Hæstiréttur íslands
Mál nr. 805/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. desember 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. desember nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð kemur fram að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar mál er varði stórfelldan innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands frá Hollandi. Upphaf málsins megi rekja til þess að tilkynning hafi borist frá tollvörðum um að það hefði borist póstsending frá Hollandi með Fedex sem innihéldu ætluð fíkniefni. Skráður viðtakandi póstsendingarinnar hafi verið aðili að nafni A, kt. [...], [...] í [...].
Í sendingunni hafi verið að finna nokkur ílát sem við rannsókn tæknideildar lögreglu hafi leitt í ljós að innihéldu 4 kg af amfetamíni. Efnunum hafi verið skipt út af hálfu lögreglu og með heimild héraðsdóms eftirfararbúnaði og hlustunarbúnaði verið komið fyrir í pakkningunni. Í gær, þann 1. desember hafi starfsmaður í útkeyrslu póstsendinga haft samband við A til að tilkynna honum að sendingin væri á leið til hans. Hann hafi þá ekki svarað, en hringt fljótlega tilbaka og þá óskað eftir því að sendingunni yrði ekið að [...] í [...]. Upp úr hádegi þennan sama dag hafi A hringt í Fedex og spurst fyrir um pakkann, honum hafi þá verið sagt að pakkinn yrði afhentur um k. 15:00.
A hafi opnað pakkann innandyra og þá séð að í pakkanum var upptökubúnaður frá lögreglu. Hann hafi haft samband við kærða X og spurt hann hvað gera ætti við þetta, tekið mynd af innihaldi sendingarinnar og sent honum.
Kærði hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu.
Við skoðun á síma kærða í málinu megi sjá SMS skilaboð milli kærða og A þar sem rætt sé um sendingu sem sé að koma með Fedex. Þar komi fram að A hafi spurt kærða “ætli við getum efnagreint þetta svo?” og kærði svarað “mögulega”.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Ljóst sé af magni fíkniefnanna að um sé að ræða stórfellt fíkniefnalagabrot. Rannsókn lögreglu beinist nú að því að skoða feril sendingarinnar hingað til lands, hver sendandi efnanna hafi verið og hvort kærði hafi staðið að innflutningnum í samstarfi við aðra mögulega samseka. Talin sé brýn nauðsyn á því á þessu stigi máls að kærði sæti gæsluvarðhaldi, í einangrun, þar sem ljóst sé að ef hann gangi laus geti hann sett sig í samband við meinta samverkamenn sem ganga lausir eða þeir sett sig í samband við hann. Kærði gæti þá komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hafi ekki lagt hald á nú þegar. Þá þyki nauðsynlegt að bera undir kærða sjálfstætt þau gögn sem lagt hafi verið hald á, á meðan kærði sæti einangrun. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins.
Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í málinu. Kærði sé undir rökstuddum grun um stórfellt fíkniefnalagabrot sem talið sé varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum.og geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.
Niðurstaða
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi.
Af því sem fram hefur komið fyrir dómi þykir ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan frekari rannsókn fer fram. Ætla má að kærði muni reyna að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt svo fallast megi á kröfu lögreglustjórans um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Ekki þykir tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Þá hefur sækjandi fært að því fullnægjandi rök, sbr. og skilyrði b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 að nauðsynlegt sé að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi standi.
Verður, að öllu framangreindu virtu, krafan tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. desember nk. kl. 16. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.