Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 24

 

Mánudaginn 24. janúar 2005.

Nr. 31/2005.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 106. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stæði, sbr. 2. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þar sem dómurinn var birtur X 18. janúar 2005 var gæsluvarðhaldinu ekki markaður lengri tími en til dagsloka 15. febrúar 2005.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. janúar 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. júní 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti stendur, sbr. 2. mgr. 151. gr. laganna. Eftir síðarnefndu greininni skal ákærði lýsa yfir áfrýjun dóms innan fjögurra vikna frá birtingu hans. Tók hann sér lögmæltan frest til ákvörðunar um áfrýjun. Varnaraðila var birtur dómur 18. janúar 2005 þar sem hann hlaut sjö og hálfs árs fangelsi meðal annars vegna tilraunar til manndráps og líkamsárása. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fullnægt til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 106. gr. laganna. Samkvæmt framanrituðu verður gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila hins vegar ekki markaður lengri tími en til dagsloka þriðjudagsins 15. febrúar 2004. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur um gæsluvarðhald yfir varnaraðila með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. febrúar 2005 kl. 24.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. janúar 2005.

             Ríkissaksóknari hefur krafist þess með skírskotun til 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, að X, verði gert að sæta áfram gæsluvarhaldi á meðan fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 stendur svo og á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti en þó ekki lengur en til föstudagsins  24. júní 2005, kl. 16.00.

             X mótmælti gæsluvarðhaldskröfunni.

             Málavextir eru þeir að í dag var dómþoli X dæmdur í sjö ára og sex mánaða fangelsi vegna brota á 211. gr., 217., og 1. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 2. september 2004.

             Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. stendur svo og meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Ber því að fallast á kröfu ríkissaksóknara og verður dómþola gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. júní 2005, kl. 16.00.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

ÚRSKURÐARORÐ:

             Dómþoli, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. júní 2005 kl. 16.00