Hæstiréttur íslands
Mál nr. 465/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Sjálfræðissvipting
Reifun
|
|
Miðvikudaginn 3. ágúst 2011. |
|
Nr. 465/2011. |
A (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) gegn Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Sjálfræðissvipting.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði í 12 mánuði á grundvelli a. og b. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2011, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í 12 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt nýtt skjal þar sem fram koma upplýsingar frá geðlækni á Landspítala um að sóknaraðili hafi frá október 2010 fimm sinnum lagst inn á geðdeild vegna fíkniefnavanda síns. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila, og Kristbjargar Stephensen hæstaréttarlögmanns, skipaðs talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2011.
Með beiðni, dagsettri 22. þ.m., hefur Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess með vísan til a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, að varnaraðili [...], verði sviptur sjálfræði í 12 mánuði, svo unnt verði að veita honum læknismeðferð við aðsóknargeðklofa og vímufíkn. Sé hann af þessum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð enda skorti hann innsæi í veikindi sín og haldi ekki út læknismeðferð við þeim. Um aðild sóknaraðila vísast til d- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.
Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt.
Meðal gagna málsins er staðfest vottorð Z geðlæknis á geðdeild [...] þar sem varnaraðili er nú vistaður nauðugur. Segir þar að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðrofssjúkdómi auk vímuefnafíknar. Löng saga sé um innlagnir á bráðageðdeildir en lítill sem enginn árangur hafi orðið af meðferð utan geðdeildar. Geðheilsa hans hafi farið versnandi með árunum og nú sé farið að bera á ofbeldishótunum hjá honum. Innsæi og meðferðarheldni hafi verið mjög skert og fullreynt sé að meðferð utan spítala gagnist honum ekki. Sé ljóst að hann sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms. Til þess að hann fái viðunandi meðferð sé nauðsynlegt að svipta hann sjálfræði í 12 mánuði.
Dómurinn álítur vafalaust af vætti geðlæknisins að [...] sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og vímufíkn og hann sé af þeim sökum ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a- og b-liði 4. gr. lögræðislaga. Ber að ákveða að varnaraðili skuli vera sviptur sjálfræði í 12 mánuði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, 75.000 krónur. Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, [...], er sviptur sjálfræði í 12 mánuði.
Þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 75.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.