir Lækjargötu þessa nótt og ekki lent í átökum. Hann kvaðst hafa hitt brotaþola í samkvæmi fyrir um tveimur mánuðum. Þar hefðu vinir brotaþola ætlað að berja sig, en brotaþoli hefði ekki kannast við sig.
Brotaþoli bar að hann hefði verið á framangreindum stað þessa nótt þegar einhver hafi komið upp að sér, rifið í sig og viðhaft klúryrði við sig. Brotaþoli kvaðst hafa svarað og snúið sér við, en svo snúið aftur að manninum og þá fengið högg í andlitið og dottið út. Brotaþoli kvaðst þekkja ákærða í dómsalnum sem manninn er hefði slegið sig. Hann kvaðst hafa verið með frænda sínum og vini hans þessa nótt og verið undir áhrifum áfengis. Hann kvað frænda sinn hafa fundið út hver árásaramaðurinn var. Brotaþoli neitaði að hafa borið á móti því í samkvæmi að ákærði væri árásarmaðurinn, en hann hefði ekki viljað að eitthvað yrði gert á hlut ákærða. Við þetta tækifæri hefði ákærði neitað að hafa slegið hann.
Maður, sem var með brotaþola umrædda nótt og er vinur frænda brotaþola, kvaðst hafa séð ákærða kýla brotaþola þessa nótt. Hann kvað brotaþola hafa staðið við grindverk í um 4 metra fjarlægð frá sér og þar hefði ákærði kýlt brotaþola einu höggi. Maðurinn kvaðst hafa hitt ákærða fyrr um kvöldið, en vinur hans hefði kannast við ákærða og vitað nafn hans. Þetta hefði verið á Lækjartorgi og þá hefði ákærði sagt sér nafn sitt. Þeir hefðu svo hitt ákærða síðar um nóttina á þeim stað sem í ákæru greinir. Maðurinn kvaðst hafa fundið nafn ákærða á Fésbók ásamt frænda brotaþola. Hann kvað ákærða hafa farið á brott eftir að hafa slegið brotaþola, en hann og frændi brotaþola hefðu farið að sinna honum.
Frændi brotaþola bar að hafa verið á umræddum stað með vini sínum og brotaþola þegar ákærði hefði komið að og rætt við sig, en gengið síðan til brotaþola. Frændinn kvaðst næst hafa heyrt smell og þá séð brotaþola alblóðugan. Hann kvaðst þá hafa gengið að ákærða, tekið í öxlina á honum og spurt hvað hann væri að gera. Síðan hefði hann snúið sér að brotaþola og í því hefði ákærði horfið á braut. Frændinn var spurður hvort hann hefði séð ákærða slá brotaþola og svaraði hann að hann hefði ekki beint séð það, heldur séð ákærða ganga upp að brotaþola og heyrt smell. Þegar hann hefði snúið sér að þeim hefði ákærði staðið frekar nálægt brotaþola. Frændinn kvaðst hafa kannast lítillega við ákærða frá fyrri árum. Hann kvaðst hafa fundið ákærða á Fésbók, en hann hefði heyrt einhvern nefna hann fyrr þessa nótt. Um leið og hann hefði séð mynd af ákærða á Fésbók hefði hann þekkt hann. Þá kvaðst hann hafa hitt ákærða á Lækjartorgi en þar hefði ákærði verið með félögum sínum. Þegar hann sló brotaþola hefði hann hins vegar verið einn á ferð.
Maður, sem er kvæntur systur ákærða, var með ákærða þessa nótt. Hann kvaðst ekki hafa séð hann slá brotaþola. Þeir hefðu verið saman einir tíu allt kvöldið og kvaðst hann ekki hafa séð ákærða í átökum. Hann kvað þá hafa verið í miðborginni en ekki farið upp á Laugaveg.
Læknirinn, sem ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Hann kvað það geta verið að áverkar brotaþola hefðu stafað af einu hnefahöggi.
IV
Ákærði neitar sök en brotaþoli og annað vitni hafa borið að ákærði hafi slegið brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Þessi framburður þeirra fær stoð í framburði þriðja vitnisins eins og rakið var. Með framburði þessara vitna telur dómurinn sannað að ákærði hafi slegið brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákærunni og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Á árinu 2005 var ákærði dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr., 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hann var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og fleiri umferðarlagabrot 28. febrúar 2011. Þá hefur hann verið sektaður nokkrum sinnum fyrir margvísleg brot. Verður refsing hans því ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 3 árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Miskabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan um leið og honum var birt fyrirkall 25. mars 2013 og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi. Þá skal ákærði greiða brotaþola 150.600 krónur í málskostnað.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði segir.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Bjarni Þór Steindórsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 3 árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. júlí 2012 til 25. apríl 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 150.600 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði 32.400 krónur í sakarkostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hrl., 200.800 krónur.