Hæstiréttur íslands
Mál nr. 3/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Miðvikudaginn 27. janúar 2016. |
|
Nr. 3/2016.
|
Nergard Havfiske AS (Jón Ögmundsson hrl.) gegn Útgerðarfélaginu Ásvöllum ehf. (Guðbjarni Eggertsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu N um að bú Ú ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að N hafi ekki með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 807/2014, þar sem leyst var úr afmörkuðum ágreiningi aðila, leitt að því nægilegar líkur að hann ætti lögvarða kröfu á hendur Ú ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2015, en kærumálsgögn bárust 11. janúar 2016. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraða um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, svo og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Nevgard Havfiske AS, greiði varnaraðila, Útgerðarfélaginu Ásvöllum ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2015.
Með beiðni, sem barst dóminum 13. október sl., hefur sóknaraðili, Nergård Havfiske AS, Langnesvegen 18, Harstad, Noregi, krafist þess að bú varnaraðila, Útgerðarfélagsins Ásvalla ehf., kt. 630610-0360, Síðumúla 12, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Við fyrirtöku beiðninnar 18. nóvember sl. var sótt þing af hálfu varnaraðila sem mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málið var tekið til úrskurðar 2. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi.
I
Málsatvik
Mál þetta á sér nokkra forsögu og þykir rétt að gera stuttlega grein fyrir henni. Með kaupsamningi, dags. 30. desember 2011, keypti sóknaraðili, sem er norskt útgerðarfélag, skipið Hallgrím SI 77, skráningarnúmer 1612, af varnaraðila fyrir tvær milljónir norskra króna. Atvik urðu með þeim hætti að skipið sökk á siglingu til Noregs 25. janúar 2012. Þá hafði sóknaraðili greitt varnaraðila kaupverðið, 1.800.000 norskar krónur, en 200.000 norskar krónur á geymslureikning Alasund Shipbrokers Ltd., skipamiðlara varnaraðila, sem innáborgun samkvæmt ákvæðum samningsins. Varnaraðili mun hafa fengið greiddar liðlega 83.000.000 króna frá tryggingarfélagi skipsins sem nam andvirði húftryggingar þess. Hinn 27. mars 2012 endurgreiddi varnaraðili hluta kaupverðsins, eða um 1.400.000 norskar krónur, inn á reikning skipamiðlara sóknaraðila, Sjåstad Shipping AS, en forsvarsmaður þess, Bjørn Sjåstad, hafði komið að viðskiptum með skipið. Fór það svo að forsvarsmaður þess félags millifærði féð inn á reikning annars félags í sinni eigu. Var forsvarsmaðurinn dæmdur 24. október 2013 til refsingar í Noregi m.a. fyrir alvarleg fjársvik með því að hafa 26. mars 2012 blekkt starfsfólk varnaraðila til að millifæra til sín 1.400.000 norskar krónur fyrir skipið með því að upplýsa ranglega að hann hefði heimild til að taka við peningunum á vegum sóknaraðila. Hinn 13. nóvember 2012 krafði sóknaraðili varnaraðila um endurgreiðslu kaupverðsins, en þeirri kröfu hafnaði varnaraðili.
Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2013. Sóknaraðili lýsti kröfu í búið vegna endurgreiðslu kaupverðsins. Hafnaði skiptastjóri kröfunni á þeim grundvelli að endurgreiðslukrafa sóknaraðila væri að fullu greidd með bréfi, dags. 23. október sama ár, og vísaði ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var kröfu sóknaraðila hafnað og var sú niðurstaða staðfest af Hæstarétti 14. janúar 2014 í máli nr. 807/2014 þar sem skipið hefði verið afhent sóknaraðila áður en lagt var af stað til Noregs og áhættuskipti hefðu því þegar átt sér stað. Átti sóknaraðili því ekki lögvarða kröfu á hendur varnaraðila um endurgreiðslu kaupverðs skipsins.
Skiptum varnaraðila lauk 20. mars 2015 samkvæmt 154. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með því að allar lýstar kröfur voru afturkallaðar og tóku fyrirsvarsmenn við félaginu aftur.
Sóknaraðili lagði fram kyrrsetningarbeiðni 16. apríl 2015 hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið var fram á að eignir varnaraðila yrðu kyrrsettar til þess að tryggja fullnustu kröfu sóknaraðila um tryggingarbætur, en þær taldi sóknaraðili varnaraðila hafa móttekið ranglega þar eð hann hefði átt rétt á bótum úr húftryggingu skipsins en ekki varnaraðili. Var krafa sóknaraðila vegna húftryggingar skipsins þar sögð vera 126.797.143 krónur auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 og alls kostnaðar við gerðina og eftirfarandi staðfestingarmáls. Gerðin fór fram 4. september 2015 og féllst sýslumaður á þá kröfu sóknaraðila að varnaraðili yrði ekki boðaður til gerðarinnar. Farið var á lögheimili varnaraðila að Síðumúla 12 í Reykjavík en þar könnuðust viðstaddir ekki við félagið eða starfsemi þess í húsinu. Var þá farið að Lágmúla 7 í Reykjavík þar sem lögmaður sá er verið hafði skiptastjóri þrotabúsins hittist fyrir. Hafði hann símanúmer hjá Kristjáni Sverrissyni sem hann kvað hafa umsjón með félaginu. Í símtali fulltrúa sýslumanns við nefndan Kristján kom fram að ekki yrði mætt af hálfu varnaraðila við gerðina og að félagið væri eignalaust. Sýslumaður lauk gerðinni að kröfu sóknaraðila með árangurslausri kyrrsetningu með vísan til 15. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 8. kafla laga nr. 90/1989 um aðför.
Sóknaraðili fór fram á gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 með beiðni til dómsins, sem móttekin var 13. október 2015, og var málið þingfest 18. nóvember 2015.
Varnaraðili óskaði eftir endurupptöku kyrrsetningarinnar 6. nóvember 2015 á grundvelli 3. töluliðar 2. mgr. 22. gr. laga nr. 31/1990 þar sem sóknaraðili ætti ekki kröfu á hendur varnaraðila vegna áðurnefndra viðskipta og hafi ekki gert líklegt að hann ætti hana. Því hefði sýslumanni verið rétt að hafna gerðinni. Beiðni varnaraðila var tekin fyrir 17. sama mánaðar. Var henni mótmælt af hálfu sóknaraðila. Féllst sýslumaður á kröfu varnaraðila þann dag á grundvelli 3. töluliðar 3. mgr. 22. gr. laga nr. 31/1990 á þeim grundvelli að ekki hefði verið höfðað staðfestingarmál innan frests samkvæmt 36.‒38. gr. laganna og þótti varnaraðili hafa hagsmuni af því að gerðin yrði endurupptekin af þeim sökum. Með vísan til framlagðra gagna og þess sem fram hafði komið við fyrirtöku málsins ákvað sýslumaður að kyrrsetningin sem lokið hafði 4. september 2015 yrði felld niður.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Krafa sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta byggir á ákvæði 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sem gerir ráð fyrir að lánardrottinn geti krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta ef árangurslaus kyrrsetning hefur verið gerð hjá skuldaranum á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag. Kveður sóknaraðili ljóst að þetta skilyrði sé uppfyllt í því tilviki sem hér um ræðir, enda hafi farið fram árangurslaus kyrrsetning hjá varnaraðila að beiðni sóknaraðila 4. september sl. Fulltrúi varnaraðila hafi lýst því yfir við gerðina að hann væri eignalaus og var gerðinni því lokið sem árangurslausri.
Engu breyti í þessu sambandi þótt sýslumaður hafi endurupptekið kyrrsetningargerðina á þeim grundvelli að ekki hafi verið höfðað staðfestingarmál innan frests samkvæmt 36.‒38. gr. laga nr. 31/1991. Hæstiréttur hafi tekið af öll tvímæli um þýðingu árangurslausra kyrrsetninga. Af dómum réttarins leiði að það megi einu gilda hvað gert er við framkvæmd kyrrsetningar eða hvort mál hafi verið höfðað henni til staðfestingar þegar árangurslaus kyrrsetning er notuð til stuðnings kröfu um gjaldþrotaskipti, sem sönnunargagn um ógjaldfærni skuldara samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, eins og eigi við í þessu máli. Það að sóknaraðili hafi ekki höfðað staðfestingarmál í samræmi við 36.‒38. gr. laga nr. 31/1990 hafi ekki neina þýðingu. Ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að endurupptaka málið á þeim grundvelli sé því með öllu þýðingarlaus í fyrirliggjandi máli. Þá hafi enga þýðingu í málinu að gerðin hafi verið felld niður. Bendir sóknaraðili á að gerðin hefði hvort sem er sjálfkrafa fallið niður þar sem staðfestingarmál var ekki höfðað.
Þess utan kveðst sóknaraðili hafa krafist úrlausnar héraðsdómara um umrædda ákvörðun sýslumanns enda telji hann varnaraðila ekki hafa nokkra hagsmuni af því að gerðin verði endurupptekin, enda um árangurslausa kyrrsetningu að ræða, en slíkir hagsmunir séu forsenda fyrir endurupptöku kyrrsetningargerðar. Kann ákvörðun sýslumanns því að verða hrundið af héraðsdómi.
Sóknaraðili telur að ljóst megi vera af ákvæði 22. gr. laga nr. 31/1990 að gerðarþoli geti eingöngu óskað eftir endurupptöku á kyrrsetningargerð hafi einhverjar eignir verið kyrrsettar. Eðli málsins samkvæmt geti það því ekki haft þýðingu, hvað fyrirliggjandi kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti varnaraðila varðar, hvort gerðin sem lauk með árangurslausri kyrrsetningu verði endurupptekin eða hvort hún hafi verið felld niður. Enda féll gerðin í raun niður samkvæmt 39. gr. laga nr. 31/1990 við það að staðfestingarmál var ekki höfðað, en slíkt hefur samkvæmt dómum Hæstaréttar enga þýðingu þegar kemur að gildi hinnar árangurslausu kyrrsetningar vegna fyrirliggjandi kröfu sóknaraðila.
Hér verði jafnframt að hafa í huga að þegar byggt er á 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til stuðnings sönnun um ógjaldfærni skuldara, skipti ekki máli hvort einhverjir vankantar hafi verið á framkvæmd þeirrar gerðar sem um ræðir og liggur til grundvallar eða hvort skuldari hafi verið raunverulega ógjaldfær þegar gerðin átti sér stað. Skilyrði laganna séu hlutlæg og enga undantekningu þess efnis sé að finna í lögunum.
Eina vörn skuldara sé að sýna fram á gjaldfærni. Kveðst sóknaraðili vísa til dóma Hæstaréttar sem fjalla um áhrif og sönnunargildi árangurslausrar kyrrsetningar og dóma sem fjalla um árangurslaust fjárnám og áhrifa þess. Í þessu samhengi skuli einnig bent á að með 17. gr. laga nr. 95/2010 um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, voru orðin „og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans“ í niðurlagi 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 felld brott og kemur slíkt því ekki til álita í máli þessu.
Af framangreindu leiði að hin árangurslausa kyrrsetning sé sönnun um ógjaldfærni hans. Eina leiðin fyrir varnaraðila að verjast fram kominni kröfu um gjaldþrotaskipti á grundvelli árangurslausrar kyrrsetningargerðar sé að hann sýni fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Sönnunarbyrðin um það hvíli á varnaraðila. Engin tilraun hafi verið gerð til þess af hálfu varnaraðila að sýna fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum. Hefur hann í engu greint frá eignastöðu sinni að öðru leyti en því sem fram kom við kyrrsetningargerðina, sem gjaldþrotaskiptabeiðni sóknaraðila byggir á, að hann sé eignalaus. Þá hafi ársreikningur varnaraðila fyrir árið 2014 ekki þýðingu í málinu. Hann sýni einungis að einhverjar eignir hafi verið til staðar í árslok 2014, sem þó nægi ekki til að standa skil á skuldbindingum varnaraðila, en feli ekki í sér sönnun um að félagið sé gjaldfært í dag.
Þá kveðst sóknaraðili hafa leitt nægilega í ljós að hann eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila. Raunar liggi það fyrir og grundvallist á fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 807/2014 þar sem sóknaraðili er sagður hafa fengið skipið Hallgrím SI 77 afhent áður en það sökk, og hann hafi því verið eigandi skipsins við það tímamark. Átti sóknaraðili því með réttu að fá greiddar þær tryggingabætur sem varnaraðili móttók ranglega 19. mars 2012. Breyti hér engu hvort varnaraðili hafi fyrir mistök, villu, vegna svika eða af öðrum ástæðum greitt 1.400.000 norskar krónur inn á reikning Sjåstad Shipping AS. Sú greiðsla hafi í framangreindum dómi Hæstaréttar verið lýst sem örlætisgerningi af hálfu varnaraðila umfram skyldu og breyti því ekki að sóknaraðili eigi rétt til tryggingabótanna með vísan til 40. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 þar sem sóknaraðili var réttmætur eigandi skipsins og vátryggingin gildi til hagsbóta fyrir hinn nýja eiganda, fari fram eigendaskipti á vátryggðum hlut. Jafnvel þótt litið yrði á umrædda greiðslu varnaraðila upp á 1.400.000 norskar krónur sem greiðslu til handa sóknaraðila gæti sú greiðsla eingöngu komið til frádráttar útistandandi fjárkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna tryggingabótanna.
Þá byggir sóknaraðili á því að hverskonar mótbárur varnaraðila um efni kröfunnar, t.a.m. hvort hún sé niður fallin, breyti engu í fyrirliggjandi máli, enda hafi ágreiningur um slík atriði ekki verið til lykta leidd fyrir dómstólum. Eftir standi að varnaraðili hafi ekki reynt að hnekkja eða tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiddar verða af árangurslausri kyrrsetningargerð frá 4. september 2015 og séu skilyrði fyrir gjaldþrotaskiptum á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 því uppfyllt.
Telji dómurinn á hinn bóginn tilefni til að fara í efnislegt mat á gildi og umfangi fjárskuldbindinga varnaraðila gagnvart sóknaraðila, telur sóknaraðili ljóst að á varnaraðila hvíli fjárhagsskuldbindingar sem hann hafi ekki sýnt fram á að honum sé fært að standa full skil á.
Krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila byggir á tilvitnaðri niðurstöðu Hæstaréttar hér að framan í máli Hrd. nr. 807/2014 og ákvæðum laga nr. 30/2004. Með dóminum var synjað kröfu sóknaraðila þess efnis að hann ætti rétt á endurgreiðslu kaupverðs skipsins. Þess í stað komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hefði verið eigandi skipsins á þeim tíma sem það sökk. Af því leiði að hann átti kröfu til tryggingabótanna á grundvelli 40. gr. laga nr. 30/2004 sem varnaraðili móttók. Jafnframt taldi Hæstiréttur að sú greiðsla sem varnaraðili hefði innt af hendi, en var aldrei móttekin af sóknaraðila, hefði verið örlætisgerningur umfram skyldu. Þannig fólst ekki í þeirri greiðslu nokkurt uppgjör á milli aðila og gæti sú greiðsla eingöngu komið til frádráttar útistandandi fjárkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna tryggingabótanna, ef til þess kæmi að hún yrði talin hafa verið greidd sóknaraðila, en sóknaraðili hafnar öllum slíkum málsástæðum. Niðurstaða þess efnis að sóknaraðili eigi hvorki rétt á vátryggingarbótum né endurgreiðslu kaupverðs er eðli málsins samkvæmt ótæk.
Hvað dráttarvaxtakröfu sóknaraðila varðar byggi hún á 9. gr. laga nr. 38/2001 og telur sóknaraðili að aðstæður séu slíkar og það sérstakar að tímamark kröfunnar skuli taka mið af tjónsatburði og að dómstólum sé rétt að ákveða það tímamark á grundvelli sama lagaákvæðis.
Með vísan til framangreinds telur sóknaraðili ljóst að efnislegt mat á gildi og umfangi fjárskuldbindinga varnaraðila gagnvart sóknaraðila leiði einnig til þeirrar niðurstöðu að sóknaraðili eigi lögvarða kröfu á varnaraðila, sem eigi fyllilega við rök að styðjast, bæði hvað varðar gildi og umfang. Varnaraðili hafi ekki hnekkt líkum á ógjaldfærni sinni eða sýnt fram á að hann geti staðið full skil á skuldbindingum sínum. Þá hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum varnaraðila.
Með hliðsjón af öllu framansögðu beri að fallast á kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað þar sem skilyrði til þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta séu ekki uppfyllt. Varnaraðili standi ekki í neinni skuld við sóknaraðila. Varnaraðili kveður þann grundvöll sem sóknaraðili byggi kröfu sína á verulega umdeilanlegan. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta verði hafnað. Kröfu sína styður hann að formi til við að kyrrsetningargerð sú sem sé grundvöllur gjaldþrotaskiptabeiðninnar hafi verið felld úr gildi. Að efni til byggir hann varnir sínar á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða kröfu á hendur honum, sem sé frumskilyrði þess að krafa um gjaldþrotaskipti nái fram að ganga.
Í úrskurði héraðsdóms í máli nr. X-167/2013 hafi varnaraðili verið sýknaður af kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu kaupverðs skipsins á grundvelli tveggja málsástæðna. Í fyrsta lagi hafi komið fram í dóminum að varnaraðili hafi afhent skipið á Siglufirði, eins og kveðið var á um í kaupsamningi. Í öðru lagi var það mat dómsins að endurgreiðsla varnaraðila á hluta kaupverðs hafi verið fullnaðargreiðsla, að teknu tilliti til greiðslu kostnaðar við flutning á skipinu, og að hann hafi mátt vera í góðri trú um að skipamiðlarinn Bjørn Sjåstad, sem tók á móti greiðslunni, hafi haft umboð til móttöku hennar. Fyrir Hæstarétti var varnaraðili sýknaður á grundvelli fyrri málsástæðunnar. Dómurinn taldi því ekki ástæðu til að fjalla um hvort Bjørn Sjåstad hefði haft gilt umboð til að taka á móti greiðslu.
Varnaraðili kveður niðurstöðu héraðsdóms tæmandi um allar kröfur á milli aðila sem lúti að viðskiptum með skipið Hallgrím SI 77. Bjørn Sjåstad tók við endurgreiðslu kaupverðs vegna skipsskaðans fyrir hönd sóknaraðila að frádregnum kostnaði við að ferja skipið til Noregs. Þar með var kaupunum rift í skilningi laga um lausafjárkaup og þau látin ganga til baka.
Það sé miður að Hæstiréttur hafi aðeins fjallað um aðra málsástæðuna sem varnaraðili byggði á fyrir rétti. Er af þeim sökum ekki hægt að fullyrða með algerri vissu að sóknaraðili eigi kröfu um greiðslu húftryggingar vegna skipsskaðans. Sú niðurstaða sé þó í hæsta máta ólíkleg. Til þess að svo verði þyrfti rétturinn að snúa við niðurstöðu héraðsdóms um umboð Bjørns Sjåstad til að taka á móti greiðslu. Í ljósi þeirra gagna sem lögð voru fyrir dóminn, þ.á m. tölvuskeyti sem sýndu að forsvarsmaður sóknaraðila ýtti á eftir því að Bjørn nálgaðist endurgreiðsluna, yrði slík niðurstaða þó að teljast nær útilokuð.
Í ljósi þess sem að ofan er rakið megi sjá að krafa sóknaraðila er í raun krafa um að fá bæði kaupverð hlutar endurgreitt og að fá tryggingabætur vegna hans. Sú niðurstaða sé ótæk enda feli endurgreiðsla kaupverðsins í sér að eignarhald hans á skipinu fellur niður og getur hann því ekki átt kröfu um greiðslu vátryggingabóta vegna þess að það hafi farist í hafi.
Með bréfi 4. september 2015 var forsvarsmönnum varnaraðila tilkynnt að fram hefði farið árangurslaus kyrrsetning á eigum félagsins. Að kröfu sóknaraðila var forsvarsmönnum varnaraðila ekki tilkynnt um fyrirhugaða kyrrsetningu er hún var tekin fyrir hjá sýslumanni.
Ekki náðist í forsvarsmenn varnaraðila við kyrrsetninguna, en haft var samband símleiðis við Kristján Sverrisson, sem er bróðir stjórnarformanns félagsins, og á grundvelli yfirlýsingar hans um eignaleysi félagsins lauk gerðinni sem árangurslausri. Eins og framlagður ársreikningur félagsins fyrir árið 2014 beri með sér sé það hins vegar ekki rétt þar sem félagið seldi aflaheimildir fyrir 24.500.000 krónur á árinu 2014 og skilaði hagnaði upp á 20.778.750 krónur það sama ár. Eigið fé félagsins sé því í ársreikningi sagt nema 16.650.261 krónu.
Með bréfi 6. nóvember 2015 kveðst varnaraðili hafa farið fram á að kyrrsetningin yrði endurupptekin á grundvelli 3. töluliðar 3. mgr. 22. gr. laga um kyrrsetningu. Segi þar að taka skuli upp gerð ef krafa gerðarbeiðanda er fallin niður, gerðarþoli hefur verið sýknaður í dómsmáli af kröfu gerðarbeiðanda eða staðfestingarmál hefur ekki verið höfðað innan frests samkvæmt 36.38. gr., enda þyki gerðarþoli hafa hagsmuni af að gerðin verði endurupptekin af þeim sökum.
Krafa varnaraðila um endurupptöku gerðarinnar byggði helst á því að hann hefði þegar verið sýknaður í dómsmáli af kröfu sóknaraðila. Niðurstaða sýslumanns hafi verið sú að fella kyrrsetninguna úr gildi með vísan til framlagðra gagna og þess sem fram kom við fyrirtöku málsins. Í niðurstöðu hans sé þar m.a. vísað til upplýsinga um efni úrskurðar héraðsdóms er varða umboð til handa Bjørn Sjåstad, en við fyrirtöku málsins benti varnaraðili fulltrúa sýslumanns á að í kyrrsetningarbeiðni sóknaraðila væri ekki vikið einu orði að umboði Bjørns til að taka á móti greiðslu, enda hefði það ónýtt málatilbúnað sóknaraðila. Þess í stað var látið líta út fyrir að óumdeilt væri að Bjørn hafi tekið við peningunum án vitneskju sóknaraðila.
Með úrskurði sínum féllst sýslumaður á að rétt hefði verið að hafna kröfu um kyrrsetningu á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga um kyrrsetningu, enda væri verulegur vafi um réttmæti kröfu sóknaraðila. Leiði niðurstaða héraðsdóms um umboð Bjørns Sjåstad enda til þess að sóknaraðili getur ekki átt kröfu um greiðslu húftryggingar
Ákvörðun sýslumanns um niðurfellingu kyrrsetningarinnar feli í sér endurskoðun á því áliti hans að varnaraðili sé ekki fær um að mæta skuldbindingum sínum. Skuli hér enda áréttað að varnaraðili er gjaldfær, svo sem fram kemur í ársreikningi ársins 2014, og að ekkert sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu hvorki fyrir sýslumanni né fyrir dómi bendi til hins gagnstæða.
Varnaraðili kveður frumskilyrði þess að fallist verði á kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta vera að lánardrottinn eigi lögvarða kröfu á hendur skuldara. Því verði ekki haldið fram með nokkrum rökum að sóknaraðili eigi lögvarða kröfu í þessu máli, enda hafi hann ekkert gagn lagt fram því til stuðnings. Þvert á móti bendi öll gögn sem lögð voru fram með kyrrsetningarbeiðni hans til þess að hann eigi ekki þessa kröfu.
Krafa sóknaraðila hljóðar samkvæmt kyrrsetningarbeiðni upp á 126.797.143 krónur. Krafan sé samsett úr húftryggingu skipsins og dráttarvöxtum frá greiðsludegi þeirra til varnaraðila. Krafan sé rúmlega þrefalt hærri en sú sem lýst var í bú varnaraðila á sínum tíma, en hún nam 41.800.000 krónum. Fari þó ekki á milli mála að hér sé deilt um sömu löggerninga.
Þá sé ástæða til að gera athugasemd við framsetningu kröfu sóknaraðila. Jafnvel þó krafa hans næði fram að ganga sé ljóst að hún nemur hærri fjárhæð en hann gæti mögulega átt rétt á. Í því samhengi skuli bent á að Hæstiréttur hafi úrskurðað að skipið Hallgrímur SI 77 hafi verið réttilega afhent á Siglufirði og að sóknaraðili hafi átt að bera kostnað af flutningi skipsins. Sá kostnaður ætti eðlilega að koma til frádráttar kröfunni.
Þrír skipverjar hafi farist með skipinu og einn komist lífs af við illan leik. Húftryggingu skipsins hafi að stórum hluta verið varið í útfararkostnað og dánarbætur auk sjúkrakostnaðar, launa og skaðabóta fyrir þann skipverja sem lifði af. Ekki hafi verið tekið tillit til þessa við framsetningu kröfunnar.
Þá vekur varnaraðili athygli á þeim galla í kröfugerð að dráttarvextir eru reiknaðir frá tjónsatburði, en samkvæmt ákvæðum 9. gr. vaxtalaga geta dráttarvextir einungis reiknast frá mánuði eftir að reikningur hefur verið gefinn út fyrir upphæðinni.
Leiðir þessi athugasemd einnig fram þá staðreynd að sóknaraðili hefur ekki lagt fram reikning fyrir kröfu sinni. Skýrist það af því að hann hefur ekki áður reynt að innheimta þessa kröfu, hvorki með útgáfu reiknings né öðrum innheimtuaðgerðum. Af þessu leiðir að sóknaraðili getur ekki lagt fram nokkur skilríki fyrir kröfu sinni.
Ef svo ólíklega vildi til að dómstólar snéru við úrskurði héraðsdóms í máli nr. X-167/2013 og kæmust að þeirri niðurstöðu að Bjørn Sjåstad hafi ekki haft umboð til að taka á móti endurgreiðslu kaupverðs skipsins f.h. sóknaraðila er samt sem áður ljóst að krafa hans er langt frá því að vera eins skýr og málatilbúnaður hans ber með sér. Fyrir það fyrsta þyrfti dómstóll að úrskurða hver ætti greiða fyrir flutning skipsins til Noregs, dánarbætur áhafnar, útfararkostnað og bætur til eftirlifandi, en þær fjárhæðir hlaupa á tugum milljóna. Þá sé dráttarvaxtakrafa sóknaraðila umdeild eins og áður sagði og ekki í samræmi við ákvæði vaxtalaga. Að teknu tilliti til þessara liða sé ekki útilokað að varnaraðili gæti gert upp skuldir sínar við sóknaraðila, færi dómsmál á þann veg að talið yrði að krafa hans ætti við rök að styðjast.
Að ofangreindu virtu er ljóst að krafa sóknaraðila uppfyllir ekki þau skilyrði lögvarinnar kröfu að vera nægjanlega ákveðin til að hægt sé að krefjast efnda hennar og getur hún því ekki verið grundvöllur kröfu um gjaldþrotaskipti.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli árangurslausrar kyrrsetningargerðar, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem fram fór 4. september sl. eins og fram kemur í beiðni sóknaraðila til dómsins, sem móttekin var í héraðsdómi 13. október sl. Hefur hann krafist gjaldþrotaskipta innan þess tíma sem lög nr. 21/1991 áskilja. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort skilyrði gjaldþrotaskipta séu fyrir hendi.
Byggir sóknaraðili á því að hann eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila vegna vátryggingarbóta sem varnaraðili hafi ranglega tekið við í stað sóknaraðila. Þá feli hin árangurslausa kyrrsetningargerð sem fram fór hjá varnaraðila í sér líkindi fyrir ógjaldfærni hans. Engu breyti þótt sýslumaður hafi endurupptekið gerðina og fellt hana úr gildi. Þá hafi varnaraðili hvorki sýnt fram á að hann sé allt að einu fær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar eða verði það innan skamms tíma né að krafa hans sé nægilega tryggð með veði. Sóknaraðili eigi því lögvarða kröfu á hendur varnaraðila.
Varnaraðili hefur krafist þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, m.a. þar sem ljóst sé að sóknaraðili geti ekki átt lögvarða kröfu á hendur honum á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 807/2014. Varnaraðili standi ekki í neinni skuld við sóknaraðila vegna vátryggingarbóta. Eins og málinu sé háttað geti kyrrsetningargerð sem felld hafi verið úr gildi af sýslumanni ekki verið grundvöllur gjaldþrotaskipta á búi hans. Þá hefur hann jafnframt byggt á því að félagið sé ekki eignalaust eins og fram hafi komið við hina árangurslausu kyrrsetningargerð.
Í máli þessu liggur fyrir að árangurslaus kyrrsetningargerð fór fram hjá varnaraðila 4. september sl. Sýslumaður varð við beiðni sóknaraðila um að boðað yrði til gerðarinnar án vitneskju varnaraðila, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 21. gr. laga nr. 90/1989.
Er varnaraðili varð þess áskynja að gerðin hafði farið fram og henni lokið sem árangurslausri nýtti hann sér heimild 22. gr. laga nr. 31/1990 um að beina til sýslumanns beiðni um endurupptöku gerðarinnar. Féllst sýslumaður 17. nóvember sl. á að gerðin yrði endurupptekin. Var um þá ákvörðun vísað til 3. töluliðar 3. mgr. 22. gr. þeirra laga þar sem ekki hefði verið höfðað staðfestingarmál innan frests samkvæmt 36.‒38. gr. laganna enda þætti varnaraðili hafa hagsmuni af því að gerðin yrði endurupptekin af þeim sökum. Um þá niðurstöðu að gerðin skyldi felld niður vísaði sýslumaður almennt til framlagðra gagna málsins og þess sem fram hefði komið við fyrirtöku málsins.
Hvað sem líður gildi hinnar árangurslausu gerðar eftir að hún var felld niður af sýslumanni og hvort hún geti af þeim sökum verið grundvöllur gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila eða hvort hefði þurft að höfða staðfestingarmál vegna hennar eður ei, verður að líta til þess að frumskilyrði þess að fallist verði á kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta er að lánardrottinn eigi lögvarða kröfu á hendur skuldara. Sóknaraðili hefur réttilega á það bent að kröfuhafi þarf ekki að hafa gert reka að því að innheimta meinta kröfu, hún þarf ekki að vera dæmd að efni til og þá þarf gjalddagi hennar ekki að vera kominn eða endanlegt uppgjör milli aðila að hafa farið fram, eins og fjölmargir dómar Hæstaréttar á þessu réttarsviði vitna um. Á hinn bóginn er ekki unnt að fallast á með sóknaraðila að hann hafi með vísan til dóms Hæstaréttar í máli aðila nr. 807/2014, þar sem leyst var úr afmörkuðum ágreiningi milli aðila um kröfu er sóknaraðili lýsti í bú varnaraðila, leitt að því nægilegar líkur að hann eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila. Er réttur hans á hendur varnaraðila ekki svo skýr og ótvíræður sem sóknaraðili telur dóm Hæstaréttar í ofangreindu máli gefa tilefni til að ætla. Þegar af þessari ástæðu verður kröfu sóknaraðila hafnað.
Með vísan til úrslita málsins og með hliðsjón af málatilbúnaði aðila verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu sóknaraðila flutti Davíð Örn Sveinbjörnsson hdl. málið vegna Jóns Ögmundssonar hrl. en Ævar Rafn Björnsson hdl. af hálfu varnaraðila.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 18. nóvember sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, Nergård Havfiske AS, um að bú varnaraðila, Útgerðarfélagsins Ásvalla ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.