Hæstiréttur íslands
Mál nr. 34/2012
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2012. |
|
Nr. 34/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Sturlu Snorrasyni (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
S var sakfelldur í héraði fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa farið höndum um kynfæri sín og fróað sér í viðurvist þriggja stúlkna. S neitaði sök. Með vísan til framburðar stúlknanna og þriggja vitna þótti háttsemi S sönnuð og til þess fallin að særa blygðunarsemi þeirra sem urðu vitni að henni. Var S gert að sæta fangelsi í 6 mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum héldi S almennt skilorð. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að sakfelling ákærða verði staðfest og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi báru vitnin C og A og B að þær hafi séð ákærða fróa sér og sögðust tvær þær síðarnefndu hafa séð getnaðarlim hans. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sturla Snorrason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 279.257 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. desember 2011, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 3. nóvember 2011, á hendur Sturlu Snorrasyni, kt. [...], [...], [...], fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa, fimmtudaginn 15. júlí 2010, neðan við veitingastaðinn Sprengisand í Elliðaárdal í Reykjavík, hneppt frá buxum sínum, togað bol sem hann klæddist yfir klof sitt, sett hönd sína á kynfærin og fróað sér í augsýn barnanna A, kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...].
Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara, komi til sakfellingar, að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa og að refsing verði að öllu leyti skilorðsbundin. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa.
Málsatvik
Fimmtudaginn 15. júlí 2010, klukkan 19:18, barst lögreglu tilkynning um að karlmaður væri að fróa sér fyrir framan hóp stúlkna í Elliðaárdal. Kom fram að um fullorðinn mann væri að ræða, skolhærðan, grannvaxinn, íklæddan leðurjakka og gallabuxum og með sólgleraugu. Er lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir ákærða sitjandi á bekk skammt frá fossi sem er í dalnum, en í tilkynningunni hafði komið fram að stúlkurnar hefðu verið að leik á því svæði. Kom útlit ákærða heim og saman við framangreinda lýsingu á manninum sem hefði verið að fróa sér í viðurvist stúlknanna. Hann kvaðst aðspurður ekki kannast við þá háttsemi sem á hann væri borin, en sagðist hafa setið við fossinn og horft á stúlkurnar. Lögreglumenn ræddu við þrjú ungmenni, sem sátu á grasbala við fossinn, þau D, E og F. Sögðust þau hafa verið að leika sér við það að stökkva í fossinn, en þau hefðu þá orðið vör við að eldri karlmaður, sem lá í grasinu skammt frá þeim, hefði verið að stara á þau. Hann hefði síðan farið með hendur undir buxur sínar og farið að fróa sér, en gengið svo á brott. Bentu þau öll á ákærða, þar sem hann sat á bekknum, og sögðu hann vera manninn sem þetta gerði.
Á vettvangi gáfu sig einnig fram við lögreglumenn þrjár stúlkur, B og A og C. Sögðust þær hafa verið að leika sér í fossinum og séð manninn þar nálægt. Hann hefði verið með hendi undir buxum sínum og verið að „rúnka“ sér. Þá hefði hann ávarpað þær og spurt hvort þær væru fyrirsætur og eitthvað annað í þeim dúr. Þeim hefði fundist þetta hátterni mannsins mjög óþægilegt og farið í burtu til þess að kalla eftir aðstoð. Lögreglumenn ræddu aftur við ákærða og kynntu honum framburð ungmennanna sex. Kvaðst ákærði engu hafa við fyrri frásögn sína að bæta, en gat þess þó að hann hefði rætt við stúlkurnar og varað þær við hættum í fossinum.
Meðal gagna málsins eru ljósmyndir sem stúlkurnar þrjár tóku við fossinn þennan dag og sést ákærði á þeim myndum, sitjandi í dæld skammt frá göngustíg, sem liggur fram hjá fossinum.
Hinn 30. ágúst 2011 mættu foreldrar stúlknanna þriggja, B, A og C, til lögreglu og lögðu fram kæru á hendur ákærða vegna málsins. Teknar voru skýrslur af stúlkunum í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 8. september 2011.
C greindi frá því að þær hefðu verið á góðviðrisdegi í Elliðaárdalnum við lítinn foss sem þar er. Þær hefðu verið í sundfötum og leikið sér við það að stökkva ofan fossinn, og hefðu fleiri krakkar verið þarna við sömu iðju. Þegar þær komu hefðu þær séð mann sem sat rétt við fossinn og hefðu þær verið að ræða það sín á milli að hann væri eitthvað skrýtinn. C sagði þær hafa verið búnar að vera þarna nokkra stund þegar henni hefði verið litið til mannsins og þá séð að hann var að hneppa frá buxunum, hafði tekið bolinn yfir, og var að fróa sér, og horfði á þær á meðan. Hún sagðist hafa sagt við stelpurnar eitthvað á þá leið að mamma væri örugglega tilbúin með matinn og þær hefðu gengið yfir lækinn. Þar hefðu þær hitt aðra krakka, sem höfðu verið að leika sér þarna, og hefðu þau rætt sín á milli um að maðurinn væri eitthvað skrýtinn og einhver nefnt hvort þau ættu ekki að hringja á lögregluna. Þá hefði maðurinn komið í átt til þeirra og hefði hann sest á bekk skammt frá þeim. Þær hefðu gengið til baka og hefði hún hringt til móður sinnar og beðið um að þær yrðu sóttar. Þær hefðu orðið að ganga fram hjá manninum þar sem hann sat á bekknum og hefði hann þá ávarpað þær og spurt hvort þær væru að vinna sem „módel“. Spurð hvernig henni hefði liðið vegna þess sem hún varð vitni að svaraði C því til að henni hefði verið mjög brugðið og hún orðið mjög hrædd, en hún hugsaði ekki um þetta lengur.
A kvaðst hafa tekið eftir skuggalegum manni sem sat á milli steina skammt frá fossinum þar sem þær voru að leika sér. Þær hefðu verið að stökkva í fossinn og taka ljósmyndir hver af annarri. Þær hefðu tekið eftir því að maðurinn horfði mikið á þær. Þær hefðu síðan farið að þurrka sér, en þá tekið eftir því að maðurinn var farinn að fróa sér. Hann hefði legið á milli tveggja stórra steina og hefði hún séð að hann hefði rennt buxunum niður, sett höndina um typpið á sér og fróað sér. Hún hefði séð typpið á honum og fengið mikið „sjokk“ við þetta. Þær hefðu gengið yfir brú á læknum og sagt krökkum sem voru á hinum bakkanum frá því sem þær hefðu séð. Þetta hefðu verið strákur og tvær stelpur og hefði strákurinn sagst einnig hafa séð þetta. Þær hefðu síðan haldið á brott, en orðið að ganga fram hjá manninum þar sem hann sat á bekknum. Hann hefði þá ávarpað þær og spurt þær hvort þær væru fegurðardrottningar eða eitthvað á þá leið.
B kvað þeim hafa fundist skrýtið að maðurinn væri þarna við fossinn, en þar voru margir krakkar að leik. Þær hefðu verið að stökkva í fossinn, en skyndilega hefði C orðið stressuð og sagt þeim að koma. Þær hefðu hraðað sér í burtu, en C hefði þá sagt þeim að hún hefði séð manninn fróa sér og hefði hann horft á hana. C hefði titrað af hræðslu. Þær hefðu farið yfir brúna, en ákærði komið á eftir þeim, sest á bekk og byrjað aftur að fróa sér. Hann hefði rennt frá buxunum, tekið bolinn niður og farið að fróa sér og horft í kringum sig á meðan. Hún hefði séð í nærbuxurnar hans og síðan typpið á honum. Þær hefðu rætt við strák og tvær stelpur, sem þarna voru, og hefðu þau sagst ætla að hringja á lögregluna. Þær hefðu orðið að ganga aftur fram hjá manninum þar sem hann sat og hefði hann þá spurt þær hvort þær væru fyrirsætur. Aðspurð sagði B þær stúlkurnar hafa orðið stressaðar og smeykar við það sem gerðist og þeim hefði þótt óþægilegt að verða vitni að þessu.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 31. ágúst 2010. Hann kvaðst hafa setið í laut við fossinn, en hann hefði verið þreyttur í fótunum og ætlað að hvíla sig þarna. Hann hefði séð krakka að leik við fossinn, m.a. þrjár léttklæddar stúlkur. Hann hefði varað eina þeirra við að stökkva ofan í hylinn þar sem grunnt væri. Þá kannaðist hann við að hafa spurt stúlkurnar hvort þær væru fyrirsætur, en þær hefðu verið að taka ljósmyndir hver af annarri. Ákærði þvertók fyrir að hafa verið að fróa sér, en kvaðst hafa farið úr skóm og nuddað fætur sína og gætu börnin hafa misskilið það eitthvað.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 22. febrúar 2011 var ákærða kynnt að sex börn hefðu lýst því að hann hefði verið að snerta á sér kynfærin innanklæða. Ákærði vísaði því á bug, en ítrekaði að hann hefði verið að nudda á sér fæturna. Hann kvaðst einnig stundum nudda á sér kviðinn, þar sem hann ætti við erfiðleika að etja í ristli. Þegar þannig bæri undir færi hann inn undir bolinn og nuddaði beran kviðinn til að lina þjáningar sem af þessu stöfuðu.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið með þreytuverki í fótunum í umrætt sinn, en hann þjáist af sjúkdómi sem nefnist fótaóeirð. Hann hafi sest nálægt fossinum, klætt sig úr skóm, dregið að sér fæturna og nuddað þá. Hann hefði setið þarna í um klukkustund. Sagði ákærði geta verið að stúlkurnar hefðu séð fótlegginn, sem hefði numið við klof hans, og missýnst að það væri getnaðarlimurinn, sem hann væri að nudda. Ákærði kvaðst líka þjást af ristilkrampa og hefði hann verið frekar slæmur þennan dag. Hann hefði því farið með hönd undir bol sem hann var í og hnoðað eða hrist magann til að mýkja ristilinn.
Ákærði kvaðst hafa haft afskipti af því er ein stúlknanna gerði sig líklega til að stökkva ofan í lækinn þar sem var grunnt. Hefði hann séð fyrir að hún myndi lenda í grjóti og hrópað á hana að stökkva ekki til að koma í veg fyrir slys. Stúlkan hefði þá hætt við að stökkva. Hann sagðist síðan hafa fært sig um set og sest á bekk. Þar hefði hann aftur farið úr skónum og nuddað fæturna. Stúlkurnar hefðu gengið fram hjá honum þar sem hann sat og hefði hann spurt þær hvort þær væru fyrirsætur, en hann hefði meint það sem hrós. Hann sagðist síðan hafa búist til heimferðar og klætt sig í skóna, en þá hefði lögreglumenn borið að og haft afskipti af honum.
F kvaðst hafa verið í Elliðaárdalnum þennan dag með vinum sínum, E og D, og hefðu þau verið að leika sér í fossinum. Þau hefðu séð mann, sem þau héldu að væri pabbi stráka sem þarna voru. Strákarnir hefðu síðan farið, en maðurinn hefði verið þarna áfram og þeim hefði fundist það skrýtið. Þarna hefðu einnig verið stúlkur sem voru að taka myndir. Hefðu stúlkurnar komið til þeirra og sagt að þær hefðu séð manninn vera að káfa á sér. E hefði hringt á lögreglu, en maðurinn hefði þá verið búinn að færa sig um set og setið hinum megin við lækinn á bekk við undirgöng sem þar eru. Vitnið sagðist hafa verið gleraugnalaus og því ekki séð vel hvað maðurinn var að gera. Stúlkurnar sem sögðust hafa séð hann káfa á sér hefðu verið nær honum. Hún kvað vera rétt sem komið hefði fram hjá henni við skýrslutöku hjá lögreglu að maðurinn hefði verið að horfa á krakkana sem voru að leika sér í ánni og fossinum.
E sagði þau F og D hafa verið í sólbaði í Elliðaárdalnum. Fleiri krakkar hefðu verið á þessu svæði, strákar og þrjár stúlkur, sem voru yngri en þau. Þau hefðu haldið að maður, sem settist nálægt þeim, væri pabbi strákanna, en síðan hefðu þeir farið og maðurinn verið eftir. Skömmu síðar hefðu stúlkurnar komið til þeirra og virst vera hræddar. Þær hefðu sagst halda að maðurinn væri að fróa sér. Hún kvaðst þá hafa séð að það gæti vel verið, en maðurinn hefði verið með aðra höndina undir buxunum. Hann hefði byrjað á þessu þegar hann sat rétt hjá þeim þar sem þau voru í sólbaði við fossinn, en síðan fært sig yfir á bekk rétt hjá og hefði hann horft mikið á þau, sem henni hefði fundist „creepy“. Hún hefði því hringt á lögregluna. Vitnið kvaðst ekki hafa farið að fylgjast með manninum fyrr en stúlkurnar sögðu henni frá því sem þær hefðu séð. Hún hefði þá séð að hann var með höndina inni á sér, en hann hefði þá aðeins verið í um 5 til 10 metra fjarlægð frá henni. Hún hefði ekki séð kynfæri mannsins, aðeins að höndin var undir buxunum. Hún kannaðist ekki við að maðurinn hefði verið að nudda á sér fæturna. Aðspurð sagði hún vera rétt sem hefði komið fram hjá henni við skýrslutöku hjá lögreglu að hún hefði séð að maðurinn var með höndina inni á sér á typpinu.
D kvaðst hafa verið með vinkonum sínum, E og F, við fossinn. Þau hefðu legið þar í sólbaði og leikið sér að því að stökkva í vatnið. Þau hefðu veitt manni athygli, sem sat í dæld skammt frá þeim. Stúlkur hefðu komið þarna að og verið að leika sér í vatninu og taka ljósmyndir. Síðan hefðu stúlkurnar komið til þeirra og sagst hafa séð manninn gera eitthvað og hefðu þær séð kynfæri hans. Þá hefði E hringt á lögregluna. Vitnið sagði þau hafa tekið eftir því að maðurinn var alltaf að horfa á þau þegar þau voru að stökkva í vatnið og líka þar sem þau lágu í grasinu og spjölluðu saman. Hann sagðist hafa gengið fram hjá manninum þar sem hann sat í dældinni og hefði honum fundist hann vera með höndina inn undir buxunum, en ekki kvaðst vitnið vita hvað hann hefði verið að gera með hendinni.
Þá komu lögreglumennirnir Guðbrandur Reynisson og Hilmar Þór Kolbeins fyrir dóminn sem vitni, en þeir komu á vettvang í umrætt sinn. Guðbrandur kvaðst hafa rætt við stúlkurnar þrjár og hefðu þær verið skelkaðar og greinilega ekki staðið á sama um það sem gerst hefði. Fram kom hjá Hilmari að þessi staður væri vinsælt leiksvæði barna í Elliðaárdalnum.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hann hefur borið að hann hafi sest niður til að hvíla sig í umrætt sinn, farið úr sokkum og skóm, dregið að sér fótlegginn og nuddað fæturna. Við síðari skýrslutöku hjá lögreglu kom fram hjá ákærða að hann ætti við erfiðleika að etja í ristli og bar hann fyrir dómi að hann hefði verið slæmur í ristlinum þennan dag. Hann hefði því farið undir bol sem hann var í og hnoðað eða hrist magann til að lina óþægindi af þeim sökum. Kvaðst hann telja að stúlkurnar hefðu getað misskilið þessa háttsemi hans og jafnvel missýnst að fótur hans væri getnaðarlimur.
Vitnin C, A og B, báru fyrir dóminum að þær hefðu séð að ákærði hefði rennt niður buxum sínum og var að fróa sér og hefðu þær séð getnaðarlim hans. Er framburður stúlknanna um atvik skýr og greinargóður og fullt samræmi í lýsingum þeirra á því hvernig ákærði bar sig að við verknaðinn. Þá fá lýsingar þeirra stoð í framburði vitnanna F, E og D, sem rakinn hefur verið. Á hinn bóginn eru skýringar ákærða, sem að framan getur, ekki trúverðugar að mati dómsins. Með framburði framangreindra vitna telst sannað, gegn neitun ákærða, að ákærði hafi farið höndum um kynfæri sín og fróað sér í viðurvist stúlknanna, sem í ákæru greinir. Var háttsemi ákærða til þess fallin að særa blygðunarsemi stúlknanna og er framburður þeirra, og vitna sem ræddu við þær eftir atvikið, til marks um að þeim hafi verið stórlega misboðið. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur árið 1956 og hefur hann ekki sætt refsingu svo vitað séð. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir ósiðlegt athæfi gagnvart þremur stúlkum á 14. og 15. aldursári. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Þá verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 276.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola við lögreglurannsókn málsins, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur, 91.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Sturla Snorrason, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði skipuðum verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 276.500 krónur, og réttargæslumanni brotaþola, Ingu Lillý Brynjólfsdóttur, 91.000 krónur.