Hæstiréttur íslands
Mál nr. 107/2007
Lykilorð
- Höfundarréttur
- Skilorð
- Ákæra
|
|
Fimmtudaginn 18. október 2007. |
|
Nr. 107/2007. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari) gegn Jesus Vicente Sainz Maza (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Höfundalög. Skilorð. Ákæra.
J var gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 50. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 með því að hafa sem þáverandi starfsmaður ÍE ehf. afritað í heimildarleysi 29 skrár sem hver um sig hafði að geyma umtalsvert safn upplýsinga og voru afrakstur verulegra fjárfestinga félagsins. Enginn vafi var á því að fyrrgreind gögn féllu undir hugtakið gagnagrunnur í skilningi 1. mgr. 50. gr. höfundalaga eins og ákvæðið var túlkað með hliðsjón af tilskipun 96/9 um lögverndun gagnagrunna. Þegar litið var til þeirra gagna sem lögð voru fram í málinu og framburðar vitna var talið nægilega fram komið að skilyrði 1. mgr. 50. gr. höfundalaga um að gagnagrunnurinn sem slíkur hafi verið árangur verulegra fjárfestinga félagsins var uppfyllt. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu því staðfest. Var refsing J hæfilega ákveðin skilorðsbundið fangelsi í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. febrúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um eyðingu á gagnageymslu verði staðfest.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds.
Ákærða er gefið að sök brot gegn höfundalögum með því að hafa á tímabilinu 16. til 30. júní 2006, sem þáverandi starfsmaður A í heimildarleysi afritað á 250 gígabæta færanlega gagnageymslu (harðan disk) af netþjóni fyrirtækisins „29 skrár, sem hver um sig hafði að geyma umtalsvert safn upplýsinga og voru afrakstur verulegra fjárfestinga félagsins.” Innihaldi skránna er nánar lýst í ákæru, sem rakin er í hinum áfrýjaða dómi. Brot ákærða eru þar talin varða við 1. mgr. 50. gr., sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 60/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 78/1984, sbr. 162. gr. laga nr. 82/1998.
Samkvæmt 1. mgr. 50. gr. höfundalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 60/2000, hefur sá sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafa að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar einkarétt til eintakagerðar eða birtingar verks í heild eða að verulegum hluta. Endurtekinn og kerfisbundinn útdráttur og/eða endurnýting óverulegs hluta af gagnagrunni er einnig óheimil ef þær aðgerðir stríða gegn venjulegri nýtingu hans eða ganga með óeðlilegum hætti gegn réttmætum hagsmunum framleiðenda gagnagrunnsins. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 60/2000 segir að eitt helsta nýmælið sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé að lögfest verði í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 96/9 ákvæði um lögverndun gagnagrunna. Þá segir einnig í athugasemdum með 10. gr. frumvarpsins að ákvæði þessarar frumvarpsgreinar um sérstaka (sui generis) vernd til handa framleiðendum gagnagrunna í samræmi við framangreinda tilskipun sé eitt helsta nýmæli frumvarpsins. Samkvæmt framanrituðu var það beinlínis tilgangur laganna að innleiða efni umræddrar tilskipunar í landsrétt. Ber í refsimáli þessu að hafa í huga athugasemdir með frumvarpi til laga nr. 60/2000 þegar skýrð eru ákvæði 1. mgr. 50. gr. höfundalaga, sbr. einnig að sínu leyti 3. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993.
Hugtakið gagnagrunnur er skilgreint í 4. mgr. 6. gr. höfundalaga sem „safn sjálfstæðra verka, upplýsinga eða annarra efnisatriða sem komið er fyrir með skipulegum eða kerfisbundnum hætti og eru aðgengileg með rafrænum hætti eða öðrum aðferðum.” Er hér um að ræða sambærilega skilgreiningu á hugtakinu og er að finna í 2. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 96/9 enda segir í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 60/2000 að þar sé byggt á þeirri skilgreiningu hugtaksins sem sé að finna í tilskipuninni. Hugtakið gagnagrunnur hefur verið túlkað rúmt í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins, en til hennar hefur ákærði vísað við málsvörn sína. Það safn gagna sem ákærða er gefið að sök að hafa afritað í heimildarleysi og var vistað á netþjóni A, hefur meðal annars að geyma samantektarlista yfir niðurstöður tengslagreiningar, þar sem lýst er tengslum gena og sjúkdóma, skrár sem hafa að geyma upplýsingar um þau gen sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að tengist ákveðnum sjúkdómum eða gen sem hugsanlega gætu tengst tilteknum sjúkdómum og skrár sem hafa að geyma upplýsingar sem tengjast svokallaðri genatjáningu. Samkvæmt framanrituðu er ekki vafi á því að framangreind gögn, sem ákærði er ákærður fyrir að hafa afritað í heimildarleysi, falli undir hugtakið gagnagrunnur í skilningi 1. mgr. 50. gr. höfundalaga eins og ákvæðið verður túlkað með hliðsjón af tilskipun 96/9.
Eins og að framan greinir er ákærða gefið að sök að hafa í heimildarleysi afritað 29 skrár „sem hver um sig hafði að geyma umtalsvert safn upplýsinga og voru afrakstur verulegra fjárfestinga félagsins”. Nákvæmara hefði verið að nota hugtakið gagnagrunnur í ákærunni um þær upplýsingar sem ákærði afritaði í heimildarleysi. Ekki eru þó efni til af þeim sökum að vísa ákærunni frá héraðsdómi enda hefur vörn ákærða ekki verið áfátt vegna þessa.
Til að uppfyllt sé skilyrði 1. mgr. 50. gr. höfundalaga um að gagnagrunnur sé „árangur verulegrar fjárfestingar” þarf að liggja fyrir að gagnagrunnurinn sem slíkur hafi krafist verulegrar fjárfestingar. Ekki er nægjanlegt að vinnsla eða tilbúningur þeirra gagna sem síðar voru sett í gagnagrunninn hafi krafist verulegra fjárfestinga ef óverulegar fjárfestingar hafa farið í að búa til sjálfan gagnagrunninn. Er þessi túlkun ákvæðisins í samræmi við þann skilning sem lagður hefur verið í 7. gr. tilskipunar 96/9. Þegar litið er til þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu og framburðar vitna er nægilega fram komið að gerð þeirra gagnagrunna sem ákærði afritaði í heimildarleysi hafi falið í sér verulegar fjárfestingar í skilningi 1. mgr. 50. gr. höfundalaga. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða.
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Hins vegar var brotavilji hans einbeittur og brot hans beindist gegn mikilsverðum hagsmunum. Þykir refsing hans því hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, en rétt er að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Niðurstaða héraðsdóms um að gagnageymsla sem haldlögð var af lögreglu verði ónýtt samkvæmt 2. mgr. 55. gr. höfundalaga og um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Jesus Vicente Sainz Maza, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um ónýtingu gagnageymslu og um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 552.769 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlu Árnadóttur hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2007.
Mál þetta sem tekið var til dóms 16. janúar sl., er höfðað með ákæru Ríkislögreglustjórans, 11. október 2006 á hendur Jesus Vicente Sainz Maza, kt. 060449-2369, Sólvallagötu 3, Reykjavík, ,,fyrir brot gegn höfundalögum, með því að hafa á tímabilinu 16. til 30. júní 2006, sem þáverandi starfsmaður A, í heimildarleysi afritað á 250 gígabæta færanlega gagnageymslu (harðan disk), af netþjóni fyrirtækisins, neðangreindar 29 skrár, sem hver um sig hafði að geyma umtalsvert safn upplýsinga og voru afrakstur verulegra fjárfestinga félagsins:
I. Skrár sem innihalda samantektarlista yfir niðurstöður tengslagreiningar, þar sem lýst er tengslum gena og sjúkdóma. Niðurstöður umræddra tengslagreininga eru byggðar á Íslendingabók, lífsýnum og klínískum upplýsingum frá um 100.000 sjúklingum og ættingjum þeirra, arfgerðum skv. örtungla erfðamörkum, auk annarrar arfgerðagreiningum og tölfræðiforritum:
nafn á skrá dags. afritunar
i. Top40_LODS.xls 16. júní 2006
ii. Asthma_Pathway_LOD_Canditates_Prot_Int_and_disease.xls 16. júní 2006
iii. Asthma_Disease_genes_Pathways_Drugs.xls 16. júní 2006
iv. PG loci of significance 24.08.04. e-lods GÞ xls.xls 16. júní 2006
v. Fleiri_elod 16. júní 2006
vi. Top_LODS_5_091104.xls. 16. júní 2006
vii. Top_LODS_010904.xls 16. júní 2006
viii. Top_LODS_160404.xls 16. júní 2006
ix. Top_LODS_160804.xls 16. júní 2006
x. Top_LODS_180804.xls 16. júní 2006
xi. Top_LODS_230804.xls 16. júní 2006
xii. DG_LOD_Synteny_toMGSV3 17. júní 2006
xiii. new_top_lods-061205.txt 30. júní 2006
xiv. new_top_lods-190506.txt 30. júní 2006
xv. new_top_lods-251105.txt 30. júní 2006
xvi. new_top_lods-251105_2.txt 30. júní 2006
xvii. TPO LODS Jesus.xls 30. júní 2006
xviii. Top Lod Inflammatory 11-05.xls. 30. júní 2006
xix. Asthma_COPD 180506.xls 30. júní 2006
xx. Asthma_COPD 180506-processed. xls 30. júní 2006
II. Skrár sem innihalda upplýsingar um þau gen sem búið er að sýna fram á með rannsóknum að tengjast ákveðnum sjúkdómum eða gen sem hugsanlega gætu tengst tilteknum sjúkdómum og byggja á þeim niðurstöðum tengslagreiningar sem lýst er í kafla I.:
nafn á skrá dags. afritunar
xxi. Top_18_genes_280503.xls 16. júní 2006
xxii. B33_SNPs_in_ISE_top_18_genes_060603.xls 16. júní 2006
xxiii. TACR1_expression_correlated_genes.xls 16. júní 2006
III. Skrár sem hafa að geyma upplýsingar sem tengjast genatjáningu á um 24.000 genum í blóði frá 1.200 einstaklingum og fítuvef frá 673 einstaklingum. Skrár þessar hafa nánar tiltekið að geyma upplýsingar sem samtvinna upplýsingar sem annars vegar eru fengnar með genatjáningu og hins vegar tengslagreiningu. Genatjáningargögnin og upplýsingar afleiddar þar af, byggja á söfnun fitusýna og klíniskra upplýsinga frá 673 einstaklingum, sem fram fór á árunum 2003 til 2004, mælingum á tjáningu 24.000 gena í framangreindum 673 fitusýnum, Íslendingabók, arfgerðagreiningu með 120 örtungla erfðamörkum á framangreindum lífsýnum og arfgerðagreiningum með 317.000 einbasa erfðamörkum (SNP) á 150 ofangreindra lífsýna:
Nafn á skrá dags. afritunar
xxiv. MAP3K9_TOP-correlated_expression_genes_in_blood.xls 16. júní 2006
xxv. TACR1_expression_correlated_genes.xls 16. júní 2006
xxvi. Clinical_traits_and_SNP_in_Positive_Selection 16. júní 2006
xxvii. Positive_selection_interval_SNP_association_genes_expression 16. júní 2006
xxviii. Positive_selection_SNP_region_LD_Illumina_SNPs 16. júní 2006
xxix. Merck_3.0A1_probes_map.txt 17. júní 2006
Telst þetta varða við 1. mgr. 50. gr., sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73, 1972, sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 60, 2000, sbr. 5. gr. laga nr. 78, 1984, sbr. 162. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að ofangreind gagnageymsla, sem haldlögð var af lögreglu, verði ónýtt samkvæmt 2. mgr. 55. gr. höfundalaga nr. 73, 1972. “
Með dómskjali nr. 25 leiðrétti ákæruvaldið ákæru að því leyti að ,,skrá nr. 17, á að vera TOP LODS Jesus.xls., en ekki TPO LODS Jesus xls.
Skrá nr. 23, á að vera TACR1_Illumina_Association_expression,
en ekki TACR1_expression_correlate_genes.xls.
Af hálfu ákærða er krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik.
Með bréfi B lögfræðings, frá 8. ágúst 2006, var lögð fram kæra til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra fyrir hönd A og móðurfélags þess, C, á hendur ákærða fyrir iðnaðarnjósnir samkvæmt 13. gr. laga nr. 57/2005 um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins. Þá var ákærði einnig kærður fyrir brot á 50. gr. höfundalaga nr. 73/1972 um lögverndun gagnagrunna. Einnig kom fram í kærunni að ákærði gæti hafa brotið gegn auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kærunni kemur fram að mál þetta tengist starfslokum D læknis og fyrrverandi framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá C, sem látið hafði af störfum hjá fyrirtækinu í lok maí sl. og hóf um leið störf hjá nýstofnuðu ,,Center for Applied Genomics” (CAG) við Childrens Hospital of Philadelphia (CHOP) í Pennsylvaniu fylki í Bandaríkjunum. Með fréttatilkynningu frá CHOP frá 7. júní sl., hafi verið sagt frá stofnun CAG og væntanlegri starfsemi þess lýst nánar. Um svipað leyti hafi orðið ljóst að D hafði ráðið 3 starfsmenn A á Íslandi til starfa hjá CAG, þ.e. þá Struan Grant, Jonathan Bradfield og Robert Skraban. Í kærunni kemur og fram að á þessum tíma hafi C verið orðið ljóst að D hafði brotið mjög alvarlega gegn ákvæðum ráðningarsamnings síns um samkeppnishömlur og banni við að hvetja aðra starfsmenn C til að starfa hjá öðrum, auk þess sem hann hefði brotið ákvæði ráðningarsamnings um trúnað og eignarupplýsingar. Um miðjan júlí hafi C ráðið til sín bandaríska rannsóknarmenn á sviði tölvumála og tölvuafbrota til þess að rannsaka tölvur og gagnasvæði á netþjónum sem framangreindir fyrrverandi starfsmenn C höfðu til umráða og almenna tölvuvinnslu sem þeir höfðu unnið við.
Við rannsókn þessa hafi meðal annars komið í ljós skjal á vinnustöð D sem fól í sér starfstilboð til ákærða. Ákærði neitaði að hafa þegið starfið eða að hafa rætt við D um slíkt. Var ákærða í kjölfar þessa meinaður aðgangur að starfsstöð C og hafi síðar komið í ljós tölvupóstsamskipti á milli D og ákærða sem bendi sterklega til að ákærði hafi ráðið sig til CAG. Einnig hafi komið í ljós að ákærði notaði 250 gígabæta færanlegan gagnamiðil (harðan disk) til þess að hlaða niður miklu magni af upplýsingum af vefþjónum C, en ákærði hafði víðtækari aðgang að ýmsum gagnagrunnum fyrirtækisins en flestir aðrir, enda hafi hann verið yfirmaður í lífupplýsingadeild fyrirtækisins og haft með höndum rekstur og uppfærslur á mörgum af verðmætustu gagnagrunnum fyrirtækisins, en þar liggi fjárfesting upp á milljarða íslenskra króna.
Í málinu liggur frammi ráðningarsamningur ákærða við A. Þar kemur fram að ákærði er ráðinn til vinnu hjá A sem vísindamaður á sviði rannsókna. Upphafstími ráðningarsamnings er 1. júní 1998. Undir kaflanum ,,job obligations” kemur eftirfarandi fram: The employee pledges to do the work he undertakes with að sense of duty and diligence. While working for the employer the employee may not, unless with the employers written consent, work at other jobs or participate in other employment that competes with the employers operations, or that can conflict in some other way with the employees work for the employer. Upon termination of his employment the employee has a duty to turn over all documents and identification papers in his custody that pertain to the employer.
Undir kaflanum Confidentiality kemur fram: The employee fills a job of responsibility and trust for the employer. He shall maintain the utmost confidentiality about whatever he has become aware of in his job regarding the employer´s customers, and which can damage the interests of these parties. Due to nature of his work the employee is obligated to handle all information, documents and data to which he has access in his work with the utmost confidentiality. This confidentiality continues in force after termination of the employment.
Í samkomulagi beggja aðila, A og ákærða, sem ber yfirskriftina Employee Proprietary Information and Inventions Agreements kemur og fram í lið 1.1 Nondisclosure of Proprietary Information. Company Rights: The Employee shall not disclose the Proprietary Information of the Company, use it, lecture on it or publish it except as such disclosure use or publication is required in connection with the work of the Employee for the Company or unless an officer of the Company expressly so authorises in writing.
Þá liggur frammi í málinu ,,Certificate regarding computer use policy” en ákærði undirritaði ekki það skjal.
Í rannsóknargögnum málsins kemur fram að úrskurður um húsleit á heimili ákærða, að Sólvallagötu 3, Reykjavík, hafi verið kveðinn upp 10. ágúst sl., en húsleitin var gerð 19. ágúst sl. eftir að ákærði kom til landsins frá Bandaríkjunum, en hann var handtekinn við komuna til landsins. Við handtökuna greindi ákærði frá því að hann hefði látið afhenda færanlegan harðan disk, af gerðinni LACIE á skrifstofu E lögmannstofu hf., þar sem F héraðsdómslögmaður tók við honum.
Ákærði sætti farbanni frá 20. ágúst sl. til 9. október 2006.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst hafa afritað þær skrár sem í ákæru greinir vegna starfa sinna hjá A. Hann kvaðst hafa afritað um 90 þúsund skrár, þar af hafi 45 þúsund skrár verið persónulegar skrár ákærða. Hann kvaðst ekki hafa fengið allar persónulegu skrár sínar til baka og kvað mögulegt að það sem hann kalli persónulegar skrár, séu í raun og veru skrár í eigu A. Ákærði kvaðst hafa afritað þessar skrár í júní 2006 yfir á 250 gígabæta gagnageymslu, svokallaðan flakkara. Hann kvaðst ekki hafa fengið leyfi hjá A til þess enda kvað hann þetta eðlilegt vinnuferli hjá A. Hann kvaðst hafa ætlað að vinna heima hjá sér með þessi gögn og vinna að hagsmunum fyrirtækisins með afritun þeirra. Hann kvaðst ekki hafa átt tölvu á þeim tíma er hann fór með harða diskinn út úr fyrirtækinu, en hefði ætlað sér að kaupa tölvu, sem hann hefði nú þegar gert. Spurður um það hvers vegna hann hefði þá farið með diskinn út úr fyrirtækinu, kvaðst hann hafa viljað hafa hann heima.
Ákærði kvaðst hafa fengið atvinnutilboð frá D. Hann hefði ekki þegið starfið, en samningaviðræður hefðu verið milli þeirra. Spurður um það hvort samningaviðræður við D hafi staðið yfir á sama tíma og ákærði afritaði framangreind gögn, kvað ákærði það ekki hafa verið á sama tíma. Er ákærða voru sýnd tölvusamskipti milli hans og D, 19. júní 2006 og 6. júní 2006, sem sýna samningaumleitanir þeirra í milli, og ákærði síðan spurður um það hvort hann hafi afritað stærstan hluta skráanna, 16. júní 2006, kvað ákærði það geta staðist, en hann kvað þetta vera sínar skrár.
Ákærði kvað að hann hefði pantað flug til Fíladelfíu 30. júlí 2006. Tilgangur ferðarinnar hafi verið að sjá starfsstöðina þar sem hann átti að starfa, ef hann hefði þegið starfið og skoða borgina.
Spurður um hvenær honum var sagt upp störfum hjá A kvað ákærði að honum hafi ekki verið sagt upp, heldur hafi hann sagt upp störfum 2. ágúst sl.
Spurður um það hvort hann hafi þurft leyfi til að vinna heima, kvað ákærði það ekki vera svo. Vinnutíminn hafi að vísu átt að vera frá 9 til 5, en einnig hafi verið um að ræða sveigjanlegan vinnutíma. Spurður um það hvenær hann ætlaði að kaupa tölvu, kvað ákærði það hafa staðið til í júlí, en vegna mikils gestagangs hafi hann frestað því. Spurður um hvort hann hefði ekki getað fengið tölvu frá A endurgjaldslaust, til þess að vinna með heima, kvað ákærði að hann hefði beðið G um tölvu til þess að vinna með heima og hafi óskað eftir því að fá hana til afnota í nokkra mánuði. Hafi G gert athugasemdir við svo löng afnot af tölvunni, en ákærði hefði áður fengið afnot af tölvu til að vinna heima í styttri tíma.
Spurður um menntun sína og bakgrunn kvaðst ákærði ekki hafa neinn bakgrunn í upplýsingatækni. Menntun hans væri fyrst og fremst á sviði bókmennta, erfðafræði og taugalíffræði. Ákærði kvað miklar breytingar hafa orðið á starfssviði sínu í júní 2003 og hafi honum þá fundist hann vera lækkaður í tign. Hann kvað yfirmann sinn hafa verið H og kvaðst ákærði ekki hafa haft neina undirmenn.
Ákærði kvaðst hafa haft aðgengi að genaupplýsingum yfir Íslendinga sem C hafði í fórum sínum. Það hafi verið upplýsingar um arfgerðir og einnig hafi hann haft aðgengi að upplýsingum um líkamseinkenni og sjúkdóma einstaklinga. Einnig hafi verið útbúið leitartæki (browser) þar sem hægt var að komast að upplýsingum um ,,offituverkefnið“. Það sem hafi verið sérstakt við ,,offituverkefnið“ hafi verið það að þar hafi verið upplýsingar um arfgerð um þrjúhundruð þúsund erfðamarka sem sé miklu meira en venja hafi verið að undanförnu, þar sem um sé að ræða kannski eitt til tvö þúsund erfðamörk. Með leitartækinu hafi verið unnt að fá upplýsingar um aldur einstaklinga, kyn, þyngd og líkamsbyggingu, þ.e. aðgengi að mjög umfangsmiklum upplýsingum. Hafi þessar upplýsingar verið aðgengilegar öllum í fyrirtækinu.
Ákærði kvað I hafa skipulagt fund þar sem hún hafi viljað að J kynnti notkun á þessu leitartæki til þess að afla upplýsinga úr þessum gagnagrunni. Á þessum fundi hafi verið á bilinu 60-80 manns, þar af 40 verkefnisstjórar.
Ákærði kvaðst hafa haft aðgang að nákvæmum upplýsingum um að minnsta kosti tvo sjúkdóma. Hann kvaðst ekki hafa haft aðgengi að mikilvægustu upplýsingum A, t.d. upplýsingum er vörðuðu lyfjaprófanir hjá fyrirtækinu. Hann kvaðst meðal annars ekki hafa haft aðgengi að neinum upplýsingum er vörðuðu efnafræðilega greiningu, sem gerð hafi verið í sambandi við framleiðslu á nýjum lyfjum og ekki aðgengi að upplýsingum um þróunarferli á erfðaprófum. Þá hafi hann ekki haft aðgengi að neinum áætlunum yfirstjórnenda fyrirtækisins um endurskipulagningu eða rekstur fyrirtækisins.
Ákærði kvaðst hafa undirritað ráðningarsamning sem liggur frammi í málinu og einnig samning um eignarupplýsingar. Ákærði kvaðst ekki hafa undirritað fleiri skjöl varðandi meðferð á gögnum í starfi og hafi honum ekki verið kynnt nein slík skjöl, að því er hann best viti.
Ákærði kvað engar öryggisráðstafanir hafa verið viðhafðar þegar honum var afhent tölva til umráða frá A.
Ákærði kvaðst hafa notað minnislykil, t.d. þegar hann var með kynningar eða fyrirlestra. Það hafi hann gert í samráði við K og hafi hann fengið minnislykilinn frá upplýsingatæknideildinni.
Ákærði kvaðst hafa fengið starfstilboð frá D 28. maí 2006. Hann kvaðst hafa fengið önnur starfstilboð, t.d. frá starfsfélaga sínum á Spáni eftir að hann sagði upp hjá A.
Hann kvað að ekki hafi verið óskað eftir því að hann afhenti gögn í sínum vörslum er hann yfirgaf fyrirtækið og lauk störfum.
Spurður um hvaða sjónarmið hafi ráðið því, hvaða gögn hann afritaði yfir á harða diskinn, kvaðst hann almennt hafa afritað það sem hann notaði í starfi sínu. Hann hafi afritað margar skrár og ekki handvalið tilteknar skrár umfram aðrar.
Ákærði kvað engan hafa séð innihald harða disksins og enginn hafi vitað um hann.
Er ákærða var sýnt dómskjal nr. 13 kvaðst hann hafa unnið það. Eftir að hafa útbúið skjalið og önnur viðlíka vinnuskjöl, hafi þau að öðru jöfnu farið til verkefnisstjóranna. Þá hafi fylgt með sérstök greinargerð og einnig hafi ákærði fylgt skjölunum eftir með greiningu og skýringum.
Spurður um dómskjöl nr. 21 og 22 kvaðst ákærði hafa unnið þau. Hann var spurður um hvort rétt sé að ,,lod skor” geti verið mikilvægar upplýsingar í genarannsóknum. Kvað ákærði það skoðun sína að ,,lod skor” sé úrelt í dag. Tvær ástæður séu fyrir því. Upplýsingar fengnar með þessari rannsóknaraðferð séu óáreiðanlegar og jafnframt séu niðurstöðurnar mjög ónákvæmar. Vísindasamfélagið sé farið að beita annarri rannsóknaraðferð, sem sé kölluð ,,association analysis” og með henni sé hægt að fá miklu nákvæmari og fleiri niðurstöður.
Ákærði var spurður um það hvert ,,skorið“ þurfi að vera til þess að teljast mikilvægt. Kvað ákærði það þurfa vera 3,7 eða hærra.
Ákærði kvaðst aldrei hafa séð skjal sem er að finna í rannsóknargögnum málsins á bls. 101, meðan hann starfaði hjá A.
Ákærði kvaðst sjálfur hafa búið til flestar af þeim 29 skrám sem getið er í ákæru, en sumar væru búnar til af öðrum starfsmönnum. Skrárnar hefðu aldrei verið birtar opinberlega enda fengjust þær aldrei birtar í því formi sem þær séu í skránni.
Vitnið, K, kvaðst vera með doktorspróf í lífefnafræði og hafa komið til starfa hjá A 1997 og hafi starfað þar síðan. Spurður um innihaldslýsingar á 32 skrám, merkt á bls. 114 til 125 í rannsóknargögnum, kvaðst vitnið hafa komið að greiningu þessara skráa ásamt L. Spurður um það af hverju þessar 32 skrár voru valdar af 97 þúsund skrám, kvað hann I ásamt M hafa valið út 85 skrár, byggt á nöfnum þeirra skráa sem voru á diskinum. Vitnið kvaðst telja að þessar skrár séu eign A og að þær hafi verið búnar til innan fyrirtækisins. Kvað vitnið að sumar þessara skráa innihéldu samantektir á helstu niðurstöðum tengslagreiningar í nánast öllum verkefnum A. Því sé hægt að meta þann kostnað sem farið hafi í að taka þessar niðurstöður saman, en þar sé um að ræða nánast allan rannsóknarkostnað A í 8-10 ár, verulegar upphæðir.
Spurður um hvaða viðmið hann hafi haft þegar hann valdi þessar 32 skrár úr hinum 85 skrám, kvað vitnið að honum hafi borist beiðni um nánari skilgreiningu á þessum tilteknu skrám.
Vitnið, L, kvaðst vera með doktorspróf í efnafræði og starfi hann hjá A sem verkefnisstjóri. Borin var undir vitnið innihaldslýsing á 32 skrám, sem finna má á bls. 114-125 og kannaðist vitnið við að hafa komið að gerð þessarar greiningar. Hann kvað lögfræðing fyrirtækisins hafa falið honum að vinna þetta skjal. Þessar 32 skrár hafi verið valdar úr 85 skrám og kvað hann viðmið sem notuð voru við að velja þessar 32 skrár út, hafa verið þau að um væri að ræða skrár sem lýstu eðli þeirrar afritunar sem átti sér stað. Hann kvað þá K hafa bætt við skrám, þ.e. skrám sem eru aftast, merktar Pfizer og Karifeb6.
Hann kvað skrárnar hafa verið búnar til hjá A. Þær innihaldi niðurstöður rannsókna fyrirtækisins og kvað hann mikla rannsóknarvinnu liggja að baki skránum, þótt það sé misjafnt eftir hverri skrá. Sumar skrárnar innihaldi samantekt og niðurstöðu um tengsl sjúkdóma og litningasvæða, en starfsemi A gangi einmitt út á það. Vitnið kvað að engin þessara skráa hafi verið birt opinberlega. Þessi afritun ákærða á gögnunum samrýmist ekki innanhússreglum fyrirtækisins um meðhöndlun gagna. Þær reglur liggi fyrir og ættu öllum að vera ljósar sem vinni með gögn fyrirtækisins. Það geti, í einstaka tilvikum, verið að menn þurfi að taka einstaka skjal með heim, en það séu þá yfirleitt skýrslur eða tímaritsgreinar sem menn séu að vinna að. Gögn sem í eðli sínu séu samantekt á niðurstöðum sé ekki eðlilegt að afrita og taka með sér heim.
Vitnið kvað öryggismál innan fyrirtækisins ekki vera á sinni könnu. Hann kvað flestar þessara skráa innihalda samantekt á rannsóknarvinnu annarra en ákærða.
Vitnið, N, kvaðst vera gagnaöryggis- og gæðastjóri A. Hann kvað að gögn sem mætti afrita með frjálsum hætti og fara með út úr fyrirtækinu, þyrfti að merkja sem ,,public“. Hann kvað almennu regluna vera þá að starfsmenn fyrirtækisins ynnu ekki heima hjá sér. Á þeirri reglu væru undantekningar og útvegaði þá A fartölvu eða borðtölvu heima hjá starfsmanni. Vitnið kvað að á innra neti fyrirtækisins kæmi fram, á síðu sem tilheyrði tölvudeildinni, að starfsmönnum sé ekki heimilt að tengja búnað við netkerfi A sem ekki sé samþykkt af tölvudeildinni. Vitnið var spurt hvort það væri mögulegt að fyrirtækið léti starfsmenn fá 250 gígabæta geymslumiðil til að afrita gögn úr netþjóni fyrirtækisins. Kvað þá vitnið að geymslumiðill af þessum stærðarflokki sé ekki notaður til slíks. Fyrirtækið afhendi þeim starfsmönnum sem þurfi t.d. að halda kynningar, færanlega geymslumiðla. Vitnið kvað að afritun sú sem ákærði framkvæmdi hafi ekki verið í samræmi við reglur fyrirtækisins um afritun gagna. Vitnið kvaðst þekkja staðal um stjórnun upplýsingatækniöryggis og sé sá staðall notaður í A. Vitnið var spurt um það hvaða stýringum væri beitt, á grundvelli þess staðals. Vitnið kvað að notuð væri stýring sem felist í að skilgreina hver hafi forsjá tiltekinna eigna. Það væri skjalfest annars vegar í sérstökum skjölum fyrir hvert kerfi og einnig væri þetta merkt þannig að eigandi ákveðinna skjala væri tiltekinn í skjalinu. Ákveðin viðmið væru um það hvernig upplýsingar séu flokkaðar, þær séu settar fram í reglum um flokkun gagna. Vitnið kvað að reglur væru til um það hver hefði heimild til að skilgreina upplýsingar hjá félaginu og það myndi vera eigandi viðkomandi gagna. Vitnið kvað aðrar merkingar á skjölum en ,,public“ vera notaðar en það væru ,, for internal use“ og ,,confidential“.
Spurður um hvernig fræðslu um upplýsingaöryggismál hafi verið háttað, kvað vitnið að þegar reglurnar voru settar, hafi þær verið kynntar fyrir þáverandi starfsmönnum með tölvupósti, þær hafi verið gerðar aðgengilegar á innri vef fyrirtækisins og síðan hafi verið minnt á þessar reglur um tölvunotkun og meðferð gagna í tölvupósti á 3 mánaða fresti.
Spurður um hvernig áhættu við fjarvinnu hafi verið stýrt, kvað vitnið hafa útvegað þann búnað sem til hafi þurft og hafi hann verið settur upp af tæknimönnum fyrirtækisins. Fjartengingin sem slík, þegar hún eigi við, sé dulrituð einkanetstenging, eða VPN, þar sem bæði auðkenning og gagnasamskipti séu dulrituð og notandi auðkenni sig með tveggja þátta auðkenni. Almennum starfsmönnum sé ekki heimilt að vinna heiman að frá sér. Vitnið kvað að litlir minnislyklar, þ.e. upp að einu gígabæti, væru notaðir hjá fyrirtækinu. Vitnið kvað slíka lykla ekki vera skráða hjá fyrirtækinu og ekki hafi þurft að fylla út sérstaka beiðni fyrir slíkum lykli. Ekki sé gengið eftir því að slíkum lykli sé skilað aftur.
Spurður um hvernig eftirliti hafi verið háttað með reglunum um stjórnun og upplýsingaöryggi, kvað vitnið að frávikaskráning væri nýtt til þess að fylgja eftir reglunum og að öryggisúttekt væri gerð á neti fyrirtækisins gagnvart þeim hugbúnaði sem væri verið að setja upp. Vitnið kvaðst hafa umsjón með þessu eftirliti og að hann væri í samstarfi við aðila sem væru ábyrgir fyrir þeim upplýsingaeignum sem um ræðir og sem þeir fylgist með.
Spurður um það hvort læsing væri sett á hefðbundna útstöð í heimahúsi, kvað vitnið að í eina tilvikinu sem vitnið viti um, hafi diskurinn verið dulritaður, þegar sett var borðvél hjá starfsmanni til að vinna með heima. Þegar fólk væri að vinna í gegnum VPN væru engin gögn geymd á vélinni sem slíkri. Í slíkum tilvikum væru hörðu diskarnir ekki dulritaðir. Varðandi stjórnkerfið, sé miðað við ISO 27001, kvað vitnið að upplýsingastjórnkerfi fyrirtækisins hafi ekki verið vottað af BSI eða sambærilegum aðilum, en á hinn bóginn sæti fyrirtækið reglulegum úttektum af samstarfsaðilum, erlendum lyfjafyrirtækjum, erlendum fjármálafyrirtækjum og Persónuvernd. Úttekt Persónuverndar hafi síðast farið fram í ársbyrjun 2004 eða 2005.
Vitnið, I, kvaðst starfa sem forstöðumaður erfðarannsókna hjá A. Hún kvaðst vera með doktorsgráðu í sameindaerfðafræði og blóðmeinafræði. Hún kvað að þegar ljóst var orðið að ákærði hafði halað niður á harðan disk miklu magni af skjölum frá A hafi hún verið beðin um að líta á þann skjalalista og skoða um hvers konar skjöl var að ræða. Hún kvaðst hafa flokkað skjölin í 5 eða 6 flokka eftir innihaldi þeirra, en nöfn skjalanna hafi verið mjög lýsandi fyrir innihald þeirra. Hún hefði síðan skoðað nánar innihald 85 skjala. Vitnið var spurð um málsskjöl á bls. 72 og 73 og kvað vitnið það vera þá greiningu sem hún vann. Vitnið kvað þessar skrár vera eign A og hafi þær verið búnar til þar. Vitnið kvað skrá í flokki 1 innihalda niðurstöður tengslagreiningar og hafi það verið erfðarannsóknaraðferð A sl. 9 ár. Þessar rannsóknir byggi á 4 þáttum sem er Íslendingabók, lífssýnum úr um 100.000 sjúklingum, klínískum upplýsingum um þessa sjúklinga og ættingja þeirra og síðan hafi vísindamenn hjá A hannað tölvuforrit sem hafi verið notuð til að tengja saman arfgerðagreiningu, ættfræðigrunninn og þessar klínísku upplýsingar til þess að reyna að staðsetja sjúkdómsvaldandi gen í erfðamengi mannsins. Skrárnar í flokki 1 lýsa þeim svæðum þar sem A hafi fundið tengsl milli ákveðinna sjúkdóma og svæðis í erfðamenginu. Það sé tjáð með svokölluðu ,,lod skori“ hversu sterk þessi tengsl séu. Ef verðleggja ætti þessar upplýsingar þá þyrfti einungis að skoða hversu miklum fjármunum A hefði eytt í sínar erfðafræðirannsóknir frá stofnun fyrirtækisins, en það velti á tugum eða hundruðum milljóna dollara. Vitnið kvað skrárnar ekki hafa birst opinberlega, í þeirri mynd sem ákærði afritaði þær. Eitthvað af þessum niðurstöðum hafi verið birt í vísindagreinum, en meiri hlutinn hafi ekki birst opinberlega. Vitnið kvað þessa afritun ákærða á gögnum ekki samrýmast reglum fyrirtækisins um meðhöndlun þessara gagna. Um sé að ræða upplýsingar sem enginn hafi þörf fyrir að taka út úr fyrirtækinu, nema ætlun viðkomandi sé að kynna þessar niðurstöður fyrir einhverjum. Þetta séu gögn sem illmögulegt sé að vinna með heima, vegna þess að heima fyrir sé ekki aðgangur að gagnagrunni C sem verði að vera fyrir hendi, til þess að hægt sé að vinna með skjölin. Vitnið kvaðst telja að til hafi verið skipurit yfir starfsmenn A. Vitnið var spurt um skjal nr. 9 og kvað vitnið það í flestum atriðum rétt, í það minnsta varðandi ákærða og yfirmenn hans.
Vitnið var spurð um hvort A hefði breytt um rannsóknaraðferð, þ.e. hvort A hefði horfið frá tengslagreiningu og tekið upp rannsóknaraðferð sem kallist ,,associaton analysis“. Vitnið kvað að á þeim lífssýnum sem A hefði safnað hefði þegar farið fram tengslagreining og það væru í raun þau gögn sem ákærði hefði halað niður. Í beinu framhaldi af tengslagreiningu, hefði verið gerð ,,association analysis“ rannsókn, eða fylgnirannsókn. Þetta hefði verið gert undanfarin ár. Hins vegar sé nú komin fram ný tækni þar sem unnt sé að gera slíka fylgnirannsókn fyrir allt ,,genomið“ (erfðamengið). Ekki sé unnt að tala um að búið sé að leggja einhverri rannsóknaraðferð, fremur sé verið að útvíkka þessa fylgnirannsóknaraðferð. Vitnið kvað ,,lod skor“ geta haft þýðingu, einnig við rannsóknir með ,,associaton analysis“ aðferð. Vitnið kvað að fyrir 5-6 árum hefði aðaláherslan verið á ,,lod skor“ yfir 3,7. Nú væri miðað við 1,8 ,,lod skor“.
Vitnið kvað ákærða hafa haft aðgang að öllum niðurstöðum sem komu út úr tengslagreiningunni frá erfðarannsóknadeildinni. Einnig hafi hann haft aðgang að gagnagrunni sem hafði verið búinn til innanhúss. Þá hafi hann haft aðgang að niðurstöðum erfðarannsókna varðandi ýmsa sjúkdóma.
Vitnið kvaðst ekki hafa unnið í hópum sem bjuggu til reglur um öryggismál fyrirtækisins, en setið á nokkrum fundum með þeim. Hún kvaðst þó bera ábyrgð á því að aðgangur að gögnum hafi verið með þeim hætti sem ákveðinn hafi verið. Hún kvað upplýsingar hafa verið flokkaðar eftir því hvort um trúnaðarupplýsingar var að ræða, í ,,confidential“ og ,,public“. Ef upplýsingar séu ekki flokkaðar sem ,,confidential“ beri þó að líta á þær sem trúnaðarmál, það sé almenna reglan. Öll önnur skjöl en ,,public“ skjöl séu trúnaðarskjöl. Vitnið var spurt hvort starfsmönnum hefðu verið kynntar reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga. Vitnið kvað það tekið skýrt fram þegar skrifað væri undir ráðningarsamning við viðkomandi auk þess sem sem starfsmaður skrifaði undir ,,Code of ethics and business conducts“, sem mikil umræða hefði verið um innan fyrirtækisins. Þar sé kveðið sterkt að orði um meðferð trúnaðarupplýsinga. Spurð um það hvort reglur væru innan fyrirtækisins varðandi fjarvinnu, kvað vitnið að harði diskurinn á öllum tölvum sem starfsfólk vann með utan vinnustaðarins væri dulritaður, þannig að óviðkomandi gæti ekki komist inn á gögn.
Vitnið var spurt um dómskjal nr. 14 og kvaðst vitnið hafa séð skjalið, en L og K hefðu unnið það. Skjalið væri byggt á þeim 85 skrám sem hún hefði valið. Hún kvaðst hafa valið þær skrár sem hún hefði talið að geymdu mest af verðmætum upplýsingum frá A.
Vitnið, B, kvaðst starfa sem forstöðumaður lögfræðisviðs hjá C. Hann kvað 4 starfsmenn fyrirtækisins hafa hætt störfum og hafið störf hjá CHOP. Hafi þá komið upp grunsemdir um að þeir hefðu tekið og nýtt sér viðskiptaleyndarmál fyrirtækisins. Hafi þá hafist innnahússrannsókn hjá fyrirtækinu og fengnir hafi verið bandarískir rannsóknarmenn á sviði tölvuafbrota til að rannsaka vinnustöðvar þessara 4 starfsmanna. Við rannsóknina hafi komið í ljós fullfrágenginn ráðningarsamningur eða starfstilboð til ákærða. Hafi þetta gerst 1. ágúst sl. Ákærði hafi þá verið kallaður á fund og þetta borið undir hann. Hafi ákærði neitað því að vera í viðræðum við D eða CHOP. Hann hafi svo beðið um að fá að ræða við forstjóra fyrirtækisins, sem hann hafi og gert. Málin hafi verið rædd áfram og ákærða sýnd drög að ráðningarsamningi, sem hann þverneitaði að hafa séð fyrr. Þá hafi verið ákveðið að takmarka tölvuaðgang hans og takmarka aðgang hans að fyrirtækinu utan vinnutíma. Næsta morgun hafi ákærði svo sagt upp starfi sínu. Við rannsókn á tölvugögnum hafi svo komið í ljós ,,niðurhal“ úr tölvubúnaði fyrirtækisins á færanlegan geymslumiðil.
Vitnið kvað að ákærði hefði þurft sérstakt leyfi til að afrita þau gögn sem fyrir liggur að hann hafi gert, og til að fara með þau út úr fyrirtækinu. Notkun svona stórra jaðartækja sé ekki leyfð nema með sérstöku leyfi fyrirtækisins. Vitnið kvað ákærða hafa verið ómögulegt að vinna með meginhluta þessara gagna heima hjá sér.
Vitnið kvað það missagt sem komi fram í kæru að ákærði hafi verið kallaður á fund hjá A 26. júlí, hið rétta sé að hann hafi verið kallaður á fund til þeirra 1. ágúst 2006.
Vitnið, H, kvaðst hafa verið yfirmaður ákærða frá 2004 til maí 2006. Hann kvaðst hafa séð skipurit yfir starfsemi A. Er vitninu var sýnt dómskjal nr. 9 kvað hann það ekki vera í samræmi við það skipurit sem hann þekkti úr A. Vitnið kvaðst hafa verið yfirmaður ákærða, en hann kvað sinn yfirmann hafa verið O. Hann kvað stöðu sinni gagnvart ákærða og stöðu ákærða gagnvart öðrum þó vera rétt lýst á dómskjali nr. 9. Hann kvaðst hafa litið svo á að hann bæri ábyrgð á að kynna upplýsingaöryggi fyrir sínum undirmönnum. Hann kvaðst ekki minnast þess að ákærði hefði skrifað undir einhver skjöl varðandi upplýsingaöryggi. Er borið var undir vitnið gagn á bls. 106 ,,Computer Use Policy“ kvaðst vitnið ekki minnast þess sérstaklega að hafa haft þetta tiltekna skjal undir höndum. Margt í skjali þessu séu upplýsingar, sambærilegar þeim sem voru tiltækar á innri vef fyrirtækisins. Hins vegar gæti verið að hann hafi ekki kynnt það öllum. Vitnið var spurt um það hvort það þekkti reglur um vinnu utan vinnustaðar og kvaðst vitnið hafa haft fartölvu sem það vann með utan vinnustaðarins. Vitnið minntist þess ekki að honum hafi verið kynntar sérstakar reglur varðandi notkun hennar. Vitnið var spurður um það hvort hann myndi eftir því að ákærði hefði tengt myndavél við sína tölvu og kvaðst vitnið ekki útiloka það. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa gert athugasemdir við ákærða vegna atriða sem vörðuðu öryggismál. Vitnið kvaðst ekki muna eftir fundi með öllum starfsmönnum fyrirtækisins þar sem öryggismál væru rædd.
Vitnið, J, kvaðst hafa hafið störf hjá A, 1. ágúst 2000. Hann kvaðst hafa starfað við rannsóknir á upplýsingasviði fyrirtækisins. Hann kvað ákveðnar reglur um öryggismál hafa verið í gildi í fyrirtækinu. Þær hefðu verið kynntar í ráðningarsamningi og einnig væru ríkar kröfur gerðar um meðhöndlun gagna frá Persónuvernd. Hann kvað að sér hefði alveg verið ljóst hvað var leyfilegt að gera, en kvað sér ekki vera ljóst hvort um væri að ræða skriflegar reglur. Vitnið var spurður um það hvort hann hefði gert gagnasafn sem innihélt arfgerðir Íslendinga úr svokallaðri offiturannsókn, aðgengilegt starfsmönnum A. Hann kvaðst hafa borið ábyrgð á að gera aðgengilegt fyrir starfsmenn A gagnagrunn, sem byggðist á upplýsingum, sem fengust utan fyrirtækisins. Í fyrstu hafi þessar upplýsingar verið trúnaðarmál, en síðan hafi verið ákveðið að upplýsingar yrðu starfsmönnum fyrirtækisins aðgengilegar.
Vitnið, P, kvaðst enn vera starfsmaður A og vera bundinn af trúnaðarákvæði ráðningarsamnings og óskaði eftir því að það yrði fært til bókar og kvaðst vísa til þessara ákvæða ef hann yrði spurður spurninga sem hann ekki gæti svarað án þess að brjóta fyrrnefndan trúnað.
Vitnið kvaðst hafa starfað hjá A frá apríl 2002 og honum hefði verið sagt upp störfum frá og með 1. nóvember 2006. Hann kvaðst hafa starfað við massagreiningar. Starfið hafi falist í að vinna við greiningu á líffræðilegum þáttum ýmissa lyfja og að skoða samsetningu og stöðugleika lyfja. Vitnið kvaðst ekki vera viss um að einhverjar reglur væru í gildi varðandi öryggismál viðkomandi gögnum. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa lesið neinar reglur varðandi heimavinnu með gögn á vegum fyrirtækisins, en sérhver vinna sem innt væri af hendi heima hlyti að hafa fallið undir trúnaðarákvæði ráðningarsamnings.
Vitnið, Q, kvaðst vera á launaskrá hjá A og vera bundin af trúnaðarákvæði ráðningarsamnings. Hún kvaðst hafa starfað hjá A frá október 2004 til október 2006 og kvaðst hún hafa verið móttökuritari. Hún kvaðst hafa verið við störf í móttöku 1. og 2. ágúst sl. Hún kvaðst muna eftir því að ákærði hefði komið inn í byggingu A og hafi honum verið meinaður aðgangur að vistarverum fyrirtækisins.
Vitnið, G, kvaðst vera kerfisfræðingur og sinna almennri notendaþjónustu varðandi tölvur A. Hann kvaðst hafa starfað í tölvurekstrardeild fyrirtækisins. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa lánað ákærða ferðatölvu, en kvaðst ekki geta útilokað það. Það tíðkist að lána fartölvur þegar menn séu að fara til útlanda eða á kynningar og ráðstefnur. Vitnið kvað fyrirtækið lána starfsfólki USB minnislykla, en fyrirtækið hafi ekki útvegað stærri gagnageymslur til starfsmanna.
Niðurstaða.
Neitun ákærða í máli þessu byggir á því að afritun gagna sem í ákæru greinir hafi ekki verið heimildarlaus og einnig að gögn þessi falli ekki undir 50. gr. höfundalaga. Ákærði hefur hins vegar játað að hafa afritað 90 þúsund skrár og þar af voru 45 þúsund skrár sem tilheyrðu C.
Af málflutningi verjanda ákærða mátti ráða að ákærða hafi ekki verið kynntar reglur um meðferð gagna og öryggi upplýsinga og hafi hann því staðið í þeirri trú að afritun gagna, með þeim hætti sem hann hefur viðurkennt, hafi verið honum heimil.
Í framburði N, gagnaöryggis- og gæðastjóra A, kom fram að meðferð ákærða á gögnum sem ákært er fyrir í máli þessu samrýmist ekki reglum fyrirtækisins um afritun gagna. Hið sama kom fram í vitnisburði I, B, L og K.
Vitnið, N, kvað reglur um upplýsingaöryggismál hafa verið kynntar á fundi, þegar þær voru settar og jafnframt hafi þær verið aðgengilegar á innri vef fyrirtækisins og minnt á þær með tölvupósti.
Við mat á því hvort ákærði hafi ekki vitað að afritun með þeim hætti sem greinir í ákæru hafi verið honum heimildarlaus, ber að líta til þess að ákærði hefur starfað sem vísindamaður í rannsóknarvinnu hjá A frá árinu 1998. Hann hefur starfs síns vegna haft aðgang að margvíslegum upplýsingum, meðal annars öllum niðurstöðum úr tengslagreiningu frá erfðarannsóknadeild, gagnagrunni sem búinn hafði verið til innanhúss og niðurstöðum erfðarannsókna varðandi ýmsa sjúkdóma, eins og fram kom í vitnisburði I. Við upphaf starfstíma hjá A undirritaði hann trúnaðarskilmála í ráðningarsamningi og samkomulag um eignarréttindi og uppfinningar. Honum hlaut að vera fullljóst hvaða starfsemi A hefur með höndum og mikilvægi þess að gæta trúnaðar varðandi þær upplýsingar sem hann hafði aðgang að, hvort sem horft er til trúnaðar um persónugreinanlegar upplýsingar eða trúnaðar sem horfir til verndar A gagnvart keppinautum fyrirtækisins. Jafnframt hlaut honum að vera ljós sú rannsóknarvinna sem bjó að baki tilurð margra þeirra skráa sem hann afritaði. Það er því mat dómsins að jafnvel þótt ákærði hafi ekki undirritað sérstakt skjal um meðferð upplýsinga og gagna, hafi honum hlotið að vera ljóst að sumar þessara skráa innihéldu mikilsverðar og verðmætar upplýsingar, eins og vitnin I og L hafa borið um, og að afritun skráa í því magni sem í ákæru greinir var honum heimildarlaus. Í ljósi þess að ákærði átti ekki tölvu til að vinna með heima, er einnig fjarstæðukennd sú skýring hans að hann hafi ætlað sér að vinna með þessi gögn heima hjá sér, auk þess sem fram kom í framburði I að illmögulegt sé að vinna með gögnin heima og að um sé að ræða upplýsingar sem enginn hafi þörf fyrir að taka út úr fyrirtækinu, nema ætlun viðkomandi sé að kynna niðurstöður skránna fyrir einhverjum. Bendir það og til þess að ákærði hafi haft ásetning um að miðla upplýsingum til þriðja aðila, að afritun gagnanna fór fram á svipuðum tíma og ákærði var að íhuga að ráða sig í starf hjá ,,Center for Applied Genomics“ hjá Childrens Hospital of Philadelphia, á vegum fyrrum starfsmanns C, D. Brotavilji ákærða var einbeittur og afritun gagnanna markviss og gerð í tveimur lotum.
Af hálfu verjanda ákærða var á það bent að ákvæði 50. gr. höfundalaga sé ekki ætlað að vernda fjárfestingar í rannsóknum, heldur sé því ætlað að vernda fjárfestingar í gagnagrunnum.
Starfsemi A lýtur að rannsóknum og greiningu á vísindalegum gögnum. Þau gögn sem slík greining leiðir af sér og voru geymd í gagnagrunni A, eru t.d. töluleg greining á náttúrufyrirbærum og rannsóknum.
Í 50 gr. höfundalaga er kveðið á um einkarétt til eintakagerðar þess sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafi að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar. Ákvæði þessu er ætlað að veita framleiðendum gagnagrunna sérstaka vernd, í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins nr. 96/9 frá 11. mars 1996. Í 17. gr. tilskipunarinnar er hugtakið ,,gagnagrunnur“ skilgreint sem safn bókmennta, lista- eða tónverka eða annarra verka eða safna annars efnis svo sem texta, hljóða, mynda, talna, staðreynda og gagna. Þá segir í 16. gr. tilskipunarinnar að viðmiðanirnar sem notaðar séu til að ákvarða hvort gagnagrunnur skuli njóta verndunar á grundvelli höfundarréttar skuli skilgreina með hliðsjón af því að val eða niðurröðun efnis í gagnagrunninn sé hugverk höfundar. Verndunin ætti því að taka til þess hvernig gagnagrunnurinn sé skipulagður.
Gögn þau sem ákærði afritaði fólu í sér upplýsingar sem urðu til við rannsóknir hjá A og lýsa þeim niðurstöðum sem af þeim leiddi. Hin afleiddu gögn og samanteknar niðurstöður, sem A safnaði saman, flokkaði, raðaði niður, og setti í sinn gagnagrunn voru búin til hjá A.
Samkvæmt vætti vitnanna I, K og L fór bæði gríðarmikill tími og kostnaður í gerð þessara gagna og úrvinnslu þeirra og sannanlega geymdu þær skrár sem ákærði afritaði umtalsvert magn upplýsinga eins og kveðið er á um í 50. gr. höfundalaga.
Þegar allt framangreint er virt er það mat dómsins að sú háttsemi ákærða sem hann hefur viðurkennt, að hafa afritað á 250 gígabæta geymslumiðil skrár þær sem í ákæru greinir, hafi verið honum heimildarlaus og að háttsemin varði við 1. mgr. 50. gr., sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972 sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 60/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 78/1984, sbr. 162. gr. laga nr. 82/1988. Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir.
Refsiákvörðun.
Ákærði hefur aldrei áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Verður horft til þess við ákvörðun refsingar. Þá verður litið til þess að ekki hefur verið sýnt fram á að afritun gagnanna hafi valdið nokkru tjóni og ákærði upplýsti um öll atvik varðandi afritun þeirra. Hins vegar verður horft til þess að brotavilji ákærða var að mati dómsins einbeittur og brot hans beindist gegn mikilsverðum hagsmunum. Refsing hans er ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en rétt er að fresta fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Fallist er á kröfu um að gagnageymsla sem haldlögð var af lögreglu verði ónýtt samkvæmt 2. mgr. 55. gr. höfundalaga nr. 73/1972.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði sakarkostnað málsins, 2.084.379 krónur, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Erlu Árnadóttur hæstaréttarlögmanns, 1.054.515 krónur og málsvarnarþóknun skipaðra verjenda ákærða á rannsóknarstigi, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 898.392 krónur og Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns,131.472 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl Ingi Vilbergsson fulltrúi.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Arnaldi Axfjörð ráðgjafa og Ólafi S. Andréssyni, prófessor í erfðafræði.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Jesus Vicente Sainz Maza, sæti fangelsi í 2 mánuði, en frestað er fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr.laga nr. 22/1955.
Gagnageymsla sem haldlögð var af lögreglu skal ónýtt samkvæmt 2. mgr. 55. gr. höfundalaga nr.73/1972.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins, 2.084.379 krónur, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Erlu Árnadóttur hæstaréttarlögmanns, 1.054.515 krónur, og málsvarnarþóknun skipaðra verjenda ákærða á rannsóknarstigi, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 898.392 krónur, og Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 131.472 krónur.